Hús dagsins: Eyri í Sandgerðisbót; Glerárþorpi.

Skammt norðan ósa Glerár er Sandgerðisbótin. P4060014Þar eru bryggjur strandveiðimanna og smábátaeigenda og verbúðir og ýmis önnur starfsemi er þar rekin og á staðurinn langa sögu athafna tengda sjónum. Þar standa einnig aldin og glæsileg hús og meðal þeirra er húsið Eyri, sem telst standa við Óseyri. Húsið telst standa við Óseyri eða á horni Óseyrar og Ósvarar.

Byggingarár Eyrar er sagt 1927 en skv. Steindóri Steindórssyni er byggt á Eyri árið 1920. Hvort þar er átt við þetta tiltekna hús eða að annað hús hafi risið þá er ekki tekið fram. Hver byggði húsið er ekki ljóst en ég tel góðar líkur á að Þorsteinn Marinó Grímsson, verslunar-og fiskverkunarmaður frá Skipalóni hafi byggt Eyri. Hann er alltént skráður þar til heimilis árið 1930 ásamt konu sinni Jónínu Stefánsdóttur frá Kollugerði og fjórum börnum þeirra. P4060015Eyri er einlyft timburhús með háu risi á lágum en djúpum steinkjallara. Miðjukvistur er á framhlið og inngönguskúr eða bíslag á bakhlið. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með valmaþaki og á henni eru horngluggar- mögulega undir áhrifum frá funkis-stíl. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum hússins en á útveggjum sýnist mér að geti mögulega verið sk. Lavella klæðning eða bárað ál. Járn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ekki er ólíklegt að einhverjar fleiri byggingar undir skepnur eða hugsanlega fisvinnslu hafi staðið á lóðinni. Þær byggingar eru þó allavega löngu horfnar nú. Eyri er látlaust og einfalt hús en stórglæsilegt engu að síður. Því er vel við haldið og sömu sögu er að segja um lóð hússins. Ein íbúð er í húsinu. Líkt og gömlu býlin í Glerárþorpi tilheyrir húsið ekki samfelldri húsaröð heldur stendur stakt og er eina húsið sinnar gerðar í nærumhverfi sínu og nýtur sín þ.a.l. einstaklega vel- svipað og t.d. Herðubreið og margir glæsilegir móbergsstapar hálendisins. Þessi myndir eru tekin á öðrum degi páska, 6.apríl 2015.

 

Heimildir: Steindór Steindórsson. (1993.) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Manntal í Eyjafjarðarsýslu 1930. (Aths. Manntal á Akureyri dugar skammt við upplýsingaöflun um Glerárþorpsbýlin árið 1930. Því að þá náði Akureyrin aðeins að Gleránni og var svo allt fram til 1.jan 1955)

Fasteignaskrá Þjóðskrár.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 497
  • Frá upphafi: 436892

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 329
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband