Hús dagsins: Aðalstræti 30 (áður Laxagata 1)

Undanfarnar vikur hef ég fjallað um hús við Laxagötu á ofanverðri Oddeyrinni. Sú umfjöllun hófst á Laxagötu 2 og nú kann einhver að spyrja hvort ekki sé til staðar Laxagata 1. Svo er ekki, og hefur ekki verið sl. tæpu 30 ár eða svo en þar stóð vissulega hús. Það hús stendur meira að segja enn, en á öðrum stað. Bregðum okkur suður í Aðalstræti og þar hittum við fyrir "fyrrverandi Laxagötu 1"...P5140015

Fljótt á litið gæti utanaðkomandi að Aðalstræti 30 hefði staðið þarna frá ofanverðri 19.öld líkt og röðin sunnan við það frá 32. En það er öldungis rangt því húsið á sér aðeins 30 ára sögu á þessu tiltekna stað en er þó byggt árið 1929. Hér stóð áður hús sem talið var byggt um 1850 en það var rifið en óvíst hvenær, Steindór Steindórsson segir í bók sinni árið 1993 (bls.33) einfaldlega að það hafi verið rifið fyrir mörgum áratugum. En húsið sem nú stendur á lóðinni á sér þá merku sögu að hafa staðið á þremur stöðum, því það var byggt á Ráðhústorgi 7 en flutt ári síðar á Laxagötu 1 þar sem það stóð lengst af. Ekki fylgir sögunni hver byggði húsið (fann ekki upplýsingar í Bygginganefndafundargerðum - en mögulega þarf ég að leita betur!) en árið 1936 býr þarna (þ.e. Í Laxagötu 1) Herdís Jónasdóttir sem auglýsir fataviðgerðir og á snemma á upphafsárum hússins bjuggu þau Tómasína Þorsteinsdóttir og Jóhann Hallgrímsson þarna (Tómasína lést vorið 1937).

Aðalstræti 30 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti, klætt láréttri panelklæðningu og bárujárni á þaki. Húsið stendur á steyptum kjallara og eru inngangar á miðju miðju framhliðar en einnig á kjallara norðan megin en í gluggum hússins eru sexrúðupóstar. Þá stendur einnig bílskúr úr timbri norðan við húsið og er hann klæddur og málaður í stíl við húsið. Sem áður segir var húsið flutt á lóðina árið 1986 og var það þá allt gert upp frá grunni; og fékk aukinheldur nýjan grunn. Stefán Jóhannesson trésmíðameistari stóð fyrir þeim framkvæmdum og fullyrða má að þær hafi tekist frábærlega en af húsinu, sem fellur mjög vel inn í götumyndina, er mikill sómi og er það til mikillar prýði í því rótgróna umhverfi sem Aðalstrætið er. Húsið hefur einnig hlotið það viðhald sem best verður á kosið þessa þrjá áratugi sem það hefur staðið þarna. Ein íbúð er í húsinu. Myndin af Aðalstræti 30 var tekin á Uppstigningadag 2015, þ.e. 14.maí.

Hér má sjá lóðina Laxagötu 1 í október 2015. Nú er þarna bílastæði fyrir viðskiptavini verslunar ÁTVR,sem stendur við Hólabraut 16.Mynd0128

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 420
  • Frá upphafi: 440777

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband