Hús dagsins: Gilsbakkavegur 1

Á milli Skátagils og Grófargils liggja tvær götur, Oddagata norðan megin og Gilsbakkavegur sunnan megin, ofan Grófargils. Hvort að gatan dragi nafn sitt af því, að hún þræðir bakka Gilsins eða af stórbýlinu Gilsbakka í Borgarfirði skal ósagt látið hér. En gatan er skipuð fjölbreyttum og skemmtilegum húsum, sem flest eru byggð á 5. áratug 20.aldar. Hér ætla ég hins vegar að taka fyrir elstu og neðstu húsin, sem byggð eru fyrir 1940. Ég hef nú þegar tekið fyrir elsta húsið við götuna sem er Syðra Melshús, byggt 1906. Melshúsin stóðu ein á þessari melbrekku í nærri tvo áratugi en fyrst var byggt í “Melshúsalandi” árið 1923. Það hús stendur enn og um er að ræða annað elsta hús Gilsbakkavegar, Gilsbakkaveg 1.

P8180226

Gilsbakkaveg 1 reistu þau Steindór Jóhannesson járnsmiður og Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir árið 1923. Steindór fékk leyfi til að reisa sunnan Oddagötu, beint austan við Syðra- Melshús, 7,5x8,75m, steinsteypt íbúðarhús, ein hæð með porti og risi. (Bygg.nefnd Ak. 1923). Hann vildi í upphafi fá að setja kvist á húsið fyrr en fékk ekki leyfi til þess fyrr en nokkrum mánuðum síðar, er hann hafði þegar hafið byggingu hússins. Hvers vegna það leyfi fékkst ekki í upphafi fylgir ekki sögunni. En þarna var heitið Gilsbakkavegur ekki komið til sögunnar að því er virðist, en gatan kemur fyrir í Manntali 1930.

En Gilsbakkavegur 1 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni, með portbyggðu risi og miðjukvisti sem nær gegn um ris. Á miðri framhlið hússins er inngönguskúr með risþaki og tröppur upp að honum og annar inngönguskúr á bakhlið. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Smekklegur sólpallur er við bakhlið hússins og suðurhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til upprunalega einbýlishús en ekki er ólíklegt að fleiri en ein fjölskylda hafi búið þar samtímis á einhverjum tímapunkti. Húsið var allt tekið í gegn um 1991, sbr. teikningar Svans Eiríkssonar hér þá var framhúsið byggt og bíslagi bakhliðar breytt auk þess sem skipt var um þak. Húsið er því að mestu sem nýtt og í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja um lóðina. Í húsinu er ein íbúð. Þessi mynd er tekin þ. 18.ágúst 2015.

Heimildir. Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 532, 19.3.1923. Fundur nr. 541, 12.7.1923.

Manntal á Akureyri 1930.

Óútgefin og óprentuð rit, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 498
  • Frá upphafi: 436893

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 330
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband