Hús dagsins: Brekkugata 7

    Brekkugötu 7 reisti Sveinn Sigurjónsson kaupmaður sumarið 1903, en byggingaleyfi fékk hann 8.júní það ár. P8180221Skyldi húsið standa 10 álnir norðan við hús Guðmundar Ólafssonar þ.e. Brekkugötu 5. Fékk hann leyfi til að reisa “einloptað” hús 14x10 al. að stærð en fjórtán álnir útleggjast sem ca. 8,8m og 10 álnir sem 6,6m. Ekki er ljóst hvort húsið var einlyft í upphafi en mjög fljótlega, eða innan 3 ára frá byggingu hefur húsið verið hækkað um eina hæð- og fengið það lag sem það nú hefur. Húsið sést nefnilega á ljósmynd sem tekin er frá svipuðum stað og síðar varð Bjarmastígur og er sögð tekin á bilinu 1903-06. Myndina má m.a. sjá á bls. 174 í bókinni Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs eftir Steindór Steindórsson. Þar má líka sjá, að í upphafi hefur þetta hús og Brekkugata 3 verið mjög svipuð að gerð og í útliti en síðarnefnda húsið tók miklum breytingum á 3. og 4.áratugnum.

    En Brekkugata 7 er tvílyft timburhús með lágu risi á háum steyptum kjallara. Á bakhlið, við suðurgafl er inngönguskúr eða stigabygging. Veggir og þak hússins eru bárujárnsklædd og krosspóstar eru í gluggum en í upphafi var húsið panelklætt. Sveinn Sigurjónsson bjó í húsinu og verslaði um nokkurt árabil og gaf þarna út eða afgreiddi blaðið Nýjar Kvöldvökur. Árið 1922 var geymsluhús byggt á lóðinni, sem enn stendur. Þá er einnig steinsteypt viðbygging við kjallara með “verslunarglugga” sunnan við húsið og tengist hún næsta húsi, Brekkugötu 5. Elstu teikningar sem varðveist hafa af húsinu eru raflagnateikningar frá 1923 eftir óþekktan höfund. Þar má sjá að í upphafi hafa verið tröppur á framhlið, gengið upp beggja vegna. Þarna stofnaði Soffía Zophoníasdóttir garðyrkjustöðina Flóru en síðar tók Jón Rögnvaldsson, garðyrkjufrömuður frá Fífilgerði við rekstri stöðvarinnar. Húsin að Brekkugötu 7, framhús og bakhús hafa hýst ýmsa starfsemi í gegn um tíðina: Þegar heimilisfanginu er slegið inn á timarit.is koma ríflega 1000 niðurstöður. Þar má nefna Verslunina Drangey, Rammagerðina, Sparisjóð Glæsibæjarhrepps og á fyrsta áratug þessarar aldar var tölvuleikjasalurinn Pytturinn starfræktur þarna í kjallaranum. Í dag er húsið parhús og (telst raunar 7a og 7b) með tveimur íbúðum og hefur verið svo líkast til frá upphafi. Í viðbyggingunni sunnan við eru Vinstri grænir með skrifstofur. Brekkugata 7 er skemmtilegt og látlaust bárujárnsklætt timburhús og virðist lítið breytt frá upprunalegri gerð. Haustið 1994 kviknaði í húsinu og skemmdist það töluvert en það var lagfært og hefur þ.a.l. hlotið algjöra endurnýjun að innan. Það sem helst setur svip á húsið að mínu mati er áberandi sjöa framan á húsinu og hefur hún prýtt húsið árum saman. Líklega eru fá hús sem bera númer sitt jafn áberandi og Brekkugata 7. Þessi mynd er tekin þann 18.ágúst 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 249, 8.júní 1903. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 

Heimildir á timarit.is: sjá tengla í texta. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband