Hús dagsins: Brekkugata 27a

Brekkugötu 27a reisti Guðmundur Pétursson útgerðarmaður árin 1929-30. Bróðir hans,Sigurbjörn Pétursson frá Þverá fékk byggingarleyfi síðla vetrar 1929; leyfi til að reisa íbúðarhús, eina hæð á sk. „ofanjarðarkjallara“ og með útskoti að framan og skúrbyggingu á bakhlið, stærð hússins 10,3x9m. Hann lést árið 1930. P1100316Teikningarnar gerði Árni Stefánsson. Þessi lóð var framan af talin óbyggileg, vegna klappar sem ekki var unnt að vinna á nema með miklum tilkostnaði. Guðmundur var sterkefnaður og gat staðið straum af því. Þannig er númerið 27a til komið, ekki gert ráð fyrir húsi á milli 25 og 27, sem þegar voru risin.  Brekkugata 27a er tveggja hæða steinsteypuhús  með háu risi og miðjukvisti. Bogadregið útskot (karnap) er á miðri framhlið og svalir með steyptu handriði ofan á því, svaladyrnar á kvistinum. Þá er forstofubygging með svölum ofan á á norðurgafli og stigabygging á bakhlið, með sambyggðum kvisti. Krosspóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Húsið er sagt steinsteypuklassík með barokkívafi  í Húsakönnun sem unnin var fyrir Skipulagsdeild og þar er það einnig sagt „einkennandi í sterkri götumynd sem er áberandi dráttur í bæjarmynd Akureyrar“ (Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015). Framan á kvisti er byggingarárið 1930 tíundað, en slíkt virðist ekki hafa verið óalgengt á þessum árum. (Mér er þó ekki kunnugt um hvort ártölunum var bætt á húsin síðar eða hvort þetta hafi verið einhvers konar tíska á þessum árum) Húsið var byggt sem íbúðarhús en við snögga yfirferð á timarit.is gat ég ekki fundið heimildir um neina verslun eða iðnaðarstarfsemi á fyrri tíð. Nú er Brekkugata 27a nýtt sem gistiheimili og hefur húsið hlotið gagngerar endurbætur að innan í tengslum við þá starfsemi. Ekki ætti nú að væsa um þá gesti Akureyrar sem gista þetta glæsihús. Myndin er tekin í vetrarblíðunni sunnudaginn 10.janúar 2016.

 

Heimildir: Guðmundur Kristjánsson. Munnleg heimild, tölvupóstur sendur þann 10. september 2019.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 436909

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 345
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband