Hús dagsins: Þingvallastræti 14

Ólafur Eiríksson og Ingibjörg Eiríksdóttir fengu þann 10.okt. 1932 lóð við Þingvallastræti næst vestan við Jón Friðfinnsson. p5080345.jpgÁ verkalýðsdaginn 1933 er þeim veitt leyfi til að byggja íbúðarhús, eina hæð á “ofanjarðarkjallara” og með lágu risi, að stærð 10,6 x 8,2m. Þau systkinin reistu húsið 1933 en teikningarnar af því gerði Eggert Ólafur Egilsson skv. Húsakönnun 2015: 226. Þess má að vísu geta að Ólafur, sem var múrarameistari hét raunar Eggert Ólafur Eiríksson og því gæti verið að hann hafi raunar teiknað húsið sjálfur. (Ég prófaði við vinnslu þessarar greinar, að slá nafninu Eggert Ólafur Egilsson inn á islendingabok.is og í ljós kom að enginn hefur borið þetta ágæta nafn). Í byggingarleyfinu kemur fram að húsið skuli vera með lágu risi en mjög fljótlega hefur hátt ris verið komið á húsið, svo sem sjá má á þessari mynd sem tekin er á bilinu 1931-37 (augljóslega eftir ´33 þar eð Þ14 er risið). Mögulega hefur hátt ris verið á húsinu frá upphafi.

Þingvallastræti 14 er nokkuð sérstakt hús að gerð, það er sagt blendingur í Húsakönnun 2015 og er þar mun átt við það, að húsið ber í senn einkenni steinsteypuklassíkur og funkisstefnu. Sú síðarnefnda var í þann mund að verða almenn þegar húsið var reist en hin klassíska gerð hafði verið ráðandi frá því bygging steinhúsa hófst að einhverju ráði. Líktu þá steinhúsin í raun eftir því lagi, sem tíðkast hafði á timburhúsum. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og kvistum að framan að aftan. Kvistirnir eru með aflíðandi, einhalla þaki. Einfaldir póstar eru í gluggum opnanleg fög ýmist tvískipt lóðrétt eða einföld lárétt ( í risi). Á efri hæð eru horngluggar, sem eru eitt megineinkenni hinna íslensku funkishúsa. Inngönguskúr er framan á húsinu og svalir ofan á honum.

Húsið er reist sem íbúðarhús og bjuggu þau hér um áratugaskeið systkinin Ólafur, Ingibjörg, Margrét, Ingunn og Elísabet Eiríksbörn. Sú síðastnefnda hafði m.a. umboð fyrir bóksölu Máls og Menningar og Ingibjörg, sem var kennari, starfrækti smábarnaskóla hér á heimili sínu. Í Þingvallastræti 14 voru lengi skrifstofur verkalýðsfélaga, m.a. Einingar og Bifreiðastjórafélagsins og um 1970 var söfnuður Votta Jehóva með aðsetur á annarri hæð hússins. Hér má sjá auglýstan fyrirlestur á vegum Votta Jehóva á annarri hæð hússins, síðla árs 1969.

Húsið hefur tekið þó nokkrum breytingum gegn um þessi 83 ár, enda hýst ýmsa bæði íbúðir og félagsstarfsemi. Árið 1958 voru kvistirnir settir á húsið, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og líklega er forstofa á framhlið síðari tíma viðbygging. Húsið er í góðri hirðu og allt hið glæsilegasta og það sama má segja um umhverfi þess, en lóðin er að heita má skógi vaxin; þéttskipuð myndarlegum reyni- og birkitrjám. Húsið er sem áður segir einkennisberi tveggja stefna í byggingargerð steinhúsa á fyrri hluta 20.aldar og ætti það að gefa húsinu visst gildi- þó nokkuð sé það breytt frá upphafi. Húsið stendur á horni Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis. Víð síðarnefndu götuna stendur ein af heilsteyptustu röð funkishúsa á Akureyri (mögulega á landinu öllu). Og neðan hússins á Þingvallastrætis stendur heilsteypt röð steinhúsa með háum risi, sum með miðjukvisti (steinsteypuklassík). Staðsetning þessa húss, sem segja má að brúi bilið milli þessara byggingargerða, er því einkar skemmtileg í ljósi þess.

Síðastliðin ár hefur gistiheimili verið rekið í húsinu, undir nafninu Gula Villan og er það álit þess sem þetta ritar að líklega verður enginn svikin af gistingu í þessu sjarmerandi húsi og umhverfi. Og ekki er það ónýtt fyrir þreytta ferðalanga að hafa vatnaparadísina Sundlaug Akureyrar handan götunnar, en húsið stendur svo að segja á bakka Sundlaugar Akureyrar. Ekki spillir umhverfi þess fyrir, en lóðin er vel gróin reyni- og birkitrjám og raunar er húsið lítt sjáanlegt frá götu yfir sumarið. Myndirnar eru teknar 8.maí og 22.júní sl. p6220364.jpgÖnnur myndin sýnir húsið betur en hin myndin sýnir garðinn geðþekka í grænum sumarklæðum.

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: 

Björn Jónsson. Ólafur Eiríksson múrarameistari sjötugur. Birtist í Verkamanninum 40.árg., 29.tbl. Þann 13.september 1957. Sótt 25.júní 2016 á slóðina http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=177682&pageId=2309443&lang=is&q=%D3lafur%20Eir%EDksson%20%DEingvallastr%E6ti%2014 

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 388
  • Frá upphafi: 436921

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 278
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband