Hús dagsins: Klapparstígur 1

Árið 1929 fékk Hallgrímur Hallgrímsson síldarmatsmaður frá Hjalteyri, leigða lóð á horni Klapparstígs og Brekkugötu og leyfi til að byggja á henni að reisa þar hús; 8x8,8m að stærð auk útskota, ein hæð og port á háum kjallara.P1140485 Hallgrímur hefur líkast til áformað að húsið sneri hlið að götu því Bygginganefnd sér í bókun sinni ástæðu til að árétta sérstaklega að: “Meirihluti nefndar heldur sig fast við það, að á þessum stað verði húsin að snúa stafni í götu, eins og gert er ráð fyrir á Skipulagsuppdrætti. Nefndin hefur ekkert að athuga við teikningu og lýsingu og gefur byggingafulltrúa heimild til að láta hefja verkið, þótt einhver breyting verði við snúning hússins. (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr.632) Hallgrímur hóf því að reisa húsið, sem snýr stafni að götu og var það fullbyggt 1930. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson. Þar má sjá, að í húsinu eru tvö eldhús, á jarðhæð og stofuhæð og tvö baðherbergi, annars vegar á jarðhæð og hins vegar í austurkvisti á svokallaðri porthæð en svo er rishæðin kölluð á teikningunum. Það er ekki annað að sjá á teikningum, að húsið eigi að vera hið vandaðasta í hvívetna, þar eru sex svefnherbergi og stofur á báðum hæðum auk gestastofu.

Klapparstígur er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Stór miðjukvistur er á framhlið (vesturhlið) og annar smærri á bakhlið. Bogadregin forstofubygging á framhlið, beint niður undir kvisti og að henni voldugar, steyptar tröppur og svalir ofan á henni sem gengt er út á af kvistherbergi. Þá er einnig bogadregið útskot með turnþaki á suðurstafni. Miklir steyptir kantar eru á þaki og svalahandrið steypt úr því sem ég myndi kalla “bogasteinum”- en þeir voru ekki óalgengir í veglegri girðingar og svalahandrið á þessum árum. Gefa þeir jafnan skemmtilegan svip en ekki þekki ég uppruna þessara hleðslusteina. Mögulega hafa þeir verið framleiddir í sömu verksmiðju og r-steinn Sveinbjarnar Jónssonar. Bárujárn er á þaki hússins og krosspóstar eru í gluggum.

Hallgrímur Hallgrímsson átti allt húsið í upphafi, en í ársbyrjun 1934 auglýsir hann efri hæðina til sölu (mögulega er þar átt við rishæð eða portbyggð) og þar kemur sérstaklega fram að íbúðin sé sólrík, en þrír suðurgluggar eru á risi hússins. Dóttir Hallgríms Hrefna Kristín. Hún kvæntist árið 1934 Jóni Sigurgeirssyni, síðar skólastjóra Iðnskólans. Þau bjuggu hér allt þar til Hrefna lést árið 1951 en Jón bjó hér áfram í tugi ára eftir það. Margir hafa búið í húsinu í lengri eða skemmri tíma, líkt og gengur og gerist.

Hér að ofan var greint frá staðfastri áherslu Byggingarnefndar á því, að hús við Klapparstíg sneru stafni að götu. Ef næstu hús götunnar eru skoðuð
mætti álíta, að ekki hafi reynt á þetta ákvæði því þau hús eru frábrugðin nr. 1, ferningslaga með flötum þökum enda reist á bilinu 1933-40 þegar Funkisstefnan var að ryðja sér til rúms. Húsið er skrautleg steinsteypuklassík, og það eina sinnar tegundar við götuna en svipar nokkuð til húsa við Eyrarlandsveg 16-24 og Brekkugötu 27a. Að ytra byrði er húsið h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð og hefur það líkast til hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð- alltént er það í mjög góðu ástandi. Lóðin er einnig mjög vel frágengin og vel gróin- þó það sjáist lítt á meðfylgjandi mynd sem tekin er nærri miðjum janúar. sómir sér vel á þessum stað sem er nokkuð áberandi í bæjarmyndinni, því Klapparstígur liggur utan í hæð beint upp af Oddeyrinni og fjölförnustu götu Akureyrar (Þjóðvegi 1) og gegnt húsinu eru áhorfendabekkir Akureyrarvallar.Tvær íbúðir munu í húsinu, á jarðhæð og á hæð og risi. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr.632, 10.júní 1929.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentaðar og óútgefnar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436887

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 324
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband