Hús dagsins: Fjólugata 16

Fjólugötu 16 reisti Gunnar Jónsson skipasmiður árið 1941. P1070726Hann fékk þ. 9.maí 1941 leyfi til að byggja hús á leigulóð sinni við Fjólugötu tveggja hæða hús úr steinsteypu, 8,5x9m, tvær hæðir með flötu þaki auk útbygginga til enda, 1,5x4,8m. Ári síðar var honum leyft að byggja við húsið til norðurs, 3,8x3,8m steinsteypta byggingu. Þessi lýsing á að mestu leyti við húsið enn í dag, nema hvað í stað flata þaksins er á húsinu upphækkað valmaþak með háum kanti. Það vill nefnilega svo til, að flöt þök eru ekki sérlega heppileg við íslenskar aðstæður, þó þau reynist mögulega vel t.d. Við Miðjarðarhafið. Því er ekki óalgengt að hús í funkis stíl með flötum þökum hafi verið breytt á þessa leið. Í sumum tilvikum, líkt og í tilfelli næsta húss vestan við, Fjólugötu var byggð hæð ofan á. Teikningar að húsinu hafa varðveist en þær virðast óundirritaðar. Gunnar Jónsson átti húsið til ársins 1955 en þá auglýsir hann húsið til sölu. Í auglýsingunni má sjá, að lóðin er 1136 fermetrar, sem er þó nokkuð víðlent miðað við það sem gengur og gerist á Oddeyrinni. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð. Árið 1988 var húsið stækkað til norðurs, þ.e. byggt við bakbygginguna og á þeim teikningum er einnig gert ráð fyrir utanáliggjandi tröppum á austurhlið.

Fjólugata 16 er sem áður segir, tvílyft steinsteypuhús með járnklæddu valmaþaki. Útskot eru bæði á austur- og vesturhlið, annað þeirra inngönguskúr en á vesturhlið eru svalir við útskot. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar til suðurs og vesturs. Húsið virðist traustlegt og í góðu standi, nokkuð dæmigert fyrir hús frá því um 1940, undir áhrifum funkis-stefnu. Ekki hefur, mér vitanlega, verið unnin húsakönnun fyrir Fjólugötuna og því óvíst um varðveislugildi hússins, en Fjólugatan öll er einstaklega smekkleg og snotur gata. Myndin er tekin 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 874, 9.maí 1941. Fundur nr. 911, 22.maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 440786

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband