Hús dagsins: Holtagata 1

Holtagata er stutt gata á norður Brekkunni og  liggur samsíða og ofan (vestan) Hlíðargötu milli Lögbergsgötu í norðri og Hamarstígs í suðri. Hún er ekki jafn brött og Hlíðargata en hæðarmismunur er þó nokkur enda á milli. Holtagata er að mestu byggð á síðustu árum fjórða áratugarins og þeim fimmta. Holtagata er um 130 metra löng.

Á horni Holtagötu og Lögbergsgötu, vestanmegin, stendur stórbrotið og skemmtilegt hús,PA090820 Holtagata 1.  Húsið reisti Haukur Stefánsson málari, sem fékkst í senn við húsamálun og listmálun og leiktjaldamálun. En hann fékk árið 1937 lóð á horni Holtagötu og Lögbergsgötu, austan við hús dr. Kristins Guðmundssonar var mun hafa staðið og enn stendur enn við Helgamagrastræti. Haukur fékk um leið byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar, ein hæð á kjallara með valmaþaki 9x7,8m að grunnfleti. Bygging hússins hefur líkast til hafist árið 1937 en skráð byggingarár er 1942, hefur mögulega ekki talist fullbyggt fyrr en þá. Engu að síður er flutt inn í húsið árið 1940 og búa þá tvær fjölskyldur í húsinu. Þá  En það er í raun aðeins fyrsti áfangi þessa stórbrotna húss sem fullbyggður mun hafa verið 1942. Árin 1947-48 byggði Haukur við húsið til vesturs, álmu ámóta stóra og upprunalega húsið og ári síðar byggði hann þakhæð undir háu einhalla þaki ofan á viðbyggingu. Viðbyggingu, þ.e. neðri hæðina teiknaði  Guðmundur Gunnarsson en teikninguna að þakhæðinni gerði Sigvaldi Thordarson.

Holtagata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara,  með annars vegar lágu valmaþaki á austurálmu og háu einhalla þaki á vesturálmu. Bárujárn er þaki en veggir múrsléttaðir og ýmis konar póstar í gluggum yfirleitt þverpóstar eða láréttir, og stórir „stofugluggar“ til suðurs á vestari hluta hússins. Hár og víður fjórskiptur gluggi  er á þekju til norðurs. Efri hæð viðbyggingar er upprunalega byggð sem vinnustofa Hauks. Í minningargrein um Hauk segir Jón Norðfjörð að „ Húsið hans var reglulegt listamannsheimili. Þar var öllu listmannslega fyrirkomið.“ (Jón Norðfjörð í Degi 19. tbl. 1953: 5).  Haukur, sem hét fullu nafni Ingvar Haukur Stefánsson var fæddur að Rjúpnafelli í Vopnafelli árið 1901 og nam myndlist í Chicago. Hann starfaði sem húsamálari að aðalstarfi en fékkst einnig mikið við leiktjaldamálun auk myndlistar. Hann mun aldrei hafa haldið málverkasýningu en málaði m.a. altaristöflur og veggmyndir. Haukur  gat sér gott orð fyrir innanhúss veggmyndir, málaði t.d. skrautlegar myndir á stigaganga og innan híbýla manna sem mögulega hafa varðveist í einhverjum tilfellum. Búir þú, lesandi góður, í húsi á Akureyri frá 4. Eða 5. áratug 20. aldar þar sem innandyra eru málaðir veggskreytingar frá upphafi eru allar líkur á, að þar fari verk eftir Hauk Stefánsson.  Haukur lést árið 1953, aðeins 51 árs.

Kona Hauks var Ástríður Jósepsdóttir, nefnd Ásta Stefánsson. Á haustkvöldi árið 1940 var hún á leið heim til sín á Holtagötu samferða annarri konu, Kristínu Loftsdóttur, þegar tveir breskir hermenn úr setuliðinu réðust aftan  að þeim á mótum Oddagötu og Oddeyrargötu og börðu með byssum sínum. Eðlilega vakti þessi svívirðilega og tilefnislausa ofbeldisárás athygli, óhug og reiði meðal bæjarbúa ekki síst vegna þess að þarna áttu í hlut liðsmenn erlendrar hersveitar sem átti að vernda borgara landsins. Um þetta skelfilega atvik var fjallað um bæði í Verkamanninum og Íslendingi.  Geta lesendur borið saman umfjallanir þessara tveggja blaða sem komu hvort úr sinni pólítísku áttinni. Hvorugt blaðið dregur þó úr alvarleika árásarinnar þó annað taki dýpra í árinni en hitt. Þess má svo geta, að herstjórnin breska tók atburðinn alvarlega, setti m.a. á útgöngubann á óbreytta hermenn eftir klukkan 9 á kvöldin og lét auglýsa eftir vitnum í útvarpinu. Kristín þurfti að verja nóttinni á sjúkrahúsi en Ástríður fékk að fara heim að lokinni skoðun. Hinir seku fundust hins vegar aldrei. (Sbr. Jón Hjaltason 1990: 127)

Holtagata 1 er sérstakt og engu að síður glæsilegt og stórbrotið hús. Það ber þess að vissu leyti merki að vera byggt í áföngum; vestari hluti er funkis en sá eystri er undir áhrifum módernisma  og kemur þessi samsetning vel út. Þakhæðin, hönnuð af Sigvalda Thordarson og stóri glugginn á henni setur sinn sérstaka svip á húsið og gefur því sérkenni. Í Húsakönnun 2015 er húsið metið með varðveislugildi 1. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 800, þ. 11. júní 1937. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Jón Hjaltason (1990). Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar.

Manntal á Akureyri 1940. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 440782

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 203
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband