Hús dagsins: Ráðhústorg 9

Konráð Kristjánsson og Vigfús Jónsson munu hafa hafið byggingu Ráðhústorgs 9 árið 1929.P1190967 Þann 16. maí 1929 fengu þeir að reisa hús skv. framlagðri teikningu (hönnuður ókunnur) á hornlóðinni austan Ráðhústorgs og sunnan Strandgötu. Fengu þeir leyfi til að reisa fyrstu hæð hússins til að byrja með, en það var í samræmi við byggingarleyfi sem Axel Kristjánsson hafði fengið fyrir Ráðhústorg. Skildi hús þeirra vera a.m.k. 11 metrar á breidd. En samkvæmt skipulagi áttu þarna að rísa þriggja hæða randbyggingar. Áskildi bæjarstjórn sér rétt til þess að krefjast þess  „[...] að byggt verði ofan á húsið jafn skjótt og full hæð er byggð til annarrar hvorrar handar“ (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr. 629). Þar er líklega átt við samliggjandi hús. Á mynd sem sést í bók Steindórs Steindórssonar (1993: 182), Akureyri Höfuðborg hins bjarta norðurs, má sjá að fyrsta hæð Ráðhústorgs 7 og 9 eru risin. Þar er myndin sögð tekin á sumardaginn fyrsta 1929. Það kom hins vegar í hlut Guðríðar Norðfjörð að ljúka við byggingu hússins, en 20. mars 1930 birtist auglýsing í Degi um útboð í byggingu hússins, eftir framlagðri teikningu og lýsingu.  Mánuði síðar, eða 22. apríl 1930 birtist auglýsing í Norðlingi, frá Verslun G. Norðfjörð,sem selur hreinlætisvörur,  tóbaks- og sælgætisvörur. Sama dag heimilaði Byggingarnefnd Guðríði að breyta gluggaskipan hússins.

Guðríður Norðfjörð, sem fædd var á Laugabóli við Arnarfjörð, var hárgreiðslukona og starfrækti hárgreiðslu- og snyrtistofu í Hafnarstræti 35 áður en hún byggði Ráðhústorg 9 og opnaði verslun. Hún stofnaði fyrstu kvenskátasveit á Akureyrar, Valkyrjuna , árið 1923. Starfaði hún aðeins skamman tíma en var endurvakin 1932 og hófst þá áratuga öflugt kvenskátastarf, allt þar til skátastarf kvenna og karla á Akureyri sameinaðist undir nafni Klakks árið 1987.

Ráðhústorg 9 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Húsið er áfast Ráðhústorgi 7 að sunnanverðu og Strandgötu 4, Nýja Bíó, austanmegin. Snýr framhlið hússins þannig í vestur og norður, og er grunnflötur þess líkt og tveir samliggjandi fleygar í horninu milli Ráðhústorgs 7 og Nýja Bíós. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.

Líkt og flest hús í Miðbænum hefur húsið verið verslunar- og þjónustuhúsnæði frá upphafi, auk þess sem búið hefur verið í því. Ef heimilisfanginu „Ráðhústorgi 9“ er flett upp í gagnasafninu timarit.is, koma upp 623 niðurstöður. Guðríður Norðfjörð, rak sem áður segir verslun sína frá 1930 og eitthvað fram á 4. áratuginn, en árið 1937 er „Hornbúðin“ í Ráðhústorgi 9 auglýst til leigu með vorinu, og er Jón Sveinsson skrifaður fyrir henni. Þá hafði Bifreiðastöð Oddeyrar aðstöðu sína á neðri hæð. Þá var  Sparisjóður Akureyrar þarna til húsa í tæpa tvo áratugi, frá því um 1940 fram undir 1960. Þá hafa verið þarna rakarastofa, skrifstofa blaðsins Íslendings, og tískuvöruverslanir. Svo fátt eitt sé nefnt. Síðastliðin áratugi hefur húsið hýst veitinga- og skemmtistaði, Uppann, Ráðhúscafé og síðastliðin ár hefur þarna verið veitinga- og dansstaðurinn Café Amor.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 629, 16. maí 1929. Fundur nr. 645, 22. apríl 1930. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Um síðustu aldamót hélt Landsbankinn á Akureyri sýningu um sögu bankans. Fór ég að skoða sýninguna á leið minni austan af landi, af því að móðir mín vann í Landsb. á Ak. 1930-39. Náði ég tali af yfirmanni þar, og hann sagði mér að á 4.áratugnum hefði Landsb. verið í þessu húsi, áður en nýja húsið var byggt. Ef það er ekki rétt, þá endilega leiðréttu það og segðu mér hvar bankinn var til húsa á þessum tíma.

P.S. Gott var að fá upplýsingarnar um Páls Briems götu, þær staðfesta það sem mig minnti.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 5.4.2020 kl. 17:50

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð.

Landsbankinn var víst skráður til húsa á Ráðhústorgi 7. Mörk þessara húsa virðast mögulega hafa verið eitthvað á reiki- enda sambyggð- skilst t.d. að BSO hafi verið þar sem Café Amour er núna þ.e. Ráðhústorgi 9 (það er þó ævinlega skráð á nr. 7 í elstu heimildum). Á þessari mynd má sjá hvar stendur Landsbanki Íslands á R7  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1649410

Kveðja, Arnór

Arnór Bliki Hallmundsson, 5.4.2020 kl. 22:57

3 identicon

Kærar þakkir f. þetta og myndina, það var einmitt þessi staður sem Landsbankamaðurinn benti á.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 6.4.2020 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 474
  • Frá upphafi: 436829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband