Hús dagsins: Hólabraut 12; Borgarbíó

Hólabraut 12, eða Borgarbíó var reist árið 1986 sem viðbygging við Geislagötu 7, HótelP1190959 Varðborg. Borgarbíó hafði þá verið starfrækt í áratugi í vesturálmu hótelsins, sem upphaflega var samkomusalur hótelsins. Þegar nýbygging kvikmyndahússins var risin, varð aðkoman að bíóinu frá Hólabraut og telst Borgarbíó standa við Hólabraut 12.  Teikningar að húsinu gerði Birgir Ágústsson, en húsið er viðbygging við vesturálmu Geislagötu 7, sem Stefán Reykjalín teiknaði.

Hólabraut 12 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, þ.e.a.s. vesturálman, sem hýsi afgreiðslu, anddyri og skrifstofur. Sýningarsalir eru áfastir austan og sunnanmegin og eru þeir með aflíðandi risþökum. Bárujárn er á þaki og múr á veggjum. Hugtakið einlyft, tvílyft orka kannski nokkuð tvímælis þegar í hlut eiga salir kvikmyndahúsa. Þetta er þó nokkuð einfalt: Sýningarsalir Borgarbíós eru einfaldlega einlyftir, enda þótt hæðin jafnist á við a.m.k. tvær „staðlaðar“ lofthæðir (250cm). Þeir eru nefnilega bara ein hæð, þó lofthæðin sé u.þ.b. tvöföld. En nóg af orðhengilshætti.

Borgarbíó hóf fyrst starfsemi sína í janúar 1956 og fóru sýningar þá fram í vesturálmu Geislagötu 7, þar sem áður var samkomusalur Hótels Norðurlands. Framkvæmdastjóri kvikmyndahússins var Stefán Ágúst Kristjánsson. Templarar höfðu þá staðið fyrir kvikmyndasýningum í um áratug og fóru þær fram í Hafnarstræti 67. Kallast það hús Skjaldborg og kallaðist það Skjaldborgarbíó. Voru það áðurnefndur Stefán Ágúst Kristjánsson og Guðbjörn Björnsson sem hófu starfsemi þess, en Guðbjörn lést um svipað leyti.  Þannig mætti draga þá ályktun, að hugtakið Borgarbíó vísi fremur til Varðborgar en Skjaldborgar- eða einfaldlega „borganna“ beggja. Lesendur mega endilega senda mér ábendingar hvað þetta varðar. (Akureyri hefur löngum verið rík af hinum ýmsu borgum; Varðborg, Skjaldborg, Hamborg, Rósinborg o.fl.).

Það var síðan árið 1986 að ráðist var í byggingu núverandi húsakynna, sem eru í raun viðbygging við upprunalega salinn í Varðborg. Sá salur er enn í fullri notkun og er nú A-salur, en nýrri salurinn, sá sem snýr til suðurs, er B-salur. Borgarbíó hefur verið starfrækt óslitið í þessum húsakynnum frá 1987. Um árabil var Borgarbíó eina starfandi kvikmyndahús bæjarins, eða þar til að sýningar hófust aftur í Nýja Bíó (nú Sambíó) árið 1998.  Ýmsar breytingar hafa þó verið gerðar á innra skipulagi, sölum og búnaði kvikmyndahússins gegn um tíðina, svo sem vænta má, en húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði. Svo sem vænta má, þegar í hlut á ríflega þrítug bygging, er húsið ekki talið hafa varðveislugildi í Húsakönnun 2014 en gildi þess fyrir götumynd Hólabrautar og umhverfi er talið nokkuð. Borgarbíó er látlaus en glæst bygging og í mjög góðri hirðu. Þessi mynd er tekin 19. janúar 2020.

 

Svo mælir sá sem þetta ritar auðvitað með því (þegar um hægist í veirufaraldri- annars með ýtrustu varúð) að skella sér á góða mynd í Borgarbíó wink

 

Heimildir: Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 390
  • Frá upphafi: 436923

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 280
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband