Hús dagsins: Grænagata 8-10

Byggingasamvinnufélagið Garður reisti tvö parhús P8280979 á lóðum við Grænugötu árið 1946, eftir teikningum Sigurðar Hannessonar. Það var á fundi Bygginganefndar 3. maí 1946 að nefndin samþykkti  að heimila félaginu að reisa „hús á lóðunum norðan Grænugötu“. Fram kemur að uppdráttur fylgi, en húsunum er ekki lýst nánar. Húsin urðu tvö, vestra húsið er númer 4 - 6 en eystra nr. 8 - 10.

Grænagata 8 - 10 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum kjallara. Á þaki eru fjórir smákvistir á hvorri hlið og á stöfnum eru steyptar tröppur upp að dyrum. Húsið er klætt steiningarmúr og bárujárn er á þaki.

Grænagata 8 - 10 er byggt sem fjórbýlishús, tvær hæðir og ris  með geymslum í kjallara, en kjallaraherbergi oftar en ekki nýtt til íbúðar. Margir hafa átt þarna heima um lengri eða skemmri tíma. Jón Rögnvaldsson, jafnan kenndur við Fífilgerði, þar sem hann ólst upp og bjó lengst af, garðyrkjufræðingur og frumkvöðull í skógrækt. Jón var fæddur í Grjótárgerði í Fnjóskadal en fluttist barnungur vestur yfir Vaðlaheiðina að Fífilgerði í Kaupangssveit. Jón stofnaði Skógræktarfélag Akureyrar (sem fyrst nefndist Skógræktarfélag Íslands) árið 1930 og var forstöðumaður Lystigarðsins varð hann árið 1953. Lyfti hann þar miklu grettistaki í uppbyggingu garðsins og kom m.a. upp yfirgripsmiklu plöntusafni. Hlaut hann Fálkaorðuna árið 1963 fyrir ötult ævistarf í skógrækt og garðyrkju. Jón Rögnvaldsson lést 1972.

Grænagata 8 – 10 er reisulegt hús og í góðu standi, að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Húsið myndar skemmtilega heild ásamt systurhúsi sínu vestan við. Stutt en heilsteypt götumynd Grænugötu er ein af umgjörðunum um skrúðgarð Oddeyrar, Eiðsvöll. Einhverju sinni heyrði undirritaður þátttakanda í sögugöngu um Oddeyri hafa það á orði, að Eiðsvöllurinn og göturnar þar í kring væru útlitslega „svolítið eins og vasaútgáfa af Klambratúni í Reykjavík“ (þá kallað Miklatún) og umhverfi þess. Kannski er þar ólíku saman að jafna, en parhúsin Grænagata 4 - 10 eru að mörgu leyti ekki óáþekk húsum nærri Klambratúni t.d. við Miklubraut og Rauðarárstíg. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, og mögulega er einhverjar trjáplöntur eða runna að finna, sem skógræktarfrömuðurinn Jón Rögnvaldsson plantaði á sínum tíma.

Ekki hefur verið unnin Húsakönnun fyrir Grænugötu svo síðuhafi viti til, svo honum er ekki kunnugt um, hvort húsið hafi varðveislugildi eður ei. Lesendur geta svosem getið sér til, um hvert álit síðuhafa á mögulegu varðveislugildi Grænugötu 8 – 10- eða Grænugötu í heild er. A.m.k. fjórar íbúðir eru í húsinu.  Myndin er tekin þann 28. ágúst 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1052, 3. maí 1946. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1125, 11. ágúst 1950. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Klambratún (Miklatún) er átján sinnum stærra en Eiðsvöllur en Ómar Ragnarsson hélt því eitt sinn fram á bloggi sínu að Miklatún hefði verið rangnefni vegna þess að það væri svo lítið. cool

Eiðsvöllur er því væntanlega frímerki í augum karlsins. cool

Þorsteinn Briem, 3.10.2020 kl. 10:00

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Það gæti verið laughing. Klambratún virkar nú sæmilega víðlent en sjálfsagt eru mörg tún, sérstaklega í landmiklum sveitum, margföld Klambratún að stærð. cool 

Arnór Bliki Hallmundsson, 3.10.2020 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband