Hús dagsins: Grænagata 12

Grænagötu 12 reistu þeir Karl Friðriksson vegaverkstjóri og P8280978Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður eftir teikningum Konráðs Árnasonar.  Munu þeir hafa selt íbúðirnar hverja í sínu lagi til annarra. Vorið 1958 fengu þeir lóðir nr. 12 og 14 við Grænugötu. Segir í Verkamanninum þ. 1. maí 1958, orðrétt:

Grænagata 12 veitt Karli Friðrikssyni vegaverkstj. og Grænagata 14 veitt Valtý Þorsteinssyni útgerðarmanni, með það fyrir augum, að þeir byggi sameiginlega á lóðum þessum sex íbúða hús, þrjár íbúðir hvor. Nokkurt þvarg hefur verið um úthlutun þessara lóða, þar sem hvor um sig, Karl og Valtýr, hafa sótt allfast að fá báðar lóðirnar, en bygginganefnd kaus að fara bil beggja með því að veita hvorum leyfi fyrir byggingu þriggja íbúða.

Niðurstaðan hefur verið að sú, að eitt hús væri reist í stað tveggja en í húsinu eru hins vegar ekki sex íbúðir heldur fimm, þrjár að austanverðu og tvær að vestanverðu. Vesturhluti fyrstu hæðar eru þvottahús og geymslur. Fullbyggt var húsið árið 1962. Hefur íbúðaskipan væntanlega haldist óbreytt frá upphafi.

Grænagata 12 er þrílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á þaki er bárujárn, veggir múrsléttaðir og einfaldir póstar í gluggum. Stórir „stofugluggar“ til suðurs og svalir við þá. Grænagata 12 er ekki ósvipuð að gerð lögun og fjölbýlishús sem nokkrum árum síðar í Skarðshlíð í Glerárþorpi og í Lundahverfi upp úr 1970, en er öll minni í sniðum. Þar eru blokkirnar margar hverjar með þremur stigagöngum og 7-8 íbúðir í hverjum stigagangi.

Grænagata 12 hefur alla tíð verið fjölbýlishús og h.u.b. óbreytt frá upphaflegri gerð. Fjölmargt heiðursfólk hefur búið þar um lengri eða skemmri tíma þessa tæpu sex áratugi. Á meðal fyrstu íbúa hússins má nefna þau Jón Kr. Níelsson  og Petru Jónsdóttur, bæði fædd og uppalin á Árskógsströnd, hann á Birnunesi en hún m.a. á Stærra- Árskógi. Bjuggu þau hér um árabil, Jón til dánardægurs 1980 og Petra (d. 1993) lengi vel á eftir. Jón rak um árabil húsgagnaverslunina Kjarna við Skipagötu, ásamt Magnúsi Sigurjónssyni bólstrara. Var verslunin í Skipagötu 13, sem löngum var kennt við flóabátinn Drang, en rifið árið 1991.

Húsið er reisulegt og í mjög góðu standi. Þá er lóðin vel gróin og í góðri hirðu, þar er m.a. stórglæsileg nýleg verönd svo fátt eitt sé nefnt og vel hirt og ræktarleg reynitré.  Grænagata 12 og umhverfi þess er til mikillar prýði í umhverfi sínu. Ekki er höfundi kunnugt um, að unnin hafi verið húsakönnun fyrir Grænugötu og varðveislugildi götumyndarinnar eða einstakra húsa metið þannig. Norðurgata 31, næsta hús austan við Grænugötu 1, er hins vegar á könnunarsvæði Húsakönnunar sem unnin var fyrir elsta hluta Oddeyrar fyrir um 30 árum og gefin út á bók og er þar metið með varðveislugildi sem hluti af heild. Það hús tekur raunar einnig þátt í götumynd Grænugötu. Ætli það væri þá bara ekki upplagt, að Grænugötuheildin hlyti varðveislugildi líka... Myndin er tekin þann 28. ágúst 2020.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Sjá tengil í texta hér að ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 341
  • Frá upphafi: 420314

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 234
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband