Hús dagsins: Hafnarstræti 6

Hafnarstræti 6 stendur  á uppfyllingu frá árinu 1900, PB290974en Sigtryggur Jónsson fékk þá lóðina og annaðist landfyllingu sjálfur. En þessar syðstu lóðir Hafnarstrætis austanmegin  voru allar fengnar með uppfyllingu, sem fengin var úr brekkunni ofan Aðalstrætis.  (Raunar eru flest hús við austanvert Hafnarstrætið endilangt reist á uppfyllingum). Byggingarleyfi nýtti Sigtryggur ekki, en síðar voru þarna öskuhaugar Innbæjarins. Það var síðan árið 1942 að Gunnar Thorarensen reisti núverandi hús. Hann fékk leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu á tveimur hæðum með flötu þaki og járnbentum steinloftum . Mál hússins 9,8x9,4m, auk útskots að vestan 1x5,3m og norðan 1x4,1m. Hvorki kemur fram í Húsakönnun 2012 hver teiknaði hússins né heldur eru upprunalegar teikningar aðgengilegar á landupplýsingavefnum. Þar er hins vegar að finna óundirritaðar járnateikningar að húsinu.

Hafnarstræti 6 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki. Krosspóstar eru í gluggum, skeljasandur á veggjum og dúkur á þaki. Útskot eru til norðurs og á framhlið.

Gunnar Thorarensen var Akureyringur, nánar tiltekið Innbæingur, en foreldrar hans voru þau Þórður Thorarensen gullsmiður og Anna Jóhannesdóttir. Þórður reisti húsið Aðalstræti 13 árið 1898 og var Gunnar fæddur þar (1904) og uppalinn. Stendur það hús, æskuheimili Gunnars, aðeins fáeinum tugum metra sunnan Hafnarstrætis 6. Gunnar var alla tíð verslunarmaður, lengst af umboðsmaður Olíuverslunar Íslands. Hann var einn af stofnendum Skautafélags Akureyrar árið 1937. Eiginkona Gunnars var Hólmfríður Thorarensen, frá Víðigerði í Hrafnagilshreppi. Bjuggu þau Gunnar og Hólmfríður í Hafnarstræti 6 í áratugi með miklum myndarskap. Þau gróðursettu fjölda trjáa og stunduðu ýmsa blómarækt. Er lóðin, sem er nokkuð víðlend, sem lítill skógur á að líta.  Þá reistu þau bílskúr á lóðinni árið 1962. Gunnar bjó hér til dánardægurs, 1983 og bjó Hólmfríður áfram í húsinu einhver ár eftir lát hans. Hún lést árið 1994. Hafa síðan nokkrir átt húsið og búið hér og öllum auðnast að halda því vel við.

Hafnarstræti 6 er látlaust en reisulegt funkishús. Það er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð og í mjög góðri hirðu og frágangur allur hinn snyrtilegasti.  Lóðin er sem áður segir, afar stór, samanborið við nærliggjandi lóðir eða rúmir 2300m2 og eru þar fjölmörg gróskumikil tré, raunar er lóðin eins og smá skógarreitur. Ber þar mest á reyni- og birkitrjám, en einnig eru þarna nokkur grenitré. Á lóðarmörkum er einnig skrautleg girðing með steinstöplum og járnavirki Húsið og lóðin eru til mikillar prýði í umhverfinu. Í Húsakönnun 2012 er húsið metið sem hluti heildar, sem vert er að varðveita með hverfisvernd í skipulagi. Húsið er einbýlishús og hefur verið það alla tíð. Myndin er tekin þann 29. nóvember 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 925, 11. sept 1942. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband