Hús dagsins: Þrastalundur v. Mýrarveg

Mýrarvegur er ein af aðalbrautum Brekkunnar og sunnan Þingvallastrætis PB030989skiptist byggðin í Byggðir og Lundi um veginn. Síðarnefnda hverfið er yngra og stendur vestan og ofan Mýrarvegar. Á horni Mýrarvegar og Skógarlundur stendur húsið Þrastalundur en það hús er töluvert eldra en nærliggjandi byggð. Stutt gata að húsinu frá Mýrarvegi nefnist Þrastarlundur.

            Þrastalund reisti Grímur Sigurðsson árið 1942. Hann fékk í apríl það ár byggingarlóð sunnan við Vesturgötu, í erfðafestulandi Júníusar Jónssonar. Fékk hann að reisa íbúðarhús, eina hæð á kjallara úr járnbentri steinsteypu, með járnklæddu timburþaki. Bygginganefnd ítrekaði í bókun sinni um byggingarleyfi til handa Grími, að húsið skyldi  „sett niður í samráði við byggingarfulltrúa, með forhlið að götu“. (Bygg.nefnd. Ak, 1942:Þá var tekið fram. að á þessum stað væri hvorki aðgangur að skólpveitu né vatnsveitu bæjarins. Þannig yrði húsbyggjandi að gera safnþró og kosta vatnsleiðslu heim að húsi. Árið 1942 var þessi staður nefnilega töluvert ofan við þéttbýlismörk Akureyrar; „upp í sveit“. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en á kortasjá Akureyrarkaupstaðar má finna járnateikningar af húsinu eftir H. Halldórsson, dagsettar í júlí 1942. Giskar höfundur á, að þarna sé um að ræða Halldór Halldórsson byggingafræðing.

            Rétt er að geta þess, áður en lengra er haldið, PB030990að húsið virðist ýmist nefnt Þrastalundur eða Þrastarlundur. Í eldri heimildum kemur heitið fyrir án r-s, m.a. í viðtali við Grím Sigurðsson árið 1956, sem og í afmælisgrein um hann árið 1962. Hvort ÞrastAlundur eða ÞrastaRlundur sé réttara, eða jafnvel hvort tveggja rétt; Þrastarlundur er kenndur við einn þröst (eða mann að nafni Þröstur, en Þrastalundur er kenndur við marga þresti. Höfundur bar þetta undir Facebook-hópinn Brekkan fyrr og nú og af svörum þar mátti ráða, að Þrastarlundur sé útbreiddara a.m.k. í seinni tíð.  Hins vegar kom þar fram með óyggjandi hætti, að heitið Þrastalundur sé í raun hið upprunalega og Grímur Sigurðsson og er sá ritháttur í samræmi við vilja Gríms Sigurðsson og fjölskyldu hans. Í samræmi við upprunan kýs höfundur að nota heitið Þrastalundur.  Hins vegar kemur ÞrastaRlundur oftar fyrir í Akureyrarmiðlum á timarit.is og er á öllum opinberum gögnum varðandi húsið, auk þess sem samnefnd stutt gata að húsinu heitir Þrastarlundur. Þá ber íbúðakjarninn í byggingunni óumdeilanlega nafnið Þrastarlundur.

            Húsið Þrastalundur er í raun tvær álmur, sú vestari er upprunalegt hús, einlyft steinhús á háum kjallara með lágu valmaþaki. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með valmaþaki. Vestur úr þeirri byggingu er tengibygging yfir í vesturálmu. Er hún einlyft með flötu þaki. Veggir eru flestir múrsléttaðir, bárujárn á vestra húsi en væntanlega dúkur á flötu þaki vesturálmu. Gluggasetning hússins er ýmis konar, en á elsta hlutanum eru horngluggar í anda funkisstefnunnar, sem mjög var ríkjandi hérlendis á 4. og 5. áratugnum.

            Grímur Sigurðsson útvarpsvirki, sem byggði Þrastalund, bjó þar hartnær þrjá áratugi, var Skagfirðingur og ólst m.a. upp í Málmey. Hann starfaði við útvarpsvirkjun í upp undir hálfa öld, á útvarpsverkstæði KEA frá 1938 til 1960 en stofnsetti þá eigið útvarpsverkstæði. Um tíma sinnti hann útvarpsviðgerðum um nánast allt land. Grímur annaðist upptökur á öllu útvarpsefni frá Akureyri um árabil, m.a. í upptökuveri á heimili sínu í Þrastalundi. Grímur var kvæntur Soffíu Sigurðardóttur, sem var Akureyringur. Plöntuðu þau mörgum trjám og ræktuðu glæstan skrúðgarð á víðlendri lóð Þrastalunds. Hlutu þau m.a. verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir skrúðgarð árið 1958. Var húsið alla tíð einbýli. Árið 1995 fékk Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra húsið til afnota. Í kjölfarið var ráðist í miklar endurbætur á húsinu, m.a. reist viðbygging til norðurs, og húsið innréttað sem sambýli. Árið 2011 var vesturálma reist, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur og nú mun aðstaðan í þjónustukjarnanum Þrastarlundi vera öll með besta móti.

            Þrastalundur er reisulegt og glæst hús og er frágangur á viðbyggingum og tenging milli eldra og yngra húss einstaklega vel útfærð, svo funkishúsið frá 5. Áratugnum nýtur sín eftir sem áður þrátt fyrir miklar breytingar og viðbyggingar. Húsið er vissulega sem nýtt á allan hátt og í mjög góðri hirðu. Ekki liggur fyrir húsið hefur varðveislugildi, en það er álit síðuhafa, að hús á borð við Þrastalund, sem reist eru áratugum á undan umlykjandi byggð og hafa þannig verið í dreifbýli, eigi að hafa varðveislugildi. Húsið og umhverfi þess mjög snyrtilegt og í frábærri hirðu og trjálundurinn, þar sem nokkuð ber á birki-, reyni og grenitrjám sannkölluð græn perla og er eflaust til mikillar ánægju og yndisauka. Í Þrastalundir er, sem áður segir, rekinn þjónustukjarni eða sambýli og eru þar nokkrar þjónustuíbúðir. Hefur þetta ágæta hús gegnt því hlutverki í um aldarfjórðung. Myndirnar eru teknar þann 3. nóvember 2020. Á efri myndinni er húsið séð frá Mýrarvegi (austurhlið) en neðri myndin er tekin við Skógarlund og sýnir vesturálmu hússins. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1951-58. Fundur nr. 905, 10. apríl 1942. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Þakka skjót, góð og umfram allt, fræðandi og áhugaverð viðbrögð á Facebook-hópnum Brekkan fyrr og nú


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband