Hús dagsins: Ránargata 20

Vorið 1948 fékk Guðmundur Jónatansson lóð við Ránargötu, næst P9010992norðan við Anton Benjamínsson [Ránargötu 18], ásamt byggingarleyfi. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson.

Ránargata 20 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Það er skv. teikningum 9x10,20m að grunnfleti. Útskot er á suðvesturhorni 5,20x1,5m að vestan (framan) og 7,50x1,0m að sunnan. Svalir eru suðurhlið til austurs út frá útskoti en inngöngudyr og tröppur til norðurs á framhlið. Veggir eru múrsléttaðir, einfaldir lóðréttir póstar og opnanleg þverfög í flestum gluggum og bárujárn á þaki.

Ein helsta heimildauppsprettan við samantekt þessa greina er timarit.is. Þar gefur að líta öll tilvik, þar sem viðkomandi húss er getið í dagblöðum og segir það heilmikið um, t.d. hvort og hvaða starfsemi hefur farið fram í húsunum og hvenær. Ef svo var. Einnig koma þar oftar en ekki fram nöfn ýmissa íbúa húsanna á hverjum tíma. Þegar um er að ræða götur, sem eiga „nöfnur“ annars staðar á landinu, eins og Ránargötu, getur málið orðið nokkuð snúið. En hins vegar að hægt að einskorða niðurstöður við bæjarblöðin Íslending, Dag, Verkamanninn o.fl. Samanlagt hefur heimilisfangið Ránargata 20 (í þgf.) komið um 40 sinnum fyrir í téðum bæjarblöðum og er það nokkuð í meðallagi þegar í hlut eiga ríflega 70 ára íbúðarhús í þéttbýli. En elsta heimildin sem timarit.is finnur um Ránargötu 20 á Akureyri er í Íslendingi, þ. 21. September 1949 þar sem auglýst er til leigu herbergi með „ljósi, hita og aðgang að baði“. Sú auglýsing hefur væntanlega verið frá Guðmundi Jónatanssyni þó ekki sé hann skrifaður fyrir henni.

En Guðmundur Jónatansson, sem byggði húsið var málarameistari. Hann var fæddur árið 1911 á Siglufirði en uppalinn í Hrísey. Hann mun m.a. hafa fengist sérstaklega við merkingar á skipum og bátum auk fjölmargs annars. Eiginkona Guðmundar var María Júlíusdóttir frá Hvassafelli í Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit.  Þau Guðmundur og Maríu bjuggu hér í áratugi allt til æviloka, en hann lést 1989 og hún 1997. Þannig má með sanni segja, að íbúa- og eigendaskipti hafi ekki verið tíð fyrstu áratugina eða jafnvel fyrstu hálfu öldina. Húsið hefur frá upphafi tvíbýli.

Ránargata 20 er reisulegt og traustlegt hús í svipuðum stíl og nærliggjandi hús, sem aftur er nokkuð dæmigerð fyrir íbúðarhús frá miðri síðustu öld. Á milli glugga á útskoti framhlið eru lóðrétt, steypt bönd sem setja á húsið skemmtilegan svip, svo og steypt munstur á svölum. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og skrautlegar kúlur á hliðstólpum og er hann í mjög góðri hirðu og setur einnig skemmtilegan svip á umhverfi hússins. Sá sem þetta ritar veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar og því liggur ekki fyrir hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar álit síðuhafa, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. sept 2021.

 Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1092, 24. apríl 1948. Fundur nr. 1096, 4. júní 1948. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ljótt að heyra að BSO eigi að víkja. Ætli húsið verði flutt eða einfaldlega rifið? Og ætla Akureyringar að láta þetta yfir sig ganga? Eru engin húsverndarsamtök þar?

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 5.9.2021 kl. 11:49

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Það er rétt, húsið á víst að víkja á næsta ári. Ég vona svo sannarlega, að það verði flutt- gæti jafnvel orðið eins konar safn um leigubíla, bifreiðarstöðvar og almenningssamgöngur...alltént að það fái eitthvert nýtt hlutverk á nýjum stað. Það virðast vera skiptar skoðanir um þetta hús (eða það hefur mér sýnst á FB), nokkuð margir virðast vilja sjá þetta fara. Húsið er víst hvorki það gamalt eða af það sérstæðri hönnun til þess að heyra beint undir húsafriðun en engu að síður myndi ég telja varðveislugildi þess umtalsvert. Skilst þetta sé elsta (ef ekki það fyrsta) húsið, sem hannað er sérstaklega sem leigubílastöð og enn í notkun.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 6.9.2021 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband