Hús dagsins: Ránargata 23

Þann 6. maí 1949 var tveimur samliggjandi lóðum,P5010990 nr. 21 og 23, við vestanverða Ránargötu úthlutað. Voru þær sagðar norðan við Kristján Magnússon, sem þá hafði reist hús við Ránargötu 17, en hús nr. 19 var þá rétt ókomið. Sigfús Jónsson fékk nr. 21 en númer 23 fékk Hans Hansen. Rúmum mánuði síðar, eða 10. júní 1949 var Hans heimilað að reisa tvílyft íbúðarhús á Ránargötu 23. Þess má reyndar geta, að byggingarleyfi Sigfúsar fyrir húsi nr. 21 var einnig afgreitt þann sama dag. Ekki liggja fyrir upprunalegar teikningar af húsinu á kortavef Akureyrarbæjar, en þar má hins vegar finna teikningar Þrastar Sigurðssonar, frá 1999, vegna endurbóta á húsinu.

Ránargata 23 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. Á þaki eru alls sex kvistir, tveir á hvorri hlið austan og vestan (fram- og bakhlið) á til suðurs og norðurs, einn á hvorri hlið. Víðir, skiptir krosspóstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir eru múrsléttaðir.

Hans Hansen og Sóley Tryggvadóttir, sem byggðu húsið, bjuggu hér um nokkurt árabil. Frá upphafi var húsið tvíbýli og fram til 1952 bjó á móti þeim maður að nafni Finnbogi Jónsson. Þann 15. október 1952 birtist í Degi auglýsing, þar sem téður Finnbogi auglýsir íbúð sína, 2/3 hluta hússins Ránargötu 23 til sölu vegna burtflutnings úr bænum.  Hans Hansen (d. 1978), sem fullu nafni hét Hans von Ahnen Hansen var fæddur í Noregi árið 1913. Móðir hans var Sesselía Stefánsdóttir frá Kollugerði í Kræklingahlíð (Glerárþorpi), en hún hafði flust til Noregs ásamt manni sínum Hans Hansen, sem gegnt hafði stöðu síldaverksmiðja á Dagverðareyri. Hans Hansen eldri var af þýskum ættum, og frá honum var millinafn Hans yngri, von Ahnen komið. Hans eldri lést árið 1913, sama ár og Hans yngri og fluttist Sesselía aftur til Akureyrar eftir lát hans. Hans von Ahnen Hansen hóf ungur störf á Gefjun og vann þar allt til æviloka, eða í um hálfa öld. Lengi vel var hann verkstjóri loðbandsdeildarinnar.

 Um áratugaskeið bjuggu í Ránargötu 23 þau Vilhelm Þorsteinsson  og Anna Kristjánsdóttir. Vilhelm var valinkunnur skipstjóri og útgerðarmaður og var forstjóri Útgerðarfélags Akureyrar í tæpa þrjá áratugi, eða frá 1965 til 1992. Hlaut hann Fálkaorðuna árið 1985 og heiðursmerki Sjómannadagsins á Akureyri árið 1989. Eftir honum er nefnt eitt af flaggskipum útgerðarfélagsins Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, en sonur Vilhelms, Kristjáns er einn af stofnendum Samherja.

Ránargata 23 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Um aldamótin var byggð á það ný rishæð, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar, en að öðru leyti mun húsið lítt breytt frá upphaflegri gerð.  Húsið er til mikillar prýði í umhverfinu, hinni geðþekku götumynd Ránargötu og sama á við um lóðina, sem er snyrtileg og vel hirt. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi. Myndin er tekin þann 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1107, 6. maí 1949. Fundur nr.1109, 10. júní 1949. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 29
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 478
  • Frá upphafi: 436817

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 307
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband