Hús dagsins: Ránargata 27

Ránargötu 27 reistu þeir Haddur og Ingvi Júlíussynir árið 1953. P5010985Fengu þeir lóðina og byggingarleyfið samkvæmt meðfylgjandi teikningum, sem Mikael Jóhannsson gerði. Um og eftir 1950 virðist sú hefð bygginganefndar bæjarins, að lýsa húsunum sérstaklega í veitingu byggingaleyfa, nokkurn veginn leggjast af. Fram að þeim tíma var ævinlega tekið fram hve stórt húsið væri á grunnfleti, hæðir, byggingarefni o.s.frv. en þegar nær dregur miðri 20. öld er þess yfirleitt aðeins getið, að húsið sé reist eftir meðfylgjandi teikningum. Hvort þetta stafi af því, að teikningar hafi þótt fullkomnari eða ítarlegri en áður en einfaldlega vegna þess, að fleiri byggðu og fleiri umsóknir þurftu að afgreiða, er síðuhafa ekki kunnugt um en þykir þetta ekki ólíklegar kenningar. Þá getur það einnig haft áhrif, að í flestum nýjum hverfum lá fyrir eitthvert heildarskipulag. Á þessum slóðum á Eyrinni áttu t.d. að rísa tveggja hæða steinhús með valmaþökum.

Húsið er tvílyft steinhús með háu valmaþaki, og kvistum á þaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn eða stál á þaki og lóðréttir póstar í gluggum. Þegar þetta er ritað standa yfir viðamiklar endurbætur á húsinu, nýtt þak og pallur á þaki bílskúrs með tengingu með efri hæð hússins. Þær framkvæmdir eru eftir teikningum Valbjörns Ægis Vilhjálmssonar.

Líkt og hús næsta hús sunnan við, Ránargata 25, var númer 27 reist af tveimur bræðrum. Ingvi og Haddur Júlíussynir voru frá Svalbarðsströnd, sá fyrrnefndi fæddur á Halllandsnesi árið 1923 en þegar síðarnefndi fæddist, 1928, höfðu foreldrar þeirra flutt að Sólheimum. Þeir bræður voru um tíma báðir starfandi hjá Vegagerðinni og vann Ingvi þar allan sinn starfsaldur, mestmegnis á jarðýtum. Haddur var vélstjóri að mennt, og vann sem vélamaður hjá Vegagerðinni, síðar í eigin rekstri sem ýtustjóri. Þá var hann vélstjóri á skipum Útgerðarfélags Akureyrar síðustu ár starfsævinnar en hafði í millitíðinni viðkomu á hinum valinkunna fljótabáti Drangi. Ingvi var kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur en Haddur var kvæntur systur hennar, Elínu Rannveigu Jónsdóttur. Þær systur voru frá bænum Brekku í Aðaldal.  Skemmst er frá því að segja, að öll bjuggu þau hér til æviloka,  Ingvi lést 1995 og Guðrún lést 2008,  Haddur árið 2011 og Elín Rannveig árið eftir. Þannig hélst húsið innan sömu fjölskyldu í hartnær 60 ár.  

Húsið er reisulegt og glæst og statt í miðri yfirhalningu þegar þetta er ritað. Ekki er annað að sjá, en að þær endurbætur sem standa yfir á húsinu verði til mikilla bóta fyrir húsið, sem var býsna prýðilegt fyrir. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1168, 18. maí 1953. Fundur nr.1169, 5. júní 1953. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 436847

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband