Hús dagsins: Ránargata 31

Ránargötu 31 reistu þeir Þór Steinberg Pálsson og Jóhannes Hjálmarsson árið 1954.P5010980 Þeir fengu lóðina og byggingarleyfið þá um vorið en voru hins vegar gerðir afturreka með þá teikningu, sem þeir lögðu fram. Skyldu þeir lækka þak í 2 metra og að „aðalstigi“ væri samkvæmt fyrirmælum byggingasamþykktar. Brugðust þeir skjótt við og lögðu fram nýja teikningu, en teikningarnar gerði Páll Friðfinnsson. Þess má geta, að hann var faðir Steinbergs.

Ránargata 31 er tvílyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki. Veggir eru með rauðleitum steiningarmúr, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Útskot eða inngöngu- og stigaálma er til norðurs en á suðurhlið er mjótt, skástætt útskot vestanmegin og bogadregnar svalir til austurs áfastar því.

Steinberg Pálsson, húsasmiður, sem fæddur var í Glerárþorpi árið 1933 var aðeins 21 árs þegar þeir Jóhannes byggðu húsið. Sá síðarnefndi var ekki gamall heldur eða 24 ára en Jóhannes Ingólfur Hjálmarsson var fæddur árið 1930 á Þórshöfn. Jóhannes stundaði sjómennsku um árabil en eftir að í land kom rak hann Smurstöð Shell og stundaði síðar ýmis verkamannastörf. Jóhannes var mjög virkur í hinum ýmsu félagasamtökum og einn af „hörðustu“ Þórsurum bæjarins, kjörin heiðursfélagi þar 2005.  Steinberg bjó ekki mörg ár hér, en árið 1960 byggði hús við Kringlumýri á Ytri Brekkunni og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið, raunar allt til æviloka 2016.  Á timarit.is fer ekki mörgum sögum af Ránargötu 31, aðeins 8 niðurstöður í Degi og ein einasta í Íslendingi. Hins vegar birtast 16 niðurstöður í Viðskiptatíðindum fyrir Akureyri og Eyjafjörð, en þar er um að ræða auglýsingar frá Þóri Jónssyni málarameistara. Hann var búsettur hér, líkast til í áratug en hann lést 1964 (var fæddur 1898). Þórir var, auk þess að vera farsæll í sinni iðn sem málarameistari, einn af stofnendum Karlakórs Akureyrar- Geysis.

Ránargata 31 er traustlegt og reisulegt hús. Skástætt útskot og bogadregnar svalir gefa húsinu ákveðin sérkenni og þá er rauðleitur steinmulningurinn auðvitað einkennandi. Húsið er hluti geysilega umfangsmikillar torfu tveggja hæða steinhúsa með (háum og lágum)valmaþökum, frá miðri 20. öld, sem nær yfir m.a. ytri hluta Ránargötu og Norðurgötu auk drjúgs hluta Grenivalla og Reynivalla. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumyndum tveggja gatna, en húsið stendur austan Ránargötu og sunnan Grenivalla. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir.  Lóðin er snyrtileg og vel hirt, þar er m.a. gróskumikið reynitré. Norðanmegin á lóðinni má einnig finna minnisvarða liðins tíma, nefnilega niðurgrafinn olíutank, frá tímabili olíufýringar. Skorsteinar eru einnig í mörgum tilfellum minnisvarðar um olíu- og kolakyndingar. Þjóni þeir ekki hlutverki sínu t.d. fyrir arna eða kamínur eru þeir oftast nær fjarlægðir þegar þök eru endurnýjuð því þeir bjóða oftar en ekki lekahættu heim.

Sem fyrr segir, eru tveggja hæða steinhús með valmaþökum einkennandi fyrir þessar götur yst á Oddeyrinni. Í næstu götu vestan við, Ægisgötu, er einnig að finna heilsteypta röð áþekkra húsa, en þau eru hins vegar ólík húsunum við t.d. Ránargötu að því leyti, að öll eru þau á einni hæð. Ytri hluti Ægisgötu verður einmitt til umfjöllunar á næstu vikum.

Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1190, 23. apríl 1954. Fundur nr.1191, 7. maí 1954. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 455
  • Frá upphafi: 436794

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 289
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband