Hús dagsins: Ægisgata 17

Ægisgötu 17 reisti Guðmundur Magnússon múrari. Hann fékk lóðinaP5010999 í júlílok 1943 og 10. september s.á. og fullbyggt mun húsið 1944. Byggingarleyfið var fyrir einlyftu húsi með valmaþaki, byggt úr r-steini með járnklæddu timburþaki, 10x8m að grunnfleti. Skemmst er raunar frá því að segja, að hvert einasta hús við Ægisgötu er einlyft með valmaþaki. Einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Upprunalegar teikningar að húsinu er ekki finna á Kortavef Akureyrarbæjar, en þar má hins vegar sjá raflagnateikningu Alberts Sigurðssonar frá janúar 1944. Mögulega hefur Guðmundur teiknað húsið sjálfur.

Sú lýsing sem gefin er upp í byggingaleyfinu á að mestu leyti við um húsið í dag, en suðaustanmegin á húsinu er útskot eða viðbygging, sem einnig er með valmaþaki. Húsið er klætt steiningu að utan, þak bárujárnsklætt og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum.

Guðmundur Magnússon var fæddur á Akureyri árið 1910. Hann nam múriðn hjá Tryggva Jónatanssyni og lauk því námi árið 1934. Það er ekki ólíklegt að Guðmundur hafi teiknað húsið sjálfur en hann teiknaði þó nokkur hús á ferli sínum, m.a. Ránargötu 16. Lærifaðir hans, Tryggvi Jónatansson á einnig heiðurinn af drjúgum hluta Ægisgötu, þ.á.m. öllum húsunum við götuna sunnan við Eyrarveg. Guðmundur var kvæntur Kristínu Guðbjörgu Magnúsdóttur frá Lyngholti við Ólafsfirði. Bjuggu þau hér í tæpan áratug, en árið 1953 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu allar götur síðan. Guðmundur lést 1972 en Kristín 2011. Næstu eigendur munu hafa verið þau Baldur Karlsson og Kristín Pálsdóttir. Ekki urðu eigendaskipti tíð, því þau bjuggu bæði hér til æviloka, Baldur lést 1986 og Kristín 2008 og hafði þá búið hér í rúmlega hálfa öld. Þau Baldur og Kristín byggðu við húsið árið 1960, stofuálmu til suðausturs, 6x4,50m, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.  

Húsið er næsta lítið breytt frá því að byggt var við það og ekki um mikla breytingu þar að ræða frá upprunalegu útliti hússins. Húsið er snoturt, snyrtilegt og í mjög góðri hirðu, lóð gróskumikil og vel hirt. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943. Fundur nr. 956, 10. sept. 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 474
  • Frá upphafi: 436813

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband