Hús dagsins: Eyrarvegur 2

Eyrarveg 2 reisti Eggert Stefánsson árið 1945. P6220992Fimmtánda september 1944 afgreiddi bygginganefnd umsókn hans um lóð, vestan við Eggert Ólafsson [Eyrarveg 4]. Eins og jafnan tíðkaðist á þeim bænum var ekkert verið að flækja málin með götum og númerum, heldur legu lóðar einfaldlega lýst með afstöðu til næstu lóða og húsa, sem aftur eru kennd við eigendur sína. Þetta fyrirkomulag á það hins vegar til að flækjast verulega fyrir þeim sem þetta ritar. En nóg um það. Ekki fékk Eggert Stefánsson lóðina við hlið nafna síns Ólafssonar í það skiptið. En sumarið eftir, í júlí 1945, fær hann hins vegar byggingarleyfi á lóðinni, svo honum hefur hlotnast hún í millitíðinni. Fékk hann að reisa íbúðarhús á einni hæð á lágum grunni, byggt úr r-steini, valmaþak úr timbri, stærð 12,7x10,6m. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef Akureyrarbæjar en þar má hins vegar finna upprunalegar raflagnateikningar Sigtryggs Þorbjörnssonar.

Eyrarvegur 2 er einlyft steinhús, byggt úr r-steini sem áður segir, með lágu valmaþaki. Veggir eru klæddir steiningarmúr og bárujárn á þaki. Að suðaustan er áfastur bílskúr og bakálma til suðurs, vestanmegin. Á norðvesturhorni er nokkurs konar innskot, þar sem er inngöngutröppur og pallur og forstofuútskot í kverkinni milli framhliðar og inndregins, vesturhluta þeirrar hliðar.

Eggert Stefánsson og frú, Aðalheiður Þorleifsdóttir bjuggu hér um langt árabil. Árið 1965 byggðu þau við húsið, stofuálmu til suðurs eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Mögulega hefur Guðmundur einnig teiknað húsið í upphafi. Eggert og Aðalheiður voru bæði af Austurlandi, Eggert fæddur að Daðastöðum í Núpasveit en Aðalheiður frá Norðfirði. Eggert fluttist ungur að Eyrarlandi í Öngulsstaðahreppi og ólst þar upp. Stundaði hann sjómennsku til skamms tíma en nam vélvirkjun er hann kom í land. Stofnaði hann árið 1942 Vélsmiðjuna Atla, ásamt Alfreð Möller, og var forstjóri þar alla tíð síðan. Eggert lést árið 1972. Aðalheiður bjó hér áfram eftir hans dag. Hún var afar ötul við garðyrkju og ræktaði þarna um árabil sannkallaðan skrúðgarð, sem m.a. hlaut viðurkenningu Garðyrkjufélags Akureyrar árið 1986. Aðalheiður mun hafa búið hér fram yfir aldamót eða í meira en hálfa öld. Enn í dag er lóðin gróskumikil og vel hirt.

Eyrarvegur 2 er látlaust en glæst hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Það er hluti langrar og heilsteyptrar götumyndar áþekkra hús við sunnanverðan Eyrarvegar. Lóðin er, sem áður segir, mjög gróskumikil og vel hirt. Er hún er um 800 fermetrar að flatarmáli, sem er nokkuð víðlent miðað við íbúðarhúsalóð á Oddeyrinni. Á lóðarmörkum við götu er steyptur veggur með járnavirki, með steiningu í stíl við húsið. Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþökum, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 991, 15. september 1944, nr. 1025, 27. júlí 1945 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • PA021039
  • P8291019
  • page07
  • page02
  • page01

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 437622

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 300
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband