Hús dagsins: Eyrarvegur 17-19

Eyrarvegur 17-19 er eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar P6221004reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Var reist í öðrum áfanga þeirra framkvæmda, árin 1942-43. ann 24. apríl 1942 fékk Erlingur Friðjónsson, fyrir hönd Byggingafélagsins, leyfi til byggingar, jafnstórra húsa, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa.

Eyrarvegur 17-19 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar, eða stofuálmurnar, sem byggðar voru við mörg Byggingafélagshúsin við Eyrarveg, prýða bæði 17 (vesturhluta) og 19. Við bæði 17 og 19 var byggt  eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar frá 1957 , líklega um það leyti. Þá er viðbygging til norðurs og bílskúr áfastur á 19, einnig byggt eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar, en þær eru dagsettar í mars 1965.  

Elsta heimild, sem gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarveg 17 er auglýsing frá Lofti Einarssyni. Loftur mun væntanlega með fyrstu íbúum hússins. Loftur var frá Höfn í Höfnum á Reykjanesskaga og starfaði m.a. sem loftskeytamaður á skipum. Hann var kvæntur Ásthildi Guðlaugsdóttur frá Ytra Hóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þau Loftur og Ásthildur hér um nokkurra ára skeið, en þau fluttu til Borgarness 1951.  Um áratugaskeið bjuggu í Eyrarvegi 17 þau Guðmundur Jörundsson, fæddur á Akureyri og uppalinn í Hrísey og Vilborg Guðmundsdóttir, sem ólst upp í Laufási. Guðmundur starfaði lengst af sem varðstjóri hjá Slökkviliða Akureyrar. Bjuggu þau hér til dánardægra, en Guðmundur lést 1984 en Vilborg 15 árum síðar. Á meðal barna Vilborgar og Guðmundar er Jörundur, valinkunnur skemmtikraftur og athafnamaður, löngum þekktur fyrir eftirhermur sínar.

Á Eyrarvegi 19 bjuggu um áratugaskeið þau Unnur Friðriksdóttir frá Svertingsstöðum í Öngulsstaðahreppi og Þórður Árni Björgúlfsson frá Eskifirði. Þórður, sem var rennismiður, vann lengi við heildverslunina Þ. Björgúlfsson en synir hans áttu og ráku fyrirtækið. (Algengur misskilningur, að hann hafi rekið verslunina þar eð hún hét eftir honum). Þau bjuggu hér framyfir aldamót en Unnur lést í árslok 2006. Þórður Björgúlfsson lést árið 2020, 102 ára að aldri.

Parhúsið við Eyrarveg 17-19 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu, virðist nýlega málað og þak nýlegt að sjá sem og þakkantar. Lóðin er einnig í góðri hirðu. Vestanmegin, á 17, er snotur og settleg timburgirðing en austanmegin (19) er steypuveggur með járnavirki, sem móðins var á lóðamörkum og fyrir miðja 20. öld,  einnig í mjög góðri hirðu.  Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. Ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 434
  • Frá upphafi: 440791

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 210
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband