Hús dagsins: Eyrarvegur 18

Hólmsteinn Egilsson á heiðurinn af þremur húsum við P6221011sunnanverðan Eyrarveg. Eyrarveg 18 byggði hann árið 1943 en árið áður byggði hann Eyrarveg 8 og 10. Að vorlagi 1943 fékk hann lóðina og byggingarleyfi fyrir húsi á einni hæð á lágum grunni með valmaþaki úr timbri, húsið úr r-steini 11,5x8,0m að stærð. Byggingaleyfi Hólmsteins fyrir Eyrarveg 18 var afgreitt þann 14. maí 1943 en þess má geta að þann sama dag fæddist á Ísafirði Ólafur Ragnar nokkur Grímsson. Elstu teikningar, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrar eru raflagnateikningar Ingva Hjörleifssonar að húsinu, dagsettar í ársbyrjun 1944.  

Eyrarvegur 18 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum eða með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Bakálma, 4,64x4,70m að grunnufleti er suðvestanmegin á húsinu. 

Hólmsteinn Egilsson, sem síðar tók þátt í stofnun og rak steypufyrirtækið Möl og sand, hefur að öllum líkindum byggt þetta hús, sem og nr. 8 og 10 sem verktaki og selt svo. Á meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Hugljúf Jónsdóttir og Jóhann Indriðason.   Elsta heimildin sem gagnagrunnurinn timarit.is finnur um húsið, frá 11. júní 1947, er einmitt tilkynning í Íslendingi um brúðkaup þeirra. Jóhann Indriðason var ketil- og plötusmiður, var fæddur og uppalin á Botni í Hrafnagilshreppi en Hugljúf var frá Ólafsfirði. Þau munu hafa búið hér til 1957, en þá kaupa húsið Sigtryggur Þorbjörnsson og Brynhildur Eggertsdóttir. Þau munu hafa byggt við húsið. Var það árið 1964, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar  . Þar var um að ræða tæplega 30 fermetra stofuálmu til suðvestur. Þau Sigtryggur og Þorbjörn munu hafa búið hér í 16 ár, eða til 1973. Hafa síðan margir átt húsið og búið hér um lengri eða skemmri tíma og öllum auðnast að halda húsi og umhverfi þess vel við í hvívetna.  

Eyrarvegur 18 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu.. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og afmörkum af steyptum vegg með járnavirki. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru í ákaflega góðri hirðu og til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021  

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 941, 30. apríl 1943. Fundur nr. 942, 14. maí 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 434
  • Frá upphafi: 440791

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 210
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband