Hús dagsins: Eyrarvegur 29

Eyrarveg 29 reisti Kristján Jakobsson árið 1943. P6221014Síðsumars 1942 var honum úthlutuð lóðin á horninu neðan Norðurgötu, norðan Eyrarvegar. Bókaði bygginganefnd, að lóðin væri utan skipulagðs byggingasvæðis en hana fékk Kristján engu að síður. Það var svo 12. mars 1943 að Kristján fékk leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum með valmaþaki, 7,75x10m auk útbyggingar að norðvestan, 1,5x6,6m. Byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Böðvar Tómasson. Næstu árin á eftir var lóðunum við austanverða Norðurgötu úthlutað, einni af annarri. Var þá „hús Kristján Jakobssonar“ notað sem eins konar viðmið við staðsetningu(t.d. var Norðurgata 48 kölluð fjórða lóð norðan við Kristján Jakobsson).  

Eyrarvegur 29 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttum póstum í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar snúa mót suðri. En suðurhlið hússins snýr að Eyrarvegi og vesturhlið að Norðurgötu. Á norðurhluta þeirrar hliðar er útskot og áfast því tröppur upp að inngöngudyrum annarrar hæðar. Steypt handrið með tröppulagi setur þar nokkurn svo á húsið.  

Kristján Jakobsson vélstjóri og kona hans Soffía Jóhannesdóttir bjuggu um tíma á Syðra- Hvarfi í Skíðadal en höfðu búið á Akureyri um nokkurt árabil er þau reistu Eyrarveg 29. Kristján Jakobsson var fæddur og uppalinn á Oddeyri, nánar tiltekið í Lundargötu 5, árið 1901. Það er dálítið athyglisvert að skoða manntalið árið 1901 fyrir Lundargötu 5. Þar búa alls 23 manns, fjórar fjölskyldur, í húsi sem er um 5,5x7m að grunnfleti og þá var efri hæðin undir súð. (Lundargata 5 fékk núverandi lag um 1925). Þarna er húsið reyndar sagt nr. 4, en árið 1910 hefur húsið fengið núverandi númer.  Soffía Jóhannesdóttir mun hins vegar hafa verið úr Svarfaðardal, nánar tiltekið Jarðbrúargerði. Bjuggu þau Kristján og Soffía hér til æviloka, hún lést árið 1962 en hann 1973. Hafa síðan margir búið hér á báðum hæðum hússins, en húsið mun frá upphafi hafa verið tvíbýli.  

Eyrarvegur 29 er látlaust en reisulegt tveggja hæða funkishús. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og stendur á nokkuð áberandi stað, á horni tiltölulega fjölfarinna gatna. Þá er lóðin gróin og í góðri hirðu, frágangur og ástand húss og lóðar hinn snyrtilegasti. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Húsið er hluti mikillar heildar sams konar húsa við Norðurgötu og Ránargötu. Er þessi heild dæmi um þyrpingu samstæðra húsa, órofa heild í rótgrónu hverfi. Slíkar heildir ættu ætíð að hafa eitthvert varðveislugildi. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 22. júní 2021 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 922, 28. ágúst 1942 og nr. 937, 12. mars 1943. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 461
  • Frá upphafi: 436800

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 294
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband