Hús dagsins: Eyrarvegur 33

Þeir Ásgeir og Jóhannes Kristjánssynir fengu lóðina Eyrarveg 33 árið 1949P6221024 og í kjölfarið, leyfi til þess að byggja tveggja hæða hús. Er það í maí og júní, en í byrjun september 1949 fá þeir leyfi til þess að setja kjallara undir hluta hússins, nánar tiltekið austurhlutann. Árið 1954 fær Jóhannes leyfi til þess að byggja bráðabirgðaþak, þar eð hann geti ekki byggt efri hæðina að sinni. Endanlegt útlit mun húsið hafa fengið um 1962, er gerðar voru á því breytingar, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Upprunalegt útlit hússins sést hins vegar á raflagnateikningum Gústavs Jónassonar frá 1949, þar er húsið sýnt tvær hæðir með lágu valmaþaki, ekki ósvipað næstu húsum við Ránargötu. Núverandi lag mun húsið hafa fengið eftir breytingar 1962, en teikningarnar að þeim gerði Mikael Jóhannsson

Eyrarvegur 33 er þrílyft steinhús með einhalla þaki. Þriðja hæðin nær aðeins yfir hluta grunnflatar hússins, nánar tiltekið nyrðri helminginn en á lægri hluti hússins er einnig einhalla þak, sem hallar á móti þaki hærri hluta. Lóðréttir póstar eru í flestum gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Á framhlið eða suðurhlið er útskot og svalir.

Ekki hafa eigendaskipti á húsinu verið tíð, en Jóhannes Kristjánsson og Ólafía Jóhannesdóttur sem byggðu húsið bjuggu hér fram allt til ársins 2017, að þau fluttu á Dvalarheimilið Hlíð. Jóhannes var frá Syðra- Hvarfi í Skíðadal en Ólafía mun hafa verið að vestan, árið 1930 á Ytrihúsum í Ísafjarðarsókn (heimild: Íslendingabók).  Jóhannes var bifvélavirkjameistari og rak bílaverkstæði um áratugaskeið í Gránufélagsgötu 47. Jóhannes Kristjánsson var landsþekktur skot- og  stangveiðimaður, valinkunnur fyrir fengsæld og góða veiði, hvort heldur sem var með veiðistöng eða byssu. Jóhannes var sonur þeirra Kristjáns Jakobssonar og Soffía Jóhannesdóttur, sem byggðu Eyrarveg 29 árið 1943. Þau Jóhannes og Ólafía höfðu verið gift í 72 ár þegar Jóhannes lést, 2017, en þau fögnuðu platínubrúðkaupi sumarið 2015.

Eyrarvegur 33 er stórbrotið og reisulegt hús. Það er í mjög góðu ástandi og hefur líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks umhirðu og viðhald. Steypt lóðrétt munstur undir þakbrúnum setja skemmtilegan svip sem og sérstakt byggingalag þess, en húsið sker sig nokkuð úr umhverfinu en það skemmtilega og til prýði. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og ber þar mikið á litríkum blómabeðum sem og gróskumiklum trjám, m.a. reynitrjám og stórvöxnu greni. Hafa þau heiðurshjón, Jóhannes og Ólafía, væntanlega lagt í garðinn mikla alúð og natni þá mörgu áratugi, sem þau bjuggu þarna. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og er honum einnig vel við haldið. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi en húsið er hluti mikillar heildar sams konar húsa m.a. við Norðurgötu og Ránargötu og hluta Eyrarvegar. Er þessi heild dæmi um þyrpingu samstæðra húsa, órofa heild í rótgrónu hverfi. Slíkar heildir ættu ætíð að hafa eitthvert varðveislugildi. Í húsinu hafa jafnan verið tvær íbúðir, ein á neðri hæð og önnur á efri hæðum.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1108, 20. maí 1949. Nr. 1109, 10. júní 1949. Nr. 1113, 2. sept. 1949. Nr. 1200, 20. ágúst 1954 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 460
  • Frá upphafi: 436799

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 293
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband