30.5.2022 | 10:08
Hús dagsins: Sólgarður
Síðustu vikur hef ég tekið saman söguágrip um félagsheimilin í hreppunum framan Akureyrar, sem nú eru Eyjafjarðarsveit. Rétt að geta þess, áður en lengra er haldið, að í kjölfar skrifa um Þinghúsið á Hrafnagili, hafði samband við mig Jóhann Ólafur Halldórsson. Benti hann mér á það, að leikskólinn Krummakot muni von bráðar flytja úr Þinghúsinu í nýbyggingu við Hrafnagilsskóla. Eftir það er framtíð hins tæplega aldargamla Þinghúss óljós, en vonandi fær það eitthvert hlutverk um ókomin ár. En nú er komið að þriðja félagsheimili Eyjafjarðarsveitar en Sólgarður, í fyrrum Saurbæjarhreppi, hýsir nú eitt af áhugaverðari söfnum landsins...
Sólgarður, fyrrum félagsheimili og skólahúsnæði Saurbæjarhrepps, stendur fast við Eyjafjarðarbraut, undir svonefndum Kirkjuhól, um 28 km framan Akureyrar. Síðastliðna tvo áratugi hefur húsið hýst eitt af áhugaverðari söfnum landsins, Smámunasafnið, en nánar um það síðar í greininni. Sólgarður er byggður í áföngum og er elsti hlutinn byggður 1934 en tveimur áratugum síðar var byggt við húsið og það vígt formlega sem félagsheimili, eftir lögum um félagsheimili.
Sólgarður er þriðja samkomuhúsið, sem reist er á þessum stað neðan við Saurbæ. En fyrst var reist þarna þinghús árin 1897-98. Það reisti Jóhann Jóhannsson í Torfufelli og fór fyrsti fundur þar fram 5. mars 1898. Þinghús þetta reyndist æði skammlíft, því í annáluðu aftakaveðri þann 20. september árið 1900 tók það af grunni og brotnaði í spón. Nýtt hús var tekið í notkun ári síðar og stóð í rúm 30 ár og segir í Byggðum Eyjafjarðar 1990 að endalok þess hafi verið af mannavöldum en ekki veðurguða. Það hafa því miður verið örlög æði margra húsa, sem hefðu verið til prýði, ánægju og yndisauka, stæðu þau enn. Síðar í þessari grein verður einmitt vikið að einu slíku.
Sólgarður er einlyft steinsteypuhús með háu risi. Skiptist húsið í þrjár álmur, miðálmu sem snýr N-S og tvær burstir sem snúa A-V. Kvistir með hallandi þökum eru á báðum burstum. Burstálmurnar skaga eilítið fram til austurs miðað við miðálmu en sú nyrðri er ívið lengri en sú syðri. Miðálman nær aftur lengra til vestur en syðri álman. Húsið er byggt í áföngum á tæplega hálfrar aldar tímabili, miðhlutinn um miðjan 4. áratug, suðurálma 1953-54 og norðurálma 1979-80. Afar ónákvæm mæling á grunnfleti hússins á kortavef gefur til kynna, að suðurálma sé því sem næst 17x10m, miðálma 14x16m og suðurálma 13x10m. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Í gluggum eldri hluta hússins eru margskiptir póstar en lóðréttir póstar í yngstu álmunni, þ.e. norðurálmu.
Heimildum ber ekki nákvæmlega saman um byggingarár elsta hluta Sólgarðs. Í Byggðum Eyjafjarðar 1970 er húsið sagt reist 1935-36 en flestar aðrar heimildir segja 1934. Fasteignaskrá segir byggingarárið 1935. En alltént er húsið reist um miðjan fjórða áratug sl. aldar. Þetta tímabil hefur verið nokkurt framfaraskeið á þessum slóðum, því ekki aðeins var reist nýtt þinghús, heldur risu í Saurbæjarhreppi, tvær brýr yfir Eyjafjarðará sumarið 1933. Að byggingu hússins stóðu hreppsfélagið og ungmennafélag hreppsins. Hreppsnefnd Saurbæjarhrepps er nokkuð fáorð um byggingu hins nýja þinghúss. Á fundi hennar 27. mars 1934 nefnir þó Valdimar Pálsson að hreppsfélagið ásamt Ungmennafélaginu og Kvenfélaginu skyldu hugsa til þess, að koma upp nýju samkomuhúsi, sem um leið yrði skólasetur fyrir hluta hreppsins. Þetta mál var síðasta mál fundarins, undir lið 4b sem önnur mál og bókað að málið hafi lítið verið rætt og tekið af dagskrá þar sem fundarmenn voru flestir farnir. Í rúmlega tvö ár minnist hreppsnefnd ekki einu aukateknu orði á þinghús eða samkomuhús, nema hvað, 14. júní 1936 er fundur nefndarinnar haldinn í þinghúsi hreppsins. Mætti þannig álykta, að hreppsbúar hafi einfaldlega látið verkin tala og byggt sér nýtt þinghús án þess að hafa um það mörg orð á blaði. Þá er lítið sem ekkert að finna í dagblöðum þess tíma um nýtt þinghús í Saurbæjarhreppi. Má það heita nokkuð sérstakt, því húsið hlýtur jú að hafa talist nokkurt stórvirki. Í lok ágúst 1936 er hið nýja samkomuhús brunabótavirt og er þá sagt eftirfarandi: Steinsteypt samkomuhús með tvöföldum veggjum. Húsið er einlyft. Fyrirkomulag hússins: Í norðurenda er samkomusalur með leiksviði. Í suðurenda er forstofa, skólastofa og eldhús. Tvö eldstæði eru í húsinu og tveir reykháfar, allt samkvæmt brunamálalögum. Stærð 16,7x7,7m og hæð 4 m (Brunabótafélag Íslands, nr. 64, 1936). Húsið er þá virt á 10.000 kr en til samanburðar má nefna, að árið 1936 kostaði þvottaefnispakki 55 aura. Eins og oft tíðkaðist í sveitum landsins varð hið nýja samkomuhús einhvers konar fjölnotahús (löngu áður en það hugtak varð til) því fljótt var húsið nýtt undir kennslu. Fyrst sóttu skólann börn af næstu bæjum en árið 1946 var húsið nýtt sem skólahúsnæði fyrir allan hreppinn og reyndist það einfaldlega allt of lítið.
Árið 1947 voru sett ný lög um félagsheimili og á næsta áratug eftir það voru byggð þrjú vegleg félagsheimili í hreppunum framan Akureyrar, eitt í hverjum hreppi. Freyvangur í Öngulsstaðahreppi var reistur árin 1954-57 og Laugarborg í Hrafnagilshreppi árin 1956-59. En fyrsta félagsheimili Eyjafjarðar, samkvæmt nýju lögunum var Sólgarður og var húsið tekið í notkun í lok október 1954. Það má e.t.v. segja, að Saurbæjarhreppur hafi þarna haft ákveðið forskot, því um var að ræða viðbyggingu við hús sem var fyrir, á meðan hin húsin voru nýbyggingar frá grunni. En engu að síður var um stórkostlega framkvæmd að ræða. Þessar byggingarframkvæmdar fólust í því, að byggt var við húsið til suðurs, álma á einni hæð með háu risi. Þá hefur upprunaleg álma líkast til verið stækkuð, því í upprunalegu brunabótamati er breidd hennar sögð 7,7 m en nú mun hún um tvöfalt breiðari. Bæjarblöðin á Akureyri segja mjög ítarlega frá vígslu hússins og byggingasögu. M.a. er þessi grein úr Degi 3. nóv. 1954 sem ber yfirskriftina Fyrsta félagsheimilið í Eyjafirði vígt sl. laugardag og skírt Sólgarður. Er hún ein helsta heimild þessa söguágrips hér. En það var árið 1948 sem Daníel Sveinbjörnsson í Saurbæ, formaður skólanefndar, hóf undirbúningsvinnu. Sótti hann ítrekað um í félagsheimilasjóði en hafði þó ekki erindi sem erfiði fyrr en fjórum árum síðar. Skipuð var bygginganefnd sem samanstóð af fulltrúum frá hreppsnefndinni, skólanefnd og félögum hreppsins. Það var svo vorið 1953, nánar tiltekið þann 14. maí sem framkvæmdir hófust. Byggingastjóri var Þórður Friðbjarnarson og téður Daníel Sveinbjörnsson formaður bygginganefndar en flestir hreppsbúar komu að byggingu hússins með einum eða öðrum hætti, hvort heldur sem var með sjálfboðavinnu eða gjöfum. En á meðal verktaka, sem að byggingunni komu voru m.a. Tryggvi Sæmundsson og Pétur Gunnlaugsson sem önnuðust múrverk, Viktor Kristjánsson lagði raflagnir, lagnadeild KEA annaðist pípulagnir og Herbert Sveinbjarnarson málningarvinnu. Trésmíðaverkstæðið Lundur setti upp eldhúsinnréttingar og terrasso annaðist terrassolagningameistarinn Christofferssen. Teikningarnar voru gerðar á Teiknistofunni Ármúla 6, en ekki fylgir sögunni hver hélt þar á blýanti.
Eftir ríflega 17 mánaða framkvæmdir rann vígsludagurinn, 30. október 1954, upp. Voru þar veisluföng og ræðuhöld, söngur og dans fram eftir nóttu. Þar fór einnig fram kosning meðal veislugesta um nafn á hinu nýja félagsheimili. Um var að ræða fimm tillögur að nöfnum og varð Sólgarður hlutskarpast. Hinar nafnatillögurnar voru Végarður, Árgarður, Hólmgarður og Miðgarður. Í Degi 1. sept. 1954 birtist lýsing á skipulagi hússins, sem þá var í byggingu. Grunnflötur var sagður 260 fermetrar. Í kjallara var kyndirými, fatageymslur, snyrtingar og fundarsalur. Á aðalhæð forstofa, samkomusalur, leiksvið, kennslustofa, eldhús og bókasafn. Í risi var svo íbúð og kvikmyndaklefi. Kostnaður við húsið um 500 þúsund. Fjárframlög til byggingarinnar skiptust með eftirfarandi hætti: Sveitarsjóður hreppsins lagði til 105 þúsund kr., Félagsheimilissjóður 95.200 kr., Menningarsjóður KEA 10 þúsund kr., Ungmennafélag Saurbæjarhrepps 17 þús. kr., Ungmennafélagið (Bindindisfélagið) Dalbúinn 10.550 kr., Kvenfélagið Hjálpin 5.745.00 kr., Búnaðarfélag Saurbæjarhrepps 5000 kr., (það félag veitti einnig 10.000 kr. lán), Mjólkurflutningafélag Saurbæjarhrepps 10.000 kr. og Slysavarnadeild Saurbæjar- og Hrafnagilshrepps 1000 kr. Þá námu peningagjafir frá einstaklingum 10.200 kr. og sjálfboðavinna metin 30 þúsund. Munaði þar eflaust miklu, að bílstjórafélag hreppsins gaf alla vinnu við flutninga. Og til þess að setja upphæðirnar í eitthvert samhengi má nefna, að 1954 kostaði kílóið af Jaffa appelsínum 9,50 kr., döðlur 11 kr. og sveskjur 16 kr.
Næstu áratugi fóru hinar ýmsar samkomur hreppsins, dansleikir, leiksýningar, þorrablót, jólaskemmtanir, fundir, markaðir og ýmis konar mót fram í Sólgarði. Auk þess sem það var skólahús hreppsins. Um 1980 var byggt við húsið til norðurs, sams konar álma og norðanmegin, ein hæð með háu risi. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur, nokkurs konar samhverft burstalag. Þannig fékk skólinn viðbygginguna frá 1954 til afnota og stækkaði kennslurýmið sem því nam, en í nýju viðbótinni voru bókasafn, kaffistofa, anddyri og snyrtingar. Þar var auk þess íbúð skólastjóra. Teikninguna að þessari stækkun gerði Mikael Jóhannsson. Sólgarður hýsti skóla Saurbæjarhrepps allt þar til hrepparnir framan Akureyrar sameinuðust í Eyjafjarðarsveit árið 1991. Og gott betur en það, því í Sólgarði var skólasel fyrir yngstu nemendur Hrafnagilsskóla, búsetta fremst í firðinum, allt til 1995. Síðustu ár 20. aldar var nokkurs konar óvissutímabil fyrir félagsheimilin í hreppunum þremur sem saman mynduðu Eyjafjarðarsveit. En fljótlega var mörkuð stefna fyrir framtíð þeirra, Laugarborg skyldi vera tónlistarhús, Freyvangur aðsetur samnefnds leikfélags en í Sólgarð flutti eitt af áhugaverðari söfnum landsins, Smámunasafnið, og er þar enn.
Smámunasafnið var opnað í Sólgarði í júlí 2003. Safninu er eiginlega erfitt að gera skil í fáum málsgreinum, sjón er sögu ríkari. En það geymir afrakstur mikillar munasöfnunar Sverris Hermannssonar, húsasmiðs, sem lengst af var búsettur í Aðalstræti 38. Söfnun Sverris fólst ekki hvað síst í því, að hann henti aldrei nokkrum sköpuðum hlut; á safninu má m.a. sjá safn blýantsstubba, notaðra nánast upp til agna. Auk handverkfæra, penna, reykjarpípa, hnífa, bora, barmmerkja, smárra heimilistækja og eins og sagt er; nefndu það bara og það má finna á Smámunasafninu. Sverrir kom að endurgerð fjölmargra gamalla húsa og tók þá ævinlega spýtur, nagla eða annað smálegt úr þeim. Á Smámunasafninu er m.a. varðveitt fjöl úr hinu mikla Snorrahúsi, sem stóð við Strandgötu 29 og var eitt af stærstu timburhúsum bæjarins. Er það eitt þeirra húsa, sem betur hefði farið á, að varðveita og væri þá bæjarprýði hin mesta en var, illu heilli, rifið haustið 1987. Greinarhöfundur mælir eindregið með heimsókn í Smámunasafnið.
Sólgarður er glæst og reisulegt hús, burstirnar setja á það skemmtilegan svip, og er til mikillar prýði í fögru umhverfi. Húsakönnun, sem unnin var um fundarhús og skóla í sveitum landsins metur ekki varðveislugildi einstakra húsa en segir hús á borð við Sólgarð almennt; [...] hafa nánast öll menningarsögulegt gildi fyrir viðkomandi byggðir, íbúa þeirra og þá sem eiga ættir að rekja til svæðisins. Sameiginlegar minningar tengjast húsunum og því starfi sem þar fór fram. Það eitt er næg ástæða til að réttlæta varðveislu þeirra. Í sumum tilvikum eru skóla- og fundarhús eini áþreifanlegi vitnisburðurinn um samfélag sem nú er horfið eða hefur tekið miklum breytingum (Árni Kjartansson og Pétur H. Ármannsson 2010: 14). Greinarhöfundur tekur að sjálfsögðu undir hvert orð, sem þarna kemur fram. Myndirnar eru allar teknar 13. júní 2020 að undanskildum myndunum af bakhlið Sólgarðs og skiltinu (Sólgarður 1954) en þær eru teknar 20. maí 2022.
Heimildir:
Án höf. Félagsheimilið í Saurbæ nær fullbyggt. Í Degi, 37.árg., 38. tbl., 1. sept. 1954.
Án höf. Fyrsta félagsheimilið í Eyjafirði vígt sl. laugardag og skírt Sólgarður Í Degi, 37. árg. 47. tbl., 9. nóv. 1954.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar I bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Brunabótafjelag Íslands: Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I (1930-1944) Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Gjörðabók Hreppsefndar Saurbæjarhrepps 1917-1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Gláma-Kím; Árni Kjartanson og Pétur H. Ármannsson. 2010. Fundarhús og skólar í sveitum landsins. Könnun á fjölda og ástandi varðveittra húsa frá fyrri hluta 20.aldar. Reykjavík: Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni Microsoft Word - Fundarhus inngangur PHA yfirl-ÁK.doc (minjastofnun.is)
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Hér eru svipmyndir af Smámunasafni Sverrir Hermannssonar í Sólgarði:
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 12
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 429
- Frá upphafi: 440786
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 207
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.