10.7.2022 | 18:06
Hús dagsins: Norðurgata 11
Snemma sumars 1880 var haldin mikil búfjársýning á Oddeyri. Um var að ræða sannkallaðan stórviðburð þar sem sýndar voru, auk búfjár, hinar ýmsar afurðir úr ull auk hannyrða og handverks, einnig tæki tengd búfjárhaldi og tóvinnu. Að sjálfsögðu voru einnig skemmtiatriði söngur og orgelleikur, glíma og dans frameftir kvöldi. Þá fluttu ræður m.a. Davíð Guðmundsson prófastur, sem setti hátíðina og Arnljótur Ólafsson auk þess sem flutt voru kvæði sem m.a. Matthías Jochumsson og fleiri höfðu samið sérstaklega af þessu tilefni. Sýningarsvæðið var allt prýtt fánum og ýmsu skrauti og voru reist þrjú tjöld undir hluta herlegheitanna, þar sem m.a. voru veitingar. Auk þess var leigt sýningarhús. Frá þessari sýningu var sagt ítarlega í 25. tölublaði Norðlings í júní 1880 (í sama tölublaði er einnig sagt frá útför Jóns Sigurðssonar). Grípum niður í frásögn Norðlings: Sýningarnefndin hafði búizt hið bezta við á sjálfum sýningarstaðnum, og leigt tvíloptað [svo] hús, er verið er að byggja á Oddeyri; voru hannyrðir, vefnaður, prjónles, smíðisgripir, listaverk, smærri verkfæri og varningur sýnt þar á fyrsta sal. (í Norðlingi nr. 25: 1880, án höf.)Þessi hluti sýningarinnar var svo fjölsóttur, að [...]hvað eptir annað varð að rýma mannfjöldanum af loptinu svo eigi yrði þar slys[...]. Á sýninguna munu hafa mætt á annað þúsund manns, úr Þingeyjarsýslum og Skagafirði auk Eyfirðinga. En hvert var þetta tvíloftaða hús, sem var í byggingu og tekið var á leigu og varð ítrekað að rýma vegna mannfjölda sem vildi skoða prjónles og handverk. Umrætt hús stendur enn og er Norðurgata 11 og er það elsta við götuna, lítið eitt eldra en Gamla prentsmiðjan.
Norðurgata 11 er tvílyft timburhús á háum kjallara og með lágu risi. Á vesturhlið er inngönguskúr eða stigahús, jafnhá húsinu. Bárujárn er á þaki en veggir eru klæddir steinblikki að frátöldum norðurvegg, sem er steyptur og gluggalaus. Í gluggum eru láréttir þverpóstar en í kjallaragluggum og á stigahúsi sexrúðupóstar. Grunnflötur mælist um 7x12m en bakbygging nærri 2,5x2,5m. (Ónákvæm mæling á kortavef map.is) Húsið stendur á horni Norðurgötu og Gránufélagsgötu, nánar tiltekið á norðvesturhorninu.
Snorri Jónsson (1848-1918), timburmeistari frá Hólárkoti í Svarfaðardal, hóf að öllum líkindum að byggja hús sitt á Oddeyri árið 1879. Í þá daga flæktust hvorki skriffinnska né formsatriði fyrir húsbyggjendum á Oddeyri. Menn einfaldlega byggðu húsin og þegar þau voru reist, fengu þeir lóðir hjá eiganda Oddeyrar, Gránufélaginu. Hjá Gránufélaginu voru menn þó ekkert að hafa áhyggjur af því formsatriði; hvorki meira né minna en þremur árum eftir búfjársýninguna miklu, 1883, fékk Snorri mælda út lóð hjá Gránufélaginu og þá kemur fram að húsið sé þegar risið. Miðaðist lóðin við síkið eða Fúlalæk, lygnrar lænu frá Glerá er rann til sjávar um það bil þar sem nú er milli Norðurgötu og Lundargötu. Bæjaryfirvöld virðast ekki hafa haft mikil afskipti af þessu samkomulagi milli frumbyggja Oddeyrar og Gránufélagsins um úthlutun byggingarreita og lóða. Höfum í huga, að á þessum tíma var Oddeyrin út í sveit miðað við Akureyrarkaupstað enda þótt hún tilheyrði lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Meira að segja tilheyrði hin illfæra brekka, er aðskildi eyrarnar tvær, Hrafnagilshreppi. Norðurgata 11 var í upphafi tvílyft timburhús á lágum grunni með mjög lágu risi með smáum inngönguskúr á bakhlið. Upprunalegt lag hússins sést mjög glögglega á mynd, sem tekin er 1882. Þar sést líka umræddur Fúlilækur en nafn sitt hlaut hann einfaldlega af því, að hann þjónaði sem sérlegur ruslahaugur og skólpræsi Oddeyringa um árabil.
Sem áður segir byggði Snorri Jónsson timburmeistari og skipasmiður húsið og var þetta fyrsta húsið sem hann reisti á Akureyri en langt frá því það síðasta. Hann stýrði byggingu margra húsa á áratugunum kringum aldamótin 1900 en eitt helsta stórvirki hans var mikið stórhýsi við Strandgötu 29 og var það kallað Snorrahús. Þá kom hann að byggingu sjúkrahúsbyggingar og læknisbústaðar 1898-99 auk byggingar Gagnfræðaskólans (MA) árið 1904. Snorri var kvæntur Lovísu Loftsdóttur frá Sauðanesi í Svarfarðardal. Árið 1890 búa þau hér, ásamt börnum sínum í Húsi Snorra Jónssonar á Oddeyri, en auk þeirra Valdimar Hallgrímsson húsmaður og kona hans Guðrún Þorbergsdóttir. (Götuheiti og númer kom löngu síðar) Þá býr einnig hjá Snorra lærlingur hans, Bergsteinn Björnsson (þar skrifaður Bjarnason). Bergsteinn reisti tíu árum síðar mikið stórhýsi í Bótinni, hús sem var einmitt um margt svipað húsi Snorra, læriföður hans, téðu Snorrahúsi við Strandgötu, að stærð og lögun. Húsin hafa væntanlega kallast skemmtilega á yfir Pollinn á sínum tíma, en sem áður segir var Snorrahús rifið árið 1987. Hús Bergsteins stendur enn og er Hafnarstræti 88.
Árið 1915 eignaðist Hermundur Jóhannesson húsið og átti það alla sína tíð og kallaðist húsið jafnan Hermundarhús. Sumarið 1922 fékk hann leyfi til að [...]byggja viðbótarbyggingu norðan við sitt nr. 11 í Norðurgötu ennfr[emur] að hækka húsið um ca. 2 ál. [tæplega 130cm] og setja undir það kjallara úr steinsteypu (Bygg.nefnd. Ak. 1922: nr. 518) hús sitt til norðurs Mun húsinu hafa verið lyft á svipaðan hátt og skip voru sjósett og kjallari steyptur undir. Mun húsið hafa staðið á tunnum á meðan. Fylgir einnig sögunni, að að allan tímann sem húsinu var lyft var búið í því og gengu klukkur rétt á veggjum. Þessari sögu deildi Jóhannes, sonur Hermundar, með þátttakendum í sögugöngu um Oddeyri, að greinarhöfund minnir, sumarið 1999. Þá byggði Hermundur við húsið nyrðri gluggabilin tvö auk núverandi stigabyggingar. Þá, eða um svipað leyti, hefur núverandi blikkklæðning líkast til verið sett á húsið. Líklegast hefur sú íbúðaskipan sem nú er, verið komið á um svipað leyti, þ.e. tvær íbúðir á hvorri hæð. Í manntölum 1930 og 1940 er húsinu skipt í 11a og 11b. Árið 1930 búa í húsinu 18 manns og tíu árum síðar eru íbúarnir sextán. Á timarit.is má finna um 100 niðurstöður í bæjarblöðum Akureyrar þar sem Norðurgata 11 kemur við sögu. Sú elsta mun vera tilkynning í Norðra haustið 1907. Þá voru foringjar Hjálpræðishersins, búsettir í húsinu og auglýsa þar skólahald fyrir börn á sínum vegum. Umræddir foringjar Hjálpræðishersins voru þær Sólveig Bjarnason (kapteinn) og Þóra Brynjólfsson (lautinant) og eru þær í manntali einfaldlega skráðar sem foringjar Hersins. Eflaust hefur kennslan farið fram þarna í húsinu. Þröngt hefur verið um þann skóla, en árið 1907 búa þrettán manns í húsinu í sex skráðum íbúðarrýmum. Og þá var húsið mun smærra en það er nú. Um langt árabil, frá 1935, var á húsinu brunaboði slökkviliðs. Fjölmargir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma gegnum áratugina, en eigendaskipti hafa hins vegar ekki verið tíð, svo ekki sé meira sagt: Eftir lát Hermundar Jóhannessonar eignaðist sonur hans, téður Jóhannes, húsið og átti alla sína tíð en erfingjar hans seldu það um 2015. Hafði húsið þá verið í eigu sömu fjölskyldu í heila öld! Hermundur byggði síðar steinsteypt íbúðarhús á baklóðinni, sem varð Gránufélagsgata 23 og þar bjó Jóhannes Hermundarson og rak líkkistusmíðaverkstæði um áratugaskeið.
Norðurgata 11 er í senn látlaust og reisulegt hús og til mikillar prýði. Það er í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni og hefur líkast til hlotið gott viðhald alla tíð. Í húsakönnun 2021 er það sagt Reisulegt hús en ekki íburðarmikið. Gott samræmi í formi og gluggasetningu. (Bjarki Jóhannesson 2021:93). Það tekur sem hornhús, þátt í götumynd Gránufélagsgötu og Norðurgötu. Tvær íbúðir eru á hvorri hæð hússins. Í Húsakönnun 1990 er það metið með varðveislugildi sem hluti byggðarinnar við Norðurgötu og það mat staðfest í Húsakönnun 2020, þar sem það fellur undir einstök hús og hverfisvernd. Þá er húsið friðað vegna aldurs og hefur mikið gildi fyrir byggðina á Oddeyri. Það er líklega fimmta elsta húsið á Oddeyri og á Akureyri allri eru aðeins um 30 hús eldri en Norðurgata 11. Gengt húsinu, handan Gránufélagsgötu er nokkuð víðlent, óbyggt svæði, lóðir nr. 3-9 við Norðurgötu. Fyrirhugað er að byggja á þessum lóðum og er það vel. Munu þá kallast á yfir hornið, elsta og yngsta hús Norðurgötu. Þar verður aldeilis að vanda til verka, svo að nýjar byggingar falli vel að hinni fornu og lágreistu götumynd! Myndin er tekin þann 19. júní 2022.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 518, 13. júlí 1922. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 4
- Sl. sólarhring: 60
- Sl. viku: 495
- Frá upphafi: 436890
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 327
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.