21.4.2023 | 18:00
Hús dagsins: Lundeyri; in memoriam
Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust steinhús á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Hér verður stiklað á stóru úr sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.
Það er dálítið örðugra að kortleggja sögu Glerárþorpsbýlanna heldur en húsa í eldri hverfunum sunnan Glerár. Ástæðan er m.a. sú, að Glerárþorp tilheyrði ekki Akureyri fyrr en 1955 og þau hús komu því ekki inn á borð bygginganefndar bæjarins. Sambærileg nefnd virðist ekki hafa verið starfrækt í Glæsibæjarhreppi. Skipulagsmál bygginga í dreifbýli lúta eðlilega öðrum lögmálum en í bæjum; menn átti jarðir eða jarðaskika og byggðu þar einfaldlega sín íbúðar- og gripahús án nokkurra afskipta, enda þurfti ekki að huga að götumyndum eða útliti bygginga.
Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þá er Lundeyri lýst svona:
Nýbýli með útveggjum úr torfi á 3 vegu og torfþaki. Timburhlið að framan. Stærð 11+5+5+2 ¾ +2 ¼ álnir. Skiftist [svo] í: a) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað, með eldavél við múrpípu. b) Gangur: Stærð 2+5+2 ¾ al. c) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað með ofni og rörleiðslu í gegnum 2 þil og ganginn inn í múrpípuna. Kjallari undir húsinu (Brunabótafélag Íslands 1918: nr. 58). Það er kannski ekki gott að átta sig á þessum málum, þar sem þau eru öll samanlögð en ekki margfölduð. Í þessu mati er byggingarárið sagt 1917 en í heimildum er einnig getið byggingarársins 1918 (Lárus Zophoníasson, Steindór Steindórsson). Hversu stórt Lundeyrarlandið var, virðist ekki fylgja sögunni en býlinu fylgdi a.m.k. tún norðan við húsið en lönd Glerárþorpsbýlanna mældust sjaldnast í mörgum hekturum. Lundeyrartún (stundum kallað Lundeyristún), norðan við húsið, var löngum vinsælt leiksvæði barna í Glerárþorpi, nýtt m.a. til boltaleikja.
Torfhúsið með timburþilinu sem lýst er í brunabótamati árið 1918 hefur væntanlega vikið fyrir húsinu sem stóð fram á vordaga 2023. Samkvæmt fasteignamati var það hús byggt árið 1946. Ein elsta heimildin sem finnst á gagnagrunninum timarit.is, um Lundeyri, er frá ágúst 1921, þar sem hálft býlið er auglýst til sölu. Mögulega hafa þau Guðmundur Vigfús Guðjónsson sjómaður (1884-1957) Björg Guðmundsdóttir (1885-1971) keypt býlið þá, en þau eru alltént flutt hingað árið 1927. Bjuggu þau hér ásamt börnum sínum til ársins 1956, er Axel Vatnsdal keypti býlið. Það voru því Guðmundur og Björg sem byggðu steinhúsið árið 1946. Axel Vatnsdal lét breyta húsinu eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hafði alla tíð síðan. Lundeyri var einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað með bárujárnsþaki. Að grunnfleti var það um 12x8m. Samkvæmt teikningum Páls var austurhluti þess í upphafi með einhalla þaki undir háum kanti sunnanmegin en vesturhluti með lágu risi og ívið mjórri en austurhlutinn. Eftir tíð Axels Vatnsdals hafa ýmsir búið í Lundeyri og húsið alla verið tíð einbýli.
Á meðal barna Guðmundar og Bjargar, sem byggðu nýja Lundeyrarhúsið, var Gestur (1913-1961). Greinarhöfundur minnist þess, að hafa heyrt þess getið, að Gestur muni hafa verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið Barnið í þorpinu og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið. (Ég kom í ljótt og lítið þorp sem liggur út við sjó) Munu þessar lýsingar ekki hafa þótt sanngjarnar gagnvart Gesti og Lundeyrarfólkinu. Um þetta verður ekki fullyrt hér, enda í raun aðeins um sögusagnir að ræða. Það er hins vegar gömul saga og ný, að skáld og verk þeirra geta verið umdeild.
Það er gangur lífsins, ef þannig mætti komast að orði, að sum hús þurfa að víkja. Með hverju húsi sem rifið er hverfur ákveðin saga að vissu leyti, enda þótt saga húsa og fólks sem þar ól manninn varðveitist eilíflega í myndum og frásögnum. Nær alltaf er eftirsjá af þeim húsum sem hverfa og í raun gildir það um flest öll hús, að þau hafa alltaf visst tilfinningalegt og sögulegt gildi hjá einhverjum. En mætti þá segja, með þeim rökum, að það ætti bara aldrei rífa nokkurt hús!? Sá sem þetta ritar hefur vissulega haft uppi miklar yfirlýsingar um ansi mörg hús - og stendur við þær - að þau skuli varðveita eða friða. Stundum er því hreytt í undirritaðan, að honum væri mátulegt að eiga og viðhalda viðkomandi húsi sjálfur, sem hann mælir með, að varðveitt verði. En greinarhöfundur hefur þrátt fyrir allt skilning á því, að ekki verða öll hús varðveitt, af ýmsum ástæðum. Húsafriðun lýtur nefnilega öðrum lögmálum en t.d. friðun náttúrufyrirbrigða á borð við fossa og fjalla. Hús standa ekki bara til þess að vegfarendur geti dáðst að þeim og barið þau augum, þau þurfa viðhald og einhver þarf að eiga þau, búa í þeim eða nýta á annan hátt.
Að áliti greinarhöfundar ætti niðurrif þó ætíð að vera allra síðasta úrræði og í lengstu lög ætti að huga að endurgerð eða endurbyggingu gamalla húsa. Burtséð frá varðveislusjónarmiðum hlýtur það alltaf að vera betri nýting á auðlindum og þar af leiðandi umhverfisvænna, að nýta þau hús sem fyrir eru, heldur en að rífa og byggja nýtt. Að sjálfsögðu þarf að horfa til fleiri þátta þarna, t.a.m. nýtingu lóðar og byggingakostnaðar og ástand þeirra húsa sem rifin eru. Þannig er það skiljanlegt, þegar reist eru ný hverfi, að stök eldri hús þurfi að víkja. En það er engu að síður bjargföst skoðun höfundar, að gömul býli í þéttbýli skuli varðveitt sem slík, þó e.t.v. mætti, ef nauðsyn krefur, semja um að taka af víðlendum lóðum þeirra undir aðrar byggingar. Þá er góð regla að ný hús sem reist eru á grunnum eldri húsa, hljóti sömu nöfn, svo nöfnin varðveitist með bæjarstæðinu. Þannig væri upplagt, að ný bygging á þessum stað hlyti nafnið Lundeyri. Myndin af Lundeyrarhúsinu er tekin 22. maí 2011 en meðfylgjandi er einnig mynd sem sýnir lóð Lundeyrar að kvöldi 18. apríl 2023. Það eina, sem eftir lifir af Lundeyri er furutré og líkan af torfbæ. Kannski er torfbærinn litli eftirlíking af upphaflega Lundeyrarbænum ...(?)
Að lokum leggur undirritaður til að öll gömlu býli Glerárþorps, ásamt með sambærilegum húsum á Brekku og í Naustahverfi verði friðlýst!
Heimildir: Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Glerárþorp 1917-1922. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu, kassanr.H9/25.
Lárus Zophoníasson. 1980. Glerárþorp 100 ára byggð Súlur X. árg. (bls. 3-33).
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.4.): 0
- Sl. sólarhring: 96
- Sl. viku: 523
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 331
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Obbobobb, ég skoðaði rústirnar af Lundeyri um daginn: Þetta var ekki steinhús, heldur forskalað timburhús með alveg ónýtum neðri hluta grindar. Þar kemur væntanlega tvennt til; forskölun eða múrhúð utan á timburklæðningu fer sjaldnast vel með það sem undir er nema að loftun sé afburðagóð. Hitt atriðið er að einhverntíma (1980+) hafa menn sprautað steinull innanfrá í timburhólfin og drepið alla öndun.
Til viðbótar var allt klætt með asbesti að innan, sem lærðir menn í geimbúningum voru í langan tíma að fjarlægja.
Mögulega hefði verið hægt að bjarga húsinu, en það hefði útheimt endurgerð á nánast öllu. Held það hafi verið 25árum of seint.
Bestu kveðjur,
Sveinn í Felli
Glerárþorpi
Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 22.4.2023 kl. 15:07
Smá viðbót: Sjálfur græt ég eiginlega meira grunninn af bragganum á Hengingaklöppinni ofan við Glerárholt (sem hvarf í þessum framkvæmdum ásamt stórum hluta klapparinnar). Braggann reisti held ég breski herinn, eftir stríð var þarna samkomuhús Þorpara og haldin böll og allskyns félagslíf blómstraði. Segja mér heldri menn að stór hluti Þorpara frá stríði fram að sameiningu hafi komið undir í tengslum við þennan stað.
Bkv,
Sveinn í Felli
Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 22.4.2023 kl. 15:21
Sæll og blessaður
Þakka þessar upplýsingar, leiðrétti þetta varðandi byggingargerðina (timburhús "dulbúið" sem steinhús). Það kemur svosem ekkert á óvart að þá hafi ástand hússins ekki verið beysið; forskalning hefur löngum verið algjört eitur þegar kemur að timburhúsum. Skil vel, eins og ég segi, að það verði ekki öll hús varðveitt og af tvennu er illskára að Lundeyri þurfti að víkja heldur en Sandgerði, sem er aldursfriðað. (Held allavega að það fái að standa). Og leiðinlegt með braggagrunninn, hernámsminjar eiga margar hverjar undir högg að sækja.
Kveðja,
Arnór Bliki.
Arnór Bliki Hallmundsson, 22.4.2023 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.