19.8.2023 | 18:56
Hús dagsins: Hvassafell
Sunnan hæsta fjalls Eyjafjarðar, Kerlingar, standa einnig há og brött fjöll eða fjallabálkar og milli þeirra djúpir dalir sem liggja þvert á Eyjafjörðinn, eða austur-vestur. Næst sunnan Kerlingar er Finnastaðadalur og Möðrufellsfjall en sunnan þess er Skjóldalur og Hvassafellsfjall. Fjöll þessi tengjast hinu mikla fjalllendi, er tengist Glerárdal í norðri og Öxnadal í vestri og ná allt að 1400 metra hæð. Á þessu svæði hafa einhver ósköpin öll gengið á í fyrndinni, gífurleg eldvirkni í milljónir ára hefur hlaðið upp margra tuga laga víðáttumiklum hraunstafla. Löngu síðar, á hundruðum þúsunda eða milljónum ára hafa ísaldarjöklar grafið og tálgað hina stórskornu dali í jarðlagastaflann mikla og þegar þeir hopuðu hafa sumar hlíðarnar gefið sig með ofsafengnum berghlaupum. Reginöfl þessi hafa skapað sérlega geðþekka og fallega sveit, sem undir Hvassafellsfjalli og þar suður af kallast Undir fjöllum. Þar má m.a. finna bæinn Hvassafell sem Hvassafellsfjallið heitir eftir og þar stendur sérlega reisulegt, tæplega aldargamalt steinhús.
Íbúðarhúsið í Hvassafelli er einlyft steinhús, byggt 1926, á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Margskiptir krosspóstar eru í gluggum en þeir eru nýlegir og væntanlega í samræmi við upphaflegt útlit hússins, en lengi vel voru þverpóstar í gluggum. Húsið, sem er í eðli sínu einföld og látlaus steinsteypuklassík, prýðir nokkuð skraut. Undir rjáfri á stöfnum og kvisti eru einnig bogalaga smágluggar, smáatriði sem engu að síður hafa mikið að segja um heildarútlit og svip hússins. Á stöfnum og kvisti eru bogadregnir steyptir kantar og toppar, áhrif frá svokölluðum nýbarrokkstíl og var nokkuð algengt í steinhúsum þess tíma sem húsið er byggt. Grunnflötur hússins er nálægt 12x9m auk 2x2m útskots á bakhlið.
Hvassafell stendur sem fyrr segir undir Hvassafellsfjalli, í langri og aflíðandi hlíð neðan fjallsins. Bærinn stendur nokkurn veginn beint neðan við fremsta hnjúk Hvassafellsfjall, sem kallast Hestur og er um 1200m hár. Hæstu hlutar fjallabálksins vestur af Hvassafellsfjalli ná yfir 1300 metra hæð ofan Nautárdals, langt inni á Skjóldal. Að heimreiðinni, sem er um 190 metra löng, eru um 4 kílómetrar að Eyjafjarðarbraut vestri um Dalsveg en sé farinn Finnastaðavegur er vegalengdin að sama vegi 7,5km. Frá miðbæ Akureyrar eru um 27 kílómetrar að hlaðinu á Hvassafelli. Sögu Hvassafells, sem löngum var og er stórbýli má rekja til fyrstu aldar Íslandsbyggðar, þar var bænhús á miðöldum og árið 1712 var jörðin eign Munkaþverárklausturs. Í fyrndinni tilheyrði Hvassafelli skógur í Núpufellsskógum en heimildir eru um það frá lokum 14. aldar (sbr. Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir [án árs]:82). Jónas Hallgrímsson var á barnsaldri settur í fóstur á Hvassafelli hjá móðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, eftir sviplegt fráfall föður hans. Móðir hans, Rannveig Jónsdóttir var fædd í Hvassafelli og var af hinni valinkunnu ætt, sem kennd er við bæinn. Þúsundir, ef ekki tugþúsundir Íslendinga auk þó nokkurra Bandaríkjamanna og Kanadabúa (afkomendur vesturfara) eru af Hvassafellsætt og þar með skyldir Jónasi Hallgrímssyni og móðurfólki hans.
Förum nú hratt yfir sögu, til fyrsta áratugs 20. aldar, en þá voru ábúendur þau Júlíus Gunnlaugsson frá Draflastöðum og Hólmfríður Árnadóttir, fædd á Melum í Fnjóskadal. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar hófu þau búskap að Hvassafelli árið 1907 (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:823) en foreldrar Hólmfríðar, Árni Guðnason og Kristbjörg Benediktsdóttir höfðu búið að Hvassafelli frá árinu 1900. Í upphafi búskapartíðar Júlíusar og Hólmfríður að Hvassafelli stóð þar torfbær eins og víðast hvar í sveitum landsins. Í honum mun hafa verið m.a. þríhólfa baðstofa 10,8x3,7m að stærð, og tvær stofur 5,8x3,2m hvor ásamt skemmum undir alls fjórum burstum (sbr. Jónas Rafnar 1975:52). Um var að ræða nokkuð veglegt hús, af torfbæ að vera, enda Hvassafell löngum stórbýli. En þegar leið á 20. öldina þótti einsýnt, að framtíðin lægi í steinsteypu eða timbri fremur en torfbæjum og um 1926 reistu þau Júlíus og Hólmfríður og synir þeirra, Pálmi og Benedikt nýtt og veglegt steinhús, sem var á pari við veglegustu hús Akureyrar. Hver teiknaði húsið er greinarhöfundi ekki kunnugt um en það má leika sér með tilgátur þess efnis. Hvassafellshúsið er nokkuð sviplíkt húsum á svipuðum aldri við t.d. Eyrarlandsveg og Brekkugötu. Húsið við Eyrarlandsveg 20, sem Tryggvi Jónatansson múrarameistari teiknaði (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:41), er t.d. nokkuð sviplíkt Hvassafelli en Tryggvi var einn af ötulustu húsahönnuðum á þessum tíma og teiknaði fjölmörg, svo kannski má segja, að tölfræðilega séu mestar líkur á að Tryggvi hafi teiknað hús frá þessum tíma. Þá má einnig sjá ákveðin líkindi við Eyrarlandsveg 22 og Strandgötu 33 en þau hús teiknaði Ólafur Ágústsson húsgagnasmiður (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:42 og Bjarki Jóhannesson 2021:57). Þessi byggingarstíll, nýklassík undir áhrifum frá nýbarrok var hins vegar ekki óalgengur í steinhúsum þess tíma og þó nokkrir sem teiknuðu slík hús, svo tilgátur á borð við framangreindar eru afar hæpnar og skal auðvitað tekið með öllum hugsanlegum fyrirvörum. Hvassafells er ekki getið í verkaskrá Guðjóns Samúelssonar í veglegri ævisögu hans (Pétur H. Ármannsson, 2020) svo ólíklegt er, að húsið sé eitt af verkum hans. Greinarhöfundur þiggur að sjálfsögðu með þökkum allar ábendingar um hönnuð Hvassafellshússins (og aðrar ábendingar frá lesendum yfirleitt).
Nýja húsið var reist austan við gamla bæinn og mun um tíma hafa verið búið í báðum húsum samtímis (sbr. Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir [ár árs]:82). Á rafræna ljósmyndasafninu Sarpinum má sjá mynd af Hvassafellshúsinu, líkast til nýreistu, og glittir þar í eina burst gamla bæjarins. Skömmu eftir byggingu nýja hússins, eða árið 1930, tóku þeir bræður, Benedikt og Pálmi við búskap af foreldrum sínum og virðist þannig hafa verið tvíbýlt. Íbúðarhúsið skiptist í tvo eignarhluta, væntanlega eftir miðju, og bjuggu þeir bræður og fjölskyldur þeirra í hvorum hluta fyrir sig. Árið 1934 var nýja húsið í Hvassafelli metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steinsteypu með járnþaki. Veggir eru einfaldir með innþiljum og steypt á milli. Steypt gólf í kjallara og skilrúm úr timbri með steinvegg eftir endilöngu húsinu í kjallara og á stofuhæð og lofthæð. Á stofuhæð fjórar stofur og tvö eldhús og á lofthæð sex herbergi [Af þessu má ráða, að húsið hafi skipst í eignarhluta eftir miðju fremur en að hvor hæð hafi verið eignarhluti, þ.e.a.s. tvö eldhús eru á neðri hæð]. Stærð hússins var sögð 12x9m og hæð 7,3m, miðstöð til upphitunar og steinolía til ljósa. Eignarhlutar þeirra Benedikts og Pálma Júlíussona voru metnir á 8750 krónur hvor um sig og heildarmat hússins þannig 17.500 krónur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 6. mars 1934)
Þegar Byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil á prenti árið 1970 voru þau Einar Benediktsson og Álfheiður Karlsdóttir búsett að Hvassafelli og búa hér félagsbúi ásamt Hauki Benediktssyni (bróður Einars) og Rögnu Rósberg Hauksdóttur. Kemur fram, að þau hafi tekið við búinu þegar faðir þeirra bræðra féll frá árið 1962. Faðir þeirra var téður Benedikt Júlíusson, sem hér hafði stundað búskap frá 1930. Bústofninn árið 1970 taldi alls 67 nautgripi (32 kýr og 35 geldneyti), 240 fjár og 10 hross. Túnstærð er þá sögð 39,24 hektarar og töðufengur um 2000 hestar af heyi (Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:305). Álfheiður og Einar bjuggu hér til ársins 1982 er Sigmundur Sigurjónsson og Margrét Jósefsdóttir fluttust hingað. Árið 1990 var Tryggvi Jóhannsson frá Krónustöðum fluttur að Hvassafelli en fyrrnefnd Einar og Álfheiður áttu jörðina, svo enn var hún í eigu afkomenda Júlíusar Gunnlaugssonar og Hólmfríðar Árnadóttur. Taldi þá bústofninn 82 nautgripi (34 kýr) og 10 fjár en ræktað land taldist tæpir 60 hektarar (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:822). Árið 2010 eiga þau býlið og búa þar núverandi (2023) eigendur og íbúar, téður Tryggvi Jóhannsson og Guðrún Harðardóttir. Þá eru nautgripirnir orðnir 237, þar af 60 kýr. Auk þeirra voru 15 alifuglar en fjárbúskap hafði þá verið hætt. Nýtt, tæplega 1000 fermetra fjós hafði þá verið reist þremur árum fyrr. Ræktað land mældist þá 67,7 hektarar (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 455).
Íbúðarhúsið í Hvassafelli er reisulegt, skrautlegt og myndarlegt hús á hinu prýðilegasta bæjarstæði. Það er í mjög góðri hirðu, gluggar og þak virðast t.d. nýleg. Húsið, ásamt nærliggjandi byggingum, mynda skemmtilega heild sem er til mikillar prýði í gróskumikilli og fallegri sveit. Aðrar byggingar í Hvassafelli eru m.a. geldneytahús sem reist var árið 1945 sem fjárhús, hlaða frá sama ári, geymslur byggðar 1950 og 1976 og fjós frá 1954 og 1968. Þá er einnig súrheysturn frá árinu 1950 en greinarhöfundi þykja þau alltaf skemmtileg mannvirki, sem hvort tveggja setja svip á umhverfi og sjónræna heild sveita og eru minjar um búskaparhætti fyrri tíma. Nýjast af stærri Hvassafellsbyggingum, fulltrúi 21. aldar er svo veglegt nýtísku fjós sem byggt var 2007. Myndin af Hvassafelli er tekin 3. júlí 2020 en myndirnar af húsunum við Eyrarlandsveg teknar í febrúar 2013 og myndin af Strandgötu 33 er tekin 21. maí 2022. Myndin af Hvassafellsfjalli er tekin 23. apríl 2020.
Heimildir: Adolf Friðriksson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir. [Án árs]. Fornleifaskráning í Eyjafirði IX: Fornleifar í Grundarplássi og undir Fjöllum. Minjasafnið á Akureyri Fornleifastofnun Íslands FS037-94015 pdf-útgáfa: Fornleifaskráning í Eyjafirði IX. Fornleifar í Grundarplássi og undir Fjöllum (minjastofnun.is)
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf
Brunabótafélag Íslands. 1934. Hvassafell. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
ES. Greinarhöfundi bárust eftirfarandi ábendingar frá Gunnari Jónssyni vegna umfjöllunar um Saurbæ og skal þeim komið á framfæri hér:
sr. Gunnar Benediktsson kom að Saurbæ árið 1920 (ekki 1921).
Íbúðarhúsið í Saurbæ er nokkuð örugglega byggt 1927 og fjósið 1929.
Þá var ranglega farið með nafn Sigrúnar Þuríðardóttur, konu Sveinbjarnar Sigtryggssonar, á einum stað og hún kölluð Sigríður Þorsteinsdóttir.
Er þessu hér með komið á framfæri, beðist velvirðingar og Gunnar Jónssyni þakkað kærlega fyrir. Þetta hefur verið leiðrétt á vefsíðu undirritaðs, arnorbl.blog.is.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 7
- Sl. sólarhring: 36
- Sl. viku: 465
- Frá upphafi: 441372
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 326
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.