27.10.2023 | 20:31
Hús dagsins: Grundargata 3
Sum hús hafa breyst meira en önnur gegnum tíðina. Grundargata 3 á Oddeyrinni tilheyrir líklega fyrrnefnda hópnum en tíðin sú slagar reyndar hátt í hálfa aðra öld í því tilfelli...
Grundargata 3 er eitt af elstu húsum Oddeyrar, en það var reist 1885-86 af Einari Sveinssyni og Jónatan Jósepssyni. Það var mögulega síðla í ágúst árið 1885 að Bygginganefnd kom saman á Oddeyri í tilefni af beiðni Einars Sveinssonar um leyfi til að byggja hús á lóð sem hann hafði fengið fyrir norðan hús Ólafs Jónssonar. Dagsetningu vantar í þessa tilteknu fundargerð bygginganefndar, en næstu tveir fundir á undan eru skráðir 20. og 24. ágúst, 1885. Húsið átti að vera 12x9 álnir (u.þ.b. 7,6x5,7m), 10 álnir frá grunni að úthýsi Ólafs og í beinni línu með íbúðarhúsi og hesthúsi hans að austan. Húsið átti að snúa frá norðri til suðurs. Á næstu árum og áratugum byggðust fleiri hús við götuna í þessari sömu línu með húsi Ólafs og fékk sú gata nafnið Grundargata. Umrætt hús Ólafs Jónssonar brann til grunna árið 1908.
Grundargata 3 er tvílyft timburhús, nyrsti hluti þess steinsteyptur, á lágum kjallara með lágu risi. Framhlið og stafnar eru múrhúðaðir en bárujárn á veggjum bakhliðar. Miðhluti hússins er eilítið inndreginn að aftan en síðari tíma viðbyggingar skaga örlítið út fyrir upprunalegan grunnflöt að aftan, útskot á suðurenda nokkru lengra. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki.
Í upphafi var hús Einars Sveinssonar, síðar Grundargata 3, töluvert öðruvísi en nú og lag þess líkast til ekki óáþekkt næsta húsi, Grundargötu 5, (sem var reyndar byggt rúmum áratug síðar). Það er, einlyft timburhús á lágum kjallara með háu risi. Einar Sveinsson hefur ekki átt húsið lengi, mesta lagi í fimm ár, en húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar. Í Brunabótavirðingu frá 1917 er Jónatan Jósepsson, sem byggt mun hafa norðurhlutann og bjó þar lengst af í norðurhluta hússins, einnig sagður hafa byggt suðurhluta þess. Það gæti jafnvel verið, að Jónatan hafi keypt eða tekið við byggingaleyfi Einars eða framkvæmdinni. Árið 1890 kallast húsið Jonathanshúsið og Edvaldshús og eru eigendur þess Jónatan Jósepsson, titlaður húsbóndi og erfiðismaður í manntali og Edvald Jónsson húsbóndi og beykir. Sá síðarnefndi mun hafa átt suðurhlutann. Í téðu manntali árið 1890 búa alls fjórtán manns í Jónatanshúsinu og Edvaldshúsi á Oddeyri, fjölskyldur þeirra Jónatans og Edvalds. Þess má geta, að árið 1890 báru tveir íbúar hússins titilinn erfiðismenn, en auk Jónatans var Ágúst Jónsson, 26 ára húsmaður hjá Eðvaldi Jónssyni, einnig titlaður erfiðismaður.
Jónatan Jósepsson (1854-1931) var múrari og mun lengi hafa verið sá eini í bænum. Hann var fæddur og uppalinn á Hólum í Saurbæjarhreppi. Á meðal barna Jónatans og konu hans, Jónínu Guðmundsdóttir (1854-1943) frá Akurseli í Kelduhverfi , var sonurinn Tryggvi. Hann var fæddur 15. apríl 1892, líkast til í þessu húsi. Tryggvi lærði múriðnina af föður sínum og hlaut meistararéttindi í þeirri iðn. Hann var einn af mikilvirkari húsateiknurum á Akureyri og á heiðurinn af mörgum húsum frá fyrri hluta 20. aldar m.a. á Oddeyri og neðri hluta Brekkunnar. Stór hluti Ægisgötunnar, heilsteypt röð einlyftra steinhúsa með valmaþaki og horngluggum, eru verk hans.
Í byrjun árs 1913 fær þáverandi eigandi suðurhlutans, Steinn Jóhannsson leyfi til byggingar, jafnbreiða húsinu og 5 álnir að lengd. Ári síðar, eða snemma árs 1914, sækir Jónatan Jósepsson um að stækka sinn hluta til norðurs og sú viðbygging var úr steinsteypu. Bygginganefnd setur sem skilyrði, að Jónatan semji við eiganda nábúalóðarinnar norðan við, þar eð viðbyggingin virðist ná inn á hana. Einnig setti nefndin það skilyrði, að ekki væru dyr, gluggar eða önnur op á norðurveggnum. Ekki liggja fyrir lýsingar, en ljóst að þessi viðbygging var tvílyft með lágu risi.
Í brunabótamati árið 1916 er suðurhluta Grundargötu 3 lýst á eftirfarandi hátt: Einlyftur með háu risi á lágum kjallara, lítill skúr áfastur við bakhlið, sameiginlegur með húshlutunum og geymsluskúr við suðurstafn. Á neðri hæð austanmegin (framhlið) voru stofa og hálf forstofa en vestanmegin eldhús og forstofa. Á lofti voru þrjú herbergi og gangur. Húsið sagt 6,9x5,7m að grunnfleti. Norðurhluti er metinn í tvennu lagi, annars vegar upprunalega húsið frá 1885 sem er sagt einlyft með háu risi og kjallara, innra skipulag nokkurn veginn það sama og í suðurhluta, nema hvað í risinu er aðeins eitt herbergi og gangur. Þessi hluti hússins er sagður 5,6x3,8m. Svo virðist, sem breidd norðurhlutans sé mæld meðfram götu (N-S) en breidd annarra hluta hússins þvert á götustefnu (A-V). Þetta sést á því, að breidd suðurhlutans (5,7m) er nokkurn veginn jöfn lengd norðurhluta (5,6m). Steinsteypta viðbyggingin er sögð tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu með lágu risi á lágum kjallara, 6,3x3,7m. Þar voru ein stofa, austanmegin og vestanmegin eldhús og forstofa. Á efri hæð tvær stofur og gangur. (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 234 og 235).
Árið 1920 fær Jóhann Steinsson leyfi til að byggja við suðurhlutann, ekki kemur þó fram í hverju sú viðbygging felst en fram kemur í Húsakönnun 1995 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 93) að þá hafi suðurhlutinn verið hækkaður, væntanlega til samræmis við nyrsta hluta hússins. Þá skagar syðsti hluti hússins eilítið út úr bakhlið upprunalega hússins, líkt og nyrsti hlutinn. Síðar var miðhlutinn hækkaður og húsið múrhúðað. Á tímabili var hluti norðurhluta hússins með háu risi og smáum kvisti en væntanlega fékk framhlið hússins núverandi útlit um 1964. Þá voru gerðar breytingar á húsinu, sem var í eigu Magnúsar Albertssonar, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Kemur þar fram að sá hluti hafi áður verið ein hæð og ris en ekki fullkomlega ljóst, hvort sú breyting sé þegar orðin eða hvort breytingarnar felist í því, að umræddur hluti sé hækkaður. Í téðri Húsakönnun frá 1995 kemur reyndar fram, að eftir 1920 hafi húsið allt verið orðið tvílyft og fengið það lag sem það enn hefur. Á ljósmynd frá 1931 má hins vegar sjá, að örlítil sneið af framhliðinni, líklega suðurhluti rishæðar upprunalega hússins, er með háu risi og kvisti. Það er allavega nokkuð ljóst, að oft hefur verið prjónað við Jónatans- og Eðvaldshúsið, sem byggt var 1885 og myndar nú nokkurs konar kjarna í Grundargötu 3.
Vegna mikilla breytinga hlýtur húsið ekki hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020 en er engu að síður hluti varðveisluverðrar heildar. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, en elsti hluti þess er í hópi allra elstu húsa Oddeyrar. Grundargata 3 er dæmi um hús, sem tekið hefur miklum breytingum og verið byggt í mörgum áföngum á mörgum áratugum. Miklar viðbyggingar og breytingar frá upphaflegri gerð hafa að öllu jöfnu áhrif á metin varðveislugildi húsa og teljast þá sjaldnast til tekna. En óneitanlega er það svo, að margviðbyggð og margbrotin hús eru ekkert síður áhugaverð. Margar og miklar viðbyggingar segja vissa sögu og oft skapa síðari tíma viðbyggingar viðkomandi húsum sérstöðu og gera þau í raun einstök. Myndirnar eru teknar 27. október 2023.
Tilgátuteikning höfundar af byggingaþróun Jónatans-og Edvaldshúss" eða Grundargötu 3. Á teikningunni er vitaskuld allir mögulegir fyrirvarar, t.d. varðandi kvisti, gluggapósta og dyrarskipan.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 70, 1885 (ódagsett). Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 374, 10. janúar 1913. Fundur nr. 387, 10. feb. 1913 Fundur nr. 476, 19. maí 1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 430
- Frá upphafi: 440787
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 208
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.