Hús dagsins: Lundargata 11

Þann 9. febrúar árið 1898 brá Bygginganefnd Akureyrar sér, einu sinni sem oftar, út á Oddeyri. Erindi hennar var að mæla út lóð undir tvö hússtæði. Annars vegar  var mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar. Hins vegar mældi Bygginganefnd út fyrir húsi sem Jón Guðmundsson skósmiður ætlaði að byggja, 12 álnir á lengd og 9 álnir á breidd. Skyldi húsið vera norður af húsi Björns Ólafssonar (Lundargata 6) og í línu við norðurstafninn á húsi sr. Péturs Guðmundssonar (Lundargata 9).IMG_2689

Lundargata 11 er einlyft timburhús með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti á framhlið. Á bakhlið er einnig kvistur og útskot og er þar um að ræða nýlegar viðbætur. Bárujárn er á þaki en á veggjum er steinblikk og það sem meira er, tiltölulega nýlegt steinblikk, sem er nokkuð einstakt en nánar um það hér síðar. Húsið mun 7,68x5,78m  að grunnfleti. Útskot á bakhlið er 93 cm breitt og 5,40m að lengd (skv. teikningum Ólafs Jakobssonar).

    Ekki virðist Jón Guðmundsson skósmiður, sem byggði húsið, hafa átt heima þar lengi því í Manntali 1902 er hann ekki sjáanlegur þar. Skiptist húsið þá í tvo eignarhluta og eigendur þeirra voru Finnur Björnsson skipstjóri og Jórunn Sigurjónsdóttir annars vegar og Guðmundur Helgason sjómaður og Kristín Guðmundsdóttir hins vegar. Svo sorglega vill til, að fáeinum mánuðum eftir að umrætt manntal var tekið, fórst Finnur Björnsson með skipi sínu, Oak, í mars 1903 við átjánda mann. Þess má geta, að bróðir Finns, Sigmundur Kristinn Björnsson, bóndi á Syðri-Hóli í Öngulsstaðahreppi, var langafi greinarhöfundar.   

    Af Jóni Guðmundssyni skósmiði er það annars að segja, að hann var fæddur árið 1858 (í manntölum er hann yfirleitt sagður yngri en á islendingabok.is er fæðingarárið 1858) og uppalin á Múla í Kirkjubólsþingi. Einhvern tíma á bilinu 1880-90 flyst hann til Akureyrar þar sem hann kvæntist Skagfirðingnum Sigurborgu Kristbjarnardóttur (1863-1923) en hún var árið 1880 vinnukona í svokallaðri „Stóru Strandgötu“ á Oddeyri. Þau Jón og Sigurborg hafa ekki búið lengur en þrjú ár í húsinu við Lundargötu 11 en árið 1901 eru þau til heimilis í húsi nr. 4 við sömu götu. Fimmtán árum síðar, þ.e. 1916, reisti Jón Guðmundsson hús við Oddeyrargötu og hafði þá tekið upp ættarnafnið Ísfjörð. Eftir lát Sigurborgar, 1923, fluttist Jón til Siglufjarðar þar sem hann stundaði skósmíðaiðnina áfram meðan honum entist aldur og heilsa til. Jón Guðmundsson Ísfjörð lést á Siglufirði 8. október árið 1948,viku eftir níræðisafmæli sitt.

Árið 1917 var Lundargata 11 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, einlyft með porti, háu risi og kjallara. Á gólfi við norðurhlið eru 2 stofur og forstofa, við bakhlið eru tvö eldhús. Á lofti eru 3 íbúðarherbergi, eitt eldhús og geymsla. Kjallara er skipt í fjögur hólf og notaður til geymslu. Lítill skúr var við bakhlið. Grunnflötur er sagður 7,5x5,6m, hæð hússins 6,3m og 13 gluggar á húsinu. Veggir eru timburklæddir og járn á þaki. Einn skorsteinn er á húsinu og tengist hann tveimur kolaofnum og fjórum eldavélum. Eigandi árið 1917 var Jónasína Þorsteinsdóttir (sbr. Brunabótafélag Íslands 1917: nr.277).IMG_2698

    Árið 1916 fluttu í húsið þau Þorsteinn Þorsteinsson, bróðir téðrar Jónasínu, og kona hans Ásdís Þorsteinsdóttir. Þau leigðu hjá Jónasínu. (Þess má geta, að tæpum áratug síðar reisti Jónasína mikið steinhús á baklóð hússins, sem varð Gránufélagsgata 19). Þorsteinn var einn af frumkvöðlum í hálendisferðum um Ísland og einn af stofnendum Ferðafélags Akureyrar. Þau áttu soninn Tryggva, en nafn Tryggva Þorsteinssonar  kannast margir við. Hann var lengi vel skólastjóri Barnaskóla Akureyrar sem og félagsforingi Skátafélags Akureyrar um áratugaskeið. Endurminningar hans birtast í öðru bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið og segir hann þar m.a. frá íbúðaskipan Lundargötu 11.  Í bernskutíð Tryggva (1911-1975) skiptist húsið, sem hann segir vera á að giska 6x8m, í fimm íbúðarrými.  Á neðri hæð samanstóðu íbúðirnar af stofu og eldhúsi en í risi voru íbúðarrýmin stofa sem jafnframt var eldhús ásamt lítilli kompu undir súð. Þar var einnig gangur undir súð og kvistherbergi, 2,5x3m, en þar bjuggu Tryggvi og foreldrar hans. Þarna bjuggu alls 19 manns og nóg pláss fyrir gesti bætir Tryggvi við í frásögn sinni.

     Gefum Tryggva Þorsteinssyni orðið: „Tæknilegu þægindin í þessu húsi voru þau, að vatnskrani var í báðum eldhúsunum niðri, og einn krani á loftinu til afnota fyrir þær fjölskyldur sem þar bjuggu. Í eldhúsinu á neðri hæðinni voru tvær kolaeldavélar og tvær samskonar vélar í stofunum á suður- og norðurloftinu, en ein kabyssa var á kvistinum hjá okkur, svipuð og notuð var í mótorbátum. Vaskur var ekki til í húsinu, enda voru þá engar skólplagnir frá þeim húsum í bænum, sem ekki stóðu við sjó, en útikamar var við öll hús á Eyrinni. Baðherbergi, vatnssalerni og þvottahús voru þá eins og undur í öðrum heimi í hugum fólksins í Lundargötu 11, og varla að orðin væru til í máli þess. Auðvitað var ekkert rafmagn í húsinu okkar og lamparnir reyndar af smærra taginu. [...] En þrátt fyrir allt var eitthvað stórt og gott við Lundargötu 11 og íbúa þess. Þegar ég var barn skildi ég ekki hvað þetta var, en nú veit ég að það var umburðarlyndi, hjálpsemi og glaðværð fólksins, sem ekkert fékk bugað“ (Tryggvi Þorsteinsson 1973. 79-80).

     Handan Lundargötu, í  Lundargötu 10, bjó á þessum tíma Gunnar nokkur Guðlaugsson trésmiður. Hann stóð fyrir skátastarfi meðal drengja á Oddeyrinni á þessum tíma og var á meðal frumkvöðla í því starfi á Akureyri. Gekk Tryggvi Þorsteinsson til liðs við skátasveit Gunnars ungur að árum og lýsir hann mörgum ævintýrum þeirrar sveitar í bókinni Varðeldasögur, sem Skjaldborg gaf út árið 1973. Gunnar Guðlaugsson flutti einnig inn frá Bandaríkjunum svokallað steinblikk. Um er að ræða blikkþynnur, sem mótaðar eru þannig að minnir á múrsteinahleðslu og þannig fær klæðningin nafn sitt. Klæðning þessi, eða sams konar, mun enn framleidd þar vestra í verksmiðjunni W.F. Norman í borginni Nevada í Missouri ríki. Steinblikkið er nokkuð algengt á gömlum timburhúsum á Akureyri og nærsveitum, en næsta sjaldgæft annars staðar, og mun það stafa af því, að blikkið var nær eingöngu flutt inn til Akureyrar. Það hafa þannig verið hæg heimatökin fyrir Jónasínu Þorsteinsdóttur að verða sér út um steinblikkið, þegar það var sett á húsið, líklega um 1925-30. Jónasína Þorsteinsdóttir mun hafa átt húsið og leigt út, a.m.k. til ársins 1944 en í janúar það ár auglýsir hún húsið til sölu.  Ekki fylgir sögunni hver kaupir, en um miðja öld er Ólafur Rósinantsson frá Syðra Brekkukoti í Arnarneshreppi búsettur í húsinu og til dánardægurs 1967. Ári síðar er norðurhluti hússins auglýstur til sölu. Ljóst er, að margir hafa átt og búið í húsinu gegnum árin og áratugina.

 p3040043.jpg

Lundargata 11 er enn klædd steinblikki en hefur þá sérstöðu, að á húsinu er klæðningin nýleg.  Á árunum 1993-2000 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu, að innan jafnt sem utan. Stóðu þáverandi eigendur í stórræðum við að finna þessa klæðningu, sem var svo algeng á akureyrskum timburhúsum á fyrri hluta 20. aldar. Eftir mikla rannsóknarvinnu kom í ljós, að klæðningin var enn framleidd í sömu amerísku verksmiðjunni sem Gunnar Guðlaugsson skipti við forðum og fluttu eigendur hússins steinblikkið sérstaklega inn. Svo sannarlega aðdáunarvert framtak. Framkvæmd þessi hlaut viðurkenningu Húsverndunarsjóðs Akureyrar árið 2002. Endurbætur þessar á húsinu voru gerðar eftir teikningum Ólafs Jakobssonar.

    Í Húsakönnun 1990 fær húsið þá umsögn að „það sé í góðu lagi“ og „[…] mikilvægt fyrir heildina og hefur því varðveislugildi“ (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:57). Þetta mat er staðfest í Húsakönnun 2020 þar sem húsið hlýtur varðveislugildi sem eitt af eldri húsum Akureyrar og falli vel inn í heildstæða götumynd Lundargötu (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:76). Og að sjálfsögðu er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Lundargatan er ein af heildstæðustu og áhugaverðustu götumyndum bæjarins og ætti auðvitað að friða hana eins og hún leggur sig! Þess má geta að við fáar götur á Akureyri er meðalaldur húsa jafn hár og í Lundargötu, en af þrettán húsum götunnar eru aðeins tvö byggð eftir 1900!

Myndirnar eru teknar 4. mars 2010 og 22. október 2024.

Sem fyrr segir mældu bygginganefndarmenn út tvær lóðir og hússtæði þennan febrúardag veturinn 1898. Við vitum ekki í hvaða röð bygginganefnd mældi út lóðirnar tvær en útmælingin fyrir Jón Guðmundsson var númer 2 í fundargerðinni.  Þannig má gera ráð fyrir, að fyrst hafi þeir mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar, spölkorni austar. Og við þessa lóð, sem bygginganefndarmenn mældu út fyrir Medúsalem, berum við niður í næsta „Húsi dagsins“…  

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Tryggvi Þorsteinsson, Erlingur Davíðsson skráði.  Aldnir hafa orðið II bindi (bls. 76-113)  Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og núlli?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband