Hús dagsins: Norðurgata 4

Þann 22. mars árið 1897 afgreiddi bygginganefnd Akureyrar sameiginlegt byggingaleyfi til þriggja manna vegna bygginga við Norðurgötu. Gatan hét reyndar ekki Norðurgata þá og var eftir því sem greinarhöfundur kemst næst nafnlaus. Bygginganefnd talar einfaldlega um „þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar“ (þá er nú Norðurgata ólíkt þjálla heiti). Þessir þrír voru þeir Þorvaldur Guðnason skipstjóri, Ólafur Árnason og Jón Jónatansson. Þorvaldur hafði rúmum áratug fyrr reist hús við sömu götu en hugðist nú reisa nýtt. Þeir síðarnefndu reistu eitt hús í sameiningu, sem skiptist í tvo eignarhluta.  P6191002

Norðurgata 4 er einlyft timburhús á lágum steinkjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan. Á bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og stór kvistur með sams konar þakgerð og nær hann yfir drjúgan hluta þekjunnar. Mætti eiginlega segja, að risinu hafi verið lyft. Járn og steinblikk er utan á húsinu. Í flestum gluggum eru einfaldir þverpóstar í gluggum en á bakhlið eru einnig lóðréttir póstar. Grunnflötur hússins mælist nærri 9x11m, þar af er bakbygging um 4 metra breið. 

Ólafur Árnason og Jón Jónatansson reistu semsagt húsið í sameiningu árið 1897. Byggingaleyfi þeirra var sem fyrr segir afgreitt samhliða byggingaleyfi Þorvalds Guðnasonar. Þorvaldur fékk að reisa hús, 9 álnir austan við „þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar” og 60 álnir frá Strandgötu. Gert var ráð fyrir að hús Þorvalds yrði 14x10 álnir að grunnfleti. Ólafur og Jón fengu að reisa sitt hús, 9 álnir norður af fyrirhuguðu húsi Þorvalds, en þeirra hús sagt 12x10 álnir með kvisti. Raunin hefur hins vegar orðið sú, að bæði húsin eru jafn löng og líkast til eru þau sama hönnun. Ekki liggja fyrir upprunalegar teikningar af húsunum – ekki einu sinni víst að húsin hafi verið teiknuð yfirleitt – en álitið að Snorri Jónsson hafi komið að hönnun og byggingu húsanna. Þetta sama sumar reisti Snorri einmitt stærsta hús Oddeyrar og líklega á allri Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, á horni Strandgötu og „þvergötunnar út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar”.  IMG_2685

Ólafur Árnason var sjómaður, fæddur á Siglufirði, sagður í manntali 1901 fiskimaður á þilskipi og bát. Hann var kvæntur Guðlaugu Jónsdóttur, sem fædd var í Barðssókn í Norðuramti. Þau reistu norðurhluta hússins og bjuggu þar. Jón Jónatansson, sem reisti og átti suðurhlutann var Þingeyingur og hafði áður verið bóndi í Skriðulandi í Aðaldal. Þá hafði hann einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður „aukapóstur“ í manntali. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn. 

Árið 1901 búa í húsinu 10 manns: Ólafur og Guðlaug í norðurhluta, Jón og Guðrún Sesselja ásamt börnum þeirra, Sigurborgu og Kristjáni, í suðurhlutanum. Þess má geta, að umræddur Kristján stofnaði rúmum áratug síðar Brauðgerð Kr. Jónssonar, síðar þekkt sem Kristjánsbakarí.  Auk framangreindra voru tvær ungar konar, þær Valgerður Sigurðardóttir, 24 ára ógift, og Lilja Daníelsdóttir 26 ára ekkja, búsettar hér. Einnig búa hér ung hjón, Páll Markússon og Soffía Sigurlína Jónsdóttir ásamt Kristjáni, tveggja ára syni þeirra. Það kemur ekki fram í hvorum húshluta íbúar eru búsettur en væntanlega hafa konurnar og þriðja fjölskyldan leigt herbergi af Ólafi eða Jóni, mögulega í risinu. Páll Markússon var  múrarameistari og kom að byggingu ýmissa húsa, m.a. fyrsta skólahúss Glerárþorps og Gefjunarhúsinu mikla á Gleráreyrum (síðarnefnda húsið var því miður jafnað við jörðu í ársbyrjun 2007 þegar Glerártorg var stækkað).

Jón Jónatansson flutti ásamt fjölskyldu sinni í nýreist hús við Grundargötu árið 1903 og bjó þar um nokkurt árabil. Svo vildi til, að alnafni hans, Jón Jónatansson járnsmiður hafði reist húsið og líklega seP9100041lt nafna sínum það nýreist. Ólafur Árnason fluttist úr Norðurgötu 4 árið 1906 er hann reisti hús við Gránufélagsgötu.  Árið 1906 voru eigendur hússins þær Þóra Guðnadóttir og Sigurveig Kristjánsdóttir. Þær eru skráðar fyrir húsinu öllu en virðast samkvæmt manntali búa í sama íbúðarrými, ásamt móður Sigurveigar, Björgu Guðmundsdóttur, Jóhönnu Hansdóttur vinnukonu og Kristjáni Þorgilssyni, smíðapilti. Þrjár íbúðir virðast í húsinu og í hvorri þeirra eru búsettar Vilhelmínur tvær, báðar titlaðar húskonur. Vilhelmína Ólafsdóttir deilir íbúðarrými með Steinunni Kristjánsdóttur sem einnig er húskona en nafna hennar Kristjánsdóttir býr hér með uppkomnum sonum sínum, Tryggva Jónassyni og Ármanni Björnssyni. Hvers notar höfundur hugtakið  íbúðarrými en ekki bara íbúð? Það er einfaldlega vegna þess, að ekki liggur fyrir hvort um ræðir eitt herbergi eða íbúð. Sennilegra er, að hver íbúð hafi í raun aðeins verið eitt eða tvö herbergi, þegar í hlut á hús eins á borð við Norðurgötum 4. Í manntölum er ekkert slíkt gefið til kynna, heldur aðeins lárétt strik í upptalningu íbúa, þar sem um aðskilin íbúðarrými er að ræða. Á fyrstu áratugum 20. aldar eru að öllu jöfnu 2-3 fjölskyldur eða samleigjendur skráðir til heimilis í Norðurgötu 4 og raunar flestum húsum á Oddeyri.  

Í árslok 1916 var Norðurgata 4 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: „Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi á kjallara, lítill skúr við bakhlið. Á gólfi við framhlið 2 stofur og forstofa, bakhlið 2 eldhús. Á lofti 2 íbúðarherbergi, eldhús og forstofa. Kjallari skiptist í fernt. 1 skorsteinn“ (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.190). Húsið var sagt 7,4m á lengd, 6,3m á breidd og 6,3m á hæð og á því voru 13 gluggar. Veggir voru timburklæddir og þak járnvarið. 6 kolaofnar og 3 eldavélar voru í húsinu. Eigandi var Sigurveig Kristjánsdóttir (sbr. Brunabótafélag 1916: nr. 190). Elstu varðveittu teikningar að húsinu eru frá því um 1922, en þá var Rafveita Akureyrar tekin í gagnið og gerðar raflagnateikningar fyrir öll hús bæjarins. Þar er herbergjaskipanin nokkurn veginn í samræmi við lýsingu brunabótamatsskýrslunar, og sést, að gengið hefur verið inn í norðurhlutan um bakdyr inn í eldhús. Þá hefur verið smár kvistur á bakhlið og eldhús þar.   

Árin 1936 og 1937 var byggt við húsið til austurs (þ.e. við bakhlið)nor_urgata_2_4.jpg Enda þótt um eina viðbyggingu virðist að ræða er það svo, að byggt var við húsið í tvennu lagi og meira segja var um tvær teikningar eftir tvo hönnuði að ræða. En það var árið 1936 sem Kristján Jónsson fékk að byggja við suðurhluta hússins, 3,70x4,20m að stærð. Byggingin yrði úr timbri ofan kjallara. Teikningarnar að viðbyggingu Kristjáns gerði Tryggvi Jónatansson. Ári síðar fékk Sigurveig Kristjánsdóttir að byggja við sinn hluta, þ.e. norðurhlutann, og sú bygging yrði 3,8x3,8m. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Halldór Halldórsson. Mismunurinn á þessum málum virðist koma til af því, að nyrðri eignarhlutinn er 40 cm mjórri en sá syðri. Mögulega hefur húsið verið járnvarið á sama tíma og byggt var við en  það gæti hafa verið klætt eitthvað fyrr.  Árið 1916 var húsið alltént timburklætt, sbr. Brunabótamat hér að framan. Líkast til hefur risinu verið lyft að aftan um svipað leyti og byggt var við. Rétt er að taka fram, að sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta hússins árið 1936 var ekki sá hinn sami og átti hér heima sem barn og gerðist síðar bakari. Sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta Norðurgötu 4 á þessum árum var bílstjóri og verkamaður. Hann fæddur árið 1897 (m.ö.o. jafnaldri Norðurgötu 4) í Baldursheimi í Svalbarðsstrandarhreppi en fluttist ársgamall í Ytra-Krossanes í Glæsibæjarhreppi. Kristján var systursonur téðrar Sigurveigar.  

Sigurveig Kristjánsdóttir átti húsið eða hluta þess í meira en hálfa öld, eða til æviloka. Hún lést, 5. maí 1958 og vantaði þá tæpar fjórar vikur í 96 ára afmæli sitt, en hún var fædd 31. maí 1862 í Meðalheimi á Svalbarðsströnd. Kristján Jónsson var einnig búsettur hér til æviloka en hann lést árið 1965. Íbúafjöldi hússins gegnum tíðina skiptir eflaust hundruðum – ef ekki þúsundum – þótt eigendaskipti hafi ekki endilega verið mjög tíð. Enn er húsið tveir eignarhlutar og tvær íbúðir, eignahlutaskipti fyrir miðju og hefur svo verið frá upphafi enda þótt íbúðarrými hafi einhvern tíma verið fleiri.  

Árið 2022 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi prófessor, hana Sigrúnu Rögnu Úlfsdóttur sem þá hafði nýlega fest kaup á suðurhluta Norðurgötu 4, og ræddi við hana um húsið. Viðtalið við Sigrúnu Rögnu var tekið fyrir bók Kristínar og undirritaðs, Oddeyri Saga hús og fólk sem kom út 2023 (og er enn fáanleg). Sigrún hafði á orði, að henni hafi ekki litist sérlega vel á ástand hússins í upphafi en fann strax góðan anda í því, svo efasemdirnar dofnuðu. Þó var ljóst að ýmislegt þyrfti að framkvæma, breyta og bæta. Hún leigði húsið út á tímabili og leigjendur fundu einnig fyrir þessum góða anda enda þótt einhverjir létu einnig í ljós að ýmislegt væri fremur frumstætt. Gefum Sigrúnu Rögnu orðið: „Ég nýt þess að taka eldhúsið og baðið í gegn. Næsta verkefni verður að taka til í stofunni, sem áður fyrr var svefnherbergi. Hér gildir að þora að rífa og komast að því hvað hægt er að gera. Ég varð til dæmis mjög ánægð þegar ég sá panelinn á veggjunum en áttaði mig fljótt á því að það yrði mikið verk að laga hann, það gustaði líka inn um hann og svo kom reiðingurinn í ljós“ (Sigrún Ragna Úlfsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson) 2023:109). Sem fyrr segir varð Sigrúnu Rögnu tíðrætt um góðan anda IMG_2681í húsinu sem hún og leigjendur fundu fyrir. (Hver veit nema andi þeirra Jóns og Ólafs eða Sigurveigar Kristjánsdóttur og Kristjáns systursonar hennar, eða annarra af mörgum eigenda og íbúa hússins svífi þar yfir vötnum. Það skal ósagt látið hér). 

Norðurgata 4 er látlaust en glæst hús og til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Norðurgata 2 og 4 p8280032.jpgeru augljóslega nokkurs konar tvíburahús en kvistir, gluggar, halli á risi og hlutföll bera þess merki, að um sömu eða alla vega mjög svipaða hönnun er að ræða.  Þessi tvö hús eru þó engu að síður gjörólík, m.a. vegna síðari tíma breytinga, en framhliðar þeirra eru sérlega samstæðar. Ysta húsið nr. 6, er örlítið frábrugðið þessum tveimur húsum, en það er reist ári síðar en nr. 2 og 4. Heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er þó  mjög samstæður og myndar skemmtilega sjónræna heild í þessari merku götu á Oddeyri.  Í húsakönnun 2020 hlýtur Norðurgata 4 miðlungs varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020:89). Meðfylgjandi myndir eru teknar á tæplega 20 ára tímabili; 21. janúar 2005, 28. ágúst 2010, 10. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024. 

 

Heimildir:  Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. 

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917.Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu. 

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 140, 22. mars 1897. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 773, 27. apríl 1936. Fundur nr. 803, 13. ágúst 1937. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995.  Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf 

Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson. 2023. Oddeyri Saga hús og fólk. Akureyri: höfundar gáfu út. 

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og þremur?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2796
  • IMG_2685
  • IMG_2681
  • P6191002
  • jolakvedja II 24

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 384
  • Frá upphafi: 439739

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 289
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband