15.2.2025 | 14:40
Hús dagsins: Aðalstræti 52
Fjórir áratugir skilja að elsta og næstelsta hús Akureyrar svo vitað sé með vissu. Það er líklegt að þriðja og fjórða sætið hvað elstu hús bæjarins varðar, deilist milli tveggja eða jafnvel þriggja húsa, það er Aðalstrætis 44, Aðalstrætis 52 og Frökenarhúss við Lækjargötu 2a (það hús snýr raunar að Aðalstræti). Öll þessi hús munu byggð 1840 en líklegt getur talist að Frökenarhúsið hafi risið 1839. Uppruni þessara húsa er nokkuð óljós, enda húsin byggð löngu áður en Bygginganefnd Akureyrar tók til starfa. Hvað Aðalstræti 52 varðar er talið nokkuð víst að Wilhelmína Lever hafi reist það á þessum stað árið 1852 en suðurhluti hússins talinn reistur í Skjaldarvík og fluttur hingað, mögulega 1840. Svo eru heimildir fyrir því, að þessi lóð muni hafa verið óbyggð fram yfir 1850. Hvenær það var reist í Skjaldarvík veit í raun enginn en skráð byggingarár hússins er 1840. Kannski er húsið jafnvel eldra en svo? Látum það liggja milli hluta í bili, en Aðalstræti 52 er á meðal allra elstu húsa Akureyrar og eitt það elsta, sem búið er í.
Aðalstræti 52 er einlyft timburhús með háu og bröttu risi, grindarhús eða bindingshús, sem stendur á lágum steingrunni. Á bakhlið hússins er viðbygging, einlyft úr timbri með lágu risi og tengjast húsin með tengibyggingu eða gangi. Á framhúsinu er timburklæðning, svonefnd listasúð og bárujárn á þaki. Lóðrétt timburklæðning er á bakhlið og bárujárn á þaki. Syðsti hluti viðbyggingar er með glerjuðum veggjum, nokkurs konar sólskáli. Grunnflötur framhúss er 6,14x12,71m, viðbygging er um 4,60x15,10m og tengibyggingin 2,40x3,50m.
Wilhelmína Lever var fædd á Reyðarfirði árið 1802, dóttir Hans Levers, sem þar gegndi stöðu verslunarstjóra hjá Kyhnsverslun og Þuríðar Sigfúsdóttur. Ári síðar fluttist Hans Lever til Akureyrar þar sem hann tók við verslunarstjórastöðu hjá sömu verslun. Hann mun fyrstur manna hafa kynnt Akureyringum kartöflurækt. Wilhelmína giftist árið 1822, Þórði Daníelssyni frá Skipalóni, bróður hins valinkunna byggingameistara Þorsteins Daníelssonar. Það hjónaband gekk ekki sem best; Þorsteinn kærði Wilhelmínu fyrir endurtekin hjúskaparbrot, sem á móti skildi við hann að lögum. Mun þetta hafa verið fyrsti lögskilnaður hjóna hérlendis en engu að síður var Wilhelmína ítrekað titluð madamma Danielssen, eftir fyrrum eiginmanni sínum í manntölum. Árið 1834 reisti Wilhelmína hús á lóðarspildu við norðurmörk þáverandi kaupstaðar og hóf að reka þar verslun og veitingastað. Lóðina hafði faðir hennar keypt úr landi Stóra Eyrarlands. Þetta var væntanlega fyrsta skipti sem kona stóð fyrir húsbyggingu á Akureyri. Hús þetta brann árið 1903 og stóð þar sem nú er Hafnarstræti 23. Wilhelmína efnaðist vel á verslun sinni og var árið 1840, tíunda í röð þeirra, sem hæst útsvar greiddu á Akureyri. Sex árum síðar keypti Þorsteinn Daníelsson, fyrrum mágur Wilhelmínu, verslunina af henni og fluttist Wilhelmína að Krossanesi þar sem hún bjó til ársins 1852 (sbr. Gísli Jónsson 1981:11).
Frá Krossanesi fluttist hún aftur til Akureyrar og hóf aftur veitingarekstur. Að þessu sinni kom hún sér fyrir sunnarlega í Fjörunni, í húsinu sem löngu síðar hlaut númerið 52 við Aðalstræti. Það gæti vel hugsast, að Wilhelmína hafi fengið húsið flutt úr Skjaldarvík og reist það þarna en mögulega var húsið þegar komið. Kannski hefur Þorsteinn, fyrrum mágur hennar, haft hönd í bagga, við bygginguna? Kenningar eru uppi um, að húsið hafi verið reist á þessum stað árið 1840 og jafnvel byggt enn fyrr í Skjaldarvík og þaðan flutt hingað. Þá þykir höfundi freistandi að álykta, að húsið hafi verið reist um svipað leyti eða samhliða Skjaldarvíkurstofunni sem Ólafur Briem, timburmeistari á Grund, reisti 1835. Það var næsta sjaldgæft, að byggð væru timburhús til sveita á fyrri hluta 19. aldar, önnur en kirkjur, og yfirleitt um að ræða veglegar og valinkunnar byggingar. Hjörleifur Stefánsson (1986:96) segir óljósar heimildir fyrir því, að íbúðarhús amtmanns hafi verið tekið niður og flutt hingað um 1840 en í uppfærðri húsakönnun 2012 eru heimildir sagðar fyrir því, að hér hafi ekki staðið hús fyrr en eftir 1850 (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: án bls.) Hvað kenninguna um íbúðarhús amtmanns í Skjaldarvík varðar, er það svo, að árið 1840 sat amtmaður Norður- og Austuramts, Bjarni Thorarensen, á Möðruvöllum. Íbúðarhús hans, sem byggt var 1826, kallaðist Friðriksgáfa og var svo sannarlega ekki flutt, heldur brann það árið 1874. Getur verið, að Bjarni hafi átt annað hús eða bústað, í Skjaldarvík? Sá sem þetta ritar hefur alltént engar forsendur eða heimildir sem útiloka það eða staðfesta: Kannski byggði Bjarni Thorarensen suðurhluta Aðalstrætis 52? Núverandi eigandi hússins er með ákveðnar tilgátur um uppruna hússins, sem greint verður frá í lok þessarar greinar.
Árið 1855 er Wilhelmína skráð í manntali til heimilis á Akureyri og sögð lifa af verzlun. Þá er því þannig háttað, að Akureyri verzlunarstaður kemur fyrir í manntali eins og hvert annað hús eða býli: 206 íbúar bæjarins birtast í einum lista og engin skýr aðgreining er á húsum bæjarins, önnur en sú að 44 hús eða íbúðir eru aðgreindar með tölunni 1. Wilhelmína, sonur hennar Hans Wilhelm (H.W.), fósturdóttur hennar, Wilhelmína Pálsdóttir og vinnufólkið Sigríður Einarsdóttir og Benedikt Sigurðsson eru búsett í fjórða síðasta íbúðarrými bæjarins á manntalinu, svo mögulega hefur röð þessi verið húsaröð frá norðri til suðurs. Wilhelmína Lever átti hér heima í sjö ár en árið 1859 seldi hún húsið Sveini Skúlasyni. Fjórum árum síðar vann Wilhelmína sér það til frægðar, að kjósa í bæjarstjórarnarkosningum. Var það árið 1863, meira en hálfri öld áður en konur fengu kosningarétt. Tilmæli um kosningarétt voru skýr; allir fullmyndugir menn, á dönsku fullmundelig mænd höfðu kosningarétt. En á milli dönsku og íslensku er sá merkingarmunur, að mænd þýðir karlmaður en maður á íslensku nær yfir allt mannfólk, hvers kyns sem það er. Wilhelmína var þannig að sjálfsögðu maður. Hér má sjá myndir úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, sem farin var um Innbæinn fyrir um áratug. Það er Fanney Valsdóttir, sem þarna ávarpar þátttakendur, sem Wilhelmína Lever og við hlið hennar
er leiðsögumaðurinn Hanna Rósa Sveinsdóttir. Sveinn Skúlason hafði flutt til Akureyrar þremur árum fyrr og tekið við ritstjórn og prentun á blaðinu Norðra, sem hóf göngu sína sama ár og Wilhelmína fluttist hingað, þ.e. 1852. Upphafsmaður blaðsins og prentverksins var Björn Jónsson en hús hans er núna Aðalstræti 50, næsta hús norðan við. Sveinn tók við ritstjórn og prentverki Björns og fljótlega eftir að hann keypti húsið af Wilhelmínu flutti hann prentverkið milli húsa. Hann mun hafa lengt húsið til norðurs og húsið þá væntanlega fengið það lag sem það hefur æ síðan. Greinarhöfundi þykir freistandi að giska á, útidyr á framhlið séu nokkuð nærri mörkum upprunalegs húss og viðbyggingar frá 1860.
Til byggingarframkvæmda réði Sveinn, Jón Chr. Stephánsson byggingameistara. Árið áður hafði hann unnið sér það til frægðar, að reisa eitt stærsta hús bæjarins á þeirri tíð, nánar tiltekið apótek bæjarins. Var það ekki aðeins stærra að grunnfleti og hærra en tíðkaðist heldur stóð þá á lágum hól neðst í Búðargili og tróndi þannig yfir lágreistu byggðinni á Akureyri. En viðbyggingin við hús Skúla, ný húsakynni prentverksins og Norðra, var dýr og Sveinn lenti í miklum skuldum við byggingameistarann. Í ofanálag gekk rekstur blaðsins illa, prentverkið var aðeins fáein misseri í húsinu (til 1861) og í maí 1862 eignaðist Jón Chr. húsið þegar Sveinn seldi honum það upp í skuldirnar.
Jón Christian Stephánsson var mikilvirkur skipa- og húsasmiður og teiknaði og byggði mörg veglegri hús bæjarins og víðar. Í norðurhluta hússins hafði hann smíðaverkstæði en reisti einnig lítinn skúr, áfastan húsinu, þar sem hann hafði einnig ljósmyndavinnustofu. Á meðal verka hans voru m.a. Akureyrarkirkja hin eldri (1862), Möðruvallakirkja í Hörgárdal (1865), svokallaður Jensensbaukur (1885), samkomuhús Templara á Barðsnefi (1896) og apótekið mikla árið 1859. Af þessum húsum standa aðeins Möðruvallakirkja og Apótekið enn, Jensensbaukur brann til ösku í desember 1901 og samkomuhúsið gamla nánast réttum 50 árum síðar, í janúar 1952. Akureyrarkirkja hin eldri var hins vegar rifin um 1943 og einhvern tíma heyrði sá sem þetta ritar, að bændur úr nágrannasveitum hafi fengið viðinn úr henni; kirkjuna væri þannig að finna í pörtum víðs vegar í hlöðum, útihúsum og skemmum. Það má gefa sér, að öll þessi hús, hafi Jón teiknað innan veggja Aðalstrætis 52, að undanskildu apótekinu; hann var ekki fluttur hingað þegar hann teiknaði það. Nokkrar teikningar Jón Chr. hafa varðveist og eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins. Jón var mikill áhugamaður um trjárækt og hóf trjáræktun hér við hús sitt árið 1890. Garður hans var sagður fyrsti trjágarður Akureyrar og enn standa tré frá Jóni á lóðinni, orðin meira en 120 ára gömul!
Jón Christian Stephánsson, sem fæddur var í Hrísey árið 1829 átti hér heima til dánardægurs árið 1910. Eignaðist ekkja hans, Jóna Kristjana Magnúsdóttir húsið og er hún skráð eigandi þess í manntali 1911. Þá eru búsett hér Svava, dóttir Kristjönu og Jóns og maður hennar, Baldvin Jónsson. Ári síðar er Baldvin skráður eigandi ásamt tengdamóður sinni og árið 1913 er Baldvin einn eigandi hússins. Það var í tíð Baldvins Jónssonar, í nóvember 1916, að matsmenn Brunabótafélags Íslands tóku húsið út og lýstu svo: Íbúðarhús einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi undir framhlið eru 3 herbergi. Á bakhlið 2 herbergi, eldhús og búr. Á lofti 2 herbergi, eldhús og geimslu[svo]herbergi. Áfast við enda hússins er skúr (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 24). Í húsinu voru fjórir kolaofnar og ein eldavél. Veggir voru timburklæddir og pappi á þaki, grunnflötur 12,5x6,3m og húsið 5,2m á hæð og á því 16 gluggar. Skúr við norðurhlið var tveggja metra hár, 5x3m á grunnfleti. Einhvern tíma á 3. áratug 20. aldar voru gerðar teikningar af innra skipulagi hússins á vegum Rafveitu Akureyrar og eru þær líklega elstu varðveittu teikningar af Aðalstræti 52.
Fyrrnefnd Baldvin og Svava bjuggu hér til ársins 1930. Árið 1928 eru Baldvin, Svava, Guðrún Vigfúsdóttir móðir Baldvins, og fjögur börn þeirra skráð til heimilis í Aðalstræti 52. Í dálkinum þar sem tilgreindir eru húseigendur, stendur skráð: Jóhannes Ólafsson með 7 manns. Jóhannes er hvergi nefndur í manntali 1929 en árið 1930 er hann orðinn eigandi hússins. Það er skemmst frá því að segja, að ekki hafa eigendaskipti verið tíð þessa tæpu öld sem liðin er frá því að Jóhannes fluttist hingað, því frá 1939 voru eigendur hússins Rósa, dóttir Jóhannesar, og hennar eiginmaður Halldór Jakobsson.
Núverandi eigendur hússins þau, Hallgrímur Indriðason og Kristín Aðalsteinsdóttir keyptu húsið af Rósu og Halldóri árið 1987 og endurbyggðu með miklum myndarskap. Greinarhöfundur hitti þau að máli og innti m.a. upplýsinga um upplifun og sögur af húsinu. Téður greinarhöfundar þekkir vel til þeirra en hann vann ásamt Kristínu að bókinni Oddeyri saga hús og fólk á árunum 2022-23. Þau Hallgrímur og Kristín fluttu hingað inn sumarið 1987 og vorið eftir hófust þau handa við viðbyggingu á bakvið, sem og endurbætur innandyra í eldri hluta hússins. Þverpóstagluggum var skipt út fyrir sexrúðuglugga og í stað steinblikks kom listasúð á útveggi. Teikningar að viðbyggingunni og endurbótunum gerði Hjörleifur Stefánsson og mæltist húsfriðunarnefnd til þess, að hann myndi vinna teikningarnar. Hjörleifur hafði þá nýlega lokið við og gefið út mjög veglega húsakönnun um Innbæinn (þar að ræða bókina Akureyri Fjaran og Innbærinn útg. 1986, sem höfundur vitnar oft og iðulega í). Sú byggingaraðferð sem hér er viðhöfð er oftar en ekki tekin sem nokkurs konar skólabókardæmi um hvernig byggt skuli við friðuð hús. Gamla húsið fær notið sín að fullu og skilin milli eldra húss og viðbyggingar eru mjög skörp og greinileg. Kristín og Hallgrímur eru á einu máli um að mjög góður andi ríki í húsinu og þykir líka ánægjulegt, hversu mörg hús hafa verið gerð upp í Innbænum í kjölfar framtaks þeirra.
Hér í upphafi voru reifaðar ýmsar kenningar um uppruna hússins. Á Hofi í Hörgárdal má finna Hofsstofu. Þar er um að ræða hús frá árinu 1828, sem Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni reisti. Hallgrímur nefnir, að þegar hann eitt sinn kom inn í Hofsstofu, tók hann eftir, að herbergjaskipan og innra skipulag hennar hafi verið allt að því nákvæmlega eins og upprunaleg herbergjaskipan Aðalstrætis 52. Þá tók hann eftir því, þegar hann var að rífa innan úr eldri hluta Aðalstrætis 52 og grindin kom í ljós, að á bjálkunum voru rómverskir stafir. Það bendir til þess, að húsið hafi mögulega komið tilhöggvið frá Noregi og verið sett saman. Kannski var suðurhluti hússins þannig nokkurs konar systurhús Hofsstofu, reist af Þorsteini Daníelssyni og forsmíðað í Noregi? Ef suðurhluti Aðalstrætis 52 er reistur samhliða Hofsstofu er byggingarárið 1828; sjö árum eldra en Gamli Spítalinn, sem annars er talinn næst elsta hús bæjarins!
Aðalstræti 52 er sérlega snoturt og snyrtilegt hús og til mikillar prýði í glæstri götumynd; sannarlega ein af perlum Innbæjarins. Þá er umhverfi þess einkar geðþekkt og prýtt gróskumiklum trjám og ýmsum gróðri m.a. meira en aldargömlum trjám frá tíð Jón Chr. Stephánssonar. Baklóð hússins nær langt upp í brekkurnar og þar er einnig mikil garðrækt: Þar rækta þau Hallgrímur og Kristín m.a. kartöflur, hinar ýmsu matjurtir og trjátegundir. Hefur þeim auðnast að halda húsi og lóð einstaklega vel við, þessa tæpu fjóra áratugi frá endurbyggingu hússins. Aðalstræti 52 er friðlýst í B-flokki árið 1978 eftir þjóðminjalögum frá 1978. Meðfylgjandi myndir eru teknar 29. maí 2010, 31. ágúst 2014, 18. júní 2015 og 11. febrúar 2025. Myndin af Hofsstofu er tekin 17. maí 2020.
Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Gísli Jónsson. 1981. Hún hafði gott hjarta. Þáttur af fyrstu konu, sem kaus á Íslandi. Í Íslendingi 18. desember 55. tbl. 66. árg.
Hallgrímur Indriðason og Kristín Aðalsteinsdóttir (munnlega heimildir). Samtal yfir kaffibolla í Aðalstræti 52, 11. febrúar 2025.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.3.): 81
- Sl. sólarhring: 85
- Sl. viku: 343
- Frá upphafi: 443194
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 158
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning