Hús dagsins: Eyrarlandsstofa

Í samhengi við Íslandssöguna er saga þéttbýlis á Akureyri ekkert sérlega löng en kannski ekkert sérlega stutt í samanburði við aðra þéttbýlisstaði landsins. Það var ekki fyrr en seint á 18. öld að vísir að þorpi tók að myndast á Akureyri, smárri eyri undir Búðargilinu, þar sem kaupmenn einokunarverslunarinnar höfðu haft aðsetur. Þegar leið á 19. öldina fór byggðin að teygja sig suður eftir fjörunni undir snarbröttum höfðanum og einnig risu hús í Búðargilinu. Hinar miklu lendur upp af gilinu norðanverðu og snarbrattri brekkunni í sjó fram út að Oddeyri og Glerá, ásamt Oddeyrinni sjálfri, var í raun eins og hver önnur bújörð í Hrafnagilshreppi. Eða öllu heldur, það svæði VAR bújörð í Hrafnagilshreppi, en átti sá hreppur merki við Glæsibæjarhrepp um Glerá. Umrædd bújörð var Stóra-Eyrarland, kallað svo til aðgreiningar frá bænum Eyrarlandi handan fjarðar, utarlega í Öngulsstaðahreppi 

Stóra-Eyrarland. Kostir, kynjar og örnefni IMG 2963

Jörðin Stóra-Eyrarland  (hér eftir ýmist nefnd Eyrarland eða Stóra-Eyrarland) á sér aldalanga sögu og munu elstu heimildir um hana, svo vitað sé, vera frá því snemma á 15. öld en væntanlega er jörðin miklu eldri. Kannski var hún byggð fljótlega eftir landnám Helga magra? Síðar byggðust hinar ýmsu hjáleigur og smábýli úr Stóra-Eyrarlandi og enn síðar íbúðahverfi úr löndum þeirra býla. Stóra-Eyrarlandi tilheyrði gjörvallur Glerárdalur sunnanmegin og landamerki jarðarinnar líkast til mestallur farvegur Glerár, frá upptökum til ósa, því Oddeyri tilheyrði Stóra-Eyrarlandi. Þá tilheyrðu jörðinni hólmar við ósa Eyjafjarðarár, kenndir við Eyrarland, Barð og Hamarkot. Að sunnan lá jörðin að  Naustum þar sem merkin lágu um Búðargil. Hér að framan segir mestallur farvegur Glerár, en ekki allur, því utar á lendum þessum milli Glerár og Nausta var  jörðin Kotá. Sú var þó jafnan nokkurs konar fylgijörð Stóra-Eyrarlands og eigendur oftar en ekki þeir sömu, en sjálfstæð jörð engu að síður. Merki Kotár og Eyrarlands virðast, af lýsingum að dæma, hafa verið nokkurn veginn þar sem nú er Þingvallastræti. Að austanverðu lá Kotá að landi Hamarkots, mögulega á svipuðum slóðum og nú er gatan Byggðavegur.  Bæjarhús Stóra-Eyrarlands stóðu nokkurn veginn þar sem nú er bílastæði norðan Sjúkrahússins. 

Af örnefnum í landi Eyrarlands má nefna Eyrarlandslaut sem mun nú í Lystigarðinum, Eyrarlandsholt, sem er nokkurn veginP4290523n þar sem nú er syðri hluti Byggðanna, Verkmenntaskólinn og Teigarnir.  Ofan Eyrarlandsholts eru svokallaðir Smáhólar og stendur Bónusverslun Naustahverfis nokkurn veginn við rætur þeirra, og um þá liggur Miðhúsabraut. Golfvöllur bæjarins er að hluta í svokölluðum Miðhúsaflóa og sunnar eru Miðhúsamýrar. Þá erum við komin að landi Nausta. Ofar eru Miðhúsaklappir,(sjá mynd) þar sem gæðingar akureyrskra hestamanna og fáeinar kindur fjárbænda bæjarins eiga sín skjól í Breiðholtshverfi. Heitir svo þar Breiðamýri ofan og vestan við.  Ofan Breiðumýrar rís há og brött fjallshlíð, Fagrahlíð. Hinar hömrum girtu fjallshlíðar undan Súlumýrum og norður að Glerárdalsöxl kallast svo einu nafni Eyrarlandsháls. Þrátt fyrir nafnið liggur Eyrarlandshálsinn að mestu í landi Nausta og Kjarna.  Norðan og ofan Eyrarlandsholts, þar sem nú er Lundarhverfi kallast svo Viðarholt eða Krossholt (áður Krossholt sbr, Eiríkur Eiríksson 1978P4290537:) og  út við Glerá, Réttarhvammur og Réttarhvammsmelur. Á þessum slóðum tekur land Kotár við. Ef við færum okkur svo aftur nær bæjarhúsum Stóra-Eyrarlands kemur fyrir örnefnið Undirvöllur, aflíðandi norður af brúnum Búðargils, þar sem nú liggur efri hluti Spítalavegar og Tónatröð.  Þessi örnefnakafli má e.t.v. heita nokkur útúrdúr en greinarhöfundur telur nauðsyn að halda á lofti og benda á þau örnefni sem til staðar eru í bæjarlandinu, þótt og kannski einmitt vegna þess, að sum hver séu horfin undir þéttbýli eða ummerki þeirra afmáð. Framangreint er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning á örnefnum í landi Stóra-Eyrarlands.  

Stóra-Eyrarland var jafnan talin mikil kostajörð og bændur þar oft vel stætt fólk. Við eigendaskipti upp úr miðri 17. öld var jörðin, ásamt Kotá, metin á 100 hundruða og fram á 18. öld var hér hálfkirkja eða bænhús. Hundruð var forn jarðaverðmatseining, þar sem 1 hundrað jafngilti einu kýrverði eða 120 álnum vaðmáls. Meðaljörð var löngum talin um 20 hundruð.   Úr Stóra-Eyrarlandi voru löngum byggðar hjáleigur; ber þar helst að nefna Barð, sem stóð steinsnar norðan bæjarins, á brún Barðsgils, og Hamarkot sem stóð nokkurn veginn þar sem nú er Ásvegur 26.  Hjáleigan Miðhús (sjá mynd af svipuðum slóðum) var farin í eyði þegar jarðabók var fyrst tekin saman árið 1712. Miðhús var hálfgert heiðabýli, stóð hátt ofan Eyrarlandsbæjar, líklega skammt neðan þar sem nú er hesthúsahverfið Breiðholt (Örnefnakort LMÍ staðsetur Miðhús um 150 metra austan Blesagötu í Breiðholtshverfi). Þá voru þrjár smáar hjáleigur í landi Eyrarlands sem nefndust Veisa, Gata og Svíri. Ekki liggur fyrir hvar þessi býli stóðu.  Af hinni fornu kostajörð stendur aðeins eitt mannvirki eftir, Eyrarlandsstofa. Hún stendur raunar ekki á sínum upprunalega stað en hún stóð spölkorni sunnar og ofar en hún er nú.  

Lýsing Eyrarlandsstofu 

Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús með háu risi og stendur á lágum steingrunni. Það er væntanlega grindarhús eða bindingshús og mun byggt úr eik að einhverju leyti.  Allt er húsið timburklætt, slagþil á veggjum og rennisúð á þaki. Sexrúðupóstar eru í gluggum. Grunnflötur er 9,59x5,42m.IMG 2966  

 

Tilurð Eyrarlandsstofu – tilgátur um byggingarár og smiði – Oddeyri úr Eyrarlandi 

Á Stóra-Eyrarlandi virðist löngum hafa verið tvíbýlt. Á 18. og 19. öld má ráða, að þar hafi oftar en ekki setið einn „aðalbóndi“ eða eigandi og einn eða tveir húsmenn. Árið 1829 flytja að Eyrarlandi hjónin Magnús Thorarensen (1804-1846) og Gertrud Thyrrestrup (1805-1864). Hann var sonur Stefáns Thorarensen, amtmanns á Möðruvöllum og var Magnús fæddur þar og uppalin. Gertrud var, eins og nafnið bendir til, dönsk, en var þó ekki fædd ytra heldur í Reykjafirði á Ströndum en faðir hennar, Christen Tyrrestrup, var kaupmaður þar. Gertrud var löngum nefnd Geirþrúður Thorarensen og verður það nafn notað hér eftir í þessari grein. Samkvæmt ábúendatali í Eyfirðingum bjuggu þau fyrstu fjögur árin á móti þeim Elíasi Friðrikssyni og Lilju Ólafsdóttur en á næstu árum sátu ýmsir að Eyrarlandi á móti þeim þá Magnúsi og Geirþrúði, sem voru eigendur jarðarinnar. Þau Magnús og Geirþrúður fluttu að Eyrarlandi í torfbæ sem þar stóð frá fornu fari. Í grein sinni Uppi á brekkunni bjó einnig fólk sem birtist í tímaritinu Heima er bezt segir Eiríkur Eiríksson: […]maddama Geirþrúður hefur ekki látið sér lynda slíkan húsakost [þ.e. torfbæinn], hún var vön honum betri í föðurgarði  (Eiríkur Eiríksson 1978:60). Því hafi Magnús staðið fyrir byggingu timburhúss með eikarloftum, það er Eyrarlandsstofu. Ef Magnús Thorarensen lét byggja Eyrarlandsstofu vandast málið nokkuð hvað varðar skráð byggingarár hennar. Eyrarlandsstofan er nefnilega sögð byggð 1848 en Magnús lést 1846!  

Eyrarlandsstofa hefur löngum verið talin verk Þorsteins Daníelssonar frá Skipalóni. Það má hins vegar færa rök fyrir því, að ólíklega hafi Þorsteinn Daníelsson sjálfur komið að smíði stofunnar árið 1844. Við hljótum að gera ráð fyrir, að húsgrindum hafi almennt verið komið upp að sumarlagi á þessum árum. Sumarið 1844 er hins vegar nánast óhugsandi, að Þorsteinn hafi staðið sjálfur að smíði Eyrarlandsstofu. Hvernig getur höfundur fullyrt svo? Jú, sumarið 1844 lagði Þorsteinn Daníelsson nefnilega nótt við dag, svo að segja bókstaflega, við kirkjusmíði á Munkaþverá. Gekk vinnuharkan svo fram af smiðum hans, að þeir fundu í meira lagi útsmogna leið til þess að ginna hann af svæðinu, svo þeir fengju rétt aðeins að kasta mæðinni (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Það er því ólíklegt, að Þorsteinn hafi á sama tíma byggt stofu á Eyrarlandi. En samkvæmt Eiríki Eiríkssyni (sbr. 1978:60) var það ekki Þorsteinn sem byggði stofuna heldur snikkarinn Magnús Elíasson, þá búsettur á Naustum. Hann var einmitt sonur Elíasar Friðrikssonar, sem hér bjó fyrstu ár þeirra Magnúsar Thorarensen og Geirþrúðar, samhliða þeim.  Það má hins vegar vera, að Þorsteinn Daníelsson hafi hannað og sagt fyrir um byggingu stofunnar. Við getum kannski ímyndað okkur, að gamni okkar, að Magnús hafi getað verið hinn rólegasti við byggingu Eyrarlandsstofu sumarið 1844, meðan hönnuðurinn var að píska kirkjusmiði áfram á Munkaþverá.   

Kannski var smíði Eyrarlandsstofu ekki lokið að fullu fyrr en 1848 enda þótt byggingin hafi hafist 1844. En þá var Geirþrúður Thorarensen orðin ekkja, því Magnús lést, sem fyrr segir árið 1846. Við arfskiptin var jörðin talin 52 hundruð, þar af var Barð 5 hundruð og Hamarkot 12 hundruð. Verðmatið var 1470 ríkisbankadalir. Kotá fylgdi, eins og löngum áður, með arfinum eftir Magnús og var metin á 20 hundruð. Árið 1850 seldi Geirþrúður, Birni Jónssyni verslunarstjóra, Oddeyrina úr landi Eyrarlands. Björn mun hafa keypt eyrina með „hagsmuni Akureyringa“ í huga en ekki voru menn mjög trúaðir á Oddeyrina sem byggingaland fyrir kaupstað. En framsýnn var Björn, því nokkrum árum síðar voru byggð hús á eyrinni og árið 1866 IMG_2970var hún lögð undir Akureyrarkaupstað. Eyrarlandsjörðin lá hins vegar undir Hrafnagilshrepp um áratugaskeið eftir það.  

Af Geirþrúði Thorarensen  

Árið 1860 er Geirþrúður og tvær vinnukonur hennar, Helga Guðmundsdóttir og Margrét Hallgrímsdóttir, búsettar í Eyrarlandsstofu. Sonur hennar, Kristján (Christen) Sæmundur Thorarensen, kona hans, Friðrika Thorarensen, börn og vinnukona eru hins vegar búsett í torfbænum og eru þau bændur á jörðinni, en Kristján fékkst einnig við trésmíðar. Geirþrúður var vellauðug. Enda þótt Oddeyrarsalan hafi gefið henni töluvert í aðra hönd munaði e.t.v. minnstu um þann gjörning, því Geirþrúður erfði auk Eyrarlands töluverða fjármuni eftir mann sinn og ekki síður foreldra sína og systur. Alls námu þessi auðæfi um 15.300 ríkisdölum.  Geirþrúður var ekki aðeins auðug heldur barst hún mikið á og hélt löngum veglegar veislur í Eyrarlandsstofu. Misjafnt orð fór af veislum þessum, þar sem mikið var svallað og þegar upp komu sögur um möguleg hjúskaparbrot Eyrarlandsekkjunnar og gifts manns sem átti heima á bænum gerðust þær raddir háværar, að svipta þyrfti hina svallsömu ekkju sjálfræði. Gifti maðurinn, Jóhann Guðmundsson, er skráður skilinn í manntali árið 1855.  Þá hóf Geirþrúður samband við mann að nafni Jóhann Jakob, sem sendur hafði verið hreppaflutningum frá Kaupmannahöfn, en var þeim neitað um hjónavígslu en bjuggu í óvígðri sambúð. Jóhann Jakob er hvorki að finna í manntali 1855 né 1860.  

Það var árið 1861 sem Geirþrúður, mögulega ríkasta kona landsins, var svipt sjálfræði. Mun tengdasonur hennar, sr. Daníel Halldórsson, hafa verið helsti hvatamaður  að koma sjálfræðissviptingu Geirþrúðar til leiðar. Fjárráð tengdamóðurinnar fékk hann þó ekki, þau komu í hlut Bernhard Steincke verslunarstjóra (sbr. Minjasafnið á Akureyri). Heldur snautlegt, hvernig komið var fyrir hinni vellauðugu ekkju á Stóra-Eyrarlandi. (150 árum síðar heiðruðu bæjaryfirvöld þó hana og minningu hennar með því að nefna götuna Geirþrúðarhaga eftir henni). Ekki varð Geirþrúði langra lífdaga auðið eftir þetta, en hún lést í október 1864, tæplega 59 ára að aldri. Um líferni og veislugleði Eyrarlandsekkjunnar verður hvorki dæmt hér, né heldur ásetning og hug tengdasonar hennar í þessum gjörningi. Hins vegar má spyrja sig, hvort karlmaður í sömu stöðu og Geirþrúður var, hefði hlotið sömu örlög!  

 

Stóra-Eyrarland undir Akureyri – Rýnt í manntöl og önnur gögn 

Næstu áratugina voru ýmsir ábúendur á Stóra-Eyrarlandi,  í Eyrarlandsstofu sem og í torfbænum. Eignarhald jarðarinnar var á höndum téðs Daníels Halldórssonar, sem einnig átti Kotá. Árið 1893 verða mikil vatnaskil í sögu Stóra-Eyrarlands og raunar byggðasögu Akureyrar þegar bæjarstjórn Akureyrar samþykkti, að kaupa jörðina, ásamt Kotá, af Daníel. Var kaupverðið 13.600 ríkisdalir. Jörðina keypti Akureyrarbær gagngert til þess að eiga land undir húsbyggingar og einnig fyrir smærri grasbýli og beitarlönd. Á landinu voru auk þess miklar mógrafir. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti hérlendis, að bæjarstjórn keypti landsvæði sérstaklega til að byggja íbúðarhús (sbr. Guðmundur, Jóhannes, Kristján 1993:662). Ári síðar var byggt íbúðarhús á Torfunefi í Eyrarlandslandi og árið 1895 reisti amtmaður sér bústað í hvammi nokkurn veginn beint niður af Eyrarlandsbænum. Ári síðar var Stóra-Eyrarland lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.  

Enda þótt örlög Stóra-Eyrarlands, sem framtíðar byggingarlandsIMG 2975 Akureyrarkaupstaðar, hafi verið ráðin strax árið 1893, var stundaður búskapur þar áfram um áratugaskeið. Bærinn ráðstafaði helmingi landsins til uppbyggingar en helmingurinn skyldi leigður bónda. Árið 1898 var reist nýtt sjúkrahús á Undirvelli og árið 1904 reis stærsta timburhús bæjarins, Gagnfræðaskólinn, skammt norðan bæjarins og honum fylgdi vitaskuld víðlend lóð úr túni Eyrarlands. Trjáplöntun hófst einnig á nokkrum hekturum norðan bæjarins árið 1912 og er þar kominn Lystigarðurinn. Eyrarlandsjörðinni var á næstu áratugum skipt í mörg erfðafestulönd og risu þar hin ýmsu grasbýli auk þess sem bæjarbúar beittu þar búfénaði.  Byggingasaga grasbýla og síðar þéttbýlis á Eyrarlandsjörðinni er önnur saga og efni í sérstakan pistil, og hann ekki stuttan, svo við skulum láta staðar numið af henni hér og einblína á Eyrarlandsstofu.  

Sá bóndi sem fékk Stóra-Eyrarland til ábúðar hét Jón Helgason, fæddur í Leyningi í Saurbæjarhreppi árið 1863, og stundaði þegar þetta var, búskap á Jódísarstöðum í Öngulsstaðahreppi. Jón og eiginkona hans, Anna Kristín Tómasdóttir, fædd á Hallgilsstöðum í Arnarneshreppi voru hins vegar ekki búsett í Eyrarlandsstofu á sínum búskaparárum, heldur í gamla torfbænum. Svo virðist sem stofan hafi í raun verið undanskilin í kaupum bæjarins á jörðinni, því ábúandi Eyrarlandsstofu á árunum 1888 til 1905, Stefán Stefánsson Thorarensen, er skráður eigandi hennar í manntölum á fyrstu árum 20. aldar. Árið 1903 er búið í þremur íbúðarrýmum í Eyrarlandsstofu. Stefán, sem var barnabarn Magnúsar og Geirþrúðar Thorarensen, fluttist til Vesturheims árið 1905.  Þá eignast Sigtryggur Jónsson, snikkari frá Espihóli Eyrarlandsstofu og leigir hana út. Ýmsir eiga hér heima næstu árin en  árið 1910 flytja í Eyrarlandsstofu þau Baldvin Hálfdán Benediktsson frá Steðja á Þelamörk og Kristín Sigríður Guðmundsdóttir frá Öxnhóli í Hörgárdal. Þau teljast ábúendur hér skv. Eyfirðingum. Hér er þó eilítill fyrirvari; í manntali 1910 eru þau skráð nokkuð skýrt og greinilega til heimilis í Eyrarlandsstofu. Árið 1911 eru hinsIMG 2974   afrit vegar þrjár opnur í manntalsbók bæjarins helgaðar Eyrarlandi, Jón Helgason og fjölskylda á einni, Baldvin, Sigríður og börn þeirra á annarri en Eyrarlandsstofa er sérstaklega tilgreind og þar eru aðrir íbúar. Í einni af þremur íbúðum  Eyrarlandsstofu býr Ingibjörg Jónasdóttir saumakona ásamt sonum sínum Guðmundi og Eggert. Stofan er þá í eigu Sigtryggs Jónssonar en tveimur árum síðar er Ingibjörg orðin eigandi hússins.  

Árið 1916 er Stóra-Eyrarland tilgreint á tveimur stöðum í manntali. Þá eru þeir Baldvin og Jón skráðir þar ásamt fjölskyldum sínum, hvorugur þeirra þó titlaður bóndi. Akureyrarkaupstaður er þá skráður eigandi beggja „Eyrarlandanna“.  Eyrarlandsstofan virðist þar ekki meðtalin, heldur er skráð nafnlaust hús í eigu Ingibjargar Jónasdóttir.  Ingibjörg Jónasdóttir er skráð fyrir eignarhaldi Eyrarlandsstofu í skýrslum brunabótafélagsins það ár. Þá er Eyrarlandsstofu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi 2 stofur og eldhús. Á lofti 1 herb. og geimsla [svo]  (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 94). Húsið úr timbri, veggir og þak timburklætt, 9,4x5,4m á grunnfleti og 5,2m hátt, á því sex gluggar og tveir kolaofnar og eldavél innandyra.  

Sem fyrr segir virðist Eyrarlandsstofan hafa verið aðskilin eign frá Eyrarlandsjörðinni, var lengst af í einkaeign enda þótt bærinn ætti jörðina og önnur bæjarhús. Árið 1919 eignast Sveinn Bergsson sjómaður stofuna og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni og þá virðist stofan verða einbýli. Árið 1925 er eigandi skráður Jón Guðmundsson og 1931 er Guðmundur Jónsson skráður eigandi að „Eyrarlandi timburhúsi“. Nú skyldu lesendur ætla, að þessir menn hafi verið feðgar en það voru þeir ekki: Guðmundur þessi var sonur Jóns Helgasonar, sem 35 árum fyrr hafði gerst ábúandi á þeim jarðarparti Eyrarlands, sem bærinn ætlaði honum. Jón og Anna Kristín voru þá flutt úr gamla bænum og í timburhúsið. Jón er í manntali sagður stunda landbúnað en búskapi lauk á Stóra-Eyrarlandi um 1940. Af gamla bænum á Eyrarlandi er það að segja, að hann var jafnaður við jörðu árið 1949. Jón Helgason lést árið 1956 og mun hafa búið á Stóra- Eyrarlandi, sem þá var aðeins Eyrarlandsstofa, til dánardægra (er allavega skráður þar til heimilis á dánartilkynningum blaða).  Þremur árum fyrr hafði nýtt Fjórðungssjúkrahús verið tekið í notkun og farið að þrengja nokkuð að Eyrarlandsstofunni. Áfram var þó búið þar um nokkurra ára skeið en síðar komst húsið í eigu sjúkrahússins, sem nýtti það sem skrifstofuhúsnæði, þar sótti starfsfólk m.a. launin sín.  

Eyrarlandsstofa í Lystigarðinn 

Þegar fram liðu stundir þótti ljóst, IMG 2983að Eyrarlandsstofan yrði að víkja. Einhverjir töldu eflaust fara best á því að rífa hana en einnig komu fram hugmyndir um, að Lystigarðurinn fengi hana til umráða. Það var svo á bæjarráðsfundi í lok nóvember 1983, að ákveðið var að flytja Eyrarlandsstofu í Lystigarðinn. Grunnar undir stofuna og nýtt áhaldahús höfðu verið steyptir haustið 1985, samhliða, en einhverjar vöflur voru um það, hvort flytja ætti stofuna eða byggja nýtt hús eftir nýjum teikningum af henni, en ári síðar lá niðurstaðan fyrir: Eyrarlandsstofa skyldi flutt.  Það var svo í síðari hluta janúarmánaðar 1987, að Eyrarlandsstofunni var komið fyrir á nýjum grunni, inni í Lystigarðinum. Var hún í kjölfarið endurbætt með miklum glæsibrag. Endurbæturnar voru gerðar eftir teikningum Þorsteins Gunnarssonar arkitekts (sem margir þekkja eflaust einnig sem farsælan leikara) og tóku aðeins tæpa sex mánuði, eftir að húsið var komið á nýja staðinn. Hefur húsið æ síðan þjónað sem kaffi-og skrifstofuaðstaða fyrir starfsfólk Lystigarðsins auk þess sjálfsagða hlutverks hennar, að vera augnayndi fyrir gesti garðsins.  

Eyrarlandsstofa var friðlýst 1. janúar 1990.Eyrarlandsstofa Niðurstaða þess, hvernig staðið var að varðveislu og endurbyggingu Eyrarlandsstofu, hlýtur að teljast til mikillar fyrirmyndar. Enda þótt húsið hafi verið flutt um einhverja tugi metra, stendur það engu að síður enn og nokkurn veginn á réttum stað, því hún er steinsnar frá bæjarstæði Stóra-Eyrarlands. Niðurrif ætti alltaf að vera allra síðasta úrræði þegar í hlut eiga gömul og sögufræg hús og jafnvel þótt flutningur sé niðurstaðan er það margfalt skárri kostur, en að afmá húsin af yfirborði jarðar.  Þá er það einnig kostur, að húsinu var fundið hlutverk og er í daglegri notkun. Því það er eitt að endurbyggja og varðveita gömul hús en í kjölfarið þarf að nota þau og halda þeim við.  Það er sérlega dýrmætt, að enn standi mannvirki frá þessari merku jörð, sem drjúgur hluti þéttbýlis Akureyrar sunnan Glerár er byggður úr. Hefði Eyrarlandsstofan verið rifin, lifði eflaust ekkert af hinni fornu kostajörð í bæjarlandinu annað en örnefni.  

Myndirnar ef Eyrarlandsstofu eru teknar 26. mars 2025 utan sumarmyndin, sem tekin er 9. ágúst 2011. Myndirnar af Miðhúsaslóðum eru teknar 29. apríl 2017.

 

Heimildir: 

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsinshttps://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU  

Eiríkur Eiríksson. 1978. Uppi á brekkunni bjó einnig fólk. Í Heima er bezt 2. tbl. 28. árg. 1. feb. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar 

Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. Í landi Eyrarlands og Nausta 890–1862. Akureyri: Akureyrarbær.  

Kristmundur Bjarnason.1961.Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni.Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs. 

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. 

Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_2970
  • P4290537
  • P4290523
  • IMG 2974   afrit
  • IMG 2983

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.5.): 49
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 362
  • Frá upphafi: 447871

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 214
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband