Hús dagsins: Hafnarstræti 98

P8310027Efst í göngugötunni gegn um miðbæ Akureyrar standa þrjú eldri bárujárnsklædd hús. Eru þetta hús nr. 94, Hamborg (100)* og nr. 96, París (96) og nr. 98, Hótel Akureyri (86) sem ég hyggst taka fyrir í færslu dagsins. Myndin til hliðar er tekin fyrir réttum tveimur árum, 31. ágúst 2007 og var raunar ekki að ástæðulausu að ég tók þessa mynd. Jú, á þessum tíma gat það þess vegna verið dagaspursmál hvenær húsið yrði rifið. En húsið, sem er þrílyft timburhús með háu risi reisti maður að nafni Sigurður Bjarnason árið 1923. Á þeim tíma var orðið sjaldgæft að menn reistu stórhýsi úr timbri, enda steinsteypan að miklu leyti tekin við sem aðal byggingarefnið. Fljótlega var hafinn hótelrekstur á efri hæðum hússins og kallaðist Hótel Akureyri og hefur það nafn haldist síðan. Ætli það séu ekki ca. 15-20ár síðan hótelrekstur lagðist af í húsinu, en ekki er mér fullkunnugt um það. En ýmis konar starfsemi hefur verið í þessu húsi, hótel og veitinga-og skemmtistaðir (Dropinn m.a.) á efri hæðum og verslanir á jarðhæð. Vinstri grænir höfðu þarna aðsetur 2006-2007. Sjónvarpsstöðin Aksjón var starfrækt á annarri hæð hússins fyrsta starfsárið 1997. Þá var Kristjánsbakarí til húsa áratugum saman í miðrými. Sú sjoppa hafði  mikinn sjarma. Veggir klæddir einhverskonar eftirlíkingu af múrhleðslu og gólfin marrandi og brakandi. Plássið var afar þröngt, varla nema 4-5m á breiddina og lengdin einhverjum örfáum metrum meiri. Samt fékkst þarna allt til alls, brauðið var afgreitt norðanmegin, í austurenda var drykkjarkælir en á suðurvegg var m.a. hægt að fá kex, pakkasúpur, tómatssósu og fiskibollur í dós. Ef maður stóð við afgreiðsluborðið var hægt að teygja sig yfir í vöruhilluna hinu megin. Árið 2007 var húsið keypt til niðurrifs, og reisa átti fjögurra hæða stórhýsi í staðin og áttu m.a. VG og bakaríið að fá inni í þeirri byggingu. Í ágúst og september reis hávær andstaða við niðurrifið sem endaði með því að menntamálaráðherra skarst í leikinn og friðaði húsið í skyndi. Skömmu seinna keyptu KEA og fleiri aðilar húsið til endurbyggingar og stendur húsið enn og bíður þess að vera tekið í gegn. Þá verður húsið eflaust svipuð prýði á miðbænum eins og næstu hús, París og Hamborg.

*Talan í sviga vísar til aldurs húsana; Séð og Heyrt stíllinn á þessu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var magnað bakarí... takk fyrir endurminningarnar

Mummi (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 13:33

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, mikill sjarmi yfir þessu bakaríi, þetta var svona ekta, gamaldags kaupmaðurinn-á-horninu verslun.

Arnór Bliki Hallmundsson, 29.8.2009 kl. 00:54

3 identicon

Ánægður með Séð og Heyrt fílínginn í aldri húsanna! :)

Þorgeir (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 495
  • Frá upphafi: 436890

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 327
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband