Hús dagsins: Norðurgata 10

Norðurgata 10 og 12 eru ekki ýkja ósvipuð hús en þau eru jafn gömul , byggð 1926. PC020052Líkt og númer 12 er Norðurgata 10 tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti á suðurhlið, en húsið snýr stafni að götu. Þverpóstar eru í flestum gluggum en sexskiptur krosspóstur í kvistglugga á suðurhlið. Húsið reistu þeir Magnús Halldórsson og Jón Sigurðsson og líkast til hefur húsið þannig verið tveir eignarhlutar í upphafi. Á norðurhlið rissins er mikill  kvistur með aflíðandi skúrþaki sem nær eftir mest allri þekjunni, (einhvern tíma heyrði ég að slíkir kvistir væru kallaðir "Hafnarfjarðarkvistir") en hann var byggður árið 1960. Þá þykir mér ekki ólíklegt að núverandi íbúð hafi verið innréttuð í risi. Nú eru í húsinu fjórar íbúðir, þ.e. ein á neðri hæð, tvær á þeirri efri og ein í risinu. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og sjálfsagt hefur húsið skipt mörgum sinnum um eigendur og leigjendur. Húsið er í góðu standi og lítur vel út það hefur einhvern tíma verið einangrað og klætt upp á nýtt. Þá er lóðin mjög smekkleg, vel gróin og nokkur mikil reynitré í garðinum sem áreiðanlega eru orðin áratuga gömul. Þetta er eitt af þeim húsum sem nánast ógerningur er að ná á mynd yfir sumartímann vegna laufskrúðs, en þessi mynd er tekin 2.12.2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 12.

Norðurgatan eða sá hluti hennar sem afmarkast af Strandgötunni í suðri og Eiðsvallagötu í norðri er umfjöllunarefnið þessar vikurnar. PC020054Ég hef nú þegar afgreitt oddatöluröðina eins og hún leggur sig auk 2-6 en nú færi ég mig yfir götuna og tek fyrir 8-12. Norðurgötu 16 fjallaði ég um fyrir tæpum þremur árum . Nú vill svo til að það er engin Norðurgata 14 og hefur sennilegast aldrei verið. Hvers vegna veit ég ekki, hitt má auðvitað nefna að við götuna finnast ekki heldur sléttutölunúmerin frá 18-24!

 En næst neðan við N16 er Norðurgata 12. Húsið reisti maður að nafni Friðgeir Vilhjálmsson árið 1926. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu og bröttu risi og nokkuð dæmigert fyrir steinhús frá þessum tíma. Mikið var byggt af steinhúsum á Eyrinni árið 1926 m.a. öll röðin hérna megin Norðurgötunnar milli Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu. Húsið snýr stafni að götu en á suðurhlið þess er kvistur sem mun reistur tveimur árum eftir byggingu hússins þ.e. 1928 og fékk húsið þá það lag sem það hefur síðan. Krosspóstar eru í gluggum utan á miðhæð þar sem eru þverpóstar. Á norðausturhorni lóðarinnar stendur tvílyftur bárujárnsklæddur bílskúr með skúrþaki, sennilega umtalsvert yngri en húsið enda bílar ekki almenningseign þegar húsið var byggt. Hins vegar gæti hann upprunalega hafa verið gripahús en fram á miðja 20.öld var ekki óalgengt að Oddeyringar ættu kýr. Þeim var beitt uppá brekku og strákar fengnir til að reka þær upp Oddeyrargötuna sem kallaðist í daglegu tali Kúagata. Að reka kýrnar var mikil virðingarstaða og skilst mér að þessir drengir hafi fengið starfsheitið "kúarektorar" En þetta var eilítill útúrdúr. Húsinu er nú skipt í þrjár íbúðir, ein íbúð á hverri hæð og hefur sú skipting verið lengi. Sem áður segir er húsið lítið breytt frá fyrstu gerð og það er í góðu ásigkomulagi og lítur vel út. Þessi mynd er tekin 2.desember 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 19

Síðustu vikur hef ég verið staddur á Eyrinni í umfjölluninni og nú færi ég mig í Norðurgötuna nánar tiltekið að Norðurgötu 19. Húsið, sem stendur á horni götunnar og Eiðsvallagötu, byggði Árni Þorgrímsson árið 1920. Það er steinsteypt og var upprunalega aðeins ein hæð með lágu risi en 1931 var það hækkað um eina hæð til og hátt ris og líklega hefur stigabygging fylgt þeim framkvæmdum. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur en það er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og inngönguskúr eða stigabyggingu á norðvesturhorni. Á suðurhlið hefur einnig verið byggður forstofuskúr fyrir neðri hæð en það er tiltölulega nýleg smíð (15-20 ára). Krosspóstar eru á efri hæðum en þverpóstar og einfaldir á neðri hæð. Teikningarnar að þessu endanlega útliti hússins frá 1931 voru eftir Halldór Halldórsson en hann hef ég sagt vera einn af "stóru nöfnunum" í byggingasögu Akureyrar, hann teiknaði m.a. fyrsta skipulagða fjölbýlishúsið og einnig fyrsta raðhúsið sem reis í bænum. Húsið er nú lítið breytt að utan, í húsinu eru tvær íbúðir hvor á sinni hæð. Lengi vel var mjög svo verkleg ösp á lóðinni sunnan við húsið en hún hefur nú verið fjarlægð og fyrir vikið sést húsið betur í götumyndinni. Húsinu er vel við haldið og vel útlítandi, látlaust og einfalt að gerð. Þessi mynd er tekin 2.des 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Lundargata 13

Lundargata 13 er af algengri gerð timburhúsa frá því um alP9100039damótin 1900 og eitt margra samskonar húsa við götuna en mörg svipuð hús standa þar og við Norðurgötu. Húsið er klætt múrhúð- forskalað og þverpóstar í gluggum og sennilega hefur inngangur verið færður, en oftast voru dyr á framhlið húsa af þessari gerð. Húsið er lítið, látlaust og ekki stórt að grunnfleti, það er t.a.m. varla nema um 5 metrar á breiddina. En Lundargötu 13 reisti Runólfur Jónsson árið 1898 en öll þrjú húsin milli Gránufélagsgötu og Fróðasund, 11, 13 og 15 eru jafn gömul. Húsið er í meginatriðum svipað og upprunalega, einlyft á lágum steyptum kjallara með portbyggðu risi og miðjukvisti en á bakhlið er inngönguskúr með skúrþaki. Húsið er klætt múrhúð- forskalað og þverpóstar í gluggum og sennilega hefur inngangur verið færður, en oftast voru dyr á framhlið húsa af þessari gerð.  Forskalning timburhúsa þykir nú í dag vera mikið slys en þetta var algengt um miðja 20.öld, auk þess sem kross- eða sexrúðupóstum var skipt út fyrir einfaldari pósta. Á baklóðinni var reist gripahús sem um 1926 var breytt í íbúðarhús en það hús var rifið um 2010. Lundargata 13 var í upphafi einbýli og hefur verið síðustu áratugi. Húsið sómir sér vel í götumynd Lundargötunnar sem er líklega sú gata á Eyrinni sem hefur hæstan meðalaldur húsa en við götuna teljast standa tíu hús og aðeins þrjú þeirra yngri en 110 ára!  Þessi mynd er tekin í haustsólinni þann 10.september 2013.


Hús dagsins: Lundargata 6

Fyrir áramót fjallaði ég um hús í neðanverðri Norðurgötu en nú færi ég upp um eina götu (ég tala um að fara upp eftir Eyrinni þegar stefnt er í vestur í átt að Brekkunni, enda þótt svæðið sé marflatt) og í Lundargötuna. Lundargata 6 er byggð árið 1897 af Birni nokkrum Ólafssyni. PA100012Húsið er af þessari algengu gerð timburhúsa frá ofanverðri 19.öld, einlyft á steyptum kjallara með háu portbyggðu risi og með miðjukvisti. Þessi ár, 1897-1900 var einmitt mikið byggt af svipuðum húsum á þessu svæði við Lundargötu og Norðurgötu. Merkilega mörg þeirra húsa standa enn og flest eru þau lítið breytt frá upphafi.  Einhvern tíma minnir mig að ég hafi heyrt að Jóhann Pétursson eða Jóhann Svarfdælingur (eða Jói risi), hæsti Íslendingurinn fyrr og síðar hafi fæðst í þessu húsi en hann var fæddur 9.febrúar 1913. Jóhann er í hópi heimsfrægustu Íslendinga fyrr og síðar en hann var lengst af búsettur erlendis og fór víða sem skemmtikraftur og lék risa í kvikmyndum og um tíma var hann talinn hæsti maður heims. Húsið var upprunalega einbýlishús en trúlega hafa á tímabili búið þarna fleiri en ein fjölskylda þegar kjör voru kröpp og húsnæðisskortur mikill. Húsið var klætt steinblikki drjúgan hluta 20.aldar en árin 1985-93 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu þar sem skipt var um þak- algjörlega, risið hækkað og kvistur stækkaður en einnig settir nýjir sexrúðupóstar í glugga. Þá var ný timburklæðning sett á húsið. Á haustkvöldi einu árið 2004 var ég í kvöldgöngu um m.a. Lundargötu. Þegar komið var að mótum götunnar og Gránufélagsgötu tók ég eftir einhverju óvenjulega en var ekki viss hvað það var. Ég man enn hvað mér brá þegar ég tók allt í einu eftir því í rökkrinu að Lundargata 6 sneri vitlaust og hafði færst um nokkra metra! Þá var það tilfellið að húsinu hafði verið lyft af gamla grunninum á meðan til stóð að steypa nýjan. Steypti   kjallarinn frá 2004 er mun hærri en sá gamli og því er húsið orðið mikið háreistara en í upphafi, en í fyrri endurbótum var risið hækkað sem áður segir. Húsið er nú eins og vænta má stórglæsilegt og í raun sem nýtt enda mikið endurbyggt. Sennilega er ekki margt í þessu húsi sem er frá skráðu byggingarári þess en það er auðvitað ekkert eindæmi með hús á þessum aldri. Myndin er tekin 10.september 2013.


Hús dagsins: Sunnuhvoll

Það hús sem hlýtur þann heiður að vera fyrsta "Hús dagsins"árið 2014 stendur í ofanverðu Glerárþorpi, neðst við götuna Litluhlíð. PC210055Það er býlið Sunnuhvoll. Húsið er byggt árið 1938 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og mun Angantýr Jónsson hafa verið þar að verki. Sunnuhvoll er steinsteypt, einlyft á lágum grunni og með háu risi og miðjukvistum. Það var upprunalega með flötu þaki og nokkuð dæmigert fyrir Funkis-hús, kassalaga með horngluggum. Grunnflötur var  því sem næst ferningslaga en geymsluskúr eða forstofubygging á austurgafli. Húsið mun ekki hafa skipt oft um eigendur, var t.d. innan fjölskyldu frá 1941 og fram undir aldamót 2000. Árið 1959 var byggt ris ofan á húsið og fékk það þá það lag sem það nú hefur, þ.e. einlyft með háu risi. Kvistir með bröttu skúrþaki eru sitt hvoru megin á risinu. Hér eru teikningar af upprunalegu og breyttu útliti Sunnuhvolls. Sunnuhvoll er einkar skemmtilegt hús og einnig umhverfi þess en húsinu fylgir nokkur landareign sem er skógi vaxin. Húsinu er vel við haldið og lítur vel út og allt umhverfi þess er til prýði. Þessi mynd er tekin á vetrarsólstöðum, 21.desember 2013. 


Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla!

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það gamla. Þakka innlit og athugasemdir. Smile

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2014
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 316
  • Frá upphafi: 421433

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband