Veturinn 2015-16 á Akureyri

Með páskamynd gærdagsins hér á þessum vettvangi, fylgdi stuttur veðurfarsannáll síðastliðinna daga. En þeir einkenndust af miklum hlýindum og sunnanáttum. En hér ætla ég, með hjálp mynda sem ég hef tekið í vetur að "taka þetta lengra" eins og sagt er. Myndir þessar kunna að gefa einhverja mynd af tíðarfarinu það sem af er vetri. Ég ætla að skrifa sem minnst, heldur láta myndirnar tala sínu máli að mestu.

Byrjum á fyrsta vetrardegi. 24.okt:
Þessi mynd sýnir aldin tré við Jaðar í Glerárþorpi. Þarna var hitinn um tvö stig og blés af norðri. Yfirleitt var nokkuð lyngt sl. haust þ.a. laufið hélst nokkuð lengi á trjám. 

 

PA240002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sunnudaginn 8.nóvember tók ég þessa mynd á Höfðanum við Kirkjugarð Akureyrar. Horft er til suðurs, eða fram Eyjafjörð. Þetta er ekki ósvipað sumardegi, nema hvað þarna er orðið nokkuð kvöldsett enda þótt klukkan sé rétt rúmlega hálf þrjú. Þarna eru nefnilega aðeins 44 dagar fram að vetrarsólstöðum- sólargangur sá sami og í byrjum febrúar.

PB080266

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sama stað, sex dögum síðar, 14.nóvember. Gránað hefur í fjöll í millitíðinni. 

PB140285

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

6.desember hefur veturinn sest að. Töluverð úrkoma var og hvassviðri að kvöldi þess fimmta, en daginn sem myndin er tekin var e.k. stund milli stríða. Daginn eftir "brast hann á" og fylgdi m.a. rafmagnsleysi víða um land og þar með talið á Akureyri. Þessi mynd er tekin í Norðurgötu og eru það hús nr. 33 við þá götu og bakhliðar húsa nr. 1-7 við Fjólugötu sem hér sjást snævi prýdd. 

PC060286

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Nýjársdag 2016, myndin tekin við Hof og horft til austurs. Nokkuð hlánaði milli jóla og nýjárs en þarna er nýleg mjöll yfir eldri snjóalögum. Einnig má sjá að ruðningar eru nokkuð skítugir- en það er merki um að þeir hafi bráðnað.

P1010289

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að morgni 16.janúar, myndin tekin á leið upp í BYKO. Þarna hafði töluvert bæst við snjóinn frá Nýjársdegi. Og eins og glögglega má sjá, er einmitt verið að bæta í snjóinn þarna. Myndin er tekin á Þjóðvegi 1, þar sem heitir Hörgárbraut vestan við húsið Sjónarhól og er horft til suðurs.

P1160282

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Laugardaginn 6.febrúar gekk ég á skíðum um Glerárþorp og hafði meðferðis kaffi og nesti og áði í Kvenfélagsgarðinum...

P2060323

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eins og sjá má var snjórinn nokkuð djúpur...

P2060314  P2060315

Oftar en ekki eru snjóruðningar ágætis mælikvarði á snjómagn. Svona litu þeir út á Glerárgötu á Öskudag, 10.feb.

P2100309

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Snjóalög héldust nokkuð jöfn næsta mánuðinn eða svo, og bætti frekar í en hitt. Kalt var og froststillur ríkjandi, en skömmu fyrir miðjan mars vék kuldinn fyrir suðlægum áttum, sólskini og hlýindum.

Þessi mynd er tekin á svipuðum slóðum og myndin hér að ofan: Mannhæðarháir ruðningarnar sem sjást á þeirri mynd eru hér nánast upp urnir, þann 20. mars. 

P3190335

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar þetta er ritað þann 28.mars er jörð aftur orðin hvít og frost í veðurkortum næstu daga. Enda er veturinn fráleitt búinn, þó vissulega sé hann langt kominn og stutt til vors.

 

 


Gleðilega páska

Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra páska. Páskamyndin er tekin laust fyrir klukkan 10 í morgun á syðri sporði Glerárbrúar á Hörgárbraut. Horft er til vestur í átt til Hlíðarfjalls, sem sést ekki fyrir skýjakófi.Þarna sjást m.a. fjölbýlishús við Skarðshlíð og hús við Lönguhlíð í Glerárþorpi, í fjarska háhýsi við Tröllagil og Drekagil. Til vinstri sjást Borgir, rannsóknarhús þar sem Háskólinn á Akureyri og margar aðrar fræðastofnanir (m.a. Náttúrufræðistofnun, Fiskistofa o.fl.) hafa aðsetur.

Það er nokkuð vetrarlegt þennan páskadaginn, norðangola og dimmt yfir- þó tæpast sé hægt að tala um hret. Heldur hefur þó verið kaldara í dag en verið hefur sl. tvær vikur, en hlýindi og sunnanáttir voru ríkjandi frá miðjum mánuði til skírdags (24.mars). 

P3270355


Hús dagsins: Brekkugata 41

Ég held áfram með Brekkugötuna, og þennan Föstudaginn langa er það númer 41...

P1100323

Fyrrihluta árs 1933 fékk Þorsteinn Davíðsson leigða lóð og leyfi til byggingar húss „í svipuðum stíl og framlögð teikning“. Þessi umrædda teikning hefur mögulega ekki varðveist, eða alltént er hún ekki aðgengileg á Landupplýsingakerfinu. (ATH. Það þarf ekki að útiloka möguleikann á því að teikningin hafi ekki varðveist). Þann 4.mars 1933 er Þorsteini veitt leyfi til að reisa einlyft hús, 9x9m með útbyggingu 7,5x3,1m. Fram kemur einnig, að húsið megi standa 1,5m frá norðurmörkum lóðar. Í upphafi var húsið nokkuð dæmigert funkishús með flötu þaki og horngluggum, og hefur raunar verið með fyrstu slíku húsunum sem risu á Akureyri. En flöt þök eru ekki hentug fyrir íslenska veðráttu með snjóþyngsli og bleytu og oftar en ekki fengu funkishús með slíkri þekju valmaþök eða ris síðar meir. Það var árið 1948 sem risþak var byggt ofan á húsið og þar með bættist heil hæð ofan á húsið og var það eftir forskrift Stefáns Reykjalín.  Fékk húsið þá það lag sem það hefur nú. Sjö árum áður, eða 1941 hafði húsið verið stækkað til norðurs. En Brekkugata 41 er einlyft r-steins og steinsteypuhús með háu risi og stendur á lágum grunni. Miðjukvistur mikill er á framhlið, gengur hann fram úr þekju og húsi og raunar mætti tala um hann sem sér álmu eða útbyggingu. Minni kvistir, báðir með hallandi þaki eru beggja vegna kvistbyggingar. Gluggapóstar eru einfaldir, en horngluggar í anda funskisstefnunnar er til suðurs en einnig á kvistálmu. Inngangar eru tveir á framhlið á norðurálmu, hvor fyrir sína hæð. Bárujárn er á þaki.  Lóðin er mishæðótt, enda þræðir Brekkugatan brún nyrsta hluta Brekkunnar, og stendur húsið töluvert hærra en gatan. Steyptar tröppur liggja upp að húsið frá götu. Við götu, á lóðarmörkum er mikill steyptur kantur með steypumunstri; n.k. „möskvum“ og mun sá kantur upprunalegur.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til einbýli í upphafi. Nú eru hins vegar tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið og lóðin eru til mikillar prýði, og áðurnefndur steyptur kantur setur einnig skemmtilegan svip á umhverfið. Þessi mynd er tekinn þ. 10.jan. 2016.

Heimildir

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Brekkugata 39

Árið 1940 fékk Sigurður Helgason leyfi til að byggja íbúðarhús, eina hæð 8,2x10m á kjallara undir hluta hússins, byggt úr r-steini.P1100322 Höfundur er sagður óþekktur en þess má geta að húsið er á margan hátt svipað og næsta hús, nr. 41 sem Tryggvi Jónatansson teiknaði. Húsið er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stórum miðjukvisti að framan en fjórir litlir kvistir með einhalla þekju eru á bakhlið. Tveir samskonar kvistir eru einnig á framhlið hvoru megin miðjukvists. Upprunalega var Brekkugata 39 nokkuð dæmigert funkishús, einlyft með flötu þaki og horngluggum til suðurs. Þeir gluggar eru að sjálfsögðu til staðar enn. Árin 1956-59 var húsinu hins vegar breytt nokkuð, byggt var við það til suðurs og byggð ofan á húsið rishæð. Fékk húsið þá það lag sem það hefur nú. Hönnuðir viðbyggingar og rishæðar hús voru þeir Stefán Reykjalín og Sigurður Helgason en teikningarnar að breytingunum eru einmitt aðgengilegar hér. Brekkugata 39 virðist í nokkuð góðu standi og er hið reisulegasta þrátt fyrir, að mjög sé það breytt frá upprunalegri gerð. Húsið stendur töluvert hærra en gatan. Fljótt á litið gætu nr. 39 og 41 verið einskonar „tvíburahús“ en í raun er um tvö gjörólík hús að ræða. Nr. 41 er nokkuð eldra hús, byggt 1933. Húsin eiga þó þá sögu sameiginlega, að hafa upprunalega verið funkishús með flötu þaki en síðar fengið svo mikið sem eina rishæð á toppinn. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þ. 10.jan. 2016.

"Fjórir kátir þrestir sátu saman á kvist" segir í valinkunnum dægurlagatexta. Hér eru hins vegar "Fjórir kátir kvistir". laughing (Bakhlið Brekkugötu 39, myndin tekin frá Munkaþverárstræti þ. 28.feb 2016). 

P2280350

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 855, 11.sept.1940.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Brekkugata 37

Benedikt Benediktsson kaupmaður á heiðurinn af byggingu tveggja húsa við ofanverða Brekkugötu. P1100321Hann reisti árið 1933 stórhýsi, verslunarhús og íbúðarhús á nr. 35 en sjö árum áður reisti hann hús nr. 37, sem um nokkurra ára skeið var nyrsta og efsta hús Brekkugötu að vestanverðu. Hann fékk sumarið 1926 leyfi til að reisa á lóðinni tvílfyt steinhús á lágum grunni með valmaþaki, 8,8x7,5m að stærð. Teikningar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson en þær eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Brekkugata 37 er einfalt og látlaust steinhús, tvílyft með valmaþaki. Þverpóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Á norðurgafli, efri hæð er viðbygging byggð 1998 og tröppur upp að henni og inngangur þar, en inngangar á  neðri hæð eru nyrst og á miðri framhlið. Vegna mishæðar á lóð er viðbygging raunar aðeins við efri hæð. Af efri hæð er einnig gengið á svalir til vesturs, en einnig eru svaladyr til suðurs á neðri hæð. Brekkugata 37 hefur alla tíð verið íbúðarhús. Það er af algengri gerð steinsteypuhúsa frá síðari hluta 3.áratugarins, ámóta hús frá svipuðum má finna t.d. við Oddeyrargötu. Húsið er hins vegar, líkt og mörg hús í þessari röð, það eina sinnar tegundar í þessari röð en fljótt á litið mætti álíta húsið e.k. smærra númer af húsi nr. 33.  Brekkugata 37 er einfalt og látlaust að gerð, í góðu standi og til mikillar prýði í umhverfinu. Lóðin er einnig nokkuð stór og gróin, þar eru þó nokkur tré og litlar klappir. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin 10.jan. 2016.

 

Heimildir

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Brekkugata 35

Árið 1933 fékk Benedikt Benediktsson kaupmaður leyfi til að reisa íbúðar – og verslunarhús. 

P1100320Húsið Benedikts átti að vera steinsteypt, 12x9m að stærð með kjallara og lágu risi. Húsið reis um sumarið og haustið 1933, en teikningar að húsinu gerði Guðmundur Ólafsson byggingameistari í Brekkugötu 29. Hann teiknaði einnig það hús og á því heiðurinn af tveimur húsum í þessari glæstu húsaröð. Brekkugata 35 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og á lágum kjallara. Á suðurgafli eru svalir á annarri hæð en inngangar á framhlið og norðurgafli. Þar er einnig áföst skúrbygging. Í gluggum eru þverpóstar með fjórskiptum efri fögum en bárujárn er á þaki.

Sem áður segir var upprunalega verslunarrými á neðstu hæð, en skömmu fyrir jól 1933 opnaði Benedikt Benediktsson verslunina Baldurshaga í húsinu. Skömmu eftir hernám Breta voru átta hús skipuð loftvarnarbyrgi á Akureyri, ef til loftárásar kæmi og var Brekkugata 35 eitt þeirra. Þar áttu þeir bæjarbúar sem staddir voru úti á götum að leita skjóls ef loftvarnarmerki heyrðist. Ekki veit ég hvað réði því að þessi hús voru valin en líkast til hafa þau verið talin sterkbyggð og örugg. Enda um að ræða tiltölulega stór og nýleg steinhús í flestum tilvikum, en meðal annarra húsa sem skilgreind voru sem loftvarnarbyrgi voru Strandgata 33, Aðalstræti 8 og kjallari nýju kirkjunnar, þ.e. Akureyrarkirkju. Árið 1954 voru gerðar nokkrar breytingar á húsinu, þ.e. neðri hæð þar sem verslun var breytt í íbúð og gluggum breytt. Hefur húsið verið íbúðarhús frá þeim tíma en árið 1996 opnuðu þau Joris Rademaker og  Guðrún Pálína Guðmundsdóttir listsýningarsalinn Gallerí plús á neðstu hæð hússins. Galleríið var rekið þarna í um áratug eða svo en nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Brekkugata 35 er glæsilegt og reisulegt hús og  lóðin er stór og vel hirt. Þessi mynd er tekin 10.jan 2016.

Heimildir:

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Brekkugata 33

Brekkugatan ofanverð er "yrkisefnið" hjá mér þessar vikurnar. Ég tek húsin fyrir í þeirri röð sem þau koma fyrir, ekki númeraröð. Á móti húsum nr. 27-39 er Akureyrarvöllur eða áhorfendastúka hans og nr. 30 ofan og norðan við hann. Því mun ég taka fyrir oddatölurnar að 39 og þá 30-34. Hér er Brekkugata 33: 

Samkvæmt svokallaðri Jónsbók stóð árið 1933 þarna hús sem byggt var árið 1922 en eigandi þá er Eyþór Tómasson. P1100319Núverandi hús reisti hins vegar Bjarni Kristjánsson árin 1952-53  eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Brekkugata 33 er tveggja hæða steinhús á kjallara og með valmaþaki. Það er klætt grjótmulningi, sem í daglegu tali er stundum kallaður skeljasandur en bárujárn er á þaki. Á norðurhlið hússins er forstofu- og stigaálma og þar er aðalinngangur mót austri og steyptar tröppur að honum auk inngöngudyra í kjallara, á norðurhlið. Ofan inngöngudyra eru einnig svalir á annarri hæð, mót austri. Þrjár íbúðir eru í húsinu og hefur að öllum líkindum verið svo frá upphafi.  Á raflagnateikningum frá 1952 eru íbúðirnar merktar þremur mönnum; fyrsta hæð Jóni Laxdal, önnur hæð Torfa Jörundssyni en kjallari Hirti? Árnasyni (ath. Ég næ ekki að rýna almennilega í skriftina á teikningum þessum).

Húsið er nokkuð dæmigert fyrir steinhús þau er tíðkuðust um miðja 20.öld. Svipuð hús og Brekkugötu 33 má finna ofar á Brekkunni t.d. við Þórunnarstræti, Ásveg en einnig við norðanverðar Ránargötu og Norðurgötu á Eyrinni. Ekki er laust við að Brekkugata 33 minni undirritaðan einnig á Hlíðarnar og hús við Miklubraut í Reykjavík. Húsið er hins vegar nokkuð einstakt í þessari röð, enda um 20-30 árum yngri en flest nærliggjandi hús. Engu að síður er Brekkugata 33 traustlegt og glæsilegt hús og nýtur sín vel í þessari skemmtilegu og áberandi götumynd. Götumynd sem er í senn heilsteypt en ólík innbyrðis, enda skipuð ýmsum fulltrúum steinhúsabyggingarlistarinnar. Húsið er í góðu standi og lítur vel út og sama má segja um lóð, en hún er vel gróin öspum og öðrum trjám. Lóðin er geysivíðlend og liggur upp að Munkaþverárstræti- mögulega er þar um að ræða auða lóð við þá götu, samliggjandi þessari. Sem áður segir eru þrjár íbúðir í húsinu. Myndin er tekin þ. 10.jan. 2016.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933. Handritað skjal, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun.  Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

PS. Nú kann einhver að spyrja; Hvar er umfjöllunin um Brekkugötu 31. Því er til að svara, að hana tók fyrir sumarið 2010. Þá hafði nýlega fengið bókina um Sveinbjörn Jónsson, Byggingameistari í stein og stál í afmælisgjöf og hóf í kjölfarið að mynda og kynna mér þau hús sem hann hannaði. Þetta hafði ég um Brekkugötu 31 að segja þá:

Brekkugata 31, umfjöllun þ. 23.júlí 2010. 

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2016
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 244
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 162
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband