Hús dagsins: Lundargata 11

Þann 9. febrúar árið 1898 brá Bygginganefnd Akureyrar sér, einu sinni sem oftar, út á Oddeyri. Erindi hennar var að mæla út lóð undir tvö hússtæði. Annars vegar  var mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar. Hins vegar mældi Bygginganefnd út fyrir húsi sem Jón Guðmundsson skósmiður ætlaði að byggja, 12 álnir á lengd og 9 álnir á breidd. Skyldi húsið vera norður af húsi Björns Ólafssonar (Lundargata 6) og í línu við norðurstafninn á húsi sr. Péturs Guðmundssonar (Lundargata 9).IMG_2689

Lundargata 11 er einlyft timburhús með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti á framhlið. Á bakhlið er einnig kvistur og útskot og er þar um að ræða nýlegar viðbætur. Bárujárn er á þaki en á veggjum er steinblikk og það sem meira er, tiltölulega nýlegt steinblikk, sem er nokkuð einstakt en nánar um það hér síðar. Húsið mun 7,68x5,78m  að grunnfleti. Útskot á bakhlið er 93 cm breitt og 5,40m að lengd (skv. teikningum Ólafs Jakobssonar).

    Ekki virðist Jón Guðmundsson skósmiður, sem byggði húsið, hafa átt heima þar lengi því í Manntali 1902 er hann ekki sjáanlegur þar. Skiptist húsið þá í tvo eignarhluta og eigendur þeirra voru Finnur Björnsson skipstjóri og Jórunn Sigurjónsdóttir annars vegar og Guðmundur Helgason sjómaður og Kristín Guðmundsdóttir hins vegar. Svo sorglega vill til, að fáeinum mánuðum eftir að umrætt manntal var tekið, fórst Finnur Björnsson með skipi sínu, Oak, í mars 1903 við átjánda mann. Þess má geta, að bróðir Finns, Sigmundur Kristinn Björnsson, bóndi á Syðri-Hóli í Öngulsstaðahreppi, var langafi greinarhöfundar.   

    Af Jóni Guðmundssyni skósmiði er það annars að segja, að hann var fæddur árið 1858 (í manntölum er hann yfirleitt sagður yngri en á islendingabok.is er fæðingarárið 1858) og uppalin á Múla í Kirkjubólsþingi. Einhvern tíma á bilinu 1880-90 flyst hann til Akureyrar þar sem hann kvæntist Skagfirðingnum Sigurborgu Kristbjarnardóttur (1863-1923) en hún var árið 1880 vinnukona í svokallaðri „Stóru Strandgötu“ á Oddeyri. Þau Jón og Sigurborg hafa ekki búið lengur en þrjú ár í húsinu við Lundargötu 11 en árið 1901 eru þau til heimilis í húsi nr. 4 við sömu götu. Fimmtán árum síðar, þ.e. 1916, reisti Jón Guðmundsson hús við Oddeyrargötu og hafði þá tekið upp ættarnafnið Ísfjörð. Eftir lát Sigurborgar, 1923, fluttist Jón til Siglufjarðar þar sem hann stundaði skósmíðaiðnina áfram meðan honum entist aldur og heilsa til. Jón Guðmundsson Ísfjörð lést á Siglufirði 8. október árið 1948,viku eftir níræðisafmæli sitt.

Árið 1917 var Lundargata 11 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, einlyft með porti, háu risi og kjallara. Á gólfi við norðurhlið eru 2 stofur og forstofa, við bakhlið eru tvö eldhús. Á lofti eru 3 íbúðarherbergi, eitt eldhús og geymsla. Kjallara er skipt í fjögur hólf og notaður til geymslu. Lítill skúr var við bakhlið. Grunnflötur er sagður 7,5x5,6m, hæð hússins 6,3m og 13 gluggar á húsinu. Veggir eru timburklæddir og járn á þaki. Einn skorsteinn er á húsinu og tengist hann tveimur kolaofnum og fjórum eldavélum. Eigandi árið 1917 var Jónasína Þorsteinsdóttir (sbr. Brunabótafélag Íslands 1917: nr.277).IMG_2698

    Árið 1916 fluttu í húsið þau Þorsteinn Þorsteinsson, bróðir téðrar Jónasínu, og kona hans Ásdís Þorsteinsdóttir. Þau leigðu hjá Jónasínu. (Þess má geta, að tæpum áratug síðar reisti Jónasína mikið steinhús á baklóð hússins, sem varð Gránufélagsgata 19). Þorsteinn var einn af frumkvöðlum í hálendisferðum um Ísland og einn af stofnendum Ferðafélags Akureyrar. Þau áttu soninn Tryggva, en nafn Tryggva Þorsteinssonar  kannast margir við. Hann var lengi vel skólastjóri Barnaskóla Akureyrar sem og félagsforingi Skátafélags Akureyrar um áratugaskeið. Endurminningar hans birtast í öðru bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið og segir hann þar m.a. frá íbúðaskipan Lundargötu 11.  Í bernskutíð Tryggva (1911-1975) skiptist húsið, sem hann segir vera á að giska 6x8m, í fimm íbúðarrými.  Á neðri hæð samanstóðu íbúðirnar af stofu og eldhúsi en í risi voru íbúðarrýmin stofa sem jafnframt var eldhús ásamt lítilli kompu undir súð. Þar var einnig gangur undir súð og kvistherbergi, 2,5x3m, en þar bjuggu Tryggvi og foreldrar hans. Þarna bjuggu alls 19 manns og nóg pláss fyrir gesti bætir Tryggvi við í frásögn sinni.

     Gefum Tryggva Þorsteinssyni orðið: „Tæknilegu þægindin í þessu húsi voru þau, að vatnskrani var í báðum eldhúsunum niðri, og einn krani á loftinu til afnota fyrir þær fjölskyldur sem þar bjuggu. Í eldhúsinu á neðri hæðinni voru tvær kolaeldavélar og tvær samskonar vélar í stofunum á suður- og norðurloftinu, en ein kabyssa var á kvistinum hjá okkur, svipuð og notuð var í mótorbátum. Vaskur var ekki til í húsinu, enda voru þá engar skólplagnir frá þeim húsum í bænum, sem ekki stóðu við sjó, en útikamar var við öll hús á Eyrinni. Baðherbergi, vatnssalerni og þvottahús voru þá eins og undur í öðrum heimi í hugum fólksins í Lundargötu 11, og varla að orðin væru til í máli þess. Auðvitað var ekkert rafmagn í húsinu okkar og lamparnir reyndar af smærra taginu. [...] En þrátt fyrir allt var eitthvað stórt og gott við Lundargötu 11 og íbúa þess. Þegar ég var barn skildi ég ekki hvað þetta var, en nú veit ég að það var umburðarlyndi, hjálpsemi og glaðværð fólksins, sem ekkert fékk bugað“ (Tryggvi Þorsteinsson 1973. 79-80).

     Handan Lundargötu, í  Lundargötu 10, bjó á þessum tíma Gunnar nokkur Guðlaugsson trésmiður. Hann stóð fyrir skátastarfi meðal drengja á Oddeyrinni á þessum tíma og var á meðal frumkvöðla í því starfi á Akureyri. Gekk Tryggvi Þorsteinsson til liðs við skátasveit Gunnars ungur að árum og lýsir hann mörgum ævintýrum þeirrar sveitar í bókinni Varðeldasögur, sem Skjaldborg gaf út árið 1973. Gunnar Guðlaugsson flutti einnig inn frá Bandaríkjunum svokallað steinblikk. Um er að ræða blikkþynnur, sem mótaðar eru þannig að minnir á múrsteinahleðslu og þannig fær klæðningin nafn sitt. Klæðning þessi, eða sams konar, mun enn framleidd þar vestra í verksmiðjunni W.F. Norman í borginni Nevada í Missouri ríki. Steinblikkið er nokkuð algengt á gömlum timburhúsum á Akureyri og nærsveitum, en næsta sjaldgæft annars staðar, og mun það stafa af því, að blikkið var nær eingöngu flutt inn til Akureyrar. Það hafa þannig verið hæg heimatökin fyrir Jónasínu Þorsteinsdóttur að verða sér út um steinblikkið, þegar það var sett á húsið, líklega um 1925-30. Jónasína Þorsteinsdóttir mun hafa átt húsið og leigt út, a.m.k. til ársins 1944 en í janúar það ár auglýsir hún húsið til sölu.  Ekki fylgir sögunni hver kaupir, en um miðja öld er Ólafur Rósinantsson frá Syðra Brekkukoti í Arnarneshreppi búsettur í húsinu og til dánardægurs 1967. Ári síðar er norðurhluti hússins auglýstur til sölu. Ljóst er, að margir hafa átt og búið í húsinu gegnum árin og áratugina.

 p3040043.jpg

Lundargata 11 er enn klædd steinblikki en hefur þá sérstöðu, að á húsinu er klæðningin nýleg.  Á árunum 1993-2000 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu, að innan jafnt sem utan. Stóðu þáverandi eigendur í stórræðum við að finna þessa klæðningu, sem var svo algeng á akureyrskum timburhúsum á fyrri hluta 20. aldar. Eftir mikla rannsóknarvinnu kom í ljós, að klæðningin var enn framleidd í sömu amerísku verksmiðjunni sem Gunnar Guðlaugsson skipti við forðum og fluttu eigendur hússins steinblikkið sérstaklega inn. Svo sannarlega aðdáunarvert framtak. Framkvæmd þessi hlaut viðurkenningu Húsverndunarsjóðs Akureyrar árið 2002. Endurbætur þessar á húsinu voru gerðar eftir teikningum Ólafs Jakobssonar.

    Í Húsakönnun 1990 fær húsið þá umsögn að „það sé í góðu lagi“ og „[…] mikilvægt fyrir heildina og hefur því varðveislugildi“ (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:57). Þetta mat er staðfest í Húsakönnun 2020 þar sem húsið hlýtur varðveislugildi sem eitt af eldri húsum Akureyrar og falli vel inn í heildstæða götumynd Lundargötu (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:76). Og að sjálfsögðu er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Lundargatan er ein af heildstæðustu og áhugaverðustu götumyndum bæjarins og ætti auðvitað að friða hana eins og hún leggur sig! Þess má geta að við fáar götur á Akureyri er meðalaldur húsa jafn hár og í Lundargötu, en af þrettán húsum götunnar eru aðeins tvö byggð eftir 1900!

Myndirnar eru teknar 4. mars 2010 og 22. október 2024.

Sem fyrr segir mældu bygginganefndarmenn út tvær lóðir og hússtæði þennan febrúardag veturinn 1898. Við vitum ekki í hvaða röð bygginganefnd mældi út lóðirnar tvær en útmælingin fyrir Jón Guðmundsson var númer 2 í fundargerðinni.  Þannig má gera ráð fyrir, að fyrst hafi þeir mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar, spölkorni austar. Og við þessa lóð, sem bygginganefndarmenn mældu út fyrir Medúsalem, berum við niður í næsta „Húsi dagsins“…  

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Tryggvi Þorsteinsson, Erlingur Davíðsson skráði.  Aldnir hafa orðið II bindi (bls. 76-113)  Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Aðalstræti 22

Það er freistandi að draga þá ályktun, að á síðustu árum 19. aldar, hafi verið nokkur uppgrip í húsbyggingum á Akureyri og Oddeyri. Það eru e.t.v. ekki mjög vísindaleg rök fyrir þeirri freistni greinarhöfundar, en hún ræðst einfaldlega af því, að hlutfallslega eru tiltölulega mörg hús sem enn standa byggð, árin 1897 og 1898. Mun færri hús eru t.d. frá árunum 1890-95. Hér ber hins vegar að hafa í huga, að þó nokkur hús frá þessu árabili hafa týnt tölunni, hvort heldur er í eldsvoðum eða niðurrifi. En eitt þeirra nokkuð mörgu húsa bæjarins með skráð byggingarár 1898 er Aðalstræti 22. Hér er um að ræða einfalt og látlaust tvílyft timburhús sem er nokkuð merkilegt fyrir þær sakir, að kona reisti það, en slíkt var fremur óalgengt í lok 19. aldar. Umrædd kona, var Anna Sigríður Erlendsdóttir, kaupkona.

Þann 9. apríl 1898 kom bygginganefnd Akureyrar saman á fundi, einu sinni sem oftar. IMG_2665Erindi hennar var  afgreiðsla tveggja lóða og byggingarleyfa við Aðalstræti. Annars vegar fékk Þórður Thorarensen gullsmiður lóð og byggingarleyfi austan götunnar, á uppfyllingu, sem kallaðist Nýja Ísland. Handan götunnar  fékk hins vegar Anna Erlendsdóttir lóð og byggingarleyfi. Hún fékk að reisa hús, 14 álnir á breidd og 11 álnir á breidd og skyldi það standa 10 álnir suður af húsi Jónatans Jóhannessonar og Júlíníusar Jónssonar (Aðalstræti 20, byggt árið áður) og í beinni línu við hús Benedikts Jóelssonar, 5 álnir frá götunni og austurhorn miðaðist við hús P. Þorgrímssonar (Aðalstræti 38) (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 163, 1898).  Af húsi Benedikts Jóelssonar er það að segja, að það var byggt 1895 og hlaut áratug síðar númerið 18 við Aðalstræti og stóð þar til vorsins 1990 er skriða úr Höfðanum grandaði því.

Anna Erlendsdóttir fæddist á jóladag árið 1855, líkast til í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi en þar var faðir hennar, Erlendur Ólafsson skráður bóndi og bókbindari árið sem hún fæddist. Árið 1860 er Anna hins vegar komin í fóstur að Klömbrum í Grenjaðarstaðarsókn í S-Þingeyjarsýslu en foreldrar hennar fluttir til Akureyrar, þar sem Erlendur er titlaður bókbindari. Hvenær Anna hóf verslunarrekstur sinn er ekki ljóst en í apríl árið 1897 birtist eftirfarandi auglýsing í blaðinu Stefni: Sumargjafir: Svuntutau, kvennslipsi, barnahattar, og barnahanzkar, hanzkar úr skinni, bómull og silki, margskonar hannyrðir, svart casmir hentugt f peisuföt [svo] , saumaðar peisusvuntur, kort og margt fleira selur Anna Erlendsdóttir á Akureyri (án höf 1897:1) Þannig virðist Anna hafa selt ýmsan fatnað og hannyrðavörur. Og árinu eftir að þessi auglýsing birtist reisti Anna Erlendsdóttir hús undir verslun sína sem, líkt og almennt tíðkaðist, var einnig íbúðarhús. Verslunina innréttaði hún á neðri hæð en íbúð á þeirri efri. Þar bjó hún ásamt móður sinni, Sigurbjörgu Einarsdóttur og vinnufólki en Anna var ógift og barnlaus.

Árið 1901 eru þrír íbúar skráðir hér til heimilis, mæðgurnar Anna og Sigurbjörg auk Maríu Hafliðadóttur, vinnukonu. Þá telst húsið númer 51 við Aðalstræti. Ári síðar hefur hins vegar fjölgað í húsinu við Aðalstræti, þar búa auk mæðgnanna og Maríu vinnukonu, tvenn ung hjón; annars vegar þau Jónas Jónasson trésmiður og kona hans Jórunn Hrjóbjartsdóttir ásamt nýfæddri dóttur, Ingibjörg og hins vegar þau Guðlaugur Pálsson snikkari og Ingilína Jónasdóttir. Þá er húsið orðið  númer 45. Hvers vegna svo er, er ekki gott að segja; mögulega hefur bæjarbruninn mikli sem átti sér stað milli þess, sem manntöl þessi voru tekin, haft þar áhrif; bruninn eyddi nokkrum húsum á þessum slóðum, reyndar lítið eitt norðar. Hins vegar var það svo á þessum árum, að númeraröð Aðalstrætis var öfug miðað við það sem nú er, þ.e. tölurnar fóru hækkandi frá suðri til norðurs. Aukinheldur, voru oddatölur vestanmegin.  Það virðist hafa verið árið 1906 sem númeraröð Aðalstrætis var endurskilgreind, henni snúið frá norðri til suðurs og sléttar tölur hafðar vestanmegin. Athyglisvert er það í ljósi þess, að því er einmitt öfugt farið með Hafnarstræti, og raunar flestar eldri götur bæjarins, sem liggja í norður-suður. 

 Aðalstræti 22 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á steyptum eða steinhlöðnum kjallara. Á bakvið er einlyft bygging með háu risi, sambyggð húsinu, og á norðurhlið er tvílyft steinsteypt útskot; inngönguskúr, með  einhalla aflíðandi þaki. Húsið er klætt steinblikki og krosspóstar eru í gluggum að framanverðu en fjölbreyttari gluggasetning í bakhúsi. Grunnflötur framhúss mælist um 9x8m, útskot að norðan 4x2m en bakbygging ásamt tengibyggingum um 6 metra breidd. Þannig er breidd framhúss og bakhúss samanlagt um 14x9m.

Í lok nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Aðalstræti 22 og lýstu  húsinu á eftirfarandi hátt: Járnvarið timburhús, tvílyft með lágu risi á steinsteyptum kjallara. Grunnflötur mældist 8,8x6,9m, hæð 7,5m og 20 gluggar á húsinu. Á neðri hæð voru tvær stofur að austanverðu. Á neðri hæð að vestanverðu voru ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loft. Á lofti voru alls þrjár stofur, geymsla og „ 1stórt framlIMG_2678oft“ svokallað. Kjallari var hólfaður í fimm geymslurými. Ein skorsteinn var á húsinu og tengdust honum þrír kolaofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 43) Hvergi er minnst á verslun eða sölubúð í brunabótamati árið 1916.  

Árið 1929 (1926?) eignuðust þau Alfreð Jónsson kaupmaður og Bára Sigurjónsdóttir kona hans efri hæð hússins. Samkvæmt Húsakönnun (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:63) eignast þau reyndar ekki húsið fyrr en 1929 en það var engu að síður vorið 1926 að Alfreð fékk lóðarviðbót í brekkunni á bakvið húsið ásamt leyfi til að reisa geymslu- og gripahús úr steini, 8x4 ½ m að stærð, samkvæmt framanlögðum uppdrætti (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 584). Umræddan uppdrátt að þeirri byggingu gerði Sveinbjörn Jónsson. Alfreð og Bára eignuðust allt húsið um 1950. Þá hafði Sigurjón Friðbjarnarson átt neðri hæðina frá 1933. Alfreð Jónsson lést árið 1972 en Bára átti húsið allt til ársins 1980. Þannig var húsið í eigu sömu hjóna að hluta eða í heild drjúgan hluta 20. aldar. Einhverjir lesendur kunna e.t.v. að muna eftir Báru Sigurjónsdóttur úr sælgætisversluninni Turninum við Hafnarstræti en hún afgreiddi þar um árabil. Alfreð rak verslun og útgerð á fyrri hluta 20. aldar en gerðist síðar starfsmaður og vann lengi við Stjörnuapótek (frá 1947).

Árið 1980 eignast Hjörtur Gíslason húsið, skv. HúsakönnunP6190004 1986 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:83). Ekki er vitað hvenær stigahús var byggt við norðanvert húsið en samkvæmt Húsakönnun 2012 eru til óundirritaðar og ósamþykktar teikningar af því frá árinu 1980. Bakhúsið var lengst af geymsluhús en um 1991 var húsið innréttað sem íbúð og byggðar tengibyggingar milli framhúss og bakhúss. Teikningarnar að þeim framkvæmdum gerði Þorgeir Jónsson. Samkvæmt útlitsteikningum hans eru krosspóstar í gluggum hússins en þegar fyrri húsakönnun var unnin um 1985 voru gluggar með þrískiptum þverpóstum í húsinu. Þá glugga hafði Alfreð Jónsson sett í árið 1947. Við breytingarnar 1991 fékk húsið það lag, sem það enn hefur. Hefur það fengið fyrirtaks umhirðu allar götur síðan.  Í desember 2016 tók Kristín Aðalsteinsdóttir viðtal við íbúa efri hæðar hússins, þau Jón Benedikt Gíslason og Mörtu Violina, og birti í bókinni: Innbær húsin og fólkið. Höfðu þau á orði, að húsinu hafi verið svo vel við haldið, að það eina sem þau þurftu að gera þegar þau fluttu inn sumarið áður, var að pússa og mála gólfin (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:37).   Húsið virðist í góðu ásigkomulagi og lítur mjög vel út. Húsið stendur svo til alveg upp í brekkurótum og er því ekki fyrir mikilli lóð að fara en engu að síður er umhverfi hússins mjög gróið og smekklegt. Í Húsakönnun 2012 telst húsið hluti einstarkar götumyndar sem lagt er til að varðveitt sé með hverfisvernd. Þá er húsið að sjálfsögðu aldursfriðað en hvað ræður aldursfriðun? Því er til að svara, að frá og með ársbyrjun 2023 var hin svokallað „100 ára regla“ (sem kvað á, að hús yrðu sjálfkrafa friðuð, árið sem þau náðu 100 árum) í húsafriðun afnumin og aldursfriðun miðast við byggingarárið 1923.  Að mörgu leyti skiljanleg ráðstöfun, því eðli málsins samkvæmt hefðu aldursfriðuð hús orðið svo mörg í fyllingu tímans, að friðun yrði næsta gjaldfallin. Hins vegar eru mörg merk hús frá 3. og 4. áratug 20. aldar (og jafnvel yngri) sem ættu skilið varðveislu eða friðun. En sem fyrr segir er Aðalstræti 22 byggt 1898 svo það hefur aldarfjórðung fram yfir aldursfriðunarmörkin. Myndirnar eru teknar með áratugs millibili, 19. júní 2014 og 22. október 2024. 

Heimildir:  Án höfundar. 1897. „Sumargjafir“. Auglýsing í Stefni 13. apríl 6. tbl 5. árg.

 Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 163, 9. apríl 1898. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 583, 3. maí 1926  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

 Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.


Hús dagsins: Aðalstræti 13

Ef snöggt er litið á byggingarsögu Akureyrar mætti hæglega draga þá ályktun, að 10. áratugur 19. aldar hafi verið nokkurt uppbyggingarskeið. Þá voru menn stórhuga á þessum áratug; hafin var vinna við vegagerð milli byggðakjarnanna tveggja á Akureyri og Oddeyri, jörðin Stóra-Eyrarland keypt og lögð undir lögsagnarumdæmið.  Auk þess hófust framkvæmdir við uppfyllingar. Frá þessum árum eru nokkuð mörg hús, sem enn standa. Sér í lagi eru þau mörg byggð á síðustu árum áratugarins, eða 1897-99.  Á næstu vikum er ætlunin að gera skil húsum frá þessum áratug hér á þessum vettvangi. Í þessari umfjöllun berum við fyrst niður við Aðalstræti: Aðalstræti er ein elsta gata Akureyrar og liggur um hið upprunalega bæjarland undir hinni snarbröttu brekku undir Búðargili og Naustahöfða. Nær gatan frá hinni upprunalegu Akureyri, neðan Búðargilsins og suður Fjöruna, en þessi hverfi hlutu saman nafnið Innbær, þegar þéttbýlið breiddi úr sér m.a. á Oddeyri. Í upphafi stóðu hús aðeins vestanmegin eða „brekkumegin“ við Aðalstrætið, sunnan Hafnarstrætis, enda var flæðarmálið austanmegin. Á síðustu árum 19. aldar P9121027hófust miklar framkvæmdir, þar sem gerðar voru geysilegar landfyllingar á svæðinu sunnan hinnar eiginlegu Akureyrar. Var þetta með fyrstu skiptum þar sem grafið var framan úr brekkunni og fyllt upp í flæðarmálið. Var þessi landfylling kölluð nýja Ísland (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:74). Á meðal þeirra sem reisti hús á hinu nýja landi var Þórður Thorarensen, en hann reisti húsið Aðalstræti 13 árið 1898.   

 

Fyrsta verk bygginganefndar á fundi sínum þann 9. apríl árið 1898 var ákvarða grunn undir hús, sem Þórður Thorarensen gullsmiður ætlar að byggja á uppfyllingunum fyrir austan veginn suður Fjöruna. Húsið á að vera um 15 ál. á lengd og 12 ál. á breidd með kvisti þvert í gegnum húsið (Bygg.nefnd. Ak. 1898: nr. 163). Ennfremur ákvað bygginganefndin, að húsið skyldi standa 40 álnir suður af húsi Magnúsar Sigurðssonar á Grund og 5 álnir frá götunni. En hús Magnúsar á Grund var vörugeymsla og útibú frá verslun hans, sem hann hafði reist árið 1896 og var kallað Grundarskáli. ÞaðP9121029 hús er löngu horfið, en var áfast Hafnarstræti 2. Árið 1898 reis suðurhluti hússins. Árið 1903 fékk Þórður leyfi til að lengja hús sitt um 10,5 álnir (tæpa 7 metra) til norðurs og var sú viðbót einnig með miðjukvisti (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:74). Var húsið þá nokkurn veginn komið í endanlega stærð að grunnfleti. Löngu síðar voru gerðar ýmsar aðrar breytingar á húsinu, en nánar um það aftar í greininni.  

Aðalstræti 13 er tveggja hæða timburhús með háu portbyggðu risi og stendur á háum steinkjallara. Skiptist húsið í tvo hluta, ytri og syðri og er ytri hlutinn sá upprunalegi en sá syðri viðbót, fimm árum yngri en sá ytri. Ytri hluti hússins er einlyftur með háu risi og miðjukvisti að framan (austan) og lágum, aflöngum kvisti að aftan (vestanverðu). Á vesturhlið er smár inngönguskúr sem og á norðurstafni. Segja má að syðri hluti hússins sé tvílyftur með háu risi en þar hefur risi hússins verið lyft, sem kallað er. Kvistarnir tveir á framhlið mynda þannig eina heild en í stað risþaks hafa verið byggðir veggir efri hæðar á milli kvistanna og einnig suður eftir allri þekjunni, svo suðurstafn hússins er allur tvílyftur. Kvistirnir eru þannig aðeins til staðar að því leyti, að mænar þeirra skaga upp úr aflíðandi þakinu. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak. Í flestum gluggum hússins eru krosspóstar en einnig eru á nokkrum stöðum einfaldir póstar, láréttir, sem og lóðréttir. Blindgluggi (falskur gluggi) vestanvert á suðurstafni skartar ámáluðum sexrúðupósti. Grunnflötur Aðalstrætis 13 er um 16x8m, útskot að norðan um 5x2m og útskot að vestan 1,5x2m. Í Húsakönnun frá 1986 er húsið sagt 844 rúmmetrar að stærð, en með stækkun á efri hæð hússins, sem gerð var skömmu síðar má fullyrða, að húsið sé orðið meira en 900 rúmmetrar.  

Þórður Thorarensen, sem byggði húsið, var fæddur árið 1859 að Stóru-Brekku í Hörgárdal. Hann var gullsmiður, nam þá iðn á Akureyri hjá Magnúsi Jónssyni og í Reykjavík hjá Ólafi Sveinssyni. Hann fluttist til Akureyrar árið 1882 og sama ár kvæntist hann Önnu Jóhannsdóttur. Anna var fædd á Akureyri en foreldrar hennar voru Jóhann Eyjólfsson, sem var Skagfirðingur og Þóra Þorláksdóttir frá Öngulsstöðum í samnefndum hreppi í Eyjafirði. Fjórum árum síðar reistu þau sér veglegt tvílyft hús neðst í Búðargili, ásamt Jakobi Gíslasyni söðlasmið. Fékk það hús síðar númerið 6 við Lækjargötu og stendur það enn. Bjuggu þau þar í rúman áratug uns þau reistu nýtt á „nýju landi“ við Aðalstræti 13. Þórður stundaði iðn sína svo lengi sem þrek og heilsa leyfði og var verkstæði hans í húsinu hér. Verkstæði sitt og sölubúð hafði hann lengst af á neðri hæð suðurhluta Aðalstrætis 13 en bjó, ásamt fjölskyldu sinni á efri hæð. Þórður var einnig virkur í hinum ýmsu félags- og trúnaðarstörfum og jarðrækt, garðrækt og búnaðarmál voIMG_2607ru Þórði mjög hugleikin. Ræktaði hann m.a. mikinn skrúðgarð sunnan við hús sitt hér. Þórður var einn af stofnendum Jarðræktarfélags Akureyrar, sem stofnsett var vorið 1896 og hafði, eins og nafnið bendir til, jarðrækt og framkvæmdir við jarðabætur, að markmiði. Var hann einn af mikilvirkustu jarðabótamönnum bæjarins á þeim árum, en einnig voru þeir Páll Briem amtmaður og Friðbjörn Steinsson bóksali mikilvirkir á þeim vettvangi. Jarðræktarfélag Akureyrar rann inn í Ræktunarfélag Norðurlands árið 1905. Um Þórð Thorarensen segir S.B. nokkur í minningargrein í Degi þ. 27. janúar 1945: Smíði hans bar vott um vandvirkni og góðan og óbrjálaðan [svo] smekk. Orðheldinn var hann svo, að aldrei mun skeikað hafa um það, sem hann lofaði. Hann var strangheiðarlegur í viðskiptum, og sagði jafnan kost og löst, gildi eða gagnsleysi vöru þeirrar, sem hann hafði á boðstólum. Þurfti þar enginn að kaupa kött í sekk (S.B. 1945:5).  

 

            Árið 1916 var Aðalstræti 13 virt til brunabóta og sagt íbúðarhús, einlyft með porti, háu risi, þrem kvistum á steinsteyptum kjallara. Veggir og þak hvort tveggja úr timbri og járnvarið. Neðri hæð (gólfi) var lýst svo: Undir framhlið [vestanmegin] „1 stofa, gullsmíðaverkstæði, sölubúð og tvær forstofur og úr annarri þeirra stigi upp á loftið“. Bakhlið (austanmegin) 1 stofa, eldhús, forstofa með stiga upp á loftið og geymsla. Á lofti 3 herbergi undir framhlið, forstofa og geymslurými. Á bakhlið þrjú herbergi, eldhús og búr og auk þess eitt herbergi fyrir gafli. Kjallari hólfaður í tvennt. Alls voru sex kolaofnar og tvær eldavélar í húsinu og tveir skorsteinar og 35 gluggar voru á húsinu.  Grunnflötur hússins mældist 16x7,5m og hæð hússins 6,9m. (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 42).  

 

Þórður Thorarensen bjó hér til æviloka, IMG_2605en hann lést í ársbyrjun 1944. Anna Jóhannsdóttir Thorarensen lést í maí 1946. Eftir þeirra daga var húsinu skipt í fjóra eignarhluta.  Í Húsakönnun frá 1986 (Hjörleifur Stefánsson 1986:74) er eigendatal og segir þar, að Jón Sveinbjarnarson hafi eignast neðri hæð suðurhluta hússins árið 1949 og Elín Friðfinnsdóttir norðurhluta efri hæðar árið 1975. Ári síðar eignast María Magnúsdóttir suðurhluta efri hæðar og Hreinn Grétarsson er eigandi suðurhluta neðri hæðar frá 1980. Eignarhaldi annarra hluta hússins er ekki getið á þessu tímabili. Með aðstoð hins óviðjafnanlega þarfaþings timarit.is er hægt að geta að einhverju leyti í þær eyður, a.m.k. fyrir fyrstu árin eftir daga Þórðar Thorarensen.

 

Þórður Thorarensen lést þann 16. janúar 1944. Rúmum mánuði síðar, 24. febrúar, birtist eftirfarandi auglýsing í Degi. Auglýsingin samanstendur aðeins af sex orðum: Húseignin Aðalstræti 13 er til sölu og tekið fram, að upplýsingar veiti Ólafur Thorarensen. Rúmu ári síðar, 15. mars 1945 er Aðalstræti 13 aftur auglýst til sölu, en í þetta sinn aðeins norðurhlutinn og tekið fram, að um sé að ræða tvær íbúðir. Undir þessa auglýsingu er skrifað, að semja beri við undirritaðan, Vilhjálm Guðmundsson skipasmíðameistara. Af framangreindum upplýsingum er freistandi að draga þá ályktun, að téður Vilhjálmur hafi mögulega keypt húsið af erfingjum Þórðar Thorarensen og skipt því upp, en það er þó alls ekki víst. En víst er þó, að hann átti norðurhlutann í mars 1945 og þar voru innréttaðar tvær íbúðir. Tveimur mánuðum síðar er Björgvin nokkur Elíasson búsettur í Aðalstræti 13, en í hverri íbúð hann bjó, liggur ekki fyrir þar. Hann var a.m.k. ekki að auglýsa íbúð til sölu, heldur árabát. Næst er íbúð auglýst til sölu í Aðalstræti 13 í ársbyrjun 1949 og er þar lýst sem þriggja herbergja auk eldhúss og geymslu og þvottahúss í kjallara og íbúðin sögð laus frá og með 14. maí. Undir skrifar Jóhannes Jósepsson. (Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða Jóhannes Jósefsson, sem löngum var kenndur við Hótel Borg). Mögulega hefur Jón Sveinbjarnarson, sem getið er í Húsakönnuninni keypt af Jóhannesi. Það yrði æði löng upptalning, að telja upp eigendur og íbúa hússins síðustu 80 árin svo við látum staðar numið hér. Íbúar hússins gegnum tíðina  eru orðnir ansi margir. Á 8. og 9. áratugnum voru gerðar nokkrar breytingar á húsinu, sem breyttu nokkuð  yfirbragði þess frá hinu upprunalega. Árið 1972 var risi lyft á milli kvista og árið 1987 var risinu lyft á suðurhluta svo suðurhluti hússins er raunar tvílyftur með lágu, aflíðandi risi. Jafnframt voru gerðar svalir á efri hæð suðurhliðar. Þær breytingar voru gerðar eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Fékk húsið þá það lag, sem það nú hefur.  

 P7200036

Síðustu ár hafa farið fram ýmsar endurbætur á húsinu, að utan jafnt sem innan og þegar þetta er ritað eru þær raunar enn yfirstandandi. Norðurhluti hússins skemmdist nokkuð í bruna þann 20. júlí 2009. Var sá hluti allur endurbyggður og er fyrir vikið sem nýr. Í bókinni Innbær hús og fólk eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur, segir eigandi og íbúi suðurhluta hússins, Gunnar Anton Njáll Gunnarsson, frá upplifun sinni af húsinu og ekki síst lóðinni. Undir spónlögðum veggjum kom í ljós panelklæðning og grjóthleðsla í kjallara og skorsteini. Þá fór hann ansi óvenjulega leið við að fella stórt reynitré sunnan við húsið, klifraði upp í það með bogasög og sagaði niður grein fyrir grein. Mjög þröngt var um skógarhöggsframkvæmdina, því aðeins var um tveggja metra rými þar sem stofninn mátti falla svo hann lenti ekki á svölum eða grindverki nágrannanna. Tréð mikla öðlaðist hins vegar framhaldslíf því úr stofninum smíðaði Gunnar borð og sex stóla (Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:25). 

Aðalstræti 13 er stórbrotið og glæst hús. Síðari tíma breytingar gefa því ákveðin sérkenni og setja á það sérstakan svip, en hér er í raun um að ræða tvo ólíka húshluta, hvor með sínum sérkennum: Syðri hlutinn er tvílyftur með lágu risi og kvistum sem þó standa aðeins uppúr þekjunni að litlu leyti, og norðurhlutinn einlyftur með háu risi og kvisti, sem tengist á framhlið og rennur skemmtilega saman við suðurhlutanum milli kvistanna. Á suðurhlið setja smáir gluggar, fyrrverandi „súðargluggar beggja vegna svaladyra skemmtilegan svip á húsið. IMG_2610Sem fyrr segir standa yfir gagngerar endurbætur á húsinu, norðurhlutinn var endurbyggður eftir brunaskemmdir, svo húsið er í góðri hirðu. Sama á við um lóð, þó næsta lítið sé eftir að skrúðgarði þeim, sem Þórður Thorarensen ræktaði af alúð og natni á fyrri hluta síðustu aldar. Húsið og umhverfi þess er til mikillar prýði í fallegu umhverfi Innbæjarins. Aðalstræti 13 hlýtur í Húsakönnunum (Hjörleifur Stefánsson 1986:74, Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:32) varðveislugildi sem hluti merkrar heildar og er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Húsaröðin við þessi mót Aðalstrætis og Hafnarstrætis er býsna merk heild, hvort sem um ræðir út frá fagurfræðilegum eða sögulegum þáttum. Saga hússtæðisins sem slíks er einnig merk, þar eð húsið er byggt á einni fyrstu landfyllingu, sem grafin var með handafli úr brekkunni. Saga byggðar neðan Brekkunnar á Akureyrar er að mörgu leyti saga landfyllinga, allt frá austanverðu Aðalstræti, um ytri hluta Innbæjar og norður að Oddeyri, enda var undirlendið næsta lítið (eða ekkert) frá náttúrunnar hendi. Myndirnar eru teknar 20. júlí 2009, 12. september 2022 og 22. september 2024.    

 

Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins:  https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 69, 9. apríl 1898.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

 Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni 

http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.

S.B. 1945 Þórður Thorarensen gullsmiður”. Í Degi, 4. tbl. 27. árg. Bls. 5. Sjá tengil í texta á timarit.is.


Hús dagsins: Syðri-Varðgjá

Í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri, má sjá gróskumikinn Vaðlareit, Skógarböðin auk blómlegra byggða. Áður var þar margt stórbýlið en eftir því sem þeim hefur fækkað hefur sumarhúsum, heilsárshúsum og íbúðarhúsum að sama skapi fjölgað. Svæði þetta markar ysta hluta Eyjafjarðarsveitar, áður Öngulsstaðahrepps, sem og syðsta hluta Svalbarðsstrandarhrepps. Þarna eru líka sýslumörk Eyjafjarðar- og S-Þingeyjarsýslu, enda þótt sýslurnar séu aflagðar sem stjórnsýslueiningar. Um 700 metrum sunnan við þessi sveitarfélagamörk stendur bærinn Syðri-Varðgjá, nokkuð hátt í aflíðandi brekku ofan Veigastaðavegar. Þar er um að ræða eitt fimm steinhúsa, sem reist voru sumarið 1920, í hreppunum framan Akureyrar og var húsið reist eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar. Stysta akstursleið frá Miðbæ Akureyrar að Syðri -Varðgjá (um Eyrarland og Leifsstaðabraut að Eyjafjarðarbraut eystri) er nálægt 6 kílómetrum. Vaðlareitur er að hluta til í landi Syðri-Varðgjár.IMG_2554

Varðgjá er ekki landnámsjörð en mun vera fornt örnefni, en í Landnámu segir, að Helgi magri hafi gefið Þorgeiri syni Þórðar bjálka, Hlíf dóttur sína, og land frá Þverá út að Varðgjá. Bjuggu þau á Fiskilæk. Varðgjá mun hafa verið klettagjá við fjöruborð, þar sem skip gátu lent en fylltist síðar af framburði lækja. Tilgátan er sú, að verðir hafi jafnan gætt þessarar lendingar í fyrndinni og nafnið þaðan komið. Varðgjáin sjálf gæti því mögulega hafa verið á svipuðum slóðum og Skógarböðin eru nú eða lítið eitt norðar, þar sem klettabelti eru í sjó fram. Var þessi gjá löngum sýslumörk Vaðlasýslu

(síðar Eyjafjarðarsýslu) og Þingeyjarsýslu. Hvenær Varðgjárjörðin byggðist fyrst er ekki ljóst, en kennileitið birtist stöku sinnum í heimildum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Elsta heimildin sem Stefán Aðalsteinsson (2019:2113) nefnir í Eyfirðingum framan Glerár og Varðgjár (hér eftir Eyfirðingar) um jörðina Varðgjá, virðist vera frá 1390. Þá seldi síra Guðmundur Jónsson, í umboði Steinmóðar ríka Þorsteinssonar, Hákoni bónda í Hvammi jörðina Varðgjá. Þannig er ljóst, að jörðin Varðgjá hefur byggst á 14. öld eða fyrr. Um 1650 var jörðinni skipt í Syðri- og Ytri-Varðgjá. Fram til 1852 töldust Varðgjárbæirnir til Suður Þingeyjarsýslu, en hefur líkast til upprunalega verið Eyjafjarðarsýslumegin; til marks um það er, að jörðin hefur alla tíð tilheyrt Kaupangskirkjusókn. Varðgjá hefur einnig verið rituð Vargá eða Vargjá.

Íbúðarhúsið að Syðri-Varðgjá er einlyft steinhús, hlaðið úr r-steini (sbr. Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson 1996: 110) á háum steyptum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu (vestanverðu). Að austan er smár þríhyrndur kvistur fyrir miðju, auk inngönguskúrs. Á vestanverðu eru svalir úr timbri. Krosspóstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Áfast húsinu að norðan eru fyrrum fjós (síðar fjárhús) og hlaða. Grunnflötur íbúðarhússins er 8,3x10,12m og útskot að austan 2,26x2,12m (skv. teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar). Alls er húsasamstæðan 23,47m að lengd í N-S en mesta breidd A-V 13,71m.IMG_2552

Sem fyrr segir er fyrrum fjós og hlaða sambyggt íbúðarhúsinu en á bernskuskeiði steinsteypunnar í sveitum landsins, á fyrri hluta 20. aldar voru þess háttar húsasamstæður móðins. Syðra-Varðgjárhúsið var þó reist stakstætt og stóð þannig í sjö ár, en útihúsin voru reist 1927. Fyrstu árin munu kýrnar hafa verið hýstar í kjallara hússins, en þannig nutu íbúarnir yls frá kúnum. Slíkt fyrirkomulag hafði tíðkast frá alda öðli í óupphituðum baðstofum torfbæja. Þá er auðvitað rétt að geta þess, að samnýting íbúðar- og búpeningsrýma tíðkaðist í gömlu torfbæjunum og var þar almennt um að ræða sambyggingar skepnuhúsa, hlaða, skemma og íbúðarrýma.

Fyrst minnst er á torfbæi, þá stóð auðvitað slíkur á Syðri-Varðgjá frá fornu fari. Sem fyrr segir fluttist Syðri Varðgjá milli sýslna árið 1852, ásamt Ytri-Varðgjá. Þá átti og bjó á Syðri-Varðgjá, Guðmundur Magnússon. Hann var fæddur hér árið 1797 en foreldrar hans, Magnús Hallgrímsson og Þórunn Guðmundsdóttir bjuggu hér á árunum 1794 til 1813. Guðmundur virðist ekki hafa tekið við búinu af foreldrum sínum, því hann sest hér að 1826. Nú kann einhver að spyrja hvað ábúendur á fyrri hluta 19. aldar hafa með núverandi hús að gera, sem reis öld síðar. Svo vill nefnilega svo til, að tengdadóttir Guðmundar Hallgrímssonar, Margrét Kristjánsdóttir, var móðir og tengdamóðir þeirra sem byggðu núverandi íbúðarhús á Syðri Varðgjá. Margrét Kristjánsdóttir, frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði var gift Sigfúsi Guðmundssyni Hallgrímssonar. Sigfús lést hins vegar ungur og bjó Margrét hér sem ekkja í þrjú ár uns hún kvæntist Hermanni Sigurbjarnarsyni. Eignuðust þau fimm börn og tvær dætur þeirra gerðust síðar húsfreyjur á Varðgjárbæjunum. Svava Hermannsdóttir giftist Tryggva Jóhannssyni og bjuggu þau á Ytri-Varðgjá. Aðalbjörg Hermannsdóttir giftist um 1904 Stefáni Stefánssyni frá Tungu á Svalbarðsströnd og tóku þau við búinu á Syðri-Varðgjá sama ár (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2117). Umfjöllun um húsasögu er oft samtvinnuð ættfræði og þá sérstaklega þegar um ræðir bæi, þar sem sömu ættir bjuggu oft mann fram af manni. Þegar ritaðar eru langar ættartölur getur það gerst, að nöfn misfarist. Eru þá ábendingar hvers konar, þar að lútandi, vel þegnar.

Eins og fram hefur komið í þessum pistlum, mætti kalla sumarið 1920IMG_2555 „steinhúsasumarið“ í hreppunum framan Akureyrar. Það þótti nokkrum tíðindum sæta og rataði að þá risu fimm steinhús í þeim sveitum. Steinhús voru þá teljandi á fingrum annarrar handar í héraðinu og ekki voru þau heldur mörg á Akureyri. Það virtist hins vegar koma einhver kippur í byggingu steinhúsa árið 1920 og jókst mjög árin á eftir. Mögulega má rekja þetta til þess, að liðkað hafi um innflutning á sementi, járni og öðrum byggingaaðföngum á þessum árum, en væntanlega hefur allt slíkt verið örðugt á árum fyrri

heimstyrjaldar. Á þessum árum komu einnig fram ungir og metnaðarfullir byggingarfræðingar, sem numið höfðu erlendis, og lögðu fyrir sig hina nýju húsagerðarlist. Nokkurs konar „steinhúsafræðingar“ Má þar m.a. nefna Guðjón Samúelsson, Jóhann Franklín Kristjánsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörn Jónsson, sem einmitt teiknaði Syðri-Varðgjá.

Hinn, þá 24 ára Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýlega hafði numið byggingarfræði Noregi, teiknaði árið 1920 m.a. tvö íbúðarhús í Öngulsstaðahreppi og fáein á Akureyri. (Kannski teiknaði Sveinbjörn einnig Kropp í Hrafnagilshreppi, sem reis sama sumar). Hann hafði árið áður fundið upp r-stein, sérstakan hleðslustein og smíðað þar til gerða vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Íbúðarhúsið á Syðri-Varðgjá var einmitt reist úr þessum merka steini og er líklega annað húsið, sem reist er úr honum. Fyrsta r-steinshúsið var hús Þórhalls Bjarnasonar við Oddeyrargötu 15. Oddeyrargata 15Svo vill þó til, að það hús var líka reist 1920, svo líklega munaði aðeins örfáum vikum á húsunum. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.

Stefán Stefánsson og Aðalbjörg Hermannsdóttir reistu sem fyrr segir núverandi hús að Syðri-Varðgjá. Þau hafa einnig reist fjós og hlöðu úr steinsteypu, áfast íbúðarhúsinu. Ekki fylgir sögunni hver hannaði þær byggingar, en freistandi að álíta, að þau hafi leitað til Sveinbjarnar, sem þá var orðinn sveitungi þeirra; hann teiknaði og reisti húsið Knarrarberg í Öngulsstaðhreppi fáeinum árum áður. Stefán var sem fyrr segir fæddur á Tungu í Svalbarðsstrandarhreppi. Hann bjó hér í 35 ár, en hann fluttist árið 1939 að Svalbarði á samnefndri strönd, þar sem hann stundaði búskap. Hann var þá orðinn ekkjumaður, en Aðalbjörg Hermannsdóttir lést árið 1936, hafði þá búið hér allan sinn aldur. Stefán Stefánsson lést árið 1964 og segir í minningargrein um hann, að á Syðri-Varðgjá hafi þau reist “[...] hvert hús úr rústum og bjuggu við rausn, enda stóð búskapurinn styrkum fótum, þó að húsbóndinn væri löngum önnum kafinn við opinber störf“ (Benjamín Kristjánsson 1964:5). Þannig má áætla, að húsakosturinn hafi ekki verið beysinn, þegar þau hófu uppbyggingu. (Þess má líka geta, að í framangreindri minningargrein eru Stefán og Aðalbjörg sögð hafa gifst árið 1903 en íIMG_2553 Eyfirðingum 1904). Af þeim opinberu og öðrum störfum sem Stefán sinnti má nefna, að hann var lengi ullarmatsmaður Norðlendingafjórðungs, sat í bygginganefnd Húsmæðraskólans á Laugalandi og endurskoðandi hjá KEA í 30 ár. Þá má nefna, að Stefán Stefánsson var föðurbróðir hins kunna landkönnuðar, Vilhjálms Stefánssonar. Hálfbróðir Stefáns, var Jóhann Stefánsson sem fluttist til Norður-Dakóta. Sonur Jóhanns, Vilhjálmur, hlaut föðurnafn hans, Stefánsson, sem ættarnafn, samkvæmt þarlendri hefð.

Árið 1934 var húsakostur Syðri-Varðgjár metinn til brunabóta og lýst nokkurn veginn svona: Íbúðarhús 8x10m að stærð, 7,5m hátt. Tvöfaldir steinveggir og skilrúm í kjallara og stofuhæð úr sama efni. Skilrúm á lofti, sem og loft og gólf úr timbri. Eldavél í kjallara og miðstöðvarketill, 4 radíatorar [svo] í stofum. Raflögn er í húsið, 1 rafeldavél, 3 ofnar, 2 eldstæði og húsið búið vatnsleiðslu. Áfast húsinu er 12 bása fjós og hlaða 13x5m, 4,5m á hæð úr steinsteypu með járnþaki (sbr. Björn Jóhannesson 1934: [án bls.]) Herbergjaskipan var ekki getið. Fimm árum eftir að matsmenn Brunabótafélagsins heimsóttu Syðri-Varðgjá, seldi Stefán Stefánsson jörðina og þangað fluttu þau Pétur Guðmundsson og Aðalbjörg Jónsdóttir. Þau bjuggu aðeins í tvö ár hér, til 1941 en þá settust hér að þau Þorkell Björnsson og Anna Eiríksdóttir, sem bjuggu hér í fjögur ár. Páll Vigfússon og Margrét Benediktsdóttir bjuggu að Syðri-Varðgjá frá 1945 til 1958.

Árið 1958 fluttu að Syðri-Varðgjá þau Egill Jónsson frá Hrolllaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá og Þórdís Þórólfsdóttir frá Stórutungu í Bárðardal. Þau voru einmitt ábúendur hér þegar Byggðum

Eyjafjarðar voru gerð skil í samnefndu ritverki árið 1973, en upplýsingarnar þar miðuðust við stöðuna árið 1970. Þá voru byggingar, auk íbúðarhússins, sem talið var 481 rúmmetri, fjós fyrir 12 kýr, fjárhús fyrir 100 fjár, hesthús fyrir 7 hross og hlöður sem alls tóku 550 hesta af heyi. Það jafngilti metnum töðufeng af 10,7 hektara ræktuðu landi jarðarinnar. Þá var stunduð hér kartöflurækt, á hálfum hektara lands. Bústofn Syðri-Varðgjár árið 1970 samanstóð af 8 kúm, 8 geldneytum, 122 fjár og 7 hrossum (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:411)P2050008

Árið 1990 var húsakosturinn sá sami og 1970 og kemur fram í þeirri bók, að fjárhúsin séu byggð 1927, 1932 og 1947 og elsta fjárhúsið hafi áður verið fjós. Þar er um að ræða húsið, sem áfast er íbúðarhúsinu. Hlöður eru byggðar 1927 og 1934 og eru samtals sagðar 534 rúmmetrar; gamla heyfengsmælieiningin, hestar, er ekki notuð í það skiptið. Geymslur byggðar 1927, 1947 og 1964 eru alls 132 fermetrar. Bústofn er 130 fjár og sjö hross (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:603) Ábúandi er Egill Jónsson, en Þórdís lést árið 1984. Egill Jónsson, sem hét fullu nafni Stefán Egill Jónsson bjó hér fram á síðasta dag, en hann lést árið 2015. Árið 2010 hafði bústofn Egils dregist töluvert saman frá 1990, kindurnar tuttugu og tvær og hrossin þrjú (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:603) Ræktað land árin 1990 og 2010 var 12,3 hektarar.

Árið 1983 var húsið Brekkulækur reist á 1000 fermetra leigulóð, skammt sunnan og neðan Syðri-Varðgjár. Þar voru að verki Þórólfur, sonur Egils og Þórdísar og kona hans Sigrún Kristbjörnsdóttir. Fáeinum árum síðar fluttu þangað Sveinn Egilsson (bróðir Þórólfs) og Guðrún Andrésdóttir.

Á árunum 2018-21 fóru fram gagngerar endurbætur á húsakosti Syðri-Varðgjár, eftir teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar. Á meðal framkvæmda á teikningunum var innrétting á gamla fjósinu, svalir að vestanverðu og kvisturinn á vesturhlið. Í húsinu reka börn þeirra Egils og Þórdísar gistiheimili og hafa endurbæturnar, að utan jafnt sem innan, miðast við það hlutverk. Það verður eflaust enginn svikinn af því að gista þetta glæsta ríflega aldargamla hús í hlíðum Vaðlaheiðar; óborganlegt útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörðinn, sveitina og fjörðinn til beggja átta, fram og út. Endurbæturnar á húsinu eru sérlega vel heppnaðar og kvisturinn setur raunar enn skemmtilegri svip á þetta formfagra en látlausa hús. Syðri-Varðgjá er vitaskuld aldursfriðað hús, þar sem það er byggt árið 1923. Þá hlýtur það að hafa nokkuð byggingarsögulegt gildi, sem annað hús veraldarsögunnar, reist úr r-steini. Húsið stendur á áberandi stað, í brekkunum ofan Vaðlareits og blasir skemmtilega við frá Akureyri. Á næstu árum er fyrirhuguð mikil uppbygging þéttbýlis skammt norðan við húsið, í landi Ytri-Varðgjár. Þá hefur einnig risið nokkuð þéttbýli sunnan hússins, sem kallast Kotra. Verður Syðri-Varðgjá glæstur fulltrúi elstu gerðar steinsteyptra íbúðarhúsa innan um nýju hverfin. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 3. september 2024, en eldri mynd, sem sýnir Syðri-Varðgjá án kvists er tekin 5. febrúar 2011. Myndin af Oddeyrargötu 15 er tekin 10. júlí 2010. 

Heimildir

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1964. „Stefán Stefánsson, bóndi á Svalbarði“. Íslendingur. 27. tbl. 50. árg. bls. 5.

Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.


Hús dagsins: Litli-Hamar

Kannski mætti kalla Tungnafjall, næst sunnan við Staðarbyggðarfjall, nokkurs konar systurfjall hins síðarnefnda. En Tungnafjall er ekki óáþekkt syðsta hluta Staðarbyggðarfjalls, sem nefnist Sigtúnafjall, háar og brattar, hömrum girtar hlíðar og efst mjóar en langar eggjar, svo líkja mætti lögun fjallanna við A-laga tjöld eða brött risþök. Kambsskarð, nyrst í Tungnafjallinu, gefur fjallinu hins vegar ákveðið sérkenni. En fjöll þessi eru auðvitað hlaðin upp af sömu eða sams konar hraunlögum á hundruð þúsundum eða milljónum ára og voru eitt sinn ein heild, eða þar til ísaldarskriðjökull gróf Þverárdalinn á milli þeirra. Neðan Tungnafjalls standa nokkrir bæir en segja má, að strangt til tekið standi bæirnir næst sunnan Þverár efri ekki við rætur Tungnafjalls heldur næsta fjalls sunnan við.  Þar er um að ræða Möðruvallafjall en  norðan úr því gengur langur og aflíðandi háls sem nær eiginlega fram fyrir gjörvallt Tungnafjall. En bakvið háls þennan rennur Mjaðmá úr samnefndum dal austan Möðruvallafjalls og rennur hún í Þverá rétt ofan við brúna yfir gilið mikla. En látum nú staðar numið af landfræðilegum formála. Eins og fjöll fjarðarins mynda skemmtilega sjónræna heild, gera sveitirnar undir þeim slíkt hið sama. Margt glæstra húsa á skemmtilegum bæjarstæðum standa undir Tungnafjalli sem og Möðruvallafjalli, þeirra á meðal er eitt af elstu steinhúsum í sveitunum framan Akureyrar. Um er að ræða hús sem reist var sumarið 1920 á bænum Litla-Hamri. Bærinn stendur í brekku neðan við Eyjafjarðarbraut eystri, skammt sunnan við hið hrikalega gil Þverár efri eða Munkaþverár. Frá Litla-Hamri eru rúmlega 20 kílómetrar til Akureyrar.  P4230956

Rekja má sögu jarðarinnar Litla-Hamars til landnámsaldar en fyrirrennari jarðanna Litla- og Stóra-Hamars var jörðin Hamar, sem byggð var úr landi Þveræinga (Munkaþverár). Er hennar getið í Víga-Glúms sögu en þar mun hafa búið Þorkell nokkur. Þorkell var „[…]  allvel efnum búinn en reyndist lítilmenni“ (Stefán Aðalsteinsson 2019:1407). Næstu ábúendur voru Helga, dóttir Þorkels, og Ingólfur Þorsteinsson en annars fer fáum sögum af jörðinni fyrr en á 15. öld. Þá hafði jörðinni verið skipt í Litlhamar [svo] og Meiri Hamar, síðar Stórhamar. Hvenær nákvæmlega jörðinni var skipt liggur ekki fyrir, en elsta heimildin um „Hamar hinn minni“ er úr jarðaskrá Munkaþverárklausturs frá 1446. Var þá jörðin ein fjölmargra, er klaustrið átti. Þegar manntal var fyrst gert á Íslandi áttu heima á Litla-Hamri þau Jón Björnsson, „ekkjumaður aldurhniginn“, Jón Eyjólfsson, vinnumaður hans og kona hans Aldís Jónsdóttir. Auk þeirra Þórunn Jónsdóttir og sonur hennar Jón Guðmundarbur. Aldís og Þórunn munu hafa verið dætur Jóns. Þá er einnig búsettur hér Sigurður Sigmundsson, sem síðar gerðist bóndi á Kambi (næsta bæ ofan Litla-Hamars). Í stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár má finna ítarlegt ábúendatal fyrir Litla-Hamar (og alla bæi í Eyjafjarðarsveit) frá 1703 til vorra daga, en við skulum stikla á stóru og bera niður við upphaf 20. aldar. Á áttunda áratug 19. aldar var eigandi og ábúandi Jón Davíðsson (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1407). Hann bjó síðar á Kroppi, þar sem sonur hans, Davíð, fæddur hér á Litla-Hamri, reisti veglegt steinhús árið 1920. Svo vildi til að sama sumar var einmitt líka reist steinhús á Litla-Hamri.  

Það mætti hæglega kalla sumarið 1920 „Steinhúsasumarið“ í sveitunum framan Akureyrar en þá risu fimm steinhús í hreppunum þar. Auk Kroppshússins Í Hrafnagilshreppi reis í sama hrepp hús eftir teikningu Guðjóns Samúelsson í Möðrufelli og hús eftir svipaðri teikningu reis einnig í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi. Yst í Öngulsstaðahreppi reis steinhús á Syðri-Varðgjá, eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar og eftir sams konar teikningu reis einnig steinhús í syðstu byggðum hreppsins á Litla-Hamri. Þar var að verki Jónatan Guðmundsson, þá bóndi hér, og uppkomnir synir hans.  

Litli-Hamar er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara,  með háu risi og miðjukvistum báðum megin. Snúa stafnar hússins norður-suður og við norðurgafl er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og er þar bílskúr. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Gluggasetning hússins er nokkuð sérstök en á þeirri hlið sem snýr að Eyjafjarðarbraut eystri er einn gluggi í „venjulegri stærð“  fyrir miðju en tveir smærri gluggar sitt hvoru megin. Undir rjáfrum á kvistum og stöfnum eru bogadregnir smágluggar. Krosspóstar eru í gluggum. Grunnflötur hússins mælist alls um 14x8m á map.is, þar af bílskúrinn norðanmegin um 4 metrar.  

Samkvæmt stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar) fluttust tveir feðgar hér að Litla-Hamri aldamótaárið. Það voru þeir Guðmundur Jónatansson (1834-1906), fæddur að MIMG_2261 - Copyiklagaðri í Seyluhreppi í Skagafirði og sonur hans, Jónatan, sem fæddur var að Klauf í Öngulsstaðahreppi (skammt ofan og sunnan Laugalands). Guðmundur hafði búið á ýmsum bæjum í hreppnum, m.a. Ytra-Laugalandi, Sigtúnum og Klauf en áður en þeir feðgar fluttust að Litla-Hamri höfðu þeir búið í þrettán ár að Uppsölum. Jónatan var kvæntur Rósu Júlíönu Jónsdóttir frá Illugastöðum í Fnjóskadal og áttu þau þrjú börn, þegar þau fluttu að Litla-Hamri. Eiginkona Guðmundar og móðir Jónatans var Anna Mikaelsdóttur frá Skútum á Þelamörk (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1441).   

Þegar stórfjölskylda þessi flutti að Litla-Hamra stóð þar torfbær eins og almennt tíðkaðist til sveita. Ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður en af Bæjalýsingum og teikningum Jónasar Rafnar má ráða, að hann hafi verið fremur smár, þrjár burstir og undir þeim skáli, bæjardyr og stofa. Önnur rými voru eldhús, göng og baðstofa. Stofan var reyndar með veglegra móti, með millilofti og kjallara og baðstofa var tvíhólfa (sbr. Jónas Rafnar 1975: 121). En líklega hefur torfbærinn verið orðinn ófullnægjandi til íbúðar og mögulega orðinn lélegur, þegar leið á 2. áratuginn.  Svo tímabært var að reisa nýtt íbúðarhús. Á Munkaþverá hafði risið heilmikið steinhús og sama skyldi uppi á teningnum á Litla-Hamri. Árið 1920 réðist Jónatan Guðmundsson svo í byggingu nýja hússins. Væntanlega hafa synir hans þrír, Guðmundur, Gunnar og Tryggvi, sem þá voru um og yfir tvítugt einnig komið að byggingunni. Hönnuður hússins var einnig rúmlega tvítugur, Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýverið hafði lokið byggingafræðinámi í Noregi. (Þess má geta, að Guðmundur, elsti sonur Jónatans, og Sveinbjörn voru jafnaldrar, báðir fæddir 1896).  Sveinbjörn hafði einnig skömmu áður fundið upp nýja gerð hleðslusteins, r-stein og vél til að steypa steininn. Hins vegar mun Litla-Hamarshúsið hafa verið reist úr steinsteypu að mestu leyti en sama sumar, 1920, risu fyrstu r-steinshús veraldarsögunnar.  Þau stóðu (og standa enn) við Oddeyrargötu 15 á Akureyri og Syðri-Varðgjá, yst í Öngulsstaðahreppi.  Tveimur árum síðar reisti Sveinbjörn svo kirkju í Kaupangi úr r-steini.  

Auk þess að hanna og byggja fjölmörg hús á ferli sínum var Sveinbjörn Jónsson mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna, teiknaði m.a. hitaveitu fyrir Kristneshæli árið 1927. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki. Eitt helsta stórvirki Sveinbjarnar er líklega Kaupfélagshúsið við Hafnarstræti 91 sem er eitt af helstu kennileitum Akureyrar á Kaupfélagshorninu svokallaða í Miðbænum.  Einnig má nefna sláturhús á Oddeyrartanga og Sundskálann í Svarfaðardal. Þá teiknaði Sveinbjörn íbúðarhús á næsta bæ við Litla-Hamar, Stóra-Hamri 10 árum síðar. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Svo fátt eitt sé nefnt. Hér er e.t.v. rétt að mæla með ævisögu Sveinbjarnar, Byggingameistari í stein og stál sem Fjölvi gaf út árið 1996.  

Jónatan Guðmundsson telst, skv. Eyfirðingum, bóndi hér til ársins 1925 en þá taka synir hans við búskapnum, Guðmundur árið 1925 og Gunnar ári síðar. Munu þeir hafa átt hvor sinn hluta jarðarinnar. Jónatan bjó þó áfram hér til dánardægurs árið 1942. Þá segir í einni tilkynningu, nánar tiltekið í Íslendingi þ. 7. ágúst 1942, að látist hafi á heimili sínu á Litla-Hamri, „bændaöldungurinn“ Jónatan Guðmundsson. Guðmundur er skráður fyrir búskapnum til ársins 1962 en Gunnar til ársins 1930 en þá mun hann hafa flutt til Snæfellsness. Mun þá Tryggvi hafa tekið við hans jarðarhluta. Bjó Tryggvi hér nánast óslitið áratugum saman, að árunum 1946-50 undanskildum, en þá er Hjalti nokkur Haraldsson skráður bóndi hér (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1442).  

Árið 1934 var Litla-Hamri lýst svo í Brunabótamati: Íbúðarhús, allir útveggir úr steinsteypu og innveggir á neðri hæð. 9x7,3m, hæð 7,5m. Steinskilrúm í kjallara og á stofuhæð. Loft, gólf og skilrúm á lofti úr timbri. Pappaklætt timburþak. Miðstöð á efri hæð, tveir kolaofnar á neðri hæð. Tvær eldavélar við steinsteyptan reykháf. Vatnsleiðsla og skólpleiðsla (Björn Jóhannesson 1934, án bls.).  Ekki er minnst á hvort rafmagn sé í húsinu en slíkt var aldeilis ekki á hverjum bæ árið 1934. Ekki er getið annarra mannvirkja, en þá stóðu einnig hér fjós fyrir 30 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlaða úr torfi og timbri. Þau mannvirki eru einfaldlega sögð „gömul“ í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en í sams konar riti fyrir árið 1990 kemur fram, að þau voru byggð 1916. Ári eftir að matsmenn brunabótafélagsins heimsóttu Litla-Hamar, þ.e. 1935, risu þar fjós, kálfahús, alifuglahús og hlaða úr steinsteypu. Síðar var byggður votheysturn.  

Það er skemmst frá því að segja, að 104 árum eftir byggingu núverandi íbúðarhúss, er Litli-Hamar er enn í eigu og ábúð afkomenda Jónatans Guðmundssonar. Tryggvi Jónatansson var hér bóndi til ársins 1977 er Jónatan, sonur hans, tók við búinu og frá 1986 eru systir hans, Anna Helga Tryggvadóttir og maður hennar Húni Zophoníasson ábúendur hér.  

Árið 1970 eru eigendur hálfrar jarðarinnar og ábúendur téður Tryggvi Jónatansson og Rósa Kristinsdóttir frá Hólkoti á Dalvík. Guðmundur, bróðir Tryggva, er eigandi hálfrar jarðarinnar á móti þeim. Íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð. Byggingar, auk íbúðarhússins, eru fyrrgreindar byggingar frá 1916 og 1935, sem getið er hér að framan. Bústofninn telur 15 kýr, 140 fjár og 3 hross. Túnstærð er 30,96 hektarar og töðufengur mælist 1400 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 362). 

Árið 1990 eru eigendur jarðar þeir feðgar Tryggvi Jónatansson og JónatanIMG_0204 Sigurbjörn Tryggvason, en ábúendur þau Anna Helga Tryggvadóttir og Húni Zophoníasson. Byggingar eru þær sömu en í millitíðinni, þ.e. 1979, hefur risið bílskúr. Þar er íbúðarhúsið sagt 246 fermetrar og bílskúrinn 47 fermetrar. Þar kemur fram, að fjósið er 16 básar, kálfahúsið 64 fermetrar, alifuglahúsið 25 fermetrar og gamla fjárhúsið (frá 1916) fyrir 150 kindur. Hlöðurnar eru alls 1063 rúmmetrar, votheysturn, sem byggður var 1951, er 111 rúmmetrar. Ræktað land er 31 hektari. Bústofninn er 12 kýr, 17 aðrir nautgripir, 121 fjár, 17 hross, 11 hænur og sex alifuglar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 954). 

Þegar Byggðum Eyjafjarðar 2010 voru gerð skil í samnefndu ritverki virðast byggingarnar frá 1916 á bak og burt en hins vegar hafði nýlega (2009) verið reist nýtt kálfahús, það hús ásamt því gamla samtals 223 fermetrar. Þá kemur fram, að fjósið frá 1935 er 91 fermetri en einnig er getið 22 fermetra mjólkurhúss frá 1945, 22 fermetrar. Ekki er minnst á gömlu byggingarnar frá 1916, hlöður eða alifuglahús en hins vegar eru 15 alifuglar m.a. skráðir hér til bústofns. En auk fuglanna fimmtán eru hér 90 geldneyti, 30 fjár og sex hross. Eigendur og ábúendur eru téð Anna Helga og Húni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013: 513).  

Íbúðarhúsið á Litla-Hamri er hið prýðilegasta hús, smekklegt og snyrtilegt. Það er látlaust og einfalt að gerð en hefur þó ákveðin sérkenni, sem gefa því sérstakan svip. Má þar nefna bogadregna glugga, gluggasetningu austurhliðar en einnig gluggapósta en þeir eru ósamhverfir lóðrétt, þ.e. önnur hliðin er umtalsvert breiðari en hin. Húsið er í mjög góðri hirðu, m.a. er á því nýlegt þakjárn. Litli-Hamar er aldursfriðað hús, þar sem það er byggt fyrir 1923. Húsin og trjálundur, sem prýðir hið geðþekka bæjarstæði mynda skemmtilega heild, hvort sem sjónarhornið er ofan frá, af Eyjafjarðarbraut eystri, eða handan ár.  Myndirnar af eru teknar 23. apríl 2020 og 15. apríl 2023 og 8. júlí 2024. 

Heimildir 

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar. 

Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. 

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.  

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. 

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.   


Hús dagsins: Munkaþverá, íbúðarhús

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og hins vegar Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt  hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Á Munkaþverá stendur 180 ára gömul timburkirkja Þorsteins Daníelssonar frá Skipalóni en íbúðarhúsið, sem er tæpra 110 ára gamalt, er ekki síður áhugavert. Hér er um að ræða eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhús sveitanna framan Akureyrar. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar og heimreið frá Eyjafjarðarbraut eystri um 400 metrar.IMG_1199

Jörðin Munkaþverá - örstutt söguágrip

Sögu Munkaþverárjarðarinnar má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Helgi nam Eyjafjörð eins og hann lagði sig en gaf syni sínum land frá Arnarhváli að Þverá hinni efri.  Reisti Ingjaldur hof mikið til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku.  Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klausturins. Unnt er að rekja eigenda- og ábúendatal Munkaþverár nánast óslitið þessi 1100 ár frá dögum Ingjalds Helgasonar til vorra daga. Í því samhengi skal benda á öndvegisritið Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Hér verður aðeins tæpt á nokkrum helstu nöfnum. Eftir daga Ingjalds Helgasonar tók sonur hans Eyjólfur, við jörðinni og tók Glúmur sonur Eyjólfs, við búinu af honum. Glúmur þessi varð þekktur undir nafninu Víga-Glúmur. Var það einmitt eftir vígaferli, sem Einar Eyjólfsson frá Möðruvöllum fékk dæmda hálfa Þverá af Víga-Glúmi í bætur, auk þess sem sá síðarnefndi var gerður brottrækur úr sveitinni. Hinn helminginn af Þverárlandi mun Einar hafa keypt af Grundarmönnum. Var Einar höfðingi mikill og löngum nefndur Einar Þveræingur. Helst er hans minnst í Íslandssögunni, fyrir að hindra að Ólafi Noregskonungi yrði gefin Grímsey. Það mun hafa verið seint á 10. öld, að Einar Eyjólfsson eignaðist Þverá og gekk hún í erfðir í nokkra liði meðal afkomenda hans í karllegg allt til miðrar 12. aldar, að jörðin var lögð undir klaustur. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem lagði klaustrinu til jörðina, en hana erfði hann eftir föður sinn, Gils Einarsson. Sá var langalangafabarn Einars Þveræings (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1467).

Á Munkaþverá var klaustur fram að siðaskiptum, eða í nær 400 ár, og þar voru ábótar jafnframt bústjórar. Munkaþverárklaustur var jafnan löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199). Byggingar hafa verið miklar í tíð klaustursins. Stórbruni varð á svæðinu 1429 sem eyddi nánast öllum byggingum en allt var endurbyggt. Eigandi Munkaþverár á árunum 1695-1725, Sveinn Torfason, endurbyggði ýmsar klausturbyggingar m.a. forna kirkju, sem fauk árið 1706. Núverandi kirkja, byggð 1844, leysti af hólmi kirkju Sveins frá upphafi 18. aldar.  Árið 1772 eyddust margar byggingar í bruna, en síðustu eftirhreytur klausturbygginga munu hafa staðið fram yfir aldamótin 1800. En berum nú niður við næstu aldamót þar á eftir.IMG_0203

Íbúar og húsakostur á Munkaþverá í upphafi 20. aldar

Þegar 20. öldin gekk í garð, stóð torfbær á Munkaþverá, eins og á langflestum bæjum í hreppunum framan Akureyrar og víðast hvar í sveitum landsins. Munkaþverárbærinn var þó einn hinn stærsti og veglegasti í Öngulsstaðahreppi.  Í honum voru a.m.k. sex rými sem flokkast gátu sem nokkurs konar stofur eða íveruherbergi (sbr. Jónas Rafnar 1975:123) og á honum voru fimm burstir. Þá voru tvær smærri burstir sambyggðar, þar sem voru smiðja og skemma. Munkaþverárbærinn var talinn vera frá 18. öld, mögulega hefur hluti hans verið byggður upp eftir brunann 1772, jafnvel fyrr. Hér má sjá mynd af gamla Munkaþverárbænum. Í upphafi 20. aldar var tvíbýlt á Munkaþverá. Þar bjuggu annars vegar þau Jón Jónsson hreppstjóri og kona hans Þórey Guðlaugsdóttir sem áttu 2/3 hluta jarðarinnar. Þau voru komin á efri ár, en tvö börn þeirra, Stefán og Þorgerður, bæði á fertugsaldri um 1900, bjuggu með þeim og hafa væntanlega annast búskapinn ásamt þeim. Eldri systir þeirra Stefáns og Þorgerðar var Kristína. Hún og maður hennar, Júlíus Hallgrímsson, áttu og bjuggu á þriðjungi jarðarinnar (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018). Júlíus sem hét fullu nafni Einar Júlíus Hallgrímsson, lést fyrir aldur fram árið 1902 en Kristína bjó áfram hér. Jón Jónsson lést vorið 1905 og Þórey Guðlaugsdóttir fjórum árum síðar. Við lát Þóreyjar móður sinnar eignaðist Stefán Jónsson alla jörðina, en leigði systur sinni þann hluta sem hún hafði búið á. Sama sumar kvæntist Stefán, Þóru Vilhjálmsdóttur frá Laufási í Grýtubakkahreppi, þann 27. júní 1909 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1488). P7100033Fljótlega fóru þau að huga að endurnýjun húsakosts. Víða í eyfirskum sveitum viku torfbæirnir  fyrir timburhúsum og á 2. áratug 20. aldar voru steinhús farin að rísa á Akureyri. Eitt fyrsta stóra steinsteypuhús þar í bæ reistu þeir bræður Friðrik og Einar Einarsson við Strandgötu 45 árið 1914. Mun Friðrik, sem var beykir, hafa haft veg og vanda að hönnun byggingarinnar.  Nokkru fyrr hafði eitt stærsta verksmiðjuhús (Gefjunarhúsið, rifið í ársbyrjun 2007) landsins risið á Gleráreyrum.  Handan Eyjafjarðarár hafði Magnús á Grund reist mikið steinsteypt samkomu- og íbúðarhús úr steini árið 1910, í stað fyrirhugaðs timburhúss, sem brann til ösku á byggingarstigi. Var það um svipað leyti, sem Stefán Jónsson lagði drög að steinsteyptu húsi, ekki ósvipað að stærð og gerð og hús þeirra bræðra á Oddeyrinni.

Nýja íbúðarhúsið og mennirnir á bakvið það

Þann 15. júlí 1915 birtist eftirfarandi frétt í blaðinu Norðurlandi: „Steinhús mikið ætlar Stefán Jónsson óðalsbóndi á Munkaþverá að byggja á bæ sínum í sumar. Jóh. Kristjánsson byggingameistari stýrir verkinu og ættu bændur hér í firðinum að nota tækifærið og finna hann“ (án höf. 1915:1). Ætla mætti, að hér séu bændur fjarðarins hvattir til að leita til byggingameistarans og kynna sér þessa nýjung, sem steinhúsin voru, með það augnamiði, að reisa sér slík. En Jóhann Kristjánsson fékkst einmitt við ráðgjöf og húsahönnun vegna steinhúsabygginga bænda. Þá er einnig sá möguleiki, að þetta sé í og með atvinnuauglýsing: Menn sem áhuga hafi geti komið og lagt hönd á plóg við bygginguna. Samkvæmt Kristínu Jónsdóttur (2018, án bls.) komu margir bændur í sveitinni að byggingunni. 

Stefán Jónsson fæddist í gamla bænum á Munkaþverá, þann 19. mars 1866.  Stefán, sem nam við Möðruvallaskóla í Hörgárdal, árin 1883 – 86, hélt til Ameríku árið 1890 og dvaldist þar í fimm ár, nánar tiltekið í Grand Forks í Norður-Dakóta. Tveir eldri bræður höfðu flust þangað á upphafsárum Vesturferða, 1875, og ílengdust þar. Dvölin Vestra mun hafa haft mikil áhrif á hann að því leyti til, að hann var mjög framfarasinnaður og vildi tileinka sér nýja tækni og vinnubrögð og mun hafa haft mikið dálæti á amerískum búnaðarháttum. Var það einna helst heimssýningin mikla í Chicago árið 1893 sem vakti hjá honum hugmyndir og hugsjónir um hinar ýmsu framfarir. Það er kannski til marks um framfarasemi hans, að hann reisti steinsteypt íbúðarhús fyrstur manna í Öngulsstaðahreppi, ekki löngu eftir að steinsteypan hélt innreið sína í Akureyrarkaupstað. Þá var og ekki fyrr kominn rafstraumur á kaupstaðinn að Stefán hófst handa við að rafvæða nýja húsið (nánar um þá framkvæmd síðar). Hinum miklu undrum og kostum rafmagnsins hafði Stefán einmitt kynnst á heimssýningunni í Chicago (sbr. Benjamín Kristjánsson 1945: 99). Nánar um þá framkvæmd síðar. Stefán var mjög ötull við hin ýmsu félags- og trúnaðarstörf, hann var hreppstjóri Öngulsstaðahrepps um árabil og sat í stjórn KEA óslitið í meira en 30 ár. Stefán Jónsson á Munkaþverá hlaut riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu 1. desember 1938. Hann lést 9. nóvember 1943.

 Byggingameistari við byggingu Munkaþverárhússins var Jóhann Franklín Kristjánsson, frá Litlu-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Hann hafði numið trésmíði á Akureyri en hélt árið 1908 til Noregs, þar sem  hann m.a. namIMG_1201 húsagerðarlist við Kongelig Norske Kunst og Handverksskole. Þar mun hann hafa lokið prófi árið 1914 og hélt þá heim, þar sem hann tók til starfa sem byggingarráðunautur hjá Búnðarsambandinu. Var hann þar sérlegur ráðgjafi og leiðbeinandi bænda við byggingu steinhúsa (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108).  (Ólafur J. Engilbertsson 2021:14, segir Jóhann reyndar hafa hafið þessi störf 1913 en látum það liggja milli hluta). Það var Guðmundur Hannesson héraðslæknir sem stóð fyrir ráðningu Jóhanns en þeim var báðum mjög umhugað um bættan húsakost til sveita og beittu sér fyrir því málefni. Jóhann fór víða um sveitir landsins og mun hafa teiknað og stýrt byggingu fjölmargra húsa. Jóhann hafði umsjón með þessum málefnum þegar stofnaður var svokallaður Búnaðar- og landnámssjóður árið 1928 þar sem starfrækt var teiknistofa, sem frá og með árinu 1938 nefndist Teiknistofa landbúnaðarins. Tók þá Þórir Baldvinsson við forstöðunni, en Jóhann hélt hins vegar áfram störfum sem byggingameistari og hönnuður.   Munkaþverárhúsið, sem reist var á árunum 1915 til 1917 var þannig eitt af fyrstu verkefnum hans á löngum og farsælum ferli. Byggingameistarar þessa tíma voru margir hverjir sannkallaðir frumkvöðlar, þegar nýtt byggingarefni hélt innreið sína auk ýmissa innviða, lagna og annars slíks sem fylgdi í kjölfarið. Jóhann mun t.d. hafa fundið upp aðferð til þess að gera útveggi tvöfalda úr sementssteypu, auk móta þar sem steypa mátti steina án vélbúnaðar. Þá endurhannaði hann eldavélar sem tíðkast höfðu, eins og segir í minningargrein Snorra Sigfússonar: „[Jóhann] endurbætti eldavélina með nýrri gerð um reykganginn. Eru slíkar vélar víða komnar í sveitabæi til hagsbóta og hlýindaauka þar, og bera þessar vélar hugkvæmni hans gott vitni“ (Snorri Sigfússon 1952:2). Þessi nýja eldavél, sem einnig nýttist til húshitunar var uppfinning Jóhanns og er hin valinkunna Sólóeldavél (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108) sem meira að segja enn í dag þykir þarfaþing t.d. í fjallaskálum.  Auk Jóhanns Franklín mun annar Jóhann og sá var Eyjólfsson (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018) einnig hafa verið með í ráðum við bygginguna. Jóhann Eyjólfsson var frá Sveinatungu í Borgarfirði og hafði tveimur áratugum fyrr staðið fyrir byggingu fyrsta steinsteypuhúss landsins á þeim bæ.

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu. Á bakhlið er aflangur kvistur með aflíðandi, einhalla þaki. Tvískiptir krosspóstar eru í flestum gluggum, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Undir rjáfri eru smáir gluggar á stöfnum og efst á kvisti er smár, sporöskjulaga gluggi.  Á suðurstafni er útskot eða forstofubygging. Grunnflötur mælist um 14x9m á kortavef og útskot á suðurstafni um 2x6m. Húsið tengist að norðvestan tvílyftu steinsteyptu húsi, sem reist var sem íbúðarhús árin 1931-33 en er nú nýtt sem geymsla. 

Nýja íbúðarhúsið var reist fast upp við syðsta hluta torfbæjarins (suðurstofu) og var reist tengibygging eða skúr þar á milli. Þar var annars vegar gengið inn í gamla bæinn en hins vegar voru tröppur að aðalinngangi nýja hússins, sem var norðanmegin. Útskotið sunnanmegin var nokkurs konar spariforstofa Stefáns og Þóru.  Framan af voru lengst tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð. Á neðri hæð bjuggu þau Stefán Jónsson og Þóra Vilhjálmsdóttir en systursonur Stefáns, Jón Marinó Júlíusson og kona hans Sólveig Kristjánsdóttir á rishæðinni. Flutt var inn í húsið árið 1918 en skráð byggingarár þess er 1917.  Þótti húsið sérlega stórt og veglegt miðað við það sem tíðkaðist til sveita og dæmi um að fólk kæmi úr nágrenninu, jafnvel frá Akureyri til að berja hið nýja steinhús augum. Sérstaklega þótti kjallarinn rúmgóður og raunar svo, að hann nýttist íbúum Öngulsstaðahrepps sem leiksvið. Settu hreppsbúar þarna á svið Skugga-Svein, Matthíasar Jochumssonar, fljótlega eftir að húsið var byggt.  Um 1924 byggði Ungmennafélagið Ársól félagsheimili fast norðan við íbúðarhúsið, voru þá rifin tvö þil af gamla bænum og húsið byggt í skarðinu. Rættist þá úr húsnæðisþörf hvað varðaði samkomur og leiksýningar Öngulsstaðahrepps. Reyndar var samkomuhald í þinghúsi á Þveráreyrum ytri, en þangað hefur mögulega verið full langt að fara fyrir íbúa syðstu bæja hreppsins. Ekki fer sögum af fleiri leiksýningum í kjallara Munkaþverárhússins en fyrir kom, að slegið væri upp dansleikjum í eldhúsi efri hæðar (sem var undir aflíðandi kvistinum á bakhlið, svo lesendur geti gert sér plássið í hugarlund).

Rafstöðin

Í Ameríkudvöl sinni á 10. áratug 19. aldar hafði Stefán Jónsson á Munkaþverá m.a. kynnst undrum rafmagnsins. Það leið þó á löngu þar til slíkt var raunhæfur möguleiki í sveitum landsins. Um 1920 voru komnar rafstöðvar við fáein hús á Akureyri og þar var rafveita tekin í notkun 1922. Góðvinur Stefáns, einnig framfarasinnaður frumkvöðull, Magnús Sigurðsson, hafði reyndar löngu fyrr (um 1906) athugað möguleika á raflýsingu á Grund en ekkert orðið úr. Sama ár og rafveitan var tekin í notkun á Akureyri hófust framkvæmdir við virkjun Þverár. (Hér ekki nefnd Munkaþverá, til aðgreiningar frá bænum).  Voru það Stefán og systurbörn hans, Jón, Hallgrímur og Margrét Júlíusbörn, í félagi við rafstöðvarbygginguna, en þau systkin bjuggu á efri hæð hússins. Til ráðgjafar fengu þau sænska verkfræðinga, Einar Celion og Olof Sandell, sem þá voru staddir á Akureyri til undirbúnings Glerárvirkjunar. Byggð voru stífla og stöðvarhús og 17 staurar reknir niðu undir línulögn að íbúðarhúsinu. Jón P6100904Jóhannesson, eiginmaður Margétar Júlíusdóttur, mun hafa haft veg og vanda af umsjón byggingaframkvæmda, en margir komu að þeim. Var það Ásgeir Bjarnason, raffræðingur frá Siglufirði, sem sá um uppsetningu rafbúnaðar. Við þetta tækifæri var einnig lagt rafmagn í kirkjuna og Borgarhól (næsta bæ ofan og norðan Munkaþverár). Þegar Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu annað íbúðarhús 10 árum síðar fékk það einnig að njóta rafmagnsins frá Þverá efri. Rafstöðin þjónaði þessum húsum í nærri 35 ár, en árið 1957 tengdist Munkaþverá rafmagni frá Laxárvirkjun. En það var árið 1923 sem rafstöðin á Munkaþverá var gangsett. Við skulum gefa Laufeyju Stefánsdóttur orðið: Mér er í fersku minni þegar vélarnar í Munkaþverárstöðinni voru gangsettar árið 1923. Uppi á efri ganginum í íbúðarhúsinu var stór trétafla með mælum sem mældu spennuna og var sveif á henni. Heimilisfólkið sem þá var um 20 manns safnaðist saman á ganginum og horfði með lotningu á þegar faðir minn [Stefán Jónsson] sneri sveifinni og ljósin kviknuðu. Það var hátíðleg stund (Laufey Stefánsdóttir 1993:9).  Ári og öld, bókstaflega, eftir að heimilisfólkið á Munkaþverá horfði andaktugt á þegar kviknaði á ljósaperunni (verði ljós og það varð ljós) er óhætt að fullyrða, að beinlínis öll tilvera hins vestræna heims grundvallist af rafmagninu.

Húslýsingar  

Í brunabótamati árið 1934 er íbúðarhúsinu á Munkaþverá lýst þannig: Íbúðarhús 13x8,5m, hæð 8,5m. Útveggir úr tvöfaldri steinsteypu, skilrúm úr sama efni eftir endilöngu húsinu upp að ytri bitum, tvö timburskilrúm sömuleiðis. Loft, gólf og önnur skilrúm úr timbri. Járnvarið þak. Þá eru í húsinu kolaofn og nokkrir rafofnar, vatnsleiðsla og vatnssalerni. Áfastur skúr úr timbri, 4x3m, hæð 3m. Þar er væntanlega um að ræða skúrinn, sem byggður var milli gamla bæjarins og nýja hússins.   Af öðrum byggingum má nefna tvö fjós, bæði með steinveggjum, annað með torfþaki en hitt með járnvörðu þaki. Tvær hlöður sömuleiðis, önnur steinsteypt en hin alfarið úr torfi. Þá er sjálfsagt að láta fylgja hér með lýsingu á Ungmennafélagshúsinu, en það var rifið um 1980: Það hús var 9x5,2m að stærð, 3,2m hátt með steinveggi á tvo vegu og timbur á aðra tvo vegu. Leiksvið úr timbri í öðrum enda, loft og golf sömuleiðis úr timbri. Kolaofn með steyptum skorsteini (sbr. Björn Jóhannesson 1934: án bls).

 Í þessum brunabótavirðingum Öngulsstaðahrepps er herbergjaskipan ekki lýst en í tilfelli Munkaþverárhússins kemur það aldeilis ekki að sök. Við heimildaöflun fyrir þennan pistil rak á fjörur höfundar einhver sú ítarlegasta, nákvæmasta og skilmerkilegasta húslýsing sem hann hefur augum litið. Á Sarpinum svokallaða, má finna lýsingu Kristínar Jónsdóttur myndlistarkonu, sem jafnan kennir sig við Munkaþverá, en hún er dóttir Jóns Marinós Júlíussonar og Sólveigar Kristjánsdóttur.  Lýsir hún gaumgæfilega innra skipulagi hússins eins og það var á 4. og 5. áratugnum og þar má einnig finna teikningu Kristínar,  sem sýnir efri hæðina. Það var gengið upp á efri hæðina í norðausturhorni hússins. Þaðan var gengið inn í eldhús, sem var undir aflanga kvistinum á bakhlið. Um miðja rishæð var gangur þar sem gengið var inn í íveruherbergi efri hæðar, stofa fyrir miðju en herbergi undir súð; svefnherbergi fjölskyldunnar vestanmegin en gestaherbergi austanmegin. Kvisturinn að framanverðu tilheyrði neðri hæð, þar gistu jafnan gestir þeirra Stefáns og Þóru. Norðvestanvert á rishæð var svokallað piltaherbergi eða piltaloft og milli þess og kvists svokölluð „Dimmakompa“, þar sem stigi var upp á háaloft. Á piltaloftinu sváfu vinnumenn Stefáns.

Á neðri hæð minnist Kristín einna helst tveggja stóra stofa; stór stofa með tveimur gluggum að vestanverðu sem kölluð var baðstofan og gestastofan, sem prýdd var mjög skrautlegum og vönduðum húsbúnaði og munum. Suðurforstofan, útbyggingin, mun hafa verið nokkurs konar spariforstofa. Í kjallara voru búr, mjólkurbúr, þvottahús og geymslurými. Meginrýmið var að vestanverðu, svokallaður stóri kjallari. Það var þar, sem Skugga-Sveinn var settur upp í árdaga hússins. Þar voru dyr út á hlað að vestanverðu og auk almenns geymslurýmis var miðstöðvarketillinn staðsettur þar. Það fylgir sögunni, að hann tengdist aðeins upp á neðri hæð, engir miðstöðvarofnar voru á efri hæð, en þar var hins vegar kolaeldavél. Á gólfum voru ýmist fjalir eða linoleumdúkar, veggir panelklæddir eða þiljaðir en veggfóður í sumum vistarverum (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018).

Hér er hlaupið á algjöru hundavaði yfir hina mögnuðu lýsingu Kristínar af innra skipulagi Munkaþverárhússins. Rétt er að mæla með lestri  þessarar frásagnar í fullri lengd: Hér er nánast hverju einasta skúmaskoti, krók og kytru í húsinu lýst sérlega nákvæmlega, og sögur á bak við hvert einasta atriði, t.d. húsgögn, stigahandrið og jafnvel dúka á borðum. Auk þess segir hún frá eigin upplifun af húsinu, munum, heimilishaldi, og fólkinu sem þarna bjó, svo að úr verður skemmtileg blanda af æviminningum og húslýsingu. Allt verður þetta einstaklega ljóslifandi fyrir lesanda. Það er viss ókostur, að svona langur texti er e.t.v. ekki þægilegur aflestrar af tölvuskjá, en hann er um 30 blaðsíður. https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069 (Ath. það þarf að smella á „Lesa meira“ eða „Opna í lesham“ svo allur þessi magnaði texti birtist í heild sinni). Þessi lýsing er öll í þátíð, enda hefur herbergjaskipan væntanlega tekið miklum breytingum. Íbúðin á efri hæð skemmdist t.d. töluvert í bruna í júní 1944 og var innréttuð á annan hátt eftir það. Nú mun húsið vera einbýlishús.

Fast við íbúðarhúsið á Munkaþverá stendur steypt bygging, sem flestum gæti sýnst vera fjósbygging eða eitthvað slíkt. Það er þó ekki svo, heIMG_1203ldur er um að ræða íbúðarhús sem Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu sér árin 1931-33. Kallaði Kristín Jónsdóttir það hús Mögguhús, og hér má sjá uppdrátt hennar af því. Þar hefur hins vegar ekki verið búið áratugum saman og húsið nýtt sem geymsla. Skömmu eftir byggingu þess byggði Stefán Jónsson skúr sem tengdi íbúðarhúsin saman og var þar kominn nokkurs konar sameiginlegur inngangur.

Síðari áratugir og niðurlag

Það er skemmst frá því að segja að Munkaþverá er enn í eigu og ábúð sömu fjölskyldu og byggði núverandi hús. Að ytra byrði er húsið lítið sem ekkert breytt frá upphaflegri gerð. Við skulum bera niður á árunum 1970, 1990 og 2010 þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil, í samnefndum ritverkum.

Ábúendur og eigendur árið 1970 voru þau Jón Stefánsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir frá Efra-Ási í Hjaltadal. Jón var fæddur hér, sonur Stefáns Jónssonar. Þarna er íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð, en aðrar byggingar eru fjós fyrir 31 kú og kálfafjós, fjárhús fyrir 200 fjár, hesthús fyrir 22 hross, hlöður og votheysgeymslur. Allar byggingar steinsteyptar. Túnstærð er 28,47 hektarar, töðufengur um 1700 hestar og úthey um 800 hestar. Bústofninn telur 24 kýr, 25 geldneyti, 190 fjár og 22 hross, svo hesthúsið er m.ö.o. fullsetið (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 365).

Árið 1990 eru ábúendur þau sömu og 1970, en nú hafa margar byggingar verið endurnýjaðar. Byggingarára annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókunum. Þá eru íbúðarhúsin mæld í fermetrum, ekki rúmmetrum og er íbúðarhúsið sagt 345 fermetrar. Byggingar á Munkaþverá, auk íbúðarhússins eru eftirfarandi: Hlöður, byggðar 1928, 1976 og 1990, samtals 5217 rúmmetrar. Fjós byggt 1972, 48 básar og geldneytapláss, fjárhús byggt 1990 fyrir 200 kindur. Vélageymsla byggð 1950, 132 fermetrar. Þá eru taldar geymslur byggðar 1931, 1934 og 1950 og þær frá 1931-34 eru væntanlega íbúðarhús Jóns og Margrétar. Bústofninn 1990 telur alls 90 nautgripi, þar af 40 kýr, 198 fjár og 24 hross. Ræktað land er 59,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 963). Jón Stefánsson lést árið 2006 en árið 2010 er Aðalheiður Guðmundsdóttir eigandi jarðar og ábúandi, sem og synir hennar Jón Heiðar og Vilhjálmur Björn. Byggingar eru þær sömu árið 2010 og þær voru árið 1990, ræktað land mælist 59 hektarar og bústofninn telur 41 kú, 38 aðra nautgripi, 141 fjár og 16 hross (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:519).

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er aldursfriðað eins og öll hús sem byggð eru fyrir 1923. Sögulegt gildi hússins, sem eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið í sveitunum framan Akureyrar og það fyrsta til að rafvæðast, hlýtur að vera töluvert. Enn má sjá ummerki um rafstöðina í gilinu, skammt ofan og austan við Eyjafjarðarbraut eystri. Húsið er formfagurt en látlaust og til mikillar prýði og nýtur sín vel á skemmtilegu bæjarstæði. Ásýnd Munkaþverár er einkar geðþekk; skógarlundur, kirkja, íbúðarhús og aðra byggingar mynda skemmtilega heild undir brekku á eyrum við hrikalegt gil. Og hér drýpur sagan af hverju strái, enda hefur hér verið búið í um 1100 ár, hér var klaustur í hundruð ára og staðinn sátu jafnan höfðingjar.

Nærmyndirnar af íbúðarhúsinu eru teknar 7. október 2023 og myndir af bæjarstæðinu sem teknar eru með aðdrætti þann 15. apríl 2023. Myndin af leifum rafstöðvarmannvirkja er tekin 10. júní 2019. Myndin af Strandgötu 45 er tekin 10. júlí 2013. 

Heimildir:

Án höfundar. 1920. „Steinhús mikið“ Norðurland 15. júlí 28. tbl. 15. árg. bls. 1. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1945. „Stefán Jónsson, bóndi á Munkaþverá“ Nýjar kvöldvökur 38: 97-100. Sjá tengil í texta.

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Kristín Jónsdóttir. 2018. Munkaþverá í Eyjafirði. Svarsending við Sarpur: 117 Heimilislíf, húsbúnaður og hversdagslíf, spurningalisti settur fram 2012 af Þjóðminjasafninu. Safnnúmer B - 2012-3-126. Sótt 8. ágúst 2024 á slóðinni: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069

Laufey Stefánsdóttir. 1993. „Um rafstöðina á Munkaþverá.“ Súlur Norðlenskt tímarit 33: 6-10.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ólafur J. Engilbertsson o.fl. 2021. Þorsteinn Baldvinsson arkitekt. Reykjavík: Sögumiðlun.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar. 


Hús dagsins: Kroppur

Einn af vinsælli áfangastöðum Eyjafjarðarsveitar er Jólagarðurinn, sem margir kalla í daglegu tali, Jólahúsið. Á hól miklum, skammt þar ofan og norðan við, stendur reisulegt steinhús frá fyrsta fjórðungIMG_0019i 20. aldar, eitt af elstu steinsteyptu íbúðarhúsum hreppanna framan Akureyrar. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Kroppi, en þess má geta að lóð Jólagarðsins er úr landi Kropps. Húsið er einfalt og látlaust að gerð en stendur á skemmtilegu og áberandi bæjarstæði, enda þótt trjágróður hafi að einhverju leyti byrgt sýn að því. Frá Kroppi eru um 13 kílómetrar í Miðbæ Akureyrar. Á Kroppi hefur ekki verið búskapur í rúma tvo áratugi en þar er nú fyrirhuguð bygging stórfellds þéttbýliskjarna.  

Íbúðarhúsið á Kroppi er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á lágum kjallara.  Að norðan er viðbygging, einlyft með aflíðandi einhalla þaki. Stafnar hússins snúa austur-vestur og á suðurhlið þekju er miðjukvistur. Veggir eru járnklæddir og krosspóstar í flestum gluggum. Grunnflötur er 8,70x13,25m, eldra hús 6,72m að breidd en viðbygging 6,53m (sbr. teikningar Þrastar Sigurðssonar, 2002). Hér eftir er vísað til hússins ýmist sem íbúðarhússins að Kroppi eða Kropps.

Í ritverkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar)  segir svo um Kropp: „Kroppur í Hrafnagilshreppi er ágætis jörð, að talið er, og hafa oft búið þar efnabændur og jörðin verið í einkaeign frá öndverðu“ (Stefán Aðalsteinsson 2019:259). Þar kemur jafnframt fram, að lítið komi Kroppur við sögu fyrr á öldum, en þar hafi búið á söguöld Steingrímur Örnólfsson, bróðir Þorvarðar Örnólfssonar á Kristnesi, sem kom við sögu í Víga-Glúms sögu. Bræður þessir voru fæddir um 930 og hafa því búið á þessum tveimur jörðum um miðja og síðari hluta 10. aldar. Höfundi þykir freistandi að giska á, að mögulega hafi Steingrímur byggt jörðinaIMG_0238 Kropp úr landi bróður síns á Kristnesi, en hefur ekkert fyrir sér í því. Alltént eru jarðirnar samliggjandi. Sturlunga getur Kropps einu sinni, en þar bjó Björn nokkur sem grunaður var um grályndi og talinn allvitur. Björn þessi var uppi á 13. öld. Árið 1451 kemur Kroppur fyrir í kaupmálabréfi milli þeirra Guðmundar Sigurðssonar og Guðnýjar Þorsteinsdóttur á Myrká í Hörgárdal. Þar lagði Guðný fram jarðirnar Kropp og Grísará á móti hlut Guðmundar, sem þá voru í eigu föður hennar, Þorsteins Höskuldssonar.  Á næstu öldum eru heimildir um Kropp fyrst og fremst vegna eigendaskipta. Árið 1520 átti Gottskálk biskup Nikulásson á Hólum, skv. Erfðaskrá, Kropp, ásamt fjölda nærliggjandi jarða. Komust þær undir Hólakirkju en Kroppur var seldur úr hennar eigu um 1550. Árið 1712, þegar jarðatal fyrir Ísland var unnið var Kroppur eign Jóns Brandssonar, sem hér bjó og Þórkötlu Ólafsdóttur í Lögmannshlíð og áttu þau sinn helminginn hvort (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 259-269). Förum nú hratt yfir sögu til síðari hluta 19. aldar. Árið 1879 fluttu á Kropp þau Jón Davíðsson og Rósa Pálsdóttur, en þau höfðu áður búið á Litla-Hamri í Öngulsstaðahreppi, þar sem Jón var uppalinn.  Á meðal barna þeirra var Davíð Jónsson. Hann hóf búskap á Kroppi árið 1895 en tók þó ekki við búinu af foreldrum sínum og verður það útskýrt hér örlítið síðar. Þegar Davíð fluttist hingað stóð myndarlegur torfbær á Kroppi en aldarfjórðungi síðar var hann orðinn ófullnægjandi húsakostur þessarar ágætu jarðar. Á einhverjum bæjum í Eyjafirði höfðu risið ný timburhús en á Kroppi skyldi það vera steinsteypa.

Þann 28. júlí 1920 birtist eftirfarandi örfrétt í dagblaðinu Degi: „Íbúðarhús úr steini er verið að reisa á eftirfarandi bæjum hér í Eyjafirði í sumar: Syðri Varðgjá, Kaupangi, Litla-Hamri og Kroppi“ (M.J. 1920:55).P4230956 Ekki voru fleiri orð um það, en þetta sumar hefur verið sannkallað steinhúsasumar í Eyjafirði. Svo skemmtilega vill til, að öll þessi hús standa enn og einnig er það skemmtileg tilviljun, að Davíð Jónsson hafi einmitt reist sitt hús sama sumar og reist var steinhús á Litla-Hamri, jörðinni þar sem hann var fæddur og uppalinn. Hvað hönnuði þessara húsa varðar er vitað, að Möðrufell og Kaupangur voru reist eftir nokkurn veginn sams konar teikningum Guðjóns Samúelssonar. Litla-Hamar og Syðri-Varðgjá teiknaði hins vegar Sveinbjörn Jónsson. En hver teiknaði Kropp? Um það hefur höfundur engar heimildir P2050008undir höndum en húsið er ekki ósvipað að gerð og framangreind hús sem Sveinbjörn teiknaði. Þá er það áþekkt húsum sem hann teiknaði á Akureyri, t.d. Brekkugötu 10 og Oddeyrargötu 1. Það rennir þó ekki endilega stoðum undir það, að Sveinbjörn hafi teiknað Kropp; á þessum upphafsárum steinsteypunnar hérlendis voru steinhús almennt sviplík hvert öðru í stórum dráttum. Voru þau reist með því lagi, sem algengast var í einföldum timburhúsum t.d. ein hæð, hátt ris og stundum kvistur. En það var semsagt sumarið 1920 sem nýtt steinsteypt íbúðarhús reis af grunni á Kroppi. Í Byggðum Eyjafjarðar er húsið reyndar sagt byggt 1919 (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738) og því máP6220763 leiða líkur að því, að þá hafi bygging þess hafist.

 

 

Davíð Jónsson var fæddur þann 12. september 1872, sem fyrr segir, að Litla-Hamri og ólst þar upp en fluttist ásamt foreldrum sínum á Kropp árið 1879, þá sjö ára gamall. Hann bjó þó ekki óslitið á Kroppi frá barnæsku, því árið 1889 fluttist faðir hans Jón Davíðsson, þá orðinn ekkill, en Rósa Pálsdóttir lést 1885, í Hvassafell í Saurbæjarhreppi. Við skulum staldra aðeins við  Jón Davíðsson. Þegar hann flytur að Hvassafelli býr þar ekkjan Sigríður Tómasdóttir. Þau giftust og bjuggu í Hvassafelli til ársins 1899 er Sigríður lést. Jón, sem orðinn var ekkilP6220769l í annað sinn, flyst þá í Reykhús í Hrafnagilshreppi vorið 1900. Þar bjó hann til æviloka árið 1923 en frá 1903 var jörðin og búið í eigu og umsjón tengdasonar hans, Hallgríms Kristinssonar, forstjóra SÍS (sbr. Ingimar Eydal 1923:1).   Hann var kvæntur Maríu, dóttur Jóns. Hallgrímur lést einnig árið 1923, langt fyrir aldur fram. Þess má geta, að Jón Davíðsson var fæddur í Kristnesi, næsta bæ sunnan við Reykhús, þar sem hann varði síðustu æviárunum. En víkjum nú aftur sögunni að næsta bæ sunnan við Kristnes, þ.e.a.s. að Kroppi. Sem fyrr segir flutti Jón Davíðsson ásamt börnum sínum í Hvassafell árið 1889. Davíð Jónsson hélt hins vegar til náms í Möðruvallaskóla í Hörgárdal og þar er hann skráður í Manntali árið 1890. Hann mun þó hafa þurft að hætta námi vegna veikinda en er sagður hafa bætt það upp með sjálfsnámi þegar heilsu var náð á ný (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951:318). Á sumarsólstöðum, 21. júní 1895 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 270) kvæntist hann Sigurlínu Jónasdóttur frá Stóra-Hamri í Öngulsstaðahreppi og sama ár fluttust þau á Kropp. Frá árinu 1889, eftir að Jón Davíðsson fluttist frá Kroppi var þar tvíbýlt. Annars vegar bjuggu hér þau Helgi Friðrik Eiríksson og Sigurlaug Jónasdóttir og hins vegar þau Jósep Helgason og Guðný Helgadóttir. (Nú gæti einhver velt fyrir sér, hvort þær Sigurlaug og Sigurlína væru systur en það voru þær ekki. Sigurlaug Jónasdóttir var frá Fagrabæ í Grýtubakkahreppi og næstum fjórum áratugum eldri en Sigurlína).

Samkvæmt Eyfirðingum bjuggu þau Jósep og Guðný hér til ársins 1896 en Helgi og Sigurlaug voru á bak og burt 1894. Þannig hafa þau Davíð og Sigurlína búið eitt ár ásamt þeim fyrrnefndu, en setið ein að jörðinni frá 1896. Auk þess að búa miklu myndarbúi á Kroppi var Davíð mjög ötull við alls kyns félagsmála- og trúnaðarstörf. Hann var kjörinn hreppstjóri í Hrafnagilshreppi árið 1904 og gegndi því embætti í 45 ár. Greinarhöfundur þorir að fullyrða, að fáir ef nokkrir hafi setið jafn lengi eða lengur í embætti hreppstjóra hérlendis, þótt víðar væri leitað. Hann var sýslunefndarmaður hreppsins frá 1928 til 1950, einnig formaður fasteignamatsnefndar. Þá var hann einn af helstu hvatamönnum að stofnum húsmæðraskóla á Laugalandi og við stofnun hans, 1937, var hann kjörinn formaður skólanefndar. Davíð var stórhuga og framtakssamur í búskapnum, svo athygli vakti. Hann var meðal fyrstu manna á Eyjafjarðarsvæðinu til að girða tún sín af með gaddavír og gerði miklar jarðarbætur með þúfnabana og framræslu auk þess að reisa hið veglega íbúðarhús og 30 kúa fjós (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951: 319).  Í minningargrein Hólmgeirs Þorsteinssonar um Davíð í búnaðarritinu Frey  er hann sagður hafa reist fjósið skömmu síðar, en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar voru þær byggingar, fjós og hlaða þó ekki byggðar fyrr en 1933-34, þ.e. nærri hálfum öðrum áratug á eftir íbúðarhúsinu. Mögulega hefur framræsla Davíðs verið að einhverju leyti handan Eyjafjarðarár en þar er 12 hektara spilda sem tilheyrir Kroppi, kallað Kroppsnes. Þar var heyjað fram yfir 1960 og heyið flutt á pramma yfir ána.

Á meðal embættisverka Davíðs Jónssonar var að heimsækja bæi hreppsins og meta eignir til brunabóta. Þegar flett er í gegnum brunabótamat Hrafnagilshrepps frá árunum 1933-39, sem eru sérlega haldgóðar heimildir um húsakost þess tíma, eru matsskýrslurnar jafnan undirritaðar af Davíð Jónssyni og Hannesi Kristjánssyni. En þar er að sjálfsögðu undantekning þegar kemur að Kroppi, þar er Pétur Ólafsson matsmaður ásamt Hannesi, en Davíð skrifar undir sem eigandi. En það var þann 7. apríl 1934 sem húseignir á Kroppi voru metnar til brunabóta, og lýst svo: Íbúðarhús, steinsteypt, ein hæð með kjallara og porti. Á aðalhæð voru þrjú herbergi, á lofti fimm herbergi og gangur. Lengd 8,8m, breidd 7m og hæð 7,2m. Þá eru eftirfarandi byggingar úr torfi og grjóti: Eldavélarhús (9x3,5m), búr (4,5x2,2m), eldhús með hlóðum (5x3m), kofi (4,2x2m), gömul stofa með þili „framanundir“ (4,2x3m) og bæjardyr (8,8x2m). Bæjardyrnar eru sagðar úr steinsteypu og þiljaðar. Þá eru bæjardyrnar jafn langar og steinhúsið, sem gæti bent til þess, að nýja húsið hafi verið byggt sem framhald af torfbænum. Hvergi er getið eldhúss í nýja húsinu en sérstakt „eldavélarhús“ úr torfi og grjóti. Þá er pappaþak á steinhúsinu en járnþak á bæjardyrum, veggir og loft í nýja húsinu úr timbri en torfveggir milli annarra húsrýma (sbr. Brunabótafélag Íslands 1934: nr. 31).  Útihúsa, hvorki fjóss né hlöðu er þar getið.IMG_0238 - Copy

Davíð Jónsson bjó á Kroppi til ársins 1946 er Sigurlína lést. Síðustu æviárin bjó Davíð á Grund, þar sem Ragnar, sonur hans hafði búið frá 1937. Davíð Jónsson lést 27. febrúar 1951, 78 ára að aldri. Samkvæmt ábúendatölum virðist hafa verið tvíbýlt á Kroppi síðustu árin sem Davíð og Sigurlína bjuggu þar. Mögulega hafa þau verið farin að draga saman seglin í búskapnum, komin um og yfir sjötugt. En á árunum 1940 til 1942 eru ábúendur þau Skúli Finnbogi Kjartansson og Sigrún Eiríksdóttir og um skamma hríð frá 1942 til 1943 þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Guðríður Guðmundsdóttir Waage. Árið 1943 flytja að Kroppi þau Steingrímur Óskar Guðjónsson frá Björk í Sölvadal og Elín Björg Pálmadóttir frá Hofi í Hörgárdal. Þau bjuggu hér alla tíð síðan og eru ábúendur hér þegar byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil í samnefndu riti árið 1970 (útgefið þremur árum síðar). Þá eru eftirfarandi byggingar á Kroppi, auk íbúðarhússins, fjós fyrir 32 kýr, fjárhús fyrir 160 fjár, hlöður fyrir 900 hesta af heyi. Fjárhús og önnur hlaða sagðar „braggabyggingar“ en annað úr steinsteypu. Bústofninn telur 18 kýr, 7 geldneyti og 92 fjár.  Túnstærð er 15,17 hektarar, töðufengur sagður 800 hestar og úthey um 200 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:270). Steingrímur og Elín byggðu við íbúðarhúsið um 1960, viðbyggingu norðan og vestan við, eftir teikningum Snorra Guðmundssonar. Samkvæmt þeim teikningum var þegar búið að byggja við húsið að norðanverðu, þar er gangur og gömul skemma. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar 1990 var byggt við húsið 1957 og 1967 en mögulega hefur húsið alltaf tengst einhverri byggingu að norðanverðu, sbr. Brunabótamat 1934, þar sem húsið virðist áfast bæjardyrum úr torfi.

Árið 1977 tók Úlfar, sonur Steingríms og Elínar við búinu og er hann ábúandi ásamt konu sinni, Guðbjörgu Steingrímsdóttir árið 1990. Þá er sauðfé, 12 að tölu, skráð sem bústofn en þá er Kroppur hluti félagsbúsins Þrists, sem ábúendur Kropps, Hrafnagils og Merkigils stofnuðu með sér árið 1989. Ræktað land á Kroppi árið 1990 eru sléttir 20 hektarar og þar standa eftirfarandi byggingar: Fjós byggt 1933 og hlaða byggð 1934, hlaða byggð 1945 (væntanlega „braggabygging“ sem minnst er á 20 árum fyrr, bragginn líklega upprunninn frá breska eða bandaríska setuliðinu), fjárhús byggt 1964, geldneytahús byggt 1967 og vélageymsla byggð 1971 (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738). Um aldamótin lauk búskapi á Kroppi og nú hafa allar framangreindar byggingar verið jafnaðar við jörðu. (Og þess má geta, að dag einn þegar greinarhöfundur fór einu sinni sem oftar hjólandi fram í Eyjafjarðarsveit brá honum illilega í brún; það var engu líkara en búið væri að rífa íbúðarhúsið! Greinarhöfundur, sem vissi að til stæði að reisa þéttbýli á Kroppi innan tíðar, varð svo mikið um, að hann endasentist nærri því á hjólinu ofan í síki nokkurt, milli hjólastígs og Eyjafjarðarbrautar: Búið að rífa eitt af elstu steinhúsum sveitarinnar og aldursfriðað í þokkabót! Og ekki svo langt síðan það var endurbyggt! En þegar komið var að Jólahúsinu kom í ljós hvers kyns var; trjágróðurinn norðan Kropps hafði einfaldlega vaxið svo mjög, að húsið blasti ekki lengur við frá Eyjafjarðarbrautinni norðan við Jólahúsið; Kroppur var svo sannarlega enn á sínum stað.

Um 2002 fóru fram gagngerar endurbætur á Kroppi, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Byggður var miðjukvistur á suðurhlið, innra skipulagi breytt umtalsvert og ný klæðning, bárujárn sett á húsið. Áður prýddi nokkurs konar eftirlíking af steinhleðslu horn hússins. Þá var viðbygging frá 1960 jöfnuð við jörðu að hluta, en norðurveggur skilinn eftir og þjónar sem skjólveggur fyrir sólpall á baklóð. Þegar byggðum Eyjafjarðar árið 2010 voru gerð skil í ritverki voru eigendur hússins og lóðar í kringum það þau Guðmundur Elísson og Guðný Helga Guðmundsdóttir og ábúandi dóttir þeirra, Guðný Valborg. Eigandi lands var (og er enn) hins vegar félagið Ölduhverfi. Þá var ræktað land 12,8 hektarar en 72 hektarar lagðir undir skógrækt (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 409). Sá skógur setur nú svip sinn á Kroppsland.  Sem fyrr segir stendur aðeins íbúðarhúsið eftir af byggingum býlisins Kropps. En von bráðar mun byggingum fjölga svo um munar í Kroppslandi, því í bígerð er bygging íbúðahverfis, Ölduhverfis, í brekkunum umhverfis húsið. Kroppur er myndarlegt hús á skemmtilegum stað og til mikillar prýði í hinu gróna og geðþekka umhverfi sem umlykur byggðina norðan Hrafnagils. Ekki verður það til minni prýði í Ölduhverfi, þegar það rís, og mun þar eflaust skipa einhvers konar heiðursess. Kroppur er aldursfriðað hús þar sem það er byggt fyrir árið 1923.

Myndirnar af Kroppi eru teknar 21. janúar, 17. febrúar og 15. apríl 2023.

Myndirnar af húsunum á Akureyri eru teknar 22. júní 2018.

Myndin af Litla-Hamri er tekin 23. apríl 2020.

Myndin af Syðri-Varðgjá er tekin 5. febrúar 2011.

 

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmgeir Þorsteinsson. 1951. „Davíð Jónsson hreppstjóri frá Kroppi“ Freyr 21.-22. tbl. 46. árg. bls. 318-320. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ingimar Eydal. 1920. „Jón Davíðsson“ Dagur 13. júní 25. tbl. 6. árg. bls. 1 (forsíða) Sjá tengil á timarit.is í texta.

M.J. 1920. „Íbúðarhús“ Dagur 28. júlí 14. tbl. 3. árg. bls. 55. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar. 

 


Hús dagsins: Syðra-Gil

Undir Súlutindum er óhemju mikið fjalllendi, sem nær langt norður fyrir tindana sjálfa. Kallast þar Súlumýrar.  Þar eru þó ekki einungis mýrar heldur miklar kletta- og hamraborgir allt frá ysta odda Löngukletta við Glerárdalsöxl ofan Akureyrar og langleiðina að Kristnesi, frá láglendi og upp undir fjallsrætur. Sunnarlega í þessum klettaholtum skerst mikið gil í hlíðina og heitir það því skemmtilega nafni Gilsárgil; um það rennur nefnilega áin Gilsá. Áin kann hins vegar að draga nafn sitt af jörðinni Gili, sem væntanlega er nefnd eftir gilinu!  Og einmitt sunnan við  þetta gil á háum hól, stendur skemmtilegt hús á tilkomumiklu bæjarstæði. Það er prýtt burst norðanmegin, sem kallast einstaklega skemmtilega á við Súlutinda. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Syðra-Gili, en téðri jörð Gili, var skipt í Ytra og Syðra-Gil fyrr á öldum.IMG_0656

Syðra-Gil stendur, sem fyrr segir, á háum hól í brekkunum sunnan Gilsárgils, nokkurn veginn miðja vegu milli Akureyrar og Hrafnagils. Frá hlaði bæjarins eru 7,5 km í Miðbæ Akureyrar, en aðeins tæpir 3 kílómetrar frá sveitarfélagamörkunum við Kjarnaskóg. Þess má líka geta, að frá Wilhelmínugötu syðst í Naustahverfi er styttra að Syðra-Gili, en frá sama stað að Norðurtorgi, yst á Akureyri!

Hversu langt má rekja sögu jarðarinnar Syðra-Gils eða Gils verður ekki ráðið, en væntanlega er jörðin byggð úr landi Kristness, kannski ekki löngu eftir landnám. Fyrst mun jarðarinnar getið í rituðum heimildum árið 1318 (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012: 117).  Upprunalega var um eina jörð að ræða, Gil, sem síðar skiptist í Ytra- og Syðra-Gil. Jörðin var eign Möðruvallaklausturs framan af öldum en mun hafa komist undir Hrafnagilskirkju um aldamótin 1500. Vitað er upp á dag, hvenær Möðruvallaklaustur, með Sigurð „príor“ í forsvari seldi Einari ábóta á Munkaþverá jörðina Gil. Það var 22. febrúar 1452 og var um skipti að ræða, þ.e. Gil var selt í skiptum fyrir jörðina Gásir í Glæsibæjarhreppi (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:184).  Einhvern tíma seint á 15. öld eða snemma á þeirri 16. hefur jörðin komist í eigu Hrafnagilskirkju og mögulega seint á 16. eða einhvern tíma á 17. öld var jörðinni skipt í tvennt um ána Gilsá, þar sem syðri jörðin varð Syðra-Gil og nyrðri jörðin Ytra-Gil. Árið 1712 var jörðin enn eign Hrafnagilskirkju. Hvenær jörðin komst í einkaeigu liggur ekki fyrir, en Hrafnagilskirkja var lögð af árið 1863. Árið 1889 fluttust að Syðra Gili þau Friðrik Friðriksson frá Kroppi og Lilja Guðmundsdóttir frá Nolli í Grýtubakkahreppi. Áttu þau fjögur börn, þau Sigurlínu Margréti, Ólöfu Indíönu, Hermund og FriðriIMG_2272k. Við lát Friðriks árið 1913 tóku bræðurnir tveir við búskapnum og ári síðar komu þeir upp nýju íbúðarhúsi í stað torfbæjar, sem staðið hafði hér frá fornu fari.

Um eitthvert skeið á 19. öld var lögferja yfir Eyjafjarðará við Syðra-Gil en var hún flutt að Stokkahlöðum árið 1866 vegna grynninga í ánni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:794). Grynningarnar virðast þó ekki hafa verið varanlegar á þessum slóðum, því um tveimur áratugum síðar var ferja komið upp við Ytra Gil, sem starfrækt var til þangað til Eyjafjarðará var brúuð árið 1923. Þess má reyndar geta, að þegar farið var að huga að brúarsmíði yfir Eyjafjarðará voru tveir möguleikar teiknaðir upp og skoðaðir. Annars vegar þrjár brýr yfir óshólmana, sem urðu ofan á en hinn möguleikinn var ein löng brú við Gilsbæina. Enda þótt óshólmabrýrnar væru mun dýrari kostur mælti verkfræðingurinn Jón Þorláksson eindregið með þeim kosti, og réði þar væntanlega nálægðin við Akureyri (sbr. Hjörtur E. Þórarinsson 1994:336). Það má hins vegar velta fyrir sér hvernig ýmislegt hefði þróast öðruvísi, ef brúin hefði verið reist við Gil en ekki á óshólmunum. Kannski hefði Akureyrarflugvöllur verið lagður sunnar, og flugbrautin náð lengra til suðurs. Mögulega hefði þetta haft áhrif á það, í hvaða átt þéttbýli byggðist.  En kannski hefði þetta einfaldlega engu breytt, nema hvað miklu lengra væri fyrir þá sem komu t.d. úr Þingeyjarsýslum til Akureyrar eða íbúa Kaupangssveitar til Akureyrar. Löngu síðar reis þó annars konar brú á þessum slóðum, en sú var ekki ætluð fyrir farkosti eða fólk heldur var um ræða pípubrú fyrir heitt vatn frá Laugalandi.

Íbúðarhúsinu að Syðra-Gili má skipta í tvær álmur, þó ekki sé það sérlega stórt. Syðri hlutinn er einlyft timburhús með lágu, portbyggðu risi og útskoti eða bakbyggingu með einhalla þaki til vesturs. Nyrðri hlutinn er steinsteyptur, einlyftur með háu risi. SuðurhlIMG_2269uti snýr stafni mót suðri en norðurhluti snýr austur-vestur og myndar norðurhlutinn því nokkurs konar burst eða kvist á húsinu. Syðri hluti hússins er klæddur steinblikki, bárujárn er á þaki en nyrðri hluti hússins er múrsléttaður að mestu. Í flestum gluggum eru krosspóstar af einhverju tagi. Grunnflötur hússins mælist nærri 11x7m (ónákvæm mæling af kortavef).

Syðra-Gilshúsið reistu þeir Hermundur og Brynjólfur Friðrikssynir, sem fyrr segir, árið 1914. Væntanlega hefur þar verið um að ræða syðri hluta hússins. Austurhluti þessa húshluta, þ.e. sá hluti hússins sem er undir risþaki er æði mjór, sem gæti bent til þess, að húsið hafi verið reist sem „framhús“ á torfbæ. Það þarf þó ekki endilega að vera: Í umfjöllun um Syðra-Gil í Eyðibýli á Íslandi er húsið sagt byggt í þremur áföngum, þ.e. tvisvar byggt við það, og vesturhluti hússins sagður mögulega viðbygging við torfbæ. Það hlýtur að vera skúrbyggingin með einhalla þakinu. Þannig gæti fremri hluti syðri hluta, þ.e. húsið með risþakinu verið byggður við síðar eða komið í stað torfbæjar. Síðast var byggt við húsið 1927 og þar var um að ræða norðurhlutann, sem er steinsteyptur. Í Byggðum Eyjafjarðar sem teknar voru saman á árunum 1970-73, er húsið sagt byggt 1927 og þar væntanlega miðað við byggingu norðurhlutans.  Það er freistandi að giska á, að þegar þeir  bræður Brynjólfur og Hermundur, byggðu steinsteyptu álmuna við húsið til norðurs hafi þeir samhliða járnvarið suðurhlutann.  Timburhluti hússins er klæddur steinblikki en sú klæðning var móðins á timburhúsum á Akureyri og nærsveitum á 3. og 4. áratug 20. aldar. Þegar skoðuð er saga húsa í þéttbýli liggur að öllu jöfnu fyrir hvenær viðbyggingar og aðrar breytingar voru gerðar í bókunum bygginganefnda. Þegar um  er að ræða eldri íbúðarhús í dreifbýli er annað uppi á teningnum, enda voru sjaldnast starfandi sérstakar bygginganefndir til sveita á fyrri hluta 20. aldar eða fyrr.IMG_2271_afrit

Síðla árs 1933 voru húseignir á Syðra-Gili metnar til brunabóta. Íbúðarhúsinu var lýst á eftirfarandi hátt: „Íbúðarhús, kjallari og port auk stofuhæðar, 3 herbergi og forstofa auk rishæðar. Skúr áfastur við íbúðarhús“ (Brunabótafélag Íslands 1933: nr. 24). Íbúðarhúsið var sagt 11,5x4m að grunnfleti og 5,5m á hæð en skúrinn 7,5x3,5m og 2,2m á hæð. Íbúðarhús og skúr úr steinsteypu og timbri, járnklæddar að hluta.  Þessar byggingar mynda væntanlega eina heild, þ.e.a.s. íbúðarhúsið sem enn stendur, en voru engu að síður metnar sem aðskilin hús. Veggir og loft voru úr timbri en steingólf í eldhúsi, húsið kynt með kolamiðstöð og steinolía til ljósa. Alls voru sex byggingar (þar af nokkrar sambyggðar) skráðar að Syðra Gili þennan nóvemberdag árið 1933, íbúðarhús og skúr voru úr timbri, steini og járni en einnig voru sambyggð fjós og hlaða og skemma úr torfi og grjóti að Syðra Gili. Þá var þar einnig eldhúskofi með hlóðum, úr torfi og grjóti, 3,5x2m að grunnfleti. Þessar byggingar eru væntanlega löngu horfnar. Alls voru byggingarnar metnar á 8070 krónur, þar af íbúðarhús og skúr á 7400 kr. Árið eftir, 1934 (skv. Fasteignaskrá) munu þeir Brynjólfur og Hermundur hafa reist fjós og hlöðu úr steinsteypu og stendur síðarnefnda byggingin enn, vestan við íbúðarhúsið.

Þeir Brynjólfur og Hermundur Friðrikssynir bjuggu hér um áratugaskeið ásamt ráðskonu sinni, Árnýju Sigurðardóttur.  Árið 1966 tók Eiríkur Helgason frá Ytra-Gili við búinu og var hann jafnframt síðasti ábúandi Syðra-Gils. Af einhverjum ástæðum er Syðra-Gil sums staðar sagt fara í eyði árið 1966 en hver sá sem flettir Byggðum Eyjafjarðar sem gefin var út árið 1973 sér, að það er ekki alls kostar rétt: Árið 1970 er Eiríkur Helgason búsettur á Syðra-Gili og telur bústofn hans 80 fjár og 8 kýr. Túnstærð er 9,81 hektarar og töðufengur um 500 hestar. Þar er húsið sagt byggt 1927 og 300 m3 að stærð (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 265). Samkvæmt bókinni Eyðibýli á Íslandi var síðast búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili árið 1972. Eiríkur Helgason hélt hins vegar áfram að nýta tún Syðra-Gils en hann og kona hans, Ingunn Tryggvadóttir, voru bændur á Ytra-Gili um áratugaskeið. Árið 1990 voru tún Syðra-Gils, sem nýtt vP9210952oru af Ytra-Gilsbændum, 14,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:728). Snemma á 2. áratug þessarar aldar fór rannsóknarhópur um landið og „vísiteraði“ eyðibýli líkt og biskupar kirkjur, mörg slík um landið. Afrakstur þessarar vinnu kom út á bókum, Eyðibýli á Íslandi.  Syðra-Gil heimsótti hópurinn árið 2012 og grípum hér niður í skýrslu hópsins: […]Nýjasti hluti hússins, norðurbyggingin, frá um 1927 er steyptur og hefur alltaf verið óupphitaður. E.t.v. var elsti hluti hússins, sem er skv. eigendum vesturhluti hússins, gömul viðbygging við torfbæ. Útveggir hússins eru nokkuð heilir. Að sögn eigenda er fótstykki hússins að hluta til fúið í timburhluta hússins, en grindin er ekki farin að skekkjast. Gluggar eru allir glerjaðir og karmar, póstar og fög eru á sínum stað. Útihurðir eru heilar sem og þak. […] Hurða- og gluggabúnaður er í húsinu sem og raflagnir. Gamlir rafmagnsofnar eru í húsinu (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir  2012: 117). Eigandi hússins, sem vísað er til, er téð Ingunn Tryggvadóttir, á Ytra-Gili.

Miðað við þá staðreynd, að ekki hefur verið búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili í meira en hálfa, virðist húsið í nokkuð góðu ásigkomulagi. Samkvæmt fasteignaskrá er húsið skráð sem geymsla en það er ekki óalgengt að eldri íbúðarhús til sveita fái það hlutverk eftir að búsetu lýkur. Húsið er aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923, en bæjarstæðið er einstaklega skemmtilega staðsett. Séð frá þjóðvegi kallast húsið skemmtilega á við Súlutinda. (Kannski myndi það fullkomna sjónræna heild við tindana, ef byggð yrði önnur burst við húsið sunnanmegin). Það er að sjálfsögu ekki hægt að tala um neina götumynd á þessum slóðum eIMG_1540n Syðra-Gil er sannkölluð prýði í bæjaröðinni milli Akureyrar og Hrafnagils. Þá má geta þess, að hlaðan frá 1934 vestan við íbúðarhúsið er nokkuð merkileg bygging en hún mun vera með fyrstu byggingum hérlendis, sem steypt er með mótaflekum (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir  2012: 117). Hinar öldnu byggingar á bæjarhólnum, íbúðarhúsið og hlaðan, eru reyndar ekki þær einu í landi Syðra-Gils. Töluvert neðan við, á austustu og neðstu bökkum Gilsárgils nokkurn veginn beint á móti Ytra-Gili, stendur nýleg vélageymsla sem reist var 2017. Myndirnar eru teknar 21. sept. 2019, 13. apríl 2024, 26. júní 2023 og 8. júlí 2024.

Heimildir: Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

 Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hjörtur E. Þórarinsson. 1994. Saga Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989. Akureyri: Héraðsnefnd Eyjafjarðar.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.


Arkitektúr og endurnýting

Virkilega góð og þörf grein. Samhliða nokkurs konar endurvakningar formfegurðar í hönnun mannvirkja (sem vel að merkja, má þó ekki koma niður á notagildi, öryggi eða aðgengi bygginga, enda er Pétur H. alls ekki að mæla fyrir slíku) mætti huga að aukinni endurnýtingu hvað mannvirki varðar. Niðurrif eldri bygginga ætti nefnilega alltaf að vera allra, allra síðasta úrræði. Svona fyrir utan söguleg og menningarleg verðmæti, sem oft fara forgörðum þegar eldri byggingar eru rifnar er þetta spurning um nýtingu og sóun auðlinda. (Svona í ljósi þess, að almenningi er gert að drekka fernudrykki úr pappamassaröri af umhverfisástæðum til að spara nokkur grömm af plasti. Á meðan þykir sjálfsagt að moka þúsundum tonna af steypu, timbri, gleri, lagna- og gólfefnum, plasti og málmum og öðru í landfyllingar til þess að rýma fyrir glænýjum þúsundum tonna af þessum sömu efnum undecided). Auðvitað er það stundum svo, að sumum byggingum verður ekki bjargað og stundum er niðurstaðan auðvitað sú, að það er kannski meiri sóun að lagfæra það gamla en að byggja nýtt. En hvorki þetta né breyting í arkitektúr gerist af sjálfu sér, þetta þarf alltaf að vera þannig, að byggingaraðilar sjái hag í hinu umfram annað. Því hvað sem okkur kann að finnast um það, er það svo; Ef það er hagkvæmara að byggja ferkantaða gráa steinkassa og rífa gamalt, í stað formfagurra nýbygginga -eða endurbyggingar gamalla slíkra- verður það fyrrnefnda ætíð fyrir valinu.


mbl.is Efnishyggjan hefur tekið yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hús dagsins" í örlítið sumarfrí, vegna tæknilegra örðugleika.

Kæru lesendur. Það gæti orðið einhver örlítil bið eftir næsta "Húsi dagsins". Ástæðan er sú, að tölvan mín tók upp á einhverjum óskunda sem ég kann ekki að útskýra, en verið er að finna út hvort viðgerð verði við komið, eða hvort endurnýjunar sé þörf. Enda þótt mögulegt sé að opna ritvinnslu síðunnar í síma er mér ekki tamt að skrifa langt mál á þann hátt auk þess sem öll vinnsla mynda og uppsetning gegnum smáan símaskjá er illviðráðanleg. (A.m.k. hvað mig varðar) En þegar tölvukostur kemst í lag munu birtast hér, í júlí og ágúst, umfjallanir um nokkur eldri hús í sveitunum í nágrenni Akureyrar. coollaughing


Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_2698
  • IMG_2689
  • IMG_2665
  • IMG_2678
  • IMG_2610

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 28
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 485
  • Frá upphafi: 436785

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 307
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband