28.3.2025 | 14:16
Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús
Eitt margra gilja Akureyrarbrekknanna er Skammagil. Það liggur sunnanvert í Naustahöfða og liggur um norðurbarm þess snarbrött og hlykkjótt leið frá Nonnahúsi eða Minjasafni upp að elsta hluta Kirkjugarðs Akureyrar á Naustahöfða. Gilið er að mestu skógi vaxið og er þar um að ræða trjágróður sem tekið hefur mikinn vaxtarkipp sl. 2-3 áratugi. Þau hafa hins vegar staðið í um eða yfir 18 áratugi, elstu húsin neðan Skammagils, við sunnanvert Aðalstræti. Eitt þeirra er Aðalstræti 66. Þar er mögulega um að ræða eitt fyrsta veitingahús Akureyrar
Um Aðalstræti 66 segir Steindór Steindórsson: Það hefur lengi verið hald manna að Bertel Holm Borgen, sýslumaður Eyfirðinga, hafi reist húsið. En það er á misskilningi byggt. Sýsluskjöl sanna svo ekki verður um villst að Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður byggði það árið 1843 (Steindór Steindórsson 1993:47). Steindór telur jafnframt að húsið hafi í upphafi verið sniðið að veitingarekstri Gríms, en hann hafði fengið veitingaleyfi, árið áður. Að öllum líkindum er húsið byggt ári fyrr eða 1842 og það rímar ágætlega við það, að í maí það ár, fékk Grímur veitingaleyfi. Hann hefur að öllum líkindum ekki tvínónað við það, að reisa hús fyrir veitingarekstur. Ekki fylgir sögunni hvort einhver byggingarmeistari hafi verið yfir byggingunni en á þessum árum voru þeir Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni og Ólafur Briem á Grund mikilvirkastir í slíkum byggingum. Það eru þó engar heimildir, svo höfundur viti til, fyrir því að annar þeirra hafi komið að byggingu þessa húss. Hins vegar voru Grímur Laxdal og Ólafur Briem góðir vinir og vitað að Ólafur smíðaði oft fyrir Grím.
Aðalstræti 66 er einlyft timburhús, bindingshús, með háu og bröttu risi og miðjukvisti eða útskoti, sem skagar nokkuð út fyrir framhlið. Í lýsingum segir, að burðarviðir hússins séu 5x5 tommu bitar og húsgrindin 7 bita/sperrufög að breidd (sbr. Finnur Birgisson 1993:15). Á bakhlið er einlyft viðbygging með aflíðandi þaki og tveir smáir kvistir. Húsið er klætt láréttri timburklæðningu, sexrúðupóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er 9,50x6,91m, bakbygging 2,32x 2,55. Kvisturinn, sem er 3,25 að lengd, skagar 83 cm út fyrir framhlið. Flatarmál hússins er 154,8 m2 og rúmmál um 336 m3 , skv. teikningum Reynis Kristjánssonar.
Grímur Grímsson Laxdal, sem byggði húsið, var fæddur í október 1801. Í Eyfirðingum (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1582) er Grímur sagður fæddur í Reykjavík 10. október en aðrar heimildir segja, að hann muni hafa verið fæddur á Hofi á Skagaströnd (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005:17). Kirkjubækur Hofssóknar á Skagaströnd taka hins vegar af því allan vafa, að Grímur var fæddur á Hofi í Skagaströnd. Þar er hann sagður fæddur 11. október en aðrar heimildir segja 11. október. (Skv. ábendingu frá Jóni Benediktssyni, 29. mars 2025 í athugasemd á vefsíðunni arnorbl.blog.is). Hann var hins vegar búsettur á svæðinu, sem nú kallast Höfuðborgarsvæðið, hluta barnæsku sinnar og fram á fullorðinsár. Árið 1816 var hann stjúpbarn í Hvammkoti, í Reykjavíkursókn. Næstu árin er Grímur að öllum líkindum í vinnumennsku en vitað er, að 1829 eða 1830 hefur hann nám í bókbandi hjá Eggert Eyjólfssyni í Skildinganesi. Um svipað leyti kynntist hann Hlaðgerði Þórðardóttur í Reykjavík. Hún var fædd árið 1804 og var frá Hvammi undir Eyjafjöllum. Ekki festu þau þó yndi syðra heldur gengu þau í hjónaband haustið 1831 í öðrum Hvammi, en sá var í Eyjafirði. Kom flutningur þessi raunar ekki til af góðu, því foreldrar Hlaðgerðar höfðu meinað Grími að kvænast dóttur þeirra. Ekki sættu þau sig við þetta, heldur struku norður á þeirra einu eign, brúnni hryssu, gengu í hjónaband og hófu í kjölfarið búskap að Dvergsstöðum í Hrafnagilshreppi (sbr. Sigurþór Sigurðsson 2005: 17). Grímur fékkst við bókband samhliða búskapnum. Árið 1835 fluttust Grímur og Hlaðgerður til Akureyrar, eða höndlunarstað Eyjafjarðar og munu fyrst hafa reist torfhús á lóð þar sem nú er Aðalstræti 38. Árið 1843 kaupir Ari Sæmundssen lóðina og húsakost af þeim en þau flytja í syðsta timburhús Fjörunnar Þar er um að ræða húsið sem Grímur hafði reist fyrir veitingarekstur og varð síðar kennt, ranglega, kennt við Bertel Holm Borgen sýslumann (sbr. Jón Hjaltason 1990:173).
Það var í maí 1842 að Grímur Laxdal fékk leyfi amtsins til að selja ferðafólki næturgistingu, mat og drykk. Segir Jón Hjaltason í Sögu Akureyrar (1990:99) að þá hafi bærinn eignast sinn fyrsta veitingamann. Leyfið var bundið verðlagsskrá amtsins sem var á þá leið, að brennivínsstaup kostaði 2 skildinga, kaffibolli 6 skildinga, rúmgisting 8 skildinga, máltíð 10 skildinga og stórt glas af rommpúnsi 12 skildinga (sbr. Steindór Steindórsson 1993:46). Það er dálítið skemmtilegt að skoða þessa verðskrá, m.a. að matur er dýrari en gisting og kaffibollinn er þrefalt dýrari en brennivínsstaupið. Auk veitingarekstursins ráku þau Grímur og Hlaðgerður nokkurs konar sjúkrahótel og skutu skjólshúsi yfir fólk sem beið þess að fá inni hjá héraðslækninum. Steindór Steindórsson telur að jafnvel hafi hús sem þau reistu, sem síðar varð Aðalstræti 64, verið reist fyrir sjúklingana. Það má ímynda sér, að þröngt hafi verið um veitingareksturinn, sjúklingana og fjölskylduna en á þessum tíma áttu þau fimm börn. Hér er ekki ólíklegt, að þeirra sjöunda barn, Eggert Laxdal hafi fæðst í febrúar 1846, en hann var síðar verslunarstjóri hjá Gudmannsverslun og er elsta hús bæjarins, Laxdalshús, kennt við hann. Grímur Laxdal og fjölskylda hans bjuggu hér í innan við áratug en árið 1850 reistu þau nýtt hús undir Búðargili, sem síðar varð Aðalstræti 6. Þangað fluttu þau árið 1851 en hingað fluttist nýr eigandi, Indriði Þorsteinsson gullsmiður frá Víðivöllum í Fnjóskadal. Hann átti húsið í tvo áratugi og var húsið löngum nefnt Indriðahús eftir honum. Það er líklegt að hann hafi fljótlega eftir að hann eignaðist húsið, reist smiðju á lóðinni, sem nú er Aðalstræti 66a. Árið 1872 seldi Indriði Akureyrarbæ húsið sem nýtti það til skólahalds og var skóli bæjarins hér til húsa í fimm ár. Skólinn var á neðri hæð en á efri hæð bjuggu þurfalingar á vegum bæjarins. Eitt árið voru íbúar loftsins þeir Jón háleggur, Fjöru-Páll, Friðfinnur Kærnested, Jón askur, Jón Reinholt, Björn vasi, Indriði tindur og Jón mæða. Við getum gert okkur í hugarlund að sambúð íbúa loftsins og skólabarna hlýtur oft á tíðum að hafa verið nokkuð skrautleg en ekki fer neinum sögum af því, að vandræði hafi hlotist af. Skólinn var þó ekki marga vetur hér, því árið 1877 fluttist hann í Hafnarstræti 7, þar sem áður hafði verið Havsteensverslun. Jafnframt því að vera sérlegt skólahús bæjarins gegndi húsið hlutverki nokkurs konar félagsheimilis, þar sem fram fór söngur, dans og skemmtanir. Eftir að skólinn fluttist úr húsinu bjuggu oft margar fjölskyldur hér samtímis, jafnvel 6-8, eða um eða yfir 30 manns!
Árið 1880 keypti húsið Sigurður Sigurðsson járnsmiður frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Hann gerði umtalsverðar breytingar á húsinu, m.a. byggði hann kvistinn mikla fyrir miðri framhlið og breytti gluggum en upprunalega munu gluggar hússins hafa verið tvíbreiðir miðað það sem nú er, þ.e. tólf smárúður. Þá mun Sigurður hafa fyllt grind hússins af steypu, steypt í binding, sem kallað er. Rúmum 110 árum síðar kom í ljós, að það var eftir á að hyggja ekki mjög hyggilegt, því í ljós kom að burðarviðir neðri hæðar og gólfbitar voru ónýtir vegna fúa. Steypan í bindingsverkinu [ ]olli meinsemdinni með því að halda stöðugt raka að grindarviðnum (Finnur Birgisson 1993:15). Sigurður reisti einnig smiðju sunnan við húsið, sem nú er löngu horfin. Við kaup Sigurðar á húsinu mun hafa verið á því sú kvöð, að hann leigði bænum helming loftsins sem íbúðarrými fyrir þurfalinga. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort kvisturinn mikli hafi verið með í þeim samningi, en hann jók umtalsvert rými þessarar rishæðar, þar sem gólfflötur mælist tæpir 65 fermetrar og drjúgur hluti ómanngengur undir súð. Sigurður Sigurðsson var, að sögn Steindórs Steindórssonar (1993:47) einn fremsti iðnaðarmaður bæjarins og sérhæfði sig m.a. í landbúnaðarverkfærum. Plógar, sem Sigurður framleiddi, þóttu t.d. henta íslenskum hestum betur en hinir innfluttu.
Sigurður Sigurðsson seldi húsið árið 1917, Árna Friðrikssyni. En skömmu áður, nánar tiltekið í nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Sigurð og skrifuðu niður eftirfarandi lýsingu á húsinu (ath. orðrétt stafsetning og upptalning): Íbúðarhús einlyft á lágum steingrunni, með kvisti og háu risi lítill skúr við bakhlið. Á gólfi, við framhlið 2 herbergi við bakhlið 1 herb. Eldhús og búr. Á lofti 3 íbúðarherbergi og geimsluherbergi [svo]. Lengd 9,5m breidd 7,2m hæð 4,6m tala glugga 15 (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 15). Þrjú íbúðarherbergi á lofti ríma ágætlega við það, að húsið skiptist yfirleitt í þrjú íbúðarrými á 2. og 3 áratug 20. aldar. Árið 1920 búa t.d. 18 manns í húsinu, 4-8 manna fjölskyldur ásamt vinnufólki. Eigandi þá er Axel Vilhelmsson. Næstu áratugi eru eigandaskipti nokkuð tíð, en þegar Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar er gefin út á bók árið 1986 er sami eigandi frá 1945. Þar var um að ræða Magnús Jónsson (d.1992), sem var innfæddur Innbæingur, fæddur árið 1909 í Lækjargötu 9. Hann var lengst af vörubílsstjóri, keyrði lengst af hjá Stefni og var einn af stofnendum Nýju bílastöðvarinnar, sem síðar varð Stefnir. Magnús og kona hans, Eufemía Ólafsdóttir, byggðu nokkrum árum síðar, eða 1952, nýtt íbúðarhús á lóðinni, Aðalstræti 68. En húsið Aðalstræti 66 og lóðin, sem kalla mætti landareign, svo víðlend sem hún er, var áfram í eigu fjölskyldu Magnúsar.
Það var árið 1992 að Kolbrún Magnúsdóttir (Jónssonar) réðist í endurbætur á húsinu eftir teikningum og forskrift Finns Birgissonar. Þá var spurning, hvort færa ætti húsið í upprunalegt útlit frá tíð Gríms Laxdals, sem hefði þá falið í sér niðurrif á kvistinum mikla, eða hvort miða skyldi við breytingarnar frá 1880 (sbr. Finnur Birgisson 1993:15). Niðurstaðan var, augljóslega, sú að halda kvistinum. Húsfriðunarnefnd styrkti þessar framkvæmdir, sem upphaflega miðuðu að því að endurnýja glugga og þak en urðu að allsherjar endurnýjum burðarvirkis. Þannig hrökk styrkur Húsfriðunarnefndar rétt rúmlega aðeins fyrir hönnun endurbótana. Rúmum tveimur áratugum síðar var enn ráðist í endurbætur á húsinu og m.a. byggt við það til vesturs eftir teikningum Reynis Kristjánssonar. Þar voru að verki þau Hrafnkell Marinósson og Hlín Ástþórsdóttir, en Hrafnkell er sonur Kolbrúnar Magnúsdóttir og þannig barnabarn Magnúsar Jónssonar. Í mars 2016 lýstu þau framkvæmdunum í viðtali við Kristínu Aðalsteinsdóttur: Ég varð að taka húsið í gegn þegar mamma eignaðist það. Það var mikilvægt að búa mömmu stað. Þá var talað um hrakvirði hússins eins og húsið væri einskis virði. Síðan eru liðin 20 ár og vinnan svo mikil að því verður varla lýst með orðum. Það jók á erfiðið að búið var í húsinu á meðan það var endurbyggt. En við sjáum ekki eftir neinu. Endurbygging sem þessi felur í sér ákveðna hugsjón sem hefur menningarlegt gildi að okkar mati (Hrafnkell Marinósson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017: 77). Þegar viðtalið er tekið eru framkvæmdir við viðbyggingu þó væntanlega ekki hafnar, það er í mars 2016 en teikningar Reynis Kristjánssonar eru dagsettar í nóvember það ár. Viðbyggingin var reist sem bókastofa, til minningar um þau Magnús Jónsson og Eufemíu Ólafsdóttur, þar sem m.a. vantaði pláss fyrir bækur frá Magnúsi. Þess má líka til gamans geta, að skorsteinninn, sem setur skemmtilegan svip á húsið, var endurhlaðinn sumarið 2024 úr steinum upprunalegs skorsteins. Að þeirri framkvæmd kom einmitt Jón nokkur Laxdal, afkomandi Gríms Laxdals (skv. tölvupósti Hrafnkels Marinóssonar til höfundar 1. apríl 2025).
Aðalstræti 66 er sérlega geðþekkt og snoturt hús og hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald. Það er hluti einstaklega skemmtilegrar húsatorfu undir Skammagili, sem er umföðmuð gróðri og myndar, ásamt Minjasafnsgarðinum, sem er spölkorn norðan við, sérlega yndislega heild gamalla húsa og gróskumikils trjágróðurs. Það er raunar sem nýtt eftir endurbætur sl. áratuga og viðbyggingin frá 2016 skerðir ekki heildarútlit eða yfirbragð hússins á nokkurn hátt. Kvisturinn mikli gefur húsinu sérstakan svip eða karakter, það var sannarlega rétt ákvörðun að mati greinarhöfundar, þegar endurbygging hússins hófst árið 1992, að leyfa kvistinum að halda sér. Aðalstræti 66 var friðlýst skv. Þjóðminjalögum 1. janúar 1990. Í Húsakönnun 2012 fær húsið m.a. þessi einkunnarorð: Húsið á sér ef til vill merkilegri sögu en flest önnur hús í fjörunni og er gott dæmi um hús sem hefur í gegnum tímann gegnt margskonar hlutverki (Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 61).
Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2015 og 16. febrúar 2025.
Heimildir:
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Finnur Birgisson. 1993. Tvö gömul hús á Akureyri. Í Alþýðumanninum, sérblaði með Alþýðublaðinu, 193. tbl. 74. Árg., 17. desember, bls. 15.
Hjörleifur Stefánsson. 1986.Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn.
Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur gáfu út.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.
Sigurþór Sigurðsson. Bókbindarar á Akureyri 1. hluti. Í tímaritinu Prentarinn 2.tbl. 25. árg.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 1.4.2025 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2025 | 17:16
Hús dagsins: Aðalstræti 44; Elínarbaukur
Húsaröðin við sunnanvert Aðalstræti er einkar geðþekk, skipuð lágreistum timburhúsum frá miðri 19. öld undir skógi vöxnum brekkum Naustahöfða. Þessi hluti bæjarins hefur löngum kallast Fjaran, en þessi elsta byggð Akureyrar skiptist í Akureyri annars vegar, á eyrinni undir Búðargilinu og Fjöruna undir brekkunum. Innbærinn er heiti sem kom ekki til fyrr en löngu síðar, eftir að byggðin hafði breitt úr sér milli Oddeyrar og Akureyrar. Í tilfellum margra þessara húsa er erfitt að slá föstu um byggingarár, ef ekki ómögulegt. Engin bygginganefnd var starfandi í bænum fyrr en 1857 og því ekki um að ræða nein byggingarleyfi. Þá voru dæmi um að hús væru flutt annars staðar frá. Eitt þessara húsa er Aðalstræti 44. Það er skráð með byggingarárið 1840 og telst því í 3. 5. sæti yfir elstu hús bæjarins, ásamt Aðalstræti 52 og Lækjargötu 2a. Húsið hefur löngum kallast því áhugaverða nafni Elínarbaukur. Byggingarár er þó raunar óljóst, jafnvel líklegt að það sé a.m.k. hálfum öðrum áratug yngra en skráð byggingarár segir til um en hér látum við Aðalstræti 44, eða Elínarbauk njóta vafans.
Aðalstræti 44 er einlyft timburhús á lágum steingrunni með háu risi. Að vestan tengist húsið steinsteyptri viðbyggingu, sem einnig er með háu risi, samsíða framhúsi. Viðbyggingin tengist eldra húsi með tengibyggingu úr timbri sem er með portbyggðu mansardþaki. Á framhlið er smár kvistur með einhalla, brattri þekju og einnig eru kvistir á þekju tengibyggingar, einn hvoru megin og tveir kvistir á bakhlið. Á veggjum hússins er listasúð, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Á steinsteypta hluta hússins eru veggir múrsléttaðir og ýmist krosspóstar eða einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum.
Hver byggði Aðalstræti 44 og hvenær?
Líkt og algengt er með elstu hús Akureyrar eru takmarkaðar heimildir um byggingu Aðalstrætis 44, sem í manntali 1860 er einfaldlega hús nr. 56 á Akureyri. Byggingarár er talið vera nærri 1840 eða í síðasta lagi um 1854. Svo vill reyndar til, að árið 1840 er einnig tilgreint hús númer 56 í manntali Akureyrarkaupstaðar en ekkert óyggjandi, að um sama hús sé að ræða. Í heimildum eru tveir menn taldir líklegastir til að hafa byggt húsið, Bjarni Gunnarsen og Kristján Tómasson. Bjarni Sívertsen Arnórsson Gunnarsen eða Bjarni Gunnarsen stúdent, verslunarmaður hjá Havsteensverslun. Hann var úr Reykjavík og hafði verið skrifari hjá amtmönnum Norðlendinga, fyrst hjá Grími Jónssyni og síðar Bjarna Thorarensen. Bjarni er sagður stúdent og kaupmaður á Akureyri á vefnum islendingabok.is. Hann strauk af landi brott frá eiginkonu sinni, Elínu Einarsdóttur Thorlacius og tveimur ungum börnum, haustið 1858 (sbr. Jón Hjaltason 2001:34). Ekki fer fleiri sögum af honum, hann er ekki með skráð dánardægur á islendingabok.is nema hvað hann er sagður á lífi árið 1868 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:783). Hafi Bjarni og Elín byggt þetta hús hefur það varla verið fyrr en nær 1850, en þau voru fædd 1823 og 1827 og því á barns- og unglingsaldri árið 1840. Einhverjar kenningar eru um, að Kristján Tómasson, tómthúsmaður, hafi byggt húsið. Hann er allavega einn af fyrstu eigendum þess. Hafi Kristján byggt húsið hefur það allavega verið mun seinna en 1840, einfaldlega vegna þess, að Kristján var fæddur árið 1834 og því ekki nema sex ára á því herrans ári 1840. Hann hefur líklega flust hingað um 1857, en árið 1859 fær hann leyfi hinnar nýju Bygginganefndar til að reisa fjós á lóðinni.
Við skulum bregða okkur ein 170 ár aftur í tímann, til ársins 1855 og glugga í manntalið það ár. Kristján Tómasson var fæddur árið 1834, sem fyrr segir, á Háahamri (hjáleiga í landi Stóra-Hamars) í Öngulsstaðahreppi og uppalinn á Ytri - Tjörnum. Árið 1855 er hann skráður til heimilis að Hrafnagili, þar sem hann er í vinnumennsku. En víkjum nú sögunni til Akureyrar. Árið 1855 er búsett á Akureyri verslunarstað, Helga Egilsdóttir, 26 ára, ásamt móður sinni Guðnýju Kráksdóttur og stjúpföður, Steini Kristjánssyni. Auk hennar búa í sama húsi faðir Guðnýjar, Krákur Jónsson, barnung dóttir Helgu, Anna Jónasína Jónasdóttir, fósturbarn Steins og Guðnýjar, Guðný Þorsteinsdóttir og sonur Steins, Friðbjörn. (Löngu síðar verður hús þeirra þekkt sem Friðbjarnarhús). Helga Egilsdóttir var fædd á Bakka í Öxnadal. Hún hafði tveimur árum fyrir þetta, 1853 siglt til Danmerkur, þar sem hún nam ljósmóðurfræði í eitt ár og heimkomin, 1854, gerðist hún sérleg ljósmóðir eða yfirsetukona Akureyrarkaupstaðar. Hvort leiðir yfirsetukonu Akureyrarbæjar og vinnumannsins á Hrafnagili höfðu þegar legið saman árið 1855 vitum við ekki, en þann 8. október 1857 gengu þau í hjónaband. Og um svipað leyti fluttu þau í næsta hús norðan við Stein og Guðnýju. Kannski byggðu þau húsið, það hefur þá gerst um svipað leyti og þau giftu sig. Hins vegar finnst ekkert byggingarleyfi fyrir húsinu, sem gæti líka bent til þess, að húsið hafi þegar verið risið (höfum í huga, að bygginganefndin tók til starfa vorið áður). Þá er auðvitað líka sá möguleiki, að þau hafi flutt hús annars staðar frá og sett niður við hliðina á Steinshúsi.
Hér langar höfund til að setja fram eina kenningu um byggingu Aðalstrætis 44, sem er gjörsamlega úr lausu lofti gripin og algjörlega án ábyrgðar, en er mögulega ekki vitlausari en hvað annað. Kannski er hér borið í bakkafullan lækinn af vangaveltum um uppruna hússins. Hér að framan er nefnt Friðbjarnarhús, sem stendur næst sunnan Elínarbauks, við Aðalstræti 46. Enda þótt húsið sé kennt við Friðbjörn Steinsson var það ekki hann, sem byggði það. Faðir Friðbjarnar, Steinn Kristjánsson, byggði það upp úr smiðju sem Ingimundur Eiríksson, járnsmiður úr Reykjavík, hafði selt honum. Ingimundur reisti smiðjuna árið 1849 en Steinn Kristjánsson fluttist til Akureyrar árið 1851 frá Geirhildargörðum í Öxnadal. Það vill svo til, að árið 1840 er Ingimundur Eiríksson járnsmiður einmitt búsettur í höndlunarstað Eyjafjarðar þ.e.a.s. Akureyri. Og það sem meira er, hann og fjölskylda hans eru búsett í húsi nr. 56, þ.e. sama númeri og þau Helga og Kristján árið 1860. Reyndar skal þess getið, að þessi númer þurfa ekki endilega að eiga við sama húsið. Árið 1850 er Ingimundur t.d. skráður í húsi númer 62 en þau Bjarni Gunnarsen og Elín Einarsdóttir í húsi nr. 44. (Árið 1855 eru engin númer á húsunum á Akureyri í manntalinu) En kannski er rökrétt að álykta, að Ingimundur hafi reist smiðju sína í bakgarði íbúðarhússins, jafnvel lítið eitt sunnar og ofar. Kannski er það tilfellið, að Ingimundur Eiríksson járnsmiður hafi reist Aðalstræti 44 árið 1840?
Maður Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu
Enda þótt byggingarleyfi fyrir húsinu finnist ekki, er Kristján Tómasson engu að síður nefndur í bókunum bygginganefndar. Þann 18. júní 1859 er honum leyft að reisa lítið fjós á lóðinni, fyrir 2 kýr á bakvið Sæmundsens hesthús, sem staðsett er bakvið íbúðarhús Kristjánsson og hefur Sæmundsen gefið leyfi til þess. (Umræddur Sæmundsen er væntanlega Ari P. Sæmundsson, sem átti þar næsta hús norðan við. Það sem heita má merkilegt við þetta byggingarleyfi, er að í bókunum bygginganefndar er Kristján tilgreindur maður Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu og í registrum segir einfaldlega Kristján Tómasson yfirsetukonumaður. Gegnum tíðina hefur almennt tíðkast, að kalla konur frúr eftir starfstétt eiginmanna sinna, sbr.læknisfrú, prestsfrú o.s.frv. en það hlýtur að vera næsta sjaldgæft í opinberum skjölum, að karlmenn séu kenndir við starfstétt eiginkvenna. Þau Helga og Kristján áttu hér heima til ársins 1865 en þá hlaut Helga embætti yfirsetukonu í Reykjavík. Hvorugt þeirra varð langlíft, Helga lést úr taugaveiki árið 1867 og Kristján ári síðar. Um Helgu Egilsdóttir segir í minningargrein: Frá þessu tímabili [er hún giftist Kristjáni árið 1857 þar til hún flutti til Reykjavíkur] dvaldi hún hjer á Akureyri og stundaði köllun sína með alúð og samvizku semi og óþreytandi elju; hún tók á móti hjer- um fullt 300 börnum og kenndi 10 kvenn- mönnum ljósmóðurfræði (Án höf 1869: 1).
Elínar þáttur Einarsdóttur
Árið 1860 býr hér, ásamt þeim Helgu og Kristjáni, kona að nafni Elín Einarsdóttir Gunnarsen og er sögð lifa á saumaskap og maðurinn hennar [téður Bjarni Gunnarsen] sé strokinn úr landi. Elín Einarsdóttir var líkast til fædd í Saurbæ í Eyjafirði en hún var dóttir sr. Einars Hallgrímssonar Thorlacius, sem þar þjónaði sem prestur á árunum 1823 til 1867 og lét m.a. reisa núverandi Saurbæjarkirkju. Elín ólst hins vegar upp á Miklagarði hjá föðurafa sínum, sr. Hallgrími Thorlacius og er árið 1845 búsett á Hrafnagili hjá föðurbróður sínum, sr. Hallgrími Hallgrímssyni Thorlacius en árið 1850 er hún búsett í húsi nr. 44 á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Gunnarsen. (Kannski hafa þau byggt húsið um eða skömmu fyrir 1850?) Hún hefur líkast til búið hér áfram eftir að Kristján og Helga fluttu suður, því árið 1873 kaupir hún húsið af erfingjum þeirra. Mögulega hefur hún byggt húsið ásamt Bjarna og fengið inni hjá nýjum eigendum hússins sem leigjandi eftir að hann strauk úr landi.
Tveimur árum eftir að Elín eignaðist húsið, eða 1875, hóf hún veitingarekstur en fram að því hafði hún að mestu fengist við saumaskap. Fékk hún fullgilt leyfi bæjaryfirvalda til að starfrækja veitingasölu, þ.e.a.s. selja kaffi og léttar veitingar sem hún og gerði hér í húsinu. Áfengisleyfi var ekki inni í veitingaleyfi Elínar. Kallaðist húsið Elínarbaukur. Bauksnafnið kom til af því, að í bænum hafði verið rekið veitingahús sem kallaðist Jensensbaukur eftir iðngrein vertsins, Lauritz H. Jensens, sem var beykir. Komst þannig upp sú hefð, að nefna veitingahús bauka, enda þótt vertinn kæmi hvergi nálægt beykisiðn. Jensen þessum var raunar nokkuð í nöp við veitingarekstur Elínar, ekki aðeins vegna samkeppninnar, heldur fremur vegna þess, að hann uppástóð að Elín stælist til að selja mönnum áfengi. Jensen hafði þurfti mikið að hafa fyrir því að mega selja áfenga drykki, m.a. sjá ferðamönnum fyrir öllu mögulegu sem þeir þörfnuðust m.a. þvotti, gistingu og fóðri fyrir hesta. M.ö.o. virðast kaupin hafa gerst þannig á (Akur)eyrinni, að til þess að öðlast vínveitingaleyfi þurftu menn að reka fullburðug gistiheimili eða hótel, samhliða veitingarekstri. Þannig færu ferðamenn, sem gistu hjá honum, á kaffihúsið til Elínar en kæmu drukknir til baka í gistingu hjá honum og væru þar með óspektir (sbr. Jón Hjaltason 1994: 330). Það mun hafa verið í ársbyrjun 1877 sem Jensen var nóg boðið og skrifaði amtmanni kvörtunarbréf vegna þessa. Elín gerði sér þá lítið fyrir og sótti um leyfi til að reka reglulegt veitingahús, nokkurs konar uppfærslu á fyrra leyfi sínu. Og úr varð, að Elín fékk leyfi til að selja áfenga drykki og gistingu en þó með þeim skilyrðum, að aldrei mátti skort mat handa gestum og hey handa hestum og ekki mátti fara fram næturslark eða ólögleg spilamennska (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2012:50). Það fylgir þó ekki sögunni, að á Elínarbauk hafi verið stundum lögleg spilamennska. Elín rak bauk sinn um áratugaskeið en auk þess leigði hún íbúðarherbergi í húsi sínu. Sama ár og Elín fékk fullgilt veitingaleyfi kom til bæjarins Magnús nokkur Jónsson frá Öxnafelli í Saurbæjarhreppi. Hann hafði þá stundað nám í úrsmíði í Kaupmannahöfn og mun hafa verið einn fyrsti úrsmiður, sem settist að á Akureyri. Hann leigði hjá Elínu og starfrækti hér úrsmíðaverkstæði sitt (sbr. Jón Hjaltason 2001:230) væntanlega það fyrsta slíka í bænum. Lesendur geta ímyndað sér, hversu rúmt hefur verið um veitinga- og gistiheimili Elínar, íbúa hússins og úrsmíðaverkstæðið á þessum árum, en þá stóð aðeins fremri hluti hússins, um 42 m2 að grunnfleti!
Elín Einarsdóttir átti hér heima, allt til dánardægurs árið 1914. Eignaðist þá sonur hennar, Einar Thorlacius Bjarnason, húsið. Hann seldi það fljótlega Vigfúsi Sigfússyni, veitingamanni á Hótel Akureyri en hann er skráður eigandi hússins 1915 og þar eru leigjendur Halldór Þorgrímsson verkamaður og fjölskylda hans. Árið 1916 var Aðalstræti 44 metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr timbri með pappaklæddu þaki, einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Austanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa, eitt herbergi og eldhús og búr vestanmegin. Í risi voru tvö íbúðarherbergi og geymsla. Grunnflötur hússins var sagður 7,2x5,4m og hæðin 3,7m (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 28). Eigendur, þegar þessi lýsing var gerð, 28. nóvember 1916, voru erfingjar Vigfúsar Sigfússonar, en hann lést tæpum tveimur mánuðum fyrr eða 1. október. Árið 1918 er Hallgrímur Helgason beykir orðinn eigandi hússins. Hann fékk árið 1920 leyfi til að reisa skúr eða viðbyggingu vestan við húsið. Ekki kemur fram hversu stór sá skúr eigi að vera. Árið 1928 er Hallgrími heimilað að byggja hæð ofan á skúrinn. Engin mál eru á byggingunni en tekið fram, að byggingarfulltrúa sé falið að segja fyrir um styrkleika og stærð þessarar byggingar (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1928: nr. 611). Fékk húsið þá það lag, sem það hafði fram undir aldamótin 2000. Á teikningum frá Rafveitu Akureyrar sést, að skúrinn hefur þjónað sem geymsla í upphafi, en umræddar teikningar eru frá því um 1923.
Hallgrímur Helgason og afkomendur. Viðbyggingarsaga
Í ítarlegri manntalsskýrslu frá árinu 1940 kemur fram, að tvær íbúðir séu í húsinu, ein á hvorri hæð. Þar kemur einnig fram, að hvorki sé í húsinu miðstöðvarkynding, vatnssalerni né bað en þó rafmagn og vatnsveita. Þá er húsið sagt réttra 100 ára, m.ö.o byggt 1840. Árið 1940 eru átta manns búsettir í húsinu: Annars vegar þau Hallgrímur Helgason og Matthildur Grímsdóttir ásamt dætrum þeirra, Önnu Soffíu og Helgu Sigríði. Hins vegar Kristveig María, einnig dóttir Hallgríms og Matthildar, hennar maður Indriði Jakobsson og börn þeirra Edda Sigurlaug og Þórhallur Helgi.
Það er skemmst frá því að segja, að þær Helga og Anna Soffía áttu hér heima alla sína tíð eftir þetta, Anna lést árið 1985 og Helga árið 1988. Margir, sérstaklega Innbæingar, muna eftir Helgu Hallgrímsdóttur úr kjörbúð KEA eða Höepfner, en þar stóð hún vaktina í hartnær hálfa öld. Í byrjun árs 1987 segir Helga í viðtali við Dag Núna bý ég hér ein, en áður var hér margt fólk, jafnvel nokkrar fjölskyldur, en núna er rétt pláss fyrir mig eina, [ ] Stofan í þessu húsi þykir nú ekki stór, en í henni bjuggu eitt sinn hjón með 5 börn, þar fyrir utan var a.m.k. ein önnur fjölskylda í húsinu, ef ekki tvær. (Helga Hallgrímsdóttir (Helga Jóna Sveinsdóttir) 1987: 11). Eftir lát þeirra eignaðist frænka (systursonardóttir) þeirra Önnu og Helgu, Anna Kristveig Arnardóttir, húsið. Faðir Önnu er Örn, sonur Indriða Jakobssonar og Kristveigar Hallgrímsdóttur, systur téðra Helgu og Önnu Soffíu. Og þess má geta, að föðurbróðir Önnu Kristveigar er Hallgrímur Indriðason í Aðalstræti 52. Hún er því langafabarn Hallgríms Helgasonar og þannig hefur húsið haldist innan sömu ættar frá árinu 1918 eða í 107 ár! Í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbærinn saga hús og fólk, segir Anna Kristveig einmitt frá því, að hún hafi ákveðið það 12 ára gömul að kaupa hús frænkna sinna, sem gáfu henni ýmislegt góðgæti sem hún ekki fékk heima hjá sér, þegar hún yrði stór og stóð hún við það (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:55). Og hún gerði gott betur en að eignast húsið; hún stóð fyrir mikilli uppbyggingu og endurbótum á húsinu þegar þar að kom.
Á árunum 1997-2000 fóru sem sagt fram miklar framkvæmdir við Aðalstræti 44. Viðbyggingar frá 3. áratug 20. aldar voru rifnar en byggt við á ný til vesturs, eftir teikningum Finns Birgissonar. Um var að ræða aðferð, sem löngum hefur verið talin sem skólabókardæmi um það hvernig byggja skal við friðuð, gömul hús. Það er, skil á milli gamla hússins og nýbyggingar eru skýrt afmörkuð með látlausum tengigangi, þannig að viðbygging breytir ekki yfirbragði gamla hússins, sem fær að njóta sín óhindrað. Viðbyggingin er auk þess í sams konar byggingarstíl og upprunalega húsið en mjög skýrt hvar um er að ræða viðbyggingu og eldra hús. Innanstokks bætast við fleiri fermetrar sem eru sannarlega kærkomnir fyrir eigendur og íbúa hússins. Nokkrum árum fyrr var byggt við Aðalstræti 52 og segja má, að tenging nýbyggingar Menntaskólans á Akureyri (sem er reyndar orðin um 30 ára gömul) við Gamla Skóla frá 1904, sé af sama toga. Við þessar byggingarframkvæmdir voru einnig endurnýjaðir gluggar, veggklæðning og þak á eldra húsinu. Húsinu hefur æ síðan verið vel við haldið og er til mikillar prýði í einni rótgrónustu götumynd Akureyrar. Umhverfið er einnig mjög gróskumikið en líkt og önnur hús á þessum slóðum stendur húsið á geysi víðlendri lóð sem prýdd er hinum ýmsu trjám. Ber þar e.t.v. mest á miklu furutré suðaustan við húsið. Efsti hluti Naustahöfða, sem sumir kalla Innbæjarbrekkuna er á síðustu árum orðinn skógi vaxinn að mestu, nokkurs konar grænn trefill yfir Aðalstræti. Aðalstræti 44 eða Elínarbaukur var friðlýstur 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 15. ágúst 2009 og 16. febrúar 2025.
Heimildir: Án höfundar. 1869. Húsfrú Helga Egilsdóttir Norðanfari 7. júní 30. tbl. bls. 1.
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 11, 18. júní 1859. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 489, 22. okt. 1920. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 611 30. apríl 1928. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Helga Jóna Sveinsdóttir.1987. Búðin var mitt annað heimili í Degi 14. janúar, 8. tbl 70. árg. bls. 2.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinniâ¯
http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.
Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbærinn Saga hús og fólk. Akureyri: Höfundur gaf út.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 17.3.2025 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2025 | 14:40
Hús dagsins: Aðalstræti 52
Fjórir áratugir skilja að elsta og næstelsta hús Akureyrar svo vitað sé með vissu. Það er líklegt að þriðja og fjórða sætið hvað elstu hús bæjarins varðar, deilist milli tveggja eða jafnvel þriggja húsa, það er Aðalstrætis 44, Aðalstrætis 52 og Frökenarhúss við Lækjargötu 2a (það hús snýr raunar að Aðalstræti). Öll þessi hús munu byggð 1840 en líklegt getur talist að Frökenarhúsið hafi risið 1839. Uppruni þessara húsa er nokkuð óljós, enda húsin byggð löngu áður en Bygginganefnd Akureyrar tók til starfa. Hvað Aðalstræti 52 varðar er talið nokkuð víst að Wilhelmína Lever hafi reist það á þessum stað árið 1852 en suðurhluti hússins talinn reistur í Skjaldarvík og fluttur hingað, mögulega 1840. Svo eru heimildir fyrir því, að þessi lóð muni hafa verið óbyggð fram yfir 1850. Hvenær það var reist í Skjaldarvík veit í raun enginn en skráð byggingarár hússins er 1840. Kannski er húsið jafnvel eldra en svo? Látum það liggja milli hluta í bili, en Aðalstræti 52 er á meðal allra elstu húsa Akureyrar og eitt það elsta, sem búið er í.
Aðalstræti 52 er einlyft timburhús með háu og bröttu risi, grindarhús eða bindingshús, sem stendur á lágum steingrunni. Á bakhlið hússins er viðbygging, einlyft úr timbri með lágu risi og tengjast húsin með tengibyggingu eða gangi. Á framhúsinu er timburklæðning, svonefnd listasúð og bárujárn á þaki. Lóðrétt timburklæðning er á bakhlið og bárujárn á þaki. Syðsti hluti viðbyggingar er með glerjuðum veggjum, nokkurs konar sólskáli. Grunnflötur framhúss er 6,14x12,71m, viðbygging er um 4,60x15,10m og tengibyggingin 2,40x3,50m.
Wilhelmína Lever var fædd á Reyðarfirði árið 1802, dóttir Hans Levers, sem þar gegndi stöðu verslunarstjóra hjá Kyhnsverslun og Þuríðar Sigfúsdóttur. Ári síðar fluttist Hans Lever til Akureyrar þar sem hann tók við verslunarstjórastöðu hjá sömu verslun. Hann mun fyrstur manna hafa kynnt Akureyringum kartöflurækt. Wilhelmína giftist árið 1822, Þórði Daníelssyni frá Skipalóni, bróður hins valinkunna byggingameistara Þorsteins Daníelssonar. Það hjónaband gekk ekki sem best; Þorsteinn kærði Wilhelmínu fyrir endurtekin hjúskaparbrot, sem á móti skildi við hann að lögum. Mun þetta hafa verið fyrsti lögskilnaður hjóna hérlendis en engu að síður var Wilhelmína ítrekað titluð madamma Danielssen, eftir fyrrum eiginmanni sínum í manntölum. Árið 1834 reisti Wilhelmína hús á lóðarspildu við norðurmörk þáverandi kaupstaðar og hóf að reka þar verslun og veitingastað. Lóðina hafði faðir hennar keypt úr landi Stóra Eyrarlands. Þetta var væntanlega fyrsta skipti sem kona stóð fyrir húsbyggingu á Akureyri. Hús þetta brann árið 1903 og stóð þar sem nú er Hafnarstræti 23. Wilhelmína efnaðist vel á verslun sinni og var árið 1840, tíunda í röð þeirra, sem hæst útsvar greiddu á Akureyri. Sex árum síðar keypti Þorsteinn Daníelsson, fyrrum mágur Wilhelmínu, verslunina af henni og fluttist Wilhelmína að Krossanesi þar sem hún bjó til ársins 1852 (sbr. Gísli Jónsson 1981:11).
Frá Krossanesi fluttist hún aftur til Akureyrar og hóf aftur veitingarekstur. Að þessu sinni kom hún sér fyrir sunnarlega í Fjörunni, í húsinu sem löngu síðar hlaut númerið 52 við Aðalstræti. Það gæti vel hugsast, að Wilhelmína hafi fengið húsið flutt úr Skjaldarvík og reist það þarna en mögulega var húsið þegar komið. Kannski hefur Þorsteinn, fyrrum mágur hennar, haft hönd í bagga, við bygginguna? Kenningar eru uppi um, að húsið hafi verið reist á þessum stað árið 1840 og jafnvel byggt enn fyrr í Skjaldarvík og þaðan flutt hingað. Þá þykir höfundi freistandi að álykta, að húsið hafi verið reist um svipað leyti eða samhliða Skjaldarvíkurstofunni sem Ólafur Briem, timburmeistari á Grund, reisti 1835. Það var næsta sjaldgæft, að byggð væru timburhús til sveita á fyrri hluta 19. aldar, önnur en kirkjur, og yfirleitt um að ræða veglegar og valinkunnar byggingar. Hjörleifur Stefánsson (1986:96) segir óljósar heimildir fyrir því, að íbúðarhús amtmanns hafi verið tekið niður og flutt hingað um 1840 en í uppfærðri húsakönnun 2012 eru heimildir sagðar fyrir því, að hér hafi ekki staðið hús fyrr en eftir 1850 (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: án bls.) Hvað kenninguna um íbúðarhús amtmanns í Skjaldarvík varðar, er það svo, að árið 1840 sat amtmaður Norður- og Austuramts, Bjarni Thorarensen, á Möðruvöllum. Íbúðarhús hans, sem byggt var 1826, kallaðist Friðriksgáfa og var svo sannarlega ekki flutt, heldur brann það árið 1874. Getur verið, að Bjarni hafi átt annað hús eða bústað, í Skjaldarvík? Sá sem þetta ritar hefur alltént engar forsendur eða heimildir sem útiloka það eða staðfesta: Kannski byggði Bjarni Thorarensen suðurhluta Aðalstrætis 52? Núverandi eigandi hússins er með ákveðnar tilgátur um uppruna hússins, sem greint verður frá í lok þessarar greinar.
Árið 1855 er Wilhelmína skráð í manntali til heimilis á Akureyri og sögð lifa af verzlun. Þá er því þannig háttað, að Akureyri verzlunarstaður kemur fyrir í manntali eins og hvert annað hús eða býli: 206 íbúar bæjarins birtast í einum lista og engin skýr aðgreining er á húsum bæjarins, önnur en sú að 44 hús eða íbúðir eru aðgreindar með tölunni 1. Wilhelmína, sonur hennar Hans Wilhelm (H.W.), fósturdóttur hennar, Wilhelmína Pálsdóttir og vinnufólkið Sigríður Einarsdóttir og Benedikt Sigurðsson eru búsett í fjórða síðasta íbúðarrými bæjarins á manntalinu, svo mögulega hefur röð þessi verið húsaröð frá norðri til suðurs. Wilhelmína Lever átti hér heima í sjö ár en árið 1859 seldi hún húsið Sveini Skúlasyni. Fjórum árum síðar vann Wilhelmína sér það til frægðar, að kjósa í bæjarstjórarnarkosningum. Var það árið 1863, meira en hálfri öld áður en konur fengu kosningarétt. Tilmæli um kosningarétt voru skýr; allir fullmyndugir menn, á dönsku fullmundelig mænd höfðu kosningarétt. En á milli dönsku og íslensku er sá merkingarmunur, að mænd þýðir karlmaður en maður á íslensku nær yfir allt mannfólk, hvers kyns sem það er. Wilhelmína var þannig að sjálfsögðu maður. Hér má sjá myndir úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, sem farin var um Innbæinn fyrir um áratug. Það er Fanney Valsdóttir, sem þarna ávarpar þátttakendur, sem Wilhelmína Lever og við hlið hennar
er leiðsögumaðurinn Hanna Rósa Sveinsdóttir. Sveinn Skúlason hafði flutt til Akureyrar þremur árum fyrr og tekið við ritstjórn og prentun á blaðinu Norðra, sem hóf göngu sína sama ár og Wilhelmína fluttist hingað, þ.e. 1852. Upphafsmaður blaðsins og prentverksins var Björn Jónsson en hús hans er núna Aðalstræti 50, næsta hús norðan við. Sveinn tók við ritstjórn og prentverki Björns og fljótlega eftir að hann keypti húsið af Wilhelmínu flutti hann prentverkið milli húsa. Hann mun hafa lengt húsið til norðurs og húsið þá væntanlega fengið það lag sem það hefur æ síðan. Greinarhöfundi þykir freistandi að giska á, útidyr á framhlið séu nokkuð nærri mörkum upprunalegs húss og viðbyggingar frá 1860.
Til byggingarframkvæmda réði Sveinn, Jón Chr. Stephánsson byggingameistara. Árið áður hafði hann unnið sér það til frægðar, að reisa eitt stærsta hús bæjarins á þeirri tíð, nánar tiltekið apótek bæjarins. Var það ekki aðeins stærra að grunnfleti og hærra en tíðkaðist heldur stóð þá á lágum hól neðst í Búðargili og tróndi þannig yfir lágreistu byggðinni á Akureyri. En viðbyggingin við hús Skúla, ný húsakynni prentverksins og Norðra, var dýr og Sveinn lenti í miklum skuldum við byggingameistarann. Í ofanálag gekk rekstur blaðsins illa, prentverkið var aðeins fáein misseri í húsinu (til 1861) og í maí 1862 eignaðist Jón Chr. húsið þegar Sveinn seldi honum það upp í skuldirnar.
Jón Christian Stephánsson var mikilvirkur skipa- og húsasmiður og teiknaði og byggði mörg veglegri hús bæjarins og víðar. Í norðurhluta hússins hafði hann smíðaverkstæði en reisti einnig lítinn skúr, áfastan húsinu, þar sem hann hafði einnig ljósmyndavinnustofu. Á meðal verka hans voru m.a. Akureyrarkirkja hin eldri (1862), Möðruvallakirkja í Hörgárdal (1865), svokallaður Jensensbaukur (1885), samkomuhús Templara á Barðsnefi (1896) og apótekið mikla árið 1859. Af þessum húsum standa aðeins Möðruvallakirkja og Apótekið enn, Jensensbaukur brann til ösku í desember 1901 og samkomuhúsið gamla nánast réttum 50 árum síðar, í janúar 1952. Akureyrarkirkja hin eldri var hins vegar rifin um 1943 og einhvern tíma heyrði sá sem þetta ritar, að bændur úr nágrannasveitum hafi fengið viðinn úr henni; kirkjuna væri þannig að finna í pörtum víðs vegar í hlöðum, útihúsum og skemmum. Það má gefa sér, að öll þessi hús, hafi Jón teiknað innan veggja Aðalstrætis 52, að undanskildu apótekinu; hann var ekki fluttur hingað þegar hann teiknaði það. Nokkrar teikningar Jón Chr. hafa varðveist og eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins. Jón var mikill áhugamaður um trjárækt og hóf trjáræktun hér við hús sitt árið 1890. Garður hans var sagður fyrsti trjágarður Akureyrar og enn standa tré frá Jóni á lóðinni, orðin meira en 120 ára gömul!
Jón Christian Stephánsson, sem fæddur var í Hrísey árið 1829 átti hér heima til dánardægurs árið 1910. Eignaðist ekkja hans, Jóna Kristjana Magnúsdóttir húsið og er hún skráð eigandi þess í manntali 1911. Þá eru búsett hér Svava, dóttir Kristjönu og Jóns og maður hennar, Baldvin Jónsson. Ári síðar er Baldvin skráður eigandi ásamt tengdamóður sinni og árið 1913 er Baldvin einn eigandi hússins. Það var í tíð Baldvins Jónssonar, í nóvember 1916, að matsmenn Brunabótafélags Íslands tóku húsið út og lýstu svo: Íbúðarhús einlyft með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi undir framhlið eru 3 herbergi. Á bakhlið 2 herbergi, eldhús og búr. Á lofti 2 herbergi, eldhús og geimslu[svo]herbergi. Áfast við enda hússins er skúr (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 24). Í húsinu voru fjórir kolaofnar og ein eldavél. Veggir voru timburklæddir og pappi á þaki, grunnflötur 12,5x6,3m og húsið 5,2m á hæð og á því 16 gluggar. Skúr við norðurhlið var tveggja metra hár, 5x3m á grunnfleti. Einhvern tíma á 3. áratug 20. aldar voru gerðar teikningar af innra skipulagi hússins á vegum Rafveitu Akureyrar og eru þær líklega elstu varðveittu teikningar af Aðalstræti 52.
Fyrrnefnd Baldvin og Svava bjuggu hér til ársins 1930. Árið 1928 eru Baldvin, Svava, Guðrún Vigfúsdóttir móðir Baldvins, og fjögur börn þeirra skráð til heimilis í Aðalstræti 52. Í dálkinum þar sem tilgreindir eru húseigendur, stendur skráð: Jóhannes Ólafsson með 7 manns. Jóhannes er hvergi nefndur í manntali 1929 en árið 1930 er hann orðinn eigandi hússins. Það er skemmst frá því að segja, að ekki hafa eigendaskipti verið tíð þessa tæpu öld sem liðin er frá því að Jóhannes fluttist hingað, því frá 1939 voru eigendur hússins Rósa, dóttir Jóhannesar, og hennar eiginmaður Halldór Jakobsson.
Núverandi eigendur hússins þau, Hallgrímur Indriðason og Kristín Aðalsteinsdóttir keyptu húsið af Rósu og Halldóri árið 1987 og endurbyggðu með miklum myndarskap. Greinarhöfundur hitti þau að máli og innti m.a. upplýsinga um upplifun og sögur af húsinu. Téður greinarhöfundar þekkir vel til þeirra en hann vann ásamt Kristínu að bókinni Oddeyri saga hús og fólk á árunum 2022-23. Þau Hallgrímur og Kristín fluttu hingað inn sumarið 1987 og vorið eftir hófust þau handa við viðbyggingu á bakvið, sem og endurbætur innandyra í eldri hluta hússins. Þverpóstagluggum var skipt út fyrir sexrúðuglugga og í stað steinblikks kom listasúð á útveggi. Teikningar að viðbyggingunni og endurbótunum gerði Hjörleifur Stefánsson og mæltist húsfriðunarnefnd til þess, að hann myndi vinna teikningarnar. Hjörleifur hafði þá nýlega lokið við og gefið út mjög veglega húsakönnun um Innbæinn (þar að ræða bókina Akureyri Fjaran og Innbærinn útg. 1986, sem höfundur vitnar oft og iðulega í). Sú byggingaraðferð sem hér er viðhöfð er oftar en ekki tekin sem nokkurs konar skólabókardæmi um hvernig byggt skuli við friðuð hús. Gamla húsið fær notið sín að fullu og skilin milli eldra húss og viðbyggingar eru mjög skörp og greinileg. Kristín og Hallgrímur eru á einu máli um að mjög góður andi ríki í húsinu og þykir líka ánægjulegt, hversu mörg hús hafa verið gerð upp í Innbænum í kjölfar framtaks þeirra.
Hér í upphafi voru reifaðar ýmsar kenningar um uppruna hússins. Á Hofi í Hörgárdal má finna Hofsstofu. Þar er um að ræða hús frá árinu 1828, sem Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni reisti. Hallgrímur nefnir, að þegar hann eitt sinn kom inn í Hofsstofu, tók hann eftir, að herbergjaskipan og innra skipulag hennar hafi verið allt að því nákvæmlega eins og upprunaleg herbergjaskipan Aðalstrætis 52. Þá tók hann eftir því, þegar hann var að rífa innan úr eldri hluta Aðalstrætis 52 og grindin kom í ljós, að á bjálkunum voru rómverskir stafir. Það bendir til þess, að húsið hafi mögulega komið tilhöggvið frá Noregi og verið sett saman. Kannski var suðurhluti hússins þannig nokkurs konar systurhús Hofsstofu, reist af Þorsteini Daníelssyni og forsmíðað í Noregi? Ef suðurhluti Aðalstrætis 52 er reistur samhliða Hofsstofu er byggingarárið 1828; sjö árum eldra en Gamli Spítalinn, sem annars er talinn næst elsta hús bæjarins!
Aðalstræti 52 er sérlega snoturt og snyrtilegt hús og til mikillar prýði í glæstri götumynd; sannarlega ein af perlum Innbæjarins. Þá er umhverfi þess einkar geðþekkt og prýtt gróskumiklum trjám og ýmsum gróðri m.a. meira en aldargömlum trjám frá tíð Jón Chr. Stephánssonar. Baklóð hússins nær langt upp í brekkurnar og þar er einnig mikil garðrækt: Þar rækta þau Hallgrímur og Kristín m.a. kartöflur, hinar ýmsu matjurtir og trjátegundir. Hefur þeim auðnast að halda húsi og lóð einstaklega vel við, þessa tæpu fjóra áratugi frá endurbyggingu hússins. Aðalstræti 52 er friðlýst í B-flokki árið 1978 eftir þjóðminjalögum frá 1978. Meðfylgjandi myndir eru teknar 29. maí 2010, 31. ágúst 2014, 18. júní 2015 og 11. febrúar 2025. Myndin af Hofsstofu er tekin 17. maí 2020.
Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Gísli Jónsson. 1981. Hún hafði gott hjarta. Þáttur af fyrstu konu, sem kaus á Íslandi. Í Íslendingi 18. desember 55. tbl. 66. árg.
Hallgrímur Indriðason og Kristín Aðalsteinsdóttir (munnlega heimildir). Samtal yfir kaffibolla í Aðalstræti 52, 11. febrúar 2025.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Breytt 26.2.2025 kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einhver virtasti borgari Akureyrar á þriðja fjórðungi 19. aldar var vafalítið Bernhard Steincke, sem fór fyrir Gudmannsverslun. Honum var umhugað um mörg framfaramál samfélagsins og ekki aðeins umhugað, heldur kom hann miklu í verk og var sérleg driffjöður í hinum ýmsu menningar- og framfararmálum samfélagsins. Á meðal þeirra þjóðþrifa sem hann kom til leiðar var fyrsta sjúkrahús bæjarins. Var það fyrir tilstuðlan Steincke, sem eigandi téðrar Gudmannsverslunar, Friðrik Gudmann, kom upp spítala fyrir bæjarbúa. Það var árið 1873 og var sjúkrahúsið vígt formlega 1874. Sjúkrahúsið stóð við efri götu Akureyrar ( en þá skiptist byggðin einfaldlega í efra og neðra pláss ) og hlaut löngu síðar númerið 14 við götuna Aðalstræti. Hver sem á leið fram hjá Gamla Spítalanum eða Gudmanns minde sér þar nafn hússins á skilti ásamt byggingarári. Þar stendur hins vegar hvorki 1873 né 1874 heldur blasir ártalið 1835 við hverjum manni sem á leið þar um. (Þess má geta, að þetta ártal er líka fæðingarár þjóðskáldsins Matthíasar Joc
humssonar). Það vill nefnilega svo til, að húsið, fyrrum læknisbústaður bæjarins, var orðið 37 ára gamalt þegar þeir Gudmann og Steincke komu að því árið 1872.
Aðalstræti 14, eða Gamli Spítalinn, er nokkuð örugglega annað elsta hús Akureyrar. Það er byggt 1835 og er því 190 ára á þessu ári. Sá fyrirvari er á, að mögulega hafi einhver hús sem skráð eru yngri verið flutt annars staðar frá og verið þannig eldri en skráð byggingarár; jafnvel eldri en Gamli Spítalinn. Húsið er í raun tvö sambyggð hús, byggð með tæplega fjögurra áratuga millibili en byggt var við upprunalegt hús til norðurs. Suðurhlutinn, upprunalegt hús, er tvílyft timburhús, grindarhús eða bindingshús, með háu og bröttu risi og stendur á grjóthlöðnum undirstöðum. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum hússins, en á risi eru þrír smáir gluggar með fjórskiptum rúðum; einn undir rjáfri og tveir undir súðunum. Slagþil er á veggjum og bárujárn á þaki. Yfir útidyrum er þríhyrndur svokallaður bjór (nokkurs konar rammi eða mjótt skýli yfir dyrum). Grunnflötur suðurhluta er 11,43x6,95m. Suðurhlutinn er einnig úr timbri með háu og bröttu risi. Á framhlið norðurhluta, er langur kvistur með aflíðandi þaki, sem nær nánast meðfram allri þekjunni. Sexrúðupóstar eru í gluggum hússins, veggir klæddir listaþili og bárujárn á þaki. Á norðurstafni hússins er einlyft viðbygging með einhalla þaki og vestanmegin, þ.e. á bakhlið, eru svalir á annarri hæð. Grunnflötur norðurhluta hússins er 11,4x6,85m og viðbygging að norðan 4,25x1,57m.
Suðurhluta hússins, sem löngu síðar varð sjúkrahúsið Gudmanns minde og enn síðar Aðalstræti 14, reisti maður að nafni Baldvin Hinriksson Skagfjörð, árið 1835. Hann mun þó ekki hafa lokið við bygginguna heldur selt húsið óklárað, Eggerti Johnsen og sá mun hafa flust þangað árið 1836 þegar hann tók við stöðu héraðslæknis. Baldvin Hinriksson Skagfjörð var, eins og ættarnafnið kann að gefa til kynna, úr Skagafirði, en hann hafði stundað búskap og smíðar á Hafgrímstöðum í Tungusveit. Líklega var Baldvin þó fæddur á Gunnólfsá í Ólafsfirði, en Baldvin, sem fæddur var 25. febrúar 1799 er skráður þar til heimilis árið 1801. Árið 1835 er hann skráður í manntali sem kleinsmiður og borgari í Eyjafjarðarkaupstað en þá eru hvorki númer né opinber heiti á húsum bæjarins. Það er athyglisvert, að í manntali árið 1835 fyrirfinnst engin Akureyri, heldur er talað um Eyjafjarðarkaupstað. Um Baldvin Hinriksson segir Espólín lét byggja sér hús og seldi með hálfviðri, veslaðist síðan (sbr. islendingabok.is) og er þar væntanlega átt við húsbygginguna í Eyjafjarðarkaupstað. Baldvin er ekki að finna í manntölum fyrir árin 1840 og 1845 en árið 1850 er hann járnsmiður á Ytra Hóli í Höskuldsstaðasókn í Húnavatnssýslu. Baldvin Hinriksson Skagfjörð lést á jóladag 1853, réttum tveimur mánuðum áður en hann hefði orðið 55 ára. Svo virðist sem Baldvin hafi staðið sjálfur fyrir byggingu hússins, alltént eru ekki heimildir um aðra nafngreinda byggingameistara. Húsið er m.ö.o. hvorki verk t.d. Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni né Ólafs Briem svo vitað sé, en þeir voru helstu timburmeistarar héraðsins á fyrri hluta 19. aldar. Það má þó vera ljóst að járnsmiðurinn úr Skagafirði hefur ætlað að reisa sér veglegt hús, mætti e.t.v. tala um hurðarás um öxl. Húsið var nefnilega tvílyft en það tíðkaðist almennt ekki þegar íbúðarhús áttu í hlut. Auk íbúðarhúss mun apótek hafa verið starfrækt í hú
sinu fyrsta árið. Húsið er eitt af fyrstu tvílyftu íbúðarhúsum á landinu, var jafnvel talið það fyrsta. Það er þó ekki alveg svo, því á Stykkishólmi stendur annað tvílyft hús, Norska húsið, sem reist er 1832, sem íbúðarhús. Það er þannig þremur árum eldra en Gudmanns minde. Eggert Johnsen eða Eggert Jónsson (1798 1855) var frá Melum í Hrútafirði. Hann var héraðslæknir Norðlendinga frá árinu 1832 og til dánardægurs en hann lést 29. júlí 1855, á 57 ára afmælisdegi sínum. Í Þjóðólfi segir svo frá, að hann hafi látist á Húsavík, verið vinfastur og valinkunnur maður og talinn góður læknir. Eftir fráfall Eggerts tók Jón Constant Finsen (1826 1885) við stöðu héraðslæknis. Hvort húsið hafi verið sérlegur læknisbústaður og fylgt stöðunni sem nokkurs konar hlunnindi fylgir ekki sögunni en ljóst að Finsen flutti í og eignaðist hús Eggerts. Hann hafði þó í hyggju að byggja sér nýtt hús.
Þann 29. maí 1857 kom Bygginganefnd Akureyrar saman í fyrsta skipti. Síðasta erindi þessa fyrsta fundar var eftirfarandi: Því næst var framlagt bréf frá læknir [svo] Finsen dags 10. þ.m. [10. maí 1857) hvar í hann tilkynnir, að hann vilji byggja íveruhús og að kaupmaður Havsteen hafi heitið honum nokkrum hluta af verzlunargrunni hans, en jafnframt hafi læknirinn munnlega látið í ljós að honum liggi ekki á útvísun hússtæðisins og var henni því frestað (Bygg.nefnd. Ak. 1857: nr.1). Ekkert virðist hafa orðið af þessari húsbyggingu. En Jón Finsen var ekki einasta einn af þeim fyrstu til að leggja fram erindi til Bygginganefndar Akureyrar heldur sat hann einnig í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar. Sú var kjörin í bæjarstjórnarkosningum þann 31. mars 1863. Þær kosningar voru sögulega merkilegar að því leyti, að þar kaus kona í fyrsta skipti, Vilhelmína Lever, löngu áður en konur fengu kosningarétt. Jón Finsen gegndi stöðu héraðslæknis til ársins 1867 er hann fluttist til Randers í Danmörku. Hann lést í Danmörku árið 1885. Mun Jósep Skaptason hafa tekið við embætti héraðslæknis, en hann var búsettur að Hnausum í Húnavatnssýslu. Þá má nefna að Jón Finsen framkvæmdi, að öllum líkindum í þessu húsi, svæfingu á sjúklingi í aðgerð hérlendis, árið 1866. Var um að ræða unga stúlku og var hún svæfð með klóróformi (sbr. Girish Hirlekar 2006:145). Nafn þessa merka sjúklings í íslenskri lækningasögu liggur ekki fyrir svo höfundur viti til, né heldur við hvers kyns meini aðgerðin var.
Í eigendatali, sem birtist í Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar (1986:74), er eyða á árabilinu 1867 til 1873 og Friðrik Gudmann skráður eigandi árið 1873. Einhvern tíma á þessu árabili keypti Friðrik Gudmann húsið, þó líklega ekki fyrr en árið 1872. Í Sögu Akureyrar II. bindi segir svo: Allt þetta [gjafir Gudmanns til kirkjubyggingar áratug fyrr, 200 ríkisdali, til byggingar auk altaristöflu að verðmæti á þriðja hundrað rdl.] bliknaði þó hjá þeim tíðindum er spurðust út um mitt ár 1872; Gudmann hafði keypt læknishúsið svokallaða og gefið fyrir það 1750 ríkisdali. Ofan á þessa upphæð ætlaði hann að bæta 3250 ríkisdölum til að búa mætti húsið sem best fyrir hlutverk sitt; að verða annað hvort spítali eða hæli fyrir fátæka borgara kaupstaðarins (Jón Hjaltason 1994:212). Var það bæjarstjórnar að ákveða, hvorn kostinn skyldi velja. Verslunarstjóri Gudmanns, fyrrnefndur Steincke, mun hafa verið helsti hvatamaður í þessum gjörningi og þeim framkvæmdum sem þessari gjöf fylgdu. Bæjarstjórnin valdi þann kost að þiggja gjöf Gudmanns og að læknishúsið yrði gert að sjúkrahúsi. Það er ekki ósennilegt að viðbyggingin norðan við hafi verið reist sumarið 1873. Ekki er minnst á hana í fundargerðum bygginganefndar, raunar fundaði sú nefnd ekkert á bilinu 21. október 1872 til 24. júní 1874. En þess má geta, að meðal bygginganefndarmanna á þessu árabili var Bernard Steincke sjálfur. Við skulum grípa niður í frásögn dagblaðsins Þjóðólfs þann 27. október 1873: Í blaði þessu hjer að framan, er sagt frá því, að stórkaupmaður Fr. Gudmann í Kaupmannahöfn hafi keypt íbúðarhús læknis J. Finsens, er kostaði 1750 rd. Og gefið það til þess, að í því yrði stofnaður spítali hunda veikum mönnum; um leið hjet hann og a& bæta við gjöf þessa, svo að hún öll yrði 5000 rd. I þessu tilliti hefur hann sent hingað nú í sumar ýmis áhöld til spítalans, svo sem ofna, rúmstæði, rúmfatnað, íverufatnað, matar-áhöld, þvotta- og baðílát, vjelar og verkfæri og margt annað, sem hjer er ekki rúm til að lýsa, enda er sagt a& spítalastjórnin muni ætla sjer að gjöra það seinna ; öll hin nefndu áhöld, er sagt að hafi kostað 1350 rd. Þar að auki hefur hinn veglyndi mannvinur, látið endurbæta sjálft húsið og breyta ýmsri herbergja skipun í því, og ennfremur látið byggja nýtt timburhús norðan við fyrir svörð, hey, fjós o.fl. Eldra húsið er tvíloptað, en hitt loptlaust nema yfir fjósinu; bæði húsin eru til samans 36 al. á lengd og 10-11 al. á breidd.[
] Þess er og skylt a& geta, a& hinn umsýslumikli nytsemdarmaður verzlunarstjóri B. A Steincke mun hafa átt góðann og mikinn þátt í því, að ofannefnd gjöf er komin svo fljótt og langt áleiðis, a& sjúklingar, er vilja komast á spítalann, geta með byrjun næsta mánaðar fengið þar inngöngu. Fyrrum hreppst varaþingmaður Páll Magnússon, sem var á
Kjarna, hefur tekið að sjer spítalahaldið til 14. maí 1874 (án höf 1873: 126). Það er e.t.v. merkileg og skemmtileg tilviljun, að íbúðarhús Gudmannsverslunar og sjúkrahúsið sem hann lét innrétta skuli einmitt vera tvö elstu hús bæjarins á 21. öld. Sjúkrahúsið var innréttað þannig, að á efri hæð suðurhússins voru sjúkrastofur en íbúð læknis á þeirri neðri. Í norðurhúsi var m.a. líkhús og sem fyrr segir fjós og ýmis konar geymslurými. Á meðal nýjunga í hinum glæsta nýja spítala var baðhús, þar sem bæjarbúum gafst kostur á heitu sjóbaði fyrir tvær krónur og heitu baði fyrir eina krónu eða eina krónu og fimmtíu aura, eftir því hvaða dag farið var í bað. Steypibað kostaði fimmtíu aura. Gjaldskrá þessi var ákveðin í maí 1875. Árið 1880 kostaði steypibaðið 75 aura og aðeins í boði að baða sig á miðvikudögum og þurfti að panta með dags fyrirvara.
Enda þótt sjúkrahúsið hafi þótt hið veglegasta og sérlega vel búið var aldeilis annað uppi á teningnum rúmum tveimur áratugum síðar, þegar nýr héraðslæknir tók við þeirri stöðu af Þorgrími Johnsen. Um var að ræða Guðmund Hannesson og réðst hann til starfa árið 1896. Hinum unga lækni (Guðmundur var fæddur 1866 og var því þrítugur ) blöskraði mjög aðstæður og aðbúnaður í húsinu, sem orðið var 60 ára gamalt og byggt sem íbúðarhús. Sagði hann húsið stórum verra en flest privat hús og nefndi þar gluggaleysi, loftleysi, súg og ýmislegt annað, auk þess sem lækningatól voru flest úr sér gengin eða úrelt. Þá var því þannig háttað, að sjúkrarýmin voru á efri hæð hússins og mikið verk að koma sjúklingum upp þröngan og snúinn stiga. Það var því strax í janúar 1897 að Guðmundur lagði fram teikningar að nýju sjúkrahúsi. Guðmundur hafði lært lækningar og aðferðir sem voru gjörólíkar því sem tíðkast hafði, m.a. hjá forverum hans. Eitt dæmi um þetta var, að samkvæmt fyrri kenningum var ferskt loft talið óhollt veiku fólki og þá sérstaklega dragsúgur. Var því venjan, að allir gluggar væru lokaðir á sjúkrahúsinu með þeirri undantekningu, að ef einhver hafði dáið varð að af illri nauðsyn að opna rifu á gluggum þeirrar sjúkrastofu. Stóð börnum mikill stuggur af sjúkrahúsinu ef gluggi var einhvers staðar opinn; þá hafði einhver dáið. Eftir að Guðmundur Hannesson réðist til starfa voru gluggar hins vegar opnaðir hvort heldur einhver hafði dáið og því [
] vissu börnin aldrei fyrir víst hvenær líkhúsið geymdi dautt fólki (Jón Hjaltason 2001: 129).
Árið 1899 lauk þar með aldarfjórðungs sögu Gudmannsspítala er sjúkrahúsið fluttist í vandaða nýbyggingu á svokölluðum Undirvelli norður af Búðargili. Akureyrarbær seldi húsið og kaupandi var Sigtryggur Jónsson timburmeistari frá Espihóli. Sigtryggur og fjölskylda hans hafa líkast til búið hér í rúmt ár en líkt og Jón Finsen rúmum fjórum áratugum fyrr hafði hann húsbyggingu í huga þegar hann flutti hingað. En ólíkt því sem varð hjá Finsen lækni varð af húsbyggingu Sigtryggs, því aldamótaárið 1900 reisti hann veglegt stórhýsi næst sunnan við hús sitt. Það hús stendur enn og er Aðalstræti 16. Árið 1902 eru alls 14 búsettir í húsinu, sem skráð er sem Aðalstræti 53 í manntali. Á næstu árum búa að jafnaði um 15-20 manns í húsinu í 5-6 íbúðarrýmum. Á meðal nafna sem sjást í manntölum þessi ár má nefna þau Valdemar og Soffía Thorarensen, Kristján Helgason og Helga Bjarnadóttir og Ólafur Tr. Ólafsson og Jakobína Magnea Magnúsdóttir. Þessi hjón eru öll búsett hér í manntali árið 1906 en þá er húsið komið með sitt endanlega númer, þ.e. Aðalstræti 14. Þess má geta, að síðasttöldu hjónin stóðu það ár í húsbyggingu við Spítalaveg. Sigtryggur átti húsið í rúma þrjá áratugi og í hans tíð var aðeins búið í suðurhúsinu, í norðurhlutanum hafði hann verkstæði og geymslur.
Seint í nóvember 1916 var Aðalstræti 14 metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Nyrðri hluti var einlyft íbúðarhús úr timbri, vegg og þak timburklætt, á lágum steingrunni. Á neðri hæð austanmegin (við framhlið) var mótorverkstæði, söðlasmíðaverkstæði og geymslupláss vestanmegin (við bakhlið). Gangur var einnig tilgreindur, ekki ólíklegt, að hann hafi verið fyrir miðju. Á efri hæð var eldhús og heygeymsla (m.ö.o. hefur hæðin að hluta til verið hlaða). Einn skorsteinn, sem tengdist fjórum kolaofnum, var á norðurhelmingi hússins, sem mældist 11,3x6,9m að grunnfleti og 6,3m á hæð og aðeins sex gluggar.Suðurhlutanum, þ.e. eldri hluta hússins var lýst svo: Áfast við ofantalið er tvílyft íbúðarhús með háu risi á lágum steingrunni. Á neðri hæð (gólfi) voru tvær stofur og forstofa með stiga upp á loft, austanmegin og vestanmegin var ein stofa og eldhús. Á efri hæð, sem kallaðist loft, voru tvö herbergi og forstofa austanmegin en vestanmegin eitt herbergi og eldhús. Efra loft, þ.e.a.s. rishæð var sagt ósundurþiljað og notað til geymslu. Fjórir kolaofnar og tvær eldavélar voru í húsinu. Grunnflötur norðurhússins var sagður 11,3x6,9m (eins og suðurhúsið) en hæðin 8,2 metrar. 21 gluggar voru á húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 48) Sigtryggur Jónsson var eigandi hússins árið 1916, og átti hann það til ársins 1934 er eignir hans voru seldar á nauðungaruppboði (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:75).
Eftir að Sigtryggur Jónsson missti eignir sínar árið 1934 leysti Landsbankinn húsið til sín og seldi það Oddi Pálma Sigmundssyni skipstjóra. Hann bjó sjálfur í suðurhúsinu en leigði íbúðir í norðurhlutanum. Einhvern tíma á bilinu frá október 1936 til hausts 1937 fluttu í húsið þau Leó Guðmundsson, bifreiðastjóri, fæddur í Holtsseli í Eyjafirði og Þóra Guðrún Friðriksdóttir, fædd á Þinghóli í Glæsibæjarhreppi. Þau munu hafa innréttað norðurhluta hússins sem íbúðarhús og eignuðust hann árið 1946 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:75). Bjuggu þau þar svo áratugum skipti. Á meðal barna þeirra var Reynir Örn, sem m.a. var þekktur fyrir ýmsar óhefðbundnar aflraunir og kallaður Reynir sterki. Í tíð þeirra Leós og Þóru, nánar tiltekið þann 6. apríl 1961 kviknaði í norðurhluta hússins og skemmdir urðu töluverðar. Var húsið endurbyggt með örlítið breyttu sniði í kjölfarið, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Þá vildi svo til, að tvisvar höfðu húsin á næstu lóð norðan við brunnið til grunna, annars vegar í desember 1901, þegar fjöldi húsa brann á einni nóttu. Hins vegar í nóvember 1955, þegar gamla Hótel Akureyri, stórhýsi á pari við Samkomuhúsið og Menntaskólann, brann til ösku. Það hús hafði verið byggt árið 1902, á grunni veitinga- og gistihúss sem brann 1901.
Suðurhlutinn var einnig innan sömu fjölskyldu drjúgan hluta 20. aldar en þar bjuggu þau Oddur Pálmi Sigmundsson og Jónína Guðrún Jónsdóttir ásamt bróðursyni Odds, Eiði Baldvinssyni. Oddur lést fyrir aldur fram í febrúar 1961 en Jónína og Eiður bjuggu áfram í húsinu í tugi ára eftir það. Eiður mun hafa búið hér fram yfir 1990 en Jónína fluttist á dvalarheimili árið 1988. Húsið var alla þeirra tíð í fyrirtaks umhirðu og hefur Hjörleifur Stefánsson orð á því í Húsakönnun (1986:75) að eigendur hafi sinnt viðhaldi þess af mikilli natni. Það þótti sérlega eftirtektarvert, hvað þeim hafði auðnast að halda vel í og varðveita innra skipulag og herbergjaskipan hússins sem væntanlega hefur verið óbreytt frá því að Gudmann og Steincke innréttuðu húsið sem spítala. Það var árið 1994 sem Húsafriðunarsjóður Akureyrar og Minjasafnið í samvinnu við Fjórðungssjúkrahúsið, Læknafélag Akureyrar og norðausturdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga keyptu suðurhluta hússins . Ætlunin var að koma þar upp í lækningaminjasafni í fyllingu tímans, eftir endurbætur. Enda þótt ástand hússins hafi verið eins og best var á kosið tóku endurbæturnar um tvo áratugi, reyndar með hléum. Mikið kapp var lagt á að nýta og varðveita sem mest af hinu upprunalega og endurbætur því flóknar. Greinarhöfundur man eftir að hafa farið þarna inn í Sögugöngu um Innbæinn, líklega sumarið 2000, þar sem leiðsögumaðurinn, Hörður Geirsson, sýndi þátttakendum eldstæði mikið á neðri hæðinni. Mun það hafa fundist við framkvæmdir innandyra, þ.e. það hafði líkast til verið fellt inn í vegg við endurbætur Gudmanns og Steincke. Endurbótum á suðurhluta lauk um 2015 en ekki varð úr áformum um að opna þar lækningaminjasafn. Nú hefur Aflið, samtök fyrir þolendur ofbeldis aðsetur í húsinu. Af norðurhlutanum er það að segja, að hann er íbúðarhús og í honum tvær íbúðir. Á árunum 2020-22 fóru fram miklar viðgerðir á því húsi, m.a. klæðning utanhúss endurnýjuð og settir nýir sexrúðupóstar í glugga. Þannig hefur allt húsið nú hlotið gagngerar endurbætur og er frágangur alls hússins allur hinn snyrtilegasti og glæsilegasti. Teikningarnar að endurbættum norðurhluta gerði Gunnlaugur Björn Jónsson.
Gudmanns minde, þ.e. suðurhluti Aðalstrætis 14 var friðlýstur í B-flokki árið 1977 eftir þjóðminjalögum frá 1969. Um norðurhlutann gilda reglur um aldursfriðun frá árinu 2012, en sú bygging er frá árunum 1872-73. Hér er um að ræða eitt af merkari húsum bæjarins, hvort tveggja í menningarsögu og byggingarsögulegu tilliti að ekki sé minnst á, að húsið er sannkölluð bæjarprýði eins og raunar mörg önnur elstu húsa Innbæjarins. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 15. desember 2024. Mynd, sem sýnir framkvæmdir við norðurhluta er tekin 17. júní 2021 og myndin sem sýnir Gudmanns minde hvítmálaðan er tekin 5. júní 2006. Myndin af Norska húsinu á Stykkishólmi er tekin 13. júlí 2012.
Heimildir: Án höfundar. 1873. [Án titils] Þjóðólfur 27. október 46. 47. tbl. bls. 126
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 1, 29. maí 1857 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Girish Hirlekar. 2006. Gudmanns Minde. Læknablaðið 92. árg. 2. tbl. bls. 145.
Hjörleifur Stefánsson. 1986.â¯Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinniâ¯
http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.
Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.
Ýmsar upplýsingar af islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2025 | 22:54
Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)
(Hér birtist fyrsta Hús dagsins á árinu 2025. Elsta hús bæjarins á stórafmæli og einnig það næstelsta. Á næstu vikum og mánuðunum verður umfjöllunarefnið þannig elstu hús bæjarins, í aldursröð frá hinu elsta).
Í ársbyrjun 2025 stendur aðeins eitt hús á Akureyri, svo vitað sé, sem náð hefur 200 ára aldri: Laxdalshús, sem stendur við Hafnarstræti 11. Það er ekki aðeins elsta hús bæjarins, heldur það langelsta og hefur hvorki meira né minna en fjóra tugi ára fram yfir annað elsta hús bæjarins, sem byggt er 1835. Mögulega deilir það hús, Gamli Spítalinn, þó heiðrinum með öðru húsi, en í sumum heimildum er talið að austasti hluti Gránufélagshúsanna sé Skjaldarvíkurstofa, sem einnig er byggð 1835. Og fyrst minnst er á Gránufélagshúsin má nefna, að jafnvel er talið að vestasti hluti þeirra húsa, sé jafnvel enn eldri og raunar aðeins litlu yngri en Laxdalshús: Vestasti hluti Gránufélagshúsanna er reistur árið 1873 upp úr verslunarhúsum á Vestdalseyri, sem byggð voru þar árið 1850. Hins vegar er vitað, að einhver þeirra húsa sem stóðu á Vestdalseyri voru komin úr Framkaupstað á Eskifirði, byggð þar á fyrstu áratugum 19. aldar. Þar var fyrst byggt um 1804 og fram yfir 1830 og gæti það hús því hugsanlega verið frá því árabili. Ef Vestdalseyrarhúsið svokallaða er upprunalega úr Framkaupstað, gæti Gamli Spítalinn þannig aðeins verið í þriðja sæti yfir elstu bæjarins og vestasti hluti Gránufélagshúsanna í öðru sæti, og jafnvel orðinn 200 ára! Á fullyrðingunni hér í upphafi er þannig viss fyrirvari, því byggingarár elstu húsa bæjarins er nokkuð á reiki og mögulega hafa einhver þeirra húsa verið flutt annars staðar frá, hafa e.t.v. staðið í áratugi annars staðar áður, en þau voru reist hér. En það er hins vegar nokkuð óyggjandi, að Laxdalshús er allra húsa elst á Akureyri og árið 2025 á það 230 ára stórafmæli.
Forsaga tilurð verslunarstaðar Kyhnsverslun
Hin eiginlega Akureyri stendur undir Búðargili og hefur orðið til úr framburði Búðarlækjar. Öldum saman fór fáum sögum af eyri þessari, sem aðeins var örnefni í landi Nausta og Stóra-Eyrarlands en helsti verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. Sú höfn mun þó hafa spillst mjög af framburði Hörgár. Mun það hafa verið á 15. eða 16. öld sem farið var að notast við höfnina á Akureyri, en þar var hvort tveggja skjólgott og aðdjúpt. Seglskip áttu hins vegar erfitt með að sigla inn að fjarðarbotni vegna vinda, sem fjalllendi beggja vegna fjarðar skóp (sbr. Jón Hjaltason 1990:13). Það var hins vegar ákvörðun Danakonungs, þegar Einokunarversluninni var komið á, að Akureyri skyldi verða aðalhöfnin við Eyjafjörð. Það leið þó á mjög löngu þar til búseta hófst, kaupstefnur fóru fram á vorin og búðir aðeins opnar á sumrin. Ekki mun hafa verið um búsetu að ræða fyrr en um 1760 og 1777 var það lögbundið, að kaupmenn hefðu hér fasta búsetu (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:9). Og það var einmitt þá, sem fyrsta íbúðarhúsið reis á Akureyri en það byggði Friedrich Lynge, sérlegur Akureyrarkaupmaður hjá Konungsversluninni dönsku.
Þegar einokunarverslunin var afnumin árið 1787 voru eignir Konungsverslunarinnar seldar og kaupendur voru téður Lynge og annar kaupmaður að nafni Lauritzen. Lynge, sem var í senn síðasti einokunarkaupmaðurinn og fyrsti frjálsi kaupmaðurinn á Akureyri, keypti svo eignir Lauritzens árið 1794. En var Lynge einn um hituna í hinum nýfrjálsa kaupstað? Svo var nú ekki, því fleiri kaupmenn höfðu bæst í hópinn eftir einokunarafnám og meðal þeirra var Johan Peter Hemmert, sem fékk útmælda lóð undir verslunarhúsið árið 1792 norðan við þau kaupstaðarhús, sem fyrir voru. Fór hann fyrir verslunarfyrirtæki kaupsýslumannsins Georgs Andreas Kyhn, sem stóð í verslunarrekstri á Akureyri og Siglufirði. Mun Hemmert hafa stýrt verslun á síðarnefnda staðnum veturinn 1792-93. Var þetta í trássi við lög, sem kváðu á, um að enginn kaupmaður eða faktor mætti [
]reka verslun á þurru landi í tveimur eða fleiri verslunarumdæmum (Jón Hjaltason 1990:42-43). En á einhvern hátt komst Kyhn upp með þetta fyrirkomulag þrátt fyrir vítur frá yfirvöldum. Látum það liggja milli hluta hér. Á vegum Hemmerts og Kyhnsverslunar risu krambúð og pakkhús sumarið 1793. Tveimur árum síðar fluttist Hemmert alfarinn til Siglufjarðar þar sem hann sinnti starfi faktors (verslunarstjóra). Sama sumar stóðu menn Georgs Andreas Kyhn í byggingarframkvæmdum á Akureyri; reisti þar íbúðarhús verslunarstjóra og sláturhús.
Nýráðinn verslunarstjóri, Ólafur Gíslason Waage, fluttist í nýreist íbúðarhús verslunarinnar haustið 1795. Hann var ekki sérlega ánægður með aðbúnaðinn. Íbúðarhúsið, sem reist hafði verið um sumarið, sagði hann [að] héldi hvorki vatni né vindi, ekki hefði verið lokið við skorsteininn og bindingurinn ber blasti við öllum er kæmu þar inn fyrir dyr (Jón Hjaltason 1990:45). Nú vill hins vegar svo til að umrætt hús, sem svo var lýst, stendur enn 230 árum síðar og það með glæsibrag, eitt verslunarhúsa Kyhnsversluna. Er þar komið hús það, sem u.þ.b. öld síðar og æ síðan kallast Laxdalshús.
Laxdalshús stutt lýsing Um grindarhús
Laxdalshús er einlyft timburhús með háu risi og stendur það á steyptum grunni. Það er allt klætt slagþili, veggir jafnt sem þak, og sexrúðupóstar í gluggum. Á suðurstafni eru tveir smærri gluggar á neðri hæð sem eru þrískiptir lóðrétt; hálfir sexrúðu-. Á miðri framhlið er smár kvistur fyrir miðri þekju en tveir slíkir á bakhlið. Grunnflötur hússins er 13,36x6,37m. Laxdalshús er grindarhús eða bindingsverkshús af svokallaðri dansk-íslenskri gerð, eldri. Sýnilegustu einkenni þeirra eru í grófum dráttum hátt og bratt ris og tiltölulega langur grunnflötur miðað við breidd og um er að ræða elstu gerð timburhúsa hérlendis, sem risu á upphafsárum kaupstaða. Oftar en ekki voru þessi hús dönsk að uppruna og jafnvel tilsniðin og tilhöggvin í Danmörku og sett saman hér af dönskum smiðum (sbr. Hörður Ágústsson 2000: 105). Helstu hlutar dæmigerðs grindarhúss eru aurstokkar eða fótstykki, gólfbitar, stoðir, skástoðir, skammtré, lausholt, syllur, sperrur og skammbitar. Stundum bættust svokallaðir skálkar við þessa upptalningu en þeir lögðust á sperruenda til að framlengja sperrur fram yfir gólfbita.
Í stuttu máli fólst byggingaraðferð grindarhúsa í því, að aurstokkar(fótstykkin) voru lagðir á undirstöður, læstir saman í hornum og bundnir saman af gólfbitum, sem lágu þvert yfir undirstöðurnar. Voru þessi undirstöðutré lögð í sand eða möl og húsin þannig, eðli málsins samkvæmt, kjallaralaus. Ofan á aurstokkana voru reistar stoðir og á milli þeirra skammtré. Efst í útveggjunum hvíldu syllur eða lausholt. Svo virðist sem þessi tvö hugtök eigi við um þennan sama hluta burðarvirkisins. Á skýringarmynd, sem birtist í bókinni Íslenskri byggingararfleifð, kallast biti þessi lausholt. Um lausholt segir Hjörleifur Stefánsson hins vegar: Milli stoðanna sem voru lárétt tré sem nefndust lausholt eða víxlar, stutt tré sem töppuð voru í stoðir beggja enda. Yfir og undir þeim opum í grindinni sem gluggar og dyr skyldu vera, voru lausholt (Hjörleifur Stefánsson 1986:29). Þessa skilgreiningu mætti skilja á þann veg, að lausholt séu nokkurn veginn sambærileg við skammtré milli stoða, nokkurs konar aukaskammtré fyrir glugga- og hurðabil. Í skýrslu Þjóðminjasafnsins um bæinn í Laufási kemur fram, að hugtakið sylla sé frekar notað í eldri úttektum á bæjarhúsum en síðar kallist sambærileg tré, lausholt. Munurinn er útskýrður þannig, að syllur standi upp á rönd, felldar í klofa yfir stoðunum (stoðirnar grópaðar inní trén) en lausholt hvíli flatt ofan á stoðunum (sbr. Guðrún Harðardóttir 2006:9). Síðara tilfellið eigi frekar við um bindingsverk. Í annarri skýrslu, Gamlir Byggingarhættir er svo einnig að finna skýringarmynd, þar sem lóðrétt tré milli stoða (sambærilegt við skammtré) er kallað lausholt (sbr. Sigríður Sigurðardóttir 2011:9). Hér skal ósagt látið hvort lausholt eða syllur séu í Laxdalshúsi eða hvað einstakir byggingarhlutar þess heita. En ofan á lausholtin eða syllurnar lögðust gólfbitar efri hæðar og á þeim hvíldu sperrur eða sperrukjálkar. Gólfbitar náðu jafnan út fyrir sperrur en stundum var fleygum, svokölluðum skálkum, skotið neðst, framan á sperrurnar og þeir látnir nema við enda gólfbita. Myndaðist þannig örlítið brot neðst í þakið. Skv. Herði Ágústssyni (2000:115) voru skálkar einna helst á innfluttum dönskum húsum. Það rennir stoðum undir, að Laxdalshús hafi verið tilhöggvið í Danmörku, því auk þess að vera reist fyrir danska aðila, er þak þess með greinilegu skálkalagi.
Akureyri 3 Lever feðgin Örlög Kyhns
Laxdalshús var lengst af í eigu kaupsýslumanna og verslana og íbúðarhús verslunarstjóra. Það er ekki ósennilegt, að fyrsti íbúi hússins hafi verið Ólafur Gíslason Waage verslunarmaður hjá Kyhn. Ekki dvaldist honum lengi í þeirri stöðu, eða í íbúðarhúsinu, því hann lést í mars 1797, aðeins 33, ára úr því sem sagt var þung brjóstveiki (sbr. Jón Hjaltason 1990:52). Við stöðu hans tók Einar Ásmundsson Hjaltested og fluttist í húsið ásamt konu sinni Guðrúnu Runólfsdóttur og nýfæddum syni þeirra, sem hlaut nafnið Ólafur. Í Manntali árið 1801 er Einar sagður bóndi á Akureyri 3 í Akureyrarkaupstað. Þannig hefur opinbert heiti þessa íbúðarhúss verslunarstjóra Kyhnsverslunar, sem síðar varð þekkt sem Laxdalshús við Hafnarstræti 11, verið Akureyri 3. En líkt og forveri hans í starfi sem og í ábúð Akureyrar 3 var Einar Ásmundsson Hjaltested ekki langlífur því hann fórst í skipsskaða síðla hausts 1802, 31 árs að aldri.
Eftir sviplegt fráfall Einars tók maður að nafni Hans Wilhelm Lever við stöðu verslunarstjóra Kyhnsverslunar. Hans, sem var systursonur Kyhns, fluttist eins og lög gerðu ráð fyrir, í íbúðarhúsið. Hans Lever er e.t.v. einna þekktastur fyrir það, að hafa byrjað að rækta kartöflur og kennt Akureyringum þau fræði. Einhvern tíma heyrði greinarhöfundur í sögugöngu um Innbæinn, að það hafi helst staðið kartöfluræktun Akureyringa fyrir þrifum í tíð Levers, að bæjarbúar átu jafnan útsæðið. Kartöflurækt Hans Levers fór norðanmegin í Búðargilinu, þar sem brekkurnar vissu mót suðri. Enn eru kartöflugarðar á svipuðum slóðum, rúmum tveimur öldum síðar. (Skyldi vera hægt að friða kartöflugarða?) Dóttir þeirra Hans Lever og Þuríðar Sigfúsdóttur var Wilhelmína. Hún var meðal valinkunnustu og virtustu borgara bæjarins á 19. öld og er mögulega þekktust fyrir að hafa kosið fyrst kvenna á Íslandi. Var það í bæjarstjórnarkosningum árið 1863, meira en hálfri öld áður en konur fengu kosningarétt. Hér má sjá mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, sem farin var um Innbæinn fyrir um áratug. Er það Fanney Valsdóttir, sem þarna ávarpar þátttakendur, sem Wilhelmína Lever. Eins og fram kemur hér að framan fór Kyhn nokkuð á svig við íslensk verslunarlög á síðasta áratug 18. aldar og mun almennt hafa verið nokkuð slægur sem kaupsýslumaður. Það varð honum á endanum að falli, því árið 1808 var hann dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar vegna fjársvika. Munu þau mál hafa snúið að öðru en verslun hans hér. Hans Lever stýrði hins vegar versluninni eins og ekkert hefði í skorist og vissi mögulega ekkert af fangelsun verslunareigandans; landið var nefnilega einangrað frá umheiminum vegna Napóleonstyrjalda (sbr. Steindór Steindórsson 1993:100). Á þessum árum var Kyhnsverslun og húsakostur hennar í eigu margra erlendra fyrirtækja sem voru kröfuhafar Kyhns. Þeir skiptu sér ekki beint af verslunarrekstrinum en munu hafa falið Christian G. Schram, faktor á Skagaströnd, umsjón með henni. Réði hann Gísla Erlendsson sem verslunarstjóra en hann hafði verið verslunarþjónn hjá Lever. Árið 1814 tók við verslunarstjórastöðu, og ábúð íbúðarhússins, Hans nokkur Baggaöe og sama ár fór fram úttekt á húsakosti Kyhnsverslunar. Í norðurhluta neðri hæðar var faktorsíbúðin (faktor var verslunarmaður eða verslunarstjóri) sem var tvær stofur. Í miðju var eldhús og búr og tvö herbergi í suðurenda, eitt ætlað verslunarþjóni og annað ætlað beyki. Af öðrum húsum og mannvirkjum verslunarinnar má nefna krambúð (b. 1793), sláturhús (b.1795), mörbúð og sauðarétt (byggingarára mörbúðar og réttar ekki getið). Síðast en ekki síst er kamar sérstaklega tilgreindur í úttektinni (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:117).
Gudmannsfeðgar og Steincke
Einhvern tíma á bilinu 1814 - 1817 virðist Pachen og Co. hafa keypt verslunina og hún seld Kjartani Ísfjörð. Hann átti verslunina um mjög skamma hríð en Hjörleifur (1986:118) segir hann hafa selt verslunina samstundis. Kaupandi var Jóhann Gottlieb Guðmundsson Gudmann, snikkarasonur frá Grundarfirði. Gudmann var nokkurs konar eins manns verslunarveldi, hann stundaði verslun víða um land og hafði höfuðstöðvar sínar í Danmörku. Á Akureyri hóf hann að versla árið 1813. Eftir kaup Gudmanns á fyrrum Kyhnsverslun voru aðeins tvær verslanir á Akureyri, Gudmannsverslun og verslun J.L. Busch, sem starfrækt var í gömlu einokunarverslunarhúsunum. Og ekki leið á löngu þar til Gudmann keypti Buschverslun en það var árið 1822. Líkt og verslunareigendur fyrri tíðar átti Gudmann líkast til aldrei heimili í íbúðarhúsinu en það átti hins vegar verslunarstjórinn Andreas Daniel Mohr. Sá fór fyrir Gudmannsverslun í rúm 30 ár eða til ársins 1852.
Um svipað leyti kom að versluninni Dani að nafni Bernhard Steincke. Hann sinnti eftirliti með versluninni fyrir hönd eigenda en varð síðar verslunarstjóri. Á þessum árum var Johan Gudmann kominn á efri ár en sonur hans, Friðrik Gudmann, hafði löngum verið honum innan handar. Tók hann við verslun föður síns árið 1857 og réði Steincke sem verslunarstjóra árið 1863. Bernhard Steincke lét sig mjög varða hins ýmsu bæjar-, menningar- og framfaramál og varð fljótt mikils metinn. Hann beitti sér fyrir þilskipaútgerð, nýjungum og umbótum í landbúnaði og auðgaði mjög menningarlíf bæjarins: Hann kynnti m.a. sjónleikjahald (leiksýningar) fyrir bæjarbúum, starfrækti söngflokk og kenndi ungu fólki dans og gítarleik. Þá var honum mjög umhugað um að bæjarbúar fengju sjúkrahús og kom því til leiðar, að Friðrik Gudmann keypti fyrrum læknisbústað bæjarins og innréttaði sem sjúkrahús. Var það árið 1873. Sumarið 1874 var Akureyrarbæ svo fært húsið að gjöf og kallaðist það Gudmanns minde. Þá var Steincke fyrstur Akureyrarkaupmanna til að færa verslunarreikninga og bókhald á íslensku, löngu áður en það var lögfest. Segir Steindór Steindórsson (1993:101) svo um Steincke: Hann ávann sér fádæma vinsældir og svo mikið traust báru menn til hans að sagt var að bændur réðust naumast í að byggja sér fjárhúskofa nema bera það undir Steincke.
Laxdals þáttur Stórbrunar óbrynnishús og sjáandi
Steincke var frumkvöðull og framfarasinnaður maður og það var einnig eftirmaður hans hjá Gudmannsverslun, Eggert Laxdal. Hann fluttist í húsið 1875, er Steincke fluttist af landi brott, og tók við verslunarstjórastöðunni. Var húsið þá kennt við Eggert Laxdal og þar komið nafnið Laxdalshús. Það er athyglisvert, að í flestum tilfellum eru hús sem kennd eru við menn á annað borð, yfirleitt kennd við þá sem byggðu þau. Þegar Laxdal fluttist í samnefnt hús stóð húsið hins vegar á áttræðu! (Þess má ennfremur geta, að húsið var á 51. aldursári þegar Eggert Laxdal fæddist í febrúar 1846). Eggert sat m.a. lengi í bæjarstjórn og var einn stofnenda Framfarafélags Akureyrar árið 1879. Sá félagsskapur stóð að ýmissi fræðslu og fyrirlestrum, m.a. fyrir iðnnema. Eggert stýrði versluninni lengst af undir eignarhaldi Carls J. Höepfner en hann eignaðist verslunina árið 1879, er Friðrik Gudmann lést, aðeins fimmtugur að aldri. Kallaðist verslunin eftir það Gudmanns efterfölger.
Aðfararnótt 19. desember 1901 varð stórbruni á Akureyri og brunnu þó nokkur hús til ösku. Eins og gefur að skilja varð Laxdalshúsi bjargað en þó mun ekki hafa munað miklu. Eldurinn kom upp í veitingahúsinu og hótelinu Jensensbauk, sem stóð þar sem nú er Aðalstræti 12. Breiddist hann út með ógnarhraða til norðurs um hið svokallaða Efra pláss (Aðalstræti) en einnig brunnu syðstu hús Neðra pláss (Hafnarstræti 1 og 3). Á meðal húsa sem eyddust var fyrsta íbúðarhúsið sem reis á Akureyri, árið 1777 (íbúðarhús Lynges), sem nefnt er hér framarlega í greininni. Logn eða mjög hægur vindur var þessa nótt en þó gekk á með vestanhviðum sem feykti eldtungunum yfir götuna í Efra plássi sem nýlega hafði fengið nafnið Aðalstræti. En eldhafið vann á húsunum vestanmegin götunnar og brunnur, vatnsfötur og segl bæjarbúa máttu sín lítils. Neðst í Búðargili stóð Möllershús, þar sem nú er Aðalstræti 8. Það brann til kaldra kola og litlu munaði, að eldurinn næði þaðan yfir götuna í gömlu Mörbúðina á lóð Gudmannsverslunar. Það sem hins vegar mun hafa bjargað því húsi var tjörusandspappi, sem Eggert Laxdal hafði sett á húsið skömmu áður. Hefði eldurinn læst sig í Mörbúðina, hefði hann líklega gleypt öll húsin á verslunarlóðinni og þ.m.t. Laxdalshús. Norðan við Laxdalshús lá, og liggur enn, svokallaður Breiðigangur sem tengdi saman göturnar tvær. Hann var hins vegar ekki breiðari en svo, að eldurinn hefði þaðan átt greiða leið yfir í krambúðina, frá 1793, og vörugeymsluhús norðan við. Hefði þá líklega mestallur kaupstaðurinn norðan Fjörunnar brunnið til grunna!
Það er frá því að segja, að Eggert Laxdal hafði nokkru áður heimsótt aldraðan mann á Velli í Saurbæjarhreppi, Hallgrím Þórðarson. Hallgrímur, sem Eggert hafði þekkt árum saman vegna viðskipta við verslun Gudmanns, var talinn elliær en átti það til að segja fyrir um óorðna atburði. Taldi Hallgrímur sig hafa skilaboð að handan, nánar tiltekið frá Pétri Hafstein amtmanni, um að bærinn myndi brenna. Og það sem meira var, hann taldi að upptökin yrðu annað hvort í gamla sjúkrahúsinu eða hótelinu en það síðarnefnda varð raunin! Mun hann hafa stungið upp á vörnum við Laxdal sem var lítt trúaður á raus hins meinta sjáanda. En einhverra hluta vegna hafði hann fylgt ráðum hans og sagði hverjum sem verða vildi frá þessum dulrænu atburðum (sbr. Jón Hjaltason 2016:35). Hvort það var hagstæð vindátt, snarræði bæjarbúa eða ráð að handan sem björguðu Laxdalshúsi þessa desembernótt 1901, skal ósagt látið hér. Aðra desembernótt ellefu árum síðar, nánar tiltekið þann 15. desember, árið 1912, var einnig stórbruni aðeins fáeina metra frá Laxdalshúsi og aftur skall hurð, jafnvel enn nærri hælum, hvað Laxdalshús varðar. Þá voru það hins vegar vatnsdælur og búnaður hins nýstofnaða slökkviliðs sem bjargaði því sem bjargað varð. Kom eldurinn raunar upp í gömlu geymsluhúsi á vegum Gudmannsverslunar, norðan Breiðagangs. Stöðug dæling á vatni, auk járnplatna sem komið var fyrir til varnar á húshliðum og stöfnum, komu í veg fyrir að eldurinn bærist suður yfir Breiðagang eða vestur yfir Aðalstrætið. Varnaði því einnig, að eldhafi næði austur yfir Hafnarstrætið (sbr. Jón Hjaltason 2016:71), en þar stóð m.a. nýlegt og glæst stórhýsi Ottos Tulinius. Í þessum bruna eyðilögðust að mestu gömul geymslu- og vöruhús sem stóðu m.a. þar sem nú er ísbúðin Brynja og bílastæði norðan hennar.
Laxdalshús á 20. öld
Laxdalshús, sem fékk númerið 11 við Hafnarstræti á fyrstu árum 20. aldar var svo metið til brunabóta þann 1. desember 1916. Húsið var þá orðið 121 árs. Var því lýst svo: Íbúðarhús, einlyft á lágum steingrunni og [með] háu risi. Á gólfi undir framhlið 2 stofur og forstofa. Bakhlið: búr, eldhús og gangur 1 stofa. Á lofti 3 íbúðarherbergi 1 geymsluherbergi og gangur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 55). Þak var pappaklætt og veggir timburklæddir og húsið sagt 12,8x6,3m að grunnfleti og á því 18 gluggar. Þrír kolaofnar og ein eldavél voru í húsinu.
Árið 1913 mun síðasti verslunarstjóri Gudmannsverslunar hafa flust úr húsinu. Var það Páll V. Jónsson, sem í manntali 1912 er titlaður verslunarstjóri á gamla kontórnum. Hafði húsið þá gegnt hlutverki verslunarstjórahúss í 118 ár. Húsið var selt Jóni Stefánssyni, ritstjóra og kaupmanni hjá J.V. Havsteen á Oddeyri, sem þarna bjó til ársins 1920. Jón átti húsið til ársins 1942 og leigði þar út íbúðarherbergi. Á teikningu Rafveitu Akureyrar frá því um 1922 sést að á hvorri hæð voru tvær stofur og eitt svefnherbergi, eldhús á neðri hæð ásamt búri og búr í risi. Um tuttugu árum síðar, eða síðla árs 1943 eignaðist Akureyrarbær húsið. Keypti bærinn húsið af Guðmundi Bergssyni póstmeistara, sem keypt hafði húsið af Jóni, en átti það aðeins í eitt ár. Þegar manntal var tekið í október 1943 er Guðmundur enn skráður eigandi hússins og 22 íbúar skráðir, þ.á.m. Guðmundur sjálfur og kona hans, Hrefna Ingimarsdóttir. Einhvern tíma á þessum áratugum voru settir nýmóðins gluggar með einföldum póstum, þakið járnklætt og sökkulsteypa endurnýjuð með steyptri kápu neðst á veggjum. Þegar leið að síðasta fjórðungi 20. aldar var ástand hins 180 ára timburhús orðið nokkuð bágborið. En þá hafði orðið almenn vakning í því málefni sem kallaðist varðveisla gamalla húsa og farið að friða hús. Grein um slíkt var að finna í Þjóðminjalögum árið 1969. Og það var samkvæmt þeirri grein, sem Akureyrarbær friðlýsti Laxdalshús í A-flokki haustið 1977. Þá var enn búið í húsinu í tveimur íbúðum.
Á næstu árum, þ.e. 1978-1984 fóru fram gagngerar endurbætur á Laxdalshúsi. Fyrir þeim framkvæmdum fór hin valinkunni smíðameistari Sverrir Hermannsson. Hann lýsti því í viðtali við Dag árið 1983 að hann hefði unnið fyrir ákveðna fjárveitingu á ári og að húsið hafi verið mjög illa farið. Endurnýja hefði þurft um 80 % en húsið friðað í A-flokki, svo engu mætti breyta og öll endurnýjun yrði að vera nákvæmlega í samræmi við upprunann. Studdist Sverrir m.a. við gamlar myndir við vinnu sína við Laxdalshús. Sverrir hafði einmitt ánægju af því að smíða upp gamalt eins og hann orðaði. Gefum Sverri orðið: Það er vel til þess fallið að byggja þessi gömlu hús upp til að varðveita þær byggingarðaferðir sem viðhafðar voru þegar þau voru byggð (Sverrir Hermannsson (Gísli Sigurgeirsson) 1983:6). Endurbótum lauk einmitt árið eftir að viðtalið við Sverri var tekið og í júní 1985 gerði Hjörleifur Stefánsson teikningar að hinu nýendurbyggða Laxdalshúsi, sem sjá má á kortagrunni Akureyrar. Þess má geta, að Sverrir var mikill safnari hina ýmsu hluta og eru það gripir hans sem eru til sýnis á Smámunasafninu í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit.
Laxdalshúsið hið endurbætta
Frá því að Sverrir Hermannsson og hans menn luku verkinu við þetta elsta hús bæjarins hefur það verið sannkölluð perla og bæjarprýði; Laxdalshús, íbúðarhús verslunarstjóra í meira en 100 ár, sem í upphafi kallaðist Akureyri 3 í manntölum og stendur við Hafnarstræti 11. Endurbætur hússins eru sérlega vel heppnaðar og bera vitni um einstakt handbragð og alúð þeirra smiða og byggingariðnaðarmanna, er þar voru að verki. Lóð Laxdalshúss er, eins og húsið sjálft, snyrtileg og í mjög góðri hirðu. Nánast frá upphafi vega hefur reynitré staðið framan við húsið en þar mun fyrst hafa verið gróðursett árið 1797 og stóð það tré framyfir 1920 er það féll vegna fúa og elli. Núverandi tré var líkast til gróðursett um svipað leyti og endurgerð hússins fór fram. Þá hefur húsinu og umhverfi verið mjög vel viðhaldið þessi 40 ár sem liðin eru síðan endurbótum lauk enda hefur nánast óslitið síðan einhver starfsemi. Það er nefnilega þannig, að hús eru ekki einungis safngripir, þau þurfa að vera í notkun á sama hátt og bátar þurfa að sigla; annars fúna þeir í naustum. Eftir gagngera endurgerð Sverris Hermannssonar var húsið innréttað sem veitingasalur og fyrir listsýningar og hefur að jafnaði verið slík starfsemi hér. Þegar þetta er ritað í ársbyrjun 2025 er sushiveitingastaðurinn Majó í Laxdalshúsi, sem opnaður var sumarið 2021. Rekstraðilar hússins eru þau Jónína Björg Helgadóttir og Magnús Jón Magnússon. Sú fyrrnefnda er myndlistarmaður og er hún einnig með vinnustofu sína í Laxdalshúsi. Þannig má segja, að Laxdalshús hýsi í senn, lyst og list, á 230 ára afmælisári sínu.
Meðfylgjandi myndir, sem sýna hinar ýmsu hliðar Laxdalshúss eru flestar teknar 15. desember 2024. Hér eru einnig myndir frá heimsókn þáverandi forsetahjóna, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reed, til Akureyrar 26. ágúst 2023 þar sem bæjarstjóri Akureyrar, Ásthildur Sturludóttir flytur ávarp. Einnig er mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, en hún er tekin 18. júní 2015.
Hér að framan segir frá húsi, sem Gudmann og Steincke gáfu bæjarbúum sem sjúkrahús. Frá því segir í næsta pistli
Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Guðrún Harðardóttir. 2006. Laufás í Eyjafirði. Viðgerðir 1997-2002 Stofa, brúðarhús og dúnhús. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og höfundur.Pdf-skjal aðgengilegt á 2006-1-Laufasskyrsla-loka-171106.pdf
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hörður Ágústsson. 2000. Íslensk byggingararfleifð I Ágrip af byggingarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.
Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur.
Jón Hjalatson. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa.
Sigríður Sigurðardóttir. 2011. Gamlir byggingarhættir. Sauðárkrókur: Byggðasafn Skagfirðinga. Aðgengilegt á https://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/xiv-gamlar-byggingar.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sverrir Hermannsson, viðtal tók Gísli Sigurgeirsson. 1983. Ég hef alltaf verið hrifinn af timburvinnu Dagur, 126. tbl. 9. nóvember. Sótt á timarit.is, á slóðinni https://timarit.is/page/2670028#page/n5/mode/2up
Ýmsar heimildir af m.a. timarit.is, islendingabok.is, manntal.is og herak.is
Bloggar | Breytt 13.1.2025 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2025 | 18:24
Nýárskveðja
Óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.
Nýársmyndin að þessu sinni er tekin á Dalsbraut, sunnarlega í Lundarhverfi á Brekkunni, um 12-leytið í dag. Nýarssólin gyllir efstu brúnir og tinda Hlíðarfjalls, skíðahótelið á Skíðahótelinu líkt og áletrun listamanns, neðst í hægra horni. Risið er nokkuð lágt á sólinni, enda aðeins 11 dagar frá vetrarsólstöðum, 171 dagar í sólstöður á sumri. Mér reiknast til, að dagsbirtan vari nú 10 mínútum lengur en 21. des, svo allt er þetta í áttina; daginn hefur að meðaltali lengt um mínútu á dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2024 | 11:05
Hús dagsins: Norðurgata 4
Þann 22. mars árið 1897 afgreiddi bygginganefnd Akureyrar sameiginlegt byggingaleyfi til þriggja manna vegna bygginga við Norðurgötu. Gatan hét reyndar ekki Norðurgata þá og var eftir því sem greinarhöfundur kemst næst nafnlaus. Bygginganefnd talar einfaldlega um þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar (þá er nú Norðurgata ólíkt þjálla heiti). Þessir þrír voru þeir Þorvaldur Guðnason skipstjóri, Ólafur Árnason og Jón Jónatansson. Þorvaldur hafði rúmum áratug fyrr reist hús við sömu götu en hugðist nú reisa nýtt. Þeir síðarnefndu reistu eitt hús í sameiningu, sem skiptist í tvo eignarhluta.
Norðurgata 4 er einlyft timburhús á lágum steinkjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan. Á bakhlið er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og stór kvistur með sams konar þakgerð og nær hann yfir drjúgan hluta þekjunnar. Mætti eiginlega segja, að risinu hafi verið lyft. Járn og steinblikk er utan á húsinu. Í flestum gluggum eru einfaldir þverpóstar í gluggum en á bakhlið eru einnig lóðréttir póstar. Grunnflötur hússins mælist nærri 9x11m, þar af er bakbygging um 4 metra breið.
Ólafur Árnason og Jón Jónatansson reistu semsagt húsið í sameiningu árið 1897. Byggingaleyfi þeirra var sem fyrr segir afgreitt samhliða byggingaleyfi Þorvalds Guðnasonar. Þorvaldur fékk að reisa hús, 9 álnir austan við þvergötuna út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar og 60 álnir frá Strandgötu. Gert var ráð fyrir að hús Þorvalds yrði 14x10 álnir að grunnfleti. Ólafur og Jón fengu að reisa sitt hús, 9 álnir norður af fyrirhuguðu húsi Þorvalds, en þeirra hús sagt 12x10 álnir með kvisti. Raunin hefur hins vegar orðið sú, að bæði húsin eru jafn löng og líkast til eru þau sama hönnun. Ekki liggja fyrir upprunalegar teikningar af húsunum ekki einu sinni víst að húsin hafi verið teiknuð yfirleitt en álitið að Snorri Jónsson hafi komið að hönnun og byggingu húsanna. Þetta sama sumar reisti Snorri einmitt stærsta hús Oddeyrar og líklega á allri Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, á horni Strandgötu og þvergötunnar út á Oddeyri út frá húsi Jóns Halldórssonar.
Ólafur Árnason var sjómaður, fæddur á Siglufirði, sagður í manntali 1901 fiskimaður á þilskipi og bát. Hann var kvæntur Guðlaugu Jónsdóttur, sem fædd var í Barðssókn í Norðuramti. Þau reistu norðurhluta hússins og bjuggu þar. Jón Jónatansson, sem reisti og átti suðurhlutann var Þingeyingur og hafði áður verið bóndi í Skriðulandi í Aðaldal. Þá hafði hann einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður aukapóstur í manntali. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn.
Árið 1901 búa í húsinu 10 manns: Ólafur og Guðlaug í norðurhluta, Jón og Guðrún Sesselja ásamt börnum þeirra, Sigurborgu og Kristjáni, í suðurhlutanum. Þess má geta, að umræddur Kristján stofnaði rúmum áratug síðar Brauðgerð Kr. Jónssonar, síðar þekkt sem Kristjánsbakarí. Auk framangreindra voru tvær ungar konar, þær Valgerður Sigurðardóttir, 24 ára ógift, og Lilja Daníelsdóttir 26 ára ekkja, búsettar hér. Einnig búa hér ung hjón, Páll Markússon og Soffía Sigurlína Jónsdóttir ásamt Kristjáni, tveggja ára syni þeirra. Það kemur ekki fram í hvorum húshluta íbúar eru búsettur en væntanlega hafa konurnar og þriðja fjölskyldan leigt herbergi af Ólafi eða Jóni, mögulega í risinu. Páll Markússon var múrarameistari og kom að byggingu ýmissa húsa, m.a. fyrsta skólahúss Glerárþorps og Gefjunarhúsinu mikla á Gleráreyrum (síðarnefnda húsið var því miður jafnað við jörðu í ársbyrjun 2007 þegar Glerártorg var stækkað).
Jón Jónatansson flutti ásamt fjölskyldu sinni í nýreist hús við Grundargötu árið 1903 og bjó þar um nokkurt árabil. Svo vildi til, að alnafni hans, Jón Jónatansson járnsmiður hafði reist húsið og líklega selt nafna sínum það nýreist. Ólafur Árnason fluttist úr Norðurgötu 4 árið 1906 er hann reisti hús við Gránufélagsgötu. Árið 1906 voru eigendur hússins þær Þóra Guðnadóttir og Sigurveig Kristjánsdóttir. Þær eru skráðar fyrir húsinu öllu en virðast samkvæmt manntali búa í sama íbúðarrými, ásamt móður Sigurveigar, Björgu Guðmundsdóttur, Jóhönnu Hansdóttur vinnukonu og Kristjáni Þorgilssyni, smíðapilti. Þrjár íbúðir virðast í húsinu og í hvorri þeirra eru búsettar Vilhelmínur tvær, báðar titlaðar húskonur. Vilhelmína Ólafsdóttir deilir íbúðarrými með Steinunni Kristjánsdóttur sem einnig er húskona en nafna hennar Kristjánsdóttir býr hér með uppkomnum sonum sínum, Tryggva Jónassyni og Ármanni Björnssyni. Hvers notar höfundur hugtakið íbúðarrými en ekki bara íbúð? Það er einfaldlega vegna þess, að ekki liggur fyrir hvort um ræðir eitt herbergi eða íbúð. Sennilegra er, að hver íbúð hafi í raun aðeins verið eitt eða tvö herbergi, þegar í hlut á hús eins á borð við Norðurgötum 4. Í manntölum er ekkert slíkt gefið til kynna, heldur aðeins lárétt strik í upptalningu íbúa, þar sem um aðskilin íbúðarrými er að ræða. Á fyrstu áratugum 20. aldar eru að öllu jöfnu 2-3 fjölskyldur eða samleigjendur skráðir til heimilis í Norðurgötu 4 og raunar flestum húsum á Oddeyri.
Í árslok 1916 var Norðurgata 4 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi á kjallara, lítill skúr við bakhlið. Á gólfi við framhlið 2 stofur og forstofa, bakhlið 2 eldhús. Á lofti 2 íbúðarherbergi, eldhús og forstofa. Kjallari skiptist í fernt. 1 skorsteinn (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.190). Húsið var sagt 7,4m á lengd, 6,3m á breidd og 6,3m á hæð og á því voru 13 gluggar. Veggir voru timburklæddir og þak járnvarið. 6 kolaofnar og 3 eldavélar voru í húsinu. Eigandi var Sigurveig Kristjánsdóttir (sbr. Brunabótafélag 1916: nr. 190). Elstu varðveittu teikningar að húsinu eru frá því um 1922, en þá var Rafveita Akureyrar tekin í gagnið og gerðar raflagnateikningar fyrir öll hús bæjarins. Þar er herbergjaskipanin nokkurn veginn í samræmi við lýsingu brunabótamatsskýrslunar, og sést, að gengið hefur verið inn í norðurhlutan um bakdyr inn í eldhús. Þá hefur verið smár kvistur á bakhlið og eldhús þar.
Árin 1936 og 1937 var byggt við húsið til austurs (þ.e. við bakhlið) Enda þótt um eina viðbyggingu virðist að ræða er það svo, að byggt var við húsið í tvennu lagi og meira segja var um tvær teikningar eftir tvo hönnuði að ræða. En það var árið 1936 sem Kristján Jónsson fékk að byggja við suðurhluta hússins, 3,70x4,20m að stærð. Byggingin yrði úr timbri ofan kjallara. Teikningarnar að viðbyggingu Kristjáns gerði Tryggvi Jónatansson. Ári síðar fékk Sigurveig Kristjánsdóttir að byggja við sinn hluta, þ.e. norðurhlutann, og sú bygging yrði 3,8x3,8m. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Halldór Halldórsson. Mismunurinn á þessum málum virðist koma til af því, að nyrðri eignarhlutinn er 40 cm mjórri en sá syðri. Mögulega hefur húsið verið járnvarið á sama tíma og byggt var við en það gæti hafa verið klætt eitthvað fyrr. Árið 1916 var húsið alltént timburklætt, sbr. Brunabótamat hér að framan. Líkast til hefur risinu verið lyft að aftan um svipað leyti og byggt var við. Rétt er að taka fram, að sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta hússins árið 1936 var ekki sá hinn sami og átti hér heima sem barn og gerðist síðar bakari. Sá Kristján Jónsson sem átti suðurhluta Norðurgötu 4 á þessum árum var bílstjóri og verkamaður. Hann fæddur árið 1897 (m.ö.o. jafnaldri Norðurgötu 4) í Baldursheimi í Svalbarðsstrandarhreppi en fluttist ársgamall í Ytra-Krossanes í Glæsibæjarhreppi. Kristján var systursonur téðrar Sigurveigar.
Sigurveig Kristjánsdóttir átti húsið eða hluta þess í meira en hálfa öld, eða til æviloka. Hún lést, 5. maí 1958 og vantaði þá tæpar fjórar vikur í 96 ára afmæli sitt, en hún var fædd 31. maí 1862 í Meðalheimi á Svalbarðsströnd. Kristján Jónsson var einnig búsettur hér til æviloka en hann lést árið 1965. Íbúafjöldi hússins gegnum tíðina skiptir eflaust hundruðum ef ekki þúsundum þótt eigendaskipti hafi ekki endilega verið mjög tíð. Enn er húsið tveir eignarhlutar og tvær íbúðir, eignahlutaskipti fyrir miðju og hefur svo verið frá upphafi enda þótt íbúðarrými hafi einhvern tíma verið fleiri.
Árið 2022 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi prófessor, hana Sigrúnu Rögnu Úlfsdóttur sem þá hafði nýlega fest kaup á suðurhluta Norðurgötu 4, og ræddi við hana um húsið. Viðtalið við Sigrúnu Rögnu var tekið fyrir bók Kristínar og undirritaðs, Oddeyri Saga hús og fólk sem kom út 2023 (og er enn fáanleg). Sigrún hafði á orði, að henni hafi ekki litist sérlega vel á ástand hússins í upphafi en fann strax góðan anda í því, svo efasemdirnar dofnuðu. Þó var ljóst að ýmislegt þyrfti að framkvæma, breyta og bæta. Hún leigði húsið út á tímabili og leigjendur fundu einnig fyrir þessum góða anda enda þótt einhverjir létu einnig í ljós að ýmislegt væri fremur frumstætt. Gefum Sigrúnu Rögnu orðið: Ég nýt þess að taka eldhúsið og baðið í gegn. Næsta verkefni verður að taka til í stofunni, sem áður fyrr var svefnherbergi. Hér gildir að þora að rífa og komast að því hvað hægt er að gera. Ég varð til dæmis mjög ánægð þegar ég sá panelinn á veggjunum en áttaði mig fljótt á því að það yrði mikið verk að laga hann, það gustaði líka inn um hann og svo kom reiðingurinn í ljós (Sigrún Ragna Úlfsdóttir (Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson) 2023:109). Sem fyrr segir varð Sigrúnu Rögnu tíðrætt um góðan anda í húsinu sem hún og leigjendur fundu fyrir. (Hver veit nema andi þeirra Jóns og Ólafs eða Sigurveigar Kristjánsdóttur og Kristjáns systursonar hennar, eða annarra af mörgum eigenda og íbúa hússins svífi þar yfir vötnum. Það skal ósagt látið hér).
Norðurgata 4 er látlaust en glæst hús og til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Norðurgata 2 og 4 eru augljóslega nokkurs konar tvíburahús en kvistir, gluggar, halli á risi og hlutföll bera þess merki, að um sömu eða alla vega mjög svipaða hönnun er að ræða. Þessi tvö hús eru þó engu að síður gjörólík, m.a. vegna síðari tíma breytinga, en framhliðar þeirra eru sérlega samstæðar. Ysta húsið nr. 6, er örlítið frábrugðið þessum tveimur húsum, en það er reist ári síðar en nr. 2 og 4. Heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er þó mjög samstæður og myndar skemmtilega sjónræna heild í þessari merku götu á Oddeyri. Í húsakönnun 2020 hlýtur Norðurgata 4 miðlungs varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020:89). Meðfylgjandi myndir eru teknar á tæplega 20 ára tímabili; 21. janúar 2005, 28. ágúst 2010, 10. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917.Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.â¯Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 140, 22. mars 1897. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 773, 27. apríl 1936. Fundur nr. 803, 13. ágúst 1937. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995. â¯Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:â¯https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson. 2023. Oddeyri Saga hús og fólk. Akureyri: höfundar gáfu út.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2024 | 15:35
Jólakveðja
Óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla
(Jólamyndin að þessu sinni sýnir eina af óshólmabrúnum yfir Eyjafjarðará á svonefndri Þverbraut og er myndin tekin 16. feb. 2024)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2024 | 15:45
Húsaáætlun 2025 (fyrstu mánuðina og fram á sumar)
Í fyrsta skipti í 15 ára sögu vefsíðunnar arnorbl.blog.is birti ég hér með HÚSAÁÆTLUN fyrir næsta misseri eða rúmlega það. En svo vill til, að á nýju ári eiga tvö elstu hús bæjarins stórafmæli en sléttir fjórir áratugir skilja að Laxdalshús og Gamla Spítalann sem verða 230 og 190 ára á komandi ári. (Skjaldarvíkurstofan, sem talinn er austasti hluti Gránufélagshúsanna er reyndar -heimildum ber ekki saman- talin jafnaldri Gamla Spítalans).
Af því tilefni er ætlunin að fyrsta hús á nýju ári verði Laxdalshús, þá Gamli Spítalinn eða Gudmanns Minde. Um öll þessi hús fjallaði ég á fyrstu árum síðunnar en nú er kominn tími á uppfærslu.
Í kjölfarið ætla ég svo að birta umfjallanir í elstu hús bæjarins í aldursröð (eða nokkurn veginn, stundum ber heimildum ekki saman) fram á vorið en líkt og börnin forðum verður umfjöllunin "send í sveit" með sumrinu og 25. júní, á 16 ára afmæli Húsa dagsins ætla ég að taka upp þráðinn á Skipalóni og birta umfjöllun um Smíðahúsið (Lónsstofu tók ég fyrir á afmælisdegi Húsa dagsins á þessu ári).
Að öllu jöfnu birtast 2-4 pistlar í mánuði svo áætlunin gæti verið á þessa leið:
JANúAR Laxdalshús, Hafnarstræti 11
Gamli Spítalinn, Gudmanns minde, Aðalstræti 14
FEBRÚAR Aðalstræti 52
Aðalstræti 44
MARS Aðalstræti 66
Aðalstræti 66b
Aðalstræti 62
APRÍL Eyrarlandsstofa
Nonnahús
MAÍ Aðalstræti 50
Aðalstræti 2
JÚNÍ Aðalstræti 40
Aðalstræti 42
25. JÚNÍ Smíðahúsið á Skipalóni
Sumar Gömul hús í sveitunum nærri Akureyri
(Á þessum lista ættu einnig að vera Aðalstræti 6 og Frökenarhús, Lækjargata 2a en stutt síðan ég tók þau fyrir nokkuð ítarlega)
Á þessari áætlun eru að sjálfsögðu allir hugsanlegir fyrirvarar og hún er auðvitað aðeins til viðmiðunar, vel gæti verið að önnur hús slæðist inn á milli ef svo ber undir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2024 | 18:18
Hús dagsins: Norðurgata 6
Gerum okkur nú, lesendur góðir, í hugarlund Oddeyri í febrúar 1898. Eyrin er væntanlega snævi þakin og mögulega ísilagðir pollar og lænur úr Gleránni (nema vera skyldi, að hafi verið hláka) þar víða og er þar mestur ósinn á Oddeyrartanga. Íbúðabyggðin á Eyrinni er að mestu bundin við fjörukambinn syðst, og teygir húsaröðin sig í átt að brekkunni neðan við Stóra - Eyrarland. Þar hafa á síðustu misserum risið nokkur hús, þar sem áður var illfær og brött brekka í sjó fram. Fyrstir reistu þeir Bjarni Einarsson Due Benediktsson íbúðarhús neðst í Grófargili árið 1894 en í kjölfarið reisti amtmaður sér bústað á miðju einskismannslandinu, milli byggðalaganna tveggja á Akureyri og Oddeyri. Löngu síðar reisti Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, sér veglegar höfuðstöðvar þar sem hús Bjarna og Due reis en amtmannshúsið stendur enn. Sumarið áður en hér er komið sögu, hefur Júlíus nokkur Sigurðsson og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir, systir athafnamannsins og skáldsins unga [33 ára á útmánuðum 1898] Einars, reist veglegt hús, nokkurn veginn í krikanum þar sem eyrin og brekkan mætast í flæðarmálinu, og kallast Bótin. (Nálega sex áratugum síðar var hús þetta flutt út á Oddeyri, á Ránargötu 13). En þetta sama sumar, 1897, reis líka eitt alstærsta hús kaupstaðarins við Strandgötuna á Oddeyri. Það reisti byggingameistarinn Snorri Jónsson. Hann á einmitt sæti í bygginganefnd bæjarins, sem þennan febrúardag bregður sér út á Oddeyrina að mæla fyrir tveimur hússtæðum við þvergötur, sem byggst hafa upp út frá Strandgötunni. Annars vegar fyrir Jón Guðmundsson skósmið og hins vegar Metúsalem Jóhannsson verslunarmann. Það er freistandi að áætla, að þeir hafi safnast saman á heimili Snorra og haldið svo af stað eftir þvergötunni sem liggur til norðurs, vestan við stórhýsi hans, þar sem þeir mæla út fyrra hússtæðið, ef marka má fundargerð.
Bygginganefndarmenn stika út frá Snorrahúsi út eftir götunni. Handan hennar á horninu er hús sem Jón Halldórsson reisti árið 1876 og var notað sem viðmið, þegar gata þessi var mæld út sumarið 1885. Þá voru reyndar þegar risin þrjú hús í götulínunni og fjögur, ef við teljum með hús sem reist var á grunni annars af tveimur fyrstu húsum Oddeyrar. Það var torfbær, sem reis árið 1858 en á grunni þess var reist timburhús um 1880. Ekki er leiðin löng að lóðinni, þar sem þeir ætla að mæla út fyrir húsinu. Þeir staðnæmast norðan við hús sem reist voru sumarið áður, líkast til eftir sömu forskrift Snorra. Syðra húsið reisti Þorvaldur Guðnason en það nyrðra Jón Jónatansson og Ólafur Árnason. Handan götunnar blasir við þeim hús, sem Snorri reisti um svipað leyti og hann settist að á Oddeyri tæpum tveimur áratugum fyrr. Og örlítið ofar við sömu götu er steinhúsið mikla, sem reist var um svipað leyti. Að öðru leyti blasir marflöt Eyrin við þeim með Eyjafjörðinn og Kaldbak í baksýn, þar sem þeir taka til við mæla út lóð og hússtæði fyrir Metúsalem Jóhannsson. Húsið yrði 14 álnir á lengd og 11 álnir á breidd og skyldi standa norður af húsi Jóns Jónatanssonar. Það fylgir reyndar ekki sögunni hvernig lóðinni var úthlutað, bygginganefnd er þarna að mæla út fyrir húsinu en ekki lóðinni. Það er ekki ósennilegt, að Metúsalem hafi fengið lóðina hjá landeiganda Oddeyrar, Gránufélaginu. En látum það liggja milli hluta. Ákváðu bygginganefndarmenn, að hús Metúsalems skyldi standa við fyrirhugaða þvergötu niður Oddeyrina.
Í þessum venju fremur langa formála eru fólgnar margar spurningar sem rétt er að svara. Umrædd gata út Oddeyrina fékk fáeinum árum síðar nafnið Norðurgata og téð hús Þorvalds annars vegar og Jóns og Ólafs hins vegar fengu númerin 2 og 4 við þá götu. Steinhúsið mikla varð Norðurgata 17 og eldra hús Snorra, Norðurgata 11. Stórhýsi Snorra var Strandgata 29. Það hús var rifið fyrir nálega 40 árum en hús Jóns Halldórssonar stendur enn, en þarfnast verulegra endurbóta eða endurbyggingar og hefur verið sótt um niðurrif þess. Um er að ræða Strandgötu 27.
Norðurgata 6 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti að framan og stendur það á háum steyptum eða hlöðnum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki, bárujárn á þaki og kjallaraveggir múrhúðaðir. Á miðri framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur að henni. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur er nærri 9x7metrum sem rímar nokkurn veginn við álnirnar úr byggingarleyfinu frá 1898, ellefu álnir eru um 6,93m og fjórtán álnir 8,82m.
Metúsalem Jóhannsson reisti hús sitt árið 1898 og fékk tveimur árum síðar leyfi til að reisa skúr á baklóðinni. Árið 1901 er húsið kallað 8 Norðurgata. Geysistórt pakkhús, sambyggt Snorrahúsi hefur þá líkast til talist númer 2 við götuna. En þá eru búsettir á tæpum 160 fermetrum (skv. Fasteignaskrá) hússins, 20 manns. Þar ber helst að nefna þau Metúsalem Jóhannsson og konu hans Sigrúnu Sörensdóttur. Þau eiga ónefndan dreng, sem fæddur er 23. ágúst þetta sama ár, 1901. Þess má geta, að undir lok ársins 1901 eru tvö nýfædd börn hér til heimilis, fædd með mánaðar millibili upp á dag, en ónefnd stúlka Jóns Jónssonar Dalmann og Ingibjargar Jónsdóttur er fædd 23. september. Aðrir íbúar hússins eru hjú, leigjendur og einn er einfaldlega titlaður aðkomandi en það er hinn 35 ára Bergur Hreiðarsson. Þrír bera titilinn húsbóndi en það eru auk Metúsalems, téður Jón Dalmann og Ólafur Guðmundur Eyjólfsson. Af nýfæddu börnunum tveimur er það að segja, að drengurinn sem fæddist 23. ágúst hlaut nafnið Óli Vernharður og gerðist síðar útgerðarstjóri og stórkaupmaður í Reykjavík. Hann lést 1977. Dóttir þeirra Jóns Dalmann og Ingibjargar, sú er fædd var mánuði síðar, hlaut nafnið Karolína Andrea. Hún fluttist ung til Danmerkur og lést þar árið 1981. (Ári eftir að manntalið var tekið fluttust þau Metúsalem og Sigrún að Strandgötu. Þar byggði Metúsalem hús en áður en að því kom gerði hann sér lítið fyrir og flutti húsið sem fyrir stóð á lóðinni, Hauskenshús svokallað, um nokkra metra inn í þvergötuna sunnan við lóðina. Nýja hús Metúsalems brann til ösku í mars 1906 en aftur gerði hann sér lítið fyrir og byggði nýtt hús, enn stærra og glæstara. Þar er nú Strandgata 23 en Hauskenshús stendur einnig enn og er eitt af elstu húsum Oddeyrar).
Metúsalem Jóhannsson (1874-1941), kaupmaður var utan úr Glæsibæjarhreppi, uppalinn á Einarsstöðum. Hann var kvæntur Sigrúnu Sörensdóttur (1872-1915) en hún var úr Þingeyjarsýslum, skráð til heimilis að Vargsnesi í Þóroddsstaðasókn árið 1880. Metúsalem fluttist frá Akureyri um 1910 og stundaði hann verslun og útgerð víða um land, m.a. á Óspaksseyri og síðar í Reykjavík. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1941. Árið 1902 búa aðeins sjö manns í húsinu, Ólafur Eyjólfsson kaupmaður og fjölskylda hans. Ári síðar eða 1903 er eigandi hússins orðinn J. Norðmann, búsettur hér ásamt fjölskyldu sinni. J. Norðmann, sem fullu nafni hét Jón Steindór Jónsson Norðmann lést árið 1908 en ekkja hans, Jórunn erfði húseignina. Árið 1915 eignast húsið Ásgrímur Pétursson fiskmatsmaður og ári síðar er húsið orðið tveir eignarhlutar. Er þá Ásgrímur eigandi annars hluta hússins en Pétur sonur hans eigandi hins en alls búa 13 manns í þremur íbúðarrýmum það ár. Auk þeirra feðga er Tryggvi Guðmundsson og fjölskylda hans skráð hér til heimilis. Á næst síðasta degi ársins 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins húsið og var því lýst eftirfarandi:
Íbúðarhús, einlyft með kvisti, porti og háu risi á kjallara, skúr við bakhlið. Þak var járnklætt, sem og norðurstafn hússins. Á neðri hæð vestanmegin (gólfi við framhlið) voru tvær stofur og forstofa og austanmegin tvær stofur og eldhús. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fjórar geymslukompur. Kjallara var skipt í fjórar geymslukompur. Tveir skorsteinar voru á húsinu, tengdir fjórum kolaofnum og eldavél. Grunnflötur hússins var 8,8x6,9m og hæðin 6,3m og fjöldi glugga 18 (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 188). Á lóðinni stóð einnig hey- og gripahús úr steinsteypu, 8,8x4,4m að stærð og 2,8m á hæð með pappaklæddu timburþaki. Þar gæti verið um að ræða hús sem Ásgrímur Pétursson fékk að reisa sumarið 1915, peningshús og geymsluhús úr steinsteypu á austurmörkum lóðar. Þessu húsi var breytt í íbúðarhús árið 1922 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson) og varð Norðurgata 6b. Eigendur beggja húseigna voru Sölvi Halldórsson og Guðrún Jónsdóttir. Norðurgata 6b var afmörkuð lóð, sem var raunar við Gránufélagsgötu, en húsið var rifið um 1996 og lóðin aftur lögð undir Norðurgötu rúmum áratug síðar.
Fram kemur í brunabótamati að aðeins norðurhlið hússins er járnklædd. Þegar það er haft í huga, að járnklæðningar timburhúsa voru í árdaga fyrst og fremst hugsaðar sem brunavörn; hvort heldur að eldur breiddist úr brennandi húsi í annað eða að eldur úr öðru húsi læsti sig síður í það næsta, er nokkuð sérstakt, að það var einmitt hliðin sem vissi frá næstu húsum, sem var járnklædd. Ekki aðeins að norðurstafninn sneri ekki að næstu húsum, heldur voru næstu hús því norðan við Norðurgötu 6 staðsett í Glerárþorpi! (Þ.e. ef dregin væri lína um Norðurgötu milli austurs og vesturs). Það var ekki fyrr en 1926, að byggt var austan við Norðurgötu. En mögulega hefur það einmitt ráðið þessum frágangi, norðurstafninn var auðvitað mjög áveðurs fyrir norðanáttum, þó nyti hann skjóls fyrir vestanáttum. Síðar, líklega á 3. eða 4. áratug 20. aldar voru veggir hússins klæddir með steinblikki. Eigandi þá hefur væntanlega verið Sölvi Halldórsson en hann átti húsið og bjó hér fram undir miðja öldina.
Það myndi líklega fylla heila bók og hana þykka að telja upp eigendur og íbúa hússins frá upphafi en á meðal þeirra má nefna Indriða Ragnar Sigmundsson frá Miðvík í Grýtubakkahreppi, sem hér var búsettur um árabil upp úr miðri síðustu öld. Indriði var vörubílsstjóri mestan sinn starfsaldur en hugkvæmdist í sjóróðrum á unga aldri uppfinning, sem hann fékk einkaleyfi á árið 2003, þá kominn á níræðisaldur. Um var að ræða svokallaða hringlínu, sem kannski mætti lýsa sem nokkurs konar veiðifæribandi sem stöðugt fer upp og niður og krækir í fisk á leiðinni. Á 2. áratug þessarar aldar bjuggu hér þau Perla Fanndal og Sigurvin Jónsson. Gerðu þau m.a. miklar endurbætur á lóðinni og voru þar með mikla hænsnarækt, eitt stærsta hænsna- og fuglabú innan þéttbýlismarka Akureyrar á sinni tíð og auk þess sinntu þau ýmissi ræktun í gróðurhúsi á lóðinni.
Húsinu hefur eflaust verið vel við haldið alla tíð og er í mjög góðri hirðu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Húsið myndar einmitt mjög skemmtilega sjónræna heild ásamt næstu húsum sunnan við, en þau eru mjög sviplík að framan með miðjukvisti og inngöngudyr beint neðan við og glugga beggja vegna. Hlutföllin eru þó eilítið öðruvísi í nr. 6 en hinum tveimur, risið hærra og kvistur brattari auk þess sem það stendur á hærri grunni. En heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er mjög samstæð. Í húsakönnun 2020 fær húsið hátt varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020: 90). Myndirnar eru teknar 8. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024. Myndin sem sýnir Norðurgötu 2-4 er tekin 28. ágúst 2010.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021.â¯Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinniâ¯Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð.â¯Virðingabók 1916-1917.â¯Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 â¯Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsinsâ¯Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.â¯Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 415, 30. júlí 1915. â¯Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995.â¯Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:â¯https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf
â¯
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 3
- Sl. sólarhring: 52
- Sl. viku: 511
- Frá upphafi: 444756
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 357
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar