Hús dagsins: Syðri-Varðgjá

Í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri, má sjá gróskumikinn Vaðlareit, Skógarböðin auk blómlegra byggða. Áður var þar margt stórbýlið en eftir því sem þeim hefur fækkað hefur sumarhúsum, heilsárshúsum og íbúðarhúsum að sama skapi fjölgað. Svæði þetta markar ysta hluta Eyjafjarðarsveitar, áður Öngulsstaðahrepps, sem og syðsta hluta Svalbarðsstrandarhrepps. Þarna eru líka sýslumörk Eyjafjarðar- og S-Þingeyjarsýslu, enda þótt sýslurnar séu aflagðar sem stjórnsýslueiningar. Um 700 metrum sunnan við þessi sveitarfélagamörk stendur bærinn Syðri-Varðgjá, nokkuð hátt í aflíðandi brekku ofan Veigastaðavegar. Þar er um að ræða eitt fimm steinhúsa, sem reist voru sumarið 1920, í hreppunum framan Akureyrar og var húsið reist eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar. Stysta akstursleið frá Miðbæ Akureyrar að Syðri -Varðgjá (um Eyrarland og Leifsstaðabraut að Eyjafjarðarbraut eystri) er nálægt 6 kílómetrum. Vaðlareitur er að hluta til í landi Syðri-Varðgjár.IMG_2554

Varðgjá er ekki landnámsjörð en mun vera fornt örnefni, en í Landnámu segir, að Helgi magri hafi gefið Þorgeiri syni Þórðar bjálka, Hlíf dóttur sína, og land frá Þverá út að Varðgjá. Bjuggu þau á Fiskilæk. Varðgjá mun hafa verið klettagjá við fjöruborð, þar sem skip gátu lent en fylltist síðar af framburði lækja. Tilgátan er sú, að verðir hafi jafnan gætt þessarar lendingar í fyrndinni og nafnið þaðan komið. Varðgjáin sjálf gæti því mögulega hafa verið á svipuðum slóðum og Skógarböðin eru nú eða lítið eitt norðar, þar sem klettabelti eru í sjó fram. Var þessi gjá löngum sýslumörk Vaðlasýslu

(síðar Eyjafjarðarsýslu) og Þingeyjarsýslu. Hvenær Varðgjárjörðin byggðist fyrst er ekki ljóst, en kennileitið birtist stöku sinnum í heimildum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Elsta heimildin sem Stefán Aðalsteinsson (2019:2113) nefnir í Eyfirðingum framan Glerár og Varðgjár (hér eftir Eyfirðingar) um jörðina Varðgjá, virðist vera frá 1390. Þá seldi síra Guðmundur Jónsson, í umboði Steinmóðar ríka Þorsteinssonar, Hákoni bónda í Hvammi jörðina Varðgjá. Þannig er ljóst, að jörðin Varðgjá hefur byggst á 14. öld eða fyrr. Um 1650 var jörðinni skipt í Syðri- og Ytri-Varðgjá. Fram til 1852 töldust Varðgjárbæirnir til Suður Þingeyjarsýslu, en hefur líkast til upprunalega verið Eyjafjarðarsýslumegin; til marks um það er, að jörðin hefur alla tíð tilheyrt Kaupangskirkjusókn. Varðgjá hefur einnig verið rituð Vargá eða Vargjá.

Íbúðarhúsið að Syðri-Varðgjá er einlyft steinhús, hlaðið úr r-steini (sbr. Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson 1996: 110) á háum steyptum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu (vestanverðu). Að austan er smár þríhyrndur kvistur fyrir miðju, auk inngönguskúrs. Á vestanverðu eru svalir úr timbri. Krosspóstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Áfast húsinu að norðan eru fyrrum fjós (síðar fjárhús) og hlaða. Grunnflötur íbúðarhússins er 8,3x10,12m og útskot að austan 2,26x2,12m (skv. teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar). Alls er húsasamstæðan 23,47m að lengd í N-S en mesta breidd A-V 13,71m.IMG_2552

Sem fyrr segir er fyrrum fjós og hlaða sambyggt íbúðarhúsinu en á bernskuskeiði steinsteypunnar í sveitum landsins, á fyrri hluta 20. aldar voru þess háttar húsasamstæður móðins. Syðra-Varðgjárhúsið var þó reist stakstætt og stóð þannig í sjö ár, en útihúsin voru reist 1927. Fyrstu árin munu kýrnar hafa verið hýstar í kjallara hússins, en þannig nutu íbúarnir yls frá kúnum. Slíkt fyrirkomulag hafði tíðkast frá alda öðli í óupphituðum baðstofum torfbæja. Þá er auðvitað rétt að geta þess, að samnýting íbúðar- og búpeningsrýma tíðkaðist í gömlu torfbæjunum og var þar almennt um að ræða sambyggingar skepnuhúsa, hlaða, skemma og íbúðarrýma.

Fyrst minnst er á torfbæi, þá stóð auðvitað slíkur á Syðri-Varðgjá frá fornu fari. Sem fyrr segir fluttist Syðri Varðgjá milli sýslna árið 1852, ásamt Ytri-Varðgjá. Þá átti og bjó á Syðri-Varðgjá, Guðmundur Magnússon. Hann var fæddur hér árið 1797 en foreldrar hans, Magnús Hallgrímsson og Þórunn Guðmundsdóttir bjuggu hér á árunum 1794 til 1813. Guðmundur virðist ekki hafa tekið við búinu af foreldrum sínum, því hann sest hér að 1826. Nú kann einhver að spyrja hvað ábúendur á fyrri hluta 19. aldar hafa með núverandi hús að gera, sem reis öld síðar. Svo vill nefnilega svo til, að tengdadóttir Guðmundar Hallgrímssonar, Margrét Kristjánsdóttir, var móðir og tengdamóðir þeirra sem byggðu núverandi íbúðarhús á Syðri Varðgjá. Margrét Kristjánsdóttir, frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði var gift Sigfúsi Guðmundssyni Hallgrímssonar. Sigfús lést hins vegar ungur og bjó Margrét hér sem ekkja í þrjú ár uns hún kvæntist Hermanni Sigurbjarnarsyni. Eignuðust þau fimm börn og tvær dætur þeirra gerðust síðar húsfreyjur á Varðgjárbæjunum. Svava Hermannsdóttir giftist Tryggva Jóhannssyni og bjuggu þau á Ytri-Varðgjá. Aðalbjörg Hermannsdóttir giftist um 1904 Stefáni Stefánssyni frá Tungu á Svalbarðsströnd og tóku þau við búinu á Syðri-Varðgjá sama ár (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2117). Umfjöllun um húsasögu er oft samtvinnuð ættfræði og þá sérstaklega þegar um ræðir bæi, þar sem sömu ættir bjuggu oft mann fram af manni. Þegar ritaðar eru langar ættartölur getur það gerst, að nöfn misfarist. Eru þá ábendingar hvers konar, þar að lútandi, vel þegnar.

Eins og fram hefur komið í þessum pistlum, mætti kalla sumarið 1920IMG_2555 „steinhúsasumarið“ í hreppunum framan Akureyrar. Það þótti nokkrum tíðindum sæta og rataði að þá risu fimm steinhús í þeim sveitum. Steinhús voru þá teljandi á fingrum annarrar handar í héraðinu og ekki voru þau heldur mörg á Akureyri. Það virtist hins vegar koma einhver kippur í byggingu steinhúsa árið 1920 og jókst mjög árin á eftir. Mögulega má rekja þetta til þess, að liðkað hafi um innflutning á sementi, járni og öðrum byggingaaðföngum á þessum árum, en væntanlega hefur allt slíkt verið örðugt á árum fyrri

heimstyrjaldar. Á þessum árum komu einnig fram ungir og metnaðarfullir byggingarfræðingar, sem numið höfðu erlendis, og lögðu fyrir sig hina nýju húsagerðarlist. Nokkurs konar „steinhúsafræðingar“ Má þar m.a. nefna Guðjón Samúelsson, Jóhann Franklín Kristjánsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörn Jónsson, sem einmitt teiknaði Syðri-Varðgjá.

Hinn, þá 24 ára Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýlega hafði numið byggingarfræði Noregi, teiknaði árið 1920 m.a. tvö íbúðarhús í Öngulsstaðahreppi og fáein á Akureyri. (Kannski teiknaði Sveinbjörn einnig Kropp í Hrafnagilshreppi, sem reis sama sumar). Hann hafði árið áður fundið upp r-stein, sérstakan hleðslustein og smíðað þar til gerða vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Íbúðarhúsið á Syðri-Varðgjá var einmitt reist úr þessum merka steini og er líklega annað húsið, sem reist er úr honum. Fyrsta r-steinshúsið var hús Þórhalls Bjarnasonar við Oddeyrargötu 15. Oddeyrargata 15Svo vill þó til, að það hús var líka reist 1920, svo líklega munaði aðeins örfáum vikum á húsunum. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.

Stefán Stefánsson og Aðalbjörg Hermannsdóttir reistu sem fyrr segir núverandi hús að Syðri-Varðgjá. Þau hafa einnig reist fjós og hlöðu úr steinsteypu, áfast íbúðarhúsinu. Ekki fylgir sögunni hver hannaði þær byggingar, en freistandi að álíta, að þau hafi leitað til Sveinbjarnar, sem þá var orðinn sveitungi þeirra; hann teiknaði og reisti húsið Knarrarberg í Öngulsstaðhreppi fáeinum árum áður. Stefán var sem fyrr segir fæddur á Tungu í Svalbarðsstrandarhreppi. Hann bjó hér í 35 ár, en hann fluttist árið 1939 að Svalbarði á samnefndri strönd, þar sem hann stundaði búskap. Hann var þá orðinn ekkjumaður, en Aðalbjörg Hermannsdóttir lést árið 1936, hafði þá búið hér allan sinn aldur. Stefán Stefánsson lést árið 1964 og segir í minningargrein um hann, að á Syðri-Varðgjá hafi þau reist “[...] hvert hús úr rústum og bjuggu við rausn, enda stóð búskapurinn styrkum fótum, þó að húsbóndinn væri löngum önnum kafinn við opinber störf“ (Benjamín Kristjánsson 1964:5). Þannig má áætla, að húsakosturinn hafi ekki verið beysinn, þegar þau hófu uppbyggingu. (Þess má líka geta, að í framangreindri minningargrein eru Stefán og Aðalbjörg sögð hafa gifst árið 1903 en íIMG_2553 Eyfirðingum 1904). Af þeim opinberu og öðrum störfum sem Stefán sinnti má nefna, að hann var lengi ullarmatsmaður Norðlendingafjórðungs, sat í bygginganefnd Húsmæðraskólans á Laugalandi og endurskoðandi hjá KEA í 30 ár. Þá má nefna, að Stefán Stefánsson var föðurbróðir hins kunna landkönnuðar, Vilhjálms Stefánssonar. Hálfbróðir Stefáns, var Jóhann Stefánsson sem fluttist til Norður-Dakóta. Sonur Jóhanns, Vilhjálmur, hlaut föðurnafn hans, Stefánsson, sem ættarnafn, samkvæmt þarlendri hefð.

Árið 1934 var húsakostur Syðri-Varðgjár metinn til brunabóta og lýst nokkurn veginn svona: Íbúðarhús 8x10m að stærð, 7,5m hátt. Tvöfaldir steinveggir og skilrúm í kjallara og stofuhæð úr sama efni. Skilrúm á lofti, sem og loft og gólf úr timbri. Eldavél í kjallara og miðstöðvarketill, 4 radíatorar [svo] í stofum. Raflögn er í húsið, 1 rafeldavél, 3 ofnar, 2 eldstæði og húsið búið vatnsleiðslu. Áfast húsinu er 12 bása fjós og hlaða 13x5m, 4,5m á hæð úr steinsteypu með járnþaki (sbr. Björn Jóhannesson 1934: [án bls.]) Herbergjaskipan var ekki getið. Fimm árum eftir að matsmenn Brunabótafélagsins heimsóttu Syðri-Varðgjá, seldi Stefán Stefánsson jörðina og þangað fluttu þau Pétur Guðmundsson og Aðalbjörg Jónsdóttir. Þau bjuggu aðeins í tvö ár hér, til 1941 en þá settust hér að þau Þorkell Björnsson og Anna Eiríksdóttir, sem bjuggu hér í fjögur ár. Páll Vigfússon og Margrét Benediktsdóttir bjuggu að Syðri-Varðgjá frá 1945 til 1958.

Árið 1958 fluttu að Syðri-Varðgjá þau Egill Jónsson frá Hrolllaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá og Þórdís Þórólfsdóttir frá Stórutungu í Bárðardal. Þau voru einmitt ábúendur hér þegar Byggðum

Eyjafjarðar voru gerð skil í samnefndu ritverki árið 1973, en upplýsingarnar þar miðuðust við stöðuna árið 1970. Þá voru byggingar, auk íbúðarhússins, sem talið var 481 rúmmetri, fjós fyrir 12 kýr, fjárhús fyrir 100 fjár, hesthús fyrir 7 hross og hlöður sem alls tóku 550 hesta af heyi. Það jafngilti metnum töðufeng af 10,7 hektara ræktuðu landi jarðarinnar. Þá var stunduð hér kartöflurækt, á hálfum hektara lands. Bústofn Syðri-Varðgjár árið 1970 samanstóð af 8 kúm, 8 geldneytum, 122 fjár og 7 hrossum (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:411)P2050008

Árið 1990 var húsakosturinn sá sami og 1970 og kemur fram í þeirri bók, að fjárhúsin séu byggð 1927, 1932 og 1947 og elsta fjárhúsið hafi áður verið fjós. Þar er um að ræða húsið, sem áfast er íbúðarhúsinu. Hlöður eru byggðar 1927 og 1934 og eru samtals sagðar 534 rúmmetrar; gamla heyfengsmælieiningin, hestar, er ekki notuð í það skiptið. Geymslur byggðar 1927, 1947 og 1964 eru alls 132 fermetrar. Bústofn er 130 fjár og sjö hross (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:603) Ábúandi er Egill Jónsson, en Þórdís lést árið 1984. Egill Jónsson, sem hét fullu nafni Stefán Egill Jónsson bjó hér fram á síðasta dag, en hann lést árið 2015. Árið 2010 hafði bústofn Egils dregist töluvert saman frá 1990, kindurnar tuttugu og tvær og hrossin þrjú (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:603) Ræktað land árin 1990 og 2010 var 12,3 hektarar.

Árið 1983 var húsið Brekkulækur reist á 1000 fermetra leigulóð, skammt sunnan og neðan Syðri-Varðgjár. Þar voru að verki Þórólfur, sonur Egils og Þórdísar og kona hans Sigrún Kristbjörnsdóttir. Fáeinum árum síðar fluttu þangað Sveinn Egilsson (bróðir Þórólfs) og Guðrún Andrésdóttir.

Á árunum 2018-21 fóru fram gagngerar endurbætur á húsakosti Syðri-Varðgjár, eftir teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar. Á meðal framkvæmda á teikningunum var innrétting á gamla fjósinu, svalir að vestanverðu og kvisturinn á vesturhlið. Í húsinu reka börn þeirra Egils og Þórdísar gistiheimili og hafa endurbæturnar, að utan jafnt sem innan, miðast við það hlutverk. Það verður eflaust enginn svikinn af því að gista þetta glæsta ríflega aldargamla hús í hlíðum Vaðlaheiðar; óborganlegt útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörðinn, sveitina og fjörðinn til beggja átta, fram og út. Endurbæturnar á húsinu eru sérlega vel heppnaðar og kvisturinn setur raunar enn skemmtilegri svip á þetta formfagra en látlausa hús. Syðri-Varðgjá er vitaskuld aldursfriðað hús, þar sem það er byggt árið 1923. Þá hlýtur það að hafa nokkuð byggingarsögulegt gildi, sem annað hús veraldarsögunnar, reist úr r-steini. Húsið stendur á áberandi stað, í brekkunum ofan Vaðlareits og blasir skemmtilega við frá Akureyri. Á næstu árum er fyrirhuguð mikil uppbygging þéttbýlis skammt norðan við húsið, í landi Ytri-Varðgjár. Þá hefur einnig risið nokkuð þéttbýli sunnan hússins, sem kallast Kotra. Verður Syðri-Varðgjá glæstur fulltrúi elstu gerðar steinsteyptra íbúðarhúsa innan um nýju hverfin. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 3. september 2024, en eldri mynd, sem sýnir Syðri-Varðgjá án kvists er tekin 5. febrúar 2011. Myndin af Oddeyrargötu 15 er tekin 10. júlí 2010. 

Heimildir

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1964. „Stefán Stefánsson, bóndi á Svalbarði“. Íslendingur. 27. tbl. 50. árg. bls. 5.

Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.


Hús dagsins: Litli-Hamar

Kannski mætti kalla Tungnafjall, næst sunnan við Staðarbyggðarfjall, nokkurs konar systurfjall hins síðarnefnda. En Tungnafjall er ekki óáþekkt syðsta hluta Staðarbyggðarfjalls, sem nefnist Sigtúnafjall, háar og brattar, hömrum girtar hlíðar og efst mjóar en langar eggjar, svo líkja mætti lögun fjallanna við A-laga tjöld eða brött risþök. Kambsskarð, nyrst í Tungnafjallinu, gefur fjallinu hins vegar ákveðið sérkenni. En fjöll þessi eru auðvitað hlaðin upp af sömu eða sams konar hraunlögum á hundruð þúsundum eða milljónum ára og voru eitt sinn ein heild, eða þar til ísaldarskriðjökull gróf Þverárdalinn á milli þeirra. Neðan Tungnafjalls standa nokkrir bæir en segja má, að strangt til tekið standi bæirnir næst sunnan Þverár efri ekki við rætur Tungnafjalls heldur næsta fjalls sunnan við.  Þar er um að ræða Möðruvallafjall en  norðan úr því gengur langur og aflíðandi háls sem nær eiginlega fram fyrir gjörvallt Tungnafjall. En bakvið háls þennan rennur Mjaðmá úr samnefndum dal austan Möðruvallafjalls og rennur hún í Þverá rétt ofan við brúna yfir gilið mikla. En látum nú staðar numið af landfræðilegum formála. Eins og fjöll fjarðarins mynda skemmtilega sjónræna heild, gera sveitirnar undir þeim slíkt hið sama. Margt glæstra húsa á skemmtilegum bæjarstæðum standa undir Tungnafjalli sem og Möðruvallafjalli, þeirra á meðal er eitt af elstu steinhúsum í sveitunum framan Akureyrar. Um er að ræða hús sem reist var sumarið 1920 á bænum Litla-Hamri. Bærinn stendur í brekku neðan við Eyjafjarðarbraut eystri, skammt sunnan við hið hrikalega gil Þverár efri eða Munkaþverár. Frá Litla-Hamri eru rúmlega 20 kílómetrar til Akureyrar.  P4230956

Rekja má sögu jarðarinnar Litla-Hamars til landnámsaldar en fyrirrennari jarðanna Litla- og Stóra-Hamars var jörðin Hamar, sem byggð var úr landi Þveræinga (Munkaþverár). Er hennar getið í Víga-Glúms sögu en þar mun hafa búið Þorkell nokkur. Þorkell var „[…]  allvel efnum búinn en reyndist lítilmenni“ (Stefán Aðalsteinsson 2019:1407). Næstu ábúendur voru Helga, dóttir Þorkels, og Ingólfur Þorsteinsson en annars fer fáum sögum af jörðinni fyrr en á 15. öld. Þá hafði jörðinni verið skipt í Litlhamar [svo] og Meiri Hamar, síðar Stórhamar. Hvenær nákvæmlega jörðinni var skipt liggur ekki fyrir, en elsta heimildin um „Hamar hinn minni“ er úr jarðaskrá Munkaþverárklausturs frá 1446. Var þá jörðin ein fjölmargra, er klaustrið átti. Þegar manntal var fyrst gert á Íslandi áttu heima á Litla-Hamri þau Jón Björnsson, „ekkjumaður aldurhniginn“, Jón Eyjólfsson, vinnumaður hans og kona hans Aldís Jónsdóttir. Auk þeirra Þórunn Jónsdóttir og sonur hennar Jón Guðmundarbur. Aldís og Þórunn munu hafa verið dætur Jóns. Þá er einnig búsettur hér Sigurður Sigmundsson, sem síðar gerðist bóndi á Kambi (næsta bæ ofan Litla-Hamars). Í stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár má finna ítarlegt ábúendatal fyrir Litla-Hamar (og alla bæi í Eyjafjarðarsveit) frá 1703 til vorra daga, en við skulum stikla á stóru og bera niður við upphaf 20. aldar. Á áttunda áratug 19. aldar var eigandi og ábúandi Jón Davíðsson (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1407). Hann bjó síðar á Kroppi, þar sem sonur hans, Davíð, fæddur hér á Litla-Hamri, reisti veglegt steinhús árið 1920. Svo vildi til að sama sumar var einmitt líka reist steinhús á Litla-Hamri.  

Það mætti hæglega kalla sumarið 1920 „Steinhúsasumarið“ í sveitunum framan Akureyrar en þá risu fimm steinhús í hreppunum þar. Auk Kroppshússins Í Hrafnagilshreppi reis í sama hrepp hús eftir teikningu Guðjóns Samúelsson í Möðrufelli og hús eftir svipaðri teikningu reis einnig í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi. Yst í Öngulsstaðahreppi reis steinhús á Syðri-Varðgjá, eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar og eftir sams konar teikningu reis einnig steinhús í syðstu byggðum hreppsins á Litla-Hamri. Þar var að verki Jónatan Guðmundsson, þá bóndi hér, og uppkomnir synir hans.  

Litli-Hamar er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara,  með háu risi og miðjukvistum báðum megin. Snúa stafnar hússins norður-suður og við norðurgafl er einlyft viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki og er þar bílskúr. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Gluggasetning hússins er nokkuð sérstök en á þeirri hlið sem snýr að Eyjafjarðarbraut eystri er einn gluggi í „venjulegri stærð“  fyrir miðju en tveir smærri gluggar sitt hvoru megin. Undir rjáfrum á kvistum og stöfnum eru bogadregnir smágluggar. Krosspóstar eru í gluggum. Grunnflötur hússins mælist alls um 14x8m á map.is, þar af bílskúrinn norðanmegin um 4 metrar.  

Samkvæmt stórvirkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar) fluttust tveir feðgar hér að Litla-Hamri aldamótaárið. Það voru þeir Guðmundur Jónatansson (1834-1906), fæddur að MIMG_2261 - Copyiklagaðri í Seyluhreppi í Skagafirði og sonur hans, Jónatan, sem fæddur var að Klauf í Öngulsstaðahreppi (skammt ofan og sunnan Laugalands). Guðmundur hafði búið á ýmsum bæjum í hreppnum, m.a. Ytra-Laugalandi, Sigtúnum og Klauf en áður en þeir feðgar fluttust að Litla-Hamri höfðu þeir búið í þrettán ár að Uppsölum. Jónatan var kvæntur Rósu Júlíönu Jónsdóttir frá Illugastöðum í Fnjóskadal og áttu þau þrjú börn, þegar þau fluttu að Litla-Hamri. Eiginkona Guðmundar og móðir Jónatans var Anna Mikaelsdóttur frá Skútum á Þelamörk (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1441).   

Þegar stórfjölskylda þessi flutti að Litla-Hamra stóð þar torfbær eins og almennt tíðkaðist til sveita. Ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður en af Bæjalýsingum og teikningum Jónasar Rafnar má ráða, að hann hafi verið fremur smár, þrjár burstir og undir þeim skáli, bæjardyr og stofa. Önnur rými voru eldhús, göng og baðstofa. Stofan var reyndar með veglegra móti, með millilofti og kjallara og baðstofa var tvíhólfa (sbr. Jónas Rafnar 1975: 121). En líklega hefur torfbærinn verið orðinn ófullnægjandi til íbúðar og mögulega orðinn lélegur, þegar leið á 2. áratuginn.  Svo tímabært var að reisa nýtt íbúðarhús. Á Munkaþverá hafði risið heilmikið steinhús og sama skyldi uppi á teningnum á Litla-Hamri. Árið 1920 réðist Jónatan Guðmundsson svo í byggingu nýja hússins. Væntanlega hafa synir hans þrír, Guðmundur, Gunnar og Tryggvi, sem þá voru um og yfir tvítugt einnig komið að byggingunni. Hönnuður hússins var einnig rúmlega tvítugur, Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýverið hafði lokið byggingafræðinámi í Noregi. (Þess má geta, að Guðmundur, elsti sonur Jónatans, og Sveinbjörn voru jafnaldrar, báðir fæddir 1896).  Sveinbjörn hafði einnig skömmu áður fundið upp nýja gerð hleðslusteins, r-stein og vél til að steypa steininn. Hins vegar mun Litla-Hamarshúsið hafa verið reist úr steinsteypu að mestu leyti en sama sumar, 1920, risu fyrstu r-steinshús veraldarsögunnar.  Þau stóðu (og standa enn) við Oddeyrargötu 15 á Akureyri og Syðri-Varðgjá, yst í Öngulsstaðahreppi.  Tveimur árum síðar reisti Sveinbjörn svo kirkju í Kaupangi úr r-steini.  

Auk þess að hanna og byggja fjölmörg hús á ferli sínum var Sveinbjörn Jónsson mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna, teiknaði m.a. hitaveitu fyrir Kristneshæli árið 1927. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki. Eitt helsta stórvirki Sveinbjarnar er líklega Kaupfélagshúsið við Hafnarstræti 91 sem er eitt af helstu kennileitum Akureyrar á Kaupfélagshorninu svokallaða í Miðbænum.  Einnig má nefna sláturhús á Oddeyrartanga og Sundskálann í Svarfaðardal. Þá teiknaði Sveinbjörn íbúðarhús á næsta bæ við Litla-Hamar, Stóra-Hamri 10 árum síðar. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Svo fátt eitt sé nefnt. Hér er e.t.v. rétt að mæla með ævisögu Sveinbjarnar, Byggingameistari í stein og stál sem Fjölvi gaf út árið 1996.  

Jónatan Guðmundsson telst, skv. Eyfirðingum, bóndi hér til ársins 1925 en þá taka synir hans við búskapnum, Guðmundur árið 1925 og Gunnar ári síðar. Munu þeir hafa átt hvor sinn hluta jarðarinnar. Jónatan bjó þó áfram hér til dánardægurs árið 1942. Þá segir í einni tilkynningu, nánar tiltekið í Íslendingi þ. 7. ágúst 1942, að látist hafi á heimili sínu á Litla-Hamri, „bændaöldungurinn“ Jónatan Guðmundsson. Guðmundur er skráður fyrir búskapnum til ársins 1962 en Gunnar til ársins 1930 en þá mun hann hafa flutt til Snæfellsness. Mun þá Tryggvi hafa tekið við hans jarðarhluta. Bjó Tryggvi hér nánast óslitið áratugum saman, að árunum 1946-50 undanskildum, en þá er Hjalti nokkur Haraldsson skráður bóndi hér (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1442).  

Árið 1934 var Litla-Hamri lýst svo í Brunabótamati: Íbúðarhús, allir útveggir úr steinsteypu og innveggir á neðri hæð. 9x7,3m, hæð 7,5m. Steinskilrúm í kjallara og á stofuhæð. Loft, gólf og skilrúm á lofti úr timbri. Pappaklætt timburþak. Miðstöð á efri hæð, tveir kolaofnar á neðri hæð. Tvær eldavélar við steinsteyptan reykháf. Vatnsleiðsla og skólpleiðsla (Björn Jóhannesson 1934, án bls.).  Ekki er minnst á hvort rafmagn sé í húsinu en slíkt var aldeilis ekki á hverjum bæ árið 1934. Ekki er getið annarra mannvirkja, en þá stóðu einnig hér fjós fyrir 30 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlaða úr torfi og timbri. Þau mannvirki eru einfaldlega sögð „gömul“ í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en í sams konar riti fyrir árið 1990 kemur fram, að þau voru byggð 1916. Ári eftir að matsmenn brunabótafélagsins heimsóttu Litla-Hamar, þ.e. 1935, risu þar fjós, kálfahús, alifuglahús og hlaða úr steinsteypu. Síðar var byggður votheysturn.  

Það er skemmst frá því að segja, að 104 árum eftir byggingu núverandi íbúðarhúss, er Litli-Hamar er enn í eigu og ábúð afkomenda Jónatans Guðmundssonar. Tryggvi Jónatansson var hér bóndi til ársins 1977 er Jónatan, sonur hans, tók við búinu og frá 1986 eru systir hans, Anna Helga Tryggvadóttir og maður hennar Húni Zophoníasson ábúendur hér.  

Árið 1970 eru eigendur hálfrar jarðarinnar og ábúendur téður Tryggvi Jónatansson og Rósa Kristinsdóttir frá Hólkoti á Dalvík. Guðmundur, bróðir Tryggva, er eigandi hálfrar jarðarinnar á móti þeim. Íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð. Byggingar, auk íbúðarhússins, eru fyrrgreindar byggingar frá 1916 og 1935, sem getið er hér að framan. Bústofninn telur 15 kýr, 140 fjár og 3 hross. Túnstærð er 30,96 hektarar og töðufengur mælist 1400 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 362). 

Árið 1990 eru eigendur jarðar þeir feðgar Tryggvi Jónatansson og JónatanIMG_0204 Sigurbjörn Tryggvason, en ábúendur þau Anna Helga Tryggvadóttir og Húni Zophoníasson. Byggingar eru þær sömu en í millitíðinni, þ.e. 1979, hefur risið bílskúr. Þar er íbúðarhúsið sagt 246 fermetrar og bílskúrinn 47 fermetrar. Þar kemur fram, að fjósið er 16 básar, kálfahúsið 64 fermetrar, alifuglahúsið 25 fermetrar og gamla fjárhúsið (frá 1916) fyrir 150 kindur. Hlöðurnar eru alls 1063 rúmmetrar, votheysturn, sem byggður var 1951, er 111 rúmmetrar. Ræktað land er 31 hektari. Bústofninn er 12 kýr, 17 aðrir nautgripir, 121 fjár, 17 hross, 11 hænur og sex alifuglar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 954). 

Þegar Byggðum Eyjafjarðar 2010 voru gerð skil í samnefndu ritverki virðast byggingarnar frá 1916 á bak og burt en hins vegar hafði nýlega (2009) verið reist nýtt kálfahús, það hús ásamt því gamla samtals 223 fermetrar. Þá kemur fram, að fjósið frá 1935 er 91 fermetri en einnig er getið 22 fermetra mjólkurhúss frá 1945, 22 fermetrar. Ekki er minnst á gömlu byggingarnar frá 1916, hlöður eða alifuglahús en hins vegar eru 15 alifuglar m.a. skráðir hér til bústofns. En auk fuglanna fimmtán eru hér 90 geldneyti, 30 fjár og sex hross. Eigendur og ábúendur eru téð Anna Helga og Húni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013: 513).  

Íbúðarhúsið á Litla-Hamri er hið prýðilegasta hús, smekklegt og snyrtilegt. Það er látlaust og einfalt að gerð en hefur þó ákveðin sérkenni, sem gefa því sérstakan svip. Má þar nefna bogadregna glugga, gluggasetningu austurhliðar en einnig gluggapósta en þeir eru ósamhverfir lóðrétt, þ.e. önnur hliðin er umtalsvert breiðari en hin. Húsið er í mjög góðri hirðu, m.a. er á því nýlegt þakjárn. Litli-Hamar er aldursfriðað hús, þar sem það er byggt fyrir 1923. Húsin og trjálundur, sem prýðir hið geðþekka bæjarstæði mynda skemmtilega heild, hvort sem sjónarhornið er ofan frá, af Eyjafjarðarbraut eystri, eða handan ár.  Myndirnar af eru teknar 23. apríl 2020 og 15. apríl 2023 og 8. júlí 2024. 

Heimildir 

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar. 

Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. 

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.  

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. 

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.   


Hús dagsins: Munkaþverá, íbúðarhús

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og hins vegar Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt  hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Á Munkaþverá stendur 180 ára gömul timburkirkja Þorsteins Daníelssonar frá Skipalóni en íbúðarhúsið, sem er tæpra 110 ára gamalt, er ekki síður áhugavert. Hér er um að ræða eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhús sveitanna framan Akureyrar. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar og heimreið frá Eyjafjarðarbraut eystri um 400 metrar.IMG_1199

Jörðin Munkaþverá - örstutt söguágrip

Sögu Munkaþverárjarðarinnar má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Helgi nam Eyjafjörð eins og hann lagði sig en gaf syni sínum land frá Arnarhváli að Þverá hinni efri.  Reisti Ingjaldur hof mikið til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku.  Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klausturins. Unnt er að rekja eigenda- og ábúendatal Munkaþverár nánast óslitið þessi 1100 ár frá dögum Ingjalds Helgasonar til vorra daga. Í því samhengi skal benda á öndvegisritið Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Hér verður aðeins tæpt á nokkrum helstu nöfnum. Eftir daga Ingjalds Helgasonar tók sonur hans Eyjólfur, við jörðinni og tók Glúmur sonur Eyjólfs, við búinu af honum. Glúmur þessi varð þekktur undir nafninu Víga-Glúmur. Var það einmitt eftir vígaferli, sem Einar Eyjólfsson frá Möðruvöllum fékk dæmda hálfa Þverá af Víga-Glúmi í bætur, auk þess sem sá síðarnefndi var gerður brottrækur úr sveitinni. Hinn helminginn af Þverárlandi mun Einar hafa keypt af Grundarmönnum. Var Einar höfðingi mikill og löngum nefndur Einar Þveræingur. Helst er hans minnst í Íslandssögunni, fyrir að hindra að Ólafi Noregskonungi yrði gefin Grímsey. Það mun hafa verið seint á 10. öld, að Einar Eyjólfsson eignaðist Þverá og gekk hún í erfðir í nokkra liði meðal afkomenda hans í karllegg allt til miðrar 12. aldar, að jörðin var lögð undir klaustur. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem lagði klaustrinu til jörðina, en hana erfði hann eftir föður sinn, Gils Einarsson. Sá var langalangafabarn Einars Þveræings (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1467).

Á Munkaþverá var klaustur fram að siðaskiptum, eða í nær 400 ár, og þar voru ábótar jafnframt bústjórar. Munkaþverárklaustur var jafnan löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199). Byggingar hafa verið miklar í tíð klaustursins. Stórbruni varð á svæðinu 1429 sem eyddi nánast öllum byggingum en allt var endurbyggt. Eigandi Munkaþverár á árunum 1695-1725, Sveinn Torfason, endurbyggði ýmsar klausturbyggingar m.a. forna kirkju, sem fauk árið 1706. Núverandi kirkja, byggð 1844, leysti af hólmi kirkju Sveins frá upphafi 18. aldar.  Árið 1772 eyddust margar byggingar í bruna, en síðustu eftirhreytur klausturbygginga munu hafa staðið fram yfir aldamótin 1800. En berum nú niður við næstu aldamót þar á eftir.IMG_0203

Íbúar og húsakostur á Munkaþverá í upphafi 20. aldar

Þegar 20. öldin gekk í garð, stóð torfbær á Munkaþverá, eins og á langflestum bæjum í hreppunum framan Akureyrar og víðast hvar í sveitum landsins. Munkaþverárbærinn var þó einn hinn stærsti og veglegasti í Öngulsstaðahreppi.  Í honum voru a.m.k. sex rými sem flokkast gátu sem nokkurs konar stofur eða íveruherbergi (sbr. Jónas Rafnar 1975:123) og á honum voru fimm burstir. Þá voru tvær smærri burstir sambyggðar, þar sem voru smiðja og skemma. Munkaþverárbærinn var talinn vera frá 18. öld, mögulega hefur hluti hans verið byggður upp eftir brunann 1772, jafnvel fyrr. Hér má sjá mynd af gamla Munkaþverárbænum. Í upphafi 20. aldar var tvíbýlt á Munkaþverá. Þar bjuggu annars vegar þau Jón Jónsson hreppstjóri og kona hans Þórey Guðlaugsdóttir sem áttu 2/3 hluta jarðarinnar. Þau voru komin á efri ár, en tvö börn þeirra, Stefán og Þorgerður, bæði á fertugsaldri um 1900, bjuggu með þeim og hafa væntanlega annast búskapinn ásamt þeim. Eldri systir þeirra Stefáns og Þorgerðar var Kristína. Hún og maður hennar, Júlíus Hallgrímsson, áttu og bjuggu á þriðjungi jarðarinnar (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018). Júlíus sem hét fullu nafni Einar Júlíus Hallgrímsson, lést fyrir aldur fram árið 1902 en Kristína bjó áfram hér. Jón Jónsson lést vorið 1905 og Þórey Guðlaugsdóttir fjórum árum síðar. Við lát Þóreyjar móður sinnar eignaðist Stefán Jónsson alla jörðina, en leigði systur sinni þann hluta sem hún hafði búið á. Sama sumar kvæntist Stefán, Þóru Vilhjálmsdóttur frá Laufási í Grýtubakkahreppi, þann 27. júní 1909 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1488). P7100033Fljótlega fóru þau að huga að endurnýjun húsakosts. Víða í eyfirskum sveitum viku torfbæirnir  fyrir timburhúsum og á 2. áratug 20. aldar voru steinhús farin að rísa á Akureyri. Eitt fyrsta stóra steinsteypuhús þar í bæ reistu þeir bræður Friðrik og Einar Einarsson við Strandgötu 45 árið 1914. Mun Friðrik, sem var beykir, hafa haft veg og vanda að hönnun byggingarinnar.  Nokkru fyrr hafði eitt stærsta verksmiðjuhús (Gefjunarhúsið, rifið í ársbyrjun 2007) landsins risið á Gleráreyrum.  Handan Eyjafjarðarár hafði Magnús á Grund reist mikið steinsteypt samkomu- og íbúðarhús úr steini árið 1910, í stað fyrirhugaðs timburhúss, sem brann til ösku á byggingarstigi. Var það um svipað leyti, sem Stefán Jónsson lagði drög að steinsteyptu húsi, ekki ósvipað að stærð og gerð og hús þeirra bræðra á Oddeyrinni.

Nýja íbúðarhúsið og mennirnir á bakvið það

Þann 15. júlí 1915 birtist eftirfarandi frétt í blaðinu Norðurlandi: „Steinhús mikið ætlar Stefán Jónsson óðalsbóndi á Munkaþverá að byggja á bæ sínum í sumar. Jóh. Kristjánsson byggingameistari stýrir verkinu og ættu bændur hér í firðinum að nota tækifærið og finna hann“ (án höf. 1915:1). Ætla mætti, að hér séu bændur fjarðarins hvattir til að leita til byggingameistarans og kynna sér þessa nýjung, sem steinhúsin voru, með það augnamiði, að reisa sér slík. En Jóhann Kristjánsson fékkst einmitt við ráðgjöf og húsahönnun vegna steinhúsabygginga bænda. Þá er einnig sá möguleiki, að þetta sé í og með atvinnuauglýsing: Menn sem áhuga hafi geti komið og lagt hönd á plóg við bygginguna. Samkvæmt Kristínu Jónsdóttur (2018, án bls.) komu margir bændur í sveitinni að byggingunni. 

Stefán Jónsson fæddist í gamla bænum á Munkaþverá, þann 19. mars 1866.  Stefán, sem nam við Möðruvallaskóla í Hörgárdal, árin 1883 – 86, hélt til Ameríku árið 1890 og dvaldist þar í fimm ár, nánar tiltekið í Grand Forks í Norður-Dakóta. Tveir eldri bræður höfðu flust þangað á upphafsárum Vesturferða, 1875, og ílengdust þar. Dvölin Vestra mun hafa haft mikil áhrif á hann að því leyti til, að hann var mjög framfarasinnaður og vildi tileinka sér nýja tækni og vinnubrögð og mun hafa haft mikið dálæti á amerískum búnaðarháttum. Var það einna helst heimssýningin mikla í Chicago árið 1893 sem vakti hjá honum hugmyndir og hugsjónir um hinar ýmsu framfarir. Það er kannski til marks um framfarasemi hans, að hann reisti steinsteypt íbúðarhús fyrstur manna í Öngulsstaðahreppi, ekki löngu eftir að steinsteypan hélt innreið sína í Akureyrarkaupstað. Þá var og ekki fyrr kominn rafstraumur á kaupstaðinn að Stefán hófst handa við að rafvæða nýja húsið (nánar um þá framkvæmd síðar). Hinum miklu undrum og kostum rafmagnsins hafði Stefán einmitt kynnst á heimssýningunni í Chicago (sbr. Benjamín Kristjánsson 1945: 99). Nánar um þá framkvæmd síðar. Stefán var mjög ötull við hin ýmsu félags- og trúnaðarstörf, hann var hreppstjóri Öngulsstaðahrepps um árabil og sat í stjórn KEA óslitið í meira en 30 ár. Stefán Jónsson á Munkaþverá hlaut riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu 1. desember 1938. Hann lést 9. nóvember 1943.

 Byggingameistari við byggingu Munkaþverárhússins var Jóhann Franklín Kristjánsson, frá Litlu-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Hann hafði numið trésmíði á Akureyri en hélt árið 1908 til Noregs, þar sem  hann m.a. namIMG_1201 húsagerðarlist við Kongelig Norske Kunst og Handverksskole. Þar mun hann hafa lokið prófi árið 1914 og hélt þá heim, þar sem hann tók til starfa sem byggingarráðunautur hjá Búnðarsambandinu. Var hann þar sérlegur ráðgjafi og leiðbeinandi bænda við byggingu steinhúsa (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108).  (Ólafur J. Engilbertsson 2021:14, segir Jóhann reyndar hafa hafið þessi störf 1913 en látum það liggja milli hluta). Það var Guðmundur Hannesson héraðslæknir sem stóð fyrir ráðningu Jóhanns en þeim var báðum mjög umhugað um bættan húsakost til sveita og beittu sér fyrir því málefni. Jóhann fór víða um sveitir landsins og mun hafa teiknað og stýrt byggingu fjölmargra húsa. Jóhann hafði umsjón með þessum málefnum þegar stofnaður var svokallaður Búnaðar- og landnámssjóður árið 1928 þar sem starfrækt var teiknistofa, sem frá og með árinu 1938 nefndist Teiknistofa landbúnaðarins. Tók þá Þórir Baldvinsson við forstöðunni, en Jóhann hélt hins vegar áfram störfum sem byggingameistari og hönnuður.   Munkaþverárhúsið, sem reist var á árunum 1915 til 1917 var þannig eitt af fyrstu verkefnum hans á löngum og farsælum ferli. Byggingameistarar þessa tíma voru margir hverjir sannkallaðir frumkvöðlar, þegar nýtt byggingarefni hélt innreið sína auk ýmissa innviða, lagna og annars slíks sem fylgdi í kjölfarið. Jóhann mun t.d. hafa fundið upp aðferð til þess að gera útveggi tvöfalda úr sementssteypu, auk móta þar sem steypa mátti steina án vélbúnaðar. Þá endurhannaði hann eldavélar sem tíðkast höfðu, eins og segir í minningargrein Snorra Sigfússonar: „[Jóhann] endurbætti eldavélina með nýrri gerð um reykganginn. Eru slíkar vélar víða komnar í sveitabæi til hagsbóta og hlýindaauka þar, og bera þessar vélar hugkvæmni hans gott vitni“ (Snorri Sigfússon 1952:2). Þessi nýja eldavél, sem einnig nýttist til húshitunar var uppfinning Jóhanns og er hin valinkunna Sólóeldavél (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108) sem meira að segja enn í dag þykir þarfaþing t.d. í fjallaskálum.  Auk Jóhanns Franklín mun annar Jóhann og sá var Eyjólfsson (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018) einnig hafa verið með í ráðum við bygginguna. Jóhann Eyjólfsson var frá Sveinatungu í Borgarfirði og hafði tveimur áratugum fyrr staðið fyrir byggingu fyrsta steinsteypuhúss landsins á þeim bæ.

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu. Á bakhlið er aflangur kvistur með aflíðandi, einhalla þaki. Tvískiptir krosspóstar eru í flestum gluggum, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Undir rjáfri eru smáir gluggar á stöfnum og efst á kvisti er smár, sporöskjulaga gluggi.  Á suðurstafni er útskot eða forstofubygging. Grunnflötur mælist um 14x9m á kortavef og útskot á suðurstafni um 2x6m. Húsið tengist að norðvestan tvílyftu steinsteyptu húsi, sem reist var sem íbúðarhús árin 1931-33 en er nú nýtt sem geymsla. 

Nýja íbúðarhúsið var reist fast upp við syðsta hluta torfbæjarins (suðurstofu) og var reist tengibygging eða skúr þar á milli. Þar var annars vegar gengið inn í gamla bæinn en hins vegar voru tröppur að aðalinngangi nýja hússins, sem var norðanmegin. Útskotið sunnanmegin var nokkurs konar spariforstofa Stefáns og Þóru.  Framan af voru lengst tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð. Á neðri hæð bjuggu þau Stefán Jónsson og Þóra Vilhjálmsdóttir en systursonur Stefáns, Jón Marinó Júlíusson og kona hans Sólveig Kristjánsdóttir á rishæðinni. Flutt var inn í húsið árið 1918 en skráð byggingarár þess er 1917.  Þótti húsið sérlega stórt og veglegt miðað við það sem tíðkaðist til sveita og dæmi um að fólk kæmi úr nágrenninu, jafnvel frá Akureyri til að berja hið nýja steinhús augum. Sérstaklega þótti kjallarinn rúmgóður og raunar svo, að hann nýttist íbúum Öngulsstaðahrepps sem leiksvið. Settu hreppsbúar þarna á svið Skugga-Svein, Matthíasar Jochumssonar, fljótlega eftir að húsið var byggt.  Um 1924 byggði Ungmennafélagið Ársól félagsheimili fast norðan við íbúðarhúsið, voru þá rifin tvö þil af gamla bænum og húsið byggt í skarðinu. Rættist þá úr húsnæðisþörf hvað varðaði samkomur og leiksýningar Öngulsstaðahrepps. Reyndar var samkomuhald í þinghúsi á Þveráreyrum ytri, en þangað hefur mögulega verið full langt að fara fyrir íbúa syðstu bæja hreppsins. Ekki fer sögum af fleiri leiksýningum í kjallara Munkaþverárhússins en fyrir kom, að slegið væri upp dansleikjum í eldhúsi efri hæðar (sem var undir aflíðandi kvistinum á bakhlið, svo lesendur geti gert sér plássið í hugarlund).

Rafstöðin

Í Ameríkudvöl sinni á 10. áratug 19. aldar hafði Stefán Jónsson á Munkaþverá m.a. kynnst undrum rafmagnsins. Það leið þó á löngu þar til slíkt var raunhæfur möguleiki í sveitum landsins. Um 1920 voru komnar rafstöðvar við fáein hús á Akureyri og þar var rafveita tekin í notkun 1922. Góðvinur Stefáns, einnig framfarasinnaður frumkvöðull, Magnús Sigurðsson, hafði reyndar löngu fyrr (um 1906) athugað möguleika á raflýsingu á Grund en ekkert orðið úr. Sama ár og rafveitan var tekin í notkun á Akureyri hófust framkvæmdir við virkjun Þverár. (Hér ekki nefnd Munkaþverá, til aðgreiningar frá bænum).  Voru það Stefán og systurbörn hans, Jón, Hallgrímur og Margrét Júlíusbörn, í félagi við rafstöðvarbygginguna, en þau systkin bjuggu á efri hæð hússins. Til ráðgjafar fengu þau sænska verkfræðinga, Einar Celion og Olof Sandell, sem þá voru staddir á Akureyri til undirbúnings Glerárvirkjunar. Byggð voru stífla og stöðvarhús og 17 staurar reknir niðu undir línulögn að íbúðarhúsinu. Jón P6100904Jóhannesson, eiginmaður Margétar Júlíusdóttur, mun hafa haft veg og vanda af umsjón byggingaframkvæmda, en margir komu að þeim. Var það Ásgeir Bjarnason, raffræðingur frá Siglufirði, sem sá um uppsetningu rafbúnaðar. Við þetta tækifæri var einnig lagt rafmagn í kirkjuna og Borgarhól (næsta bæ ofan og norðan Munkaþverár). Þegar Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu annað íbúðarhús 10 árum síðar fékk það einnig að njóta rafmagnsins frá Þverá efri. Rafstöðin þjónaði þessum húsum í nærri 35 ár, en árið 1957 tengdist Munkaþverá rafmagni frá Laxárvirkjun. En það var árið 1923 sem rafstöðin á Munkaþverá var gangsett. Við skulum gefa Laufeyju Stefánsdóttur orðið: Mér er í fersku minni þegar vélarnar í Munkaþverárstöðinni voru gangsettar árið 1923. Uppi á efri ganginum í íbúðarhúsinu var stór trétafla með mælum sem mældu spennuna og var sveif á henni. Heimilisfólkið sem þá var um 20 manns safnaðist saman á ganginum og horfði með lotningu á þegar faðir minn [Stefán Jónsson] sneri sveifinni og ljósin kviknuðu. Það var hátíðleg stund (Laufey Stefánsdóttir 1993:9).  Ári og öld, bókstaflega, eftir að heimilisfólkið á Munkaþverá horfði andaktugt á þegar kviknaði á ljósaperunni (verði ljós og það varð ljós) er óhætt að fullyrða, að beinlínis öll tilvera hins vestræna heims grundvallist af rafmagninu.

Húslýsingar  

Í brunabótamati árið 1934 er íbúðarhúsinu á Munkaþverá lýst þannig: Íbúðarhús 13x8,5m, hæð 8,5m. Útveggir úr tvöfaldri steinsteypu, skilrúm úr sama efni eftir endilöngu húsinu upp að ytri bitum, tvö timburskilrúm sömuleiðis. Loft, gólf og önnur skilrúm úr timbri. Járnvarið þak. Þá eru í húsinu kolaofn og nokkrir rafofnar, vatnsleiðsla og vatnssalerni. Áfastur skúr úr timbri, 4x3m, hæð 3m. Þar er væntanlega um að ræða skúrinn, sem byggður var milli gamla bæjarins og nýja hússins.   Af öðrum byggingum má nefna tvö fjós, bæði með steinveggjum, annað með torfþaki en hitt með járnvörðu þaki. Tvær hlöður sömuleiðis, önnur steinsteypt en hin alfarið úr torfi. Þá er sjálfsagt að láta fylgja hér með lýsingu á Ungmennafélagshúsinu, en það var rifið um 1980: Það hús var 9x5,2m að stærð, 3,2m hátt með steinveggi á tvo vegu og timbur á aðra tvo vegu. Leiksvið úr timbri í öðrum enda, loft og golf sömuleiðis úr timbri. Kolaofn með steyptum skorsteini (sbr. Björn Jóhannesson 1934: án bls).

 Í þessum brunabótavirðingum Öngulsstaðahrepps er herbergjaskipan ekki lýst en í tilfelli Munkaþverárhússins kemur það aldeilis ekki að sök. Við heimildaöflun fyrir þennan pistil rak á fjörur höfundar einhver sú ítarlegasta, nákvæmasta og skilmerkilegasta húslýsing sem hann hefur augum litið. Á Sarpinum svokallaða, má finna lýsingu Kristínar Jónsdóttur myndlistarkonu, sem jafnan kennir sig við Munkaþverá, en hún er dóttir Jóns Marinós Júlíussonar og Sólveigar Kristjánsdóttur.  Lýsir hún gaumgæfilega innra skipulagi hússins eins og það var á 4. og 5. áratugnum og þar má einnig finna teikningu Kristínar,  sem sýnir efri hæðina. Það var gengið upp á efri hæðina í norðausturhorni hússins. Þaðan var gengið inn í eldhús, sem var undir aflanga kvistinum á bakhlið. Um miðja rishæð var gangur þar sem gengið var inn í íveruherbergi efri hæðar, stofa fyrir miðju en herbergi undir súð; svefnherbergi fjölskyldunnar vestanmegin en gestaherbergi austanmegin. Kvisturinn að framanverðu tilheyrði neðri hæð, þar gistu jafnan gestir þeirra Stefáns og Þóru. Norðvestanvert á rishæð var svokallað piltaherbergi eða piltaloft og milli þess og kvists svokölluð „Dimmakompa“, þar sem stigi var upp á háaloft. Á piltaloftinu sváfu vinnumenn Stefáns.

Á neðri hæð minnist Kristín einna helst tveggja stóra stofa; stór stofa með tveimur gluggum að vestanverðu sem kölluð var baðstofan og gestastofan, sem prýdd var mjög skrautlegum og vönduðum húsbúnaði og munum. Suðurforstofan, útbyggingin, mun hafa verið nokkurs konar spariforstofa. Í kjallara voru búr, mjólkurbúr, þvottahús og geymslurými. Meginrýmið var að vestanverðu, svokallaður stóri kjallari. Það var þar, sem Skugga-Sveinn var settur upp í árdaga hússins. Þar voru dyr út á hlað að vestanverðu og auk almenns geymslurýmis var miðstöðvarketillinn staðsettur þar. Það fylgir sögunni, að hann tengdist aðeins upp á neðri hæð, engir miðstöðvarofnar voru á efri hæð, en þar var hins vegar kolaeldavél. Á gólfum voru ýmist fjalir eða linoleumdúkar, veggir panelklæddir eða þiljaðir en veggfóður í sumum vistarverum (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018).

Hér er hlaupið á algjöru hundavaði yfir hina mögnuðu lýsingu Kristínar af innra skipulagi Munkaþverárhússins. Rétt er að mæla með lestri  þessarar frásagnar í fullri lengd: Hér er nánast hverju einasta skúmaskoti, krók og kytru í húsinu lýst sérlega nákvæmlega, og sögur á bak við hvert einasta atriði, t.d. húsgögn, stigahandrið og jafnvel dúka á borðum. Auk þess segir hún frá eigin upplifun af húsinu, munum, heimilishaldi, og fólkinu sem þarna bjó, svo að úr verður skemmtileg blanda af æviminningum og húslýsingu. Allt verður þetta einstaklega ljóslifandi fyrir lesanda. Það er viss ókostur, að svona langur texti er e.t.v. ekki þægilegur aflestrar af tölvuskjá, en hann er um 30 blaðsíður. https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069 (Ath. það þarf að smella á „Lesa meira“ eða „Opna í lesham“ svo allur þessi magnaði texti birtist í heild sinni). Þessi lýsing er öll í þátíð, enda hefur herbergjaskipan væntanlega tekið miklum breytingum. Íbúðin á efri hæð skemmdist t.d. töluvert í bruna í júní 1944 og var innréttuð á annan hátt eftir það. Nú mun húsið vera einbýlishús.

Fast við íbúðarhúsið á Munkaþverá stendur steypt bygging, sem flestum gæti sýnst vera fjósbygging eða eitthvað slíkt. Það er þó ekki svo, heIMG_1203ldur er um að ræða íbúðarhús sem Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu sér árin 1931-33. Kallaði Kristín Jónsdóttir það hús Mögguhús, og hér má sjá uppdrátt hennar af því. Þar hefur hins vegar ekki verið búið áratugum saman og húsið nýtt sem geymsla. Skömmu eftir byggingu þess byggði Stefán Jónsson skúr sem tengdi íbúðarhúsin saman og var þar kominn nokkurs konar sameiginlegur inngangur.

Síðari áratugir og niðurlag

Það er skemmst frá því að segja að Munkaþverá er enn í eigu og ábúð sömu fjölskyldu og byggði núverandi hús. Að ytra byrði er húsið lítið sem ekkert breytt frá upphaflegri gerð. Við skulum bera niður á árunum 1970, 1990 og 2010 þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil, í samnefndum ritverkum.

Ábúendur og eigendur árið 1970 voru þau Jón Stefánsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir frá Efra-Ási í Hjaltadal. Jón var fæddur hér, sonur Stefáns Jónssonar. Þarna er íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð, en aðrar byggingar eru fjós fyrir 31 kú og kálfafjós, fjárhús fyrir 200 fjár, hesthús fyrir 22 hross, hlöður og votheysgeymslur. Allar byggingar steinsteyptar. Túnstærð er 28,47 hektarar, töðufengur um 1700 hestar og úthey um 800 hestar. Bústofninn telur 24 kýr, 25 geldneyti, 190 fjár og 22 hross, svo hesthúsið er m.ö.o. fullsetið (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 365).

Árið 1990 eru ábúendur þau sömu og 1970, en nú hafa margar byggingar verið endurnýjaðar. Byggingarára annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókunum. Þá eru íbúðarhúsin mæld í fermetrum, ekki rúmmetrum og er íbúðarhúsið sagt 345 fermetrar. Byggingar á Munkaþverá, auk íbúðarhússins eru eftirfarandi: Hlöður, byggðar 1928, 1976 og 1990, samtals 5217 rúmmetrar. Fjós byggt 1972, 48 básar og geldneytapláss, fjárhús byggt 1990 fyrir 200 kindur. Vélageymsla byggð 1950, 132 fermetrar. Þá eru taldar geymslur byggðar 1931, 1934 og 1950 og þær frá 1931-34 eru væntanlega íbúðarhús Jóns og Margrétar. Bústofninn 1990 telur alls 90 nautgripi, þar af 40 kýr, 198 fjár og 24 hross. Ræktað land er 59,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 963). Jón Stefánsson lést árið 2006 en árið 2010 er Aðalheiður Guðmundsdóttir eigandi jarðar og ábúandi, sem og synir hennar Jón Heiðar og Vilhjálmur Björn. Byggingar eru þær sömu árið 2010 og þær voru árið 1990, ræktað land mælist 59 hektarar og bústofninn telur 41 kú, 38 aðra nautgripi, 141 fjár og 16 hross (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:519).

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er aldursfriðað eins og öll hús sem byggð eru fyrir 1923. Sögulegt gildi hússins, sem eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið í sveitunum framan Akureyrar og það fyrsta til að rafvæðast, hlýtur að vera töluvert. Enn má sjá ummerki um rafstöðina í gilinu, skammt ofan og austan við Eyjafjarðarbraut eystri. Húsið er formfagurt en látlaust og til mikillar prýði og nýtur sín vel á skemmtilegu bæjarstæði. Ásýnd Munkaþverár er einkar geðþekk; skógarlundur, kirkja, íbúðarhús og aðra byggingar mynda skemmtilega heild undir brekku á eyrum við hrikalegt gil. Og hér drýpur sagan af hverju strái, enda hefur hér verið búið í um 1100 ár, hér var klaustur í hundruð ára og staðinn sátu jafnan höfðingjar.

Nærmyndirnar af íbúðarhúsinu eru teknar 7. október 2023 og myndir af bæjarstæðinu sem teknar eru með aðdrætti þann 15. apríl 2023. Myndin af leifum rafstöðvarmannvirkja er tekin 10. júní 2019. Myndin af Strandgötu 45 er tekin 10. júlí 2013. 

Heimildir:

Án höfundar. 1920. „Steinhús mikið“ Norðurland 15. júlí 28. tbl. 15. árg. bls. 1. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1945. „Stefán Jónsson, bóndi á Munkaþverá“ Nýjar kvöldvökur 38: 97-100. Sjá tengil í texta.

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Kristín Jónsdóttir. 2018. Munkaþverá í Eyjafirði. Svarsending við Sarpur: 117 Heimilislíf, húsbúnaður og hversdagslíf, spurningalisti settur fram 2012 af Þjóðminjasafninu. Safnnúmer B - 2012-3-126. Sótt 8. ágúst 2024 á slóðinni: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069

Laufey Stefánsdóttir. 1993. „Um rafstöðina á Munkaþverá.“ Súlur Norðlenskt tímarit 33: 6-10.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ólafur J. Engilbertsson o.fl. 2021. Þorsteinn Baldvinsson arkitekt. Reykjavík: Sögumiðlun.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar. 


Hús dagsins: Kroppur

Einn af vinsælli áfangastöðum Eyjafjarðarsveitar er Jólagarðurinn, sem margir kalla í daglegu tali, Jólahúsið. Á hól miklum, skammt þar ofan og norðan við, stendur reisulegt steinhús frá fyrsta fjórðungIMG_0019i 20. aldar, eitt af elstu steinsteyptu íbúðarhúsum hreppanna framan Akureyrar. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Kroppi, en þess má geta að lóð Jólagarðsins er úr landi Kropps. Húsið er einfalt og látlaust að gerð en stendur á skemmtilegu og áberandi bæjarstæði, enda þótt trjágróður hafi að einhverju leyti byrgt sýn að því. Frá Kroppi eru um 13 kílómetrar í Miðbæ Akureyrar. Á Kroppi hefur ekki verið búskapur í rúma tvo áratugi en þar er nú fyrirhuguð bygging stórfellds þéttbýliskjarna.  

Íbúðarhúsið á Kroppi er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á lágum kjallara.  Að norðan er viðbygging, einlyft með aflíðandi einhalla þaki. Stafnar hússins snúa austur-vestur og á suðurhlið þekju er miðjukvistur. Veggir eru járnklæddir og krosspóstar í flestum gluggum. Grunnflötur er 8,70x13,25m, eldra hús 6,72m að breidd en viðbygging 6,53m (sbr. teikningar Þrastar Sigurðssonar, 2002). Hér eftir er vísað til hússins ýmist sem íbúðarhússins að Kroppi eða Kropps.

Í ritverkinu Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar)  segir svo um Kropp: „Kroppur í Hrafnagilshreppi er ágætis jörð, að talið er, og hafa oft búið þar efnabændur og jörðin verið í einkaeign frá öndverðu“ (Stefán Aðalsteinsson 2019:259). Þar kemur jafnframt fram, að lítið komi Kroppur við sögu fyrr á öldum, en þar hafi búið á söguöld Steingrímur Örnólfsson, bróðir Þorvarðar Örnólfssonar á Kristnesi, sem kom við sögu í Víga-Glúms sögu. Bræður þessir voru fæddir um 930 og hafa því búið á þessum tveimur jörðum um miðja og síðari hluta 10. aldar. Höfundi þykir freistandi að giska á, að mögulega hafi Steingrímur byggt jörðinaIMG_0238 Kropp úr landi bróður síns á Kristnesi, en hefur ekkert fyrir sér í því. Alltént eru jarðirnar samliggjandi. Sturlunga getur Kropps einu sinni, en þar bjó Björn nokkur sem grunaður var um grályndi og talinn allvitur. Björn þessi var uppi á 13. öld. Árið 1451 kemur Kroppur fyrir í kaupmálabréfi milli þeirra Guðmundar Sigurðssonar og Guðnýjar Þorsteinsdóttur á Myrká í Hörgárdal. Þar lagði Guðný fram jarðirnar Kropp og Grísará á móti hlut Guðmundar, sem þá voru í eigu föður hennar, Þorsteins Höskuldssonar.  Á næstu öldum eru heimildir um Kropp fyrst og fremst vegna eigendaskipta. Árið 1520 átti Gottskálk biskup Nikulásson á Hólum, skv. Erfðaskrá, Kropp, ásamt fjölda nærliggjandi jarða. Komust þær undir Hólakirkju en Kroppur var seldur úr hennar eigu um 1550. Árið 1712, þegar jarðatal fyrir Ísland var unnið var Kroppur eign Jóns Brandssonar, sem hér bjó og Þórkötlu Ólafsdóttur í Lögmannshlíð og áttu þau sinn helminginn hvort (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 259-269). Förum nú hratt yfir sögu til síðari hluta 19. aldar. Árið 1879 fluttu á Kropp þau Jón Davíðsson og Rósa Pálsdóttur, en þau höfðu áður búið á Litla-Hamri í Öngulsstaðahreppi, þar sem Jón var uppalinn.  Á meðal barna þeirra var Davíð Jónsson. Hann hóf búskap á Kroppi árið 1895 en tók þó ekki við búinu af foreldrum sínum og verður það útskýrt hér örlítið síðar. Þegar Davíð fluttist hingað stóð myndarlegur torfbær á Kroppi en aldarfjórðungi síðar var hann orðinn ófullnægjandi húsakostur þessarar ágætu jarðar. Á einhverjum bæjum í Eyjafirði höfðu risið ný timburhús en á Kroppi skyldi það vera steinsteypa.

Þann 28. júlí 1920 birtist eftirfarandi örfrétt í dagblaðinu Degi: „Íbúðarhús úr steini er verið að reisa á eftirfarandi bæjum hér í Eyjafirði í sumar: Syðri Varðgjá, Kaupangi, Litla-Hamri og Kroppi“ (M.J. 1920:55).P4230956 Ekki voru fleiri orð um það, en þetta sumar hefur verið sannkallað steinhúsasumar í Eyjafirði. Svo skemmtilega vill til, að öll þessi hús standa enn og einnig er það skemmtileg tilviljun, að Davíð Jónsson hafi einmitt reist sitt hús sama sumar og reist var steinhús á Litla-Hamri, jörðinni þar sem hann var fæddur og uppalinn. Hvað hönnuði þessara húsa varðar er vitað, að Möðrufell og Kaupangur voru reist eftir nokkurn veginn sams konar teikningum Guðjóns Samúelssonar. Litla-Hamar og Syðri-Varðgjá teiknaði hins vegar Sveinbjörn Jónsson. En hver teiknaði Kropp? Um það hefur höfundur engar heimildir P2050008undir höndum en húsið er ekki ósvipað að gerð og framangreind hús sem Sveinbjörn teiknaði. Þá er það áþekkt húsum sem hann teiknaði á Akureyri, t.d. Brekkugötu 10 og Oddeyrargötu 1. Það rennir þó ekki endilega stoðum undir það, að Sveinbjörn hafi teiknað Kropp; á þessum upphafsárum steinsteypunnar hérlendis voru steinhús almennt sviplík hvert öðru í stórum dráttum. Voru þau reist með því lagi, sem algengast var í einföldum timburhúsum t.d. ein hæð, hátt ris og stundum kvistur. En það var semsagt sumarið 1920 sem nýtt steinsteypt íbúðarhús reis af grunni á Kroppi. Í Byggðum Eyjafjarðar er húsið reyndar sagt byggt 1919 (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738) og því máP6220763 leiða líkur að því, að þá hafi bygging þess hafist.

 

 

Davíð Jónsson var fæddur þann 12. september 1872, sem fyrr segir, að Litla-Hamri og ólst þar upp en fluttist ásamt foreldrum sínum á Kropp árið 1879, þá sjö ára gamall. Hann bjó þó ekki óslitið á Kroppi frá barnæsku, því árið 1889 fluttist faðir hans Jón Davíðsson, þá orðinn ekkill, en Rósa Pálsdóttir lést 1885, í Hvassafell í Saurbæjarhreppi. Við skulum staldra aðeins við  Jón Davíðsson. Þegar hann flytur að Hvassafelli býr þar ekkjan Sigríður Tómasdóttir. Þau giftust og bjuggu í Hvassafelli til ársins 1899 er Sigríður lést. Jón, sem orðinn var ekkilP6220769l í annað sinn, flyst þá í Reykhús í Hrafnagilshreppi vorið 1900. Þar bjó hann til æviloka árið 1923 en frá 1903 var jörðin og búið í eigu og umsjón tengdasonar hans, Hallgríms Kristinssonar, forstjóra SÍS (sbr. Ingimar Eydal 1923:1).   Hann var kvæntur Maríu, dóttur Jóns. Hallgrímur lést einnig árið 1923, langt fyrir aldur fram. Þess má geta, að Jón Davíðsson var fæddur í Kristnesi, næsta bæ sunnan við Reykhús, þar sem hann varði síðustu æviárunum. En víkjum nú aftur sögunni að næsta bæ sunnan við Kristnes, þ.e.a.s. að Kroppi. Sem fyrr segir flutti Jón Davíðsson ásamt börnum sínum í Hvassafell árið 1889. Davíð Jónsson hélt hins vegar til náms í Möðruvallaskóla í Hörgárdal og þar er hann skráður í Manntali árið 1890. Hann mun þó hafa þurft að hætta námi vegna veikinda en er sagður hafa bætt það upp með sjálfsnámi þegar heilsu var náð á ný (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951:318). Á sumarsólstöðum, 21. júní 1895 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 270) kvæntist hann Sigurlínu Jónasdóttur frá Stóra-Hamri í Öngulsstaðahreppi og sama ár fluttust þau á Kropp. Frá árinu 1889, eftir að Jón Davíðsson fluttist frá Kroppi var þar tvíbýlt. Annars vegar bjuggu hér þau Helgi Friðrik Eiríksson og Sigurlaug Jónasdóttir og hins vegar þau Jósep Helgason og Guðný Helgadóttir. (Nú gæti einhver velt fyrir sér, hvort þær Sigurlaug og Sigurlína væru systur en það voru þær ekki. Sigurlaug Jónasdóttir var frá Fagrabæ í Grýtubakkahreppi og næstum fjórum áratugum eldri en Sigurlína).

Samkvæmt Eyfirðingum bjuggu þau Jósep og Guðný hér til ársins 1896 en Helgi og Sigurlaug voru á bak og burt 1894. Þannig hafa þau Davíð og Sigurlína búið eitt ár ásamt þeim fyrrnefndu, en setið ein að jörðinni frá 1896. Auk þess að búa miklu myndarbúi á Kroppi var Davíð mjög ötull við alls kyns félagsmála- og trúnaðarstörf. Hann var kjörinn hreppstjóri í Hrafnagilshreppi árið 1904 og gegndi því embætti í 45 ár. Greinarhöfundur þorir að fullyrða, að fáir ef nokkrir hafi setið jafn lengi eða lengur í embætti hreppstjóra hérlendis, þótt víðar væri leitað. Hann var sýslunefndarmaður hreppsins frá 1928 til 1950, einnig formaður fasteignamatsnefndar. Þá var hann einn af helstu hvatamönnum að stofnum húsmæðraskóla á Laugalandi og við stofnun hans, 1937, var hann kjörinn formaður skólanefndar. Davíð var stórhuga og framtakssamur í búskapnum, svo athygli vakti. Hann var meðal fyrstu manna á Eyjafjarðarsvæðinu til að girða tún sín af með gaddavír og gerði miklar jarðarbætur með þúfnabana og framræslu auk þess að reisa hið veglega íbúðarhús og 30 kúa fjós (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951: 319).  Í minningargrein Hólmgeirs Þorsteinssonar um Davíð í búnaðarritinu Frey  er hann sagður hafa reist fjósið skömmu síðar, en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar voru þær byggingar, fjós og hlaða þó ekki byggðar fyrr en 1933-34, þ.e. nærri hálfum öðrum áratug á eftir íbúðarhúsinu. Mögulega hefur framræsla Davíðs verið að einhverju leyti handan Eyjafjarðarár en þar er 12 hektara spilda sem tilheyrir Kroppi, kallað Kroppsnes. Þar var heyjað fram yfir 1960 og heyið flutt á pramma yfir ána.

Á meðal embættisverka Davíðs Jónssonar var að heimsækja bæi hreppsins og meta eignir til brunabóta. Þegar flett er í gegnum brunabótamat Hrafnagilshrepps frá árunum 1933-39, sem eru sérlega haldgóðar heimildir um húsakost þess tíma, eru matsskýrslurnar jafnan undirritaðar af Davíð Jónssyni og Hannesi Kristjánssyni. En þar er að sjálfsögðu undantekning þegar kemur að Kroppi, þar er Pétur Ólafsson matsmaður ásamt Hannesi, en Davíð skrifar undir sem eigandi. En það var þann 7. apríl 1934 sem húseignir á Kroppi voru metnar til brunabóta, og lýst svo: Íbúðarhús, steinsteypt, ein hæð með kjallara og porti. Á aðalhæð voru þrjú herbergi, á lofti fimm herbergi og gangur. Lengd 8,8m, breidd 7m og hæð 7,2m. Þá eru eftirfarandi byggingar úr torfi og grjóti: Eldavélarhús (9x3,5m), búr (4,5x2,2m), eldhús með hlóðum (5x3m), kofi (4,2x2m), gömul stofa með þili „framanundir“ (4,2x3m) og bæjardyr (8,8x2m). Bæjardyrnar eru sagðar úr steinsteypu og þiljaðar. Þá eru bæjardyrnar jafn langar og steinhúsið, sem gæti bent til þess, að nýja húsið hafi verið byggt sem framhald af torfbænum. Hvergi er getið eldhúss í nýja húsinu en sérstakt „eldavélarhús“ úr torfi og grjóti. Þá er pappaþak á steinhúsinu en járnþak á bæjardyrum, veggir og loft í nýja húsinu úr timbri en torfveggir milli annarra húsrýma (sbr. Brunabótafélag Íslands 1934: nr. 31).  Útihúsa, hvorki fjóss né hlöðu er þar getið.IMG_0238 - Copy

Davíð Jónsson bjó á Kroppi til ársins 1946 er Sigurlína lést. Síðustu æviárin bjó Davíð á Grund, þar sem Ragnar, sonur hans hafði búið frá 1937. Davíð Jónsson lést 27. febrúar 1951, 78 ára að aldri. Samkvæmt ábúendatölum virðist hafa verið tvíbýlt á Kroppi síðustu árin sem Davíð og Sigurlína bjuggu þar. Mögulega hafa þau verið farin að draga saman seglin í búskapnum, komin um og yfir sjötugt. En á árunum 1940 til 1942 eru ábúendur þau Skúli Finnbogi Kjartansson og Sigrún Eiríksdóttir og um skamma hríð frá 1942 til 1943 þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Guðríður Guðmundsdóttir Waage. Árið 1943 flytja að Kroppi þau Steingrímur Óskar Guðjónsson frá Björk í Sölvadal og Elín Björg Pálmadóttir frá Hofi í Hörgárdal. Þau bjuggu hér alla tíð síðan og eru ábúendur hér þegar byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil í samnefndu riti árið 1970 (útgefið þremur árum síðar). Þá eru eftirfarandi byggingar á Kroppi, auk íbúðarhússins, fjós fyrir 32 kýr, fjárhús fyrir 160 fjár, hlöður fyrir 900 hesta af heyi. Fjárhús og önnur hlaða sagðar „braggabyggingar“ en annað úr steinsteypu. Bústofninn telur 18 kýr, 7 geldneyti og 92 fjár.  Túnstærð er 15,17 hektarar, töðufengur sagður 800 hestar og úthey um 200 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:270). Steingrímur og Elín byggðu við íbúðarhúsið um 1960, viðbyggingu norðan og vestan við, eftir teikningum Snorra Guðmundssonar. Samkvæmt þeim teikningum var þegar búið að byggja við húsið að norðanverðu, þar er gangur og gömul skemma. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar 1990 var byggt við húsið 1957 og 1967 en mögulega hefur húsið alltaf tengst einhverri byggingu að norðanverðu, sbr. Brunabótamat 1934, þar sem húsið virðist áfast bæjardyrum úr torfi.

Árið 1977 tók Úlfar, sonur Steingríms og Elínar við búinu og er hann ábúandi ásamt konu sinni, Guðbjörgu Steingrímsdóttir árið 1990. Þá er sauðfé, 12 að tölu, skráð sem bústofn en þá er Kroppur hluti félagsbúsins Þrists, sem ábúendur Kropps, Hrafnagils og Merkigils stofnuðu með sér árið 1989. Ræktað land á Kroppi árið 1990 eru sléttir 20 hektarar og þar standa eftirfarandi byggingar: Fjós byggt 1933 og hlaða byggð 1934, hlaða byggð 1945 (væntanlega „braggabygging“ sem minnst er á 20 árum fyrr, bragginn líklega upprunninn frá breska eða bandaríska setuliðinu), fjárhús byggt 1964, geldneytahús byggt 1967 og vélageymsla byggð 1971 (sbr.  Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738). Um aldamótin lauk búskapi á Kroppi og nú hafa allar framangreindar byggingar verið jafnaðar við jörðu. (Og þess má geta, að dag einn þegar greinarhöfundur fór einu sinni sem oftar hjólandi fram í Eyjafjarðarsveit brá honum illilega í brún; það var engu líkara en búið væri að rífa íbúðarhúsið! Greinarhöfundur, sem vissi að til stæði að reisa þéttbýli á Kroppi innan tíðar, varð svo mikið um, að hann endasentist nærri því á hjólinu ofan í síki nokkurt, milli hjólastígs og Eyjafjarðarbrautar: Búið að rífa eitt af elstu steinhúsum sveitarinnar og aldursfriðað í þokkabót! Og ekki svo langt síðan það var endurbyggt! En þegar komið var að Jólahúsinu kom í ljós hvers kyns var; trjágróðurinn norðan Kropps hafði einfaldlega vaxið svo mjög, að húsið blasti ekki lengur við frá Eyjafjarðarbrautinni norðan við Jólahúsið; Kroppur var svo sannarlega enn á sínum stað.

Um 2002 fóru fram gagngerar endurbætur á Kroppi, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Byggður var miðjukvistur á suðurhlið, innra skipulagi breytt umtalsvert og ný klæðning, bárujárn sett á húsið. Áður prýddi nokkurs konar eftirlíking af steinhleðslu horn hússins. Þá var viðbygging frá 1960 jöfnuð við jörðu að hluta, en norðurveggur skilinn eftir og þjónar sem skjólveggur fyrir sólpall á baklóð. Þegar byggðum Eyjafjarðar árið 2010 voru gerð skil í ritverki voru eigendur hússins og lóðar í kringum það þau Guðmundur Elísson og Guðný Helga Guðmundsdóttir og ábúandi dóttir þeirra, Guðný Valborg. Eigandi lands var (og er enn) hins vegar félagið Ölduhverfi. Þá var ræktað land 12,8 hektarar en 72 hektarar lagðir undir skógrækt (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 409). Sá skógur setur nú svip sinn á Kroppsland.  Sem fyrr segir stendur aðeins íbúðarhúsið eftir af byggingum býlisins Kropps. En von bráðar mun byggingum fjölga svo um munar í Kroppslandi, því í bígerð er bygging íbúðahverfis, Ölduhverfis, í brekkunum umhverfis húsið. Kroppur er myndarlegt hús á skemmtilegum stað og til mikillar prýði í hinu gróna og geðþekka umhverfi sem umlykur byggðina norðan Hrafnagils. Ekki verður það til minni prýði í Ölduhverfi, þegar það rís, og mun þar eflaust skipa einhvers konar heiðursess. Kroppur er aldursfriðað hús þar sem það er byggt fyrir árið 1923.

Myndirnar af Kroppi eru teknar 21. janúar, 17. febrúar og 15. apríl 2023.

Myndirnar af húsunum á Akureyri eru teknar 22. júní 2018.

Myndin af Litla-Hamri er tekin 23. apríl 2020.

Myndin af Syðri-Varðgjá er tekin 5. febrúar 2011.

 

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmgeir Þorsteinsson. 1951. „Davíð Jónsson hreppstjóri frá Kroppi“ Freyr 21.-22. tbl. 46. árg. bls. 318-320. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ingimar Eydal. 1920. „Jón Davíðsson“ Dagur 13. júní 25. tbl. 6. árg. bls. 1 (forsíða) Sjá tengil á timarit.is í texta.

M.J. 1920. „Íbúðarhús“ Dagur 28. júlí 14. tbl. 3. árg. bls. 55. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar. 

 


Hús dagsins: Syðra-Gil

Undir Súlutindum er óhemju mikið fjalllendi, sem nær langt norður fyrir tindana sjálfa. Kallast þar Súlumýrar.  Þar eru þó ekki einungis mýrar heldur miklar kletta- og hamraborgir allt frá ysta odda Löngukletta við Glerárdalsöxl ofan Akureyrar og langleiðina að Kristnesi, frá láglendi og upp undir fjallsrætur. Sunnarlega í þessum klettaholtum skerst mikið gil í hlíðina og heitir það því skemmtilega nafni Gilsárgil; um það rennur nefnilega áin Gilsá. Áin kann hins vegar að draga nafn sitt af jörðinni Gili, sem væntanlega er nefnd eftir gilinu!  Og einmitt sunnan við  þetta gil á háum hól, stendur skemmtilegt hús á tilkomumiklu bæjarstæði. Það er prýtt burst norðanmegin, sem kallast einstaklega skemmtilega á við Súlutinda. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Syðra-Gili, en téðri jörð Gili, var skipt í Ytra og Syðra-Gil fyrr á öldum.IMG_0656

Syðra-Gil stendur, sem fyrr segir, á háum hól í brekkunum sunnan Gilsárgils, nokkurn veginn miðja vegu milli Akureyrar og Hrafnagils. Frá hlaði bæjarins eru 7,5 km í Miðbæ Akureyrar, en aðeins tæpir 3 kílómetrar frá sveitarfélagamörkunum við Kjarnaskóg. Þess má líka geta, að frá Wilhelmínugötu syðst í Naustahverfi er styttra að Syðra-Gili, en frá sama stað að Norðurtorgi, yst á Akureyri!

Hversu langt má rekja sögu jarðarinnar Syðra-Gils eða Gils verður ekki ráðið, en væntanlega er jörðin byggð úr landi Kristness, kannski ekki löngu eftir landnám. Fyrst mun jarðarinnar getið í rituðum heimildum árið 1318 (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012: 117).  Upprunalega var um eina jörð að ræða, Gil, sem síðar skiptist í Ytra- og Syðra-Gil. Jörðin var eign Möðruvallaklausturs framan af öldum en mun hafa komist undir Hrafnagilskirkju um aldamótin 1500. Vitað er upp á dag, hvenær Möðruvallaklaustur, með Sigurð „príor“ í forsvari seldi Einari ábóta á Munkaþverá jörðina Gil. Það var 22. febrúar 1452 og var um skipti að ræða, þ.e. Gil var selt í skiptum fyrir jörðina Gásir í Glæsibæjarhreppi (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:184).  Einhvern tíma seint á 15. öld eða snemma á þeirri 16. hefur jörðin komist í eigu Hrafnagilskirkju og mögulega seint á 16. eða einhvern tíma á 17. öld var jörðinni skipt í tvennt um ána Gilsá, þar sem syðri jörðin varð Syðra-Gil og nyrðri jörðin Ytra-Gil. Árið 1712 var jörðin enn eign Hrafnagilskirkju. Hvenær jörðin komst í einkaeigu liggur ekki fyrir, en Hrafnagilskirkja var lögð af árið 1863. Árið 1889 fluttust að Syðra Gili þau Friðrik Friðriksson frá Kroppi og Lilja Guðmundsdóttir frá Nolli í Grýtubakkahreppi. Áttu þau fjögur börn, þau Sigurlínu Margréti, Ólöfu Indíönu, Hermund og FriðriIMG_2272k. Við lát Friðriks árið 1913 tóku bræðurnir tveir við búskapnum og ári síðar komu þeir upp nýju íbúðarhúsi í stað torfbæjar, sem staðið hafði hér frá fornu fari.

Um eitthvert skeið á 19. öld var lögferja yfir Eyjafjarðará við Syðra-Gil en var hún flutt að Stokkahlöðum árið 1866 vegna grynninga í ánni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:794). Grynningarnar virðast þó ekki hafa verið varanlegar á þessum slóðum, því um tveimur áratugum síðar var ferja komið upp við Ytra Gil, sem starfrækt var til þangað til Eyjafjarðará var brúuð árið 1923. Þess má reyndar geta, að þegar farið var að huga að brúarsmíði yfir Eyjafjarðará voru tveir möguleikar teiknaðir upp og skoðaðir. Annars vegar þrjár brýr yfir óshólmana, sem urðu ofan á en hinn möguleikinn var ein löng brú við Gilsbæina. Enda þótt óshólmabrýrnar væru mun dýrari kostur mælti verkfræðingurinn Jón Þorláksson eindregið með þeim kosti, og réði þar væntanlega nálægðin við Akureyri (sbr. Hjörtur E. Þórarinsson 1994:336). Það má hins vegar velta fyrir sér hvernig ýmislegt hefði þróast öðruvísi, ef brúin hefði verið reist við Gil en ekki á óshólmunum. Kannski hefði Akureyrarflugvöllur verið lagður sunnar, og flugbrautin náð lengra til suðurs. Mögulega hefði þetta haft áhrif á það, í hvaða átt þéttbýli byggðist.  En kannski hefði þetta einfaldlega engu breytt, nema hvað miklu lengra væri fyrir þá sem komu t.d. úr Þingeyjarsýslum til Akureyrar eða íbúa Kaupangssveitar til Akureyrar. Löngu síðar reis þó annars konar brú á þessum slóðum, en sú var ekki ætluð fyrir farkosti eða fólk heldur var um ræða pípubrú fyrir heitt vatn frá Laugalandi.

Íbúðarhúsinu að Syðra-Gili má skipta í tvær álmur, þó ekki sé það sérlega stórt. Syðri hlutinn er einlyft timburhús með lágu, portbyggðu risi og útskoti eða bakbyggingu með einhalla þaki til vesturs. Nyrðri hlutinn er steinsteyptur, einlyftur með háu risi. SuðurhlIMG_2269uti snýr stafni mót suðri en norðurhluti snýr austur-vestur og myndar norðurhlutinn því nokkurs konar burst eða kvist á húsinu. Syðri hluti hússins er klæddur steinblikki, bárujárn er á þaki en nyrðri hluti hússins er múrsléttaður að mestu. Í flestum gluggum eru krosspóstar af einhverju tagi. Grunnflötur hússins mælist nærri 11x7m (ónákvæm mæling af kortavef).

Syðra-Gilshúsið reistu þeir Hermundur og Brynjólfur Friðrikssynir, sem fyrr segir, árið 1914. Væntanlega hefur þar verið um að ræða syðri hluta hússins. Austurhluti þessa húshluta, þ.e. sá hluti hússins sem er undir risþaki er æði mjór, sem gæti bent til þess, að húsið hafi verið reist sem „framhús“ á torfbæ. Það þarf þó ekki endilega að vera: Í umfjöllun um Syðra-Gil í Eyðibýli á Íslandi er húsið sagt byggt í þremur áföngum, þ.e. tvisvar byggt við það, og vesturhluti hússins sagður mögulega viðbygging við torfbæ. Það hlýtur að vera skúrbyggingin með einhalla þakinu. Þannig gæti fremri hluti syðri hluta, þ.e. húsið með risþakinu verið byggður við síðar eða komið í stað torfbæjar. Síðast var byggt við húsið 1927 og þar var um að ræða norðurhlutann, sem er steinsteyptur. Í Byggðum Eyjafjarðar sem teknar voru saman á árunum 1970-73, er húsið sagt byggt 1927 og þar væntanlega miðað við byggingu norðurhlutans.  Það er freistandi að giska á, að þegar þeir  bræður Brynjólfur og Hermundur, byggðu steinsteyptu álmuna við húsið til norðurs hafi þeir samhliða járnvarið suðurhlutann.  Timburhluti hússins er klæddur steinblikki en sú klæðning var móðins á timburhúsum á Akureyri og nærsveitum á 3. og 4. áratug 20. aldar. Þegar skoðuð er saga húsa í þéttbýli liggur að öllu jöfnu fyrir hvenær viðbyggingar og aðrar breytingar voru gerðar í bókunum bygginganefnda. Þegar um  er að ræða eldri íbúðarhús í dreifbýli er annað uppi á teningnum, enda voru sjaldnast starfandi sérstakar bygginganefndir til sveita á fyrri hluta 20. aldar eða fyrr.IMG_2271_afrit

Síðla árs 1933 voru húseignir á Syðra-Gili metnar til brunabóta. Íbúðarhúsinu var lýst á eftirfarandi hátt: „Íbúðarhús, kjallari og port auk stofuhæðar, 3 herbergi og forstofa auk rishæðar. Skúr áfastur við íbúðarhús“ (Brunabótafélag Íslands 1933: nr. 24). Íbúðarhúsið var sagt 11,5x4m að grunnfleti og 5,5m á hæð en skúrinn 7,5x3,5m og 2,2m á hæð. Íbúðarhús og skúr úr steinsteypu og timbri, járnklæddar að hluta.  Þessar byggingar mynda væntanlega eina heild, þ.e.a.s. íbúðarhúsið sem enn stendur, en voru engu að síður metnar sem aðskilin hús. Veggir og loft voru úr timbri en steingólf í eldhúsi, húsið kynt með kolamiðstöð og steinolía til ljósa. Alls voru sex byggingar (þar af nokkrar sambyggðar) skráðar að Syðra Gili þennan nóvemberdag árið 1933, íbúðarhús og skúr voru úr timbri, steini og járni en einnig voru sambyggð fjós og hlaða og skemma úr torfi og grjóti að Syðra Gili. Þá var þar einnig eldhúskofi með hlóðum, úr torfi og grjóti, 3,5x2m að grunnfleti. Þessar byggingar eru væntanlega löngu horfnar. Alls voru byggingarnar metnar á 8070 krónur, þar af íbúðarhús og skúr á 7400 kr. Árið eftir, 1934 (skv. Fasteignaskrá) munu þeir Brynjólfur og Hermundur hafa reist fjós og hlöðu úr steinsteypu og stendur síðarnefnda byggingin enn, vestan við íbúðarhúsið.

Þeir Brynjólfur og Hermundur Friðrikssynir bjuggu hér um áratugaskeið ásamt ráðskonu sinni, Árnýju Sigurðardóttur.  Árið 1966 tók Eiríkur Helgason frá Ytra-Gili við búinu og var hann jafnframt síðasti ábúandi Syðra-Gils. Af einhverjum ástæðum er Syðra-Gil sums staðar sagt fara í eyði árið 1966 en hver sá sem flettir Byggðum Eyjafjarðar sem gefin var út árið 1973 sér, að það er ekki alls kostar rétt: Árið 1970 er Eiríkur Helgason búsettur á Syðra-Gili og telur bústofn hans 80 fjár og 8 kýr. Túnstærð er 9,81 hektarar og töðufengur um 500 hestar. Þar er húsið sagt byggt 1927 og 300 m3 að stærð (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 265). Samkvæmt bókinni Eyðibýli á Íslandi var síðast búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili árið 1972. Eiríkur Helgason hélt hins vegar áfram að nýta tún Syðra-Gils en hann og kona hans, Ingunn Tryggvadóttir, voru bændur á Ytra-Gili um áratugaskeið. Árið 1990 voru tún Syðra-Gils, sem nýtt vP9210952oru af Ytra-Gilsbændum, 14,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:728). Snemma á 2. áratug þessarar aldar fór rannsóknarhópur um landið og „vísiteraði“ eyðibýli líkt og biskupar kirkjur, mörg slík um landið. Afrakstur þessarar vinnu kom út á bókum, Eyðibýli á Íslandi.  Syðra-Gil heimsótti hópurinn árið 2012 og grípum hér niður í skýrslu hópsins: […]Nýjasti hluti hússins, norðurbyggingin, frá um 1927 er steyptur og hefur alltaf verið óupphitaður. E.t.v. var elsti hluti hússins, sem er skv. eigendum vesturhluti hússins, gömul viðbygging við torfbæ. Útveggir hússins eru nokkuð heilir. Að sögn eigenda er fótstykki hússins að hluta til fúið í timburhluta hússins, en grindin er ekki farin að skekkjast. Gluggar eru allir glerjaðir og karmar, póstar og fög eru á sínum stað. Útihurðir eru heilar sem og þak. […] Hurða- og gluggabúnaður er í húsinu sem og raflagnir. Gamlir rafmagnsofnar eru í húsinu (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir  2012: 117). Eigandi hússins, sem vísað er til, er téð Ingunn Tryggvadóttir, á Ytra-Gili.

Miðað við þá staðreynd, að ekki hefur verið búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili í meira en hálfa, virðist húsið í nokkuð góðu ásigkomulagi. Samkvæmt fasteignaskrá er húsið skráð sem geymsla en það er ekki óalgengt að eldri íbúðarhús til sveita fái það hlutverk eftir að búsetu lýkur. Húsið er aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923, en bæjarstæðið er einstaklega skemmtilega staðsett. Séð frá þjóðvegi kallast húsið skemmtilega á við Súlutinda. (Kannski myndi það fullkomna sjónræna heild við tindana, ef byggð yrði önnur burst við húsið sunnanmegin). Það er að sjálfsögu ekki hægt að tala um neina götumynd á þessum slóðum eIMG_1540n Syðra-Gil er sannkölluð prýði í bæjaröðinni milli Akureyrar og Hrafnagils. Þá má geta þess, að hlaðan frá 1934 vestan við íbúðarhúsið er nokkuð merkileg bygging en hún mun vera með fyrstu byggingum hérlendis, sem steypt er með mótaflekum (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir  2012: 117). Hinar öldnu byggingar á bæjarhólnum, íbúðarhúsið og hlaðan, eru reyndar ekki þær einu í landi Syðra-Gils. Töluvert neðan við, á austustu og neðstu bökkum Gilsárgils nokkurn veginn beint á móti Ytra-Gili, stendur nýleg vélageymsla sem reist var 2017. Myndirnar eru teknar 21. sept. 2019, 13. apríl 2024, 26. júní 2023 og 8. júlí 2024.

Heimildir: Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

 Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hjörtur E. Þórarinsson. 1994. Saga Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989. Akureyri: Héraðsnefnd Eyjafjarðar.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.


Arkitektúr og endurnýting

Virkilega góð og þörf grein. Samhliða nokkurs konar endurvakningar formfegurðar í hönnun mannvirkja (sem vel að merkja, má þó ekki koma niður á notagildi, öryggi eða aðgengi bygginga, enda er Pétur H. alls ekki að mæla fyrir slíku) mætti huga að aukinni endurnýtingu hvað mannvirki varðar. Niðurrif eldri bygginga ætti nefnilega alltaf að vera allra, allra síðasta úrræði. Svona fyrir utan söguleg og menningarleg verðmæti, sem oft fara forgörðum þegar eldri byggingar eru rifnar er þetta spurning um nýtingu og sóun auðlinda. (Svona í ljósi þess, að almenningi er gert að drekka fernudrykki úr pappamassaröri af umhverfisástæðum til að spara nokkur grömm af plasti. Á meðan þykir sjálfsagt að moka þúsundum tonna af steypu, timbri, gleri, lagna- og gólfefnum, plasti og málmum og öðru í landfyllingar til þess að rýma fyrir glænýjum þúsundum tonna af þessum sömu efnum undecided). Auðvitað er það stundum svo, að sumum byggingum verður ekki bjargað og stundum er niðurstaðan auðvitað sú, að það er kannski meiri sóun að lagfæra það gamla en að byggja nýtt. En hvorki þetta né breyting í arkitektúr gerist af sjálfu sér, þetta þarf alltaf að vera þannig, að byggingaraðilar sjái hag í hinu umfram annað. Því hvað sem okkur kann að finnast um það, er það svo; Ef það er hagkvæmara að byggja ferkantaða gráa steinkassa og rífa gamalt, í stað formfagurra nýbygginga -eða endurbyggingar gamalla slíkra- verður það fyrrnefnda ætíð fyrir valinu.


mbl.is Efnishyggjan hefur tekið yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hús dagsins" í örlítið sumarfrí, vegna tæknilegra örðugleika.

Kæru lesendur. Það gæti orðið einhver örlítil bið eftir næsta "Húsi dagsins". Ástæðan er sú, að tölvan mín tók upp á einhverjum óskunda sem ég kann ekki að útskýra, en verið er að finna út hvort viðgerð verði við komið, eða hvort endurnýjunar sé þörf. Enda þótt mögulegt sé að opna ritvinnslu síðunnar í síma er mér ekki tamt að skrifa langt mál á þann hátt auk þess sem öll vinnsla mynda og uppsetning gegnum smáan símaskjá er illviðráðanleg. (A.m.k. hvað mig varðar) En þegar tölvukostur kemst í lag munu birtast hér, í júlí og ágúst, umfjallanir um nokkur eldri hús í sveitunum í nágrenni Akureyrar. coollaughing


Hús dagsins: Lónsstofa á Skipalóni; 200 ára í ár

Í samanburði við nágrannalönd okkar eru íslensk mannvirki frekar „ung“. Á Norðurlöndunum, að ekki sé minnst á Bretlandseyjar og meginland Evrópu, standa heilu borgirnar, eða borgarhlutar, IMG 1932sem byggðar voru á miðöldum og eru þannig mörg hundruð ára gamlar. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um aðstöðumun þessara landa og Íslands á fyrri öldum, hvað varðaði aðgang að byggingarefni, íbúafjölda, samfélagsgerð og annað slíkt. Þá hafa einnig ótal margar byggingar og menningarminjar  farið forgörðum gegnum tíðina. En hérlendis teljast byggingar, byggðar fyrir 1923, aldursfriðaðar (miðaðist raunar við 100 ára aldur til ársloka 2022). Á Eyjafjarðarsvæðinu skipta hús eldri en 100 ára á að giska fáeinum hundruðum; á Akureyrarsvæðinu gætu þau t.d. verið á þriðja hundrað, þegar þetta er ritað. Hús eldri en 200 ára eru hins vegar aðeins örfá og heyrir það raunar til tíðinda, að eitthvert hús á Eyjafjarðarsvæðinu nái því marki. Á Akureyri gerist það ekki fyrr en árið 2035, að Gamli Spítalinn og mögulega (heimildum ber ekki saman) elsti hluti Gránufélagshúsanna á Oddeyrartanga, Skjaldarvíkurstofan, nái 200 árunum. Veita þau þá Laxdalshúsi kærkominn félagsskap í hópi „tvæöldunga“ innan Akureyrar. Nokkrum árum síðar bætast svo Frökenarhús, Lækjargata 2a og Aðalstræti 52 í þennan hóp og þegar 21. öldin verður hálfnuð ættu um fimmtán Akureyrarhús að hafa náð 200 árunum. Áður en fjölgar í „200 ára klúbbi“ Akureyrar árið 2035 munu tvö hús hafa náð þessum mjög svo virðulega áfanga í Hörgársveit; Hofstofa árið 2028 og svo vill til, að á þessu ári er 200 ára afmælisár Lónsstofu á Skipalóni. En hana byggði Þorsteinn Daníelsson árið 1824.

Skipalón- lýsing og forsaga

Skipalón stendur  yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugnahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. IMG 1930Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum, upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg, um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg vestanmegin, um Hlaðir og að Moldhaugnahálsi.

                Skipalón hefur löngum aðeins kallast Lón og er nefnt svo í Landnámu. Í þessari grein verða bæði heiti notuð jöfnum höndum. Sögu jarðarinnar má rekja til landnáms en þar settist að Eysteinn Rauðúlfsson, sem nam land allt frá Bægisá og gervalla Þelamörk að Kræklingahlíð. Um hann virðist næsta lítið vitað, en hann mun hafa fæðst um 870 og gæti mögulega hafa numið land að Lóni um eða upp úr 900. Son átti Eysteinn sem hétIMG 1923 Gunnsteinn og á meðal barna hans var Halldóra, eiginkona Víga- Glúms Eyjólfssonar. Í landi Lóns er svonefnd Gunnsteinsþúfa og segir sagan að Gunnsteinn sé heygður þar. Sögu Lóns frá öndverðu má að sjálfsögðu gera skil í löngu máli en við bregðum okkur hins vegar frá landnámsöld og til loka 18. aldar. Þó má geta þess, að ekki er ólíklegt, að líf og fjör hafi verið á Lóni á miðöldum, þegar helsti samkomu- og verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. En það var árið 1793, að þau Daníel Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir settust að á Lóni. Á meðal barna þeirra var Þorsteinn, sem fæddist þremur árum síðar, en hann bjó á staðnum allt til æviloka í hárri elli. Hann reisti þar hús sem enn standa, tveimur öldum síðar.

Þorsteinn Daníelsson forsmiður - Lónsstofa

Þorsteinn Daníelsson var sem fyrr segir fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20, nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið. Prófstykki hans var saumakassi úr mahóní með inngreyptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, og hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Tæpum fjórum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Þorsteinn hafði sem fyrr segir, haft hug á uppbyggingu og hófst þegar handa við byggingu timburhúss.  Er þar komin Lónsstofa.IMG 1920

Lónsstofa er einlyft, stokkbyggt timburhús, þ.e.a.s. það er ekki byggt með hefðbundinni grind (bindingsverki) heldur hlaðið úr bjálkum, með háu risi og miðjukvisti. Húsið er múrhúðað eða steypt utan um það en bárujárn er á þaki. Kvistur er einnig bárujárnsklæddur. Í flestum gluggum eru margskiptir póstar en krosspóstur í kvistglugga. Grunnflötur Lónsstofu er 6,72x10,44m. Áfast húsinu norðanmegin er steinsteypt gripahús sem mælist um 10x10m á kortavefnum map.is. Upphaflega var Lónsstofa áföst gömlum torfbæ að norðan.  

Í ævisögu Þorsteins Daníelsson segir Kristmundur Bjarnason afar ítarlega frá byggingu og tilurð hússins ásamt mjög greinargóðri lýsingu á því, hvernig þar var til háttað í tíð Þorsteins. Byrjum á grunninum (og það bókstaflega): „Grunnur hússins er hlaðinn úr grjóti og virðist enn...[1961] all traustur, og er húsið ekki fest á neinn hátt í grunnhleðsluna, og gizka [svo] byggingafróðir menn á, að afstýfing og styrkur grindarinnar hafi helst stuðlað að því að halda húsinu á grunni sínum, en ekki er vitað til þess, að það hafi nokkurn tíma haggast af grunni sínum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:211). Sá þótti nefnilega mikill ókostur við timburhús 19. aldar að þau vildu skekkjast eða jafnvel fjúka og brotna í illviðrum, kirkjum var t.d. sérlega hætt við þessu. Mun Þorsteinn hafa haft eitthvert sérstakt lag á því, að ganga þannig tryggilega frá timburhúsum að þau bifuðust ekki í ofviðrum og kunnað það fyrstur manna norðanlands. Gefum KristmundiIMG 1941 Bjarnasyni aftur orðið: „Efniviður hússins er hörð og mjög góð fura og er grindin úr 3“ [3 tommu] plönkum sem lagðir eru láréttir og tappaðir saman. Stoðir munu vera undir hverri sperru, og plankarnir lagðir í spor í þeim, þannig að endar skorðist vel. Sperrur eru tappaðar í mæni og skammbitar þannig inni í sperrur. Utan og innan á plankaveggina hefur síðan verið klætt lóðrétt breiðum borðum. Einangrun er í húsinu er engin önnur en sú, sem er í plönkunum og mun þessi byggingarháttur ekki krefjast annarrar einangrunar í útveggjum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:212). Eitt sem nýstárlegt var við Lónsstofu var, að á henni voru „upploksgluggar“ eða opnanleg fög en á þessum tíma þótti mikilvægast að loka fyrir hverja glufu. Þá voru gluggahlerar fyrir gluggum neðri hæðar en það tíðkaðist almennt með timburhús. Á dyrahellunni var höggvið ártalið 1824 (sést móta fyrir á meðfylgjandi mynd, sést væntanlega betur ef mynd ef er stækkuð). og einnig nafn og ártal útskorið yfir dyrum. Úr forstofu var gengið í eldhús á  hægri hönd en bestu stofu til vinstri. Besta stofa var einnig skrifstofa Þorsteins. Þá var einnig verkstæði Þorsteins í norðurhluta neðri hæðar en árið 1843 stækkaði hann við sig svo um munaði, með Smíðahúsinu, sem stendur fast austan Lónsstofu. Þá var einnig svokölluð daglega stofa og hjónaherbergi á neIMG 1918ðri hæð. (Höfum í huga, við upptalningu allra þessara rýma, að grunnflötur Lónsstofu er eitthvað um 70 fermetrar).  Gengið var upp á efri hæð úr eldhúsinu að norðan. Norðurhluti rishæðar skiptist í Piltaloft og Geymsluloft, hið síðarnefnda fyrst og fremst matargeymsla. Þá var svokallað Vesturloft, þar sem þjónustustúlkur höfðu að jafnaði persónulega muni, en þær sváfu yfirleitt í dagstofunni á neðri hæð. Suðurloft var yfir bestu stofu og var það gestaherbergi en inn af því súðarherbergi að austan, þar sem skrifarar Þorsteins höfðu aðsetur sitt. Efst undir rjáfri var svokallað Hanabjálkaloft, lágt og illa nýtilegt geymsluloft. Þangað lá stigi  (og liggur kannski enn)  úr skipinu Det Gode Haab, sem strandaði við Gásir haustið 1818 (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961: 214-215).IMG 1924

Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt. Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni. Hann fékkst einnig við útgerð og jarðrækt,brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og ætlaðist til þess sama af öðrum. Sumum þótti vinnuharka hans raunar keyra fram úr hófi og  sumarið 1844 gripu smiðir hans við byggingu Munkaþverárkirkju til aðgerða, sem kannski má kalla einhvers konar vísi að fyrstu verkfallsaðgerðum hérlendis. Héldu þeir fund þar sem þeir ákváðu að leika á Þorstein, þannig að hann fyndi sig knúinn til að yfirgefa svæðið. Þóttist einn smiðurinn dotta, og þegar Þorsteinn hastaði á hann, sagðist hann hafa dreymt Grím amtmann fara heim að Lóni. Grímur var mjög góður vinur frú Margrétar og mun Þorsteinn hafa verið mjög á varðbergi gagnvart vinskap þeirra (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Gekk þetta eftir, Þorsteinn snaraðist heim að Lóni og væntanlega hafa smiðirnir nýtt fjarveru hans til að slaka á. Hann hefur væntanlega verið drjúgan tíma í burtu, því milli Munkaþverár og Skipalóns eru um 35 kílómetrar og ekki voru bílar, vegir eða brýr árið 1844. Jón Sveinsson eða Nonni átti heima á Möðruvöllum sem barn og hefur líkast til verið heimagangur á Skipalóni. Ein af sögunum í barnabókum hans nefnist einmitt Jól á Skipalóni og segir þar frá baráttu Nonna, Manna og Lónsfólksins við ísbirni. Skipalónsþætti Nonna og viðureigninni við birnina voru gerð skil á eftirminnilegan hátt í þýsku sjónvarpsþáttaröðinni um ævintýri þeirra bræðra, sem gerð var árið 1988. (Sjá hér í lok 3. og upphafi 4. þáttar. Rétt er að geta þess, að Þorsteinn sá, er bræðrunum og HaraIMG 1917ldi vini þeirra verður tíðrætt um í lok þriðja þáttar, er alls ekki Þorsteinn Daníelsson heldur skálduð persóna, sem var hinn argasti þrjótur í þáttunum).

                Sem fyrr segir bjuggu þau Þorsteinn og Margrét hér til æviloka, hún lést sumarið 1881 og hann í desember 1882. Þorsteinn sinnti húsasmíðum langt fram á efri ár, hann tók m.a. þátt í að taka niður  Skjaldarvíkurstofu, Ólafs Briem (byggð 1835) og byggja hana upp á Oddeyri, á vegum Gránufélagsins, árið 1873. Þess má reyndar geta, að tíu árum fyrr hafði Þorsteinn keypt Oddeyrina en seldi Gránufélaginu drjúgan hluta hennar árið 1871. Síðasta hús sem hann byggði mun hafa verið Tugthúsið í Búðargili. Það var byggt árið 1874 stóð neðarlaga gilinu en brann til ösku snemma árs 1938.  Um 1880 var Þorsteinn, þá kominn vel á níræðisaldur, með hugann við það framfaramál, að brúa Hörgá. Hugðist hann gefa töluvert fé til byggingarinnar, en hann átti sem fyrr segir mikil auðævi og ekki áttu þau Lónshjón neina lögformlega erfingja.  Þorsteinn hafði meira að segja komið upp líkani að fyrirhugaðri brú. En „hins vegar rann þessi fyrirætlun út í sandinn sökum sljóleika Danielsens“ (Kristmundur Bjarnason 1961:515). Hörgá var ekki brúuð fyrr en upp úr aldamótum 1900.

Þorsteinn Daníelsson og Þorsteinn Daníelsson

Það vill nú svo til, að það er ekki einn Þorsteinn Daníelsson sem kemur við sögu Lónsstofu heldur eru þeir tveir. Ásta, systir Þorsteins, átti soninn Daníel, sem átti soninn Þorsteinn. Sá var fæddur í janúar 1858 og var tvítugur árið 1878 er hann og móðir hans hugðust flytja til Ameríku. Höfðu þau selt allar sínar eigur, nema Þorsteinn átti enn hnakkinn sinn. Kom það sér vel, þegar ömmubróðir hans og alnafni bað hann að finna sig á Lóni. Erindi hans, var að biðja Þorstein yngri að taka við Lónsjörðinni að sér látnum. Ekki fylgir sögunni, hvort eða hversu lengi Þorsteinn yngri hafi hugsað sig um, en hann gekk að þessu og skemmst frá því að segja, að hann bjó að Lóni til æviloka árið 1941. Þannig má segja, að í meira en 100 ár hafi eigandi Skipalóns verið Þorsteinn Daníelsson! 

Árið 1918 voru húseignir á Skipalóni metnar til brunabóta og Lónsstofu þá lýst á eftirfarandi hátt: Timburhús, 16x10 álnir  með járnklæddum kvisti, plankahús með klæðningu utan og innan og þreföldu timburþaki. Skiptist húsið í 6 herbergi niðri og stærð þeirra getið, herbergi a) 4x5 al., herbergi b) 4 ½ x 2 ½ álnir, herbergi c) 5x5 álnir, herbergi d) og e) eru IMG 1927hvort um sig 6x3 ½ álnir, og herbergi f) 5x4 ½ álnir.  Á neðri hæð eru og þrjú eldstæði niðri við múrpípu, fjögur föst rúmstæði og skilvinda. Á lofti eru sex herbergi með eldstæði við múrpípu. Kvistur á húsinu að stærð 6x3 álnir. Þess má geta, að mál hússins eru sett fram með nokkuð sérstæðum hætti; t.d. er húsið sagt 16+10+3+5 álnir að stærð og herbergin sögð t.d. 4+5+3 álnir. Greinarhöfundur getur sér til, að fyrri tvær tölurnar séu grunnflötur en þriðja talan hæð. Þannig sé stærð hússins 16x10 álnir að grunnfleti, hæð upp að þakskeggi 3 álnir og hæð þaks 5 álnir. Þá er þriðja máltalan í herbergjastærðinni í öllum tilfellum 3 álnir.  Hins vegar eru 3 álnir aðeins um 190 cm, sem er fremur tæp lofthæð. Það getur hins vegar vel staðist, að hæð hússins sé um 8 álnir, sem mun nærri 5 metrum. Þá segir í lýsingunni: „Húsið er orðið gamalt (bygt 1824) [svo] en hefur verið mjög vel bygt og er enn vel stæðilegt og að mestu ófúið“ (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1918: nr. 24). 

                Ekki er ljóst hvenær kvistur var byggður á húsið en fyrir liggur, að hann var ekki á húsinu frá upphafi. Kvistlaus Lónsstofa sést á málverki eftir Kristínu Jónsdóttur, sem sjá má á bls. 209 í ævisögu Þorsteins Daníelssonar. Hvorki er getið ártals, né hvort myndin sýni bæinn eins og var þegar verkið var málað, en verkið gæti verið frá 2. áratug 20. aldar. Það er þó alltént ljóst, að kvistur var kominn á húsið árið 1918.  Steypt mun hafa verið utan um Lónsstofu um 1930 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:209) og mögulega hefur Þorsteinn Daníelsson yngri staðið fyrir þeirri framkvæmd, eða ábúendur sem tóku við af honum um það leyti (sjá nánar síðar um ábúendur).  Gluggaskipan framhliðar virðist þó næsta lítið breytt, ef marka má gamlar myndir. Frá upphafi var húsið áfast eldri torfbæ að norðanverðu en núverandi gripahús reist á grunni hans.  Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 kemur fram, að á bænum standi fjós frá 1945 og mjög sennilegt, að þar sé um að ræða hús sem áfast er íbúðarhúsinu að norðan. Sama fjós er a.m.k. sagt steinsteypt í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en fjárhús frá 1920 úr timbri og torfi. Svo vill til, að byggingarár annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókinni en svo er hins vegar í þeirri yngri. Þar er byggingarefna hins vegar ekki getið.

Ábúendur og búsaga Skipalóns á 20. öld - Lokaorð

Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Þorsteinn Daníelsson yngri og Gunnlaug Margrét Gunnlaugsson sögð búa hér til ársins 1930 en í ársbyrjun 1941, þegar Þorsteinn lést, er hann sagður hafa látist á heimili sínu, Skipalóni. Svo þau virðast hafa búið hér áfram á efri árum, þó aðrir tækju við búinu. Frá 1930 virðist vera tvíbýlt á Skipalóni, þar búa annars vegar þau Sveinn Benediktsson og Ingibjörg Jónsdóttir og hins vegar þau Sigurjón Kristinsson og Margrét Ragna Þorsteinsdóttir. Fyrrnefndu hjónin bjuggu hér í fjögur ár, eða til 1934 en þau síðarnefndu til ársins 1948. Þá fluttu að Skipalóni þau Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg HallfríðurIMG 1946 Kristjánsdóttir frá Gásum (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 573). Árið 1970 er búrekstur þeirra Snorra og Sigurbjargar eftirfarandi: 13 kýr, 2 geldneyti, 100 fjár, 4 hross, 45 gæsir og 5 geitur. Túnstærð tæpir 13 hektarar og töðufengur um 600 hestar. Hlunnindi eru einnig talin nokkurt æðavarp og silungsveiði (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 209). Árið 1990, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í samnefndu ritverki var bústofninn 17 fjár, 6 geitur, 15 hænur og 20 alifuglar. Ræktað land var réttir 13 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993 :572). En í ritinu Byggðir Eyjafjarðar árið 2010 er Skipalón farið í eyði, og það mun hafa gerst árið 1997 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:355).  Snorri Pétursson lést árið 1995 og mun Sigurbjörg hafa flust héðan skömmu eftir lát hans.

                Sumarið 1981 heimsótti Ómar Ragnarsson Skipalón og heilsaði upp á Snorra Pétursson og myndarlegan gæsahóp hans. Afraksturinn var tæplega tveggja mínútna innslag í Stikluþættinum Saga í grjóti og grasi. Þar vakti e.t.v. mesta athygli hundur Snorra, sem bundinn var við rauðan Renault bifreið af árgerð 1946, sem stóð í hlaðinu. Hundurinn var bundinn við bílinn, svo hann styngi ekki af til Akureyrar! Nefnilega, ef hann fékk færi á, brá hundurinn sér þessa 14 kílómetra leið í bæinn, fór eftir öllum umferðarreglum og spásseraði um strætin eins og fínn borgari! Greinarhöfundur veit ekki til þess, að þáttur þessi sé aðgengilegur nema á gamalli VHS-myndbandsspólu. Svo ef lesendur komast yfir VHS-tæki og Stikluspólu nr. 2 er svo sannarlega mælt með þessum þætti. Almennt mælir greinarhöfundur  eindregið með Stiklum Ómars Ragnarssonar, fyrir alla þá sem vilja auðga vitneskju sínu og auka skilning á landinu og staðháttum. Þættirnir eru mjög merkt framtak til kynningar á landsháttum og náttúru en auk þess að vera mjög fróðlegir eru þeir einnig afar skemmtilegir. 

                Jörðin Skipalón mun vera í eigu afkomenda Snorra Péturssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur. Lónsstofa hefur hins vegar verið í umsjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1985 og telst hluti húsasafns þess. Smíðahúsið hefur hins vegar verið í umsjón safnsins frá 1976 og var það gert upp um svipað leyti. Lónsstofu bíða hins vegar gagngerar endurbætur, svo sem sjá má á meðfylgjandi myndum.  Væntanlega myndu slíkar endurbætur miða að því, að færa það til upprunalegs horfs. Í lýsingum á húsinu er mjög haft á orði, hversu vel viðað húsið er. Múrhúðun timburhúsa, sem þótti hin mesta bót áLonsstofa teikning sínum tíma hefur í seinni tíð reynst vera algjört skaðræði, hún m.a. lokar auðvitað algjörlega fyrir öndun timbursins, sem er að stofni til lífrænt efni. En það er vonandi að sem mest af nýtilegum og óskemmdum viði leynist undir steypukápunni, sem hjúpað hefur hina 200 ára gömlu Lónsstofu í tæpa öld. Greinarhöfundur ákvað að gamni sínu, að rissa upp teikningar, byggðar á gömlum myndum, að upprunalegu útliti Lónsstofu, með og án kvists, en upprunalega mun húsið hafa verið kvistlaust.  Þá er spurning í hvað húsið gæti nýst, því húsum fer auðvitað ekki vel að standa auð og ónotuð, líkt og bátar sem fúna í naust, best er að þau séu notuð. Lónsstofa gæti auðvitað orðið fyrirtaks safnahús, kannski „útibú“ frá Nonnahúsi vegna tengsla við sögurnar hans. Kannski væri hægt að reka þarna veitinga- og kaffihús yfir sumartímann. Þá væri mögulega hægt að leigja húsið til dvalar og afnota í sérstökum tilgangi, kannski gæti einhver hugsað sér að búa þarna. Hver veit. Eitt er víst, að húsin á Skipalóni eru mikil prýði í fallegu umhverfi, bæjarstæðið tilkomumikið og skemmtilegt og býður eflaust upp á fjölmarga möguleika. Þá má segja, að sagan drjúpi hér af hverju strái, hvort sem er vegna nálægðar við hinn forna Gásakaupstað eða húsanna; hinna geðþekku minnisvarða um athafnamanninn og brautryðjandann Þorstein Daníelsson. Lónsstofa var friðlýst árið 1990 á grundvelli þjóðminjalaga.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024. Myndina, þar sem greinarhöfundur er í forgrunni tók Árni Már Árnason. 

Þess ber að geta hér, að húsin á Skipalóni eru ekki aðgengileg almenningi og heimreiðin lokuð. Greinarhöfundur fékk hins vegar góðfúslegt leyfi Þjóðminjasafnsins til þess að fara að húsunum og ljósmynda þau. Hinum bestu þökkum er hér með komið á framfæri til Ölmu Sigurðardóttur hjá Þjóðminjasafninu fyrir að veita þetta leyfi, sem og Sædísi Gunnarsdóttur hjá Minjastofnun sem hafði milligöngu en höfundur leitaði fyrst til hennar. 

 

Heimildir: Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins 15 ára

Það er víst kominn hálfur annar áratugur síðan ég settist niður að morgni dags, 25. júní 2009, og birti mynd af Norðurgötu 17, Steinhúsinu og ritaði um húsið fáein orð. Þess má geta að kvöldi þess sama dags, bárust heimsbyggðinni þær fréttir, að ein skærasta poppstjarna sögunnar, Michael Jackson, væri látinn. Ég held ég hafi rakið þessu sögu árlega mögulega 10 sinnum, en þessi skrif undu upp á sig. Ég hef ekki tölu á "Hús dagsins" pistlunum en þeir gætu verið um 1000. Ólíku er reyndar saman að jafna, pistlarnir frá fyrstu árunum eru kannski fyrst og fremst hugsaðir sem stuttir myndatextar. Á síðasta ári komu skrif þessi, eða öllu heldur skrif byggð á því sem m.a. hefur birst hér, út á bók, Oddeyri Saga hús og fólk í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur. Og vel á minnst, sú bók er enn fáanleg og til sölu hjá okkur höfundum og í Eymundsson. 

Ekki hef ég ætlað mér að gera þessu afmæli "Húsa dagsins" skil með neinum sérstökum hætti nema e.t.v. slá því saman við annað stór-merkisafmæli; 14 kílómetra norðan Akureyrar, í Hörgársveit, nánar tiltekið á Skipalóni stendur látlaust forskalað timburhús sem á hvorki meira né minna en 200 ára afmæli í ár! Þannig að á 15 ára afmæli "Húsa dagsins" birtist 200 ára afmælispistill Lónsstofu. Og líkt og síðasta sumar, verða Hús dagsins "send í sveit" líkt og börnin forðum, á eftir Lónsstofu bregð ég mér fram í Eyjafjarðarsveit en ekki lokuð fyrir það skotið, að okkur beri niður víðar við Eyjafjörðinn.  


Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð

Á þeim tæplega 400 metra langa kafla, sem Hafnarstrætið sveigir upp í brekkuna á svonefndu Barðsnefi, ber mest á fjórum húsum sem öll eru byggð á árunum kringum aldamótin 1900. Hæst ber auðvitað Samkomuhúsið, með sínum skreyttu burstum og oddmjóa turni en sunnan þess eru öllu látlausari hús; Gamli Barnaskólinn og fyrrum amtmannsbústaður, sem skátar nefndu í sinni tíð Hvamm. Nyrst í þessari þyrpingu er einnig áhugavert og stórbrotið hús, sem stendur hátt upp í brekkunni og umvafið gróskumiklum skógarreit. Hér er um að ræða Hafnarstræti 63, sem byggt er 1901 og kallað Sjónarhæð.

Forsaga og lýsing

Árið 1898 fluttist Englendingurinn FrederIMG_1773ick Jones að á Íslandi. Hafði hann fengið trúarlega köllun, eftir að hafa lesið boðskap frá landa sínum, Alexander Marshal. Marshall hafði skömmu áður dvalist hérlendis og lét þau boð út ganga, að hér væri aldeilis þarft að stunda trúboð og breiða út kristilegan boðskap. Jones bjó fyrst á Húsavík en fluttist fljótlega til Akureyrar þar sem hann festi kaup á hálfum hektara lands í brekkunum ofan Hafnarstrætis og hugðist reisa þar samkomusal. Var það þann 18. mars árið 1901 að Bygginganefnd úthlutaði Jones  byggingaleyfi og var það eftirfarandi: „32 álna langt og 12 álna breitt [hús], skuli standa brekkumegin við götuna meðfram Leikhúsinu og ganga jafnt því til suðurs og stefna eins og það og gatan. Millibilið milli húshornanna að sunnan sé 19 álnir. Tröppurnar frá götunni upp að húsinu, og fyrirhugaðri girðingu milli þeirra, gangi ekki nær vesturjaðri götunnar en 5 álnir“ (Bygg. nefnd. Ak. nr. 199, 1901). Með öðrum orða, hús Frederick Jones skyldi vera um 20x8,8m að grunnfleti, suðurstafnar hússins og Leikhússins handan götunnar í sömu línu með 12 metra bili á milli. Umrætt leikhús er Hafnarstræti 66, sem Gleðileikjafélagið hafði reist árið 1896. Það hús brann til grunna um miðja 20. öld.IMG_1760

Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er timburhús sem skipta mætti í tvær álmur. Syðri hluti hússins er tvílyftur með lágu risi en nyrðri hluti einlyftur með örlítið brattara risi. Allt er húsið á háum, steyptum kjallara og syðst er hann lítið sem ekkert niðurgrafinn, þar sem hann skagar út úr brekkubrún.  Syðst er einnig steinsteypt viðbygging með mjög aflíðandi, allt að því flötu þaki og stendur hún öllu neðar en húsið sjálft, má segja að hún skagi út úr kjallaranum. Á vesturhlið (bakhlið) er vinkillaga útskot sem nær utan um norðvesturhorn syðra húss og tengist þannig báðum álmum. Krosspóstar eru í flestum gluggum, panell eða vatnsklæðning á veggjum og bárujárn á þaki. Húsið stendur hátt ofan götu, á brún snarbrattrar brekku og upp hana liggja 25 tröppur á  timburpall, sem nær nokkurn veginn meðfram framhliðinni.  Grunnflötur suðurálmu er nærri 10x7m, norðurálmu 8x12m og viðbygging að sunnan um 13x3m. Útskot á bakhlið er eitthvað nærri 3x3m og anddyrisbygging að norðan um 6x2m. (Ónákvæmar mælingar af map.is).

   Frederick Jones, sem byggði húsið, stóð hér fyrir trúarlegum samkomum sem nutu mikilla vinsælda. Sjálfsagt var trúrækni almennt þó nokkur hér og auðvitað var almennt framboð samkvæma og afþreyingar afar takmarkað í upphafi 20. aldar. Það er ólíklegt að Jones hafi verið kunnugt um ríginn milli Oddeyrar og Akureyrar þegar hann settist hér að. En mögulega hefur hann fljótlega komist að raun um ástæðu þess, að amtmaður hafði reist hús sitt á þessum slóðum, sem og leikhúsið ásamt hinum glænýi Barnaskóli  höfðu verið valinn þessi staður. En hvort  Jones hafi viljað staðsetja samkomustað sinn sérstaklega á þessu „hlutlausa svæði“ eða hafi einfaldlega litist vel á þennan stað liggur ekki fyrir. Fyrir hvorugu hefur greinarhöfundur fundið heimildir. Ásamt Frederick bjó systir hans, Alice May, einnig hér en  saman höfðu þau umsjón með samkomuhaldi. Í manntali 1901 er hún titluð bústýra en hann húsráðandi. Árið 1901 kallast húsið „no. 23 Hafnarstræti“ en ári síðar hefur númeraröðin verið endurskilgreind og húsið orðið nr. 13.  Jones nefndi söfnuð sinn eftir húsinu, Sjónarhæðarsöfnuðinn og er hann enn skráð trúfélag. Mögulega vorið 1903, fluttust þau Frederick og Alice af landi brott, en hann var nokkuð heilsuveill vegna sykursýki. Enginn er skráður til heimilis að Sjónarhæð árin 1903 og 1904.

Sjónarhæðarsöfnuðurinn, Gook, Sæmundur o.fl.

Fljótlega eftir að Jones hóf sitt trúboð á Akureyri bárust samlanda hans nokkrum fréttir af störfum hans og langaði til þess að vinna með honum að þeim. Þar var um að ræða Arthur Gook en hann kom til Akureyrar þann 3. ágúst 1905. Frederick Jones var þá fluttur úr bænum aukinheldur,  lést hann fyrr það sama ár. Arthur tók upp þráðinn þar sem landi hans hafði hætt og leiddi starf Sjónarhæðarsöfnuðarins og sinnti trúarlegu starfi svo áratugum skipti í hans nafni.   Árið 1905 er húsið skráð í eigu The Stewards Company Ltd. í Bath á Englandi og Arthur Gook eini íbúi þess. Ári síðar er Gook hins vegar orðinn eigandi hússins og þá hefur það fengið það númer sem það æ síðan hefur, þ.e. nr. 63 við Hafnarstræti.  Árið 1912 fékk Arthur Gook leyfi bygginganefndar til að byggja við Sjónarhæð, vestan við suðurenda, 4x10 álnir tvílyfta byggingu með skúr til norðurs, 5x3 álnir. Þar er um að ræða vestasta hluta suðurálmu, sem er með einhalla þaki. Og síðla árs 1916 var Sjónarhæð virt til brunabóta. Húsinu var þannig lýst:

Íbúðar og samkomuhús, einlyft og tvílyft með lágu risi. Á gólfi undir framhlið eru 3 stofur og forstofa og samkomusalur þvert yfir húsið. Við bakhlið eru 2 stofur, eldhús og þvottahús. Á lofti undir framhlið eru 2 stofur og forstofa. Við bakhlið 3 stofur. Efsta loft óinrjettað [og] notað til geymslu. Kjallarinn er hólfaður í 3 hólf og notaður til geymslu. Skorsteinar eru tveir. Samkomusalurinn er notaður fyrir guðsþjónustusamkomur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 121). Þá er húsið sagt timburklætt með járn á þaki, 20,4m að lengd, 7,5m á breidd, 8,8m hátt. Á húsinu voru 29 gluggar og í því 8 kolaofnar og ein eldavél. Upprunalegar teikningar að Sjónarhæð virðast ekki hafa varðveist né að viðbyggingunni frá 1912, en það er í raun sjaldgæft að svo sé, þegar í hlut eiga hús byggð í upphafi 20. aldar. Á vef Héraðsskjalasafnsins má hins vegar sjá teikningar, sem gerðar voru af húsinu um 1922 á vegum Rafveitu Akureyrar, sem þá tók til starfa.

    Arthur Gook sinnti kristniboðsstarfi og leiddi starf Sjónarhæðarsafnaðarins í ríflega hálfa öld, en hann lést árið 1959. Hann naut að sjálfsögðu liðsinnis margra karla og kvenna í sínum störfum. Mætti þar kannski fyrst og fremst nefna Sæmund G. Jóhannesson en hann var löngum kallaður Sæmundur á Sjónarhæð. Sæmundur, sem var Húnvetningur, kom til Akureyrar árið 1925. Hann gerðist fljótlega sérlegur samstarfsmaður Arthur Gook og sinnti köllun sinni varðandi kristniboðið allar götur síðan, en Sæmundur lést árið 1990. Sæmundur stundaði nokkurs konar lækningar, fyrst og fremst með  trúarsannfæringu og fyrirbænum og ýmsir sem töldu sig, og telja sig fullum fetum hafa hafa fengið bót meina sinna fyrir atbeina Sæmundar á Sjónarhæð. Látum muninn á viðurkenndum læknavísindum og kraftaverkum eða rökræður þess efnis liggja á milli hluta hér. Þá hafði Arthur Gook löngum hjá sér ráðskonu, Kristínu Steinsdóttur frá Kálfsskinni á Árskógsströnd. Hún var iðin við garðyrkju og vefnað og seldi afrakstur sinn, m.a. blóm og trefla við allmiklar vinsældir. Vorið 1939 sótti Gook um leyfi bygginganefndar til að reisa skála eða gróðurhús sunnan við Sjónarhæð, áfast húsinu. Væntanlega hefur það verið ætlað fyrir blómarækt Kristínar. Stendur blómaskáli þessi enn og er þar um að ræða syðsta hluta Sjónarhæðar, viðbygginguna út frá kjallaranum sunnanmegin. Teikningarnar að byggingu þessari, gerði Tryggvi Jónatansson og eru það PC280057einu teikningarnar af Hafnarstræti 63, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrarbæjar. Kristín og Arthur Gook gengu í hjónaband árið 1950 en Florence, fyrri eiginkona Arthurs, lést árið 1948. Í æviminningum sínum segist Sæmundur hafa beðið fyrir þessum ráðahag þeirra og það orðið úr (sbr. Sæmundur Jóhannesson 1972:165).

    Fólk var skírt á sérstakan hátt í Sjónarhæðarsöfnuðinn og til þeirrar athafnar notaði Gook einfaldlega flæðarmálið neðan götunnar. En Bogi Daníelsson, nágranni Gooks í Hafnarstræti 64 [löngum kallað Bogahús] mun hafa nýtt sama flæðarmál til annarra nota, nefnilega skolað þangað úrgangi frá húsi sínu. Um þetta var kveðið (sbr. Steindór Steindórsson 1993:116):

Séra Gook á Sjónarhaug                                                      í sálir kann að toga                                                         en það er skitin skírnarlaug                                                 skólprennan hjá Boga

    Sjónarhæðarsöfnuðurinn, er e.t.v. þekktastur meðal almennings fyrir sumarbúðirnar, sem hann hefur rekið á Ástjörn í nær 80 ár. Var það Arthur Gook sem kom þeim á fót, þar sem hann fékk skika við tjörnina og hermannabragga. Fyrsti barnahópurinn kom á Ástjörn sumarið 1946 og hafa sumarbúðirnar verið reknar óslitið síðan. Vart er hægt að nefna sumarbúðirnar á Ástjörn án þess að nefna Boga Pétursson en hann stóð þar vaktina svo áratugum skipti. Í hugum margra er nafn hans samofið sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og sumarbúðanna á Ástjörn.  Þá hefur Sjónarhæðarsöfnuðurinn staðið fyrir alls konar samkomuhaldi, m.a. fyrir börn áratugum saman og ugglaust margir Akureyringar á ýmsum aldri, sem eiga minningar af samkomum á Sjónarhæð eða dvöl í sumarbúðum safnaðarins. Það er nú einu sinni svo, að þegar svo umfangsmikilli og langri sögu sem saga Sjónarhæðarsafnaðarins er gerð skil í fáeinum málsgreinum,  verða óneitanlega margar staðreyndir, atburðir og einstaklingar  útundan sem fullt erindi ættu í slíka umfjöllun. En ekki verður sagt  skilið við Arthur Gook án þess að nefna framlag hans til tækniþróunar landsmanna. Hann var nefnilega sannkallaður frumkvöðull á sviði útvarps -og jafnvel sjónvarps, hérlendis. Styðjumst við hér við frásögn Sæmundar Jóhannessonar.

Útvarp og sjónvarp á Sjónarhæð

Arthur Gook þótti nauðsynlegt, að Íslendingar IMG_1759fengju útvarp, það væri nauðsyn í landi sem hvort tveggja væri strjálbýlt og samgöngur stopular. Í heimalandi sínu var hann ötull við að kynna Ísland og segja frá trúboðsstarfi sínu hér.  Trúuðum Englendingum, sem heyrðu borðskap Gooks var mjög umhugað um að „útvarpsvæða“ Íslendinga og vildu safna fé og gefa Íslandi útvarpsstöð.  Gook myndi fara fyrir útvarpsstöðinni og þar yrði útvarpað fréttum, tilkynningum og að sjálfsögðu guðsþjónustum. Gook hafði þegar flutt inn útvarp þar sem hægt var að ná breskum útsendingum á langbylgju og bauð hann fólki að koma að hlusta í samkomusal sínum. En nú skyldu Íslendingar fá sitt eigið útvarp, sent út frá Sjónarhæð. Réð Gook til sín enskan útvarpsfræðing, F. Livingston Hogg og á næstu árum risu mikil möstur á brúnum Barðsgils. Útsendingartækin voru mjög orkufrek og reyndist afl Glerárvirkjunar ekki nægilegt til að halda útsendingum skammlaust. Við því var brugðist og Gook flutti inn aflvélar. Og þann 10. desember 1928 fékk hann leyfi til að reisa skúr, 4x5m að stærð og 2 ½ m á hæð, fyrir „mótor til afnota fyrir útvarpsstöðina“. Í bókun bygginganefndar var þess einnig getið, að möstrin sem hann hefði reist fyrir útvarpið, væru reist í óleyfi og skyldi hann fjarlægja þau hvenær sem bæjarstjórn krefðust þess (sbr. Bygginganefnd Akureyrar, 1928: nr.622). En það voru ekki bæjaryfirvöld eða raforkuskortur sem réðu örlögum þessarar fyrstu útvarpsstöðvar Íslandssögunnar: Þegar Gook hafði fengið útvarpsleyfi frá ríkisstjórn Íslands var á því einn fyrirvari; það mætti afturkalla hvenær sem er. Og svo fór, að leyfið fékkst ekki endurnýjað og það án skýringa. Gook og hans fólk gafst hins vegar ekki upp og fengu að lokum skýrt og skorinort svar frá yfirvöldum, sem var efnislega eftirfarandi: „Þið fáið ekki útvarpsleyfi og þið þurfið ekkert að vita hvers vegna“ (Sæmunur G. Jóhannesson 1972:161). Sæmundur getur þess reyndar í endurminningum sínum, að þetta hafi kannski ekki verið orðrétt svona en þetta voru skilaboðin efnislega, og þau skýr.P7090150

     Eins og alkunna er, hófust sjónvarpsútsendingar hérlendis haustið 1966. Í einhver ár fyrir það höfðu íbúar suðvesturhornsins þó aðgang að sjónvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokölluðu Kanasjónvarpi. En jafnvel löngu fyrir það, var horft á sjónvarp á Sjónarhæð! Það var nefnilega svo snemma sem 1934, að þeir Livingston Hogg og Gook, fengu lánað sjónvarpstæki, sem þá var spánný tækni í heimalandi þeirra og reyndu það á Sjónarhæð. Sæmundur segir svo frá: „En framan á því [sjónvarpinu] var sem lítill gluggi, 10-15 sm á hvorn veg, minnir mig. Við beztu skilyrði sáust í því myndir. Var mér eitt sinn leyft að líta í þetta furðutæki. Sá ég þar mynd af stúlku, sæmilega skýra, nema hvað skuggi lá um efri vör hennar líkt og skegg. Tæki þessu var skilað aftur“ (Sæmundur G. Jóhannesson 1972:163). Mögulega hafa þeir Gook, Livingston Hogg og Sæmundur horft á sjónvarpið einhvern fimmtudaginn, og verið fyrir vikið enn lengra á undan samtíð sinni, því það var ekki fyrr en árið 1986 að sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum tíðkuðust hérlendis, með tilkomu Stöðvar 2.

Niðurlag  (og dægurlag frá tímum Sjónarhæðarútvarps)

                Allar götur frá upphafi hefur Sjónarhæð verið samkomu- og íbúðarhús en í syðsta hlutanum, sem byggður var sem blómaskáli var löngum ýmis starfsemi, um áratugaskeið prentsmiðja, Offsetstofa Hilmars Magnússonar, síðar Offsetstofan, sem enn mun starfrækt. Hér má einnig nefna, að vorið 1976 vildi það slys til, að Bronco jeppi sem ekið var um Eyrarlandsveg um 30 metrum ofar í brekkunni ók, í kjölfar áreksturs, fram af brúninni ofan Sjónarhæðar og hafnaði á syðsta hluta hússins, þ.e. Offsetstofunni. Fór þar betur en á horfðist og ekki urðu alvarlega slys á fólki, en þarna hefði sannarlega getað farið verr. Nú eru sem betur fer hverfandi líkur á að slíkt gerist, þökk sé vegriði á brekkubrúninni og miklum trjágróðri ofan Sjónarhæðar. Vegriðið kom þó ekki fyrr en áratugum eftir þetta atvik en lengi vel voru stórir steypuklumpar á brúninni.IMG_1774

   Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er sérlega skemmtilegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Staðsetning hússins og umgjörð er einstaklega skemmtileg, á einum mest áberandi stað bæjarins. Lóðin, sem er líklega meðal þeirra stærri í bænum og slagar hátt í hálfan hektara er einnig sérlega vel gróin og væri raunar hægt að tala um skógarreit í kringum Sjónarhæð. Þar ber mikið á gróskumiklum reynitrjám, birki, öspum og grenitrjám en annars kennir ýmissa grasa og trjáa í þessum geðþekka skógarlundi sem prýðir þennan skemmtilega stað, norðurhluta Barðsgils.  Auk þess skartar skógurinn einu af fáum eikartrjám Akureyrarbæjar og líkast til það stærsta í bænum (greinarhöfundur veit a.m.k. ekki til þess, að það hafi verið fellt). Hafnarstræti 63 hlýtur í Húsakönnun 2012 hæsta varðveislugildi sem einstakt hús, húsaröð eða götumynd sem rétt væri að varðveita með hverfisvernd (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir og 2012:119). Einnig er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Ekki þarf að velkjast í vafa um menningarsögulegt gildi hússins hvað varðar sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og starfsemi hans, einnig að hér var fyrsta útvarpsstöð landsins starfrækt. Einnig má  geta þess, að Sjónarhæðarsöfnuðurinn telst fullgilt og viðurkennt trúfélag; Sjónarhæð er líkast til eina hús bæjarins, ef ekki á landinu, fyrir utan kirkjubyggingar, sem trúfélag dregur nafn sitt af!

Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. júlí 2011, 28. desember 2013 og 14. maí 2024.

ES. Það er ekki víst, að dægurlög og jazz hafi endilega átt upp á pallborðið innan um kristilegan boðskapinn í útvarpi Gooks og trúsystkina hans. En hafi svo verið, gæti þetta mögulega hafa hljómað á öldum ljósvakans frá Sjónarhæð á síðari hluta 3. áratugarins. Lag þetta, sem greinarhöfundur heyrði KK leika í útvarpsþætti sínum, Á reki, fyrir nokkrum árum síðan er Ukulele Lady í flutningi söngkonunnar Lee Morse, hljóðritað um svipað leyti og Gook var koma á fót útvarpsstöð sinni Sjónarhæð, þ.e. í maí 1925. (Hálfri öld síðar, þ.e. fyrir um hálfri öld (1976) fluttu Ríó Tríó texta Jónasar Friðriks um Kvennaskólapíuna við þetta sama lag, en þá hafði Arlo nokkur Guthrie nýlega tekið það upp á sína arma).

 

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

 

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902; Fundur nr. 199, 18. mars 1901.  Fundargerðir 1902-21; Fundur nr. 370, 30. jan. 1912. Fundargerðir 1921-30; Fundur nr. 622, 10. des. 1928.  Fundargerðir 1935-41; Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

 

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

 

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Sæmundur G. Jóhannesson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 152-181) Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 419
  • Frá upphafi: 440776

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 199
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband