Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Yst í Innbænum eða skammt norðan Miðbæjar Akureyrar standa nokkur hús frá árunum kringum aldamótin 1900, á nokkuð áberandi stað í brekkunum við svokallað Barðsnef. Ber þar einna helst á Samkomuhúsinu með sínar skreyttu burstir og turnspíru. Öllu látlausara en engu að síður stórglæst er húsið næst sunnan við en þar er um að ræða Gamla Barnaskólann. Mörgum kann eflaust að þykja þessi hússtæði einhver þau tilkomumestu í bænum og staðsetning þeirra þarna er engin tilviljun sem nánar verður greint frá hér á eftir. Hér verður farið nokkuð ítarlega yfir tilurð og upphafssögu Barnaskólans en nokkru hraðar yfir sögu síðari áratuga.IMG_1767

 

Forsaga og tildrög

Þegar leið að aldamótum 1900 fóru byggðalögin á Akureyri og Oddeyri ört stækkandi og eins og gefur að skilja, fjölgaði börnum í sama hlutfalli við stækkandi byggð. Barnaskóli hafði verið stofnaður á Akureyri árið 1871 og einnig stóð bærinn fyrir skólahaldi á Oddeyri, fyrstu árin eftir að byggð tók að myndast þar, á 8. áratug 19. aldar. Þegar frá leið vildu Oddeyringar þó ekki lengur taka þátt í kostnaði við skóla Akureyrarbæjar og gerðust sjálfum sér nógir um skólahald. Á þessum tíma voru raunar þessi hverfi raunar tvö aðskilin byggðalög;  hvort tveggja landfræðilega, með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram og stjórnsýslulega, umrædd brekka tilheyrði nefnilega Hrafnagilshreppi.  Bærinn í raun tvær hólmlendur í öðru sveitarfélagi. Á tíunda áratug 19. aldar, var þessi aðskilnaður rofinn á markvissan hátt, m.a. með kaupum bæjarins á jörðinni Stóra- Eyrarlandi auk lagningu vegar á milli eyranna tveggja. Þá byggði amtmaður sér bústað á þessum slóðum. Þarna var miðbær Akureyrar og það bókstaflega; amtmaður hafði nefnilega mælt nákvæmlega vegalengdina milli syðsta húss Akureyrar og ysta húss Oddeyrar og byggt sér bústað þar. (Og löngu síðar varð raunin sú, að Miðbær Akureyrar byggðist upp á ysta hluta þessa einskismanns svæðis). 

            Hvorki á Akureyri né Oddeyri hafði verið reist sérstakt skólahús; á Akureyri hafði íbúðarhúsið að Aðalstræti 66 verið keypt undir skólann en árið 1878 var vöruhúsi Havsteensverslunar (stóð nokkurn veginn þar sem nú er Hafnarstræti 7) breytt í skólahús. Á Oddeyri var skólinn til húsa í íbúðarhúsum, yfirleitt aðeins fáa vetur í senn á hverjum stað. Á tímabili var hann í Hauskenshúsi, á tímabili í húsi sem nú er Fróðasund 10. Síðast var hann starfræktur í Prentsmiðjunni við Norðurgötu (Steinhúsinu). Það var árið 1895 að bæjarstjórn ákvað, að reisa skyldi sameiginlegan skóla fyrir öll börn á Akureyrarsvæðinu (þ.e. Akureyri og Oddeyri) og ætlunin var, að hann yrði staðsettur á Torfunefi og yrði lokið 1898. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum en árið sem barnaskólinn hefði átt að vera tilbúinn var tekið að ræða barnaskólabyggingu aftur. Skipuð var nefnd til að annast framkvæmdina og í henni sátu þeir Páll Briem amtmaður, Friðrik Kristjánsson kaupmaður og Björn Jónsson. Akureyringar og Oddeyringar vildu auðvitað hafa sameiginlegan skóla næst sér en nefndin lagði til, að farið yrði bil beggja í bókstaflegri merkingu og skólinn reistur mitt á milli ysta húss Oddeyrar og syðsta húss Akureyrar og var það samþykkt af bæjarstjórn (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:132). Það má geta sér þess til, að þessi hugmynd hafi verið komin frá Páli Briem, en hann hafði fáeinum árum fyrr reist sér hús, staðsett eftir þessari aðferð. Þegar húsinu hafði verið valinn staður var næst á dagskrá að setja saman óskalista um fyrirkomulag nýja hússins og fá gerðar teikningar. Þess var meðal annars krafist, að skólahúsið skyldi rúma 100 nemendur sem hver um sig fengi 100 rúmfet (um 3 rúmmetra) andrúmslofts.  Eftir þeim tillögum sem gerðar voru og samþykktar var leitað til Bergsteins Björnssonar sem gerði teikningar að hinu nýja skólahúsi, sem samþykktar voru af bæjarstjórn. Byggingameistari hússins var Bjarni Einarsson skipasmiður og tók hann bygginguna að sér fyrir 6250 krónur. Til samanburðar má nefna, að haustið 1900 var tunna af kartöflum auglýst fyrir 6 krónur. (Þannig kostaði barnaskólabyggingin jafnvirði rúmlega 1000 tunna af kartöflum).

            Hér er skemmtileg hliðarsaga: Í fyrri „atrennu“ að sameiginlegri skólabyggingu árið 1895 var leitað til Snorra Jónssonar timburmeistara, læriföður Bergsteins í iðninni, varðandi teikningar og skipulag. Hann var þá í þann veginn að hefja byggingu stærsta húss Akureyrarsvæðisins, sem hann reisti við Strandgötu. Þegar Bergsteinn vann teikningar sínar að Barnaskólahúsinu var hann einnig að hefja byggingu húss, sem reyndist það stærsta í bænum, sjónarmun stærra að rúmtaki en Snorrahús.

 

Bygging og vígsla - Ítarleg samtímalýsing

Gamli Barnaskólinn er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, sem kalla mætti jarðhæð þar eð hann er aðeins niðurgrafinn brekkumegin. Er hann raunar hærri er gangstéttarbrún götumegin, svo kannski orkar tvímælis að tala um kjallara. Á miðju hússins að framanverðu er langur kvistur sem setur nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Er kvisturinn afmarkaður af tveimur strikuðum flatsúlum á framhlið. Kvisturinn er gluggalaus en fyrir honum miðjum eru timburlistar eða skrautbönd sem mynda þríhyrning, samsíða þakbrúnum.  Panell eða vatnsklæðning er á veggjum efri hæðar en jarðhæðin er múrhúðuð. Bárujárn er á þaki og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Á suðurhlið er viðbygging, inngöngubygging úr timbri á efri hæð en steypt bygging til suðurs úr jarðhæð. Er hún umtalsvert stærri að grunnfleti og myndar þak hennar verönd við anddyrisbyggingu efri hæðar. Hluti hennar er opið rými. Grunnflötur er um 26,4x8,9m, anddyrisbygging að sunnan er um 5,25x4,3 en viðbygging við jarðhæð um 15,75x3,7. Meðfram henni (þ.e. viðbyggingu jarðhæðar) er 2,3m breitt rými undir þaki, afmarkað af vegg í suðri, sem nýtist sem yfirbyggt bílastæði.

 IMG_1761

            Það var vorið 1900, nánar tiltekið þann 12. maí,  að bygginganefnd bæjarins var „samankomin á veginum milli Akureyrar til þess að taka ákvörðun um Barnaskólabyggingu bæjarins, sem bæjarstjórnin ætlar að láta reisa fyrir norðan hús Amtmannsins“ (Bygg.nefnd. Ak nr. 187, 1900). Húsið var ákveðið 42 álnir að lengd, 24 álnir frá grindum (líklega grindverk), 9 álnir vestur frá ytri brún aðalvegur, í beinni línu við veginn.

Nú ber heimildum ekki saman um vígsludag. Húsið prýðir skjöldur þar sem á stendur, að húsið sé tekið í notkun 18. október 1900. Í Sögu Akureyrar segir í myndatexta, að skólinn hafi verið vígður þann nítjánda (Jón Hjaltason 1994:317).  Í grein í Stefni frá októberlokum 1900 segir að skólinn hafi verið settur 20. þ.m. [þ.e. 20. október] en vígður daginn áður, þ.e. þann 19. október. Var það Klemenz Jónsson bæjarfógeti sem vígði bygginguna „í viðurvist fjölda manna úr bænum“. Hélt hann ræðu um tilurð byggingarinnar og tíundaði þann kost, sem staðsetning byggingarinnar væri og að skólinn væri sameiginlegur þannig að „nú gæti eigi komið fram sá rígur sem tvískipting skólans [þ.e. sitt hvor skólinn fyrir Akureyri og Oddeyri] stundum hefði ollið í bænum“. Lauk vígsludeginum með samsæti bæjarstjórnar, byggingarstarfsmanna og nokkrum öðrum gestum, þar sem næsti nágranni skólans, Páll Briem amtmaður hélt erindi um skólabyggingar og kennslumál.

            Nýja barnaskólahúsið var blaðamönnum Stefnis mjög hugleikið og í næsta tölublaði þann 7. nóv. 1900 birtist  á blaðsíðum 1-2, afar ítarleg byggingarsaga og lýsing hússins. Gefum hinum ónefnda höfundi orðið, að viðbættum innskotum þess, sem þetta ritar. [Ath. orðrétt stafsetning texta frá 1900 og ein alin, álnir í fleirtölu, er um 63 cm]:   Bygging hússins hófst  þegar snjó og klaka leysti í vor, var byrjað á undirstöðu hússins og að grafa fyrir kjallaranum og frá vesturhlið þess, og að hlaða 5 álna háan grjótvegg undir austurhlið þess. Undirstaðan var svo snemmbúin, að húsið var reist snemma í júlí, og svo  verið unnið kappsamlega að smíði þess, þar til um miðjan októbermánuð, að það var svo búið innan, að barnaskólinn var settur í því; þykir mönnum, sem skyn bera á, húsið sterklega byggt og eigi til sparað, að það á alian hátt sje sem traustast. Þannig er ljóst, að bygging hússins tók í mesta lagi 5 mánuði, þ.e. hún var ekki hafin 12. maí þegar Bygginganefnd var að mæla fyrir húsinu og grindin hefur verið risin í júlímánuði. 

Svo er húsinu lýst mjög nákvæmlega:  Skólahúsið er 42 álnir á lengd og 14 álnir á breidd, undir því er kjallari jafnlangur húsinu, en eigi nema 10 álnir á breidd. Kjallarinn er með stórum gluggum og því vel bjartur. Húsið er 5 álnir á hæð undir loptbita, hæðin af loptbitum í sperrukverk 4 og 1/2 alin. Aðalinngangur í húsið er vestast í suðurstafninn, og kemur maður þá í gang, 4 álna breiðan, sem liggur meðfram vesturhlið hússins á 31 alin. Úr þeim gangi er gengið inn i þrjár kennslustofur, sem hver um sig er rúmar 10 álnir á hvern veg, eru 3 gluggar á hverri stofu á austurhlið, nyrðsti endi hússins, fullar 10 álnir, er óþiljaður innan, er það leikfimiskennslustofa skólans. Þar er uppgangur á loptið í húsinu. [...] Gólfbitarnir eru úr gildum trjám með tæprar alinar millibili, gólfið er tvöfalt og þjett leirlag á milli.

            Einhvern tíma skildist höfundi, sem þrátt fyrir þetta áhugamál, hefur ekki hundsvit á húsasmíði, að ein best byggðu hús með tilliti til myglu væru timburhús frá árunum nærri aldamótunum 1900. Hér er e.t.v. komin uppskrift að myglufríum útveggjum, nema hvað nú myndi væntanlega notuð steinull eða annað slíkt í stað mosa:  Veggir að kennslustofum eru að utan klæddir venjulegum klæðningsborðum, en milli þeirra og grindar er klætt með asfaltpappa, í miðja grindina er felld borðaklæðning, og veggirnir því næst klæddir innan með venjulegum innanþiljuskífum, en milli þeirra og borðanna í grindinni er þjett troðið mosa. Áfram heldur lýsingin, næst eru það gluggar, hurðir og loft:  Gluggar allir í stofunum tvöfaldir og stærð glugganna á hverri stofu sem næst 1/6 á móti gólffleti. Skilrúm öll í húsinu eru tvöföld og þjett troðið mosa milli þilja, stoðir og bindingar í þeim úr 3x3 þuml. trjám. Berst hljóð því iítt í gegn um þau, nje hiti og kuldi. Hurðir eru úr 2 þuml. plönkum og eikarmálaðar. Lopt er tvöfalt. Loptbitar úr gildum 14 álna trjám með 1/2 al. millibili, klæddir ofan með venjulegum gólfborðum, en neðan á þiljað með skífuklæðning. Þak [er] úr venjulegum borðum, blindinguðum [svo] saman, klætt með dönskum þakpappa og bikað og sandborið.

 

            Kynding hússins var mjög fullkomin og sjálfsagt, allt að því verkfræðilegt undur á þeim tíma:  Ofnar og loptpípur í kennslustofunum eru hinar fullkomnustu, sem eru til hjer í bæ og efasamt að upphitun og loptbreyting sje í eins góðu lagi í hinum nýja barnaskóla í Reykjavík, eins og er í skóla þessum. Ofnarnir eru stórir og vandaðir kápuofnar, sem allstaðar þykja sjálfsagðir í skólum, þar sem ofnahitun á annað borð á sjer stað. Standa þeir fast við skilrúmið milli gangsins og kennslustofanna, og eru eldstæðisdyr ofnanna gegn um skilrúmið, svo að lagt er í þá á ganginum og askan þar úr þeim tekin. fylgir þessu sá mikli kostur, að ekkert ryk kemur í stofuna við ílagning eða hreinsun ofnanna, heldur eigi draga þeir lífslopt úr stofunum til brennslunnar. Undir gólfi stofanna liggja víðar loptpípur að utan upp undir ofnana, streymir inn um þær nýtt lopt og hitnar við ofnana, því það verður að fara gegn um þá upp með kápunni, og svo gýs það út í stofurnar upp við lopt, en jafnhliða dregur loptpípa í reykháfnum þyngra lopt frá gólfinu út úr húsinu, verður þannig stöðug loptbreyting í stofunum, þegar lagt er í ofnana. Þarna var eðlisfræði heits og kalds lofts hagnýtt svo úr varð einhvers konar kolakynt loftræsikerfi. Þá var húsið búið pípulögnum: […]Skammt fvrir ofan húsið í brekkunni er lítil uppsprettulind, þaðan hefir vatn verið leitt í járnpípu inn í kjallarann og upp á skólaganginn, eru á ganginum þrjú þvottaföt fyrir börnin, sem vatnspípurnar liggja að, en frá þeim liggja skólprennur úr járni niður um kjallaragólfið og fram fyrir veg. Að lokum fær byggingin þessa umsögn: Skólahúsbygging þessi er einhvert stærsta og dýrasta fyrirtæki, sem þetta bæjarfjelag befir ráðist í, en efalaust jafnframt eitt hið þarfasta, þótt fyrirtækið gefi eigi af sjer beinan peningalegan arð, sem borgi höfuðstól og vexti. (Án höfundar, 1900: bls 1-2)

 

Skólahald - Halldóra Bjarnadóttir - Önnur hlutverk hússins

Þegar skóli var settur í fyrsta skipti í húsinu voru nemendurnir 73, börn á aldrinum 7-14 ára (sbr. Jón Hjaltason 1994:316). Í grein Heimilis og skóla (án höfundar) eru börnin reyndar sögð hafa verið um 66 en alltént voru nemendurnir um 70 þennan fyrsta vetur. Skiptust nemendur í þrjá bekki og svonefndur fyrsti kennari (nokkurs konar skólastjóri) var Páll Jónsson, síðar Árdal, en hann hafði starfað við „Akureyrarskólann“ frá 1885.  Skólagjöld voru ein króna fyrir fyrsta bekk, 1,75 kr. fyrir miðbekk og 2,25 kr. fyrir efsta bekk. Vorið 1901 var ráðinn skólastjóri við Barnaskólann, Kristján Sigfússon frá Varðgjá. Gegndi hann starfinu til dánardægurs, 1908, en þá um haustið var Halldóra Bjarnadóttir ráðin skólastjóri. Hennar þáttur í sögu BarnaIMG_1763skólans er nokkuð veigamikill en honum verður gerð frekari skil síðar í þessari grein. Halldóra gegndi skólastjórastöðunni í áratug en eftirmaður hennar var Steinþór Guðmundsson. Steinþór var skólastjóri frá 1918 til 1929 er Ingimar Eydal tók við, en þá fóru líka í hönd síðustu misseri hússins við Hafnarstræti 53 sem barnaskóla. Nýtt barnaskólahús sunnan og ofan Grófargils leysti nefnilega barnaskólann gamla af hólmi árið 1930. Voru nemendur þá orðnir vel á þriðja hundrað og 1930 var upphaf fræðsluskyldu miðað við 8 ára í stað 10 áður, og við það fjölgaði nemendum enn frekar (sbr. Heimili og skóli 1961: 71-73).

 

            Lengst framan af var aðeins kennt á efri hæð hússins, jarðhæð (kjallari) var ekki tekin undir skólann fyrr en 1922 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:131). Í kjallara voru frá upphafi íbúðarými og meira að segja gosdrykkjaverksmiðja. Þar framleiddi Knut nokkur Hertevig m.a. sódavatn, a.m.k. þrjár tegundir límonaðis; hindberja, jarðarberja og sítrónu og saftir, súrar og sætar. Nýtti hann væntanlega vatnið úr lindinni bak við húsið og kvað það eitt besta vatn sem hann hafði fengið til gosdrykkjagerðar. Lesendur geta ímyndað sér hvernig það væri, að vera barn í skóla, þar sem gosdrykkir væru framleiddir í kjallaranum! Greinarhöfundur getur allavega fyrir sitt leyti ímyndað sér, að það hefði boðið upp á ýmis konar freistnivanda og eflaust truflað einbeitingu við nám, hefðu sætir drykkir verið framleiddir í húsum Hrafnagilsskóla eða Oddeyrarskóla þegar hann sat þar á skólabekk.

 

            Þá virðast kennslustofur einnig hafa verið leigðar til íbúðar, væntanlega meðan kennsla lá niðri, en skólaárið var umtalsvert styttra en nú gerist. Vorið 1902 fengu Oddur Björnsson prentari og fjölskylda leigt í skólanum. Dóttir hans, Ragnheiður O. Björnsson segir svo frá: Í barnaskólanum fengum við til umráða fyrsta bekk, leikfimissalinn og ganginn. Fyrsti bekkur var stór stofa með þrem stórum gluggum. […] Í leikfimissalnum var sofið og eldað og tjaldað á milli. (Ragnheiður O. Björnsson 1972:193). Bjuggu þau hér til hausts. Síðar gekk Ragnheiður þarna í barnaskóla og þar dró til tíðinda með nýjum skólastjóra, eftir lát Kristjáns Vigfússonar frá Varðgjá: Haustið 1908 fengum við svo nýjan skólastjóra, Halldóru Bjarnadóttur. Kom hún frá Noregi, þar sem hún hafði stundað nám og lokið þar kennaraprófi og síðan verið þar kennari. Kom Halldóra með ýmsar nýjungar sem vænta mátti og auðvitað var fólk ánægt með margar þeirra en ekki allar  (Ragnheiður O. Björnsson 1972:1908). Halldóra Bjarnadóttir innleiddi svo sannarlega sitt hvað nýtt, hvað varðaði m.a. kennsluhætti og fyrirkomulag; lagði t.d. áherslu á handavinnu og endurnýjun búnaðar og bóka og kom á foreldra- og nemendafundum. Mun hún hafa komið á leikfimikennslu, vettvangsferðum, vísi að skólabókasafni, staðið fyrir byggingu leikvallar við skólann, auk þess sem litlu jól voru fyrst haldin við Barnaskóla Akureyrar í hennar tíð. Halldóra var þannig sannkallaður brautryðjandi í skólastarfi. Kannski má segja, að grunnskólastarf sé enn þann dag í dag að einhverju leyti mótað af áherslum og hugmyndum Halldóru Bjarnadóttur. Halldóru var einnig umhugað um hreinlæti og umgengni og það lagðist misjafnlega í fólk. Sagan segir m.a. að hún hafi verið kærð til sýslumanns fyrir þá kröfu sína, að nemendur færu úr útiskóm og í inniskó þegar inn var komið.  Þá sáu bæjarbúar margir hverjir eftir skattfé sínu, sem þeim þótti sólundað í skólann; óx þeim m.a. í augum kostnaður við að koma upp bókasafni og argasti óþarfi væri að eyða fé í leikvöll fyrir börnin, hvað þá öll steypuvinnan við hann, sem síðar varð. En Halldóra lét steypa vegg fram að götu og stækka leiksvæðið um leið, sumarið 1914. Vinnunni við stækkun leikvallarins stýrði einn af kennurum skólans, Páll Jónsson Árdal, fyrrum yfirkennari. Eitt sitt, er hann var við steypuvinnu við umræddan vegg, vatt vegfarendi sér að honum og hreytti í hann: Því var þetta ekki steypt úr gulli. Og Páll svaraði af bragði: Það hefði sjálfsagt verið gert, hefði það verið fyrir hendi (sbr. Jón Hjaltason 2001:192).P8190797 (2)

 

            Eftir að hlutverki hússins sem skólahús lauk hýsti það Amtsbókasafnið en einnig var búið í húsinu. Bókasafnið mun hafa verið í húsinu í 17-18 ár eða til 1947-8. Bókavörðurinn, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var búsettur hér framan af meðan bókasafnið var rekið í húsinu en árið 1944 byggði hann sér veglegt íbúðarhús við Bjarkarstíg á ytri Brekkunni. Ýmis starfsemi fór fram í húsinu áratugina á eftir, m.a. var saumastofa rekin hér á vegum Akureyrarbæjar. Þá var búið í húsinu fram undir 1980 og voru að jafnaði þrjár íbúðir í húsinu. Eftir það hófust viðgerðir á vegum bæjarins sem sneru að ytra byrði hússins. Á síðustu áratugum 20. aldar og fram til 2006 hafði Leikfélag Akureyrar afnot af húsinu og var það m.a. nýtt sem leikmunageymsla.

 

            Á árunum 2006-07 var húsið allt endurnýjað að innan á vegumP3030007 fjármálafyrirtækisins Saga Capital. Þá var einnig byggt við húsið til suðurs, forstofubygging (sem áður var aðeins örlítil kytra, e.t.v. 2x2m) stækkuð umtalsvert og spennistöð, sem áður var í skúr sunnan hússins, felld inn í neðri hæð viðbyggingarinnar, þar sem áður var hið umdeilda leiksvæði. Endurbætur þessar voru unnar eftir teikningum Tryggva Tryggvasonar. Frá því að endurbótum þessum lauk sumarið 2007 hefur húsið verið fyrirtækja - og skrifstofuhúsnæði, nú eru þar til húsa fyrirtækin ENOR, DK hugbúnaður og Saga Fjárfestingabanki.

 

            Gamli Barnaskólinn er sannkölluð bæjarprýði og húsið eitt af sérlegum kennileitum bæjarins. Það er ólíkt lágreistara og látlausara en nágranni þess í norðri, Samkomuhúsið, en þessi hús mynda sérlega skemmtilega heild á einum mest áberandi stað bæjarins. Gamli Barnaskólinn er að vísu ekki friðlýst bygging líkt og Samkomuhúsið en hann er að sjálfsögðu aldursfriðaður. Í einni fyrstu formlegu húsakönnun bæjarins sem gefin var út á bók, unnin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldarP8190797, voru þessi hús metin sem sérstök varðveisluverð heild (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:60). Í uppfærðri húsakönnun frá 2012 er þetta mat staðfest og hlýtur Gamli Barnaskólinn hæsta varðveislugildi (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:117). Greinarhöfundi þykir rétt að árétta, það sem fram kom í pistlinum um Samkomuhúsið, að rétt væri hreinlega að friða flötina fyrir neðan þessi hús fyrir háum byggingum, svo ekki verði skyggt á þessi öldnu og glæstu hús í brekkunni á Barðsnefi og þau fái að njóta sín um ókomna tíð.

            Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. mars 2007, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.

 

 

Heimildir:

 

[Án höfundar]. 1900. Nýi barnaskólinn Stefnir, 7. nóvember. Slóðin: https://timarit.is/page/2219968#page/n0/mode/2up

 

[Án höfundar]. 1961. Barnaskóli Akureyrar Heimili og skóli, 3.-4. hefti, 20. árgangur. Slóðin:  https://timarit.is/page/7954935#page/n21/mode/2up

 

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 187, 12. maí 1900.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

 

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.

 Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

 

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins. 

 

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

 

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar 2. bindi. Kaupstaðurinn við Pollinn. Akureyrarbær gaf út.

 

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar 3. bindi. Fæðing nútímamannsins. Akureyrarbær gaf út.

 

Ragnheiður O. Björnsson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 182-215) Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta. 


Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið

Samkomuhúsið eða Leikhúsið við Hafnarstræti 57 er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Það er á sérlega áberandi stað, hátt í brattri brekku á svokölluðu Barðsnefi og er sérstaklega áberandi þegar ekið er inn í bæinn að austan um Vaðlaheiði. Útskorið skraut á voldugum burstum og háreist turnspíra fyrir miðju setja á húsið einstakan svip. Samkomuhúsið hefur löngum verið annað stærsta timburhús bæjarins, Menntaskólin er eitthvað örlítið stærri að rúmtaki en þessar byggingar eru í raun ekki óáþekkar; skrauti hlaðin, svipmikil stórhýsi í sveitserstíl. Það er kannski vafasöm fullyrðing að segja þessi hús stærstu timburhús bæjarins, því til eru íþróttahallir og skemmur sem eru byggðar upp af límtrésbitum. En það væri tæpast hægt að kalla slíkar byggingar timburhús á sama hátt og aldamótahúsin tvö. Hins vegar rísa nú, í nýjum hluta Holtahverfis, fjölbýlishús úr timbureiningum sem vitaskuld flokkast sem timburhús og gætu þau mögulega skákað Samkomuhúsinu og Menntaskólanum hvað stærð varðar. P8190797 

Fyrsti áratugur 20. aldar má segja, að hafi verið tímabil háreistra og glæstra timburhúsa í byggingasögu Akureyrar. Mætti þar nefna t.d. Thuliniusarhús við Hafnarstræti, Laxamýri við Strandgötu, Gagnfræðaskólann á Eyrarlandstúni og Samkomuhúsið. Þá má nefna tvö hús, sem voru nánast á pari við síðasttöldu húsin hvað stærð og íburð varðar; Horngrýti og Turnhús vestast við Strandgötu. Þessi tvö stóðu reyndar aðeins í 1-2 ár, því 18. október 1906 eyðilögðust þau í Oddeyrarbrunanum. Þá stóð bygging Samkomuhússins við Hafnarstræti einmitt yfir en það var vígt undir lok árs 1906. Sögu Samkomuhússins mætti gera skil í löngu ritverki en hér munum við fyrst og fremst einblína á uppruna- og byggingarsöguna en fara hraðar yfir sögu síðari ára. 

    Samkomuhúsið er tvílyft timburhús á háum steyptum, eða hlöðnum, kjallara sem reyndar er allur ofanjarðar við framhlið. Húsið er með fremur aflíðandi risþaki, mænir miðhluta snýr N-S en á endum eru burstir sem snúa A-V. Nyrsti hluti hússins er reyndar ein hæð með flötu eða mjög aflíðandi, einhalla þaki og er þar um að ræða viðbyggingu. Þá eru einnig nýlegar, steyptar viðbyggingar með flötu þaki á vesturhlið (bakhlið hússins). Þak er járnklætt en möl er á þaki nýjustu viðbyggingar. Á burstum eru hengisúlur og hanabjálkar með áföstum skrautlegum útskurði og undan þakskeggjum gægjast útskornar sperrutær. Gluggapóstar eru mjög sérstæðir, neðri hluta mætti lýsa sem tvöföldum T-póstum en efri hluti er margskiptur með óræðu en mjög reglulegu mynstri lóðréttra og láréttra sprossa. Á hæðarskilum jarðhæðar og annarrar hæðar og undir gluggaröðum efri hæða eru samfelld vatnsbretti eða skrautbönd. Þá skipta strikaðar flatsúlur á framhúsinu skemmtilega niður í álmur eða „deildir“. Milli súlna undir burstum eru þrír gluggar á efri hæðum og tveir á jarðhæð ásamt inngöngudyrum. Beggja vegna miðju eru hins vegar tveir gluggar á efri hæðum og þrír á jarðhæð. Miðja hússins, rúmlega ein gluggabreidd, er römmuð inn af tveimur súlum. Þar ofan við, fyrir miðju þakinu, er ferkantaður kvistur eða fótstallur og stendur þar helsta prýði hússins: Áttstrendur turn með ámálaðum krosspóstagluggum undir járnklæddri, oddmjórri spíru. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um hæð turnsins, en giskar á, að spíran sé um 4-5 metrar upp af fótstalli, eða um 15m frá götubrún. (Við þetta bætist svo á að giska 2-3m fánastöng, en fánastangir eru einnig upp af burstum). Ef einhver lumar á upplýsingum um hæð turnsins eru þær upplýsingar vel þegnar. Grunnflötur Samkomuhússins (viðbyggingar meðtaldar) er um 34,7x13,5m og í Húsakönnun 1986 er það sagt 3461 rúmmetri (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:135). Þessi tala er væntanlega eitthvað hærri þegar þetta er ritað, vegna síðari tíma breytinga og viðbygginga.

    Samkomuhúsið er sem fyrr segir byggt 1906 en saga samkomuhalds og leiksýninga á Barðsnefi teygir sig hins vegar áratug lengra eða til ársins 1896. Það ár reisti Gleðileikjafélagið með þá J.V. HavstIMG 1770een konsúl og Halldór Gunnlaugsson í broddi fylkingar, í félagi við Sjónleikjafélagið, Goodtemplara, Söngfélagið Gígjuna og bindindisfélagið Björgina  veglegt félagsheimili eða leikhús. Ákveðið var að byggingin skyldi hvorki rísa á Oddeyri né Akureyri heldur Barðsnefi, nokkurs konar „hlutlausu svæði“ milli byggðakjarnanna, þar sem amtmaður hafði árið áður reist sér hús eftir nákvæmri mælingu á milli. Húsið var reisulegt og veglegt, tvílyft með háu risi og stóð u.þ.b. 50 metrum norðar en núverandi Samkomuhús og varð síðar Hafnarstræti 66. Var það vígt þann 3. janúar 1897. Nokkrum misserum síðar voru fyrrgreindir Goodtemplarar (hér eftir Góðtemplarar eða Templarar) í eigin byggingarhugleiðingum.  

     Í júní 1902 sóttu Góðtemplarar um, til bygginganefndar, að fá að reisa hús við Hafnarstræti, 16x11 álnir að stærð, 50 álnir (31,5m) norður af Barnaskólanum (sem reistur var tveimur árum fyrr). Skyldi húsið standa í beina línu með skólanum. E.t.v. var hús templara of lítið frá upphafi en húsið var ekki orðið fjögurra ára gamalt þegar V. Knudsen og L. Thorarensen lögðu fram byggingarleyfisumsókn til bygginganefndar fyrir nýju samkomuhús við Hafnarstræti, í febrúar 1906. Átti það að standa á sama stað og húsið frá 1902 en umtalsvert stærra; 28x16 álnir með 5x8 álna „veranda“ á suðurstafni og „út-útbyggingu“ (kallað svo í bókunum Bygginganefndar) á norðurstafni 10x10 álnir. Svo virðist sem templarar hafi verið full stórhuga að mati bygginganefndar því hún velti vöngum yfir lóðarstærð þeirra, mögulegum fleiri byggingum og húslínu götunnar. Enda hafði húsbygginganefnd templara ákveðið að hafa salinn svo stóran að hægt væri að leigja hann til samsöngva, leikja og annarra stærri funda- og samkomuhalda (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003:200). Þeir minntust reyndar ekkert á, að salurinn myndi þjóna leiklistarfsemi í a.m.k. 120 ár, í allt að 20.000 manna samfélagi.  En leyfið veitti bygginganefndin með þeim skilyrðum, að bæjarstjórn veitti þeim nægilega lóð og ekki yrðu byggð fleiri hús að Barðsstíg (mögulega hefur sá stígur legið á svipuðum slóðum og Menntavegurinn). Þá gerði nefndin kröfu um, að grafið yrði úr brekkunni til að breikka Hafnarstræti austanmegin.  Þann 20. mars 1906 bókar bygginganefnd, að Templarar fái að byggja samkomuhús, 24x16 álnir með „þverbyggingum“, 21x10 álnir norðanmegin og 16x10 álnir sunnanmegin. Þar kemur fram, að teikning hafi verið lögð fram en sá ljóður er almennt á bókunum bygginganefndar frá fyrri tíð, að hún getur þess sjaldnast eða aldrei, hver gerði framlagðar teikningar. Það liggur hins vegar fyrir, að teikningarnar sem Góðtemplarar samþykktu, gerðu þeir Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson og gerður var við þá byggingasamningur upp á 21.500 krónur.  Voru þeir báðir reglubræður Góðtemplarareglunnar. Byggingarmeistarar og hönnuðir hússins voru hins vegar þrír: Þriðja byggingameistarans er einhverra hluta ekki getið í mörgum heimildum en sá hét Björn Björnsson. (Í tölvupósti til undirritaðs fyrir nokkrum árum síðan gat barnabarn Björns, Björn G. Björnsson, sér þess til, að Akureyringar síðari tíma hafi einhvern veginn misst af honum, þar sem hann flutti úr bænum skömmu síðar eða 1909).  Samningurinn mun hafa verið gerður daginn eftir samþykki bygginganefndar, 21. mars 1906. 

     Greinarhöfundur minnist þess að hafa einhvern tíma heyrt, að byggingaframkvæmdir við Samkomuhúsið hafi hafist 20. júní 1906. Á þeirri dagsetningu er þannig fyrirvari, en samkomuhúsið frá 1902 var fjarlægt af lóðinni í maímánuði og geta má sér þess til, að gröftur fyrir grunni og úr brekku hafi hafist um svipað leyti, með þíðum vorsins. Þá minnist greinarhöfundur þess einnig, að hafa heyrt eða lesið að þeir sem komu að byggingu hússins hafi unnið 12 tíma á dag, alla daga vikunnar en slíkt var eflaust ekki óalgengt áður en vinnulöggjöf hvers konar kom til sögunnar.   Byggingarmeistarar hússins voru sem fyrr segir þeir Björn Björnsson, Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson. Frá því að byggingarframkvæmdir hófust í júnímánuði og húsið var vígt liðu aðeins sex mánuðir.  Er þessi byggingarhraði allt að því ævintýralegur, þegar það er haft í huga að á þeim tíma þekktist ekkert sem hét byggingarkrani (nema e.t.v. einfaldar talíur), steypuhrærivél, vélsög eða nokkIMG 1766ur rafmagnsverkfæri. Er þó líklega ekkert einsdæmi; nánast beint ofan Samkomuhússins hafði tveimur árum fyrr ámóta hús, jafnvel ívið stærra, verið reist á álíka stuttum tíma. Þessi stutti byggingartími bendir til þess, að húsin hljóti að hafa komið tilhöggvin, væntanlega frá Noregi, og verið sett saman á staðnum. Hins vegar er vitað, að bæði þessi hús voru teiknuð hér, af íslenskum smiðum. Þannig má ímynda sér, að menn hafi mögulega fengið húsin forsmíðuð í stóreflis verksmiðjum, eftir pöntunum. (Og hvað byggingarhraða varðar má einnig geta þess, að árið 1906 þurftu húsbyggjendur ekki að huga að lögnum að neinu tagi). Samkomuhús templara frá 1902 var flutt af lóðinni sem fyrr segir, nánar tiltekið út á Torfunef, en af upprunalega leikhúsinu á Barðsnefi er það að segja, að það brann til kaldra kola í lok janúar árið 1952.

    Samkomuhúsið var vígt þann 23. desember 1906. Var þar um að ræða hefðbundinn reglufund þar en eftir hefðbundin fundarstörf tóku við almenn veisluhöld. Erindi fluttu m.a. bæjarfógeti Guðlaugur Guðmundsson, sr. Geir Sæmundsson prófastur og sr. Matthías Jochumsson  flutti lofræðu, að sjálfsögðu í bundnu máli. Þá flutti kórinn Hekla söngatriði. Akureyrarbær lagði Góðtemplurum til fjárstyrk til byggingarinnar gegn því að fá afnot af hluta hússins, þar hafði bærinn aðstöðu fyrir bókasafn og lestrarsal, íbúð bókavarðar, fundarsal og tryggði sér einnig forgangsrétt að stærri sal hússins fyrir stærri samkomur, að vísu gegn leigu í hvert skipti (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003: 201). Hinn stærri salur mun hafa verið stærsti samkomusalur landsins og hélt þeim titli í nærri aldarfjórðung eða allt þar til Oddeyringurinn Jóhannes Jósefsson reisti Hótel Borg árið 1930. Hið nýja samkomuhús kom aldeilis að góðum notum fyrsta sumarið eftir að það var vígt, er Danakonungur heimsótti Akureyri í ágúst 1907 og var að sjálfsögðu boðið til veglegrar veislu í nýja samkomuhúsi Góðtemplara.  

    Í desember 1916 varð Samkomuhúsið 10 ára. Í þeim mánuði átti sér það annars vegar stað, að Akureyrarbær samþykkti að kaupa húsið með öllum búnaði af Góðtemplurum fyrir 28.000 krónur. Komst þá húsið í eigu bæjarins, sem á það enn. Þetta var 19. desember. Hins vegar, fjórum dögum fyrr, höfðu matsmenn Brunabótafélagsins heimsótt Samkomuhúsið og lýst því á eftirfarandi hátt:  Leikhús, tvílyft með lágu risi með útbyggingu við bakhlið á öðrum enda. Fyrstu hæð (gólfi) er lýst svo: [...] samkomu- og áhorfendasalur er nær þvert yfir húsið upp í gegnum báðar lofthæðirnar með svölum á 3 vegu. Þess utan 2 stofur, eldhús og forstofa við norðurgafl. Við suðurgafl er leiksvið með tveimur hliðarkompum, uppi í sama enda eru 2 búningsherbergi. Önnur hæð (loft) er lýst stuttlega, þar er samkomusalur við norðurgafl, stofa og forstofa. Kjallari: 2 íbúðarstofur við framhlið, 2 forstofur, lestrarsalur, bókhlaða eða bókasafnsstofa. Við bakhlið var þvottahús, tvær stofur og tvö geymsluherbergi. Í matinu kemur fram, að húsið sé endrum og eins notað til leiksýninga og fyrir fundahöld og samkomur með veitingum. Leiksviðið lýst með steinolíulömpum og samkomusalir með „luxlömpum“. Grunnflötur var sagður 30,3x10,4m en hæð hússins 12,8m. Ekki liggur fyrir hvort þar sé um að ræða hæð hússins upp að mæni bursta eða hvort turnspíra teljist með, en greinarhöfundur myndi telja turninn ná a.m.k. 15m hæð frá jörð svo sem fyrr er getið. Það voru 12 kolaofnar og eiIMG 1758n eldavél í húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 120).  

    Í Sögu leiklistar á Akureyri eftir Harald Sigurðsson sem Leikfélag Akureyrar gaf út árið  1992 má m.a. finna upprifjun nokkurra leikara frá árdögum Samkomuhússins. Friðrik Júlíusson lýsti frumstæðum ljósfærum fyrir daga raflýsingar: Í salnum var stór lampi sem lýsti vel allan salinn. Fyrir þessum lampa var svört hetta, sem mátti draga frá og fella niður með snúruútbúnaði sem náði eftir loftinu upp á hliðarsvalirnar, og þar varð maður að vera meðan á leiksýningu stóð og draga fyrir, og draga frá eins og þurfti. Á leiksviði voru 5 lampar í lofti, einn stór var í miðju lofti, fjórir til hliðar[...] Fyrir framan senuna var renna og í hana raðað mörgum lömpum, 10 línu og lýstu þeir upp gólfið (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Í leikskrá árið 1959 var Gísli R. Magnússon spurður hvort ekki hafi ekki verið erfitt að leika við lampaljós: Nei, alls ekki. Við þekktum ekki annað svo við gerðum okkur enga grein fyrir erfiðleikunum fyrr en við fengum rafmagnið [1922]. Við röðuðum um það bil tylft af 10“ lömpum fremst á sviðið. Það voru rennuljósin. Svo héngu einir sex stærri lampar í loftinu, tveir og tveir milli lofttjaldanna (Haraldur Sigurðarson (Gísli R. Magnússon) 1992:76). Aðspurður, hvort þetta hafi ekki verið stórhættulegt svaraði Gísli, að það hefði örugglega verið svo en menn hefðu aldrei haft áhyggjur af því, og aldrei hefði kviknað í. En það má ímynda sér, að ekki hafi mikið mátt út af bera með einhverja tugi logandi olíulampa í timburhúsinu. Þá má geta þess, að olíulamparnir gáfu einnig af sér aukaafurð sem nýttist leikurum, því sót sem þeir mökuðu framan í sig, m.a. til að mála á sig hrukkur fékkst með því að leggja undirskálar við lampaljósin!  Aðstæður voru sannarlega frumstæðar: Búningsherbergin voru í útbyggingu vestur af senunni, en oft var svalt þar, og ekkert vatn. Hitað var upp með olíuofni en í miklum frostum var lítill hiti sem vonlegt var. Í brekkunni vestan við húsið var áður lind og úr henni var lögð leiðsla niður í kjallara og var oftast hægt að ná í vatn (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Og oft var kalt. Jóhannes Jónasson: Verstur var bölvaður kuldinn. Við æfðum að heita mátti allt á sviðinu og það var aldrei lagt í [húsið m.ö.o. óupphitað]. Ég man að, að stundum höfðu húsráðendur hengt upp þvott frammi í húsi. Hann hékk þarna gaddfreðinn, eins og til að gera kuldann ennþá kaldari! (Haraldur Sigurðsson (Jóhannes Jónasson) 1992:69).         IMG 1769

    Leikfélag Akureyrar var stofnað 19. apríl 1917 og hefur frá upphafi haft aðsetur sitt í Samkomuhúsinu og sett á svið vel á fjórða hundrað sýningar hér. Eftir því sem leið á öldina var aðstaðan betrumbætt og stækkuð eftir kröfum hverju sinni. Árið 1920 var byggt við húsið til norðurs, tveggja hæða bygging með flötu eða mjög aflíðandi þaki þar sem var miðasala og salerni. Áður voru miklar tröppur og svalir á þessum stað. Árið 1945 var byggt við húsið til vesturs, búningsklefar. Sú bygging skagaði út frá annarri hæð út í brekkuna bröttu bak hússins, en var kjallaralaus, svo hún myndaði nokkurs konar undirgöng í port bakvið húsið. Árið 1950 var áhorfendasalur endurnýjaður, hliðarsvalir rifnar og settir nýmóðins bekkir. Um aldamótin 2000 fóru fram endurbætur á salnum og var útlit hans og yfirbragð fært nær upprunalegu útliti.  Eins og gefur að skilja fór að verða þrengra um starfsemi leikfélagsins og sýningar þess eftir því sem áratugirnir liðu og ekki óalgengt, að félagið fengi inni í öðrum rýmum til leiksýninga, sem voru of flóknar eða umfangsmiklar fyrir hið aldna félagsheimili Góðtemplara. Þá var það bylting þegar smíðaverkstæðið fluttist úr suðurhluta jarðhæðar að Vör við Óseyri, haustið 1997, enda óhægt um vik að koma fyrir stórum trésmíðavélum eða fyrirferðarmiklum leikmyndarhlutum í aðstöðunni hér. En ævinlega tókst leikfélagsfólki einhvern veginn að sníða sér (þröngan) stakk eftir vexti innan veggja Samkomuhússins. Þó fékk leikfélagið inni í stærri salarkynnum fyrir ákveðnar sýningar, t.a.m. var oft sýnt á „Renniverkstæðinu“ við Kaldbaksgötu á Oddeyrartanga á árunum kringum 2000. Á tímabili eftir tilkomu Hofs voru flestar stærri sýningar félagsins settar upp þar en á seinustu árum hafa þær flestar verið settar upp hér. Húsið hefur þannig verið nýtt óslitið til leiksýninga frá upphafi og verið aðsetur leikfélags bæjarins frá stofnun þess. Auk þess hafa hin ýmsu áhugaleikfélög, m.a. framhaldsskólanna og ýmsir leikhópar fengið hér inni alla tíð. Því má með sanni segja, að hér hafi verið vagga akureyrskrar leiklistar í nærri 120 ár.  

   Enda þótt húsið hafi frá upphafi verið leikhús fyrstIMG 1762 og fremst og eingöngu gegnt því hlutverki síðustu áratugi hýsti það ýmsa starfsemi og stofnanir á fyrri tíð. Hér var t.d. Amtsbókasafnið til húsa um árabil, bæjarstjórn fundaði hér og hafði skrifstofur, húsið var m.ö.o. ráðhús bæjarins. Þá var póstafgreiðsla bæjarins hér um tíma. Þá var búið í húsinu allt fram yfir 1970. Árið 1920 búa átta manns í Hafnarstræti 57 og tíu árum síðar eru „ábúendur“ Samkomuhússins Björn Ásgeirsson bókhaldari og Stefanía Dúadóttir, tvö börn þeirra og tvær þjónustustúlkur. Björn og Stefanía reistu sér síðar hús eða smábýli, Silfrastaði, við Vesturgötu (nú Goðabyggð 7) á Brekkunni. Síðustu íbúar Samkomuhússins voru líklega húsvarðarhjónin þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Waage.

    Á árunum 2004-06 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu og nánastaP6050022 umhverfi þess. Fóru þær fram jafnt að utan sem innan. Voru þær m.a. gerðar eftir teikningum Páls Tómassonar og uppmælingarteikningum Finns Birgissonar.  Viðbyggingin, búningsaðstaðan frá 1945, var rifin og reist steinsteypt viðbygging í staðinn sem gegnir sama hlutverki.  Lyfta var sett í norðurenda hússins og allt aðgengi og aðstaða, hvort tveggja leikara og gesta, Samkomuhússins þannig stórbætt. Þá var þak endurnýjað. Einnig var unnið í  brekkunni að baki hússins og hún stölluð með mörgum steyptum veggjum en framskrið og vatnsrennsli hafði þar lengi verið vandamál. Einnig var jarðvegsskipt í brekkunni framan hússins og settur á hana meiri flái.    

    Það þarf vart að fjölyrða um hversu mikið og einkennandi kennileiti Samkomuhúsið er í götumynd Hafnarstrætis og í raun bænum eins og hann leggur sig. Það stendur einnig mjög skemmtilega, hátt í brattri og gróskumikilli brekku. Snemmsumars skartar brekkan framan við skemmtilega gulum lit af túnfíflum og þykir mörgum það ótvírætt merki um að sumarið sé komið þegar „Samkomuhúsbrekkan“ skartar gulu. Samkomuhúsið var friðlýst í B-flokki árið 1977, með fyrstu húsum bæjarins sem voru friðlýst og er auk þess aldursfriðað. Þá þætti greinarhöfundi rétt að flötin framan við það yrði einnig friðuð fyrir byggingum; það yrði afleitt, ef byrgt væri fyrir ásýnd Samkomuhússins með hærri byggingum! Meðfylgjandi myndir eru teknar 5. júní 2006, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.  

 ES. Á bernskuárum sínum var sá sem þetta ritar oft eins og grár köttur í Samkomuhúsinu þar sem faðir hans, Hallmundur Kristinsson leikmyndahönnuður, starfaði sem forstöðumaður smíðaverkstæðisins og hannaði þar og smíðaði leikmyndir. Þótti höfundi þetta sannkallað ævintýrahús; allir gangarnir, ranghalarnir og afkimarnir en þess má geta, að greinarhöfundur átti það til að fara ítrekaðar könnunarferðir um húsið meðan pabbi hans sinnti einhverjum erindum á verkstæðinu. Geymslurnar innaf verkstæðinu þar sem leyndust ýmsir leikmunir, stórir og smáir, gangurinn bakvið verkstæðið, og bröttu stigarnir upp á svið og að búningsklefanum. Kaffistofan fyrir miðri annarri hæð, fínu tröppurnar og stofurnar með þykka rauða teppinu, leiksviðið, salurinn og búningsherbergin og Borgarasalurinn svokallaði nyrst uppi á þriðju hæð.  Auk hinna ýmissa kompa og kytra. Gilti einu hvar strákurinn þvældist, aldrei nokkurn tíma heyrðist „Hvað ert þú að vilja“ eða „Þú átt ekki að vera hér“ eða neitt svoleiðis heldur var honum þvert á móti ævinlega tekið eins og höfðingja. Þá vöknuðu ýmsar ráðgátur í sambandi við þetta magnaða hús. Hvar voru t.d. herbergin bakvið alla þessa glugga á framhliðinni? Þar var um að ræða „falska glugga“ en á bakvið þá var austurveggur leiksviðs og salur. Og turninn! Hvað var þar og hvernig komst maður þangað? Var e.t.v. fjársjóður uppi í turninum? Leikmunir? Skrifstofa? Kaffistofa? Aldrei fór greinarhöfundur upp í turninn til að komast að því sanna að eigin raun hvað væri þar uppi. Honum skildist hins vegar að þar væri einfaldlega ekki neitt, turninn væri einungis hluti af háalofti, sem lægi þarna yfir öllu og hvorki á færi barna að komast þangað, né að þau ættu þar nokkurt erindi. Greinarhöfundur gæti ritað heillanga grein um eigin minningar úr Samkomuhúsinu en látum staðar numið hér. 

 

Heimildir:  Björn G. Björnsson. Upplýsingar um Björn Björnsson og byggingarframkvæmdir Samkomuhússins, veittar í einkaskilaboðum (tölvupósti) 28. júlí 2020.

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 129, 15. júní 1896.  Fundargerðir 1902-21. Fundir nr. 224, 16. Júní 1902, nr. 307, 20. feb. 1906 og nr. 309, 20. mars 1906.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.

Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Haraldur Sigurðsson. 1992. Saga leiklistar á Akureyri. Leikfélag Akureyrar. 

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.  

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.  

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta. 


Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Um aldamótin 1900 kölluðust stærstu hús bæjarins á, yfir Bótina; Snorri Jónsson hafði reist veglegt hús við Strandgötuna á Oddeyri og skömmu síðar reisti fyrrum nemi hans í trésmíðum, Bergsteinn Björnsson ámóta hús á uppfyllingu í Bótinni. Hús Bergsteins, sem var lítið eitt stærra að grunnfleti og hærra en hús Snorra, naut þó ekki lengi þess titils, að vera stærsta hús bæjarins. Fjórum árum síðar reis á hinu nýja landi Akureyrarkaupstaðar,  uppi á brekkunni nærri Stóra Eyrarlandi, eitt stærsta hús bæjarins og stærsta timburhús fyrr og síðar.  (Verið gæti þó, að  fjölbýlishús, sem nú rísa úr timbri í Holtahverfi í Glerárþorpi skáki  því að  rúmtaki). Um ræðir eitt skrautlegasta og tilkomumesta hús bæjarins, sérlegt kennileiti og prýði, Gamli Skóli eða Menntaskólinn. Þegar þessi pistill birtist hér, 29. apríl 2024, eruP6110956 liðin nákvæmlega 120 ár síðan Stjórnarráðið samþykkti teikningarnar að húsinu!

Gamli Skóli, sem margir kalla einfaldlega Menntaskólann í daglegu tali,  er háreist tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara. Skiptist húsið í þrjár álmur, suður og norðurálmur snúa stöfnum í austur og vestur en miðálma liggur á milli þeirra í norður-suður. Stafnar álmanna mynda tvær endaburstir en fyrir miðju húsinu er ein burst eða kvistur. Burstir þessar skaga 60 cm út fyrir miðálmu. (Ekki ósennilegt, að þar hafi verið miðað við eina alin). Grunnflötur miðálmu er 42,5x8,6m en hliðarálmurnar 10,1x9m. Á hvorri álmu eru einlyftar anddyrisbyggingar, sú á norðurálmu með lágu valmaþaki en sú á suðurálmu með háu risþaki. Kallast sú á suðurálmu Sólbyrgið. Einnig er útskot á bakhlið suðurálmu. Í flestum gluggum eru níu rúðu krosspóstar en mjórri gluggar (sexrúðu) eru m.a. í kjallara, undir rjáfrum og í kvistum. Þá eru vatnsbretti eða bönd undir neðri gluggalínu sem og á hæðarskilum við rishæð. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir og þak og húsið mjög skrauti prýtt; á burstum er útskurður á hanabjálkum og krossskeyttum bjálkum þ.e. hengisúlum. Einnig er útskurður á mænistoppum. Á miðburst rammar útskorið skraut inn fánastöng. Tveir skorsteinar, hlaðnir úr rauðleitum múrsteinum setja einnig svip á bakhlið hússins. Bakhliðin tengist löngum tengigangi sem tengir húsið við Hóla, nýbyggingu frá 1996.IMG_1562

 

      Að öllu jöfnu er saga Menntaskólans á Akureyri rakin til stofnunar skóla að Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1880 og raunar allt aftur til stofnunar skóla að Hólum í Hjaltadal árið 1106. Skólinn var starfræktur í veglegu húsi, tvílyftu með háu risi,  en það hús brann til ösku veturinn 1902. Var þá skólinn á hrakhólum en næstu tvo vetur var hann til húsa í nýbyggðum Barnaskóla sunnan Barðsnefs (Hafnarstræti 53). Raunar kom til greina, að hann fengi inni í nýreistu húsi Bergsteins Björnssonar, sem nefndur er hér í formála, en það var ekki talið fullnægjandi. Þegar skólahúsið brann voru þá þegar komnar fram hugmyndir um að flytja skólann til Akureyrar.  Í ársbyrjun 1898 hafði Jón Hjaltalín lagt það til í bréfi til landshöfðingja, sem annars sneri að lélegu ástandi Möðruvallahússins. Ekki voru menn sammála um þessa hugmynd en bruninn á Möðruvöllum mun þó hafa sameinað menn í þeirri afstöðu, að skólinn yrði endurreistur á Akureyri. Það varð svo úr,  að þann 10. nóvember 1903, voru samþykkt lög á Alþingi, um Gagnfræðaskóla á Akureyri og með fylgdi fjármagn; 67.000 krónur úr Landssjóði en byggja átti hús með heimavist fyrir allt að 50 nemendur. Raunar hafði skólameistari, Jón Hjaltalín, falast eftir því við bæjarstjórn, strax í september það ár,  að fá  lóð í norðausturhorni Eyrarlandstúns undir fyrirhugaðan gagnfræðaskóla. Vildi hann helst eina dagsláttu (u.þ.b. 3600 m2 ). Féllst bæjarstjórn á þetta að öllu leyti (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 894, 1903). Það var svo um vorið 1904, að Jón óskaði eftir stækkun á lóðinni og enn var bæjarstjórn velvildin ein; skólinn fékk alla spilduna milli Breiðastrætis og Bæjarstrætis að austan og milli Vesturstrætis að sunnan og túngarð Eyrarlands að norðanIMG_1563 (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 911, 1904). Ef marka má einn elsta uppdrátt sem til er af Brekkunni, virðist Breiðastræti hafa átt að liggja nokkurn veginn þar sem nú er byggingin Hólar, Vesturstræti þar sem nú eru norðurmörk Lystigarðs og Bæjarstræti um það bil þar sem nú er Eyrarlandsvegur. Umræddur túngarður Eyrarlands mun hafa verið á svipuðum slóðum og Hrafnagilsstræti er nú. Síðasta verk Bygginganefndar á árinu 1903 var að bóka álit nefndarinnar á þeim stað, sem afmarkaður hafði verið á Eyrarlandstúni, þar sem kennarar skólans teldu rétt að skólahúsið stæði. Voru nefndarmenn nokkurn veginn sammála en töldu rétt, að skólahúsið yrði fært austar.

       Á hinu nýja ári fóru skólayfirvöld að leita tilboða í byggingu skólahúss. Bárust tilboð frá helstu byggingameisturum bæjarins, auk eins tilboðs frá byggingameisturum úr Reykjavík.   Öllum var þessum tilboðum hafnað en Klemenz Jónsson leitaði til Sigtryggs Jónssonar, timburmeistara frá Espihóli  að gera uppdrátt og verklýsingu. Út frá þeirri teikningu var ákveðið að leita tilboða í byggingu en meðal þeirra sem sendu inn tilboð var Snorri Jónsson. Sendi hann einnig uppdrátt að húsi og lengi vel var raunar talið, að hann hafi verið höfundur hússins. Uppdráttur sem varðveist hefur, tekur af öll tvímæli um þetta; Sigtryggur Jónsson undirritar teikningar, sem daIMG_1567gsettar eru 26. apríl 1904 og samþykktar af Stjórnarráðinu þremur dögum síðar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:198). Svo hófust menn handa: Sigtryggur Jónsson hélt utan til Noregs að velja timbur í bygginguna og þann 11. maí örkuðu Bygginganefndarmenn upp á Eyrarlandstún. Þar  „afmarkaði [bygginganefndin] þessa spildu með niðurreknum hælum. Síðan var eftir beiðni J.A. Hjaltalín er var viðstaddur mældur ut grunnur undir skólahúsið á hinum afmarkaða bletti og var ákveðið,  að húsið skyldi standa 10 ál. [6,3m] frá Breiðastræti, jafnhliða götunni og 15 ál. [tæpir 10m] í norður frá Vesturstræti“ (Bygg.nefnd. Ak. 1904: nr. 267). Af Noregsferð Sigtryggs segir fremur fátt, nema hvað tilgreint var í verksamningi, að viðurinn mætti ekki vera úr Mandal. Mögulega hefur Sigtryggur haft forskrift og teikningar meðferðis og látið forsmíða húsið ytra. Er það raunar talið líklegra en hitt og það sem styður þá kenningu er kannski einna helst hinn ótrúlegi byggingarhraði: Húsið, það stærsta sem risið hafði á Akureyri, var ekki nema fjóra mánuði í byggingu! Hornsteinn var lagður 4. júní og skóli settur nákvæmlega fjórum mánuðum síðar, þ.e. 4. október 1904.  Þrjár kennslustofur voru fullbúnar við skólasetningu en fleiri voru teknar í notkun eftir því sem á leið. Um áramótin 1904-05 átti íbúð skólameistara að verða tilbúin og heimavistin haustið eftir. Og það stóðst að mestu leyti. Heimavistin IMG_1566var með nokkuð nýstárlegu sniði, 2-4 nemendur saman í herbergi og ef fjórir deildu herbergi fengu þeir tvö herbergi, annað til svefns og hitt til lesturs. Fram að þessu var algengast að heimavistir væru einfaldlega svefnsalir eða loft.  Á fyrstu áratugum hússins var skipulagið nokkurn veginn þannig, að vesturhluti norðurálmu, báðar hæðir og kjallari, var heimavist auk þess sem risið var lagt undir heimavistina. Íbúð skólameistara var á neðri hæð í suðurálmu. Í kjallara norðurálmu voru herbergi þjónustustúlkna en síðar voru þar gerð heimavistarherbergi. Kennslustofur og skrifstofur voru flestar í miðálmu, á báðum hæðum en smíðastofa var í kjallara. Þá voru ýmsar einkageymslur skólameistara þ.á.m. vínkjallari í kjallara suðurálmu.

       Jón Hjaltalín (1840-1908), sem gegnt hafði stöðu skólameistara allt frá stofnum Möðruvallaskóla árið 1880, var kominn á sjötugsaldur þegar skólahúsið nýja reis og var orðinn nokkuð heilsuveill. Hann lést árið 1908 og varð Stefán Stefánsson þá skólameistari. Gagnvart húsnæði skólans einkenndist hans tíð nokkuð af erjum við yfirvöld vegna viðhalds og rekstrarfjár til hins nýja skólahúss. Var það helst að húsið væri óþétt; þiljur og gluggar héldu illa vatni. Kannski var miklum hraða við bygginguna um að kenna? Steininn tók þó úr í sunnan aftakaveðri í árslok 1914 er vatnsflaumur komst inn um veggi og glugga suðurhliðar og þakjárn flettist af. Í kjölfarið voru gerðar endurbætur á húsinu, suðurhlið klædd bárujárni og reist viðbygging á sömu hlið. Er sú bygging kölluð Sólbyrgið.   IMG_1564

       Árið 1914 tengdist skólahúsið vatnsveitu, þegar hún var tekin í notkun og rafmagn var leitt í húsið 1922, þegar rafveitu var hleypt af stokkunum hér í bæ. Um svipað leyti var sett í húsið miðstöðvarhitun en fram að því var húsið kynt með stökum kolaofnum. Fundist hafa gögn um að skoðuð hafi verið tilboð um miðstöðvarkerfi við byggingu hússins, en ekki náði það lengra en svo að það yrði skoðað. Hefur mögulega þótt of dýrt. Það hefndi sín hins vegar frostaveturinn 1918, þegar vatn í lögnunum frá 1914 fraus og handlaugar sprungu. Þá virðast steypt kjallaragólf hafa frostsprungið, en Stefán Stefánsson skólameistari getur þess, að frostið í skólaherbergjum hafi farið niður í 17 til 18 stig  og mest 24 stig á skrifstofu skólameistara! Enda segir hann „Sparnaðurinn við hitunarleysið étur sig því nokkuð upp, þegar á allt er litið“ (Steindór Steindórsson 1980:216).   Stefáni Stefánssyni var umhugað um viðhald hússins og góða umgengni. Í æviminningum sínum lýsir Steindór Steindórsson metnaði hans, en þegar Steindór hóf nám í skólanum 1920 var heilsu Stefáns farið að hraka (hann lést í janúar 1921): „Hið vökula auga Stefáns skólameistara hafði vakað yfir allri umgengni utan húss og innan, og með smekkvísi sinni hafði honum tekist að breiða yfir þótt naumt væri skammtað til húsabóta. Hann þoldi engan sóðaskap né ósnyrtimennsku, og sjálfrátt eða ósjálfrátt lærðu nemendur af honum að vanda umgengni sína[...]“ (Steindór Steindórsson 1982:97-98). Stefán Stefánsson stóð einnig fyrir því, að lóð skólans var stækkuð, hann tók land á erfðafestu allt vestur og upp að Þórunnarstræti. Skömmu fyrir andlátið seldi hann Júníusi Jónssyni húsverði skólans túnspilduna, en hann hugðist reisa þar íbúðarhús. Nýr skólameistari, Sigurður Guðmundsson, IMG_1568var ekki alls kostar sáttur við þetta og taldi þessi byggingaráform þrengja að skólanum. Júníus seldi skólanum spilduna aftur en byggði hús austan Eyrarlandsvegar, nánar tiltekið húsið Eyrarlandsveg 29. Sigurður Guðmundsson var heldur ekki hrifinn af því, að byggja ætti austan Eyrarlandsvegar og átti í nokkrum deilum við bæjaryfirvöld þess vegna, enda þótt skipulagsnefnd ríkisins væru á hans máli.

       Árið 1922 skoðaði Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, skólabygginguna og gerði í kjölfarið tillögu að endurbótum. Fólust þær m.a. í ýmissi endurnýjun á innra byrði auk þess sem húsið var raflýst og sett í það miðstöðvarhitun. Um 1925 var húsið svo allt  bárujárnsklætt að utan og fékk þá það útlit að mestu sem það enn hefur. Að bárujárnsklæðningunni undanskilinni, er húsið að mestu lítt breytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð. Annað, sem heimavistarnemendum hefur eflaust þótt enn meiri bylting var, að um sama leyti voru sett vatnssalerni í kjallara norðurálmu, í stað útikamra. Grípum niður í minningum Steindórs um innanhússkipulag skólahússins árið 1921: „Við 2. bekkingar vorum til húsa í næst innstu stofu á ganginum en þriðju bekkirnir sinn hvoru megin, A-bekkur að framan en B að innan. Ekki var kennt á efri hæðinni. Salurinn einungis notaður til morgunsöngs, söngkennslu og fundarhalda, en norðan við hann var náttúrugripasafn skólans en bókasafn að sunnanverðu. Smíðastofa var í norðurenda kjallara, en borðstofa heimavistar í suðurenda. Í öllum stofum voru kolaofnar, en gaslampar til ljósa í kennslustofum og á göngum“ (Steindór Steindórsson 1982:98).  Það er skemmst frá því að segja, að húsið hefur verið notað til kennslu nokkurn veginn óslitið síðastliðna 120 vetur, frá 4. október 1904. Aðeins um nokkurra mánaða skeið á árinu 1940 var ekki unnt að kenna í húsinu þar sem breska setuliðið hafði komið sér fyrir þar. Gerðust menn þá nokkuð smeykir um að þeir myndu í ógáti brenna húsið til kaldra kola og sagt að þeir fleygðu frá sér sígarettustubbum hvar sem þeir stóðu, jafnvel innandyra í timburhúsinu. En staðreyndin var hins vegar sú, að þessi eldhætta var líkast til ekkert  minni flestöll þau ár sem heimavist var í húsinu. Gefum Steindóri Steindórssyni orðið: „Herbergin voru hituð með kolaofIMG_1569num, og urðu nemendur að sjá um, að kol væru fyrir hendi ásamt uppkveikju, þá lögðu þjónustustúlkur heimavistar í ofnana um leið og þær gerðu herbergin hrein á hverjum morgni. Síðan önnuðust nemendur ofnana sjálfir, og er furða að aldrei skyldi slys hljótast af, þar sem fæstir kunnu með ofna að fara. Stundum skall þó hurð nærri hælum, þannig lá við að ofninn hjá Hermanni [Stefánssyni] og Bernharð Laxdal spryngi er þeir skvettu olíu á kolaglóð, til að skerpa á hitanum“ (Steindór Steindórsson 1980:103). Svona lagað mun ekki hafa verið einsdæmi. Raunar logaði eldur stanslaust í Gamla Skóla í 75 ár, eða allt þar til Árni Friðgeirsson ráðsmaður slökkti á olíukyndingu, sem tók við af kolunum um 1950, og hleypti á húsið heitu vatni frá Hitaveitu Akureyrar. Var það 1. október 1979 (sbr. Tryggvi Gíslason 2009: 171).  Alla tíð voru menn hins vegar meðvitaður um eldhættu, næturvörður var í húsinu til ársins 1967 en þá var sett í húsið reykskynjarakerfi, beintengt við slökkvilið. Síðar kom fullkomið viðvörunar- og vatnsúðakerfi. Eins og fyrr segir var íbúð skólameistara í húsinu en síðar bjó þar ráðsmaður, téður Árni Friðgeirsson, allt til ársins 1978.

       Um fá hús hafa verið ritaðar nákvæmari viðhaldssögur en Gamla Skóla. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru frá fyrstu áratugum hússins en lesendum er bent á mjög ítarlega kafla í tveimur bindum Sögu Menntaskólans á Akureyri. Annars vegar kafli Steindórs Steindórssonar í 1. bindi (bls. 205-234) og Tryggva Gíslasonar í 4. bindi (bls. 169-244).   Þess má geta, að sá síðarnefndi tók við embætti skólameistara af hinum fyrrnefnda árið 1972 og gegndi starfinu fram á nýja öld. Þannig er raunar um að ræða frásagnir frá fyrstu hendi, manna sem samanlagt voru viðloðandi þetta hús í meira en 80 ár.IMG_1565

       Síðustu áratugi hefur framkvæmdir og viðhald við Gamla Skóla, utan jafnt sem innan, miðað að því að halda sem mest í upprunalega gerð hússins. Árið 1977 var húsið friðlýst af bæjarstjórn Akureyrar, í hópi fyrstu húsa hér í bæ sem friðlýst voru. Var hann friðaður í B-flokki, sem nær til ytra byrðis. Árið 1969 gerði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt (og stórleikari) uppmælingarteikningar að húsinu og hafa síðan verið gerðar á húsinu ýmsar endurbætur, utan jafnt sem innan, sem líklega væri of langt mál að telja upp hér. En húsið hefur hlotið fyrirtaks viðhald í alla staði. Þrátt fyrir ýmsa vankanta, sem töldust á húsinu á upphafsárum var það engu að síður svo, að um 1970 var það með öllu fúalaust (sbr. Steindór Steindórsson 1980: 211) og því eflaust vel viðað frá upphafi.  Sem fyrr segir er enn kennt í Gamla Skóla og þar er einnig kaffistofa starfsfólks og skrifstofur. Þess má geta, að þekkt íslenskt orðtak á uppruna sinn í Gamla Skóla. Þannig var mál með vexti, að á skrifstofu skólameistara stendur verklegt hvalbein. Í meistaratíð Sigurðar Guðmundssonar var talað um „að fara á hvalbeinið“ þegar nemendur voru kallaðir til hans, og hann las þeim pistilinn. Þannig er komið máltækið „að taka einhvern á beinið“ (sbr. Steindór Steindórsson 1993:163).

       Af öðrum byggingum á lóð Menntaskólans má nefna Fjósið, sem reist var ári síðar en Gamli Skóli, og var frá upphafi íþróttahús og er enn. Heimavistarhús reis norðvestanmegin á lóðinni 1946 og með tilkomu þess var smám saman farið að breyta heimavistarherbergjum í Gamla Skóla í kennslustofur. Möðruvellir, raungreinahús, beint vestur af Gamla Skóla og Fjósi var tekið í notkun 1969. Árið 1996 var nýjasta bygging skólans, Hólar, tekin í notkun en það hús er nokkurn veginn miðsvæðis. Hólar eru nokkurs konar viðbygging við Möðruvelli en tengjast einnig Gamla Skóla gegnum langan gang. Þannig þrengja nýbyggingar hvergi að gamla húsinu enda þótt innangengt sé á milli. Það er óneitanlega viss stemning yfir því, að ganga eftir hörðum dúklögðum gólfum gangsins úr Hólum og stíga yfir á brakandi, dúandi gólf Gamla skóla. Nýjasta viðbótin við húsaþyrpingu á Menntaskólasvæðinu er ný heimavist, sem reist var árin 2002-03 og er sameiginleg fyrir Menntaskólann og Verkmenntaskólann. Þess má geta, að greinarhöfundur var einmitt í hópi nemenda, sem fylgdust með þáverandi bæjarstjóra, Kristjáni Þór Júlíussyni, taka fyrstu skóflustungu af þeirri byggingu, 2. maí 2002. Fengu þá allir að fara úr tímum að fylgjast með og var greinarhöfundur einmitt í dönskutíma í Gamla Skóla; nánar tiltekið nyrst í kjallara þar sem heitir G1 (sú stofa mun upprunalega hafa verið smíðastofa).

    Húsið er sem fyrr segir friðlýst og hlýtur hæsta mögulega varðveislugildi í Húsakönnunn 2016 eða 8. stig, sem friðlýst bygging. Þar fær Gamli Skóli umsögnina: „Einstakt  hús  sem  hefur  mjög  hátt  varðveislugildi  vegna  aldurs, byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar“ (Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:49). Um gildi Gamla Skóla fyrir umhverfi sitt eða sögu bæjarins þarf vart að fjölyrða. Um er að ræða eitt stærsta og skrautlegasta timburhús bæjarins, mikið kennileiti sem sést langt að og er samofið sögu virtrar menntastofnunar. Þegar þetta er ritað eru liðin rétt 120 ár frá því að lokið var við teikningar hússins og næstkomandi haust verður það 121. sem nemendur setjast þar á skólabekk. Hversu mjög sem samfélagið og tæknin gerbreytist stendur sumt hið gamla ÁVALLT fyrir sínu með glæsibrag. Þar á meðal er hið aldna og glæsta skólahús á Syðri Brekkunni.  Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. júní 2020 og 15. apríl 2024.

 

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21.  Fundur nr. 267, 11. maí 1911.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1900-09. Fundur nr. 894, 22. sept. 1903. Fundur nr. 911, 10. maí 1904. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a25_5?fr=sZTFmMTQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.).2003. Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Steindór Steindórsson. Gagnfræðaskólinn á Akureyri 1902-1930; Hús skólans og lóð. Í Gísli Jónsson (ritstj.). 1980. Saga Menntaskólans á Akureyrar 1. bindi. (bls. 205-234) Menntaskólinn á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1982. Sól ég sá. Sjálfsævisaga Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Tryggvi Gíslason. Hús skólans. Í Jón Hjaltason (ritstj.) 2009. Saga Menntaskólans á Akureyri 4. bindi. (bls. 169-244) Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólann á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Segja má, að götumynd Eyrarlandsvegar sé tvískipt. Úr norðri liggur gatan upp brattan hjalla upp frá Grófargili að brún Barðsgils en sunnan síðarnefnda gilsins þræðir hún brekkubrúnina í aflíðanda til suðurs að mótum Spítalavegar og aðkeyrslunni að Sjúkrahúsi Akureyrar. Með fáeinum undantekningum er gatan skipuð reisulegum steinhúsum frá 3. áratug sl. aldar.  Í norðurhlutanum standa húsin vestan götu en í suðurhluta standa húsin austanmegin og snúa stöfnum mót götu. Vestanmegin suðurhluta götunnar er að sjálfsögðu lóð Menntaskólans og Lystigarðurinn. Syðsta hús Eyrarlandsvegar er reisulegt steinhús, reyndar ekki frá 3. áratug sl. aldar, heldur örlítið eldra eða frá 1915. Þegar það var reist taldist það reyndar standa við allt aðra götu…IMG_1557

Í febrúar 1915 sótti Þorkell Þorkelsson kennari um lóð við Eyrarlandsveg, norðan við Sigurð Hlíðar (Eyrarlandsveg 26 eða Breiðablik) og leyfi til að byggja hús, samkvæmt framlagðri teikningu; 8,8x8,2m með forstofu 2,3x3,4m og bakskúr 2,2x1,3m. Fékk hann lóðina og byggingarleyfið en tveimur vikum síðar ber hann upp annað erindi við bygginganefnd. Þorkell tilkynnti bygginganefnd, að hann hyggðist hætta við þessa lóð. Þess í stað  ætlaði hann að reisa umrætt  hús á lóð, sem hann ætlaði að kaupa af Sigurði Fanndal. Lóðin yrði þannig austan við Eyrarlandsveg og norðan við Fagrastræti (sjá síðar í grein) og framhlið hússins snúi að síðarnefndu götunni. Veitti bygginganefndin leyfið með þeim skilyrðum að húsið stæði „nokkuð frá Fagrastræti“ og gaflinn yrði í húsalínu við Eyrarlandsveg. Einnig skyldi Þorkell kaupa spilduna austan húsalínunnar við Eyrarlandsveg (sem kallaður er Spítalavegur innan sviga í bókunum Bygginganefndar) á eina krónu hvern fermetra. Umræddur Sigurður Fanndal, sem seldi Þorkeli lóðina var þáverandi eigandi Hafnarstrætis 49 (Amtmanns- eða Sýslumannshússið, enn síðar skátaheimilið Hvammur).  Þannig má segja, að húsið sé „byggt úr landi“ Hafnarstrætis 49, en þegar það hús var reist árið 1895 var lóðin rúmur hektari, enda staðsett utan þéttbýlis.

      Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst er hönnuður hússins ókunnur. Til eru ódagsettar, óáritaðar teikningar að húsinu sem  taldar eru gerðar eftir 1928 en á þeim má greina höfundareinkenni Halldórs Halldórssonar. Elstu varðveittu teikningar að húsinu munu óáritaðar raflagnateikningar frá 1923. Ekki er útilokað, að Þorkell hafi sjálfur teiknað húsið en hann var eðlisfræðimenntaður og hafði unnið við Tækniháskóla Danmerkur svo húsateikningar hefðu líkast til ekki vafist fyrir honum.

      Eyrarlandsvegur 35 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með portbyggðu risi. Krosspóstar eru í gluggum á hæð og í risi en á inngönguskúr á framgafli er margskiptur skrautgluggi. Á framhlið er forstofubygging, á norðurhlið er lítil útbygging eða stigahús og lítið útskot með lauklaga þaki (karnap) er á suðurhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.  Húsið er látlaust og einfalt að gerð, líkt og elstu steinsteyptu íbúðarhúsin hérlendis en útskotið er einkum áberandi í svipgerð hússins og gefur því skrautlegt yfirbragð. Í því samhengi mætti einnig  nefna tvo samliggjandi bogadregna glugga á sömu hlið en einnig skrautglugginn á forstofu. Alls mun húsið um 225 m2  að stærð, skv. Húsakönnun (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:59).IMG_1561

      Þegar húsið var svo til nýbyggt, í desember 1916, var það metið til brunabóta og lýst sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og risi, á kjallara og byggt úr steini með járnklæddu timburþaki. Á gólfi undir framhlið, þ.e. vestanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa en austanmegin eitt herbergi, eldhús og búr og forstofa með stiga upp á loft. Á rishæð voru fimm íbúðarherbergi og fjögur geymsluherbergi. Þá kemur einnig fram, að við aðalinngang sé skúr sem einnig er forstofa og annar lítill skúr sé við bakhlið. Grunnflötur hússins 8,5x8,2m, hæð 7,5m, gluggar 27 að tölu og einn skorsteinn. Þá kemur einnig fram, að 60 metrar séu að næsta húsi (sbr. Brunabótafélagið 1916: nr 95). Húsið, sem stóð í 60 metra fjarlægð var væntanlega skólahúsið, en næsta hús við Eyrarlandsveg á þessum tíma var Breiðablik sem Sigurðar Hlíðar byggði.

      Þegar húsið var reist stóð það við  Fagrastræti, sem liggja átti frá Lystigarðinum og til suðurs að brún Barðsgils. Ef marka má bókun bygginganefndar hefur húsinu verið ætlað að standa á horni Eyrarlandsvegar og Fagrastrætis. En hvað var þetta Fagrastræti?  Um var að ræða fyrirhugaða götu, sem líklega hefur verið ætlað að liggja nokkurn vegin á sömu slóðum og gatan Barðstún var lögð löngu síðar. Húsið taldist Fagrastræti 1 í áratugi ( og telst eflaust enn í hugum margra) og elstu dæmin sem  gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarlandsveg 35 eru frá því eftir 1970. En það var hins vegar haustið 1961 að Bygginganefnd lagði til við bæjarstjórn, sem það samþykkti,  að Fagrastræti 1 yrði Eyrarlandsvegur 35

       Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur, sem byggði húsið, var fæddur að Frostastöðum í Skagafirði 6. nóvember árið 1876. Eftir stúdentspróf frá Reykjavík 1898 nam hann eðlisfræði í Kaupmannahöfn og lauk prófi þaðan 1903. Í Kaupmannahöfn starfaði hann í fimm ár við Polyteknisk lærenstalt (Tækniháskóla Danmerkur) uns hann fluttist til Akureyrar árið 1908. Hér í bæ kenndi hann við Gagnfræðaskólann, sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri. Það var því ekki langt fyrir Þorkel í vinnuna þau fáu ár sem hann bjó hér, því skólinn sá var til húsa handan götunnar í skólahúsinu mikla, sem nú kallast Gamli Skóli.  Þau fáu ár segir hér: Þorkell átti aðeins heima hér í þrjú ár því árið 1918 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann kom á fót löggildingarstofu voga-og mælitækja og varð forstöðumaður þeirrar stofnunar.  Árið 1920 var Veðurstofa Íslands stofnuð og var Þorkell fyrsti veðurstofustjóri. Gegndi hann forstöðu beggja stofnananna, Löggildingarstofu og Veðurstofu, um nokkurra ára skeið, eða til áramóta 1924-25.  Þar var um að ræða nokkurs konar samrekstur eða samvinnu þeirra að ræða fyrstu árin. Þorkell var veðurstofustjóri til ársins 1946 er hann fór á eftirlaun. Eiginkona Þorkels var Rannveig Einarsdóttir (1890-1962), úr Hafnarfirði. Þorkell Þorkelsson lést árið 1961.IMG_1560

      Eftir að þau Þorkell og Rannveig fluttu úr húsinu átti Baldvin Ryel kaupmaður það um skamma hríð en árið 1920 er eigandi hússins Brynleifur Tobiasson, kennari við Gagnfræðaskólann. Hann fluttist hins vegar árið 1926 norður yfir Eyrarlandsveginn, í húsið Breiðablik, sem um svipað leyti fékk númerið 26 við Eyrarlandsveg. Árið 1930 búa alls fimmtán manns í Fagrastræti 1 og skiptist húsið í þrjú íbúðarrými. Þá er Sveinn Bjarnason bókhaldari eigandi neðri hæðar og Benedikt Pétursson þeirrar efri. Árið 1940 er eigandi hússins Jakob Kristján Lilliendahl bókbindari. Hér má sjá hann ásamt konu sinni, Stígrúnu Helgu Stígsdóttur og börnum þeirra sunnan við hús sitt um 1940. Hafa síðan ýmsir átt húsið og búið þar en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús. Sem fyrr segir var götuheitið Fagrastræti formlega lagt niður árið 1961 og húsið síðan Eyrarlandsvegur 35. Hins vegar má segja, að Fagrastræti hafi að einhverju leyti orðið að veruleika þremur árum síðar, þegar gatan Barðstún var skipulögð á brekkubrúninni austan og neðan Eyrarlandsvegar. Barðstún nær reyndar ekki að Lystigarðinum eins og Fagrastrætinu var ætlað því gatan er lokuð í suðurendann, en lega götunnar er líkast til ekki fjarri því, sem Fagrastrætinu var ætlað. Fjögur hús standa við Barðstún, öll skráð byggð 1966 nema nr. 7, sem byggt er áratug síðar.

       Eyrarlandsvegur 35 er að mestu leyti óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en er þó í afbragðs góðri hirðu. Húsið er látlaust og einfalt að gerð og nokkuð dæmigert fyrir steinsteypuhús frá upphafi 20. aldar en þau voru yfirleitt byggð með sama byggingarlagi og tíðkaðist við timburhús.  Útskot og  bogadregnir gluggar á suðurhlið ásamt skrautgluggum í forstofubyggingu gefa húsinu hins vegar skemmtilegan og skrautlegan svip. Í Húsakönnun, sem unnin var um þetta svæði árið 2016, segir að húsið hafi hátt varðveislugildi vegna aldurs og byggingargerðar. Þá telst það  hafa hátt menningarsögulegt gildi með fyrstu húsum sem risu á svæðinu og hluti götu sem aldrei varð að veruleika. Húsið hlýtur næst hæsta mögulegaP3180106 varðveislugildi umræddrar Húsakönnunnar, eða 7. stig (8. stig fá friðlýst hús) sem hluti götumyndar Eyrarlandsvegar og framangreindra atriða. Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um aldursfriðun húsa eldri en 100 ára (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 59). Þá hafi það fágætisgildi sem eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsum á Akureyri. Í svipinn man greinarhöfundur aðeins eftir Steinöld (1903), Ósi í Glerárþorpi (1908), Hafnarstræti 19 (1913), Aðalstræti 80, Smiðjunni við Gránufélagsgötu 22 og Strandgötu 45 (þrjú síðasttöldu byggð 1914). Þannig gæti Eyrarlandsvegur 35 verið áttunda elsta steinsteypuhús Akureyrar.  Húsið stendur á skemmtilegum og áberandi stað í gróinni brekku, gegnt Lystigarðinum. Þá er lóðin vel hirt og prýdd gróskumiklum trjágróðri.

Myndirnar eru, að einni undanskilinni, teknar 15. apríl 2024 en meðfylgjandi er einnig mynd sem tekin er 18. mars 2012 en þá stóð myndarleg Farmal dráttarvél í hlaði.

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 404, 15. febrúar 1915 og nr. 406, 1. mars 1915.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Viðhorf til hjólreiðamanna

Ekki þekki ég til þessa tiltekna máls, annað en það sem ég hef séð í fréttum, en það að aka vísvitandi á hjólreiðamann er ekkert annað en TILRÆÐI. Það sem hins vegar gerist ævinlega, þegar frétt á borð við þessa fer um netmiðla byrjar söngurinn "hjólreiðamenn eru alltaf fyrir" og "hjólreiðamenn fara ekki eftir reglum" og árstíðabundna vers sama söng "það á ekki að hjóla á veturna". Svona eins og framangreint beinlínis RÉTTLÆTI svona lagað. En stöldrum aðeins við þennan punkt: Hjólreiðamenn eru alltaf fyrir.  Þetta þykir þó nokkrum svo djöfullegt, að umræddir hjólreiðamenn teljast allt að því réttdræpir. Allir vilja auðvitað allir komast leiðar sinnar og tafir hvers konar geta verið hvimleiðar. En stundum gerist það, að bílum er lagt á hjóla/göngustíga eða snjór annað hvort ekki ruddur eða á hinn veginn að snjóruðningar loki viðkomandi stígum. Ef fundið er að því er segin saga, að slíkt er afgreitt sem "væl" eða "tuð" eða jafnvel "frekja". Stórmerkilegt, svo ekki sé meira sagt. Svo gæti ég haldið áfram. Sumum finnst það algjört fásinna og sóun á fé skattgreiðenda að leggja göngu- eða hjólastíga. Hér skal þó skýrt tekið fram, að ég tel þetta ekki almenna viðhorfið og ég upplifi nánast undantekningalaust sjálfur tillitssemi í minn garð á götum Akureyrar. Og flestir hafa skilning á ólíkum þörfum ólíkra samgöngumáta.

Eitthvað af þessum viðhorfum gæti skýrst af því, að fólk telur hjólreiðar ekki vera samgöngumáta heldur "sport" og þess vegna sé t.d. bara allt í lagi þó einhver hjólastígur sé tepptur eða lokaður. Það er bara einfaldlega rangt! Sjálfur fer ég t.d. flestallra minna ferða hjólandi og ég þarf alveg eins að mæta á staði á réttum tímum, eða ná fyrir lokun eins og ökumaðurinn, sem bölvar hjólreiðamanninum, sem alltaf er fyrir. undecided Og ég er aldeilis ekki eini maðurinn, sem notar þennan ferðamáta. 

Alhliða lausnin í þessu öllu saman er, að allir vegfarendur, óháð ferðamáta taki sjálfsagt tillit til hvers annars. smile

 

  IMG_0685


mbl.is „Ert þú þá svona latte-lepjandi hjólagaur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Áður en lengra er haldið: Séra Jürgen Jamin hafði samband við akureyri.net vegna umfjöllunar á akureyri.net og langaði að koma eftirfarandi á framfæri: 

-Hrafnagilsstræti 2 hefur aldrei verið notað sem prestssetur (líkt og fram kom í pistli undirritaðs) heldur leigt út til spítalans i mörg ár þar til því var breytt í kirkju. 
-Kapellan var á neðri hæð Eyrarlandsvegar allt þar til Péturskirkja var tekin í notkun. Prestur bjó á efri hæðinni á Eyrarlandsvegi 26. (í pistli undirritaðs mátti líklega skilja sem svo, að allt húsið hafi verið kapella). Er sr. Jürgen þakkaðar þessar ábendingar. 
 
Spítalavegur 9

 

Á síðustu árum 19. aldar hófust landvinningar Akureyrar upp á brekkuna bröttu ofan kaupstaðarins í kjölfar þess, að jörðin Stóra Eyrarland var keypt og lagt undir kaupstaðinn. Árið 1898 reis nýtt sjúkrahús af grunni í hinu nýja „landnámi“ bæjarins. Var það á ávölum brekkubrúnum norðan Búðargils, á svæði sem kallast Undirvöllur. Ári síðar reis læknisbústaður á sama stað. Sjúkrahúsbyggingin er löngu horfin af þessum stað en var endurreist í Hlíðarfjalli og er nú Skíðastaðir. Læknisbústaðurinn stendur hins vegar enn... (Greinarhöfundi er reyndar ekki kunnugt um, hvort sjúkrahúslóðin sem slík var í því landi, sem bærinn hafði keypt árið 1893, eða hvort sá tiltekni blettur hafi tilheyrt bænum fyrir það. Það má þó teljast nokkuð ljóst, að yfirráð og eign Akureyrar á Eyrarlandsjörðinni var forsenda uppbyggingar á þessum slóðum).  IMG_0081

Árið 1896 hafði sjúkrahús verið starfrækt á Akureyri í liðlega tvo áratugi, í húsinu J. Gudmanns Minde sem nú er Aðalstræti 14 og jafnan þekkt sem Gamli Spítalinn. Það ár réðist til Akureyrar sem héraðs- og spítalalæknir, Guðmundur Hannesson (1866-1946). Hinum unga lækni (Guðmundur stóð þá á þrítugu) blöskraði aðstæður og aðbúnaður í húsinu, sem orðið var 60 ára gamalt og byggt sem íbúðarhús. Sagði hann húsið „stórum verra en flest privat hús“ og nefndi þar gluggaleysi, loftleysi, súg og ýmislegt annað, auk þess sem lækningatól voru flest úr sér gengin eða úrelt. Þá var því þannig háttað, að sjúkrarýmin voru á efri hæð hússins og mikið verk að koma sjúklingum upp þröngan og snúinn stiga. Það var því strax í janúar 1897 að Guðmundur lagði fram teikningar að nýju sjúkrahúsi og þar var um að ræða mjög fullkomið hús á einni hæð með vatnsleiðslu og miðstöðvarkyndingu (sbr. Magnús Stefánsson 2016:67-68). Um líkt leyti og fyrstu sjúklingar voru lagðir inn á nýja sjúkrahúsið á Undirvelli snemmmsumars 1899 hófst Guðmundur handa við byggingu eigin íbúðarhúss sunnan sjúkrahússins nýja.  

Það var vorið 1899, nánar tiltekið þann 20. maí að Guðmundur Hannesson fékk útmælda lóð og byggingarleyfi á þeim bletti á Undirvellinum, sem hann hafði látið slétta. Húsið yrði 17x12 álnir með „framstandandi útbyggingu“ að norðan og austan, 4x8 ½ álnir og „veranda“ sunnan við útbygginguna. Vestan hússins yrði skúr, 4 ½ x 12 álnir. (Lesendur eru kannski farnir að kunna það utanað, að alin var u.þ.b. 63 cm). Bygginganefndin mælti svo fyrir, að húsið skyldi standa í sömu stefnu og sjúkrahúsið og standa 5 álnir frá brekkubrúninni að austan en 6 ½ alin sunnan norðurbrúnar brekkunnar, sem upphlaðin er.  

Spítalavegur 9 er einlyft timburhús með háu risi og stendur á háum steyptum kjallara. Er það þrístafna ef svo mætti segja, það er tvær álmur; sú nyrðri snýr austur-vestur en suður úr henni er önnur álma sem snýr stafni mót suðri. Að norðan er miðjukvistur fyrir miðri þekju en útskot meðfram báðum hliðum suðurálmu. Þá eru smærri kvistir á báðum hliðum suðurálmu. Húsið er klætt láréttri panelklæðningu að utan og stallað bárujárn er á þaki. Á þakskeggjum og rjáfrum eru útskornir sperruendar og skraut í andaIMG_0082 sveitserstíls. Lóðréttir bjálkar skeyttir undir hanabjálka á austurstafni, sem ramma inn útskorið skraut á austurstafni norðurálmu og margskiptir skrautsprossar í sólskála austurhliðar setja sérlega skrautlegan svip á húsið. Grunnflötur hússins N-S er 10,32x10,80m (útbygging á vesturhlið meðtalin) en 5,59m breiður austurstafn norðurálmu skagar 2,65m út fyrir austurhlið. Sólskáli að austan 4,51x2,01m (skv. uppmælingarteikningum Finns Birgissonar, 1993)    

Smíði hússins mun ekki hafa tekið nema um þrjá mánuði, það er hún hófst í byrjun sumars 1899 og mun hann hafa flutt inn, ásamt fjölskyldu sinni um haustið. Fékk Guðmundur til liðs við sig timburmeistarann Snorra Jónsson á Oddeyri en Guðmundur mun sjálfur hafa ráðið útliti og innra skipulagi hússins að mestu leyti. Snorri og lærlingar hans smíðuðu glugga og hurðir í húsið veturinn áður en Guðmundur mun sjálfur hafa teiknað og sagað út skrautið sem prýðir gafla og þakbrúnir. Mætti ímynda sér, að hann hafi gripið í útskurðinn sér til hugarhægðar frá annríki læknisstarfsins. Svo vill til, að vitað er hver smíðaði upprunalegu hurðirnar í húsi Guðmundar. Hét hann Kristján Sigurðsson og lærði smíðar hjá Snorra Jónssyni árin 1896-98 og voru hurðirnar sveinsstykki hans í iðninni. Kristján lýsir vinnulaginu hjá Snorra á eftirfarandi hátt:  [...]hann [Snorri Jónsson] kom við og við til að segja fyrir um herbergjaskipan og mæla fyrir dyrum og gluggum. Aldrei var nokkurt hús teiknað fyrir fram, enda var hér þá enginn iðnskóli og lærðum við því ekkert í teikningu. Þegar byggja átti hús, var aðeins sagt fyrir, hve stórt það ætti að vera. Síðan var grindin höggvin saman og þá um leið ákveðið hvar dyr og gluggar ættu að vera. Því næst var húsið reist, klætt utan og síðan þakið (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (Kristján Sigurðsson, 1945) 1995:103).  

Þá kemur fram, að næst hafi verið settir í húsin gluggar og útihurðir, þá gólf og loft og því næst mælt fyrir innréttingum og veggjum. Var það að jafnaði gert í samráði við húseigendur og strikað með krítarsnúru fyrir veggjum. Þessi merkilega lýsing skýrir það, hvers vegna upprunalegar teikningar finnast sjaldan eða ekki þegar um ræðir íbúðarhús frá þessum árum: Þær voru einfaldlega ekki gerðar!    

 Í bréfi til konu sinnar, Karólínu Margrétar Ísleifsdóttur, sumarið 1899 segist Guðmundur hafa teiknað „veranda“ sólpall og hann ágætlega smíðaður af Ásmundi nokkrum sem á heima á Eskifirði. En umræddur Ásmundur, var Ásmundur Bjarnason sem nokkrum árum síðar átti eftir að stýra byggingu eins skrautlegasta og veglegasta timburhúss Eyjafjarðarsvæðisins, Grundarkirkju Magnúsar Sigurðssonar. Og einnig segir Guðmundur: „Ég er viss um að húsið verður fallegt, enda þó bæjarbúar sé á annarri skoðun og þyki það ljótt“ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191).  Segir Guðmundur, að bæjarbúar telji það eins og tvo samsettir kumbalda, sem fátæklingar hefðu byggt fyrir 100 árum. Kannski var það þessi tvískipta gerð, með stöfnum til þriggja átta sem olli þessu áliti. En Guðmundur bætir einnig við nokkuð áhugaverðum punkti: „Kassi helst sem allra stærstur, það er það sem við fólkið á [...]. Þegar fleiri fallegri hús verða byggð breytist þetta smám saman “ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191). Þessi orð eru einkar áhugaverð í ljósi þess, að um 120 árum síðar komu fram fremur stórkarlalegar hugmyndir um byggingu nokkurra, margra hæða fjölbýlishúsa á þessum sömu slóðum, að heita ofan í lágreistu byggðinni frá aldamótunum 1900.   

Hús Guðmundar var undir sterkum áhrifum frá norska sveitserstílnum og mun eitt fyrsta einbýlishúsið í þeim stíl hér í bæ. Ekki var það einungis nýstárlegt í útliti heldur einnig frágangur þess og búnaður. Ytri klæðning var tvöföld með þumlung á milli, innri klæðning pappalögð en grindin þétt einangruð með mosa. Þá var húsið kynt með kolaofnum sem drógu að sér loft eftir stokkum og í húsinu var vatnsleiðsla og vatnssalerni. Mun þetta fyrsta íbúðarhús bæjarins, sem búið var slíkum þægindum (sbr. Finnur og Hanna Rósa 2003:192). Guðmundur var að mörgu leyti frumkvöðull í heilsubótum og lækningaaðferðum, hann framkvæmdi t.d. botnlangaskurð fyrstur lækna hérlendis haustið 1902 (sbr. Magnús Stefánsson 2016:78) og gerði hann sér grein fyrir orsakasamhengi húsnæðis og heilsufars. Þannig var hann mjög áfram um bættan húsakost landsmanna og beitti sér óspart á því sviði. Það er því kannski engin tilviljun, að hús Guðmundar læknis skyldi hafa verið svo nýstárlegt hvað varðaði gerð og innri búnað eða þægindi.  Ásamt Guðjóni Samúelssyni vann hann ötullega að því, að kynna m.a. kosti steinsteypuhúsa í stað torfhúsa. (Reyndar gerðu fáeinar teikningar Guðjóns af íbúðarhúsum til sveita ráð fyrir torfþökum, t.d. á Kaupangi og Möðrufelli). P7310010 Guðmundur Hannesson kynnti hugðarefni sitt í blaða- og tímaritsgreinum auk bókarinnar Um skipulag bæja, sem út kom 1916. Þar er um að ræða tímamótarit í skipulagsfræðum þar sem fram koma margar nýjar hugmyndir, sem margar hverjar hafa æ síðan verið helsta leiðarljós í þéttbýlisskipulagi. Guðmundur, sem sat á Alþingi árin 1914-15, samdi  frumvarp að fyrstu íslensku skipulagslögunum, sem sett voru 1921 og á næstu árum skipulagði Guðjón Samúelsson svo nokkra þéttbýlisstaði, þ.á.m. fyrsta Aðalskipulag Akureyrar sem samþykkt var 1927.   

Guðmundur Hannesson fluttist til Reykjavíkur árið 1907 og tók þar við stöðu héraðslæknis og í húsið fluttist eftirmaður hans, Steingrímur Matthíasson, Jochumssonar. Steingrímur átti hér heima ásamt fjölskyldu sinni en hafði einnig læknastofu í húsinu. Steingrímur var eigandi hússins þegar matsmenn Brunabótafélagsins voru hér á ferð síðla árs 1916. Lýstu þeir húsinu sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og háu risi á kjallara og með skúr til norðurs við vesturenda. Á gólfi við framhlið (austanmegin á neðri hæð) voru tvær stofur og forstofa en við bakhlið (vestanmegin) tvær stofur, eldhús og gangur með stiga uppá loftið. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fimm geymsluherbergi. Lengd 13,2 m, breidd 10,4 og hæð 6,9m. Þá voru 20 gluggar á húsinu og tveir skorsteinar, sem tengdust fjórum kolaofnum, eldavél og þvottapotti (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. ) Ekki er minnst á vatnssalerni í brunabótamatinu, en ekki ósennilegt, að það hafi verið í einhverju geymsluherbergja í kjallara. (Kannski hafði það aðeins verið virkt í tíð Guðmundar?) 

Förum nú hratt yfir sögu. Húsið hefur að mestu haldið sinni upprunalegri gerð, kvistur var settur á það árið 1938 og einhvern tíma var skraut fjarlægt af þakbrúnum. Þá var húsið klætt asbestplötum á tímabili en árið 1992 hófust endurbætur sem miðuðu að því, að færa húsið til upprunans. Voru þær gerðar eftir teikningum Finns Birgissonar. Á tímabili var húsið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Í Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar frá árinu 1986 er nokkuð ítarlegur eigendalisti hússins: Næsti eigandi á eftir Steingrími Matthíassyni er Þorsteinn M. Jónsson árið 1937 og tveimur árum síðar er eigandi Ingibjörg Kristófersdóttir. Haukur Snorrason eignast svo húsið 1941 og Ásgeir Árnason ári síðar. Ekki kemur fram hver á hvaða hæð eða hvort umrætt fólk eigi allt húsið en árið 1958 er Kjartan Ólafsson eigandi neðri hæðar og Stefán Reykjalín eigandi efri hæðar frá 1965. Þá er Sigurður Sigurðsson sagður eigandi 1971 (ekki getið fleiri eigenda) (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:152). Um áramótin 1980-81 fluttu þau Ólafur Tryggvi Ólafsson og Þorbjörg Ingvadóttir á efri hæð hússins og síðar eignuðust þau alltP5150358 húsið. Árið 2016 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir þau Ólaf Tryggva og Þorbjörgu (sem búa hér enn þegar þetta er ritað síðla vetrar 2024) og tók við þau viðtal. Sögðu þau m.a. frá tveimur giftingarhringum sem fundust, annar milli þils og veggjar og hinn í garðinum. Annar þeirra var merktur St.gr. Hlaut það að standa fyrir Steingrímur, og hringarnir þannig tilheyrt þeim Steingrími Matthíassyni og Kristínu Þórðardóttur. Þá fundu þau Ólafur og Þorbjörg m.a. kínverska peninga milli þilja, við endurbætur á húsinu (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir, 2017:155).  

Spítalavegur 9 er reisulegt og skrautlegt hús í mjög góðri hirðu. Það stendur á einkar skemmtilegum og áberandi stað, hátt á brekkuhorniIMG_1520 norðan og ofan Búðargils. Lóðin er mjög gróin og prýdd gróskumiklum trjám. Þetta svæði við Spítalaveginn og Tónatröðina er einkar geðþekkt og gróið og prýtt lágreistum húsum. Mikil prýði er af þessari spildu á brekkubrúninni, sem blasir skemmtilega við  úr Innbænum, af Leiruvegi og frá vinsælum útsýnisstað á Naustahöfða, norðan Kirkjugarðs. Húsið Spítalavegur 9 er aldursfriðað og einnig hluti varðveisluverðrar heildar og fær þessa umsögn í húsakönnun, sem unnin var um svæðið árið 2009: Spítalavegur 9 er eitt glæsilegasta sveitserhús landsins og er um margt sérstakt. Húsið hefur mikið varðveislugildi af þessum sökum. Þar að auki er það einn mikilvægasti hluti þeirrar heildar sem sjúkrahúsbyggingarnar mynda og er gildi þess þeim mun meira  (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2016: 22). Látum það vera lokaorð þessarar umfjöllunar.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar 31. júlí 2010 og 26. febrúar 2023. Myndirnar, sem sýna Undirvöll og „Spítalabrekkuna“ eru teknar 15. maí 2016 og sl. páskadag, 31. mars 2024.  

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.  

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 175, 20. maí 1899. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu 

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2003. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning. 

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf 

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins. 

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur. 

Magnús Stefánsson. 2016. Svipmyndir úr sögu sjúkrahúss í eina öld. Akureyri: Völuspá útgáfa.  

 

ES. Hér að ofan er vitnað í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær. Hús og fólk. Þá er rétt að minna á sambærilega bók um Oddeyrina, sem hún og undirritaður sendu frá sér sl. ár. Hana er hægt að kaupa af höfundum eða í Eymundsson- sjón er sögu ríkari. Upplögð tækifærisgjöf m.a. sem sumargjöf!

 oddeyri_forsíða


Gleðilega páska

Óska öllum gleðrilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin núna skömmu fyrir hádegi á páskadag, horft til norðurs af Naustahöfða í átt að Oddeyri. Eins og sjá má eru páskarnir alhvítir í ár...og eins og sjá má, er hríðarsending á leiðinni úr norðrinu. 

IMG_1520


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26; Breiðablik

Við mót Hrafnagilsstrætis og Eyrarlandsvegar, efst við ytri hluta síðarnefndu götunnar, stendur sérlega glæst timburhús í sveitserstíl, prýtt útskornu skrauti og ýmsu sem gefur því sérstakan svip. Um er að ræða hús kaþólsku kirkjunnar en það var reist sem einbýlishús árin 1911-12.IMG 1496

Sumarið 1911 má segja, að landnám þéttbýlis hafi verið á frumstigi á hinum víðlendu brekkum, landi Stóra Eyrarlands, sem tveimur áratugum fyrr tilheyrði Hrafnagilshreppi. Árin 1898-1904 risu þar miklar opinberar byggingar, sjúkrahús og Gagnfræðaskóli og á næstu árum risu stök hús við Eyrarlandsveg og Spítalaveg og á melunum norðan Grófargils. Við brún Barðsgils, ofarlega við Eyrarlandsveg, fékk 26 ára dýralæknir Sigurður Einarsson Hlíðar, úthlutað lóð undir íbúðarhús. Var honum leyft að reisa íbúðarhús á lóð þeirri sem hann hafði keypt af kaupstaðnum á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. Stærð hússins var 18x16 álnir (um 11x10m), tvílyft á háum kjallara með risi og útbyggingu með turni. Skilyrði var, að framhlið hússins sneri að Eyrarlandsvegi og það stæði hornrétt (sbr. Bygginganefnd Ak. nr. 345, 1911). Þessi krafa um hornrétta stöðu kann að virðast nokkuð sérstök, húsið stendur nefnilega skástætt á horni tveggja gatna og snýr raunar norðaustur-suðvestur. En svo vill til, að þar sem húsið stendur er sveigja á Eyrarlandsveginum og væntanlega er húsið hornrétt á hana. Þá gæti lega gatnanna eitthvað hafa hnikast frá upphafi.

Byggingameistari Eyrarlandsvegar 26 var Maron Sölvason, en talið er að húsið hafi komið tilhöggvið frá Noregi. Mögulega hefur Maron sent teikningar út og fengið það forsmíðað úti. Sagan segir, að Sigurður og kona hans, Guðrún Louise Guðbrandsdóttir Finnbogason hafi fengið hið glæsta hús í brúðkaupsgjöf.   Nánar tiltekið frá móður hennar, Louise Jakobine Fredrerike Zimsem sem sögð var ein ríkasta kona landsins þótt víðar væri leitað. Þessi saga var aldrei staðfest en sonur þeirra Sigurðar og Guðrúnar, Guðbrandur Hlíðar nefndi í æviminningum sínum að mánaðarlaun dýralækna hefðu verið 100 krónur á mánuði, kjötskoðun gaf fimm aura á skrokk og folageldingar fimm krónur. Húsbyggingin hefði hins vegar kostað 12.000 krónur. Þannig gæti hver sem vildi lagt saman tvo og tvo og fengið út sannleika málsins (sbr. Jón Hjaltason 2021:39-40). Því hlýtur að mega draga þá ályktun, að þessar sögusagnir um brúðkaupsgjöf séu á rökum reistar; það er alltént nokkuð sennilegt, að sterkefnaðir foreldrar hennar hafi lagt eitthvað af mörkum.

Ef við berum þessar tölur saman við önnur laun má nefna, að árið 1912 voruIMG 1498 meðal mánaðarlaun daglaunamanns 32,4 krónur, iðnaðarmanna (trésmiða, málara) 42,9 krónur og járnsmiða 49,7 krónur. Þeir síðasttöldu slöguðu þannig í tæp hálf mánaðarlaun dýralækna. Svo má nefna, að meðal mánaðarkaup þvotta, elda- og þrifakvenna voru ekki nema um 10-11 krónur! En þetta þýðir, að bygging Eyrarlandsvegar 26 kostaði ríflega 350 föld mánaðarlaun daglaunamanns (verkamanns)! Freistandi er, að setja þessar tölur í samhengi við geysihátt húsnæðisverð dagsins í dag. T.d. mætti ímynda sér, að tilhöggvið timburhús væri í dag e.t.v. ekki sérlega dýrt í samanburði við annað húsnæði. En árið 1912 var hús á borð við Breiðablik með ríkmannlegustu híbýlum og þannig sambærilegt við 300 fermetra einbýlishús með tvöföldum bílskúr, heitum potti o.s.frv. miðað við nútíma. Óneitanlega gaman, að velta vöngum fyrir þessu. Þannig hefur þessi samanburður í raun takmarkaða merkingu, vegna gjörólíkra aðstæðna á marga vegu, en vissulega gaman að velta þessu fyrir sér. 

Eyrarlandsvegur 26 er einlyft timburhús með háu risi og kvisti við norðausturstafn. Á suðurstafni er inngönguskúr og annar slíkur norðarlega á vesturhlið. Kvistur skagar út fyrir húshliðina og undir honum er fimmstrent útskot. Útskotið myndar gólf inndreginna svala undir kvistinum.  Byggingarleyfi hljóðaði upp á tveggja hæða byggingu með turni en niðurstaðan var einlyft hús á kjallara með framstæðum kvisti með svölum. T-póstar eða þverpóstar eru í flestum gluggum en á útskoti að framan og undir rjáfri að suðvestan eru tvískiptir krosspóstar. Láréttur panell (vatnsklæðning) er á veggjum en steinblikk á suðvesturhlið. Það er ekki ósennilegt, að sú hlið hafi löngum verið nokkuð áveðurs, en suðvestanáttin gat eflaust orðið ansi hvöss á þessum slóðum, áður en byggð og trjágróður veittu kærkomið skjól.  Þak hússins er skrauti prýtt á alla kanta og það í bókstaflegri merkingu því neðan í þakköntum er útskorið, ávalt kögur og útskornir sperruendar undir þakbrúnum, sem skaga nokkuð út fyrir veggbrúnir. Er þetta nokkuð dæmigert einkenni sveitserhúsa. Höfuðprýði hússins er væntanlega kvisturinn, sem skartar útskurði og bogadregnum körmum á súlum yfir handriði. Undir rjáfri eru krossskeyttir bjálkar meðIMG 1497 ávölum endum, skeyttir undir nokkurs konar hanabjálka. Allt er þetta prýtt fíngerðum útskurði. Svalahandrið er sérstök prýði út af fyrir sig og skartar sérkennilegu en ákaflegu fögru munstri. Grunnflötur Eyrarlandsvegar 26 er um 10x9m, suðurútskot nærri 4x2m, inngönguskúr á bakhlið um 1x3m og útskot undir kvisti eitthvað nærri 1,5x4m. Hér er aðeins um að ræða ónákvæmar mælingar af kortavef map.is.

Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1912 og nefndu þau Sigurður og Guðrún hið nýreista hús sitt Breiðablik. Og í manntali það ár er  húsið einfaldlega kallað „Breiðablik“ við Eyrarlandsveg. Þá eru búsett þar fyrrnefnd Sigurður Einarsson Hlíðar og Guðrún Louise Einarsson og  tvö ung börn þeirra, Brynja, tæplega tveggja ára og Skjöldur, fjögurra mánaða. Auk þeirra tvær vinnukonur, Margrjet Jónsdóttir og Dóróthea Hafstein.

Árið 1916 var Breiðablik metið til brunabóta og lýst húsinu sem hér segir: Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi, skúr við suðurstafn, á kjallara. Á gólfi undir framhlið eru 2 stofur, við bakhlið ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loftið. Á lofti 4 íbúðarherbergi, gangur og geymsla. Lengd 9,4m, breidd 7,4m og hæð 7,5m. Tala glugga 24, útveggir timburklæddir, þak járnklætt, einn skorsteinn, fimm ofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 98).

Sigurður Einarsson Hlíðar var fæddur í Hafnarfirði árið 1885. Hann nam dýralækningar við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan árið 1910. Þaðan hélt hann til Akureyrar þar sem hann hóf störf við það fag. Mun hann hafa verið fyrsti starfandi dýralæknirinn á Norðurlandi. Gegndi hann dýralæknastarfinu á Akureyri (og nærliggjandi héröðum) til ársins 1943 er hann tók við stöðu yfirdýralæknis. Fluttist hann þá til Reykjavíkur. Sigurður stundaði auk dýralækninganna ritstörf og stjórnmál, gaf út blaðið Dagblaðið um skamma hríð og setti á stofn blaðið Íslending árið 1915 og ritstýrði í fimm ár. Sat í bæjarstjórn Akureyrar í rúma tvo áratugi, 1917-1938 og forseti bæjarstjórnar frá 1932.  Þá var hann vararæðismaður Þýskalands frá 1927-40. Sigurður Hlíðar var alþingismaður árin 1937-49 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að hann fór á eftirlaun lagði hann mikla stund á ættfræði og sendi frá sér ritið Nokkrar Árnesingaættir árið 1956. Sigurður lést árið 1962.

Nafn Brynju Hlíðar, dóttur Sigurðar og Guðrúnar, þekkja eflaust flestir akureyrskir skátar, sem komnir eru til vits og ára.  Þá sér í lagi skátakonur, þó væntanlega séu mun færri, sem muna hana persónulega en hún fórst í flugslysinu hræðilega í Héðinsfirði vorið 1947. Brynja var ein helsta driffjöður kvenskátastarfs á Akureyri á 4. og 5. áratugnum og stóð fyrir mjög öflugu, fjölmennu og öflugu skátastarfi undir nafni Valkyrjunnar. Byggðu þær skála í Vaðlaheiði sem nefndist Valhöll um 1946. (Sá hefur nú verið jafnaður við jörðu en nýr skáli með sama nafni, einnig í Vaðlaheiði, var tekinn í notkun 1997).IMG 1495

Hlíðar-fjölskyldan átti  heima í Eyrarlandsvegi 26 í rúmlega áratug. Raunar kallaðist húsið ekki Eyrarlandsvegur 26 fyrr en eftir þeirra tíð þar; var fyrst í manntali 1926. Fram að því  var húsið ætíð skráð sem Breiðablik. Það var árið 1923 sem, Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur og menntaskólakennari, eignaðist húsið.  Þremur árum síðar eignaðist samkennari hans, Brynleifur Tóbíasson, húsið og bjó hann þar um árabil. Kallaðist húsið þá löngum Brynleifshús. Næsti eigandi hússins var Eiríkur Kristjánsson. Árið 1944 hugðist hann múrhúða hús sitt og auglýsti eftir tilboðum í framkvæmdina í dagblöðum. Kannski sem betur fer, virðist hann ekki hafa fengið neitt eða ekki nógu hagstætt tilboð; við getum rétt ímyndað okkur hvernig húsið liti út, hefði það verið forskalað. Þá er næsta víst, að allt hið timbraða skraut hefði fengið að fjúka.  Árið 1950 keypti kaþólski söfnuðurinn hér í bæ húsið af Eiríki og gerði að kapellu sinni. Kaþólikkar eignuðust síðar næsta hús vestan við, Hrafnagilsstræti 2, sem var íbúðarhús prests en Eyrarlandsvegur 26 gegndi m.a. hlutverki  kirkju eða kapellu. Árin 1998-2000 breytti söfnuðurinn Hrafnagilsstræti 2 í veglega kirkju, Péturskirkju en Eyrarlandsvegur 26 eða Breiðablik mun vera prestsetur safnaðarins. IMG 1494 

Eyrarlandsvegur 26 er eitt af glæstari og skrautlegri húsum syðri Brekkunnar og raunar bæjarins alls og stendur á áberandi og skemmtilegum stað. Það kallast mjög skemmtilega á við stærsta sveitserhús bæjarins, Gamla Skóla, sem stendur spölkorn sunnan hússins, handan Eyrarlandsvegar. Húsið er skrauti hlaðið og svipmikið; stórbrotinn kvisturinn ásamt útskotinu helstu sérkenni þess, ásamt útskornu skrauti sem hér og hvar prýðir húsið. Húsið er í fyrirtaks hirðu. Ásamt næsta húsi, Péturskirkju, myndar húsið sérlega skemmtilega heild á horninu, sem kannski mætti kalla „Kaþólska hornið“. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það mjög hátt (7. stig af 8) varðveislugildi m.a. sem fulltrúi norskra sveitserhúsa og eitt af elstu íbúðarhúsum Brekkunnar (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 45). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 15. mars 2024.

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 345, 2. júní 1911.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Jón Hjaltason. 2021. Ótrúlegt en satt. Akureyri: Völuspá í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Spítalavegur 15

Í síðustu viku vorum við stödd við Eyrarlandsveg í nágrenni Akureyrarkirkju og við sögu kom húsið Stóruvellir sem stóð sunnan undir henni. Stóruvelli reisti Albert Jónsson, reyndar tæpum 40 árum áður en kirkjan reis, árið 1902 og nefndi eftir æskustöðvum sínum. Fjórum árum síðar reisti Sigurgeir bróðir hans, einnig hús sunnar og ofar á brekkunni ofan Akureyrar. Stendur það hús enn.

Vorið 1906 sótti IMG 1500Sigurgeir Jónsson, söngkennari frá Stóruvöllum í Bárðardal, um að fá keypta lóð meðfram Spítalavegi, 40 álnir (27,2m) meðfram veginum og 24 álnir (14,1m) að breidd. Bygginganefnd mælti með þessu en vísaði til bæjarstjórnar. Það var svo um sumarið að endanleg útmæling og úthlutun lóðar lá fyrir: Bygginganefnd samþykkti að útvísa Sigurgeiri Jónssyni lóð meðfram Spítalavegi að ofan, í beinni línu meðfram veginum eins og hann er út að hlykknum, þannig að lóðin hefjist að sunnanverðu 200 fetum frá norðurtakmarki spítalagirðingarinnar, 80 fet í norður meðfram veginum; framhlið hússins sé 12 fet frá vesturrönd vegarins. Eigi má byggja húsið nær suðurtakmörkum lóðarinnar en 10 fet (Bygg. nefnd. Ak. nr. 314, 1906).

Ekki fylgja lýsingar eða mál á húsinu sem Sigurgeir hugðist reisa en bygging hófst í júní um sumarið. Þó aðeins Sigurgeir sé nefndur í bókunum Bygginganefndar var það svo, að bygging hússins var í félagi Sigurgeirs og Ólafs Tryggva Ólafssonar, verslunarmanns frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þeir á sinni hæðinni hvor ásamt fjölskyldum sínum og húsið tvíbýli frá upphafi og hefur verið svo í tæp 118 ár þegar þetta er ritað.  Byggingameistari og hönnuður hússins var Guðbjörn Björnsson. (Guðbjörn hafði aldeilis í nógu að snúast árið 1906, því auk byggingar íbúðarhúss fyrir Sigurgeir Jónsson stýrði hann, ásamt tveimur öðrum, byggingu samkomuhússins mikla við Hafnarstræti 57). Verksamningur þeirra Ólafs og Sigurgeirs við Guðbjörn byggingameistara mun hafa varðveist og kemur þar fram, að húsið sé byggt á hefðbundinni grind með reiðingi til einangrunar. Útbygging að norðan og að sunnan einnig útbygging með „veranda“ (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26).

Spítalavegur 15 er tvílyft timburhús með lágu risi, á miðlungsháum steyptum kjallara. Á báðum stöfnum þess eru útskot eða forstofubyggingar, jafnháar húsinu og einnig er stigabygging á bakhlið. Raunar nær útskot norðurhliðar meðfram öllum stafninum svo í raun má heita, að ysti hluti austurhliðar sé inndreginn, fremur en ysti hluti gafls sé útskot. Útskot suðurhliðar er hins vegar samhverft um mæni og skagar efri hæð þess eilítið yfir útidyr neðri hæðar, myndar þannig nokkurs konar skýli. Bárujárn er á þaki hússins og steinblikk á veggjum, kantur eða band á hæðaskilum og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Áttarúðupóstar eru á IMG 1501framhlið neðri hæðar og eru þeir einu póstabili síðari en gluggar efri hæðar. Þá er skrautpóstur í suðurglugga forstofubyggingar, með skásettum krosssprossum og tígul í miðju. Grunnflötur hússins er 9,45x7,65m, útskot að sunnan um 2x2,5m, útskot að norðan 1,75x5,45m og bakbygging 2,5x3,95m, skv. uppmælingarteikningum Jakobs Snorrasonar frá 1957. Upprunalegar teikningar virðast ekki hafa varðveist, en vitað, að Guðbjörn Björnsson teiknaði húsið. Í húsakönnun árið 1986 er húsið sagt 650 rúmmetrar að stærð (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:155).

Sigurgeir og kona hans, Friðrika Tómasdóttir frá Litluvöllum í Bárðardal, munu hafa flutt inn á neðri hæðina síðla árs 1906 en fullgert var húsið í maí árið 1907. Það ár eru alls sextán skráð til heimilis að Spítalavegi 15. Auk Ólafs Tryggva, konu hans, Jakobínu M. Magnúsdóttur og sonar þeirra, Þóris, er önnur fjögurra manna fjölskylda einnig búsett á efri hæðinni; Pétur Halldórsson verslunarmaður og Jónína Jónsdóttir og tvö ung börn þeirra, Alfa og Marinó Halldór. Á neðri hæð búa sem fyrr segir Sigurgeir og Friðrika ásamt fjórum börnum sínum og Sigurbjörgu Guðmundsdóttur vetrarstúlku og Jóni Guðmundssyni, sem titlaður er snúningapiltur. Á meðal barna Sigurgeirs og Friðriku í manntali 1907 er nýfæddur drengur, sem ekki er kominn með nafn. Sá hafði fæðst 22. október og hlaut hann nafnið Eðvarð. Hann var afkastamikill ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður og frumkvöðull á því sviði hérlendis. Vigfús bróðir hans fékkst einnig við ljósmyndun og raunar er það svo, að rekist maður á ljósmyndir frá Akureyri frá fyrri hluta 20. aldar eru góðar líkur á því, að annar þeirra bræðra hafi haldið á myndavélinni. Sigurgeir Jónsson kenndi söng og hljóðfæraleik um áratugaskeið, svo lengi sem heilsa og aldur entist og var organisti við Akureyrarkirkju í þrjá áratugi. Í minningargrein um hann segir Snorri Sigfússon: [...]Hefur mikill aragrúi Akureyringa og annarra Norðlendinga notið tilsagnar hans þessa áratugi. Þótti hann ágætur kennari, nákvæmur og vandvirkur, svo sem bezt má verða, og ,,músíkalskur“ ágætlega. Var því jafnan margt ungviði kringum Sigurgeir alla æfi, syngjandi og spilandi, og heimilið hlaðið tónaflóði. (Snorri Sigfússon 1954: 4).

Í árslok 1916 var Spítalavegur 15 virtur til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, tvílyft á kjallara með láu [svo] risi, skúr við bakhlið. Á gólfi undir framhlið [austanverð neðri hæð] 3 stofur og forstofa, bakhlið 1IMG 1503 herbergi, eldhús og búr. Á lofti undir framhlið 4 stofur, bakhlið, 3 stofur, eldhús og búr. Kjallari hólfaður í 4 geimsluherbergi [svo]. 2 reikháfar [svo] útbygging með stiga upp á loft (Brunabótafélag Íslands 1916, nr.91). Húsið var timburklætt og járn á þaki. Grunnflötur hússins var sagður 9,4x7,4m, hæð hússins 9,4m og á því 29 gluggar. Reykháfarnir tveir tengdust alls fjórum kolaofnum og tveimur eldavélum. Þá stóð á lóðinni fjós og hlaða úr steinsteypu, 6,9mx4,2m að grunnfleti.

Svo vill til, að á báðum hæðum bjuggu húsbyggjendur allt til dánardægra og afkomendur þeirra bjuggu þar áfram. Húsið er ekki mikið breytt frá upphaflegri gerð. Upprunalega var húsið timburklætt en mögulega um 1930 var núverandi steinblikkklæðning sett á húsið. Árið 1957 voru gluggar neðri hæðar síkkaðir, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og byggð 2x2m útbygging að vestanverðu, í raun stækkun á stigabyggingu sem var þar fyrir.  Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Jakob Snorrason. Fékk húsið þá að mestu það lag, sem það enn hefur.  Neðri hæðin var raunar í eigu sömu fjölskyldu fram yfir aldamótin 2000 en árið 1979 er Kristján Birgisson sagður eigandi efri hæðar.  

Árið 1983 keyptu þau Aðalsteinn Svanur Sigfússon og Sóldís Stefánsdóttir efri hæðina ásamt þeim Gesti Helgasyni og Hólmfríði Eiríksdóttir. Gefum Aðalsteini orðið:  Það var vorið 1983 sem við keyptum efri hæðina á húsinu númer fimmtán við Spítalaveg, ég og sambýliskona mín Sóldís ásamt Gesti vini mínum Helgasyni og eiginkonu hans, Hólmfríði Eiríksdóttur. Barnung dóttir Hólmfríðar, Árný Þóra, var hluti þessarar „kommúnu“. Við vorum mjög ung þegar þetta var. Grannar okkar á neðri hæðinni, Haraldur [sonur Sigurgeirs og Friðriku, sem byggðu húsið] og Sigga Palla, tóku okkur mjög vel og margra ára nábýli við þau var sérstaklega ánægjulegt.

Þau hófust handa við málningarvinnu: Þegar við fluttum inn var útlit hússins ansi dapurt því það hafði ekki verið málað síðan 1962 – í 21 ár. Við, skítblönk ungmennin, sömdum við rosknu nágrannana á neðri hæðinni um að við skyldum sjá um að mála húsið hátt og lágt en þau sæu um efniskaup – og það var gengið í verkið strax um sumarið 1983. Við Gestur keyptum Rex skipalakk í fötuvís til að mála steinblikkið og ég blandaði handvirkP7220095t litinn sem við vorum búin að ákveða á húsið; ljósdrappan lit með örlítið bleikum blæ. Fengum stillansa og stiga að láni og smöluðum vinum og ættingjum í málningarvinnu sem var talsvert staut því við vildum hafa olíulakkið svo þykkt að eina leiðin til að bera það á klæðninguna var með penslum. Svo auðvitað allt tréverkið; gluggar, dyr, hornlistar og þakskegg. Að ekki sé minnst á þakið sem reyndist mér lofthræddum talsverð raun, eins og þakskeggið og gluggarnir á efri hæðinni. Raunar var það svo að eftir þessa aðgerð dró stórlega úr hrikalegri lofthræðslu minni um margra ára skeið – en hún kom aftur þegar frá leið. Á einni viku málaði þessi vaski hópur allt húsið utan, hátt og lágt og hvergi voru notaðar rúllur nema á þakjárnið. Húsið varð gullfallegt eins og það á skilið og þessi málningarvinna okkar ungmennanna entist og entist. Það eru bara örfá ár síðan húsið var málað aftur svo þessi aðgerð entist upp undir 40 ár! Á síðustu 62 árum hefur þetta hús verið málað tvisvar og lengst af þess tíma litið afar vel út, þökk sé Rex-skipamálningunni frá Sjöfn.

Það var ekki að spyrja að gæðum akureyrsks iðnaðar, sem nú heyrir sögunni til að mestu.  Aðalsteini er sérlega minnisstætt, hversu kalt var í húsinu:

Gamanið kárnaði ögn þegar fyrsti veturinn okkar í Spítalavegi 15 (1983–1984) gekk í garð. Hitastig innanhúss stóð í þráðbeinu sambandi við lofthita utandyra og hvernig vindar blésu. Allir gluggar hússins voru upprunalegir og í flesta búið að mixa tvöfalt gler en þeir voru gisnir og það beinlínis blés gegnum húsið. Ofnakerfi hússins var frá tímum olíukyndingar: pottofnar sem flestir voru í hnapp inni í miðju húsi (væntanlega til að auðvelda pípulagnir að þeim). Alveg í upphafi hafði þetta hús eins og önnur frá fyrstu árum 20. aldar verið kynt með kolaeldavél og kolaofni. En 1983 dugði ofnasystemið engan veginn til að hita húsið þegar norðanáttin gnauðaði í vetrarfrosti.

Eftir nokkra vetur var það niðurstaðan, að ekki væri búandi þarna yfir veturinn:  Ég [Aðalsteinn Svanur] tók hluta stofunnar undir málaravinnustofu og glímdi við myndlistina en þegar hitinn innanhúss fór niður undir 10 °C var ég farinn að mála með grifflur á höndunum vegna kulda. Algengt var að hitinn í íbúðinni færi niður fyrir 14 °C þennan vetur og við ákváðum að við svo búið mætti ekki standa annan vetur.   Sótt var um endurbótalán til Íbúðalánasjóðs, sem var með átak gegn heilsuspillandi húsnæði. Var  henni hafnað án skýringa og þegar Aðalsteinn krafðist þeirra: Fékk þá svar sem mér þótti ansi klént og finnst enn:  „Umsókninni er hafnað vegna þess að þetta án  bara við á veturna. Íbúðin er ekki „alveg heilsuspillandi“.

Á þessum tíma var farið að huga að einhverju sem hét húsverndun fyrir alvöru og hjá Akureyrarbæ starfandi Húsfriðunarnefnd. Sótt var um lán til þeirra og það gekk í gegn: Um sumarið var skipt um alla glugga og ofna og þetta vandamál með húskuldann var úr sögunni eins og hendi væri veifað. Um gluggasmíði og -skipti sá Trésmiðjan Börkur af hreinni snilld. Í ljós kom að sjálfir gluggakarmar upphaflegu glugganna voru í fínu standi og því var ákveðið að slá bara póstana úr þeim og smíða nýja glugga inn í ramman. Var það gert og skipt um alla tíu glugga hæðarinnar á einum degi meðan ég var að störfum í Kjarnaskógi. Því eru ennþá upphaflegir gluggakarmar frá upphafi 20. aldar í allri efri hæð hússin og eiga nóg eftir.

Þótti Aðalsteini sérlega gaman að koma keyrandi þennan daginn heim úr vinnunni upp Spítalaveginn og við blöstu hinir nýju gluggar. Greinarhöfundur þakkar Aðalsteini Svani sérlega vel fyrir þessar upplýsingar en hann veitti þær mjög fúslega og brást sérlega skjótt og vel við fyrirspurn höfundar.PA040027

Spítalavegur 15 er reisulegt og glæst hús og stendur á nokkuð áberandi stað á brekkubrún, enda þótt það sé að mestu falið á bakvið laufskrúð yfir sumartímann. Útbyggingar gefa húsinu sinn sérstaka, stórbrotna svip enda eru hlutföll þeirra og samhverfur í góðu heildasamræmi. Skrautleg rúða og hæðaskilakantar og hornlistar gefa húsinu einnig skemmtilegan svip. Þá er lóðin mjög gróskumikil og til mikillar prýði í geðþekku umhverfi hinnar svokölluðu „Spítalabrekku“ en greinarhöfund rekur minni til þess, að þetta svæði kallist Undirvöllur. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks viðhald.  Í Húsakönnun, sem unnin var um Spítalaveg segir eftirfarandi: Spítalavegur Spítalavegur 15 er mikilvægur hluti af þeirri heild sem húsaröðin nr. 15-17 myndar. Þessi heild hefur mikið varðveislugildi. Auk þess er húsið sérstakt vegna lögunar, gluggasetningar og veggjaklæðningar og hefur því varðveislugildi í sjálfu sér (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2009:26). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923, en þau lög gengu í gildi þremur árum eftir að umrædd húsakönnun var unnin. Meðfylgjandi myndir eru  eru teknar 22. júlí 2010 (þá skartar húsið enn Rex skipamálningu Aðalsteins Svans og hans fólks, frá 1983) og 15. mars 2024. Myndin, þar sem Spítalavegur 15 gægist upp úr laufskrúði brekkunnar ofan Hafnarstrætis er tekin 4. október 2014.

 

Heimildir: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.  Einkaskilaboð til greinarhöfundar, svör við fyrirspurnum gegnum samskiptaforritið Facebook Messenger, 16. mars 2024. 

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins

Snorri Sigfússon. Sigurgeir Jónsson söngkennari. Í Einingu 12. tbl. 12. árg. bls. 4. (af timarit.is)

Ýmsar heimildar af vef Héraðsskjalasafns,  herak.is, manntal.is og islendingabok.is


Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 8; Æsustaðir

Fyrsta verk Bygginganefndar Akureyrar á árinu 1906 var að afgreiða lóð og byggingaleyfi til handa Jóni nokkrum Guðmundssyni. IMG 1476Lóð þessi stóð að heita mátti  „uppi í sveit” eða sunnanvert í Grófargili, nokkuð utan þéttbýlisins. Í upphafi ársins 1906 var þéttbýlismyndun utan hinnar eiginlegu Akureyrar, Fjörunnar og Oddeyrar nokkuð skammt á veg kominn. Þó að heita mætti, að hin bratta og illfæra brekka, sem skildi þessa byggðakjarna að, væri að mestu  fullbyggð, voru sárafá hús í brekkunum sjálfum. Í nágrenni Stóra – Eyrarlands hafði reyndar risið myndarlegt sjúkrahús og háreist Gagnfræðaskólahús en að frátöldum smábýlum í landi Eyrarlands voru næsta fá íbúðarhús á brekkunum. Akureyrarbær hafði keypt Eyrarlandsjörðina árið 1893 og lagt hana undir sitt lögsagnarumdæmi þremur árum síðar, gagngert til þess að eiga land undir íbúðarhús og smábýli. En það var þann þriðja janúar árið 1906 að Bygginganefnd bókaði eftirfarandi:

Var þá tekið fyrir að útmæla lóð til handa trjesmið [svo] Jóni Guðmundssyni […]. Takmörk lóðarinnar eru ákveðin þannig: Lóðin er 125 suður frá húsi Alberts Jónssonar, rjetthyrndur [svo]  ferhyrningur, 60 fet á lengd meðfram Eyrarlandsvegi, 40 fet til vesturs frá húslínunni en húslínan er 45 vestur frá Eyrarlandsvegi, eins og hann liggur nú. Á lóð þessari var Jóni Guðmundssyni leyft að byggja hús úr timbri, tvílypt [svo] með lágu risi, 14x12 ½ al. og standi það neðst á lóðinni, 5 ál. sunnan við norðurtakmörk hennar (Bygg.nefnd.Ak. nr. 304, 1906).

En hvert var hús Alberts Jónssonar? Þar var um að ræða hús sem reist var árið 1902 og stóð nokkurn veginn þar sem nú er anddyri Safnaðarheimilis Akureyrar. Það hús kallaðist jafnan Stóruvellir, eftir bernskuheimili Alberts og var rifið upp úr miðri 20. öld, þegar kirkjulóðin var skipulögð.  (Stóruvellir sjást á þessu stórmerkilega myndskeiði af Akureyri sumarið 1950, á 44. sekúndu).

Eyrarlandsvegur 8 er tvílyft timburhús með lágu risi á miðlungsháum kjallara, ef svo mætti segja. Það er að heita má tvær álmur, sú stærri og fremri snýr hlið að götu og stöfnum NA-SV og á henni er útskot að aftan. Suðvestur úr húsinu er smærri álma sem snýr stafni til  vesturs og tengist hún „framhúsinu“ með tengibyggingu sem skagar 2m frá til suðurs og vesturs frá suðurstafni og vesturhlið. Á suðurhlið eru inngöngudyr og tröppur að þeim á útskoti þessu. Húsið er klætt steinblikki og bárujárn er á þaki og einfaldir þverpóstar í flestum gluggum. Á framhlið er upphleyptur kantur eða band meðfram neðri gluggabrúnum hvorrar hæðar og yfir inngöngudyrum að sunnan voldugur, þríhyrndur bjór (rammi yfir dyrum) sambyggður hliðargluggum. Tveir gluggar á efri hæð útskotsins eru með bogadregnum efri lista. Setur þessi umbúnaður skemmtilegan og skrautlegan svip á húsið, sem annars er einfalt og látlaust að gerð. Grunnflötur suðurálmu  mælist 9,10x8,14m, útskot að vestan 2,54x2,04m og útskot að sunnan 2x7,68m. Vesturálma er 5,73x5,35m. Tengigangur milli álmanna er 2,05x4,10m. Þessi nákvæmu mál eru fengið af uppmælingateikningum Aðalsteins Júlíussonar af húsinu frá 1994. Upprunalegar teikningar af húsinu liggja ekki fyrir, en það er raunar mjög sjaldgæft í tilfelli húsa frá upphafi 20. aldar.

Þegar flett er í gegnum manntal ársins 1906IMG 1479 má finna hús sem hvorki er nefnt með nafni né götuheiti en ráða má, að það sé staðsett á brekkunni. Eigandi er skráður Jón Guðmundsson og hann þar búsettur ásamt fjölskyldu sinni, hann var kvæntur Sigurborgu Kristbjarnardóttur og áttu þau fjögur börn. Auk þess voru búsett í hinu ónefnda húsi á brekkunni þau Sv. Svendsen málari og Helga Bergþórsdóttir lausakona.  Á næstu blaðsíðu við umrætt hús er annað ónefnt en eigandi þess Jón Guðlaugsson. Það var einmitt 14. apríl 1906 að þeir nafnar, Guðmundsson- og Guðlaugsson fá lóð og byggingarleyfi á melnum norðan Grófargils. En bíðum nú við, það er handan Grófargilsins og þessi hús kallast Melshús. Byggði Jón Guðmundsson tvö hús, sitt hvoru megin Grófargils árið 1906? Og er hið nafnlausa hús á Brekkunni í manntalinu árið 1906 e.t.v.  Eyrarlandsvegur 8 og enginn búsettur í Melshúsi, eða öfugt? Af „registrum“ Bygginganefndar mætti ráða, að sá Jón Guðmundsson sem fær lóðina við Eyrarlandsveg í ársbyrjun 1906 sé sá sami, og fær lóðina á melnum ásamt nafna sínum Guðlaugssyni um vorið sama ár. En það mun þó ekki vera tilfellið. Í bókunum Bygginganefndar 3. janúar 1906 er Jón Guðmundsson, sem úthlutað er lóðinni við Eyrarlandsveg, titlaður trésmiður en sá Jón Guðmundsson sem reisti Melshúsið var skósmiður. Þannig er um tvo alnafna að ræða, sem báðir byggðu hús á Brekkunni, sitt hvoru megin Grófargils á sama ári. Jón Guðmundsson, sem fékk að byggja á melnum, var skósmiður  og gekk undir nafninu Jón G. Ísfjörð.

Þannig er næsta víst, að Jón Guðmundsson trésmiður og byggingameistari hafi reist Eyrarlandsveg. Jón var fæddur 10. apríl 1875 í Grýtubakkahreppi. Hann nam trésmíðar á Akureyri hjá Davíð Sigurðssyni og hélt að því búnu til Danmerkur þar sem hann dvaldi í fjögur ár og nam iðnteiknun og „annað sem laut að fullkomnun í byggingariðn“. IMG 1478 Hann kom að byggingu fjölda stórhýsa á Akureyri og nærsveitum m.a.  Kristneshælis, Barnaskólans (sem nú kallast Rósenborg), Akureyrarapóteks og var auk þess einn aðalhvatamaður að stofnun Iðnaðarmannafélags Akureyrar. Þá stundaði hann einnig útgerð. Síðast en ekki síst má nefna, að Jón Guðmundsson var byggingameistari útileguskála sem skátasveitin Fálkar reistu sumarið 1932 og nefndu Fálkafell.

Jón Guðmundsson hefur ekki verið búsettur lengi hér, mesta lagi í fáeina mánuði, og mögulega hefur hann reist húsið gagngert til að selja það. Árið 1906 er hann skráður til heimilis í Aðalstræti 22 en enginn virðist búsettur að Eyrarlandsvegi 8 (sjá fyrri málsgrein um nafnlausu húsin á Brekkunni).  Árið 1907 er eigandi hússins og íbúi orðinn Pálmi Jónsson.P8291011 Hafði hann áður verið bóndi á Æsustöðum í Saurbæjarhreppi, þar sem konan hans, Jónína Jónsdóttir var uppalin. Pálmi var hins vegar fæddur og uppalinn á Kerhóli í Sölvadal. Nefndu þau hús sitt Æsustaði, eftir fyrrum bújörð þeirra og æskuheimili Jónínu.  Nýlega hefur verið fest skilti með því nafni á framhlið hússins.

 Árið 1909 fær Pálmi leyfi til að byggja fjós á lóð sinni við „No. 8 við Eyrarlandsveg“, 11x6 ½ álna breitt, 12 álnir frá „skúr aðalhússins“. Snemma árs 1915 er Pálma einnig heimilað að breyta húsinu „No. 8 við Eyrarlandsveg” en ekki kemur fram í hverju þær breytingar eru fólgnar, heldur aðeins, að þær séu gerðar samkvæmt framlögðum uppdrætti. Uppdrátturinn hefur líkast til ekki varðveist og höfundar er ekki getið. Pálmi Jónsson stundaði nokkurn búskap en hann átti erfðafestuland og fékk þar leyfi til að reisa peningahús úr torfi og grjóti. Mögulega hefur erfðafestuland hans verið aðliggjandi lóðinni við Eyrarlandsveg. Í Fasteignamati 1918 er húsinu sagt fylgja tún, sem fóðrað geti 30 kindur.  Höfum það í huga, að fram á 3. áratug 20. aldar var þessi staður nokkurn veginn „upp í sveit“. Húsaröðin við Eyrarlandsveg tók ekki að byggjast fyrr en eftir 1923 og Barnaskólinn 1930. Hverfið þar ofan við, Möðruvallastræti, Laugargata og Skólastígur risu löngu síðar. 

Í brunabótamati árið 1916 er húsið sagt vera tvílyft timburhús með skúr við bakhlið og „útúrbyggingu“  við suðurstafn. Húsið var timburklætt en þak járnvarið.  Á neðri hæð voru alls sex stofur og forstofa og á efri hæð fjórar stofur, forstofa, eldhús og búr. Í kjallara voru fimm geymsluherbergi og „kokkhús“.  Grunnflötur hússins var sagður 8,8x8,2m en „útúrbyggingin“ svokallaða var 4,9x3,8m (Brunabótafélagið 1916, nr. 129). Svokölluð útúrbygging er væntanlega forstofubyggingin á suðurhlið hússins, sem síðar var byggt við.

Árið 1919 var Sigurði Kristinssyni Eyrarlandsvegur 8 bókbindara leyft að byggja lítið hús á túni Pálma Jónssonar fyrir ofan Æsustaði. Byggingin var „[...] leyfð með því skilyrði, að skúrbyggingin yrði tekin burtu hvenær sem bygginganefnd eða bæjarstjórn krefst þess“ (Bygg.nefnd Ak. 1919: nr. 453). Af því húsi er það að segja, að Kristján nokkur Helgason keypti það nýbyggt og flutti um nokkra metra og fékk undir það lóð og bráðabirgðastöðuleyfi. Umrætt hús stendur hins vegar enn og er nú Möðruvallastræti 1a (lengi vel Eyrarlandsvegur 14b). Aðrar byggingar Æsustaða við Eyrarlandsveg eru hins vegar löngu horfnar. Árið 1920 fá þeir Pálmi Jónsson og Aðalsteinn Kristinsson leyfi til breytinga; rífa svalir á norðurhlið og setja þar glugga og flytja dyr á bakhlið „nokkuð norðar“ og setja glugga þar að ofan. Í manntali það ár, eru eigendur hússins hins vegar sagðir, Sigurður Kristinsson kaupfélagsstjóri og dánarbú Kristjáns Kristjánssonar en Pálmi Jónsson og fjölskylda enn búsett hér. Þau eru hins vegar á bak og burt þegar borið er niður í manntali ári síðar, en þau munu hafa flust til Reykjavíkur. Pálmi lést 1935 og Jónína árið 1953. Á meðal íbúa hússins árið 1921 eru Jónas Þorbergsson, þáverandi ritstjóri Dags og kona hans Þorbjörg Jónsdóttir. Tæpum áratug síðar varð Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins við stofnun þess árið 1930 og þar af leiðandi fyrstur manna til að gegna þeirri stöðu.

Hafa síðan fjölmargir átt Eyrarlandsveg 8 og búið í húsinu. Árið 1949 var byggt við suðurenda hússins til vesturs eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Eigindur hússins þá voru dr. Kristinn Guðmundsson og Bernharð Laxdal. Var þar um að ræða þann hluta hússins, sem framar í þessari grein er kallaður “vesturálma” og fékk húsið þá það lag, sem það enn hefur.P2230060

Eyrarlandsvegur 8 er í senn einfalt og látlaust hús en jafnframt stórbrotið og skrautlegt vegna byggingarlags: Í grunninn er um að ræða einfalt hús af algengri gerð timburhúsa frá tímabilinu í kringum aldamótin 1900 en húsið dregur einnig  dám af skrautstíl sama tíma. Þá gefur viðbygging frá miðri 20. öld og útskot að vestanverðu húsinu sérstakan svip, á því eru mörg horn og kverkar. Húsið setur þannig skemmtilegan svip á umhverfi sitt og sama er að segja af lóð sem er nokkuð víðlend, gróin og vel hirt. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist hafa fengið sérlega gott viðhald á síðustu árum. Á framhlið þess er skilti með áletruninni Æsustaðir. Er það mjög vel, því rétt er að halda á lofti nöfnum húsa frá fyrr tíð með þessum hætti.  Húsið Eyrarlandsvegur 8 er nokkuð frábrugðið að gerð og stendur nokkurn spöl utan heildstæðrar götumyndar neðri hluta Eyrarlandsvegar, en hún er að mestu skipuð veglegum steinhúsum frá 3. áratug 20. aldar. Greinarhöfundur fann ekki húsakönnun, þar sem Eyrarlandsvegur 8 er tekinn fyrir; mörk ítarlegrar húsakönnunar um þetta svæði eru við Eyrarlandsveg 12. En það liggur fyrir að Eyrarlandsvegur 8 eða Æsustaðir er friðað vegna aldurs þar sem það er byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 23. febrúar 2013 og  3. mars 2024. Myndin af Æsustöðum í Eyjafjarðarsveit, fyrrum Saurbæjarhreppi er tekin 29. ágúst 2020. 

 

Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 304, 3. janúar 1906. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. 354, 11. maí 1909   Fundur nr. 402, 1. febrúar 1915 Fundur nr. 439, 19. febrúar 1917. Fundur nr.  476, 19. maí 1920.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 440779

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband