13.7.2024 | 15:25
Arkitektúr og endurnýting
Virkilega góð og þörf grein. Samhliða nokkurs konar endurvakningar formfegurðar í hönnun mannvirkja (sem vel að merkja, má þó ekki koma niður á notagildi, öryggi eða aðgengi bygginga, enda er Pétur H. alls ekki að mæla fyrir slíku) mætti huga að aukinni endurnýtingu hvað mannvirki varðar. Niðurrif eldri bygginga ætti nefnilega alltaf að vera allra, allra síðasta úrræði. Svona fyrir utan söguleg og menningarleg verðmæti, sem oft fara forgörðum þegar eldri byggingar eru rifnar er þetta spurning um nýtingu og sóun auðlinda. (Svona í ljósi þess, að almenningi er gert að drekka fernudrykki úr pappamassaröri af umhverfisástæðum til að spara nokkur grömm af plasti. Á meðan þykir sjálfsagt að moka þúsundum tonna af steypu, timbri, gleri, lagna- og gólfefnum, plasti og málmum og öðru í landfyllingar til þess að rýma fyrir glænýjum þúsundum tonna af þessum sömu efnum ). Auðvitað er það stundum svo, að sumum byggingum verður ekki bjargað og stundum er niðurstaðan auðvitað sú, að það er kannski meiri sóun að lagfæra það gamla en að byggja nýtt. En hvorki þetta né breyting í arkitektúr gerist af sjálfu sér, þetta þarf alltaf að vera þannig, að byggingaraðilar sjái hag í hinu umfram annað. Því hvað sem okkur kann að finnast um það, er það svo; Ef það er hagkvæmara að byggja ferkantaða gráa steinkassa og rífa gamalt, í stað formfagurra nýbygginga -eða endurbyggingar gamalla slíkra- verður það fyrrnefnda ætíð fyrir valinu.
![]() |
Efnishyggjan hefur tekið yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2024 | 15:36
"Hús dagsins" í örlítið sumarfrí, vegna tæknilegra örðugleika.
Kæru lesendur. Það gæti orðið einhver örlítil bið eftir næsta "Húsi dagsins". Ástæðan er sú, að tölvan mín tók upp á einhverjum óskunda sem ég kann ekki að útskýra, en verið er að finna út hvort viðgerð verði við komið, eða hvort endurnýjunar sé þörf. Enda þótt mögulegt sé að opna ritvinnslu síðunnar í síma er mér ekki tamt að skrifa langt mál á þann hátt auk þess sem öll vinnsla mynda og uppsetning gegnum smáan símaskjá er illviðráðanleg. (A.m.k. hvað mig varðar) En þegar tölvukostur kemst í lag munu birtast hér, í júlí og ágúst, umfjallanir um nokkur eldri hús í sveitunum í nágrenni Akureyrar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2024 | 20:59
Hús dagsins: Lónsstofa á Skipalóni; 200 ára í ár
Í samanburði við nágrannalönd okkar eru íslensk mannvirki frekar ung. Á Norðurlöndunum, að ekki sé minnst á Bretlandseyjar og meginland Evrópu, standa heilu borgirnar, eða borgarhlutar, sem byggðar voru á miðöldum og eru þannig mörg hundruð ára gamlar. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um aðstöðumun þessara landa og Íslands á fyrri öldum, hvað varðaði aðgang að byggingarefni, íbúafjölda, samfélagsgerð og annað slíkt. Þá hafa einnig ótal margar byggingar og menningarminjar farið forgörðum gegnum tíðina. En hérlendis teljast byggingar, byggðar fyrir 1923, aldursfriðaðar (miðaðist raunar við 100 ára aldur til ársloka 2022). Á Eyjafjarðarsvæðinu skipta hús eldri en 100 ára á að giska fáeinum hundruðum; á Akureyrarsvæðinu gætu þau t.d. verið á þriðja hundrað, þegar þetta er ritað. Hús eldri en 200 ára eru hins vegar aðeins örfá og heyrir það raunar til tíðinda, að eitthvert hús á Eyjafjarðarsvæðinu nái því marki. Á Akureyri gerist það ekki fyrr en árið 2035, að Gamli Spítalinn og mögulega (heimildum ber ekki saman) elsti hluti Gránufélagshúsanna á Oddeyrartanga, Skjaldarvíkurstofan, nái 200 árunum. Veita þau þá Laxdalshúsi kærkominn félagsskap í hópi tvæöldunga innan Akureyrar. Nokkrum árum síðar bætast svo Frökenarhús, Lækjargata 2a og Aðalstræti 52 í þennan hóp og þegar 21. öldin verður hálfnuð ættu um fimmtán Akureyrarhús að hafa náð 200 árunum. Áður en fjölgar í 200 ára klúbbi Akureyrar árið 2035 munu tvö hús hafa náð þessum mjög svo virðulega áfanga í Hörgársveit; Hofstofa árið 2028 og svo vill til, að á þessu ári er 200 ára afmælisár Lónsstofu á Skipalóni. En hana byggði Þorsteinn Daníelsson árið 1824.
Skipalón- lýsing og forsaga
Skipalón stendur yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugnahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum, upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg, um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg vestanmegin, um Hlaðir og að Moldhaugnahálsi.
Skipalón hefur löngum aðeins kallast Lón og er nefnt svo í Landnámu. Í þessari grein verða bæði heiti notuð jöfnum höndum. Sögu jarðarinnar má rekja til landnáms en þar settist að Eysteinn Rauðúlfsson, sem nam land allt frá Bægisá og gervalla Þelamörk að Kræklingahlíð. Um hann virðist næsta lítið vitað, en hann mun hafa fæðst um 870 og gæti mögulega hafa numið land að Lóni um eða upp úr 900. Son átti Eysteinn sem hét Gunnsteinn og á meðal barna hans var Halldóra, eiginkona Víga- Glúms Eyjólfssonar. Í landi Lóns er svonefnd Gunnsteinsþúfa og segir sagan að Gunnsteinn sé heygður þar. Sögu Lóns frá öndverðu má að sjálfsögðu gera skil í löngu máli en við bregðum okkur hins vegar frá landnámsöld og til loka 18. aldar. Þó má geta þess, að ekki er ólíklegt, að líf og fjör hafi verið á Lóni á miðöldum, þegar helsti samkomu- og verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. En það var árið 1793, að þau Daníel Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir settust að á Lóni. Á meðal barna þeirra var Þorsteinn, sem fæddist þremur árum síðar, en hann bjó á staðnum allt til æviloka í hárri elli. Hann reisti þar hús sem enn standa, tveimur öldum síðar.
Þorsteinn Daníelsson forsmiður - Lónsstofa
Þorsteinn Daníelsson var sem fyrr segir fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20, nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið. Prófstykki hans var saumakassi úr mahóní með inngreyptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, og hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Tæpum fjórum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Þorsteinn hafði sem fyrr segir, haft hug á uppbyggingu og hófst þegar handa við byggingu timburhúss. Er þar komin Lónsstofa.
Lónsstofa er einlyft, stokkbyggt timburhús, þ.e.a.s. það er ekki byggt með hefðbundinni grind (bindingsverki) heldur hlaðið úr bjálkum, með háu risi og miðjukvisti. Húsið er múrhúðað eða steypt utan um það en bárujárn er á þaki. Kvistur er einnig bárujárnsklæddur. Í flestum gluggum eru margskiptir póstar en krosspóstur í kvistglugga. Grunnflötur Lónsstofu er 6,72x10,44m. Áfast húsinu norðanmegin er steinsteypt gripahús sem mælist um 10x10m á kortavefnum map.is. Upphaflega var Lónsstofa áföst gömlum torfbæ að norðan.
Í ævisögu Þorsteins Daníelsson segir Kristmundur Bjarnason afar ítarlega frá byggingu og tilurð hússins ásamt mjög greinargóðri lýsingu á því, hvernig þar var til háttað í tíð Þorsteins. Byrjum á grunninum (og það bókstaflega): Grunnur hússins er hlaðinn úr grjóti og virðist enn...[1961] all traustur, og er húsið ekki fest á neinn hátt í grunnhleðsluna, og gizka [svo] byggingafróðir menn á, að afstýfing og styrkur grindarinnar hafi helst stuðlað að því að halda húsinu á grunni sínum, en ekki er vitað til þess, að það hafi nokkurn tíma haggast af grunni sínum (Kristmundur Bjarnason 1961:211). Sá þótti nefnilega mikill ókostur við timburhús 19. aldar að þau vildu skekkjast eða jafnvel fjúka og brotna í illviðrum, kirkjum var t.d. sérlega hætt við þessu. Mun Þorsteinn hafa haft eitthvert sérstakt lag á því, að ganga þannig tryggilega frá timburhúsum að þau bifuðust ekki í ofviðrum og kunnað það fyrstur manna norðanlands. Gefum Kristmundi Bjarnasyni aftur orðið: Efniviður hússins er hörð og mjög góð fura og er grindin úr 3 [3 tommu] plönkum sem lagðir eru láréttir og tappaðir saman. Stoðir munu vera undir hverri sperru, og plankarnir lagðir í spor í þeim, þannig að endar skorðist vel. Sperrur eru tappaðar í mæni og skammbitar þannig inni í sperrur. Utan og innan á plankaveggina hefur síðan verið klætt lóðrétt breiðum borðum. Einangrun er í húsinu er engin önnur en sú, sem er í plönkunum og mun þessi byggingarháttur ekki krefjast annarrar einangrunar í útveggjum (Kristmundur Bjarnason 1961:212). Eitt sem nýstárlegt var við Lónsstofu var, að á henni voru upploksgluggar eða opnanleg fög en á þessum tíma þótti mikilvægast að loka fyrir hverja glufu. Þá voru gluggahlerar fyrir gluggum neðri hæðar en það tíðkaðist almennt með timburhús. Á dyrahellunni var höggvið ártalið 1824 (sést móta fyrir á meðfylgjandi mynd, sést væntanlega betur ef mynd ef er stækkuð). og einnig nafn og ártal útskorið yfir dyrum. Úr forstofu var gengið í eldhús á hægri hönd en bestu stofu til vinstri. Besta stofa var einnig skrifstofa Þorsteins. Þá var einnig verkstæði Þorsteins í norðurhluta neðri hæðar en árið 1843 stækkaði hann við sig svo um munaði, með Smíðahúsinu, sem stendur fast austan Lónsstofu. Þá var einnig svokölluð daglega stofa og hjónaherbergi á ne
ðri hæð. (Höfum í huga, við upptalningu allra þessara rýma, að grunnflötur Lónsstofu er eitthvað um 70 fermetrar). Gengið var upp á efri hæð úr eldhúsinu að norðan. Norðurhluti rishæðar skiptist í Piltaloft og Geymsluloft, hið síðarnefnda fyrst og fremst matargeymsla. Þá var svokallað Vesturloft, þar sem þjónustustúlkur höfðu að jafnaði persónulega muni, en þær sváfu yfirleitt í dagstofunni á neðri hæð. Suðurloft var yfir bestu stofu og var það gestaherbergi en inn af því súðarherbergi að austan, þar sem skrifarar Þorsteins höfðu aðsetur sitt. Efst undir rjáfri var svokallað Hanabjálkaloft, lágt og illa nýtilegt geymsluloft. Þangað lá stigi (og liggur kannski enn) úr skipinu Det Gode Haab, sem strandaði við Gásir haustið 1818 (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961: 214-215).
Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt. Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni. Hann fékkst einnig við útgerð og jarðrækt,brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og ætlaðist til þess sama af öðrum. Sumum þótti vinnuharka hans raunar keyra fram úr hófi og sumarið 1844 gripu smiðir hans við byggingu Munkaþverárkirkju til aðgerða, sem kannski má kalla einhvers konar vísi að fyrstu verkfallsaðgerðum hérlendis. Héldu þeir fund þar sem þeir ákváðu að leika á Þorstein, þannig að hann fyndi sig knúinn til að yfirgefa svæðið. Þóttist einn smiðurinn dotta, og þegar Þorsteinn hastaði á hann, sagðist hann hafa dreymt Grím amtmann fara heim að Lóni. Grímur var mjög góður vinur frú Margrétar og mun Þorsteinn hafa verið mjög á varðbergi gagnvart vinskap þeirra (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Gekk þetta eftir, Þorsteinn snaraðist heim að Lóni og væntanlega hafa smiðirnir nýtt fjarveru hans til að slaka á. Hann hefur væntanlega verið drjúgan tíma í burtu, því milli Munkaþverár og Skipalóns eru um 35 kílómetrar og ekki voru bílar, vegir eða brýr árið 1844. Jón Sveinsson eða Nonni átti heima á Möðruvöllum sem barn og hefur líkast til verið heimagangur á Skipalóni. Ein af sögunum í barnabókum hans nefnist einmitt Jól á Skipalóni og segir þar frá baráttu Nonna, Manna og Lónsfólksins við ísbirni. Skipalónsþætti Nonna og viðureigninni við birnina voru gerð skil á eftirminnilegan hátt í þýsku sjónvarpsþáttaröðinni um ævintýri þeirra bræðra, sem gerð var árið 1988. (Sjá hér í lok 3. og upphafi 4. þáttar. Rétt er að geta þess, að Þorsteinn sá, er bræðrunum og Haraldi vini þeirra verður tíðrætt um í lok þriðja þáttar, er alls ekki Þorsteinn Daníelsson heldur skálduð persóna, sem var hinn argasti þrjótur í þáttunum).
Sem fyrr segir bjuggu þau Þorsteinn og Margrét hér til æviloka, hún lést sumarið 1881 og hann í desember 1882. Þorsteinn sinnti húsasmíðum langt fram á efri ár, hann tók m.a. þátt í að taka niður Skjaldarvíkurstofu, Ólafs Briem (byggð 1835) og byggja hana upp á Oddeyri, á vegum Gránufélagsins, árið 1873. Þess má reyndar geta, að tíu árum fyrr hafði Þorsteinn keypt Oddeyrina en seldi Gránufélaginu drjúgan hluta hennar árið 1871. Síðasta hús sem hann byggði mun hafa verið Tugthúsið í Búðargili. Það var byggt árið 1874 stóð neðarlaga gilinu en brann til ösku snemma árs 1938. Um 1880 var Þorsteinn, þá kominn vel á níræðisaldur, með hugann við það framfaramál, að brúa Hörgá. Hugðist hann gefa töluvert fé til byggingarinnar, en hann átti sem fyrr segir mikil auðævi og ekki áttu þau Lónshjón neina lögformlega erfingja. Þorsteinn hafði meira að segja komið upp líkani að fyrirhugaðri brú. En hins vegar rann þessi fyrirætlun út í sandinn sökum sljóleika Danielsens (Kristmundur Bjarnason 1961:515). Hörgá var ekki brúuð fyrr en upp úr aldamótum 1900.
Þorsteinn Daníelsson og Þorsteinn Daníelsson
Það vill nú svo til, að það er ekki einn Þorsteinn Daníelsson sem kemur við sögu Lónsstofu heldur eru þeir tveir. Ásta, systir Þorsteins, átti soninn Daníel, sem átti soninn Þorsteinn. Sá var fæddur í janúar 1858 og var tvítugur árið 1878 er hann og móðir hans hugðust flytja til Ameríku. Höfðu þau selt allar sínar eigur, nema Þorsteinn átti enn hnakkinn sinn. Kom það sér vel, þegar ömmubróðir hans og alnafni bað hann að finna sig á Lóni. Erindi hans, var að biðja Þorstein yngri að taka við Lónsjörðinni að sér látnum. Ekki fylgir sögunni, hvort eða hversu lengi Þorsteinn yngri hafi hugsað sig um, en hann gekk að þessu og skemmst frá því að segja, að hann bjó að Lóni til æviloka árið 1941. Þannig má segja, að í meira en 100 ár hafi eigandi Skipalóns verið Þorsteinn Daníelsson!
Árið 1918 voru húseignir á Skipalóni metnar til brunabóta og Lónsstofu þá lýst á eftirfarandi hátt: Timburhús, 16x10 álnir með járnklæddum kvisti, plankahús með klæðningu utan og innan og þreföldu timburþaki. Skiptist húsið í 6 herbergi niðri og stærð þeirra getið, herbergi a) 4x5 al., herbergi b) 4 ½ x 2 ½ álnir, herbergi c) 5x5 álnir, herbergi d) og e) eru hvort um sig 6x3 ½ álnir, og herbergi f) 5x4 ½ álnir. Á neðri hæð eru og þrjú eldstæði niðri við múrpípu, fjögur föst rúmstæði og skilvinda. Á lofti eru sex herbergi með eldstæði við múrpípu. Kvistur á húsinu að stærð 6x3 álnir. Þess má geta, að mál hússins eru sett fram með nokkuð sérstæðum hætti; t.d. er húsið sagt 16+10+3+5 álnir að stærð og herbergin sögð t.d. 4+5+3 álnir. Greinarhöfundur getur sér til, að fyrri tvær tölurnar séu grunnflötur en þriðja talan hæð. Þannig sé stærð hússins 16x10 álnir að grunnfleti, hæð upp að þakskeggi 3 álnir og hæð þaks 5 álnir. Þá er þriðja máltalan í herbergjastærðinni í öllum tilfellum 3 álnir. Hins vegar eru 3 álnir aðeins um 190 cm, sem er fremur tæp lofthæð. Það getur hins vegar vel staðist, að hæð hússins sé um 8 álnir, sem mun nærri 5 metrum. Þá segir í lýsingunni: Húsið er orðið gamalt (bygt 1824) [svo] en hefur verið mjög vel bygt og er enn vel stæðilegt og að mestu ófúið (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1918: nr. 24).
Ekki er ljóst hvenær kvistur var byggður á húsið en fyrir liggur, að hann var ekki á húsinu frá upphafi. Kvistlaus Lónsstofa sést á málverki eftir Kristínu Jónsdóttur, sem sjá má á bls. 209 í ævisögu Þorsteins Daníelssonar. Hvorki er getið ártals, né hvort myndin sýni bæinn eins og var þegar verkið var málað, en verkið gæti verið frá 2. áratug 20. aldar. Það er þó alltént ljóst, að kvistur var kominn á húsið árið 1918. Steypt mun hafa verið utan um Lónsstofu um 1930 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:209) og mögulega hefur Þorsteinn Daníelsson yngri staðið fyrir þeirri framkvæmd, eða ábúendur sem tóku við af honum um það leyti (sjá nánar síðar um ábúendur). Gluggaskipan framhliðar virðist þó næsta lítið breytt, ef marka má gamlar myndir. Frá upphafi var húsið áfast eldri torfbæ að norðanverðu en núverandi gripahús reist á grunni hans. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 kemur fram, að á bænum standi fjós frá 1945 og mjög sennilegt, að þar sé um að ræða hús sem áfast er íbúðarhúsinu að norðan. Sama fjós er a.m.k. sagt steinsteypt í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en fjárhús frá 1920 úr timbri og torfi. Svo vill til, að byggingarár annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókinni en svo er hins vegar í þeirri yngri. Þar er byggingarefna hins vegar ekki getið.
Ábúendur og búsaga Skipalóns á 20. öld - Lokaorð
Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Þorsteinn Daníelsson yngri og Gunnlaug Margrét Gunnlaugsson sögð búa hér til ársins 1930 en í ársbyrjun 1941, þegar Þorsteinn lést, er hann sagður hafa látist á heimili sínu, Skipalóni. Svo þau virðast hafa búið hér áfram á efri árum, þó aðrir tækju við búinu. Frá 1930 virðist vera tvíbýlt á Skipalóni, þar búa annars vegar þau Sveinn Benediktsson og Ingibjörg Jónsdóttir og hins vegar þau Sigurjón Kristinsson og Margrét Ragna Þorsteinsdóttir. Fyrrnefndu hjónin bjuggu hér í fjögur ár, eða til 1934 en þau síðarnefndu til ársins 1948. Þá fluttu að Skipalóni þau Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg Hallfríður Kristjánsdóttir frá Gásum (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 573). Árið 1970 er búrekstur þeirra Snorra og Sigurbjargar eftirfarandi: 13 kýr, 2 geldneyti, 100 fjár, 4 hross, 45 gæsir og 5 geitur. Túnstærð tæpir 13 hektarar og töðufengur um 600 hestar. Hlunnindi eru einnig talin nokkurt æðavarp og silungsveiði (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 209). Árið 1990, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í samnefndu ritverki var bústofninn 17 fjár, 6 geitur, 15 hænur og 20 alifuglar. Ræktað land var réttir 13 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993 :572). En í ritinu Byggðir Eyjafjarðar árið 2010 er Skipalón farið í eyði, og það mun hafa gerst árið 1997 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:355). Snorri Pétursson lést árið 1995 og mun Sigurbjörg hafa flust héðan skömmu eftir lát hans.
Sumarið 1981 heimsótti Ómar Ragnarsson Skipalón og heilsaði upp á Snorra Pétursson og myndarlegan gæsahóp hans. Afraksturinn var tæplega tveggja mínútna innslag í Stikluþættinum Saga í grjóti og grasi. Þar vakti e.t.v. mesta athygli hundur Snorra, sem bundinn var við rauðan Renault bifreið af árgerð 1946, sem stóð í hlaðinu. Hundurinn var bundinn við bílinn, svo hann styngi ekki af til Akureyrar! Nefnilega, ef hann fékk færi á, brá hundurinn sér þessa 14 kílómetra leið í bæinn, fór eftir öllum umferðarreglum og spásseraði um strætin eins og fínn borgari! Greinarhöfundur veit ekki til þess, að þáttur þessi sé aðgengilegur nema á gamalli VHS-myndbandsspólu. Svo ef lesendur komast yfir VHS-tæki og Stikluspólu nr. 2 er svo sannarlega mælt með þessum þætti. Almennt mælir greinarhöfundur eindregið með Stiklum Ómars Ragnarssonar, fyrir alla þá sem vilja auðga vitneskju sínu og auka skilning á landinu og staðháttum. Þættirnir eru mjög merkt framtak til kynningar á landsháttum og náttúru en auk þess að vera mjög fróðlegir eru þeir einnig afar skemmtilegir.
Jörðin Skipalón mun vera í eigu afkomenda Snorra Péturssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur. Lónsstofa hefur hins vegar verið í umsjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1985 og telst hluti húsasafns þess. Smíðahúsið hefur hins vegar verið í umsjón safnsins frá 1976 og var það gert upp um svipað leyti. Lónsstofu bíða hins vegar gagngerar endurbætur, svo sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Væntanlega myndu slíkar endurbætur miða að því, að færa það til upprunalegs horfs. Í lýsingum á húsinu er mjög haft á orði, hversu vel viðað húsið er. Múrhúðun timburhúsa, sem þótti hin mesta bót á sínum tíma hefur í seinni tíð reynst vera algjört skaðræði, hún m.a. lokar auðvitað algjörlega fyrir öndun timbursins, sem er að stofni til lífrænt efni. En það er vonandi að sem mest af nýtilegum og óskemmdum viði leynist undir steypukápunni, sem hjúpað hefur hina 200 ára gömlu Lónsstofu í tæpa öld. Greinarhöfundur ákvað að gamni sínu, að rissa upp teikningar, byggðar á gömlum myndum, að upprunalegu útliti Lónsstofu, með og án kvists, en upprunalega mun húsið hafa verið kvistlaust. Þá er spurning í hvað húsið gæti nýst, því húsum fer auðvitað ekki vel að standa auð og ónotuð, líkt og bátar sem fúna í naust, best er að þau séu notuð. Lónsstofa gæti auðvitað orðið fyrirtaks safnahús, kannski útibú frá Nonnahúsi vegna tengsla við sögurnar hans. Kannski væri hægt að reka þarna veitinga- og kaffihús yfir sumartímann. Þá væri mögulega hægt að leigja húsið til dvalar og afnota í sérstökum tilgangi, kannski gæti einhver hugsað sér að búa þarna. Hver veit. Eitt er víst, að húsin á Skipalóni eru mikil prýði í fallegu umhverfi, bæjarstæðið tilkomumikið og skemmtilegt og býður eflaust upp á fjölmarga möguleika. Þá má segja, að sagan drjúpi hér af hverju strái, hvort sem er vegna nálægðar við hinn forna Gásakaupstað eða húsanna; hinna geðþekku minnisvarða um athafnamanninn og brautryðjandann Þorstein Daníelsson. Lónsstofa var friðlýst árið 1990 á grundvelli þjóðminjalaga.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024. Myndina, þar sem greinarhöfundur er í forgrunni tók Árni Már Árnason.
Þess ber að geta hér, að húsin á Skipalóni eru ekki aðgengileg almenningi og heimreiðin lokuð. Greinarhöfundur fékk hins vegar góðfúslegt leyfi Þjóðminjasafnsins til þess að fara að húsunum og ljósmynda þau. Hinum bestu þökkum er hér með komið á framfæri til Ölmu Sigurðardóttur hjá Þjóðminjasafninu fyrir að veita þetta leyfi, sem og Sædísi Gunnarsdóttur hjá Minjastofnun sem hafði milligöngu en höfundur leitaði fyrst til hennar.
Heimildir: Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 26.7.2024 kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2024 | 20:57
Hús dagsins 15 ára
Það er víst kominn hálfur annar áratugur síðan ég settist niður að morgni dags, 25. júní 2009, og birti mynd af Norðurgötu 17, Steinhúsinu og ritaði um húsið fáein orð. Þess má geta að kvöldi þess sama dags, bárust heimsbyggðinni þær fréttir, að ein skærasta poppstjarna sögunnar, Michael Jackson, væri látinn. Ég held ég hafi rakið þessu sögu árlega mögulega 10 sinnum, en þessi skrif undu upp á sig. Ég hef ekki tölu á "Hús dagsins" pistlunum en þeir gætu verið um 1000. Ólíku er reyndar saman að jafna, pistlarnir frá fyrstu árunum eru kannski fyrst og fremst hugsaðir sem stuttir myndatextar. Á síðasta ári komu skrif þessi, eða öllu heldur skrif byggð á því sem m.a. hefur birst hér, út á bók, Oddeyri Saga hús og fólk í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur. Og vel á minnst, sú bók er enn fáanleg og til sölu hjá okkur höfundum og í Eymundsson.
Ekki hef ég ætlað mér að gera þessu afmæli "Húsa dagsins" skil með neinum sérstökum hætti nema e.t.v. slá því saman við annað stór-merkisafmæli; 14 kílómetra norðan Akureyrar, í Hörgársveit, nánar tiltekið á Skipalóni stendur látlaust forskalað timburhús sem á hvorki meira né minna en 200 ára afmæli í ár! Þannig að á 15 ára afmæli "Húsa dagsins" birtist 200 ára afmælispistill Lónsstofu. Og líkt og síðasta sumar, verða Hús dagsins "send í sveit" líkt og börnin forðum, á eftir Lónsstofu bregð ég mér fram í Eyjafjarðarsveit en ekki lokuð fyrir það skotið, að okkur beri niður víðar við Eyjafjörðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2024 | 22:53
Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð
Á þeim tæplega 400 metra langa kafla, sem Hafnarstrætið sveigir upp í brekkuna á svonefndu Barðsnefi, ber mest á fjórum húsum sem öll eru byggð á árunum kringum aldamótin 1900. Hæst ber auðvitað Samkomuhúsið, með sínum skreyttu burstum og oddmjóa turni en sunnan þess eru öllu látlausari hús; Gamli Barnaskólinn og fyrrum amtmannsbústaður, sem skátar nefndu í sinni tíð Hvamm. Nyrst í þessari þyrpingu er einnig áhugavert og stórbrotið hús, sem stendur hátt upp í brekkunni og umvafið gróskumiklum skógarreit. Hér er um að ræða Hafnarstræti 63, sem byggt er 1901 og kallað Sjónarhæð.
Forsaga og lýsing
Árið 1898 fluttist Englendingurinn Frederick Jones að á Íslandi. Hafði hann fengið trúarlega köllun, eftir að hafa lesið boðskap frá landa sínum, Alexander Marshal. Marshall hafði skömmu áður dvalist hérlendis og lét þau boð út ganga, að hér væri aldeilis þarft að stunda trúboð og breiða út kristilegan boðskap. Jones bjó fyrst á Húsavík en fluttist fljótlega til Akureyrar þar sem hann festi kaup á hálfum hektara lands í brekkunum ofan Hafnarstrætis og hugðist reisa þar samkomusal. Var það þann 18. mars árið 1901 að Bygginganefnd úthlutaði Jones byggingaleyfi og var það eftirfarandi: 32 álna langt og 12 álna breitt [hús], skuli standa brekkumegin við götuna meðfram Leikhúsinu og ganga jafnt því til suðurs og stefna eins og það og gatan. Millibilið milli húshornanna að sunnan sé 19 álnir. Tröppurnar frá götunni upp að húsinu, og fyrirhugaðri girðingu milli þeirra, gangi ekki nær vesturjaðri götunnar en 5 álnir (Bygg. nefnd. Ak. nr. 199, 1901). Með öðrum orða, hús Frederick Jones skyldi vera um 20x8,8m að grunnfleti, suðurstafnar hússins og Leikhússins handan götunnar í sömu línu með 12 metra bili á milli. Umrætt leikhús er Hafnarstræti 66, sem Gleðileikjafélagið hafði reist árið 1896. Það hús brann til grunna um miðja 20. öld.
Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er timburhús sem skipta mætti í tvær álmur. Syðri hluti hússins er tvílyftur með lágu risi en nyrðri hluti einlyftur með örlítið brattara risi. Allt er húsið á háum, steyptum kjallara og syðst er hann lítið sem ekkert niðurgrafinn, þar sem hann skagar út úr brekkubrún. Syðst er einnig steinsteypt viðbygging með mjög aflíðandi, allt að því flötu þaki og stendur hún öllu neðar en húsið sjálft, má segja að hún skagi út úr kjallaranum. Á vesturhlið (bakhlið) er vinkillaga útskot sem nær utan um norðvesturhorn syðra húss og tengist þannig báðum álmum. Krosspóstar eru í flestum gluggum, panell eða vatnsklæðning á veggjum og bárujárn á þaki. Húsið stendur hátt ofan götu, á brún snarbrattrar brekku og upp hana liggja 25 tröppur á timburpall, sem nær nokkurn veginn meðfram framhliðinni. Grunnflötur suðurálmu er nærri 10x7m, norðurálmu 8x12m og viðbygging að sunnan um 13x3m. Útskot á bakhlið er eitthvað nærri 3x3m og anddyrisbygging að norðan um 6x2m. (Ónákvæmar mælingar af map.is).
Frederick Jones, sem byggði húsið, stóð hér fyrir trúarlegum samkomum sem nutu mikilla vinsælda. Sjálfsagt var trúrækni almennt þó nokkur hér og auðvitað var almennt framboð samkvæma og afþreyingar afar takmarkað í upphafi 20. aldar. Það er ólíklegt að Jones hafi verið kunnugt um ríginn milli Oddeyrar og Akureyrar þegar hann settist hér að. En mögulega hefur hann fljótlega komist að raun um ástæðu þess, að amtmaður hafði reist hús sitt á þessum slóðum, sem og leikhúsið ásamt hinum glænýi Barnaskóli höfðu verið valinn þessi staður. En hvort Jones hafi viljað staðsetja samkomustað sinn sérstaklega á þessu hlutlausa svæði eða hafi einfaldlega litist vel á þennan stað liggur ekki fyrir. Fyrir hvorugu hefur greinarhöfundur fundið heimildir. Ásamt Frederick bjó systir hans, Alice May, einnig hér en saman höfðu þau umsjón með samkomuhaldi. Í manntali 1901 er hún titluð bústýra en hann húsráðandi. Árið 1901 kallast húsið no. 23 Hafnarstræti en ári síðar hefur númeraröðin verið endurskilgreind og húsið orðið nr. 13. Jones nefndi söfnuð sinn eftir húsinu, Sjónarhæðarsöfnuðinn og er hann enn skráð trúfélag. Mögulega vorið 1903, fluttust þau Frederick og Alice af landi brott, en hann var nokkuð heilsuveill vegna sykursýki. Enginn er skráður til heimilis að Sjónarhæð árin 1903 og 1904.
Sjónarhæðarsöfnuðurinn, Gook, Sæmundur o.fl.
Fljótlega eftir að Jones hóf sitt trúboð á Akureyri bárust samlanda hans nokkrum fréttir af störfum hans og langaði til þess að vinna með honum að þeim. Þar var um að ræða Arthur Gook en hann kom til Akureyrar þann 3. ágúst 1905. Frederick Jones var þá fluttur úr bænum aukinheldur, lést hann fyrr það sama ár. Arthur tók upp þráðinn þar sem landi hans hafði hætt og leiddi starf Sjónarhæðarsöfnuðarins og sinnti trúarlegu starfi svo áratugum skipti í hans nafni. Árið 1905 er húsið skráð í eigu The Stewards Company Ltd. í Bath á Englandi og Arthur Gook eini íbúi þess. Ári síðar er Gook hins vegar orðinn eigandi hússins og þá hefur það fengið það númer sem það æ síðan hefur, þ.e. nr. 63 við Hafnarstræti. Árið 1912 fékk Arthur Gook leyfi bygginganefndar til að byggja við Sjónarhæð, vestan við suðurenda, 4x10 álnir tvílyfta byggingu með skúr til norðurs, 5x3 álnir. Þar er um að ræða vestasta hluta suðurálmu, sem er með einhalla þaki. Og síðla árs 1916 var Sjónarhæð virt til brunabóta. Húsinu var þannig lýst:
Íbúðar og samkomuhús, einlyft og tvílyft með lágu risi. Á gólfi undir framhlið eru 3 stofur og forstofa og samkomusalur þvert yfir húsið. Við bakhlið eru 2 stofur, eldhús og þvottahús. Á lofti undir framhlið eru 2 stofur og forstofa. Við bakhlið 3 stofur. Efsta loft óinrjettað [og] notað til geymslu. Kjallarinn er hólfaður í 3 hólf og notaður til geymslu. Skorsteinar eru tveir. Samkomusalurinn er notaður fyrir guðsþjónustusamkomur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 121). Þá er húsið sagt timburklætt með járn á þaki, 20,4m að lengd, 7,5m á breidd, 8,8m hátt. Á húsinu voru 29 gluggar og í því 8 kolaofnar og ein eldavél. Upprunalegar teikningar að Sjónarhæð virðast ekki hafa varðveist né að viðbyggingunni frá 1912, en það er í raun sjaldgæft að svo sé, þegar í hlut eiga hús byggð í upphafi 20. aldar. Á vef Héraðsskjalasafnsins má hins vegar sjá teikningar, sem gerðar voru af húsinu um 1922 á vegum Rafveitu Akureyrar, sem þá tók til starfa.
Arthur Gook sinnti kristniboðsstarfi og leiddi starf Sjónarhæðarsafnaðarins í ríflega hálfa öld, en hann lést árið 1959. Hann naut að sjálfsögðu liðsinnis margra karla og kvenna í sínum störfum. Mætti þar kannski fyrst og fremst nefna Sæmund G. Jóhannesson en hann var löngum kallaður Sæmundur á Sjónarhæð. Sæmundur, sem var Húnvetningur, kom til Akureyrar árið 1925. Hann gerðist fljótlega sérlegur samstarfsmaður Arthur Gook og sinnti köllun sinni varðandi kristniboðið allar götur síðan, en Sæmundur lést árið 1990. Sæmundur stundaði nokkurs konar lækningar, fyrst og fremst með trúarsannfæringu og fyrirbænum og ýmsir sem töldu sig, og telja sig fullum fetum hafa hafa fengið bót meina sinna fyrir atbeina Sæmundar á Sjónarhæð. Látum muninn á viðurkenndum læknavísindum og kraftaverkum eða rökræður þess efnis liggja á milli hluta hér. Þá hafði Arthur Gook löngum hjá sér ráðskonu, Kristínu Steinsdóttur frá Kálfsskinni á Árskógsströnd. Hún var iðin við garðyrkju og vefnað og seldi afrakstur sinn, m.a. blóm og trefla við allmiklar vinsældir. Vorið 1939 sótti Gook um leyfi bygginganefndar til að reisa skála eða gróðurhús sunnan við Sjónarhæð, áfast húsinu. Væntanlega hefur það verið ætlað fyrir blómarækt Kristínar. Stendur blómaskáli þessi enn og er þar um að ræða syðsta hluta Sjónarhæðar, viðbygginguna út frá kjallaranum sunnanmegin. Teikningarnar að byggingu þessari, gerði Tryggvi Jónatansson og eru það einu teikningarnar af Hafnarstræti 63, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrarbæjar. Kristín og Arthur Gook gengu í hjónaband árið 1950 en Florence, fyrri eiginkona Arthurs, lést árið 1948. Í æviminningum sínum segist Sæmundur hafa beðið fyrir þessum ráðahag þeirra og það orðið úr (sbr. Sæmundur Jóhannesson 1972:165).
Fólk var skírt á sérstakan hátt í Sjónarhæðarsöfnuðinn og til þeirrar athafnar notaði Gook einfaldlega flæðarmálið neðan götunnar. En Bogi Daníelsson, nágranni Gooks í Hafnarstræti 64 [löngum kallað Bogahús] mun hafa nýtt sama flæðarmál til annarra nota, nefnilega skolað þangað úrgangi frá húsi sínu. Um þetta var kveðið (sbr. Steindór Steindórsson 1993:116):
Séra Gook á Sjónarhaug í sálir kann að toga en það er skitin skírnarlaug skólprennan hjá Boga
Sjónarhæðarsöfnuðurinn, er e.t.v. þekktastur meðal almennings fyrir sumarbúðirnar, sem hann hefur rekið á Ástjörn í nær 80 ár. Var það Arthur Gook sem kom þeim á fót, þar sem hann fékk skika við tjörnina og hermannabragga. Fyrsti barnahópurinn kom á Ástjörn sumarið 1946 og hafa sumarbúðirnar verið reknar óslitið síðan. Vart er hægt að nefna sumarbúðirnar á Ástjörn án þess að nefna Boga Pétursson en hann stóð þar vaktina svo áratugum skipti. Í hugum margra er nafn hans samofið sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og sumarbúðanna á Ástjörn. Þá hefur Sjónarhæðarsöfnuðurinn staðið fyrir alls konar samkomuhaldi, m.a. fyrir börn áratugum saman og ugglaust margir Akureyringar á ýmsum aldri, sem eiga minningar af samkomum á Sjónarhæð eða dvöl í sumarbúðum safnaðarins. Það er nú einu sinni svo, að þegar svo umfangsmikilli og langri sögu sem saga Sjónarhæðarsafnaðarins er gerð skil í fáeinum málsgreinum, verða óneitanlega margar staðreyndir, atburðir og einstaklingar útundan sem fullt erindi ættu í slíka umfjöllun. En ekki verður sagt skilið við Arthur Gook án þess að nefna framlag hans til tækniþróunar landsmanna. Hann var nefnilega sannkallaður frumkvöðull á sviði útvarps -og jafnvel sjónvarps, hérlendis. Styðjumst við hér við frásögn Sæmundar Jóhannessonar.
Útvarp og sjónvarp á Sjónarhæð
Arthur Gook þótti nauðsynlegt, að Íslendingar fengju útvarp, það væri nauðsyn í landi sem hvort tveggja væri strjálbýlt og samgöngur stopular. Í heimalandi sínu var hann ötull við að kynna Ísland og segja frá trúboðsstarfi sínu hér. Trúuðum Englendingum, sem heyrðu borðskap Gooks var mjög umhugað um að útvarpsvæða Íslendinga og vildu safna fé og gefa Íslandi útvarpsstöð. Gook myndi fara fyrir útvarpsstöðinni og þar yrði útvarpað fréttum, tilkynningum og að sjálfsögðu guðsþjónustum. Gook hafði þegar flutt inn útvarp þar sem hægt var að ná breskum útsendingum á langbylgju og bauð hann fólki að koma að hlusta í samkomusal sínum. En nú skyldu Íslendingar fá sitt eigið útvarp, sent út frá Sjónarhæð. Réð Gook til sín enskan útvarpsfræðing, F. Livingston Hogg og á næstu árum risu mikil möstur á brúnum Barðsgils. Útsendingartækin voru mjög orkufrek og reyndist afl Glerárvirkjunar ekki nægilegt til að halda útsendingum skammlaust. Við því var brugðist og Gook flutti inn aflvélar. Og þann 10. desember 1928 fékk hann leyfi til að reisa skúr, 4x5m að stærð og 2 ½ m á hæð, fyrir mótor til afnota fyrir útvarpsstöðina. Í bókun bygginganefndar var þess einnig getið, að möstrin sem hann hefði reist fyrir útvarpið, væru reist í óleyfi og skyldi hann fjarlægja þau hvenær sem bæjarstjórn krefðust þess (sbr. Bygginganefnd Akureyrar, 1928: nr.622). En það voru ekki bæjaryfirvöld eða raforkuskortur sem réðu örlögum þessarar fyrstu útvarpsstöðvar Íslandssögunnar: Þegar Gook hafði fengið útvarpsleyfi frá ríkisstjórn Íslands var á því einn fyrirvari; það mætti afturkalla hvenær sem er. Og svo fór, að leyfið fékkst ekki endurnýjað og það án skýringa. Gook og hans fólk gafst hins vegar ekki upp og fengu að lokum skýrt og skorinort svar frá yfirvöldum, sem var efnislega eftirfarandi: Þið fáið ekki útvarpsleyfi og þið þurfið ekkert að vita hvers vegna (Sæmunur G. Jóhannesson 1972:161). Sæmundur getur þess reyndar í endurminningum sínum, að þetta hafi kannski ekki verið orðrétt svona en þetta voru skilaboðin efnislega, og þau skýr.
Eins og alkunna er, hófust sjónvarpsútsendingar hérlendis haustið 1966. Í einhver ár fyrir það höfðu íbúar suðvesturhornsins þó aðgang að sjónvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokölluðu Kanasjónvarpi. En jafnvel löngu fyrir það, var horft á sjónvarp á Sjónarhæð! Það var nefnilega svo snemma sem 1934, að þeir Livingston Hogg og Gook, fengu lánað sjónvarpstæki, sem þá var spánný tækni í heimalandi þeirra og reyndu það á Sjónarhæð. Sæmundur segir svo frá: En framan á því [sjónvarpinu] var sem lítill gluggi, 10-15 sm á hvorn veg, minnir mig. Við beztu skilyrði sáust í því myndir. Var mér eitt sinn leyft að líta í þetta furðutæki. Sá ég þar mynd af stúlku, sæmilega skýra, nema hvað skuggi lá um efri vör hennar líkt og skegg. Tæki þessu var skilað aftur (Sæmundur G. Jóhannesson 1972:163). Mögulega hafa þeir Gook, Livingston Hogg og Sæmundur horft á sjónvarpið einhvern fimmtudaginn, og verið fyrir vikið enn lengra á undan samtíð sinni, því það var ekki fyrr en árið 1986 að sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum tíðkuðust hérlendis, með tilkomu Stöðvar 2.
Niðurlag (og dægurlag frá tímum Sjónarhæðarútvarps)
Allar götur frá upphafi hefur Sjónarhæð verið samkomu- og íbúðarhús en í syðsta hlutanum, sem byggður var sem blómaskáli var löngum ýmis starfsemi, um áratugaskeið prentsmiðja, Offsetstofa Hilmars Magnússonar, síðar Offsetstofan, sem enn mun starfrækt. Hér má einnig nefna, að vorið 1976 vildi það slys til, að Bronco jeppi sem ekið var um Eyrarlandsveg um 30 metrum ofar í brekkunni ók, í kjölfar áreksturs, fram af brúninni ofan Sjónarhæðar og hafnaði á syðsta hluta hússins, þ.e. Offsetstofunni. Fór þar betur en á horfðist og ekki urðu alvarlega slys á fólki, en þarna hefði sannarlega getað farið verr. Nú eru sem betur fer hverfandi líkur á að slíkt gerist, þökk sé vegriði á brekkubrúninni og miklum trjágróðri ofan Sjónarhæðar. Vegriðið kom þó ekki fyrr en áratugum eftir þetta atvik en lengi vel voru stórir steypuklumpar á brúninni.
Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er sérlega skemmtilegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Staðsetning hússins og umgjörð er einstaklega skemmtileg, á einum mest áberandi stað bæjarins. Lóðin, sem er líklega meðal þeirra stærri í bænum og slagar hátt í hálfan hektara er einnig sérlega vel gróin og væri raunar hægt að tala um skógarreit í kringum Sjónarhæð. Þar ber mikið á gróskumiklum reynitrjám, birki, öspum og grenitrjám en annars kennir ýmissa grasa og trjáa í þessum geðþekka skógarlundi sem prýðir þennan skemmtilega stað, norðurhluta Barðsgils. Auk þess skartar skógurinn einu af fáum eikartrjám Akureyrarbæjar og líkast til það stærsta í bænum (greinarhöfundur veit a.m.k. ekki til þess, að það hafi verið fellt). Hafnarstræti 63 hlýtur í Húsakönnun 2012 hæsta varðveislugildi sem einstakt hús, húsaröð eða götumynd sem rétt væri að varðveita með hverfisvernd (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir og 2012:119). Einnig er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Ekki þarf að velkjast í vafa um menningarsögulegt gildi hússins hvað varðar sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og starfsemi hans, einnig að hér var fyrsta útvarpsstöð landsins starfrækt. Einnig má geta þess, að Sjónarhæðarsöfnuðurinn telst fullgilt og viðurkennt trúfélag; Sjónarhæð er líkast til eina hús bæjarins, ef ekki á landinu, fyrir utan kirkjubyggingar, sem trúfélag dregur nafn sitt af!
Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. júlí 2011, 28. desember 2013 og 14. maí 2024.
ES. Það er ekki víst, að dægurlög og jazz hafi endilega átt upp á pallborðið innan um kristilegan boðskapinn í útvarpi Gooks og trúsystkina hans. En hafi svo verið, gæti þetta mögulega hafa hljómað á öldum ljósvakans frá Sjónarhæð á síðari hluta 3. áratugarins. Lag þetta, sem greinarhöfundur heyrði KK leika í útvarpsþætti sínum, Á reki, fyrir nokkrum árum síðan er Ukulele Lady í flutningi söngkonunnar Lee Morse, hljóðritað um svipað leyti og Gook var koma á fót útvarpsstöð sinni Sjónarhæð, þ.e. í maí 1925. (Hálfri öld síðar, þ.e. fyrir um hálfri öld (1976) fluttu Ríó Tríó texta Jónasar Friðriks um Kvennaskólapíuna við þetta sama lag, en þá hafði Arlo nokkur Guthrie nýlega tekið það upp á sína arma).
Heimildir:
Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902; Fundur nr. 199, 18. mars 1901. Fundargerðir 1902-21; Fundur nr. 370, 30. jan. 1912. Fundargerðir 1921-30; Fundur nr. 622, 10. des. 1928. Fundargerðir 1935-41; Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sæmundur G. Jóhannesson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 152-181) Akureyri: Skjaldborg.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2024 | 16:01
Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53
Yst í Innbænum eða skammt norðan Miðbæjar Akureyrar standa nokkur hús frá árunum kringum aldamótin 1900, á nokkuð áberandi stað í brekkunum við svokallað Barðsnef. Ber þar einna helst á Samkomuhúsinu með sínar skreyttu burstir og turnspíru. Öllu látlausara en engu að síður stórglæst er húsið næst sunnan við en þar er um að ræða Gamla Barnaskólann. Mörgum kann eflaust að þykja þessi hússtæði einhver þau tilkomumestu í bænum og staðsetning þeirra þarna er engin tilviljun sem nánar verður greint frá hér á eftir. Hér verður farið nokkuð ítarlega yfir tilurð og upphafssögu Barnaskólans en nokkru hraðar yfir sögu síðari áratuga.
Forsaga og tildrög
Þegar leið að aldamótum 1900 fóru byggðalögin á Akureyri og Oddeyri ört stækkandi og eins og gefur að skilja, fjölgaði börnum í sama hlutfalli við stækkandi byggð. Barnaskóli hafði verið stofnaður á Akureyri árið 1871 og einnig stóð bærinn fyrir skólahaldi á Oddeyri, fyrstu árin eftir að byggð tók að myndast þar, á 8. áratug 19. aldar. Þegar frá leið vildu Oddeyringar þó ekki lengur taka þátt í kostnaði við skóla Akureyrarbæjar og gerðust sjálfum sér nógir um skólahald. Á þessum tíma voru raunar þessi hverfi raunar tvö aðskilin byggðalög; hvort tveggja landfræðilega, með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram og stjórnsýslulega, umrædd brekka tilheyrði nefnilega Hrafnagilshreppi. Bærinn í raun tvær hólmlendur í öðru sveitarfélagi. Á tíunda áratug 19. aldar, var þessi aðskilnaður rofinn á markvissan hátt, m.a. með kaupum bæjarins á jörðinni Stóra- Eyrarlandi auk lagningu vegar á milli eyranna tveggja. Þá byggði amtmaður sér bústað á þessum slóðum. Þarna var miðbær Akureyrar og það bókstaflega; amtmaður hafði nefnilega mælt nákvæmlega vegalengdina milli syðsta húss Akureyrar og ysta húss Oddeyrar og byggt sér bústað þar. (Og löngu síðar varð raunin sú, að Miðbær Akureyrar byggðist upp á ysta hluta þessa einskismanns svæðis).
Hvorki á Akureyri né Oddeyri hafði verið reist sérstakt skólahús; á Akureyri hafði íbúðarhúsið að Aðalstræti 66 verið keypt undir skólann en árið 1878 var vöruhúsi Havsteensverslunar (stóð nokkurn veginn þar sem nú er Hafnarstræti 7) breytt í skólahús. Á Oddeyri var skólinn til húsa í íbúðarhúsum, yfirleitt aðeins fáa vetur í senn á hverjum stað. Á tímabili var hann í Hauskenshúsi, á tímabili í húsi sem nú er Fróðasund 10. Síðast var hann starfræktur í Prentsmiðjunni við Norðurgötu (Steinhúsinu). Það var árið 1895 að bæjarstjórn ákvað, að reisa skyldi sameiginlegan skóla fyrir öll börn á Akureyrarsvæðinu (þ.e. Akureyri og Oddeyri) og ætlunin var, að hann yrði staðsettur á Torfunefi og yrði lokið 1898. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum en árið sem barnaskólinn hefði átt að vera tilbúinn var tekið að ræða barnaskólabyggingu aftur. Skipuð var nefnd til að annast framkvæmdina og í henni sátu þeir Páll Briem amtmaður, Friðrik Kristjánsson kaupmaður og Björn Jónsson. Akureyringar og Oddeyringar vildu auðvitað hafa sameiginlegan skóla næst sér en nefndin lagði til, að farið yrði bil beggja í bókstaflegri merkingu og skólinn reistur mitt á milli ysta húss Oddeyrar og syðsta húss Akureyrar og var það samþykkt af bæjarstjórn (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:132). Það má geta sér þess til, að þessi hugmynd hafi verið komin frá Páli Briem, en hann hafði fáeinum árum fyrr reist sér hús, staðsett eftir þessari aðferð. Þegar húsinu hafði verið valinn staður var næst á dagskrá að setja saman óskalista um fyrirkomulag nýja hússins og fá gerðar teikningar. Þess var meðal annars krafist, að skólahúsið skyldi rúma 100 nemendur sem hver um sig fengi 100 rúmfet (um 3 rúmmetra) andrúmslofts. Eftir þeim tillögum sem gerðar voru og samþykktar var leitað til Bergsteins Björnssonar sem gerði teikningar að hinu nýja skólahúsi, sem samþykktar voru af bæjarstjórn. Byggingameistari hússins var Bjarni Einarsson skipasmiður og tók hann bygginguna að sér fyrir 6250 krónur. Til samanburðar má nefna, að haustið 1900 var tunna af kartöflum auglýst fyrir 6 krónur. (Þannig kostaði barnaskólabyggingin jafnvirði rúmlega 1000 tunna af kartöflum).
Hér er skemmtileg hliðarsaga: Í fyrri atrennu að sameiginlegri skólabyggingu árið 1895 var leitað til Snorra Jónssonar timburmeistara, læriföður Bergsteins í iðninni, varðandi teikningar og skipulag. Hann var þá í þann veginn að hefja byggingu stærsta húss Akureyrarsvæðisins, sem hann reisti við Strandgötu. Þegar Bergsteinn vann teikningar sínar að Barnaskólahúsinu var hann einnig að hefja byggingu húss, sem reyndist það stærsta í bænum, sjónarmun stærra að rúmtaki en Snorrahús.
Bygging og vígsla - Ítarleg samtímalýsing
Gamli Barnaskólinn er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, sem kalla mætti jarðhæð þar eð hann er aðeins niðurgrafinn brekkumegin. Er hann raunar hærri er gangstéttarbrún götumegin, svo kannski orkar tvímælis að tala um kjallara. Á miðju hússins að framanverðu er langur kvistur sem setur nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Er kvisturinn afmarkaður af tveimur strikuðum flatsúlum á framhlið. Kvisturinn er gluggalaus en fyrir honum miðjum eru timburlistar eða skrautbönd sem mynda þríhyrning, samsíða þakbrúnum. Panell eða vatnsklæðning er á veggjum efri hæðar en jarðhæðin er múrhúðuð. Bárujárn er á þaki og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Á suðurhlið er viðbygging, inngöngubygging úr timbri á efri hæð en steypt bygging til suðurs úr jarðhæð. Er hún umtalsvert stærri að grunnfleti og myndar þak hennar verönd við anddyrisbyggingu efri hæðar. Hluti hennar er opið rými. Grunnflötur er um 26,4x8,9m, anddyrisbygging að sunnan er um 5,25x4,3 en viðbygging við jarðhæð um 15,75x3,7. Meðfram henni (þ.e. viðbyggingu jarðhæðar) er 2,3m breitt rými undir þaki, afmarkað af vegg í suðri, sem nýtist sem yfirbyggt bílastæði.
Það var vorið 1900, nánar tiltekið þann 12. maí, að bygginganefnd bæjarins var samankomin á veginum milli Akureyrar til þess að taka ákvörðun um Barnaskólabyggingu bæjarins, sem bæjarstjórnin ætlar að láta reisa fyrir norðan hús Amtmannsins (Bygg.nefnd. Ak nr. 187, 1900). Húsið var ákveðið 42 álnir að lengd, 24 álnir frá grindum (líklega grindverk), 9 álnir vestur frá ytri brún aðalvegur, í beinni línu við veginn.
Nú ber heimildum ekki saman um vígsludag. Húsið prýðir skjöldur þar sem á stendur, að húsið sé tekið í notkun 18. október 1900. Í Sögu Akureyrar segir í myndatexta, að skólinn hafi verið vígður þann nítjánda (Jón Hjaltason 1994:317). Í grein í Stefni frá októberlokum 1900 segir að skólinn hafi verið settur 20. þ.m. [þ.e. 20. október] en vígður daginn áður, þ.e. þann 19. október. Var það Klemenz Jónsson bæjarfógeti sem vígði bygginguna í viðurvist fjölda manna úr bænum. Hélt hann ræðu um tilurð byggingarinnar og tíundaði þann kost, sem staðsetning byggingarinnar væri og að skólinn væri sameiginlegur þannig að nú gæti eigi komið fram sá rígur sem tvískipting skólans [þ.e. sitt hvor skólinn fyrir Akureyri og Oddeyri] stundum hefði ollið í bænum. Lauk vígsludeginum með samsæti bæjarstjórnar, byggingarstarfsmanna og nokkrum öðrum gestum, þar sem næsti nágranni skólans, Páll Briem amtmaður hélt erindi um skólabyggingar og kennslumál.
Nýja barnaskólahúsið var blaðamönnum Stefnis mjög hugleikið og í næsta tölublaði þann 7. nóv. 1900 birtist á blaðsíðum 1-2, afar ítarleg byggingarsaga og lýsing hússins. Gefum hinum ónefnda höfundi orðið, að viðbættum innskotum þess, sem þetta ritar. [Ath. orðrétt stafsetning texta frá 1900 og ein alin, álnir í fleirtölu, er um 63 cm]: Bygging hússins hófst þegar snjó og klaka leysti í vor, var byrjað á undirstöðu hússins og að grafa fyrir kjallaranum og frá vesturhlið þess, og að hlaða 5 álna háan grjótvegg undir austurhlið þess. Undirstaðan var svo snemmbúin, að húsið var reist snemma í júlí, og svo verið unnið kappsamlega að smíði þess, þar til um miðjan októbermánuð, að það var svo búið innan, að barnaskólinn var settur í því; þykir mönnum, sem skyn bera á, húsið sterklega byggt og eigi til sparað, að það á alian hátt sje sem traustast. Þannig er ljóst, að bygging hússins tók í mesta lagi 5 mánuði, þ.e. hún var ekki hafin 12. maí þegar Bygginganefnd var að mæla fyrir húsinu og grindin hefur verið risin í júlímánuði.
Svo er húsinu lýst mjög nákvæmlega: Skólahúsið er 42 álnir á lengd og 14 álnir á breidd, undir því er kjallari jafnlangur húsinu, en eigi nema 10 álnir á breidd. Kjallarinn er með stórum gluggum og því vel bjartur. Húsið er 5 álnir á hæð undir loptbita, hæðin af loptbitum í sperrukverk 4 og 1/2 alin. Aðalinngangur í húsið er vestast í suðurstafninn, og kemur maður þá í gang, 4 álna breiðan, sem liggur meðfram vesturhlið hússins á 31 alin. Úr þeim gangi er gengið inn i þrjár kennslustofur, sem hver um sig er rúmar 10 álnir á hvern veg, eru 3 gluggar á hverri stofu á austurhlið, nyrðsti endi hússins, fullar 10 álnir, er óþiljaður innan, er það leikfimiskennslustofa skólans. Þar er uppgangur á loptið í húsinu. [...] Gólfbitarnir eru úr gildum trjám með tæprar alinar millibili, gólfið er tvöfalt og þjett leirlag á milli.
Einhvern tíma skildist höfundi, sem þrátt fyrir þetta áhugamál, hefur ekki hundsvit á húsasmíði, að ein best byggðu hús með tilliti til myglu væru timburhús frá árunum nærri aldamótunum 1900. Hér er e.t.v. komin uppskrift að myglufríum útveggjum, nema hvað nú myndi væntanlega notuð steinull eða annað slíkt í stað mosa: Veggir að kennslustofum eru að utan klæddir venjulegum klæðningsborðum, en milli þeirra og grindar er klætt með asfaltpappa, í miðja grindina er felld borðaklæðning, og veggirnir því næst klæddir innan með venjulegum innanþiljuskífum, en milli þeirra og borðanna í grindinni er þjett troðið mosa. Áfram heldur lýsingin, næst eru það gluggar, hurðir og loft: Gluggar allir í stofunum tvöfaldir og stærð glugganna á hverri stofu sem næst 1/6 á móti gólffleti. Skilrúm öll í húsinu eru tvöföld og þjett troðið mosa milli þilja, stoðir og bindingar í þeim úr 3x3 þuml. trjám. Berst hljóð því iítt í gegn um þau, nje hiti og kuldi. Hurðir eru úr 2 þuml. plönkum og eikarmálaðar. Lopt er tvöfalt. Loptbitar úr gildum 14 álna trjám með 1/2 al. millibili, klæddir ofan með venjulegum gólfborðum, en neðan á þiljað með skífuklæðning. Þak [er] úr venjulegum borðum, blindinguðum [svo] saman, klætt með dönskum þakpappa og bikað og sandborið.
Kynding hússins var mjög fullkomin og sjálfsagt, allt að því verkfræðilegt undur á þeim tíma: Ofnar og loptpípur í kennslustofunum eru hinar fullkomnustu, sem eru til hjer í bæ og efasamt að upphitun og loptbreyting sje í eins góðu lagi í hinum nýja barnaskóla í Reykjavík, eins og er í skóla þessum. Ofnarnir eru stórir og vandaðir kápuofnar, sem allstaðar þykja sjálfsagðir í skólum, þar sem ofnahitun á annað borð á sjer stað. Standa þeir fast við skilrúmið milli gangsins og kennslustofanna, og eru eldstæðisdyr ofnanna gegn um skilrúmið, svo að lagt er í þá á ganginum og askan þar úr þeim tekin. fylgir þessu sá mikli kostur, að ekkert ryk kemur í stofuna við ílagning eða hreinsun ofnanna, heldur eigi draga þeir lífslopt úr stofunum til brennslunnar. Undir gólfi stofanna liggja víðar loptpípur að utan upp undir ofnana, streymir inn um þær nýtt lopt og hitnar við ofnana, því það verður að fara gegn um þá upp með kápunni, og svo gýs það út í stofurnar upp við lopt, en jafnhliða dregur loptpípa í reykháfnum þyngra lopt frá gólfinu út úr húsinu, verður þannig stöðug loptbreyting í stofunum, þegar lagt er í ofnana. Þarna var eðlisfræði heits og kalds lofts hagnýtt svo úr varð einhvers konar kolakynt loftræsikerfi. Þá var húsið búið pípulögnum: [ ]Skammt fvrir ofan húsið í brekkunni er lítil uppsprettulind, þaðan hefir vatn verið leitt í járnpípu inn í kjallarann og upp á skólaganginn, eru á ganginum þrjú þvottaföt fyrir börnin, sem vatnspípurnar liggja að, en frá þeim liggja skólprennur úr járni niður um kjallaragólfið og fram fyrir veg. Að lokum fær byggingin þessa umsögn: Skólahúsbygging þessi er einhvert stærsta og dýrasta fyrirtæki, sem þetta bæjarfjelag befir ráðist í, en efalaust jafnframt eitt hið þarfasta, þótt fyrirtækið gefi eigi af sjer beinan peningalegan arð, sem borgi höfuðstól og vexti. (Án höfundar, 1900: bls 1-2)
Skólahald - Halldóra Bjarnadóttir - Önnur hlutverk hússins
Þegar skóli var settur í fyrsta skipti í húsinu voru nemendurnir 73, börn á aldrinum 7-14 ára (sbr. Jón Hjaltason 1994:316). Í grein Heimilis og skóla (án höfundar) eru börnin reyndar sögð hafa verið um 66 en alltént voru nemendurnir um 70 þennan fyrsta vetur. Skiptust nemendur í þrjá bekki og svonefndur fyrsti kennari (nokkurs konar skólastjóri) var Páll Jónsson, síðar Árdal, en hann hafði starfað við Akureyrarskólann frá 1885. Skólagjöld voru ein króna fyrir fyrsta bekk, 1,75 kr. fyrir miðbekk og 2,25 kr. fyrir efsta bekk. Vorið 1901 var ráðinn skólastjóri við Barnaskólann, Kristján Sigfússon frá Varðgjá. Gegndi hann starfinu til dánardægurs, 1908, en þá um haustið var Halldóra Bjarnadóttir ráðin skólastjóri. Hennar þáttur í sögu Barnaskólans er nokkuð veigamikill en honum verður gerð frekari skil síðar í þessari grein. Halldóra gegndi skólastjórastöðunni í áratug en eftirmaður hennar var Steinþór Guðmundsson. Steinþór var skólastjóri frá 1918 til 1929 er Ingimar Eydal tók við, en þá fóru líka í hönd síðustu misseri hússins við Hafnarstræti 53 sem barnaskóla. Nýtt barnaskólahús sunnan og ofan Grófargils leysti nefnilega barnaskólann gamla af hólmi árið 1930. Voru nemendur þá orðnir vel á þriðja hundrað og 1930 var upphaf fræðsluskyldu miðað við 8 ára í stað 10 áður, og við það fjölgaði nemendum enn frekar (sbr. Heimili og skóli 1961: 71-73).
Lengst framan af var aðeins kennt á efri hæð hússins, jarðhæð (kjallari) var ekki tekin undir skólann fyrr en 1922 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:131). Í kjallara voru frá upphafi íbúðarými og meira að segja gosdrykkjaverksmiðja. Þar framleiddi Knut nokkur Hertevig m.a. sódavatn, a.m.k. þrjár tegundir límonaðis; hindberja, jarðarberja og sítrónu og saftir, súrar og sætar. Nýtti hann væntanlega vatnið úr lindinni bak við húsið og kvað það eitt besta vatn sem hann hafði fengið til gosdrykkjagerðar. Lesendur geta ímyndað sér hvernig það væri, að vera barn í skóla, þar sem gosdrykkir væru framleiddir í kjallaranum! Greinarhöfundur getur allavega fyrir sitt leyti ímyndað sér, að það hefði boðið upp á ýmis konar freistnivanda og eflaust truflað einbeitingu við nám, hefðu sætir drykkir verið framleiddir í húsum Hrafnagilsskóla eða Oddeyrarskóla þegar hann sat þar á skólabekk.
Þá virðast kennslustofur einnig hafa verið leigðar til íbúðar, væntanlega meðan kennsla lá niðri, en skólaárið var umtalsvert styttra en nú gerist. Vorið 1902 fengu Oddur Björnsson prentari og fjölskylda leigt í skólanum. Dóttir hans, Ragnheiður O. Björnsson segir svo frá: Í barnaskólanum fengum við til umráða fyrsta bekk, leikfimissalinn og ganginn. Fyrsti bekkur var stór stofa með þrem stórum gluggum. [
] Í leikfimissalnum var sofið og eldað og tjaldað á milli. (Ragnheiður O. Björnsson 1972:193). Bjuggu þau hér til hausts. Síðar gekk Ragnheiður þarna í barnaskóla og þar dró til tíðinda með nýjum skólastjóra, eftir lát Kristjáns Vigfússonar frá Varðgjá: Haustið 1908 fengum við svo nýjan skólastjóra, Halldóru Bjarnadóttur. Kom hún frá Noregi, þar sem hún hafði stundað nám og lokið þar kennaraprófi og síðan verið þar kennari. Kom Halldóra með ýmsar nýjungar sem vænta mátti og auðvitað var fólk ánægt með margar þeirra en ekki allar (Ragnheiður O. Björnsson 1972:1908). Halldóra Bjarnadóttir innleiddi svo sannarlega sitt hvað nýtt, hvað varðaði m.a. kennsluhætti og fyrirkomulag; lagði t.d. áherslu á handavinnu og endurnýjun búnaðar og bóka og kom á foreldra- og nemendafundum. Mun hún hafa komið á leikfimikennslu, vettvangsferðum, vísi að skólabókasafni, staðið fyrir byggingu leikvallar við skólann, auk þess sem litlu jól voru fyrst haldin við Barnaskóla Akureyrar í hennar tíð. Halldóra var þannig sannkallaður brautryðjandi í skólastarfi. Kannski má segja, að grunnskólastarf sé enn þann dag í dag að einhverju leyti mótað af áherslum og hugmyndum Halldóru Bjarnadóttur. Halldóru var einnig umhugað um hreinlæti og umgengni og það lagðist misjafnlega í fólk. Sagan segir m.a. að hún hafi verið kærð til sýslumanns fyrir þá kröfu sína, að nemendur færu úr útiskóm og í inniskó þegar inn var komið. Þá sáu bæjarbúar margir hverjir eftir skattfé sínu, sem þeim þótti sólundað í skólann; óx þeim m.a. í augum kostnaður við að koma upp bókasafni og argasti óþarfi væri að eyða fé í leikvöll fyrir börnin, hvað þá öll steypuvinnan við hann, sem síðar varð. En Halldóra lét steypa vegg fram að götu og stækka leiksvæðið um leið, sumarið 1914. Vinnunni við stækkun leikvallarins stýrði einn af kennurum skólans, Páll Jónsson Árdal, fyrrum yfirkennari. Eitt sitt, er hann var við steypuvinnu við umræddan vegg, vatt vegfarendi sér að honum og hreytti í hann: Því var þetta ekki steypt úr gulli. Og Páll svaraði af bragði: Það hefði sjálfsagt verið gert, hefði það verið fyrir hendi (sbr. Jón Hjaltason 2001:192).
Eftir að hlutverki hússins sem skólahús lauk hýsti það Amtsbókasafnið en einnig var búið í húsinu. Bókasafnið mun hafa verið í húsinu í 17-18 ár eða til 1947-8. Bókavörðurinn, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var búsettur hér framan af meðan bókasafnið var rekið í húsinu en árið 1944 byggði hann sér veglegt íbúðarhús við Bjarkarstíg á ytri Brekkunni. Ýmis starfsemi fór fram í húsinu áratugina á eftir, m.a. var saumastofa rekin hér á vegum Akureyrarbæjar. Þá var búið í húsinu fram undir 1980 og voru að jafnaði þrjár íbúðir í húsinu. Eftir það hófust viðgerðir á vegum bæjarins sem sneru að ytra byrði hússins. Á síðustu áratugum 20. aldar og fram til 2006 hafði Leikfélag Akureyrar afnot af húsinu og var það m.a. nýtt sem leikmunageymsla.
Á árunum 2006-07 var húsið allt endurnýjað að innan á vegum fjármálafyrirtækisins Saga Capital. Þá var einnig byggt við húsið til suðurs, forstofubygging (sem áður var aðeins örlítil kytra, e.t.v. 2x2m) stækkuð umtalsvert og spennistöð, sem áður var í skúr sunnan hússins, felld inn í neðri hæð viðbyggingarinnar, þar sem áður var hið umdeilda leiksvæði. Endurbætur þessar voru unnar eftir teikningum Tryggva Tryggvasonar. Frá því að endurbótum þessum lauk sumarið 2007 hefur húsið verið fyrirtækja - og skrifstofuhúsnæði, nú eru þar til húsa fyrirtækin ENOR, DK hugbúnaður og Saga Fjárfestingabanki.
Gamli Barnaskólinn er sannkölluð bæjarprýði og húsið eitt af sérlegum kennileitum bæjarins. Það er ólíkt lágreistara og látlausara en nágranni þess í norðri, Samkomuhúsið, en þessi hús mynda sérlega skemmtilega heild á einum mest áberandi stað bæjarins. Gamli Barnaskólinn er að vísu ekki friðlýst bygging líkt og Samkomuhúsið en hann er að sjálfsögðu aldursfriðaður. Í einni fyrstu formlegu húsakönnun bæjarins sem gefin var út á bók, unnin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldar, voru þessi hús metin sem sérstök varðveisluverð heild (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:60). Í uppfærðri húsakönnun frá 2012 er þetta mat staðfest og hlýtur Gamli Barnaskólinn hæsta varðveislugildi (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:117). Greinarhöfundi þykir rétt að árétta, það sem fram kom í pistlinum um Samkomuhúsið, að rétt væri hreinlega að friða flötina fyrir neðan þessi hús fyrir háum byggingum, svo ekki verði skyggt á þessi öldnu og glæstu hús í brekkunni á Barðsnefi og þau fái að njóta sín um ókomna tíð.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. mars 2007, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.
Heimildir:
[Án höfundar]. 1900. Nýi barnaskólinn Stefnir, 7. nóvember. Slóðin: https://timarit.is/page/2219968#page/n0/mode/2up
[Án höfundar]. 1961. Barnaskóli Akureyrar Heimili og skóli, 3.-4. hefti, 20. árgangur. Slóðin: https://timarit.is/page/7954935#page/n21/mode/2up
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 187, 12. maí 1900. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.
Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf
Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar 2. bindi. Kaupstaðurinn við Pollinn. Akureyrarbær gaf út.
Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar 3. bindi. Fæðing nútímamannsins. Akureyrarbær gaf út.
Ragnheiður O. Björnsson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 182-215) Akureyri: Skjaldborg.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2024 | 10:26
Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið
Samkomuhúsið eða Leikhúsið við Hafnarstræti 57 er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Það er á sérlega áberandi stað, hátt í brattri brekku á svokölluðu Barðsnefi og er sérstaklega áberandi þegar ekið er inn í bæinn að austan um Vaðlaheiði. Útskorið skraut á voldugum burstum og háreist turnspíra fyrir miðju setja á húsið einstakan svip. Samkomuhúsið hefur löngum verið annað stærsta timburhús bæjarins, Menntaskólin er eitthvað örlítið stærri að rúmtaki en þessar byggingar eru í raun ekki óáþekkar; skrauti hlaðin, svipmikil stórhýsi í sveitserstíl. Það er kannski vafasöm fullyrðing að segja þessi hús stærstu timburhús bæjarins, því til eru íþróttahallir og skemmur sem eru byggðar upp af límtrésbitum. En það væri tæpast hægt að kalla slíkar byggingar timburhús á sama hátt og aldamótahúsin tvö. Hins vegar rísa nú, í nýjum hluta Holtahverfis, fjölbýlishús úr timbureiningum sem vitaskuld flokkast sem timburhús og gætu þau mögulega skákað Samkomuhúsinu og Menntaskólanum hvað stærð varðar.
Fyrsti áratugur 20. aldar má segja, að hafi verið tímabil háreistra og glæstra timburhúsa í byggingasögu Akureyrar. Mætti þar nefna t.d. Thuliniusarhús við Hafnarstræti, Laxamýri við Strandgötu, Gagnfræðaskólann á Eyrarlandstúni og Samkomuhúsið. Þá má nefna tvö hús, sem voru nánast á pari við síðasttöldu húsin hvað stærð og íburð varðar; Horngrýti og Turnhús vestast við Strandgötu. Þessi tvö stóðu reyndar aðeins í 1-2 ár, því 18. október 1906 eyðilögðust þau í Oddeyrarbrunanum. Þá stóð bygging Samkomuhússins við Hafnarstræti einmitt yfir en það var vígt undir lok árs 1906. Sögu Samkomuhússins mætti gera skil í löngu ritverki en hér munum við fyrst og fremst einblína á uppruna- og byggingarsöguna en fara hraðar yfir sögu síðari ára.
Samkomuhúsið er tvílyft timburhús á háum steyptum, eða hlöðnum, kjallara sem reyndar er allur ofanjarðar við framhlið. Húsið er með fremur aflíðandi risþaki, mænir miðhluta snýr N-S en á endum eru burstir sem snúa A-V. Nyrsti hluti hússins er reyndar ein hæð með flötu eða mjög aflíðandi, einhalla þaki og er þar um að ræða viðbyggingu. Þá eru einnig nýlegar, steyptar viðbyggingar með flötu þaki á vesturhlið (bakhlið hússins). Þak er járnklætt en möl er á þaki nýjustu viðbyggingar. Á burstum eru hengisúlur og hanabjálkar með áföstum skrautlegum útskurði og undan þakskeggjum gægjast útskornar sperrutær. Gluggapóstar eru mjög sérstæðir, neðri hluta mætti lýsa sem tvöföldum T-póstum en efri hluti er margskiptur með óræðu en mjög reglulegu mynstri lóðréttra og láréttra sprossa. Á hæðarskilum jarðhæðar og annarrar hæðar og undir gluggaröðum efri hæða eru samfelld vatnsbretti eða skrautbönd. Þá skipta strikaðar flatsúlur á framhúsinu skemmtilega niður í álmur eða deildir. Milli súlna undir burstum eru þrír gluggar á efri hæðum og tveir á jarðhæð ásamt inngöngudyrum. Beggja vegna miðju eru hins vegar tveir gluggar á efri hæðum og þrír á jarðhæð. Miðja hússins, rúmlega ein gluggabreidd, er römmuð inn af tveimur súlum. Þar ofan við, fyrir miðju þakinu, er ferkantaður kvistur eða fótstallur og stendur þar helsta prýði hússins: Áttstrendur turn með ámálaðum krosspóstagluggum undir járnklæddri, oddmjórri spíru. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um hæð turnsins, en giskar á, að spíran sé um 4-5 metrar upp af fótstalli, eða um 15m frá götubrún. (Við þetta bætist svo á að giska 2-3m fánastöng, en fánastangir eru einnig upp af burstum). Ef einhver lumar á upplýsingum um hæð turnsins eru þær upplýsingar vel þegnar. Grunnflötur Samkomuhússins (viðbyggingar meðtaldar) er um 34,7x13,5m og í Húsakönnun 1986 er það sagt 3461 rúmmetri (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:135). Þessi tala er væntanlega eitthvað hærri þegar þetta er ritað, vegna síðari tíma breytinga og viðbygginga.
Samkomuhúsið er sem fyrr segir byggt 1906 en saga samkomuhalds og leiksýninga á Barðsnefi teygir sig hins vegar áratug lengra eða til ársins 1896. Það ár reisti Gleðileikjafélagið með þá J.V. Havsteen konsúl og Halldór Gunnlaugsson í broddi fylkingar, í félagi við Sjónleikjafélagið, Goodtemplara, Söngfélagið Gígjuna og bindindisfélagið Björgina veglegt félagsheimili eða leikhús. Ákveðið var að byggingin skyldi hvorki rísa á Oddeyri né Akureyri heldur Barðsnefi, nokkurs konar hlutlausu svæði milli byggðakjarnanna, þar sem amtmaður hafði árið áður reist sér hús eftir nákvæmri mælingu á milli. Húsið var reisulegt og veglegt, tvílyft með háu risi og stóð u.þ.b. 50 metrum norðar en núverandi Samkomuhús og varð síðar Hafnarstræti 66. Var það vígt þann 3. janúar 1897. Nokkrum misserum síðar voru fyrrgreindir Goodtemplarar (hér eftir Góðtemplarar eða Templarar) í eigin byggingarhugleiðingum.
Í júní 1902 sóttu Góðtemplarar um, til bygginganefndar, að fá að reisa hús við Hafnarstræti, 16x11 álnir að stærð, 50 álnir (31,5m) norður af Barnaskólanum (sem reistur var tveimur árum fyrr). Skyldi húsið standa í beina línu með skólanum. E.t.v. var hús templara of lítið frá upphafi en húsið var ekki orðið fjögurra ára gamalt þegar V. Knudsen og L. Thorarensen lögðu fram byggingarleyfisumsókn til bygginganefndar fyrir nýju samkomuhús við Hafnarstræti, í febrúar 1906. Átti það að standa á sama stað og húsið frá 1902 en umtalsvert stærra; 28x16 álnir með 5x8 álna veranda á suðurstafni og út-útbyggingu (kallað svo í bókunum Bygginganefndar) á norðurstafni 10x10 álnir. Svo virðist sem templarar hafi verið full stórhuga að mati bygginganefndar því hún velti vöngum yfir lóðarstærð þeirra, mögulegum fleiri byggingum og húslínu götunnar. Enda hafði húsbygginganefnd templara ákveðið að hafa salinn svo stóran að hægt væri að leigja hann til samsöngva, leikja og annarra stærri funda- og samkomuhalda (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003:200). Þeir minntust reyndar ekkert á, að salurinn myndi þjóna leiklistarfsemi í a.m.k. 120 ár, í allt að 20.000 manna samfélagi. En leyfið veitti bygginganefndin með þeim skilyrðum, að bæjarstjórn veitti þeim nægilega lóð og ekki yrðu byggð fleiri hús að Barðsstíg (mögulega hefur sá stígur legið á svipuðum slóðum og Menntavegurinn). Þá gerði nefndin kröfu um, að grafið yrði úr brekkunni til að breikka Hafnarstræti austanmegin. Þann 20. mars 1906 bókar bygginganefnd, að Templarar fái að byggja samkomuhús, 24x16 álnir með þverbyggingum, 21x10 álnir norðanmegin og 16x10 álnir sunnanmegin. Þar kemur fram, að teikning hafi verið lögð fram en sá ljóður er almennt á bókunum bygginganefndar frá fyrri tíð, að hún getur þess sjaldnast eða aldrei, hver gerði framlagðar teikningar. Það liggur hins vegar fyrir, að teikningarnar sem Góðtemplarar samþykktu, gerðu þeir Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson og gerður var við þá byggingasamningur upp á 21.500 krónur. Voru þeir báðir reglubræður Góðtemplarareglunnar. Byggingarmeistarar og hönnuðir hússins voru hins vegar þrír: Þriðja byggingameistarans er einhverra hluta ekki getið í mörgum heimildum en sá hét Björn Björnsson. (Í tölvupósti til undirritaðs fyrir nokkrum árum síðan gat barnabarn Björns, Björn G. Björnsson, sér þess til, að Akureyringar síðari tíma hafi einhvern veginn misst af honum, þar sem hann flutti úr bænum skömmu síðar eða 1909). Samningurinn mun hafa verið gerður daginn eftir samþykki bygginganefndar, 21. mars 1906.
Greinarhöfundur minnist þess að hafa einhvern tíma heyrt, að byggingaframkvæmdir við Samkomuhúsið hafi hafist 20. júní 1906. Á þeirri dagsetningu er þannig fyrirvari, en samkomuhúsið frá 1902 var fjarlægt af lóðinni í maímánuði og geta má sér þess til, að gröftur fyrir grunni og úr brekku hafi hafist um svipað leyti, með þíðum vorsins. Þá minnist greinarhöfundur þess einnig, að hafa heyrt eða lesið að þeir sem komu að byggingu hússins hafi unnið 12 tíma á dag, alla daga vikunnar en slíkt var eflaust ekki óalgengt áður en vinnulöggjöf hvers konar kom til sögunnar. Byggingarmeistarar hússins voru sem fyrr segir þeir Björn Björnsson, Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson. Frá því að byggingarframkvæmdir hófust í júnímánuði og húsið var vígt liðu aðeins sex mánuðir. Er þessi byggingarhraði allt að því ævintýralegur, þegar það er haft í huga að á þeim tíma þekktist ekkert sem hét byggingarkrani (nema e.t.v. einfaldar talíur), steypuhrærivél, vélsög eða nokkur rafmagnsverkfæri. Er þó líklega ekkert einsdæmi; nánast beint ofan Samkomuhússins hafði tveimur árum fyrr ámóta hús, jafnvel ívið stærra, verið reist á álíka stuttum tíma. Þessi stutti byggingartími bendir til þess, að húsin hljóti að hafa komið tilhöggvin, væntanlega frá Noregi, og verið sett saman á staðnum. Hins vegar er vitað, að bæði þessi hús voru teiknuð hér, af íslenskum smiðum. Þannig má ímynda sér, að menn hafi mögulega fengið húsin forsmíðuð í stóreflis verksmiðjum, eftir pöntunum. (Og hvað byggingarhraða varðar má einnig geta þess, að árið 1906 þurftu húsbyggjendur ekki að huga að lögnum að neinu tagi). Samkomuhús templara frá 1902 var flutt af lóðinni sem fyrr segir, nánar tiltekið út á Torfunef, en af upprunalega leikhúsinu á Barðsnefi er það að segja, að það brann til kaldra kola í lok janúar árið 1952.
Samkomuhúsið var vígt þann 23. desember 1906. Var þar um að ræða hefðbundinn reglufund þar en eftir hefðbundin fundarstörf tóku við almenn veisluhöld. Erindi fluttu m.a. bæjarfógeti Guðlaugur Guðmundsson, sr. Geir Sæmundsson prófastur og sr. Matthías Jochumsson flutti lofræðu, að sjálfsögðu í bundnu máli. Þá flutti kórinn Hekla söngatriði. Akureyrarbær lagði Góðtemplurum til fjárstyrk til byggingarinnar gegn því að fá afnot af hluta hússins, þar hafði bærinn aðstöðu fyrir bókasafn og lestrarsal, íbúð bókavarðar, fundarsal og tryggði sér einnig forgangsrétt að stærri sal hússins fyrir stærri samkomur, að vísu gegn leigu í hvert skipti (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir og Finnur Birgisson 2003: 201). Hinn stærri salur mun hafa verið stærsti samkomusalur landsins og hélt þeim titli í nærri aldarfjórðung eða allt þar til Oddeyringurinn Jóhannes Jósefsson reisti Hótel Borg árið 1930. Hið nýja samkomuhús kom aldeilis að góðum notum fyrsta sumarið eftir að það var vígt, er Danakonungur heimsótti Akureyri í ágúst 1907 og var að sjálfsögðu boðið til veglegrar veislu í nýja samkomuhúsi Góðtemplara.
Í desember 1916 varð Samkomuhúsið 10 ára. Í þeim mánuði átti sér það annars vegar stað, að Akureyrarbær samþykkti að kaupa húsið með öllum búnaði af Góðtemplurum fyrir 28.000 krónur. Komst þá húsið í eigu bæjarins, sem á það enn. Þetta var 19. desember. Hins vegar, fjórum dögum fyrr, höfðu matsmenn Brunabótafélagsins heimsótt Samkomuhúsið og lýst því á eftirfarandi hátt: Leikhús, tvílyft með lágu risi með útbyggingu við bakhlið á öðrum enda. Fyrstu hæð (gólfi) er lýst svo: [...] samkomu- og áhorfendasalur er nær þvert yfir húsið upp í gegnum báðar lofthæðirnar með svölum á 3 vegu. Þess utan 2 stofur, eldhús og forstofa við norðurgafl. Við suðurgafl er leiksvið með tveimur hliðarkompum, uppi í sama enda eru 2 búningsherbergi. Önnur hæð (loft) er lýst stuttlega, þar er samkomusalur við norðurgafl, stofa og forstofa. Kjallari: 2 íbúðarstofur við framhlið, 2 forstofur, lestrarsalur, bókhlaða eða bókasafnsstofa. Við bakhlið var þvottahús, tvær stofur og tvö geymsluherbergi. Í matinu kemur fram, að húsið sé endrum og eins notað til leiksýninga og fyrir fundahöld og samkomur með veitingum. Leiksviðið lýst með steinolíulömpum og samkomusalir með luxlömpum. Grunnflötur var sagður 30,3x10,4m en hæð hússins 12,8m. Ekki liggur fyrir hvort þar sé um að ræða hæð hússins upp að mæni bursta eða hvort turnspíra teljist með, en greinarhöfundur myndi telja turninn ná a.m.k. 15m hæð frá jörð svo sem fyrr er getið. Það voru 12 kolaofnar og ein eldavél í húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 120).
Í Sögu leiklistar á Akureyri eftir Harald Sigurðsson sem Leikfélag Akureyrar gaf út árið 1992 má m.a. finna upprifjun nokkurra leikara frá árdögum Samkomuhússins. Friðrik Júlíusson lýsti frumstæðum ljósfærum fyrir daga raflýsingar: Í salnum var stór lampi sem lýsti vel allan salinn. Fyrir þessum lampa var svört hetta, sem mátti draga frá og fella niður með snúruútbúnaði sem náði eftir loftinu upp á hliðarsvalirnar, og þar varð maður að vera meðan á leiksýningu stóð og draga fyrir, og draga frá eins og þurfti. Á leiksviði voru 5 lampar í lofti, einn stór var í miðju lofti, fjórir til hliðar[...] Fyrir framan senuna var renna og í hana raðað mörgum lömpum, 10 línu og lýstu þeir upp gólfið (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Í leikskrá árið 1959 var Gísli R. Magnússon spurður hvort ekki hafi ekki verið erfitt að leika við lampaljós: Nei, alls ekki. Við þekktum ekki annað svo við gerðum okkur enga grein fyrir erfiðleikunum fyrr en við fengum rafmagnið [1922]. Við röðuðum um það bil tylft af 10 lömpum fremst á sviðið. Það voru rennuljósin. Svo héngu einir sex stærri lampar í loftinu, tveir og tveir milli lofttjaldanna (Haraldur Sigurðarson (Gísli R. Magnússon) 1992:76). Aðspurður, hvort þetta hafi ekki verið stórhættulegt svaraði Gísli, að það hefði örugglega verið svo en menn hefðu aldrei haft áhyggjur af því, og aldrei hefði kviknað í. En það má ímynda sér, að ekki hafi mikið mátt út af bera með einhverja tugi logandi olíulampa í timburhúsinu. Þá má geta þess, að olíulamparnir gáfu einnig af sér aukaafurð sem nýttist leikurum, því sót sem þeir mökuðu framan í sig, m.a. til að mála á sig hrukkur fékkst með því að leggja undirskálar við lampaljósin! Aðstæður voru sannarlega frumstæðar: Búningsherbergin voru í útbyggingu vestur af senunni, en oft var svalt þar, og ekkert vatn. Hitað var upp með olíuofni en í miklum frostum var lítill hiti sem vonlegt var. Í brekkunni vestan við húsið var áður lind og úr henni var lögð leiðsla niður í kjallara og var oftast hægt að ná í vatn (Haraldur Sigurðsson (Friðrik Júlíusson) 1992:76). Og oft var kalt. Jóhannes Jónasson: Verstur var bölvaður kuldinn. Við æfðum að heita mátti allt á sviðinu og það var aldrei lagt í [húsið m.ö.o. óupphitað]. Ég man að, að stundum höfðu húsráðendur hengt upp þvott frammi í húsi. Hann hékk þarna gaddfreðinn, eins og til að gera kuldann ennþá kaldari! (Haraldur Sigurðsson (Jóhannes Jónasson) 1992:69).
Leikfélag Akureyrar var stofnað 19. apríl 1917 og hefur frá upphafi haft aðsetur sitt í Samkomuhúsinu og sett á svið vel á fjórða hundrað sýningar hér. Eftir því sem leið á öldina var aðstaðan betrumbætt og stækkuð eftir kröfum hverju sinni. Árið 1920 var byggt við húsið til norðurs, tveggja hæða bygging með flötu eða mjög aflíðandi þaki þar sem var miðasala og salerni. Áður voru miklar tröppur og svalir á þessum stað. Árið 1945 var byggt við húsið til vesturs, búningsklefar. Sú bygging skagaði út frá annarri hæð út í brekkuna bröttu bak hússins, en var kjallaralaus, svo hún myndaði nokkurs konar undirgöng í port bakvið húsið. Árið 1950 var áhorfendasalur endurnýjaður, hliðarsvalir rifnar og settir nýmóðins bekkir. Um aldamótin 2000 fóru fram endurbætur á salnum og var útlit hans og yfirbragð fært nær upprunalegu útliti. Eins og gefur að skilja fór að verða þrengra um starfsemi leikfélagsins og sýningar þess eftir því sem áratugirnir liðu og ekki óalgengt, að félagið fengi inni í öðrum rýmum til leiksýninga, sem voru of flóknar eða umfangsmiklar fyrir hið aldna félagsheimili Góðtemplara. Þá var það bylting þegar smíðaverkstæðið fluttist úr suðurhluta jarðhæðar að Vör við Óseyri, haustið 1997, enda óhægt um vik að koma fyrir stórum trésmíðavélum eða fyrirferðarmiklum leikmyndarhlutum í aðstöðunni hér. En ævinlega tókst leikfélagsfólki einhvern veginn að sníða sér (þröngan) stakk eftir vexti innan veggja Samkomuhússins. Þó fékk leikfélagið inni í stærri salarkynnum fyrir ákveðnar sýningar, t.a.m. var oft sýnt á Renniverkstæðinu við Kaldbaksgötu á Oddeyrartanga á árunum kringum 2000. Á tímabili eftir tilkomu Hofs voru flestar stærri sýningar félagsins settar upp þar en á seinustu árum hafa þær flestar verið settar upp hér. Húsið hefur þannig verið nýtt óslitið til leiksýninga frá upphafi og verið aðsetur leikfélags bæjarins frá stofnun þess. Auk þess hafa hin ýmsu áhugaleikfélög, m.a. framhaldsskólanna og ýmsir leikhópar fengið hér inni alla tíð. Því má með sanni segja, að hér hafi verið vagga akureyrskrar leiklistar í nærri 120 ár.
Enda þótt húsið hafi frá upphafi verið leikhús fyrst og fremst og eingöngu gegnt því hlutverki síðustu áratugi hýsti það ýmsa starfsemi og stofnanir á fyrri tíð. Hér var t.d. Amtsbókasafnið til húsa um árabil, bæjarstjórn fundaði hér og hafði skrifstofur, húsið var m.ö.o. ráðhús bæjarins. Þá var póstafgreiðsla bæjarins hér um tíma. Þá var búið í húsinu allt fram yfir 1970. Árið 1920 búa átta manns í Hafnarstræti 57 og tíu árum síðar eru ábúendur Samkomuhússins Björn Ásgeirsson bókhaldari og Stefanía Dúadóttir, tvö börn þeirra og tvær þjónustustúlkur. Björn og Stefanía reistu sér síðar hús eða smábýli, Silfrastaði, við Vesturgötu (nú Goðabyggð 7) á Brekkunni. Síðustu íbúar Samkomuhússins voru líklega húsvarðarhjónin þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Waage.
Á árunum 2004-06 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu og nánasta umhverfi þess. Fóru þær fram jafnt að utan sem innan. Voru þær m.a. gerðar eftir teikningum Páls Tómassonar og uppmælingarteikningum Finns Birgissonar. Viðbyggingin, búningsaðstaðan frá 1945, var rifin og reist steinsteypt viðbygging í staðinn sem gegnir sama hlutverki. Lyfta var sett í norðurenda hússins og allt aðgengi og aðstaða, hvort tveggja leikara og gesta, Samkomuhússins þannig stórbætt. Þá var þak endurnýjað. Einnig var unnið í brekkunni að baki hússins og hún stölluð með mörgum steyptum veggjum en framskrið og vatnsrennsli hafði þar lengi verið vandamál. Einnig var jarðvegsskipt í brekkunni framan hússins og settur á hana meiri flái.
Það þarf vart að fjölyrða um hversu mikið og einkennandi kennileiti Samkomuhúsið er í götumynd Hafnarstrætis og í raun bænum eins og hann leggur sig. Það stendur einnig mjög skemmtilega, hátt í brattri og gróskumikilli brekku. Snemmsumars skartar brekkan framan við skemmtilega gulum lit af túnfíflum og þykir mörgum það ótvírætt merki um að sumarið sé komið þegar Samkomuhúsbrekkan skartar gulu. Samkomuhúsið var friðlýst í B-flokki árið 1977, með fyrstu húsum bæjarins sem voru friðlýst og er auk þess aldursfriðað. Þá þætti greinarhöfundi rétt að flötin framan við það yrði einnig friðuð fyrir byggingum; það yrði afleitt, ef byrgt væri fyrir ásýnd Samkomuhússins með hærri byggingum! Meðfylgjandi myndir eru teknar 5. júní 2006, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.
ES. Á bernskuárum sínum var sá sem þetta ritar oft eins og grár köttur í Samkomuhúsinu þar sem faðir hans, Hallmundur Kristinsson leikmyndahönnuður, starfaði sem forstöðumaður smíðaverkstæðisins og hannaði þar og smíðaði leikmyndir. Þótti höfundi þetta sannkallað ævintýrahús; allir gangarnir, ranghalarnir og afkimarnir en þess má geta, að greinarhöfundur átti það til að fara ítrekaðar könnunarferðir um húsið meðan pabbi hans sinnti einhverjum erindum á verkstæðinu. Geymslurnar innaf verkstæðinu þar sem leyndust ýmsir leikmunir, stórir og smáir, gangurinn bakvið verkstæðið, og bröttu stigarnir upp á svið og að búningsklefanum. Kaffistofan fyrir miðri annarri hæð, fínu tröppurnar og stofurnar með þykka rauða teppinu, leiksviðið, salurinn og búningsherbergin og Borgarasalurinn svokallaði nyrst uppi á þriðju hæð. Auk hinna ýmissa kompa og kytra. Gilti einu hvar strákurinn þvældist, aldrei nokkurn tíma heyrðist Hvað ert þú að vilja eða Þú átt ekki að vera hér eða neitt svoleiðis heldur var honum þvert á móti ævinlega tekið eins og höfðingja. Þá vöknuðu ýmsar ráðgátur í sambandi við þetta magnaða hús. Hvar voru t.d. herbergin bakvið alla þessa glugga á framhliðinni? Þar var um að ræða falska glugga en á bakvið þá var austurveggur leiksviðs og salur. Og turninn! Hvað var þar og hvernig komst maður þangað? Var e.t.v. fjársjóður uppi í turninum? Leikmunir? Skrifstofa? Kaffistofa? Aldrei fór greinarhöfundur upp í turninn til að komast að því sanna að eigin raun hvað væri þar uppi. Honum skildist hins vegar að þar væri einfaldlega ekki neitt, turninn væri einungis hluti af háalofti, sem lægi þarna yfir öllu og hvorki á færi barna að komast þangað, né að þau ættu þar nokkurt erindi. Greinarhöfundur gæti ritað heillanga grein um eigin minningar úr Samkomuhúsinu en látum staðar numið hér.
Heimildir: Björn G. Björnsson. Upplýsingar um Björn Björnsson og byggingarframkvæmdir Samkomuhússins, veittar í einkaskilaboðum (tölvupósti) 28. júlí 2020.
Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 129, 15. júní 1896. Fundargerðir 1902-21. Fundir nr. 224, 16. Júní 1902, nr. 307, 20. feb. 1906 og nr. 309, 20. mars 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.
Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Haraldur Sigurðsson. 1992. Saga leiklistar á Akureyri. Leikfélag Akureyrar.
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.
Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 24.5.2024 kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2024 | 07:18
Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28
Um aldamótin 1900 kölluðust stærstu hús bæjarins á, yfir Bótina; Snorri Jónsson hafði reist veglegt hús við Strandgötuna á Oddeyri og skömmu síðar reisti fyrrum nemi hans í trésmíðum, Bergsteinn Björnsson ámóta hús á uppfyllingu í Bótinni. Hús Bergsteins, sem var lítið eitt stærra að grunnfleti og hærra en hús Snorra, naut þó ekki lengi þess titils, að vera stærsta hús bæjarins. Fjórum árum síðar reis á hinu nýja landi Akureyrarkaupstaðar, uppi á brekkunni nærri Stóra Eyrarlandi, eitt stærsta hús bæjarins og stærsta timburhús fyrr og síðar. (Verið gæti þó, að fjölbýlishús, sem nú rísa úr timbri í Holtahverfi í Glerárþorpi skáki því að rúmtaki). Um ræðir eitt skrautlegasta og tilkomumesta hús bæjarins, sérlegt kennileiti og prýði, Gamli Skóli eða Menntaskólinn. Þegar þessi pistill birtist hér, 29. apríl 2024, eru liðin nákvæmlega 120 ár síðan Stjórnarráðið samþykkti teikningarnar að húsinu!
Gamli Skóli, sem margir kalla einfaldlega Menntaskólann í daglegu tali, er háreist tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara. Skiptist húsið í þrjár álmur, suður og norðurálmur snúa stöfnum í austur og vestur en miðálma liggur á milli þeirra í norður-suður. Stafnar álmanna mynda tvær endaburstir en fyrir miðju húsinu er ein burst eða kvistur. Burstir þessar skaga 60 cm út fyrir miðálmu. (Ekki ósennilegt, að þar hafi verið miðað við eina alin). Grunnflötur miðálmu er 42,5x8,6m en hliðarálmurnar 10,1x9m. Á hvorri álmu eru einlyftar anddyrisbyggingar, sú á norðurálmu með lágu valmaþaki en sú á suðurálmu með háu risþaki. Kallast sú á suðurálmu Sólbyrgið. Einnig er útskot á bakhlið suðurálmu. Í flestum gluggum eru níu rúðu krosspóstar en mjórri gluggar (sexrúðu) eru m.a. í kjallara, undir rjáfrum og í kvistum. Þá eru vatnsbretti eða bönd undir neðri gluggalínu sem og á hæðarskilum við rishæð. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir og þak og húsið mjög skrauti prýtt; á burstum er útskurður á hanabjálkum og krossskeyttum bjálkum þ.e. hengisúlum. Einnig er útskurður á mænistoppum. Á miðburst rammar útskorið skraut inn fánastöng. Tveir skorsteinar, hlaðnir úr rauðleitum múrsteinum setja einnig svip á bakhlið hússins. Bakhliðin tengist löngum tengigangi sem tengir húsið við Hóla, nýbyggingu frá 1996.
Að öllu jöfnu er saga Menntaskólans á Akureyri rakin til stofnunar skóla að Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1880 og raunar allt aftur til stofnunar skóla að Hólum í Hjaltadal árið 1106. Skólinn var starfræktur í veglegu húsi, tvílyftu með háu risi, en það hús brann til ösku veturinn 1902. Var þá skólinn á hrakhólum en næstu tvo vetur var hann til húsa í nýbyggðum Barnaskóla sunnan Barðsnefs (Hafnarstræti 53). Raunar kom til greina, að hann fengi inni í nýreistu húsi Bergsteins Björnssonar, sem nefndur er hér í formála, en það var ekki talið fullnægjandi. Þegar skólahúsið brann voru þá þegar komnar fram hugmyndir um að flytja skólann til Akureyrar. Í ársbyrjun 1898 hafði Jón Hjaltalín lagt það til í bréfi til landshöfðingja, sem annars sneri að lélegu ástandi Möðruvallahússins. Ekki voru menn sammála um þessa hugmynd en bruninn á Möðruvöllum mun þó hafa sameinað menn í þeirri afstöðu, að skólinn yrði endurreistur á Akureyri. Það varð svo úr, að þann 10. nóvember 1903, voru samþykkt lög á Alþingi, um Gagnfræðaskóla á Akureyri og með fylgdi fjármagn; 67.000 krónur úr Landssjóði en byggja átti hús með heimavist fyrir allt að 50 nemendur. Raunar hafði skólameistari, Jón Hjaltalín, falast eftir því við bæjarstjórn, strax í september það ár, að fá lóð í norðausturhorni Eyrarlandstúns undir fyrirhugaðan gagnfræðaskóla. Vildi hann helst eina dagsláttu (u.þ.b. 3600 m2 ). Féllst bæjarstjórn á þetta að öllu leyti (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 894, 1903). Það var svo um vorið 1904, að Jón óskaði eftir stækkun á lóðinni og enn var bæjarstjórn velvildin ein; skólinn fékk alla spilduna milli Breiðastrætis og Bæjarstrætis að austan og milli Vesturstrætis að sunnan og túngarð Eyrarlands að norðan (sbr. Bæjarstjórn Akureyrar, nr. 911, 1904). Ef marka má einn elsta uppdrátt sem til er af Brekkunni, virðist Breiðastræti hafa átt að liggja nokkurn veginn þar sem nú er byggingin Hólar, Vesturstræti þar sem nú eru norðurmörk Lystigarðs og Bæjarstræti um það bil þar sem nú er Eyrarlandsvegur. Umræddur túngarður Eyrarlands mun hafa verið á svipuðum slóðum og Hrafnagilsstræti er nú. Síðasta verk Bygginganefndar á árinu 1903 var að bóka álit nefndarinnar á þeim stað, sem afmarkaður hafði verið á Eyrarlandstúni, þar sem kennarar skólans teldu rétt að skólahúsið stæði. Voru nefndarmenn nokkurn veginn sammála en töldu rétt, að skólahúsið yrði fært austar.
Á hinu nýja ári fóru skólayfirvöld að leita tilboða í byggingu skólahúss. Bárust tilboð frá helstu byggingameisturum bæjarins, auk eins tilboðs frá byggingameisturum úr Reykjavík. Öllum var þessum tilboðum hafnað en Klemenz Jónsson leitaði til Sigtryggs Jónssonar, timburmeistara frá Espihóli að gera uppdrátt og verklýsingu. Út frá þeirri teikningu var ákveðið að leita tilboða í byggingu en meðal þeirra sem sendu inn tilboð var Snorri Jónsson. Sendi hann einnig uppdrátt að húsi og lengi vel var raunar talið, að hann hafi verið höfundur hússins. Uppdráttur sem varðveist hefur, tekur af öll tvímæli um þetta; Sigtryggur Jónsson undirritar teikningar, sem dagsettar eru 26. apríl 1904 og samþykktar af Stjórnarráðinu þremur dögum síðar (sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:198). Svo hófust menn handa: Sigtryggur Jónsson hélt utan til Noregs að velja timbur í bygginguna og þann 11. maí örkuðu Bygginganefndarmenn upp á Eyrarlandstún. Þar afmarkaði [bygginganefndin] þessa spildu með niðurreknum hælum. Síðan var eftir beiðni J.A. Hjaltalín er var viðstaddur mældur ut grunnur undir skólahúsið á hinum afmarkaða bletti og var ákveðið, að húsið skyldi standa 10 ál. [6,3m] frá Breiðastræti, jafnhliða götunni og 15 ál. [tæpir 10m] í norður frá Vesturstræti (Bygg.nefnd. Ak. 1904: nr. 267). Af Noregsferð Sigtryggs segir fremur fátt, nema hvað tilgreint var í verksamningi, að viðurinn mætti ekki vera úr Mandal. Mögulega hefur Sigtryggur haft forskrift og teikningar meðferðis og látið forsmíða húsið ytra. Er það raunar talið líklegra en hitt og það sem styður þá kenningu er kannski einna helst hinn ótrúlegi byggingarhraði: Húsið, það stærsta sem risið hafði á Akureyri, var ekki nema fjóra mánuði í byggingu! Hornsteinn var lagður 4. júní og skóli settur nákvæmlega fjórum mánuðum síðar, þ.e. 4. október 1904. Þrjár kennslustofur voru fullbúnar við skólasetningu en fleiri voru teknar í notkun eftir því sem á leið. Um áramótin 1904-05 átti íbúð skólameistara að verða tilbúin og heimavistin haustið eftir. Og það stóðst að mestu leyti. Heimavistin
var með nokkuð nýstárlegu sniði, 2-4 nemendur saman í herbergi og ef fjórir deildu herbergi fengu þeir tvö herbergi, annað til svefns og hitt til lesturs. Fram að þessu var algengast að heimavistir væru einfaldlega svefnsalir eða loft. Á fyrstu áratugum hússins var skipulagið nokkurn veginn þannig, að vesturhluti norðurálmu, báðar hæðir og kjallari, var heimavist auk þess sem risið var lagt undir heimavistina. Íbúð skólameistara var á neðri hæð í suðurálmu. Í kjallara norðurálmu voru herbergi þjónustustúlkna en síðar voru þar gerð heimavistarherbergi. Kennslustofur og skrifstofur voru flestar í miðálmu, á báðum hæðum en smíðastofa var í kjallara. Þá voru ýmsar einkageymslur skólameistara þ.á.m. vínkjallari í kjallara suðurálmu.
Jón Hjaltalín (1840-1908), sem gegnt hafði stöðu skólameistara allt frá stofnum Möðruvallaskóla árið 1880, var kominn á sjötugsaldur þegar skólahúsið nýja reis og var orðinn nokkuð heilsuveill. Hann lést árið 1908 og varð Stefán Stefánsson þá skólameistari. Gagnvart húsnæði skólans einkenndist hans tíð nokkuð af erjum við yfirvöld vegna viðhalds og rekstrarfjár til hins nýja skólahúss. Var það helst að húsið væri óþétt; þiljur og gluggar héldu illa vatni. Kannski var miklum hraða við bygginguna um að kenna? Steininn tók þó úr í sunnan aftakaveðri í árslok 1914 er vatnsflaumur komst inn um veggi og glugga suðurhliðar og þakjárn flettist af. Í kjölfarið voru gerðar endurbætur á húsinu, suðurhlið klædd bárujárni og reist viðbygging á sömu hlið. Er sú bygging kölluð Sólbyrgið.
Árið 1914 tengdist skólahúsið vatnsveitu, þegar hún var tekin í notkun og rafmagn var leitt í húsið 1922, þegar rafveitu var hleypt af stokkunum hér í bæ. Um svipað leyti var sett í húsið miðstöðvarhitun en fram að því var húsið kynt með stökum kolaofnum. Fundist hafa gögn um að skoðuð hafi verið tilboð um miðstöðvarkerfi við byggingu hússins, en ekki náði það lengra en svo að það yrði skoðað. Hefur mögulega þótt of dýrt. Það hefndi sín hins vegar frostaveturinn 1918, þegar vatn í lögnunum frá 1914 fraus og handlaugar sprungu. Þá virðast steypt kjallaragólf hafa frostsprungið, en Stefán Stefánsson skólameistari getur þess, að frostið í skólaherbergjum hafi farið niður í 17 til 18 stig og mest 24 stig á skrifstofu skólameistara! Enda segir hann Sparnaðurinn við hitunarleysið étur sig því nokkuð upp, þegar á allt er litið (Steindór Steindórsson 1980:216). Stefáni Stefánssyni var umhugað um viðhald hússins og góða umgengni. Í æviminningum sínum lýsir Steindór Steindórsson metnaði hans, en þegar Steindór hóf nám í skólanum 1920 var heilsu Stefáns farið að hraka (hann lést í janúar 1921): Hið vökula auga Stefáns skólameistara hafði vakað yfir allri umgengni utan húss og innan, og með smekkvísi sinni hafði honum tekist að breiða yfir þótt naumt væri skammtað til húsabóta. Hann þoldi engan sóðaskap né ósnyrtimennsku, og sjálfrátt eða ósjálfrátt lærðu nemendur af honum að vanda umgengni sína[...] (Steindór Steindórsson 1982:97-98). Stefán Stefánsson stóð einnig fyrir því, að lóð skólans var stækkuð, hann tók land á erfðafestu allt vestur og upp að Þórunnarstræti. Skömmu fyrir andlátið seldi hann Júníusi Jónssyni húsverði skólans túnspilduna, en hann hugðist reisa þar íbúðarhús. Nýr skólameistari, Sigurður Guðmundsson, var ekki alls kostar sáttur við þetta og taldi þessi byggingaráform þrengja að skólanum. Júníus seldi skólanum spilduna aftur en byggði hús austan Eyrarlandsvegar, nánar tiltekið húsið Eyrarlandsveg 29. Sigurður Guðmundsson var heldur ekki hrifinn af því, að byggja ætti austan Eyrarlandsvegar og átti í nokkrum deilum við bæjaryfirvöld þess vegna, enda þótt skipulagsnefnd ríkisins væru á hans máli.
Árið 1922 skoðaði Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, skólabygginguna og gerði í kjölfarið tillögu að endurbótum. Fólust þær m.a. í ýmissi endurnýjun á innra byrði auk þess sem húsið var raflýst og sett í það miðstöðvarhitun. Um 1925 var húsið svo allt bárujárnsklætt að utan og fékk þá það útlit að mestu sem það enn hefur. Að bárujárnsklæðningunni undanskilinni, er húsið að mestu lítt breytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð. Annað, sem heimavistarnemendum hefur eflaust þótt enn meiri bylting var, að um sama leyti voru sett vatnssalerni í kjallara norðurálmu, í stað útikamra. Grípum niður í minningum Steindórs um innanhússkipulag skólahússins árið 1921: Við 2. bekkingar vorum til húsa í næst innstu stofu á ganginum en þriðju bekkirnir sinn hvoru megin, A-bekkur að framan en B að innan. Ekki var kennt á efri hæðinni. Salurinn einungis notaður til morgunsöngs, söngkennslu og fundarhalda, en norðan við hann var náttúrugripasafn skólans en bókasafn að sunnanverðu. Smíðastofa var í norðurenda kjallara, en borðstofa heimavistar í suðurenda. Í öllum stofum voru kolaofnar, en gaslampar til ljósa í kennslustofum og á göngum (Steindór Steindórsson 1982:98). Það er skemmst frá því að segja, að húsið hefur verið notað til kennslu nokkurn veginn óslitið síðastliðna 120 vetur, frá 4. október 1904. Aðeins um nokkurra mánaða skeið á árinu 1940 var ekki unnt að kenna í húsinu þar sem breska setuliðið hafði komið sér fyrir þar. Gerðust menn þá nokkuð smeykir um að þeir myndu í ógáti brenna húsið til kaldra kola og sagt að þeir fleygðu frá sér sígarettustubbum hvar sem þeir stóðu, jafnvel innandyra í timburhúsinu. En staðreyndin var hins vegar sú, að þessi eldhætta var líkast til ekkert minni flestöll þau ár sem heimavist var í húsinu. Gefum Steindóri Steindórssyni orðið: Herbergin voru hituð með kolaofnum, og urðu nemendur að sjá um, að kol væru fyrir hendi ásamt uppkveikju, þá lögðu þjónustustúlkur heimavistar í ofnana um leið og þær gerðu herbergin hrein á hverjum morgni. Síðan önnuðust nemendur ofnana sjálfir, og er furða að aldrei skyldi slys hljótast af, þar sem fæstir kunnu með ofna að fara. Stundum skall þó hurð nærri hælum, þannig lá við að ofninn hjá Hermanni [Stefánssyni] og Bernharð Laxdal spryngi er þeir skvettu olíu á kolaglóð, til að skerpa á hitanum (Steindór Steindórsson 1980:103). Svona lagað mun ekki hafa verið einsdæmi. Raunar logaði eldur stanslaust í Gamla Skóla í 75 ár, eða allt þar til Árni Friðgeirsson ráðsmaður slökkti á olíukyndingu, sem tók við af kolunum um 1950, og hleypti á húsið heitu vatni frá Hitaveitu Akureyrar. Var það 1. október 1979 (sbr. Tryggvi Gíslason 2009: 171). Alla tíð voru menn hins vegar meðvitaður um eldhættu, næturvörður var í húsinu til ársins 1967 en þá var sett í húsið reykskynjarakerfi, beintengt við slökkvilið. Síðar kom fullkomið viðvörunar- og vatnsúðakerfi. Eins og fyrr segir var íbúð skólameistara í húsinu en síðar bjó þar ráðsmaður, téður Árni Friðgeirsson, allt til ársins 1978.
Um fá hús hafa verið ritaðar nákvæmari viðhaldssögur en Gamla Skóla. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru frá fyrstu áratugum hússins en lesendum er bent á mjög ítarlega kafla í tveimur bindum Sögu Menntaskólans á Akureyri. Annars vegar kafli Steindórs Steindórssonar í 1. bindi (bls. 205-234) og Tryggva Gíslasonar í 4. bindi (bls. 169-244). Þess má geta, að sá síðarnefndi tók við embætti skólameistara af hinum fyrrnefnda árið 1972 og gegndi starfinu fram á nýja öld. Þannig er raunar um að ræða frásagnir frá fyrstu hendi, manna sem samanlagt voru viðloðandi þetta hús í meira en 80 ár.
Síðustu áratugi hefur framkvæmdir og viðhald við Gamla Skóla, utan jafnt sem innan, miðað að því að halda sem mest í upprunalega gerð hússins. Árið 1977 var húsið friðlýst af bæjarstjórn Akureyrar, í hópi fyrstu húsa hér í bæ sem friðlýst voru. Var hann friðaður í B-flokki, sem nær til ytra byrðis. Árið 1969 gerði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt (og stórleikari) uppmælingarteikningar að húsinu og hafa síðan verið gerðar á húsinu ýmsar endurbætur, utan jafnt sem innan, sem líklega væri of langt mál að telja upp hér. En húsið hefur hlotið fyrirtaks viðhald í alla staði. Þrátt fyrir ýmsa vankanta, sem töldust á húsinu á upphafsárum var það engu að síður svo, að um 1970 var það með öllu fúalaust (sbr. Steindór Steindórsson 1980: 211) og því eflaust vel viðað frá upphafi. Sem fyrr segir er enn kennt í Gamla Skóla og þar er einnig kaffistofa starfsfólks og skrifstofur. Þess má geta, að þekkt íslenskt orðtak á uppruna sinn í Gamla Skóla. Þannig var mál með vexti, að á skrifstofu skólameistara stendur verklegt hvalbein. Í meistaratíð Sigurðar Guðmundssonar var talað um að fara á hvalbeinið þegar nemendur voru kallaðir til hans, og hann las þeim pistilinn. Þannig er komið máltækið að taka einhvern á beinið (sbr. Steindór Steindórsson 1993:163).
Af öðrum byggingum á lóð Menntaskólans má nefna Fjósið, sem reist var ári síðar en Gamli Skóli, og var frá upphafi íþróttahús og er enn. Heimavistarhús reis norðvestanmegin á lóðinni 1946 og með tilkomu þess var smám saman farið að breyta heimavistarherbergjum í Gamla Skóla í kennslustofur. Möðruvellir, raungreinahús, beint vestur af Gamla Skóla og Fjósi var tekið í notkun 1969. Árið 1996 var nýjasta bygging skólans, Hólar, tekin í notkun en það hús er nokkurn veginn miðsvæðis. Hólar eru nokkurs konar viðbygging við Möðruvelli en tengjast einnig Gamla Skóla gegnum langan gang. Þannig þrengja nýbyggingar hvergi að gamla húsinu enda þótt innangengt sé á milli. Það er óneitanlega viss stemning yfir því, að ganga eftir hörðum dúklögðum gólfum gangsins úr Hólum og stíga yfir á brakandi, dúandi gólf Gamla skóla. Nýjasta viðbótin við húsaþyrpingu á Menntaskólasvæðinu er ný heimavist, sem reist var árin 2002-03 og er sameiginleg fyrir Menntaskólann og Verkmenntaskólann. Þess má geta, að greinarhöfundur var einmitt í hópi nemenda, sem fylgdust með þáverandi bæjarstjóra, Kristjáni Þór Júlíussyni, taka fyrstu skóflustungu af þeirri byggingu, 2. maí 2002. Fengu þá allir að fara úr tímum að fylgjast með og var greinarhöfundur einmitt í dönskutíma í Gamla Skóla; nánar tiltekið nyrst í kjallara þar sem heitir G1 (sú stofa mun upprunalega hafa verið smíðastofa).
Húsið er sem fyrr segir friðlýst og hlýtur hæsta mögulega varðveislugildi í Húsakönnunn 2016 eða 8. stig, sem friðlýst bygging. Þar fær Gamli Skóli umsögnina: Einstakt hús sem hefur mjög hátt varðveislugildi vegna aldurs, byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar (Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:49). Um gildi Gamla Skóla fyrir umhverfi sitt eða sögu bæjarins þarf vart að fjölyrða. Um er að ræða eitt stærsta og skrautlegasta timburhús bæjarins, mikið kennileiti sem sést langt að og er samofið sögu virtrar menntastofnunar. Þegar þetta er ritað eru liðin rétt 120 ár frá því að lokið var við teikningar hússins og næstkomandi haust verður það 121. sem nemendur setjast þar á skólabekk. Hversu mjög sem samfélagið og tæknin gerbreytist stendur sumt hið gamla ÁVALLT fyrir sínu með glæsibrag. Þar á meðal er hið aldna og glæsta skólahús á Syðri Brekkunni. Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. júní 2020 og 15. apríl 2024.
Heimildir:
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 267, 11. maí 1911. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU
Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1900-09. Fundur nr. 894, 22. sept. 1903. Fundur nr. 911, 10. maí 1904. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a25_5?fr=sZTFmMTQzODI5ODU
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.).2003. Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning
Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Steindór Steindórsson. Gagnfræðaskólinn á Akureyri 1902-1930; Hús skólans og lóð. Í Gísli Jónsson (ritstj.). 1980. Saga Menntaskólans á Akureyrar 1. bindi. (bls. 205-234) Menntaskólinn á Akureyri.
Steindór Steindórsson. 1982. Sól ég sá. Sjálfsævisaga Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Tryggvi Gíslason. Hús skólans. Í Jón Hjaltason (ritstj.) 2009. Saga Menntaskólans á Akureyri 4. bindi. (bls. 169-244) Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólann á Akureyri.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2024 | 18:39
Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)
Segja má, að götumynd Eyrarlandsvegar sé tvískipt. Úr norðri liggur gatan upp brattan hjalla upp frá Grófargili að brún Barðsgils en sunnan síðarnefnda gilsins þræðir hún brekkubrúnina í aflíðanda til suðurs að mótum Spítalavegar og aðkeyrslunni að Sjúkrahúsi Akureyrar. Með fáeinum undantekningum er gatan skipuð reisulegum steinhúsum frá 3. áratug sl. aldar. Í norðurhlutanum standa húsin vestan götu en í suðurhluta standa húsin austanmegin og snúa stöfnum mót götu. Vestanmegin suðurhluta götunnar er að sjálfsögðu lóð Menntaskólans og Lystigarðurinn. Syðsta hús Eyrarlandsvegar er reisulegt steinhús, reyndar ekki frá 3. áratug sl. aldar, heldur örlítið eldra eða frá 1915. Þegar það var reist taldist það reyndar standa við allt aðra götu
Í febrúar 1915 sótti Þorkell Þorkelsson kennari um lóð við Eyrarlandsveg, norðan við Sigurð Hlíðar (Eyrarlandsveg 26 eða Breiðablik) og leyfi til að byggja hús, samkvæmt framlagðri teikningu; 8,8x8,2m með forstofu 2,3x3,4m og bakskúr 2,2x1,3m. Fékk hann lóðina og byggingarleyfið en tveimur vikum síðar ber hann upp annað erindi við bygginganefnd. Þorkell tilkynnti bygginganefnd, að hann hyggðist hætta við þessa lóð. Þess í stað ætlaði hann að reisa umrætt hús á lóð, sem hann ætlaði að kaupa af Sigurði Fanndal. Lóðin yrði þannig austan við Eyrarlandsveg og norðan við Fagrastræti (sjá síðar í grein) og framhlið hússins snúi að síðarnefndu götunni. Veitti bygginganefndin leyfið með þeim skilyrðum að húsið stæði nokkuð frá Fagrastræti og gaflinn yrði í húsalínu við Eyrarlandsveg. Einnig skyldi Þorkell kaupa spilduna austan húsalínunnar við Eyrarlandsveg (sem kallaður er Spítalavegur innan sviga í bókunum Bygginganefndar) á eina krónu hvern fermetra. Umræddur Sigurður Fanndal, sem seldi Þorkeli lóðina var þáverandi eigandi Hafnarstrætis 49 (Amtmanns- eða Sýslumannshússið, enn síðar skátaheimilið Hvammur). Þannig má segja, að húsið sé byggt úr landi Hafnarstrætis 49, en þegar það hús var reist árið 1895 var lóðin rúmur hektari, enda staðsett utan þéttbýlis.
Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst er hönnuður hússins ókunnur. Til eru ódagsettar, óáritaðar teikningar að húsinu sem taldar eru gerðar eftir 1928 en á þeim má greina höfundareinkenni Halldórs Halldórssonar. Elstu varðveittu teikningar að húsinu munu óáritaðar raflagnateikningar frá 1923. Ekki er útilokað, að Þorkell hafi sjálfur teiknað húsið en hann var eðlisfræðimenntaður og hafði unnið við Tækniháskóla Danmerkur svo húsateikningar hefðu líkast til ekki vafist fyrir honum.
Eyrarlandsvegur 35 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með portbyggðu risi. Krosspóstar eru í gluggum á hæð og í risi en á inngönguskúr á framgafli er margskiptur skrautgluggi. Á framhlið er forstofubygging, á norðurhlið er lítil útbygging eða stigahús og lítið útskot með lauklaga þaki (karnap) er á suðurhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Húsið er látlaust og einfalt að gerð, líkt og elstu steinsteyptu íbúðarhúsin hérlendis en útskotið er einkum áberandi í svipgerð hússins og gefur því skrautlegt yfirbragð. Í því samhengi mætti einnig nefna tvo samliggjandi bogadregna glugga á sömu hlið en einnig skrautglugginn á forstofu. Alls mun húsið um 225 m2 að stærð, skv. Húsakönnun (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016:59).
Þegar húsið var svo til nýbyggt, í desember 1916, var það metið til brunabóta og lýst sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og risi, á kjallara og byggt úr steini með járnklæddu timburþaki. Á gólfi undir framhlið, þ.e. vestanmegin á neðri hæð voru tvær stofur og forstofa en austanmegin eitt herbergi, eldhús og búr og forstofa með stiga upp á loft. Á rishæð voru fimm íbúðarherbergi og fjögur geymsluherbergi. Þá kemur einnig fram, að við aðalinngang sé skúr sem einnig er forstofa og annar lítill skúr sé við bakhlið. Grunnflötur hússins 8,5x8,2m, hæð 7,5m, gluggar 27 að tölu og einn skorsteinn. Þá kemur einnig fram, að 60 metrar séu að næsta húsi (sbr. Brunabótafélagið 1916: nr 95). Húsið, sem stóð í 60 metra fjarlægð var væntanlega skólahúsið, en næsta hús við Eyrarlandsveg á þessum tíma var Breiðablik sem Sigurðar Hlíðar byggði.
Þegar húsið var reist stóð það við Fagrastræti, sem liggja átti frá Lystigarðinum og til suðurs að brún Barðsgils. Ef marka má bókun bygginganefndar hefur húsinu verið ætlað að standa á horni Eyrarlandsvegar og Fagrastrætis. En hvað var þetta Fagrastræti? Um var að ræða fyrirhugaða götu, sem líklega hefur verið ætlað að liggja nokkurn vegin á sömu slóðum og gatan Barðstún var lögð löngu síðar. Húsið taldist Fagrastræti 1 í áratugi ( og telst eflaust enn í hugum margra) og elstu dæmin sem gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarlandsveg 35 eru frá því eftir 1970. En það var hins vegar haustið 1961 að Bygginganefnd lagði til við bæjarstjórn, sem það samþykkti, að Fagrastræti 1 yrði Eyrarlandsvegur 35.
Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur, sem byggði húsið, var fæddur að Frostastöðum í Skagafirði 6. nóvember árið 1876. Eftir stúdentspróf frá Reykjavík 1898 nam hann eðlisfræði í Kaupmannahöfn og lauk prófi þaðan 1903. Í Kaupmannahöfn starfaði hann í fimm ár við Polyteknisk lærenstalt (Tækniháskóla Danmerkur) uns hann fluttist til Akureyrar árið 1908. Hér í bæ kenndi hann við Gagnfræðaskólann, sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri. Það var því ekki langt fyrir Þorkel í vinnuna þau fáu ár sem hann bjó hér, því skólinn sá var til húsa handan götunnar í skólahúsinu mikla, sem nú kallast Gamli Skóli. Þau fáu ár segir hér: Þorkell átti aðeins heima hér í þrjú ár því árið 1918 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann kom á fót löggildingarstofu voga-og mælitækja og varð forstöðumaður þeirrar stofnunar. Árið 1920 var Veðurstofa Íslands stofnuð og var Þorkell fyrsti veðurstofustjóri. Gegndi hann forstöðu beggja stofnananna, Löggildingarstofu og Veðurstofu, um nokkurra ára skeið, eða til áramóta 1924-25. Þar var um að ræða nokkurs konar samrekstur eða samvinnu þeirra að ræða fyrstu árin. Þorkell var veðurstofustjóri til ársins 1946 er hann fór á eftirlaun. Eiginkona Þorkels var Rannveig Einarsdóttir (1890-1962), úr Hafnarfirði. Þorkell Þorkelsson lést árið 1961.
Eftir að þau Þorkell og Rannveig fluttu úr húsinu átti Baldvin Ryel kaupmaður það um skamma hríð en árið 1920 er eigandi hússins Brynleifur Tobiasson, kennari við Gagnfræðaskólann. Hann fluttist hins vegar árið 1926 norður yfir Eyrarlandsveginn, í húsið Breiðablik, sem um svipað leyti fékk númerið 26 við Eyrarlandsveg. Árið 1930 búa alls fimmtán manns í Fagrastræti 1 og skiptist húsið í þrjú íbúðarrými. Þá er Sveinn Bjarnason bókhaldari eigandi neðri hæðar og Benedikt Pétursson þeirrar efri. Árið 1940 er eigandi hússins Jakob Kristján Lilliendahl bókbindari. Hér má sjá hann ásamt konu sinni, Stígrúnu Helgu Stígsdóttur og börnum þeirra sunnan við hús sitt um 1940. Hafa síðan ýmsir átt húsið og búið þar en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús. Sem fyrr segir var götuheitið Fagrastræti formlega lagt niður árið 1961 og húsið síðan Eyrarlandsvegur 35. Hins vegar má segja, að Fagrastræti hafi að einhverju leyti orðið að veruleika þremur árum síðar, þegar gatan Barðstún var skipulögð á brekkubrúninni austan og neðan Eyrarlandsvegar. Barðstún nær reyndar ekki að Lystigarðinum eins og Fagrastrætinu var ætlað því gatan er lokuð í suðurendann, en lega götunnar er líkast til ekki fjarri því, sem Fagrastrætinu var ætlað. Fjögur hús standa við Barðstún, öll skráð byggð 1966 nema nr. 7, sem byggt er áratug síðar.
Eyrarlandsvegur 35 er að mestu leyti óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en er þó í afbragðs góðri hirðu. Húsið er látlaust og einfalt að gerð og nokkuð dæmigert fyrir steinsteypuhús frá upphafi 20. aldar en þau voru yfirleitt byggð með sama byggingarlagi og tíðkaðist við timburhús. Útskot og bogadregnir gluggar á suðurhlið ásamt skrautgluggum í forstofubyggingu gefa húsinu hins vegar skemmtilegan og skrautlegan svip. Í Húsakönnun, sem unnin var um þetta svæði árið 2016, segir að húsið hafi hátt varðveislugildi vegna aldurs og byggingargerðar. Þá telst það hafa hátt menningarsögulegt gildi með fyrstu húsum sem risu á svæðinu og hluti götu sem aldrei varð að veruleika. Húsið hlýtur næst hæsta mögulega varðveislugildi umræddrar Húsakönnunnar, eða 7. stig (8. stig fá friðlýst hús) sem hluti götumyndar Eyrarlandsvegar og framangreindra atriða. Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um aldursfriðun húsa eldri en 100 ára (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 59). Þá hafi það fágætisgildi sem eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsum á Akureyri. Í svipinn man greinarhöfundur aðeins eftir Steinöld (1903), Ósi í Glerárþorpi (1908), Hafnarstræti 19 (1913), Aðalstræti 80, Smiðjunni við Gránufélagsgötu 22 og Strandgötu 45 (þrjú síðasttöldu byggð 1914). Þannig gæti Eyrarlandsvegur 35 verið áttunda elsta steinsteypuhús Akureyrar. Húsið stendur á skemmtilegum og áberandi stað í gróinni brekku, gegnt Lystigarðinum. Þá er lóðin vel hirt og prýdd gróskumiklum trjágróðri.
Myndirnar eru, að einni undanskilinni, teknar 15. apríl 2024 en meðfylgjandi er einnig mynd sem tekin er 18. mars 2012 en þá stóð myndarleg Farmal dráttarvél í hlaði.
Heimildir: Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 404, 15. febrúar 1915 og nr. 406, 1. mars 1915. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri Issuu
Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2016. Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2024 | 14:06
Viðhorf til hjólreiðamanna
Ekki þekki ég til þessa tiltekna máls, annað en það sem ég hef séð í fréttum, en það að aka vísvitandi á hjólreiðamann er ekkert annað en TILRÆÐI. Það sem hins vegar gerist ævinlega, þegar frétt á borð við þessa fer um netmiðla byrjar söngurinn "hjólreiðamenn eru alltaf fyrir" og "hjólreiðamenn fara ekki eftir reglum" og árstíðabundna vers sama söng "það á ekki að hjóla á veturna". Svona eins og framangreint beinlínis RÉTTLÆTI svona lagað. En stöldrum aðeins við þennan punkt: Hjólreiðamenn eru alltaf fyrir. Þetta þykir þó nokkrum svo djöfullegt, að umræddir hjólreiðamenn teljast allt að því réttdræpir. Allir vilja auðvitað allir komast leiðar sinnar og tafir hvers konar geta verið hvimleiðar. En stundum gerist það, að bílum er lagt á hjóla/göngustíga eða snjór annað hvort ekki ruddur eða á hinn veginn að snjóruðningar loki viðkomandi stígum. Ef fundið er að því er segin saga, að slíkt er afgreitt sem "væl" eða "tuð" eða jafnvel "frekja". Stórmerkilegt, svo ekki sé meira sagt. Svo gæti ég haldið áfram. Sumum finnst það algjört fásinna og sóun á fé skattgreiðenda að leggja göngu- eða hjólastíga. Hér skal þó skýrt tekið fram, að ég tel þetta ekki almenna viðhorfið og ég upplifi nánast undantekningalaust sjálfur tillitssemi í minn garð á götum Akureyrar. Og flestir hafa skilning á ólíkum þörfum ólíkra samgöngumáta.
Eitthvað af þessum viðhorfum gæti skýrst af því, að fólk telur hjólreiðar ekki vera samgöngumáta heldur "sport" og þess vegna sé t.d. bara allt í lagi þó einhver hjólastígur sé tepptur eða lokaður. Það er bara einfaldlega rangt! Sjálfur fer ég t.d. flestallra minna ferða hjólandi og ég þarf alveg eins að mæta á staði á réttum tímum, eða ná fyrir lokun eins og ökumaðurinn, sem bölvar hjólreiðamanninum, sem alltaf er fyrir. Og ég er aldeilis ekki eini maðurinn, sem notar þennan ferðamáta.
Alhliða lausnin í þessu öllu saman er, að allir vegfarendur, óháð ferðamáta taki sjálfsagt tillit til hvers annars.
![]() |
Ert þú þá svona latte-lepjandi hjólagaur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 23
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 471
- Frá upphafi: 445677
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 350
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar