30.12.2016 | 12:31
Hús dagsins: Oddeyrargata 5
Löngum stóð það til hjá mér, að ljúka umfjöllun um öll íbúðarhús við Oddeyrargötuna, byggð fyrir 1935-40, áður en árið 2016 rynni sitt skeið. En þá kom í ljós, að aðeins eitt íbúðarhús við götuna er undir þessum óformlegu byggingarársviðmiðum síðuhaldara- og ekki var mér stætt á því að haf hafa það útundan- og hvað þá á sjálfum jólunum ! Hér birtist greinarkorn um Oddeyrargötu 5:
Meðalaldur húsa við Oddeyrargötu er nokkuð hár, en yngsta húsið (að bakhúsum og bílskúrum undanskildum) er 71 árs. Þar er um að ræða hús nr. 5 en það reisti Leó Sigurðarson útgerðarmaður árið 1945 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. (Það vill svo til, að elsta og yngsta hús götunnar standa hlið við hlið en númer hús númer 3 er 108 ára, byggt 1908). Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar má finna raflagnateikningar Alberts Sigurðssonar Þær eru gerðar snemma í júlí 1944, eða rúmum tveimur vikum eftir að Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum.
Oddeyrargata 5 er stórt og reisulegt tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með flötu þaki, sem rammað er inn af steyptum kanti. Ekki kann ég að lýsa að gluggapóstunum póstar liggja bæði þvert og lóðrétt og í efri hornum eru opnanleg fög. Að vissu leyti má kannski greina ákveðna þróun í gluggastærð húsa séu gluggar þessa húss bornir saman við nærliggjandi hús við Oddeyrargötuna, sem eru um 15-20 árum eldri. Bárujárn er á þaki hússins og á veggjum hússins steinmulningur (sem sumir kalla skeljasand). Tveir inngangar eru á framhlið sem og yfir þeim steypt dyraskýli. Á lóðinni stendur einnig bílskúr að norðaustanverðu. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og er að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Það mun í upphafi hafa verið stórt einbýli (heildarflatarmál hússins er yfir 500 fermetrar) en nú eru í húsinu tvær íbúðir hvor á sinni hæð, auk lítillar íbúðar í kjallara. Húsið lítur vel út og er til mikillar prýði í umhverfi og í góðu standi og það sama má segja um lóðina. Steyptir kantar á lóðarmörkum og steypt stétt framan setja einnig skemmtilegan svip á umhverfið- sem samhangandi heild ásamt húsinu. Húsakönnun 2014 segir húsið hafa gildi fyrir götumynd Oddeyrargötunar. Vegna legu sinnar á horni Oddeyrargötu og Bjarmastígs mætti raunar einnig telja sem svo, að húsið taki þátt í götumynd Bjarmastígs. Myndina tók ég sl. Jóladag, 25.des 2016 en þá var Oddeyrargatan í sannkölluðum jólabúning.
Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt 31.12.2016 kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2016 | 10:44
Hús dagsins: Oddeyrargata 10
Árið 1927 fengu þeir Áskell Sigurðsson og Sigurbjörn Friðriksson leyfi til að reisa íbúðarhús við Oddeyrargötu, steinhús á einni hæð á háum kjallara og valmaþaki, 11x8m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Oddeyrargata 10 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. (Á teikningum og í bókunum bygginganefndar er neðri hæð raunar kölluð kjallari) Á þaki er bárujárn en krosspóstar eru í gluggum. Framhlið hússins er samhverf um miðju; þar eru tvær inngöngudyr og gluggi nær horni en á efri hæð “hálfur gluggi” næst miðju hvoru megin og tveir gluggar við hlið þeirra.
Húsið hefur frá upphafi verið parhús og íbúðaskipan alla tíð sú sama. Bjó Sigurbjörn, sem síðar byggði hús við Norðurgötu á Oddeyri, í nyrðri hluta en í syðri hluta bjuggu þau Áskell Sigurðsson og kona hans Sigríður Aðalheiður Jónsdóttir. Þess má geta, að þau voru langafi og langamma þess sem þetta ritar. Sigríður hafði mikinn áhuga á garðrækt og hafði lítið gróðurhús á lóðinni þar sem hún ræktaði ýmsar skrautjurtir og matjurtir. Þá gróðursetti hún nokkur tré á lóðinni, þ.á.m. gullregn sem stóð og stendur enn sunnan við húsið. Í þessari grein frá 1981 minnist Ingólfur Davíðsson grasafræðingur á gullregnið við Oddeyrargötu 10. Síðar bjó hér um áratugaskeið Júdit nokkur Jónbjörnsdóttir. Með henni bjó faðir hennar, Jónbjörn Gíslason. Hann var um tíma búsettur í Vesturheimi en fluttist aftur til Íslands 1956 og bjó í þessu húsi ásamt dóttur sinni til dánardægurs. Hann var mikill áhugamaður um rímnakveðskap og átti hljóðrita og safnaði með honum ýmsum kvæðum til varðveislu. Hann hljóðritaði á hólka, líkt og tíðkaðist á þeim tíma (1920-30) en yfirfærsla þeirra upptaka á segulband fór fram í Oddeyarargötu 10 á kyndilmessu 1968. (Frásögn Júditar í Húnavöku 1982) Nú eru þessi hljóðrit, sem yfirfærð voru á segulband í þessu húsi aðgengileg á ismus.is. Hér má m.a. heyra Jónbjörn kveða Andrarímur ásamt Sigríði Hjálmarsdóttur en hljóðritunin er talin gerð á bilinu 1920-23 – þ.e. rétt innan við aldargömul!
Oddeyrargata 10 er reisulegt hús í einföldum klassískum stíl. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi en í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel gróin og vel frágengin m.a. með bjálkahleðslu á lóðarmörkum og klifurjurtir setja einnig skemmtilegan svip á húsið. Að ógleymdu gullregninu sem mikil prýði er af. Húsið stendur á horni Krabbastígs og Oddeyrargötu og er neðst í röð svipaðra húsa, 10-22 og hefur skv. Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti þessarar glæsilegu húsaraðar. Húsið er eilítið stærra að grunnfleti en flest þessara húsa og jafnframt það eina sem skiptist eftir miðju í eignarhluta. Myndin er tekin í upphafi ársins sem senn er á enda, 10. janúar 2016. Hér að neðan má sjá gullregnið í haustskrúða, myndin tekin þann 4.okt. sl.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2016 | 15:26
Jólakveðja
(Myndin er tekin um hálfníuleytið í morgun 24.des; horft frá Strandgötu skammt ofan Eimskipabryggju og "Pollsins". Ljósum prýdd Brekkan og nyrsti hluti Innbæjar með Torfunefsbryggju og Akureyrarkirkju í forgrunni)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2016 | 21:02
Hús dagsins: Oddeyrargata 12
Oddeyrargötu 12 reisti Aðalsteinn Bjarnason, trésmiður frá Hlíðarhaga, árið 1928. Hann fékk leyfi til að reisa steinhús á einni hæð með háum kjallara, 8,8x7,6m að stærð. Teikningarnar af húsinu gerði Halldór Halldórsson. Haustið 1929 fékk Aðalsteinn leyfi til að reisa skúr á lóðinni, 6,4x4,3m. Þann 6.sept 1930 gerir bygginganefnd hins vegar athugasemd við skúrbyggingu Aðalsteins, hún fari í bága við byggingareglugerðir vegna hæðar og skuli hún rifin hvenær sem bærinn krefst þess, bænum að kostnaðarlausu. Skemmst er þó frá að segja, að enn stendur skúr á baklóðinni, 86 árum síðar. Hann er steinsteyptur (eða forskalaður), einlyftur með flötu þaki og raunar tvær álmur- sú nyrðri eilítið hærri. (Það var víst hæðin sem byggingarnefnd var ekki ánægð með á sínum tíma). Oddeyrargata 12 er steinsteypuhús í einföldum nýklassískum stíl, tvílyft eða einlyft á háum kjallara- jarðhæð- með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og krosspóstar í gluggum og inngöngudyr á miðri framhlið með gluggum beggja vegna. Fljótt á litið virðast hús nr. 12 og 14 vera einskonar systurhús, enda svipuð í megindráttum en í raun eru húsin nokkuð frábrugðin t.d. hvað gluggasetningu og innganga varðar. Þá eru þak nr. 12 mun lægra en nr. 14. Þó má geta þess, að Halldór Halldórsson teiknaði bæði húsin.
Á upprunalegum teikningum, sem sjá má í tengli hér að ofan, má sjá að húsið hefur frá upphafi verið skipulagt sem tvíbýli- alltént eru eldhús á báðum hæðum. Aðalsteinn, kona hans Halldóra Davíðsdóttir og börn þeirra bjuggu þarna um langt árabil. Sem áður segir var Aðalsteinn trésmiður og smíðaði hann og seldi m.a. skíði og ýmis konar smíðisgripi s.s. eikarílát. Ekki þykir mér óvarlagt að áætla að hann hafi starfrækt verkstæði sitt í bakhúsinu á lóðinni. Þarna bjó árið 1932 Jón Norðfjörð, skrifstofumaður, leikari og skátaforingi. Hann fór fyrir skátasveitinni Fálkum, sem var ansi stórhuga á þessum árum. Stóðu þeir fyrir ræktun Skátagilsins (sem þá var nafnlaust) og byggingu útileguskálans Fálkafells á Súlumýrum. Sá skáli stendur enn og er í fullri notkun - mikið breyttur og bættur frá upphafi. Sveitin gaf einnig út blaðið Akurliljuna sem var þeirra málgagn og auk þess auglýsingarit fyrir Akureyrskar verslanir og þjónustuaðila. Jón var ábyrgðarmaður blaðsins, sem virðist aðeins hafa komið út einu sinni- en mögulega hefur ætlunin verið að útgáfa blaðsins yrði árviss. Það er fróðlegt að skoða þetta 84 ára málgagn Fálka og þarna má sjá líkast til eina elstu mynd sem til er af Fálkafelli, sem sveitin reisti þá um sumarið. (Og hver veit, nema einhverjir úr hópi Fálka eða annarra Akureyrskra skáta hafi rennt sér upp í Fálkafell á skíðum frá Aðalsteini Bjarnasyni í Oddeyrargötu 12. "Ungur sveinn og ítur snót/ ei skal hræðast vetur hót / bindið skíði á fiman fót/ og fikrið ykkur upp í mót/ því uppi í Fálkafelli, því uppi í Fálkafelli, er allra meina bót. Þetta, eins og svo marga góða skátasöngva kvað Tryggvi Þorsteinsson ). )
Margir hafa búið í húsinu í lengri eða skemmri tíma þessa tæpu níu áratugi sem það hefur staðið. Það er í góðri hirðu og lítur vel út, á því er t.d. nýlegt þakjárn. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hefur líkast til verið svo frá upphafi. Myndin af húsinu er tekin 3.maí 2015.
Á lóðinni stendur Alaskaösp sem mun ein sú hæsta á Akureyri. Síðast þegar ég vissi, mældist hún 24,5m há en það skal haft í huga, að það var í trjágöngu Skógræktarfélagsins í lok ágúst 2013, fyrir rúmum þremur árum. Þannig að mögulega hefur hún náð 25-26 metrum í dag. Öspin á Oddeyrargötu 12 virðist þó í harðri samkeppni við aðra slíka handan götunnar, en sú stendur á Bjarmastíg 1. Sú síðarnefnda stendur raunar eilítið lægra. Á þessari mynd, sem tekin er má sjá þessar tvær aspir, Oddeyrargötuöspin vinstra megin. Fremst má sjá ljósastaur og þak Oddeyrargötu 16.
Hér má öspina við Oddeyrargötu 12 í öllu sínu veldi að vetri og sumri. Myndirnar teknar 10.jan 2016 og 31.ágúst 2013
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2016 | 08:43
Hús dagsins: Oddeyrargata 22
Ásgeir Kristjánsson og Júlíus Davíðsson fengu þann 17.feb 1930 lóð og byggingarleyfi 6.maí sama ár. Þeir fá að byggja steinsteypt íbúðarhús, 8,8x8m að stærð, tvílyft með niðurgröfnum kjallara undir hálfu húsinu. Í Húsakönnun 2015 er Halldór Halldórsson talinn líklegastur hönnuður hússins, en það er þó ekki vitað með vissu. Húsið er alltént mjög svipað næstu húsum neðan við þ.e. nr. 14 og 16 en þau hús teiknaði Halldór. Oddeyrargata 12 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, á lágum kjallara. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki, en krosspóstar í gluggum. Á götuhlið eru tveir inngangar og steyptar tröppur upp að þeim en einnig eru kjallaradyr að norðanverðu. Kjallari er útgrafinn undir öllu húsinu, enda þótt aðeins sé rætt um kjallara undir því hálfu í bókunum Bygginganefndar.
Húsið var frá upphafi tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð og bjó Júlíus og hans fjölskylda á neðri hæð og Ásgeir og hans fjölskylda á þeirri efri. Ein athyglisverðasta auglýsingin sem upp kemur á timarit.is sé leitað er eftir Oddeyrargötu 22 er vafalítið þessi frá sumrinu 1939, en þarna býður Ásgeir til sölu tvo fálkaunga. Fálkar hafa líkast til aldrei verið algeng húsdýr eða gæludýr hér á landi. Þá seldi Ásgeir hér af og til hrossakjöt sem líkast hefur verið “beint frá býli”.
Oddeyrargata 22 er einfalt og látlaust hús af nokkuð algengri gerð steinhúsa þessa tíma (um 1930). Það er hluti nokkuð heildstæðrar torfu svipaðra húsa sem standa við vestanverða Oddeyrargötuna, milli Krabbastígs og Hamarstígs og byggð eru frá 1927-30. Þessi húsaröð er metið til varðveislugildis 1 í Húsakönnun Akureyrarbæjar og Teiknistofu arkitekta, sem hluti þessarar húsaraðar sem sögð er samstæð og áhugaverð. Sambærilega húsaröð er ekki að finna annars staðar Akureyri en mörg svipuð stök hús má finna í bænum t.d. við Brekkugötu 37, Oddagötu 5 og Norðurgötu 26 og Eiðsvallagötu 20 á Oddeyri. Húsið er í góðri hirðu og er til prýði og lóð er einnig vel gróin. Sunnan við húsið eru nokkur reynitré og eitt grenitré, sem ég myndi giska á að væri annaðhvort rauðgreni eða sitkagreni. Myndin er tekin þann 5.mars 2016.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).
Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2016 | 15:53
Hús dagsins: Oddeyrargata 24
Um uppruna hússins á Oddeyrargötu segir í Jónsbók, að Jón Hallur Sigurbjörnsson og Pétur Tómasson fái lóð í mars 1929 og í september sama ár fái Samvinnubyggingafélagið leyfi til að reisa hús fyrir þá Jón Hall og Pétur. Húsið átti að vera 9x10m að stærð og það teiknaði Sveinbjörn Jónsson. Upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu; hafa kannski ekki varðveist. “Opinbert” byggingarár, þ.e. Skráð byggingarár í Fasteignaskrá er 1936 en engu að síður kemur heimilisfangið Oddeyrargata 24 fyrst fyrir í dagblöðum árið 1933. Þannig að mögulega er húsið byggt um 1930-33. Eins má vel vera, að bygging hafi hafist skömmu eftir veitingu byggingarleyfis en húsið ekki talist fullgert fyrr en sjö árum síðar- og byggingarár miðist við það (Lesendur þessara pistla hafa líkast til fyrir löngu áttað sig á, að ártöl skipta höfund öllu máli
). En ljóst má vera, að húsið er á níræðisaldri þegar þetta er ritað.
Oddeyrargata 24 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á lágum kjallara. Fjórir kvistir með gaflsneiðingi eru á þaki hússins, þ.e. á hverri hlið og framan á suðurkvisti eru svalir. Inngangar eru á götuhlið og bakhlið og yfir þeim svalir sem standa á steyptum súlum “[...] í klassískum anda, en grófgerðar [...]” (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekra, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2016:204) Bárujárn er á þaki en skiptir krosspóstar eru í gluggum.
Húsið var í upphafi tvær íbúðir, enda byggt fyrir tvo menn og fjölskyldur þeirra en ekki er ólíklegt aað fleiri en tvær fjölskyldur hafi búið samtímis í húsinu á einhverjum tímapunkti. Í þessu húsi er Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur fæddur, en móðurforeldrar hans þau Stefán Ágúst Kristjánsson forstjóri og Sigríður Friðriksdóttir áttu húsið á þeim tíma. Húsið hefur frá upphafi tekið nokkrum breytingum en mun hafa fengið það lag sem það nú hefur árið 1981, þegar stóru kvistirnir voru byggðir og rishæðin byggð upp. Kvistirnir setja óneitanlega mikinn svip á húsið sem er bæði reisulegt og glæst. Húsið stendur á áberandi stað á horni Oddeyrargötu og Hamarstígs, og stendur húsið mun hærra en gatan, nánast að húsið standi á litlum hól. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 21.febrúar 2016.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2016 | 08:30
Hús dagsins: Oddeyrargata 23
Friðgeir H. Berg fær leigða lóð í ársbyrjun 1926 og byggingaleyfi mánuði síðar. Hann fær leyfi til að reisa einlyft hús, steinsteypt með porti og kvisti, að ummáli 8,75x7,53, og ári síðar mun húsið fullbyggt. Skráð byggingarár þess er alltént 1927. Höfundur hússins er ókunnur, enda virðast teikningar ekki hafa varðveist- þær eru alltént ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Ef sá sem þetta ritar ætti að giska þættu mér Tryggvi Jónatansson eða Halldór Halldórsson e.t.v. líkleg nöfn.
Oddeyrargata 23 er einlyft steinsteypuhús á háum grunni og með háu risi. Miðjukvistur er á framhlið og annar smærri kvistur á bakhlið. Aðkoma er að húsinu að þeirri hlið frá Bjarmastíg, en húsið stendur á horni gatnanna- og er efsta húsið við austanverða Oddeyrargötu. Á norðurhlið er forstofubygging með valmaþaki. Bárujárn er á þaki hússins og í gluggum þrískipt efra fag, lárétt en neðri hlutar með lóðréttum pósti í miðju. Árið 1933 er Valdemar Antonsson orðinn eigandi hússins skv. Jónsbók, en meðal íbúa hússins árið 1930 var Jón J. Bergdal. Hér má auglýsingu frá honum, þar sem hann auglýsir iðju sína, en hann stundaði bókband. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, lengst af einbýli, en í kjallara hússins var um tíma starfandi auglýsingastofa. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi, a.m.k. að ytra byrði. Það er af mjög algengri gerð steinsteypuhúsa frá 3. og 4.áratug 20.aldar, steinsteypuklassík. Það svipar nokkuð til húsanna handan götunnar, Oddeyrargötu 30 og 32 og þetta húsalag var heldur ekki óalgengt til sveita. þ.e. Steinhús á einni hæð á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Húsið lítur vel út og er í góðri hirðu og nýtur sín vel á stórri og gróinni lóð, hvort sem horft er frá Bjarmastíg eða Oddeyrargötu. Myndin er tekin þann 5.mars 2016.
Heimildir:
Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933.
Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2016 | 11:20
Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 10
Þann 8.júní 1931 gaf Bygginganefnd Akureyrar út leyfi til byggingar m.a. tveggja húsa við Hrafnagilsstrætið, sem þá voru h.u.b. efstu mörk þéttbýlis á Akureyri. Annars vegar það Jón Sveinsson bæjarstjóri sem fékk að reisa Hrafnagilsstræti 4 og hins vegar Benedikt Pétursson Söbeck sem fékk á reisa íbúðarhús á lóð sinni, næst norðan Snorra Sigfússonar. Þess má geta, í bókunum Bygginganefndar eru yfirleitt ekki tilgreindar götur eða númer heldur einungis miðað við afstöðu miðað við næstu lóðir eða hús. Og þær lóðir eða hús ævinlega kenndar við eigendur eða íbúa- ekki númer.
Íbúðarhús Benedikts skyldi einlyft á háum kjallara með risi og viðbyggingu að austan. Skyldi viðbyggingin 7,5x2,3 að stærð og húsið sjálft 8,2x7,5m. Alls yrði húsið því 10,5 á lengd og 7,5 á breidd eða 82,5 fermetrar að grunnfleti. Teikningarnar af húsinu gerði Halldór Halldórsson og til er nákvæm byggingarlýsisng fyrir húsið: Það byggt úr steinsteypu og forstofa úr r-steini og húsið innréttað úr timbri og einangrað með mómold (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir o.f.l. 2016: 67). Á risi hússins er miðjukvistur en hann kom á húsið á öðru ári þess, en þann 23.jan 1933 fékk Benedikt leyfi til að setja kvist á hús sitt. Litlu síðar, eða 1934 var byggð forstofubygging með svölum ofan á við vesturgafl og mun húsið þá hafa fengið það lag sem það nú hefur. Löngu síðar, eða 1983 var byggður sólskáli á forstofubygginguna frá ´34.
Hrafnagilsstræti 10 er reisulegt og stórbrotið hús, tvílyft með háu risi og miðjukvisti og einlyftri viðbyggingu með svölum og sólskála á vesturhlið. Viðbygging að austan er að hluta tvílyft og með svölum út úr risi en syðsti hluti hennar er á einni hæð með svölum til suðurs. Inngangar m.a. eru á viðbyggingum til suðurs. Bárujárn er á þaki og í flestum gluggum eru krosspóstar en í smærri gluggum hússins eru einfaldir lóðréttir póstar. Allir gluggar á framhlið eru “ein og hálf” breidd. Húsið var um áratugaskeið í eigu sömu fjölskyldu og hefur alla tíð verið íbúðarhús. Tvær íbúðir eru í húsinu, á neðri hæð og í efri hæð og risi. Samkvæmt Húsakönnun hefur húsið miðlungs varðveislugildi sem hluti húsaraðannir við Hrafnagilsstræti. Húsið lítur mjög vel út og er í góðri hirðu. Myndin er tekin sl. vor, nánar til tekið þann 18.maí.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 663, 8.júní 1931. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933.
Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.5.): 0
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 258
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 162
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar