Hús dagsins: Lónsstofa á Skipalóni; 200 ára í ár

Í samanburði við nágrannalönd okkar eru íslensk mannvirki frekar „ung“. Á Norðurlöndunum, að ekki sé minnst á Bretlandseyjar og meginland Evrópu, standa heilu borgirnar, eða borgarhlutar, IMG 1932sem byggðar voru á miðöldum og eru þannig mörg hundruð ára gamlar. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um aðstöðumun þessara landa og Íslands á fyrri öldum, hvað varðaði aðgang að byggingarefni, íbúafjölda, samfélagsgerð og annað slíkt. Þá hafa einnig ótal margar byggingar og menningarminjar  farið forgörðum gegnum tíðina. En hérlendis teljast byggingar, byggðar fyrir 1923, aldursfriðaðar (miðaðist raunar við 100 ára aldur til ársloka 2022). Á Eyjafjarðarsvæðinu skipta hús eldri en 100 ára á að giska fáeinum hundruðum; á Akureyrarsvæðinu gætu þau t.d. verið á þriðja hundrað, þegar þetta er ritað. Hús eldri en 200 ára eru hins vegar aðeins örfá og heyrir það raunar til tíðinda, að eitthvert hús á Eyjafjarðarsvæðinu nái því marki. Á Akureyri gerist það ekki fyrr en árið 2035, að Gamli Spítalinn og mögulega (heimildum ber ekki saman) elsti hluti Gránufélagshúsanna á Oddeyrartanga, Skjaldarvíkurstofan, nái 200 árunum. Veita þau þá Laxdalshúsi kærkominn félagsskap í hópi „tvæöldunga“ innan Akureyrar. Nokkrum árum síðar bætast svo Frökenarhús, Lækjargata 2a og Aðalstræti 52 í þennan hóp og þegar 21. öldin verður hálfnuð ættu um fimmtán Akureyrarhús að hafa náð 200 árunum. Áður en fjölgar í „200 ára klúbbi“ Akureyrar árið 2035 munu tvö hús hafa náð þessum mjög svo virðulega áfanga í Hörgársveit; Hofstofa árið 2028 og svo vill til, að á þessu ári er 200 ára afmælisár Lónsstofu á Skipalóni. En hana byggði Þorsteinn Daníelsson árið 1824.

Skipalón- lýsing og forsaga

Skipalón stendur  yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugnahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. IMG 1930Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum, upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg, um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg vestanmegin, um Hlaðir og að Moldhaugnahálsi.

                Skipalón hefur löngum aðeins kallast Lón og er nefnt svo í Landnámu. Í þessari grein verða bæði heiti notuð jöfnum höndum. Sögu jarðarinnar má rekja til landnáms en þar settist að Eysteinn Rauðúlfsson, sem nam land allt frá Bægisá og gervalla Þelamörk að Kræklingahlíð. Um hann virðist næsta lítið vitað, en hann mun hafa fæðst um 870 og gæti mögulega hafa numið land að Lóni um eða upp úr 900. Son átti Eysteinn sem hétIMG 1923 Gunnsteinn og á meðal barna hans var Halldóra, eiginkona Víga- Glúms Eyjólfssonar. Í landi Lóns er svonefnd Gunnsteinsþúfa og segir sagan að Gunnsteinn sé heygður þar. Sögu Lóns frá öndverðu má að sjálfsögðu gera skil í löngu máli en við bregðum okkur hins vegar frá landnámsöld og til loka 18. aldar. Þó má geta þess, að ekki er ólíklegt, að líf og fjör hafi verið á Lóni á miðöldum, þegar helsti samkomu- og verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. En það var árið 1793, að þau Daníel Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir settust að á Lóni. Á meðal barna þeirra var Þorsteinn, sem fæddist þremur árum síðar, en hann bjó á staðnum allt til æviloka í hárri elli. Hann reisti þar hús sem enn standa, tveimur öldum síðar.

Þorsteinn Daníelsson forsmiður - Lónsstofa

Þorsteinn Daníelsson var sem fyrr segir fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni og bjó þar mestalla sína ævi, utan fáein ár sem hann dvaldist á Akureyri og í Danmörku. En á síðarnefnda staðnum dvaldist hann veturinn 1819-20, nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið. Prófstykki hans var saumakassi úr mahóní með inngreyptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, og hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Tæpum fjórum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Þorsteinn hafði sem fyrr segir, haft hug á uppbyggingu og hófst þegar handa við byggingu timburhúss.  Er þar komin Lónsstofa.IMG 1920

Lónsstofa er einlyft, stokkbyggt timburhús, þ.e.a.s. það er ekki byggt með hefðbundinni grind (bindingsverki) heldur hlaðið úr bjálkum, með háu risi og miðjukvisti. Húsið er múrhúðað eða steypt utan um það en bárujárn er á þaki. Kvistur er einnig bárujárnsklæddur. Í flestum gluggum eru margskiptir póstar en krosspóstur í kvistglugga. Grunnflötur Lónsstofu er 6,72x10,44m. Áfast húsinu norðanmegin er steinsteypt gripahús sem mælist um 10x10m á kortavefnum map.is. Upphaflega var Lónsstofa áföst gömlum torfbæ að norðan.  

Í ævisögu Þorsteins Daníelsson segir Kristmundur Bjarnason afar ítarlega frá byggingu og tilurð hússins ásamt mjög greinargóðri lýsingu á því, hvernig þar var til háttað í tíð Þorsteins. Byrjum á grunninum (og það bókstaflega): „Grunnur hússins er hlaðinn úr grjóti og virðist enn...[1961] all traustur, og er húsið ekki fest á neinn hátt í grunnhleðsluna, og gizka [svo] byggingafróðir menn á, að afstýfing og styrkur grindarinnar hafi helst stuðlað að því að halda húsinu á grunni sínum, en ekki er vitað til þess, að það hafi nokkurn tíma haggast af grunni sínum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:211). Sá þótti nefnilega mikill ókostur við timburhús 19. aldar að þau vildu skekkjast eða jafnvel fjúka og brotna í illviðrum, kirkjum var t.d. sérlega hætt við þessu. Mun Þorsteinn hafa haft eitthvert sérstakt lag á því, að ganga þannig tryggilega frá timburhúsum að þau bifuðust ekki í ofviðrum og kunnað það fyrstur manna norðanlands. Gefum KristmundiIMG 1941 Bjarnasyni aftur orðið: „Efniviður hússins er hörð og mjög góð fura og er grindin úr 3“ [3 tommu] plönkum sem lagðir eru láréttir og tappaðir saman. Stoðir munu vera undir hverri sperru, og plankarnir lagðir í spor í þeim, þannig að endar skorðist vel. Sperrur eru tappaðar í mæni og skammbitar þannig inni í sperrur. Utan og innan á plankaveggina hefur síðan verið klætt lóðrétt breiðum borðum. Einangrun er í húsinu er engin önnur en sú, sem er í plönkunum og mun þessi byggingarháttur ekki krefjast annarrar einangrunar í útveggjum“ (Kristmundur Bjarnason 1961:212). Eitt sem nýstárlegt var við Lónsstofu var, að á henni voru „upploksgluggar“ eða opnanleg fög en á þessum tíma þótti mikilvægast að loka fyrir hverja glufu. Þá voru gluggahlerar fyrir gluggum neðri hæðar en það tíðkaðist almennt með timburhús. Á dyrahellunni var höggvið ártalið 1824 (sést móta fyrir á meðfylgjandi mynd, sést væntanlega betur ef mynd ef er stækkuð). og einnig nafn og ártal útskorið yfir dyrum. Úr forstofu var gengið í eldhús á  hægri hönd en bestu stofu til vinstri. Besta stofa var einnig skrifstofa Þorsteins. Þá var einnig verkstæði Þorsteins í norðurhluta neðri hæðar en árið 1843 stækkaði hann við sig svo um munaði, með Smíðahúsinu, sem stendur fast austan Lónsstofu. Þá var einnig svokölluð daglega stofa og hjónaherbergi á neIMG 1918ðri hæð. (Höfum í huga, við upptalningu allra þessara rýma, að grunnflötur Lónsstofu er eitthvað um 70 fermetrar).  Gengið var upp á efri hæð úr eldhúsinu að norðan. Norðurhluti rishæðar skiptist í Piltaloft og Geymsluloft, hið síðarnefnda fyrst og fremst matargeymsla. Þá var svokallað Vesturloft, þar sem þjónustustúlkur höfðu að jafnaði persónulega muni, en þær sváfu yfirleitt í dagstofunni á neðri hæð. Suðurloft var yfir bestu stofu og var það gestaherbergi en inn af því súðarherbergi að austan, þar sem skrifarar Þorsteins höfðu aðsetur sitt. Efst undir rjáfri var svokallað Hanabjálkaloft, lágt og illa nýtilegt geymsluloft. Þangað lá stigi  (og liggur kannski enn)  úr skipinu Det Gode Haab, sem strandaði við Gásir haustið 1818 (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961: 214-215).IMG 1924

Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt. Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni. Hann fékkst einnig við útgerð og jarðrækt,brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og ætlaðist til þess sama af öðrum. Sumum þótti vinnuharka hans raunar keyra fram úr hófi og  sumarið 1844 gripu smiðir hans við byggingu Munkaþverárkirkju til aðgerða, sem kannski má kalla einhvers konar vísi að fyrstu verkfallsaðgerðum hérlendis. Héldu þeir fund þar sem þeir ákváðu að leika á Þorstein, þannig að hann fyndi sig knúinn til að yfirgefa svæðið. Þóttist einn smiðurinn dotta, og þegar Þorsteinn hastaði á hann, sagðist hann hafa dreymt Grím amtmann fara heim að Lóni. Grímur var mjög góður vinur frú Margrétar og mun Þorsteinn hafa verið mjög á varðbergi gagnvart vinskap þeirra (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). Gekk þetta eftir, Þorsteinn snaraðist heim að Lóni og væntanlega hafa smiðirnir nýtt fjarveru hans til að slaka á. Hann hefur væntanlega verið drjúgan tíma í burtu, því milli Munkaþverár og Skipalóns eru um 35 kílómetrar og ekki voru bílar, vegir eða brýr árið 1844. Jón Sveinsson eða Nonni átti heima á Möðruvöllum sem barn og hefur líkast til verið heimagangur á Skipalóni. Ein af sögunum í barnabókum hans nefnist einmitt Jól á Skipalóni og segir þar frá baráttu Nonna, Manna og Lónsfólksins við ísbirni. Skipalónsþætti Nonna og viðureigninni við birnina voru gerð skil á eftirminnilegan hátt í þýsku sjónvarpsþáttaröðinni um ævintýri þeirra bræðra, sem gerð var árið 1988. (Sjá hér í lok 3. og upphafi 4. þáttar. Rétt er að geta þess, að Þorsteinn sá, er bræðrunum og HaraIMG 1917ldi vini þeirra verður tíðrætt um í lok þriðja þáttar, er alls ekki Þorsteinn Daníelsson heldur skálduð persóna, sem var hinn argasti þrjótur í þáttunum).

                Sem fyrr segir bjuggu þau Þorsteinn og Margrét hér til æviloka, hún lést sumarið 1881 og hann í desember 1882. Þorsteinn sinnti húsasmíðum langt fram á efri ár, hann tók m.a. þátt í að taka niður  Skjaldarvíkurstofu, Ólafs Briem (byggð 1835) og byggja hana upp á Oddeyri, á vegum Gránufélagsins, árið 1873. Þess má reyndar geta, að tíu árum fyrr hafði Þorsteinn keypt Oddeyrina en seldi Gránufélaginu drjúgan hluta hennar árið 1871. Síðasta hús sem hann byggði mun hafa verið Tugthúsið í Búðargili. Það var byggt árið 1874 stóð neðarlaga gilinu en brann til ösku snemma árs 1938.  Um 1880 var Þorsteinn, þá kominn vel á níræðisaldur, með hugann við það framfaramál, að brúa Hörgá. Hugðist hann gefa töluvert fé til byggingarinnar, en hann átti sem fyrr segir mikil auðævi og ekki áttu þau Lónshjón neina lögformlega erfingja.  Þorsteinn hafði meira að segja komið upp líkani að fyrirhugaðri brú. En „hins vegar rann þessi fyrirætlun út í sandinn sökum sljóleika Danielsens“ (Kristmundur Bjarnason 1961:515). Hörgá var ekki brúuð fyrr en upp úr aldamótum 1900.

Þorsteinn Daníelsson og Þorsteinn Daníelsson

Það vill nú svo til, að það er ekki einn Þorsteinn Daníelsson sem kemur við sögu Lónsstofu heldur eru þeir tveir. Ásta, systir Þorsteins, átti soninn Daníel, sem átti soninn Þorsteinn. Sá var fæddur í janúar 1858 og var tvítugur árið 1878 er hann og móðir hans hugðust flytja til Ameríku. Höfðu þau selt allar sínar eigur, nema Þorsteinn átti enn hnakkinn sinn. Kom það sér vel, þegar ömmubróðir hans og alnafni bað hann að finna sig á Lóni. Erindi hans, var að biðja Þorstein yngri að taka við Lónsjörðinni að sér látnum. Ekki fylgir sögunni, hvort eða hversu lengi Þorsteinn yngri hafi hugsað sig um, en hann gekk að þessu og skemmst frá því að segja, að hann bjó að Lóni til æviloka árið 1941. Þannig má segja, að í meira en 100 ár hafi eigandi Skipalóns verið Þorsteinn Daníelsson! 

Árið 1918 voru húseignir á Skipalóni metnar til brunabóta og Lónsstofu þá lýst á eftirfarandi hátt: Timburhús, 16x10 álnir  með járnklæddum kvisti, plankahús með klæðningu utan og innan og þreföldu timburþaki. Skiptist húsið í 6 herbergi niðri og stærð þeirra getið, herbergi a) 4x5 al., herbergi b) 4 ½ x 2 ½ álnir, herbergi c) 5x5 álnir, herbergi d) og e) eru IMG 1927hvort um sig 6x3 ½ álnir, og herbergi f) 5x4 ½ álnir.  Á neðri hæð eru og þrjú eldstæði niðri við múrpípu, fjögur föst rúmstæði og skilvinda. Á lofti eru sex herbergi með eldstæði við múrpípu. Kvistur á húsinu að stærð 6x3 álnir. Þess má geta, að mál hússins eru sett fram með nokkuð sérstæðum hætti; t.d. er húsið sagt 16+10+3+5 álnir að stærð og herbergin sögð t.d. 4+5+3 álnir. Greinarhöfundur getur sér til, að fyrri tvær tölurnar séu grunnflötur en þriðja talan hæð. Þannig sé stærð hússins 16x10 álnir að grunnfleti, hæð upp að þakskeggi 3 álnir og hæð þaks 5 álnir. Þá er þriðja máltalan í herbergjastærðinni í öllum tilfellum 3 álnir.  Hins vegar eru 3 álnir aðeins um 190 cm, sem er fremur tæp lofthæð. Það getur hins vegar vel staðist, að hæð hússins sé um 8 álnir, sem mun nærri 5 metrum. Þá segir í lýsingunni: „Húsið er orðið gamalt (bygt 1824) [svo] en hefur verið mjög vel bygt og er enn vel stæðilegt og að mestu ófúið“ (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1918: nr. 24). 

                Ekki er ljóst hvenær kvistur var byggður á húsið en fyrir liggur, að hann var ekki á húsinu frá upphafi. Kvistlaus Lónsstofa sést á málverki eftir Kristínu Jónsdóttur, sem sjá má á bls. 209 í ævisögu Þorsteins Daníelssonar. Hvorki er getið ártals, né hvort myndin sýni bæinn eins og var þegar verkið var málað, en verkið gæti verið frá 2. áratug 20. aldar. Það er þó alltént ljóst, að kvistur var kominn á húsið árið 1918.  Steypt mun hafa verið utan um Lónsstofu um 1930 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:209) og mögulega hefur Þorsteinn Daníelsson yngri staðið fyrir þeirri framkvæmd, eða ábúendur sem tóku við af honum um það leyti (sjá nánar síðar um ábúendur).  Gluggaskipan framhliðar virðist þó næsta lítið breytt, ef marka má gamlar myndir. Frá upphafi var húsið áfast eldri torfbæ að norðanverðu en núverandi gripahús reist á grunni hans.  Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 kemur fram, að á bænum standi fjós frá 1945 og mjög sennilegt, að þar sé um að ræða hús sem áfast er íbúðarhúsinu að norðan. Sama fjós er a.m.k. sagt steinsteypt í Byggðum Eyjafjarðar 1970 en fjárhús frá 1920 úr timbri og torfi. Svo vill til, að byggingarár annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókinni en svo er hins vegar í þeirri yngri. Þar er byggingarefna hins vegar ekki getið.

Ábúendur og búsaga Skipalóns á 20. öld - Lokaorð

Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 eru Þorsteinn Daníelsson yngri og Gunnlaug Margrét Gunnlaugsson sögð búa hér til ársins 1930 en í ársbyrjun 1941, þegar Þorsteinn lést, er hann sagður hafa látist á heimili sínu, Skipalóni. Svo þau virðast hafa búið hér áfram á efri árum, þó aðrir tækju við búinu. Frá 1930 virðist vera tvíbýlt á Skipalóni, þar búa annars vegar þau Sveinn Benediktsson og Ingibjörg Jónsdóttir og hins vegar þau Sigurjón Kristinsson og Margrét Ragna Þorsteinsdóttir. Fyrrnefndu hjónin bjuggu hér í fjögur ár, eða til 1934 en þau síðarnefndu til ársins 1948. Þá fluttu að Skipalóni þau Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg HallfríðurIMG 1946 Kristjánsdóttir frá Gásum (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 573). Árið 1970 er búrekstur þeirra Snorra og Sigurbjargar eftirfarandi: 13 kýr, 2 geldneyti, 100 fjár, 4 hross, 45 gæsir og 5 geitur. Túnstærð tæpir 13 hektarar og töðufengur um 600 hestar. Hlunnindi eru einnig talin nokkurt æðavarp og silungsveiði (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 209). Árið 1990, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í samnefndu ritverki var bústofninn 17 fjár, 6 geitur, 15 hænur og 20 alifuglar. Ræktað land var réttir 13 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993 :572). En í ritinu Byggðir Eyjafjarðar árið 2010 er Skipalón farið í eyði, og það mun hafa gerst árið 1997 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:355).  Snorri Pétursson lést árið 1995 og mun Sigurbjörg hafa flust héðan skömmu eftir lát hans.

                Sumarið 1981 heimsótti Ómar Ragnarsson Skipalón og heilsaði upp á Snorra Pétursson og myndarlegan gæsahóp hans. Afraksturinn var tæplega tveggja mínútna innslag í Stikluþættinum Saga í grjóti og grasi. Þar vakti e.t.v. mesta athygli hundur Snorra, sem bundinn var við rauðan Renault bifreið af árgerð 1946, sem stóð í hlaðinu. Hundurinn var bundinn við bílinn, svo hann styngi ekki af til Akureyrar! Nefnilega, ef hann fékk færi á, brá hundurinn sér þessa 14 kílómetra leið í bæinn, fór eftir öllum umferðarreglum og spásseraði um strætin eins og fínn borgari! Greinarhöfundur veit ekki til þess, að þáttur þessi sé aðgengilegur nema á gamalli VHS-myndbandsspólu. Svo ef lesendur komast yfir VHS-tæki og Stikluspólu nr. 2 er svo sannarlega mælt með þessum þætti. Almennt mælir greinarhöfundur  eindregið með Stiklum Ómars Ragnarssonar, fyrir alla þá sem vilja auðga vitneskju sínu og auka skilning á landinu og staðháttum. Þættirnir eru mjög merkt framtak til kynningar á landsháttum og náttúru en auk þess að vera mjög fróðlegir eru þeir einnig afar skemmtilegir. 

                Jörðin Skipalón mun vera í eigu afkomenda Snorra Péturssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur. Lónsstofa hefur hins vegar verið í umsjón Þjóðminjasafnsins frá árinu 1985 og telst hluti húsasafns þess. Smíðahúsið hefur hins vegar verið í umsjón safnsins frá 1976 og var það gert upp um svipað leyti. Lónsstofu bíða hins vegar gagngerar endurbætur, svo sem sjá má á meðfylgjandi myndum.  Væntanlega myndu slíkar endurbætur miða að því, að færa það til upprunalegs horfs. Í lýsingum á húsinu er mjög haft á orði, hversu vel viðað húsið er. Múrhúðun timburhúsa, sem þótti hin mesta bót áLonsstofa teikning sínum tíma hefur í seinni tíð reynst vera algjört skaðræði, hún m.a. lokar auðvitað algjörlega fyrir öndun timbursins, sem er að stofni til lífrænt efni. En það er vonandi að sem mest af nýtilegum og óskemmdum viði leynist undir steypukápunni, sem hjúpað hefur hina 200 ára gömlu Lónsstofu í tæpa öld. Greinarhöfundur ákvað að gamni sínu, að rissa upp teikningar, byggðar á gömlum myndum, að upprunalegu útliti Lónsstofu, með og án kvists, en upprunalega mun húsið hafa verið kvistlaust.  Þá er spurning í hvað húsið gæti nýst, því húsum fer auðvitað ekki vel að standa auð og ónotuð, líkt og bátar sem fúna í naust, best er að þau séu notuð. Lónsstofa gæti auðvitað orðið fyrirtaks safnahús, kannski „útibú“ frá Nonnahúsi vegna tengsla við sögurnar hans. Kannski væri hægt að reka þarna veitinga- og kaffihús yfir sumartímann. Þá væri mögulega hægt að leigja húsið til dvalar og afnota í sérstökum tilgangi, kannski gæti einhver hugsað sér að búa þarna. Hver veit. Eitt er víst, að húsin á Skipalóni eru mikil prýði í fallegu umhverfi, bæjarstæðið tilkomumikið og skemmtilegt og býður eflaust upp á fjölmarga möguleika. Þá má segja, að sagan drjúpi hér af hverju strái, hvort sem er vegna nálægðar við hinn forna Gásakaupstað eða húsanna; hinna geðþekku minnisvarða um athafnamanninn og brautryðjandann Þorstein Daníelsson. Lónsstofa var friðlýst árið 1990 á grundvelli þjóðminjalaga.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024. Myndina, þar sem greinarhöfundur er í forgrunni tók Árni Már Árnason. 

Þess ber að geta hér, að húsin á Skipalóni eru ekki aðgengileg almenningi og heimreiðin lokuð. Greinarhöfundur fékk hins vegar góðfúslegt leyfi Þjóðminjasafnsins til þess að fara að húsunum og ljósmynda þau. Hinum bestu þökkum er hér með komið á framfæri til Ölmu Sigurðardóttur hjá Þjóðminjasafninu fyrir að veita þetta leyfi, sem og Sædísi Gunnarsdóttur hjá Minjastofnun sem hafði milligöngu en höfundur leitaði fyrst til hennar. 

 

Heimildir: Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.


Hús dagsins 15 ára

Það er víst kominn hálfur annar áratugur síðan ég settist niður að morgni dags, 25. júní 2009, og birti mynd af Norðurgötu 17, Steinhúsinu og ritaði um húsið fáein orð. Þess má geta að kvöldi þess sama dags, bárust heimsbyggðinni þær fréttir, að ein skærasta poppstjarna sögunnar, Michael Jackson, væri látinn. Ég held ég hafi rakið þessu sögu árlega mögulega 10 sinnum, en þessi skrif undu upp á sig. Ég hef ekki tölu á "Hús dagsins" pistlunum en þeir gætu verið um 1000. Ólíku er reyndar saman að jafna, pistlarnir frá fyrstu árunum eru kannski fyrst og fremst hugsaðir sem stuttir myndatextar. Á síðasta ári komu skrif þessi, eða öllu heldur skrif byggð á því sem m.a. hefur birst hér, út á bók, Oddeyri Saga hús og fólk í samvinnu við Kristínu Aðalsteinsdóttur. Og vel á minnst, sú bók er enn fáanleg og til sölu hjá okkur höfundum og í Eymundsson. 

Ekki hef ég ætlað mér að gera þessu afmæli "Húsa dagsins" skil með neinum sérstökum hætti nema e.t.v. slá því saman við annað stór-merkisafmæli; 14 kílómetra norðan Akureyrar, í Hörgársveit, nánar tiltekið á Skipalóni stendur látlaust forskalað timburhús sem á hvorki meira né minna en 200 ára afmæli í ár! Þannig að á 15 ára afmæli "Húsa dagsins" birtist 200 ára afmælispistill Lónsstofu. Og líkt og síðasta sumar, verða Hús dagsins "send í sveit" líkt og börnin forðum, á eftir Lónsstofu bregð ég mér fram í Eyjafjarðarsveit en ekki lokuð fyrir það skotið, að okkur beri niður víðar við Eyjafjörðinn.  


Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð

Á þeim tæplega 400 metra langa kafla, sem Hafnarstrætið sveigir upp í brekkuna á svonefndu Barðsnefi, ber mest á fjórum húsum sem öll eru byggð á árunum kringum aldamótin 1900. Hæst ber auðvitað Samkomuhúsið, með sínum skreyttu burstum og oddmjóa turni en sunnan þess eru öllu látlausari hús; Gamli Barnaskólinn og fyrrum amtmannsbústaður, sem skátar nefndu í sinni tíð Hvamm. Nyrst í þessari þyrpingu er einnig áhugavert og stórbrotið hús, sem stendur hátt upp í brekkunni og umvafið gróskumiklum skógarreit. Hér er um að ræða Hafnarstræti 63, sem byggt er 1901 og kallað Sjónarhæð.

Forsaga og lýsing

Árið 1898 fluttist Englendingurinn FrederIMG_1773ick Jones að á Íslandi. Hafði hann fengið trúarlega köllun, eftir að hafa lesið boðskap frá landa sínum, Alexander Marshal. Marshall hafði skömmu áður dvalist hérlendis og lét þau boð út ganga, að hér væri aldeilis þarft að stunda trúboð og breiða út kristilegan boðskap. Jones bjó fyrst á Húsavík en fluttist fljótlega til Akureyrar þar sem hann festi kaup á hálfum hektara lands í brekkunum ofan Hafnarstrætis og hugðist reisa þar samkomusal. Var það þann 18. mars árið 1901 að Bygginganefnd úthlutaði Jones  byggingaleyfi og var það eftirfarandi: „32 álna langt og 12 álna breitt [hús], skuli standa brekkumegin við götuna meðfram Leikhúsinu og ganga jafnt því til suðurs og stefna eins og það og gatan. Millibilið milli húshornanna að sunnan sé 19 álnir. Tröppurnar frá götunni upp að húsinu, og fyrirhugaðri girðingu milli þeirra, gangi ekki nær vesturjaðri götunnar en 5 álnir“ (Bygg. nefnd. Ak. nr. 199, 1901). Með öðrum orða, hús Frederick Jones skyldi vera um 20x8,8m að grunnfleti, suðurstafnar hússins og Leikhússins handan götunnar í sömu línu með 12 metra bili á milli. Umrætt leikhús er Hafnarstræti 66, sem Gleðileikjafélagið hafði reist árið 1896. Það hús brann til grunna um miðja 20. öld.IMG_1760

Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er timburhús sem skipta mætti í tvær álmur. Syðri hluti hússins er tvílyftur með lágu risi en nyrðri hluti einlyftur með örlítið brattara risi. Allt er húsið á háum, steyptum kjallara og syðst er hann lítið sem ekkert niðurgrafinn, þar sem hann skagar út úr brekkubrún.  Syðst er einnig steinsteypt viðbygging með mjög aflíðandi, allt að því flötu þaki og stendur hún öllu neðar en húsið sjálft, má segja að hún skagi út úr kjallaranum. Á vesturhlið (bakhlið) er vinkillaga útskot sem nær utan um norðvesturhorn syðra húss og tengist þannig báðum álmum. Krosspóstar eru í flestum gluggum, panell eða vatnsklæðning á veggjum og bárujárn á þaki. Húsið stendur hátt ofan götu, á brún snarbrattrar brekku og upp hana liggja 25 tröppur á  timburpall, sem nær nokkurn veginn meðfram framhliðinni.  Grunnflötur suðurálmu er nærri 10x7m, norðurálmu 8x12m og viðbygging að sunnan um 13x3m. Útskot á bakhlið er eitthvað nærri 3x3m og anddyrisbygging að norðan um 6x2m. (Ónákvæmar mælingar af map.is).

   Frederick Jones, sem byggði húsið, stóð hér fyrir trúarlegum samkomum sem nutu mikilla vinsælda. Sjálfsagt var trúrækni almennt þó nokkur hér og auðvitað var almennt framboð samkvæma og afþreyingar afar takmarkað í upphafi 20. aldar. Það er ólíklegt að Jones hafi verið kunnugt um ríginn milli Oddeyrar og Akureyrar þegar hann settist hér að. En mögulega hefur hann fljótlega komist að raun um ástæðu þess, að amtmaður hafði reist hús sitt á þessum slóðum, sem og leikhúsið ásamt hinum glænýi Barnaskóli  höfðu verið valinn þessi staður. En hvort  Jones hafi viljað staðsetja samkomustað sinn sérstaklega á þessu „hlutlausa svæði“ eða hafi einfaldlega litist vel á þennan stað liggur ekki fyrir. Fyrir hvorugu hefur greinarhöfundur fundið heimildir. Ásamt Frederick bjó systir hans, Alice May, einnig hér en  saman höfðu þau umsjón með samkomuhaldi. Í manntali 1901 er hún titluð bústýra en hann húsráðandi. Árið 1901 kallast húsið „no. 23 Hafnarstræti“ en ári síðar hefur númeraröðin verið endurskilgreind og húsið orðið nr. 13.  Jones nefndi söfnuð sinn eftir húsinu, Sjónarhæðarsöfnuðinn og er hann enn skráð trúfélag. Mögulega vorið 1903, fluttust þau Frederick og Alice af landi brott, en hann var nokkuð heilsuveill vegna sykursýki. Enginn er skráður til heimilis að Sjónarhæð árin 1903 og 1904.

Sjónarhæðarsöfnuðurinn, Gook, Sæmundur o.fl.

Fljótlega eftir að Jones hóf sitt trúboð á Akureyri bárust samlanda hans nokkrum fréttir af störfum hans og langaði til þess að vinna með honum að þeim. Þar var um að ræða Arthur Gook en hann kom til Akureyrar þann 3. ágúst 1905. Frederick Jones var þá fluttur úr bænum aukinheldur,  lést hann fyrr það sama ár. Arthur tók upp þráðinn þar sem landi hans hafði hætt og leiddi starf Sjónarhæðarsöfnuðarins og sinnti trúarlegu starfi svo áratugum skipti í hans nafni.   Árið 1905 er húsið skráð í eigu The Stewards Company Ltd. í Bath á Englandi og Arthur Gook eini íbúi þess. Ári síðar er Gook hins vegar orðinn eigandi hússins og þá hefur það fengið það númer sem það æ síðan hefur, þ.e. nr. 63 við Hafnarstræti.  Árið 1912 fékk Arthur Gook leyfi bygginganefndar til að byggja við Sjónarhæð, vestan við suðurenda, 4x10 álnir tvílyfta byggingu með skúr til norðurs, 5x3 álnir. Þar er um að ræða vestasta hluta suðurálmu, sem er með einhalla þaki. Og síðla árs 1916 var Sjónarhæð virt til brunabóta. Húsinu var þannig lýst:

Íbúðar og samkomuhús, einlyft og tvílyft með lágu risi. Á gólfi undir framhlið eru 3 stofur og forstofa og samkomusalur þvert yfir húsið. Við bakhlið eru 2 stofur, eldhús og þvottahús. Á lofti undir framhlið eru 2 stofur og forstofa. Við bakhlið 3 stofur. Efsta loft óinrjettað [og] notað til geymslu. Kjallarinn er hólfaður í 3 hólf og notaður til geymslu. Skorsteinar eru tveir. Samkomusalurinn er notaður fyrir guðsþjónustusamkomur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 121). Þá er húsið sagt timburklætt með járn á þaki, 20,4m að lengd, 7,5m á breidd, 8,8m hátt. Á húsinu voru 29 gluggar og í því 8 kolaofnar og ein eldavél. Upprunalegar teikningar að Sjónarhæð virðast ekki hafa varðveist né að viðbyggingunni frá 1912, en það er í raun sjaldgæft að svo sé, þegar í hlut eiga hús byggð í upphafi 20. aldar. Á vef Héraðsskjalasafnsins má hins vegar sjá teikningar, sem gerðar voru af húsinu um 1922 á vegum Rafveitu Akureyrar, sem þá tók til starfa.

    Arthur Gook sinnti kristniboðsstarfi og leiddi starf Sjónarhæðarsafnaðarins í ríflega hálfa öld, en hann lést árið 1959. Hann naut að sjálfsögðu liðsinnis margra karla og kvenna í sínum störfum. Mætti þar kannski fyrst og fremst nefna Sæmund G. Jóhannesson en hann var löngum kallaður Sæmundur á Sjónarhæð. Sæmundur, sem var Húnvetningur, kom til Akureyrar árið 1925. Hann gerðist fljótlega sérlegur samstarfsmaður Arthur Gook og sinnti köllun sinni varðandi kristniboðið allar götur síðan, en Sæmundur lést árið 1990. Sæmundur stundaði nokkurs konar lækningar, fyrst og fremst með  trúarsannfæringu og fyrirbænum og ýmsir sem töldu sig, og telja sig fullum fetum hafa hafa fengið bót meina sinna fyrir atbeina Sæmundar á Sjónarhæð. Látum muninn á viðurkenndum læknavísindum og kraftaverkum eða rökræður þess efnis liggja á milli hluta hér. Þá hafði Arthur Gook löngum hjá sér ráðskonu, Kristínu Steinsdóttur frá Kálfsskinni á Árskógsströnd. Hún var iðin við garðyrkju og vefnað og seldi afrakstur sinn, m.a. blóm og trefla við allmiklar vinsældir. Vorið 1939 sótti Gook um leyfi bygginganefndar til að reisa skála eða gróðurhús sunnan við Sjónarhæð, áfast húsinu. Væntanlega hefur það verið ætlað fyrir blómarækt Kristínar. Stendur blómaskáli þessi enn og er þar um að ræða syðsta hluta Sjónarhæðar, viðbygginguna út frá kjallaranum sunnanmegin. Teikningarnar að byggingu þessari, gerði Tryggvi Jónatansson og eru það PC280057einu teikningarnar af Hafnarstræti 63, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrarbæjar. Kristín og Arthur Gook gengu í hjónaband árið 1950 en Florence, fyrri eiginkona Arthurs, lést árið 1948. Í æviminningum sínum segist Sæmundur hafa beðið fyrir þessum ráðahag þeirra og það orðið úr (sbr. Sæmundur Jóhannesson 1972:165).

    Fólk var skírt á sérstakan hátt í Sjónarhæðarsöfnuðinn og til þeirrar athafnar notaði Gook einfaldlega flæðarmálið neðan götunnar. En Bogi Daníelsson, nágranni Gooks í Hafnarstræti 64 [löngum kallað Bogahús] mun hafa nýtt sama flæðarmál til annarra nota, nefnilega skolað þangað úrgangi frá húsi sínu. Um þetta var kveðið (sbr. Steindór Steindórsson 1993:116):

Séra Gook á Sjónarhaug                                                      í sálir kann að toga                                                         en það er skitin skírnarlaug                                                 skólprennan hjá Boga

    Sjónarhæðarsöfnuðurinn, er e.t.v. þekktastur meðal almennings fyrir sumarbúðirnar, sem hann hefur rekið á Ástjörn í nær 80 ár. Var það Arthur Gook sem kom þeim á fót, þar sem hann fékk skika við tjörnina og hermannabragga. Fyrsti barnahópurinn kom á Ástjörn sumarið 1946 og hafa sumarbúðirnar verið reknar óslitið síðan. Vart er hægt að nefna sumarbúðirnar á Ástjörn án þess að nefna Boga Pétursson en hann stóð þar vaktina svo áratugum skipti. Í hugum margra er nafn hans samofið sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og sumarbúðanna á Ástjörn.  Þá hefur Sjónarhæðarsöfnuðurinn staðið fyrir alls konar samkomuhaldi, m.a. fyrir börn áratugum saman og ugglaust margir Akureyringar á ýmsum aldri, sem eiga minningar af samkomum á Sjónarhæð eða dvöl í sumarbúðum safnaðarins. Það er nú einu sinni svo, að þegar svo umfangsmikilli og langri sögu sem saga Sjónarhæðarsafnaðarins er gerð skil í fáeinum málsgreinum,  verða óneitanlega margar staðreyndir, atburðir og einstaklingar  útundan sem fullt erindi ættu í slíka umfjöllun. En ekki verður sagt  skilið við Arthur Gook án þess að nefna framlag hans til tækniþróunar landsmanna. Hann var nefnilega sannkallaður frumkvöðull á sviði útvarps -og jafnvel sjónvarps, hérlendis. Styðjumst við hér við frásögn Sæmundar Jóhannessonar.

Útvarp og sjónvarp á Sjónarhæð

Arthur Gook þótti nauðsynlegt, að Íslendingar IMG_1759fengju útvarp, það væri nauðsyn í landi sem hvort tveggja væri strjálbýlt og samgöngur stopular. Í heimalandi sínu var hann ötull við að kynna Ísland og segja frá trúboðsstarfi sínu hér.  Trúuðum Englendingum, sem heyrðu borðskap Gooks var mjög umhugað um að „útvarpsvæða“ Íslendinga og vildu safna fé og gefa Íslandi útvarpsstöð.  Gook myndi fara fyrir útvarpsstöðinni og þar yrði útvarpað fréttum, tilkynningum og að sjálfsögðu guðsþjónustum. Gook hafði þegar flutt inn útvarp þar sem hægt var að ná breskum útsendingum á langbylgju og bauð hann fólki að koma að hlusta í samkomusal sínum. En nú skyldu Íslendingar fá sitt eigið útvarp, sent út frá Sjónarhæð. Réð Gook til sín enskan útvarpsfræðing, F. Livingston Hogg og á næstu árum risu mikil möstur á brúnum Barðsgils. Útsendingartækin voru mjög orkufrek og reyndist afl Glerárvirkjunar ekki nægilegt til að halda útsendingum skammlaust. Við því var brugðist og Gook flutti inn aflvélar. Og þann 10. desember 1928 fékk hann leyfi til að reisa skúr, 4x5m að stærð og 2 ½ m á hæð, fyrir „mótor til afnota fyrir útvarpsstöðina“. Í bókun bygginganefndar var þess einnig getið, að möstrin sem hann hefði reist fyrir útvarpið, væru reist í óleyfi og skyldi hann fjarlægja þau hvenær sem bæjarstjórn krefðust þess (sbr. Bygginganefnd Akureyrar, 1928: nr.622). En það voru ekki bæjaryfirvöld eða raforkuskortur sem réðu örlögum þessarar fyrstu útvarpsstöðvar Íslandssögunnar: Þegar Gook hafði fengið útvarpsleyfi frá ríkisstjórn Íslands var á því einn fyrirvari; það mætti afturkalla hvenær sem er. Og svo fór, að leyfið fékkst ekki endurnýjað og það án skýringa. Gook og hans fólk gafst hins vegar ekki upp og fengu að lokum skýrt og skorinort svar frá yfirvöldum, sem var efnislega eftirfarandi: „Þið fáið ekki útvarpsleyfi og þið þurfið ekkert að vita hvers vegna“ (Sæmunur G. Jóhannesson 1972:161). Sæmundur getur þess reyndar í endurminningum sínum, að þetta hafi kannski ekki verið orðrétt svona en þetta voru skilaboðin efnislega, og þau skýr.P7090150

     Eins og alkunna er, hófust sjónvarpsútsendingar hérlendis haustið 1966. Í einhver ár fyrir það höfðu íbúar suðvesturhornsins þó aðgang að sjónvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokölluðu Kanasjónvarpi. En jafnvel löngu fyrir það, var horft á sjónvarp á Sjónarhæð! Það var nefnilega svo snemma sem 1934, að þeir Livingston Hogg og Gook, fengu lánað sjónvarpstæki, sem þá var spánný tækni í heimalandi þeirra og reyndu það á Sjónarhæð. Sæmundur segir svo frá: „En framan á því [sjónvarpinu] var sem lítill gluggi, 10-15 sm á hvorn veg, minnir mig. Við beztu skilyrði sáust í því myndir. Var mér eitt sinn leyft að líta í þetta furðutæki. Sá ég þar mynd af stúlku, sæmilega skýra, nema hvað skuggi lá um efri vör hennar líkt og skegg. Tæki þessu var skilað aftur“ (Sæmundur G. Jóhannesson 1972:163). Mögulega hafa þeir Gook, Livingston Hogg og Sæmundur horft á sjónvarpið einhvern fimmtudaginn, og verið fyrir vikið enn lengra á undan samtíð sinni, því það var ekki fyrr en árið 1986 að sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum tíðkuðust hérlendis, með tilkomu Stöðvar 2.

Niðurlag  (og dægurlag frá tímum Sjónarhæðarútvarps)

                Allar götur frá upphafi hefur Sjónarhæð verið samkomu- og íbúðarhús en í syðsta hlutanum, sem byggður var sem blómaskáli var löngum ýmis starfsemi, um áratugaskeið prentsmiðja, Offsetstofa Hilmars Magnússonar, síðar Offsetstofan, sem enn mun starfrækt. Hér má einnig nefna, að vorið 1976 vildi það slys til, að Bronco jeppi sem ekið var um Eyrarlandsveg um 30 metrum ofar í brekkunni ók, í kjölfar áreksturs, fram af brúninni ofan Sjónarhæðar og hafnaði á syðsta hluta hússins, þ.e. Offsetstofunni. Fór þar betur en á horfðist og ekki urðu alvarlega slys á fólki, en þarna hefði sannarlega getað farið verr. Nú eru sem betur fer hverfandi líkur á að slíkt gerist, þökk sé vegriði á brekkubrúninni og miklum trjágróðri ofan Sjónarhæðar. Vegriðið kom þó ekki fyrr en áratugum eftir þetta atvik en lengi vel voru stórir steypuklumpar á brúninni.IMG_1774

   Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er sérlega skemmtilegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Staðsetning hússins og umgjörð er einstaklega skemmtileg, á einum mest áberandi stað bæjarins. Lóðin, sem er líklega meðal þeirra stærri í bænum og slagar hátt í hálfan hektara er einnig sérlega vel gróin og væri raunar hægt að tala um skógarreit í kringum Sjónarhæð. Þar ber mikið á gróskumiklum reynitrjám, birki, öspum og grenitrjám en annars kennir ýmissa grasa og trjáa í þessum geðþekka skógarlundi sem prýðir þennan skemmtilega stað, norðurhluta Barðsgils.  Auk þess skartar skógurinn einu af fáum eikartrjám Akureyrarbæjar og líkast til það stærsta í bænum (greinarhöfundur veit a.m.k. ekki til þess, að það hafi verið fellt). Hafnarstræti 63 hlýtur í Húsakönnun 2012 hæsta varðveislugildi sem einstakt hús, húsaröð eða götumynd sem rétt væri að varðveita með hverfisvernd (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir og 2012:119). Einnig er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Ekki þarf að velkjast í vafa um menningarsögulegt gildi hússins hvað varðar sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og starfsemi hans, einnig að hér var fyrsta útvarpsstöð landsins starfrækt. Einnig má  geta þess, að Sjónarhæðarsöfnuðurinn telst fullgilt og viðurkennt trúfélag; Sjónarhæð er líkast til eina hús bæjarins, ef ekki á landinu, fyrir utan kirkjubyggingar, sem trúfélag dregur nafn sitt af!

Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. júlí 2011, 28. desember 2013 og 14. maí 2024.

ES. Það er ekki víst, að dægurlög og jazz hafi endilega átt upp á pallborðið innan um kristilegan boðskapinn í útvarpi Gooks og trúsystkina hans. En hafi svo verið, gæti þetta mögulega hafa hljómað á öldum ljósvakans frá Sjónarhæð á síðari hluta 3. áratugarins. Lag þetta, sem greinarhöfundur heyrði KK leika í útvarpsþætti sínum, Á reki, fyrir nokkrum árum síðan er Ukulele Lady í flutningi söngkonunnar Lee Morse, hljóðritað um svipað leyti og Gook var koma á fót útvarpsstöð sinni Sjónarhæð, þ.e. í maí 1925. (Hálfri öld síðar, þ.e. fyrir um hálfri öld (1976) fluttu Ríó Tríó texta Jónasar Friðriks um Kvennaskólapíuna við þetta sama lag, en þá hafði Arlo nokkur Guthrie nýlega tekið það upp á sína arma).

 

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

 

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902; Fundur nr. 199, 18. mars 1901.  Fundargerðir 1902-21; Fundur nr. 370, 30. jan. 1912. Fundargerðir 1921-30; Fundur nr. 622, 10. des. 1928.  Fundargerðir 1935-41; Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

 

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

 

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Sæmundur G. Jóhannesson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 152-181) Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

 


Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Yst í Innbænum eða skammt norðan Miðbæjar Akureyrar standa nokkur hús frá árunum kringum aldamótin 1900, á nokkuð áberandi stað í brekkunum við svokallað Barðsnef. Ber þar einna helst á Samkomuhúsinu með sínar skreyttu burstir og turnspíru. Öllu látlausara en engu að síður stórglæst er húsið næst sunnan við en þar er um að ræða Gamla Barnaskólann. Mörgum kann eflaust að þykja þessi hússtæði einhver þau tilkomumestu í bænum og staðsetning þeirra þarna er engin tilviljun sem nánar verður greint frá hér á eftir. Hér verður farið nokkuð ítarlega yfir tilurð og upphafssögu Barnaskólans en nokkru hraðar yfir sögu síðari áratuga.IMG_1767

 

Forsaga og tildrög

Þegar leið að aldamótum 1900 fóru byggðalögin á Akureyri og Oddeyri ört stækkandi og eins og gefur að skilja, fjölgaði börnum í sama hlutfalli við stækkandi byggð. Barnaskóli hafði verið stofnaður á Akureyri árið 1871 og einnig stóð bærinn fyrir skólahaldi á Oddeyri, fyrstu árin eftir að byggð tók að myndast þar, á 8. áratug 19. aldar. Þegar frá leið vildu Oddeyringar þó ekki lengur taka þátt í kostnaði við skóla Akureyrarbæjar og gerðust sjálfum sér nógir um skólahald. Á þessum tíma voru raunar þessi hverfi raunar tvö aðskilin byggðalög;  hvort tveggja landfræðilega, með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram og stjórnsýslulega, umrædd brekka tilheyrði nefnilega Hrafnagilshreppi.  Bærinn í raun tvær hólmlendur í öðru sveitarfélagi. Á tíunda áratug 19. aldar, var þessi aðskilnaður rofinn á markvissan hátt, m.a. með kaupum bæjarins á jörðinni Stóra- Eyrarlandi auk lagningu vegar á milli eyranna tveggja. Þá byggði amtmaður sér bústað á þessum slóðum. Þarna var miðbær Akureyrar og það bókstaflega; amtmaður hafði nefnilega mælt nákvæmlega vegalengdina milli syðsta húss Akureyrar og ysta húss Oddeyrar og byggt sér bústað þar. (Og löngu síðar varð raunin sú, að Miðbær Akureyrar byggðist upp á ysta hluta þessa einskismanns svæðis). 

            Hvorki á Akureyri né Oddeyri hafði verið reist sérstakt skólahús; á Akureyri hafði íbúðarhúsið að Aðalstræti 66 verið keypt undir skólann en árið 1878 var vöruhúsi Havsteensverslunar (stóð nokkurn veginn þar sem nú er Hafnarstræti 7) breytt í skólahús. Á Oddeyri var skólinn til húsa í íbúðarhúsum, yfirleitt aðeins fáa vetur í senn á hverjum stað. Á tímabili var hann í Hauskenshúsi, á tímabili í húsi sem nú er Fróðasund 10. Síðast var hann starfræktur í Prentsmiðjunni við Norðurgötu (Steinhúsinu). Það var árið 1895 að bæjarstjórn ákvað, að reisa skyldi sameiginlegan skóla fyrir öll börn á Akureyrarsvæðinu (þ.e. Akureyri og Oddeyri) og ætlunin var, að hann yrði staðsettur á Torfunefi og yrði lokið 1898. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum en árið sem barnaskólinn hefði átt að vera tilbúinn var tekið að ræða barnaskólabyggingu aftur. Skipuð var nefnd til að annast framkvæmdina og í henni sátu þeir Páll Briem amtmaður, Friðrik Kristjánsson kaupmaður og Björn Jónsson. Akureyringar og Oddeyringar vildu auðvitað hafa sameiginlegan skóla næst sér en nefndin lagði til, að farið yrði bil beggja í bókstaflegri merkingu og skólinn reistur mitt á milli ysta húss Oddeyrar og syðsta húss Akureyrar og var það samþykkt af bæjarstjórn (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:132). Það má geta sér þess til, að þessi hugmynd hafi verið komin frá Páli Briem, en hann hafði fáeinum árum fyrr reist sér hús, staðsett eftir þessari aðferð. Þegar húsinu hafði verið valinn staður var næst á dagskrá að setja saman óskalista um fyrirkomulag nýja hússins og fá gerðar teikningar. Þess var meðal annars krafist, að skólahúsið skyldi rúma 100 nemendur sem hver um sig fengi 100 rúmfet (um 3 rúmmetra) andrúmslofts.  Eftir þeim tillögum sem gerðar voru og samþykktar var leitað til Bergsteins Björnssonar sem gerði teikningar að hinu nýja skólahúsi, sem samþykktar voru af bæjarstjórn. Byggingameistari hússins var Bjarni Einarsson skipasmiður og tók hann bygginguna að sér fyrir 6250 krónur. Til samanburðar má nefna, að haustið 1900 var tunna af kartöflum auglýst fyrir 6 krónur. (Þannig kostaði barnaskólabyggingin jafnvirði rúmlega 1000 tunna af kartöflum).

            Hér er skemmtileg hliðarsaga: Í fyrri „atrennu“ að sameiginlegri skólabyggingu árið 1895 var leitað til Snorra Jónssonar timburmeistara, læriföður Bergsteins í iðninni, varðandi teikningar og skipulag. Hann var þá í þann veginn að hefja byggingu stærsta húss Akureyrarsvæðisins, sem hann reisti við Strandgötu. Þegar Bergsteinn vann teikningar sínar að Barnaskólahúsinu var hann einnig að hefja byggingu húss, sem reyndist það stærsta í bænum, sjónarmun stærra að rúmtaki en Snorrahús.

 

Bygging og vígsla - Ítarleg samtímalýsing

Gamli Barnaskólinn er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, sem kalla mætti jarðhæð þar eð hann er aðeins niðurgrafinn brekkumegin. Er hann raunar hærri er gangstéttarbrún götumegin, svo kannski orkar tvímælis að tala um kjallara. Á miðju hússins að framanverðu er langur kvistur sem setur nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Er kvisturinn afmarkaður af tveimur strikuðum flatsúlum á framhlið. Kvisturinn er gluggalaus en fyrir honum miðjum eru timburlistar eða skrautbönd sem mynda þríhyrning, samsíða þakbrúnum.  Panell eða vatnsklæðning er á veggjum efri hæðar en jarðhæðin er múrhúðuð. Bárujárn er á þaki og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Á suðurhlið er viðbygging, inngöngubygging úr timbri á efri hæð en steypt bygging til suðurs úr jarðhæð. Er hún umtalsvert stærri að grunnfleti og myndar þak hennar verönd við anddyrisbyggingu efri hæðar. Hluti hennar er opið rými. Grunnflötur er um 26,4x8,9m, anddyrisbygging að sunnan er um 5,25x4,3 en viðbygging við jarðhæð um 15,75x3,7. Meðfram henni (þ.e. viðbyggingu jarðhæðar) er 2,3m breitt rými undir þaki, afmarkað af vegg í suðri, sem nýtist sem yfirbyggt bílastæði.

 IMG_1761

            Það var vorið 1900, nánar tiltekið þann 12. maí,  að bygginganefnd bæjarins var „samankomin á veginum milli Akureyrar til þess að taka ákvörðun um Barnaskólabyggingu bæjarins, sem bæjarstjórnin ætlar að láta reisa fyrir norðan hús Amtmannsins“ (Bygg.nefnd. Ak nr. 187, 1900). Húsið var ákveðið 42 álnir að lengd, 24 álnir frá grindum (líklega grindverk), 9 álnir vestur frá ytri brún aðalvegur, í beinni línu við veginn.

Nú ber heimildum ekki saman um vígsludag. Húsið prýðir skjöldur þar sem á stendur, að húsið sé tekið í notkun 18. október 1900. Í Sögu Akureyrar segir í myndatexta, að skólinn hafi verið vígður þann nítjánda (Jón Hjaltason 1994:317).  Í grein í Stefni frá októberlokum 1900 segir að skólinn hafi verið settur 20. þ.m. [þ.e. 20. október] en vígður daginn áður, þ.e. þann 19. október. Var það Klemenz Jónsson bæjarfógeti sem vígði bygginguna „í viðurvist fjölda manna úr bænum“. Hélt hann ræðu um tilurð byggingarinnar og tíundaði þann kost, sem staðsetning byggingarinnar væri og að skólinn væri sameiginlegur þannig að „nú gæti eigi komið fram sá rígur sem tvískipting skólans [þ.e. sitt hvor skólinn fyrir Akureyri og Oddeyri] stundum hefði ollið í bænum“. Lauk vígsludeginum með samsæti bæjarstjórnar, byggingarstarfsmanna og nokkrum öðrum gestum, þar sem næsti nágranni skólans, Páll Briem amtmaður hélt erindi um skólabyggingar og kennslumál.

            Nýja barnaskólahúsið var blaðamönnum Stefnis mjög hugleikið og í næsta tölublaði þann 7. nóv. 1900 birtist  á blaðsíðum 1-2, afar ítarleg byggingarsaga og lýsing hússins. Gefum hinum ónefnda höfundi orðið, að viðbættum innskotum þess, sem þetta ritar. [Ath. orðrétt stafsetning texta frá 1900 og ein alin, álnir í fleirtölu, er um 63 cm]:   Bygging hússins hófst  þegar snjó og klaka leysti í vor, var byrjað á undirstöðu hússins og að grafa fyrir kjallaranum og frá vesturhlið þess, og að hlaða 5 álna háan grjótvegg undir austurhlið þess. Undirstaðan var svo snemmbúin, að húsið var reist snemma í júlí, og svo  verið unnið kappsamlega að smíði þess, þar til um miðjan októbermánuð, að það var svo búið innan, að barnaskólinn var settur í því; þykir mönnum, sem skyn bera á, húsið sterklega byggt og eigi til sparað, að það á alian hátt sje sem traustast. Þannig er ljóst, að bygging hússins tók í mesta lagi 5 mánuði, þ.e. hún var ekki hafin 12. maí þegar Bygginganefnd var að mæla fyrir húsinu og grindin hefur verið risin í júlímánuði. 

Svo er húsinu lýst mjög nákvæmlega:  Skólahúsið er 42 álnir á lengd og 14 álnir á breidd, undir því er kjallari jafnlangur húsinu, en eigi nema 10 álnir á breidd. Kjallarinn er með stórum gluggum og því vel bjartur. Húsið er 5 álnir á hæð undir loptbita, hæðin af loptbitum í sperrukverk 4 og 1/2 alin. Aðalinngangur í húsið er vestast í suðurstafninn, og kemur maður þá í gang, 4 álna breiðan, sem liggur meðfram vesturhlið hússins á 31 alin. Úr þeim gangi er gengið inn i þrjár kennslustofur, sem hver um sig er rúmar 10 álnir á hvern veg, eru 3 gluggar á hverri stofu á austurhlið, nyrðsti endi hússins, fullar 10 álnir, er óþiljaður innan, er það leikfimiskennslustofa skólans. Þar er uppgangur á loptið í húsinu. [...] Gólfbitarnir eru úr gildum trjám með tæprar alinar millibili, gólfið er tvöfalt og þjett leirlag á milli.

            Einhvern tíma skildist höfundi, sem þrátt fyrir þetta áhugamál, hefur ekki hundsvit á húsasmíði, að ein best byggðu hús með tilliti til myglu væru timburhús frá árunum nærri aldamótunum 1900. Hér er e.t.v. komin uppskrift að myglufríum útveggjum, nema hvað nú myndi væntanlega notuð steinull eða annað slíkt í stað mosa:  Veggir að kennslustofum eru að utan klæddir venjulegum klæðningsborðum, en milli þeirra og grindar er klætt með asfaltpappa, í miðja grindina er felld borðaklæðning, og veggirnir því næst klæddir innan með venjulegum innanþiljuskífum, en milli þeirra og borðanna í grindinni er þjett troðið mosa. Áfram heldur lýsingin, næst eru það gluggar, hurðir og loft:  Gluggar allir í stofunum tvöfaldir og stærð glugganna á hverri stofu sem næst 1/6 á móti gólffleti. Skilrúm öll í húsinu eru tvöföld og þjett troðið mosa milli þilja, stoðir og bindingar í þeim úr 3x3 þuml. trjám. Berst hljóð því iítt í gegn um þau, nje hiti og kuldi. Hurðir eru úr 2 þuml. plönkum og eikarmálaðar. Lopt er tvöfalt. Loptbitar úr gildum 14 álna trjám með 1/2 al. millibili, klæddir ofan með venjulegum gólfborðum, en neðan á þiljað með skífuklæðning. Þak [er] úr venjulegum borðum, blindinguðum [svo] saman, klætt með dönskum þakpappa og bikað og sandborið.

 

            Kynding hússins var mjög fullkomin og sjálfsagt, allt að því verkfræðilegt undur á þeim tíma:  Ofnar og loptpípur í kennslustofunum eru hinar fullkomnustu, sem eru til hjer í bæ og efasamt að upphitun og loptbreyting sje í eins góðu lagi í hinum nýja barnaskóla í Reykjavík, eins og er í skóla þessum. Ofnarnir eru stórir og vandaðir kápuofnar, sem allstaðar þykja sjálfsagðir í skólum, þar sem ofnahitun á annað borð á sjer stað. Standa þeir fast við skilrúmið milli gangsins og kennslustofanna, og eru eldstæðisdyr ofnanna gegn um skilrúmið, svo að lagt er í þá á ganginum og askan þar úr þeim tekin. fylgir þessu sá mikli kostur, að ekkert ryk kemur í stofuna við ílagning eða hreinsun ofnanna, heldur eigi draga þeir lífslopt úr stofunum til brennslunnar. Undir gólfi stofanna liggja víðar loptpípur að utan upp undir ofnana, streymir inn um þær nýtt lopt og hitnar við ofnana, því það verður að fara gegn um þá upp með kápunni, og svo gýs það út í stofurnar upp við lopt, en jafnhliða dregur loptpípa í reykháfnum þyngra lopt frá gólfinu út úr húsinu, verður þannig stöðug loptbreyting í stofunum, þegar lagt er í ofnana. Þarna var eðlisfræði heits og kalds lofts hagnýtt svo úr varð einhvers konar kolakynt loftræsikerfi. Þá var húsið búið pípulögnum: […]Skammt fvrir ofan húsið í brekkunni er lítil uppsprettulind, þaðan hefir vatn verið leitt í járnpípu inn í kjallarann og upp á skólaganginn, eru á ganginum þrjú þvottaföt fyrir börnin, sem vatnspípurnar liggja að, en frá þeim liggja skólprennur úr járni niður um kjallaragólfið og fram fyrir veg. Að lokum fær byggingin þessa umsögn: Skólahúsbygging þessi er einhvert stærsta og dýrasta fyrirtæki, sem þetta bæjarfjelag befir ráðist í, en efalaust jafnframt eitt hið þarfasta, þótt fyrirtækið gefi eigi af sjer beinan peningalegan arð, sem borgi höfuðstól og vexti. (Án höfundar, 1900: bls 1-2)

 

Skólahald - Halldóra Bjarnadóttir - Önnur hlutverk hússins

Þegar skóli var settur í fyrsta skipti í húsinu voru nemendurnir 73, börn á aldrinum 7-14 ára (sbr. Jón Hjaltason 1994:316). Í grein Heimilis og skóla (án höfundar) eru börnin reyndar sögð hafa verið um 66 en alltént voru nemendurnir um 70 þennan fyrsta vetur. Skiptust nemendur í þrjá bekki og svonefndur fyrsti kennari (nokkurs konar skólastjóri) var Páll Jónsson, síðar Árdal, en hann hafði starfað við „Akureyrarskólann“ frá 1885.  Skólagjöld voru ein króna fyrir fyrsta bekk, 1,75 kr. fyrir miðbekk og 2,25 kr. fyrir efsta bekk. Vorið 1901 var ráðinn skólastjóri við Barnaskólann, Kristján Sigfússon frá Varðgjá. Gegndi hann starfinu til dánardægurs, 1908, en þá um haustið var Halldóra Bjarnadóttir ráðin skólastjóri. Hennar þáttur í sögu BarnaIMG_1763skólans er nokkuð veigamikill en honum verður gerð frekari skil síðar í þessari grein. Halldóra gegndi skólastjórastöðunni í áratug en eftirmaður hennar var Steinþór Guðmundsson. Steinþór var skólastjóri frá 1918 til 1929 er Ingimar Eydal tók við, en þá fóru líka í hönd síðustu misseri hússins við Hafnarstræti 53 sem barnaskóla. Nýtt barnaskólahús sunnan og ofan Grófargils leysti nefnilega barnaskólann gamla af hólmi árið 1930. Voru nemendur þá orðnir vel á þriðja hundrað og 1930 var upphaf fræðsluskyldu miðað við 8 ára í stað 10 áður, og við það fjölgaði nemendum enn frekar (sbr. Heimili og skóli 1961: 71-73).

 

            Lengst framan af var aðeins kennt á efri hæð hússins, jarðhæð (kjallari) var ekki tekin undir skólann fyrr en 1922 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:131). Í kjallara voru frá upphafi íbúðarými og meira að segja gosdrykkjaverksmiðja. Þar framleiddi Knut nokkur Hertevig m.a. sódavatn, a.m.k. þrjár tegundir límonaðis; hindberja, jarðarberja og sítrónu og saftir, súrar og sætar. Nýtti hann væntanlega vatnið úr lindinni bak við húsið og kvað það eitt besta vatn sem hann hafði fengið til gosdrykkjagerðar. Lesendur geta ímyndað sér hvernig það væri, að vera barn í skóla, þar sem gosdrykkir væru framleiddir í kjallaranum! Greinarhöfundur getur allavega fyrir sitt leyti ímyndað sér, að það hefði boðið upp á ýmis konar freistnivanda og eflaust truflað einbeitingu við nám, hefðu sætir drykkir verið framleiddir í húsum Hrafnagilsskóla eða Oddeyrarskóla þegar hann sat þar á skólabekk.

 

            Þá virðast kennslustofur einnig hafa verið leigðar til íbúðar, væntanlega meðan kennsla lá niðri, en skólaárið var umtalsvert styttra en nú gerist. Vorið 1902 fengu Oddur Björnsson prentari og fjölskylda leigt í skólanum. Dóttir hans, Ragnheiður O. Björnsson segir svo frá: Í barnaskólanum fengum við til umráða fyrsta bekk, leikfimissalinn og ganginn. Fyrsti bekkur var stór stofa með þrem stórum gluggum. […] Í leikfimissalnum var sofið og eldað og tjaldað á milli. (Ragnheiður O. Björnsson 1972:193). Bjuggu þau hér til hausts. Síðar gekk Ragnheiður þarna í barnaskóla og þar dró til tíðinda með nýjum skólastjóra, eftir lát Kristjáns Vigfússonar frá Varðgjá: Haustið 1908 fengum við svo nýjan skólastjóra, Halldóru Bjarnadóttur. Kom hún frá Noregi, þar sem hún hafði stundað nám og lokið þar kennaraprófi og síðan verið þar kennari. Kom Halldóra með ýmsar nýjungar sem vænta mátti og auðvitað var fólk ánægt með margar þeirra en ekki allar  (Ragnheiður O. Björnsson 1972:1908). Halldóra Bjarnadóttir innleiddi svo sannarlega sitt hvað nýtt, hvað varðaði m.a. kennsluhætti og fyrirkomulag; lagði t.d. áherslu á handavinnu og endurnýjun búnaðar og bóka og kom á foreldra- og nemendafundum. Mun hún hafa komið á leikfimikennslu, vettvangsferðum, vísi að skólabókasafni, staðið fyrir byggingu leikvallar við skólann, auk þess sem litlu jól voru fyrst haldin við Barnaskóla Akureyrar í hennar tíð. Halldóra var þannig sannkallaður brautryðjandi í skólastarfi. Kannski má segja, að grunnskólastarf sé enn þann dag í dag að einhverju leyti mótað af áherslum og hugmyndum Halldóru Bjarnadóttur. Halldóru var einnig umhugað um hreinlæti og umgengni og það lagðist misjafnlega í fólk. Sagan segir m.a. að hún hafi verið kærð til sýslumanns fyrir þá kröfu sína, að nemendur færu úr útiskóm og í inniskó þegar inn var komið.  Þá sáu bæjarbúar margir hverjir eftir skattfé sínu, sem þeim þótti sólundað í skólann; óx þeim m.a. í augum kostnaður við að koma upp bókasafni og argasti óþarfi væri að eyða fé í leikvöll fyrir börnin, hvað þá öll steypuvinnan við hann, sem síðar varð. En Halldóra lét steypa vegg fram að götu og stækka leiksvæðið um leið, sumarið 1914. Vinnunni við stækkun leikvallarins stýrði einn af kennurum skólans, Páll Jónsson Árdal, fyrrum yfirkennari. Eitt sitt, er hann var við steypuvinnu við umræddan vegg, vatt vegfarendi sér að honum og hreytti í hann: Því var þetta ekki steypt úr gulli. Og Páll svaraði af bragði: Það hefði sjálfsagt verið gert, hefði það verið fyrir hendi (sbr. Jón Hjaltason 2001:192).P8190797 (2)

 

            Eftir að hlutverki hússins sem skólahús lauk hýsti það Amtsbókasafnið en einnig var búið í húsinu. Bókasafnið mun hafa verið í húsinu í 17-18 ár eða til 1947-8. Bókavörðurinn, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var búsettur hér framan af meðan bókasafnið var rekið í húsinu en árið 1944 byggði hann sér veglegt íbúðarhús við Bjarkarstíg á ytri Brekkunni. Ýmis starfsemi fór fram í húsinu áratugina á eftir, m.a. var saumastofa rekin hér á vegum Akureyrarbæjar. Þá var búið í húsinu fram undir 1980 og voru að jafnaði þrjár íbúðir í húsinu. Eftir það hófust viðgerðir á vegum bæjarins sem sneru að ytra byrði hússins. Á síðustu áratugum 20. aldar og fram til 2006 hafði Leikfélag Akureyrar afnot af húsinu og var það m.a. nýtt sem leikmunageymsla.

 

            Á árunum 2006-07 var húsið allt endurnýjað að innan á vegumP3030007 fjármálafyrirtækisins Saga Capital. Þá var einnig byggt við húsið til suðurs, forstofubygging (sem áður var aðeins örlítil kytra, e.t.v. 2x2m) stækkuð umtalsvert og spennistöð, sem áður var í skúr sunnan hússins, felld inn í neðri hæð viðbyggingarinnar, þar sem áður var hið umdeilda leiksvæði. Endurbætur þessar voru unnar eftir teikningum Tryggva Tryggvasonar. Frá því að endurbótum þessum lauk sumarið 2007 hefur húsið verið fyrirtækja - og skrifstofuhúsnæði, nú eru þar til húsa fyrirtækin ENOR, DK hugbúnaður og Saga Fjárfestingabanki.

 

            Gamli Barnaskólinn er sannkölluð bæjarprýði og húsið eitt af sérlegum kennileitum bæjarins. Það er ólíkt lágreistara og látlausara en nágranni þess í norðri, Samkomuhúsið, en þessi hús mynda sérlega skemmtilega heild á einum mest áberandi stað bæjarins. Gamli Barnaskólinn er að vísu ekki friðlýst bygging líkt og Samkomuhúsið en hann er að sjálfsögðu aldursfriðaður. Í einni fyrstu formlegu húsakönnun bæjarins sem gefin var út á bók, unnin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldarP8190797, voru þessi hús metin sem sérstök varðveisluverð heild (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:60). Í uppfærðri húsakönnun frá 2012 er þetta mat staðfest og hlýtur Gamli Barnaskólinn hæsta varðveislugildi (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:117). Greinarhöfundi þykir rétt að árétta, það sem fram kom í pistlinum um Samkomuhúsið, að rétt væri hreinlega að friða flötina fyrir neðan þessi hús fyrir háum byggingum, svo ekki verði skyggt á þessi öldnu og glæstu hús í brekkunni á Barðsnefi og þau fái að njóta sín um ókomna tíð.

            Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. mars 2007, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.

 

 

Heimildir:

 

[Án höfundar]. 1900. Nýi barnaskólinn Stefnir, 7. nóvember. Slóðin: https://timarit.is/page/2219968#page/n0/mode/2up

 

[Án höfundar]. 1961. Barnaskóli Akureyrar Heimili og skóli, 3.-4. hefti, 20. árgangur. Slóðin:  https://timarit.is/page/7954935#page/n21/mode/2up

 

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 187, 12. maí 1900.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

 

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.

 Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

 

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins. 

 

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

 

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar 2. bindi. Kaupstaðurinn við Pollinn. Akureyrarbær gaf út.

 

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar 3. bindi. Fæðing nútímamannsins. Akureyrarbær gaf út.

 

Ragnheiður O. Björnsson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 182-215) Akureyri: Skjaldborg.

 

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta. 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • IMG_2738
  • IMG_2743
  • IMG_2739
  • IMG_1044
  • IMG_1043

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 371
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 174
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband