Hús dagsins: Hafnarstræti 7

Síðastliðna mánuði hef ég einbeitt mér að götum með upphafsstafinn G, þ.e. Geislagötu, Glerárgötu, Grænugötu og Gránufélagsgötu. Er þá ekki upplagt, að færa sig að næsta staf í stafrófinu, H-inu. Hér er Hafnarstræti 7.

Hafnarstræti 7 reistu þau Arthur Benediktsson og Hulda Sigurjónsdóttir árið 1947.P5140019 Arthur fékk lóðina í febrúar 1946 og sumarið 1947 fékk hann leyfi, fyrir hönd, Huldu að reisa hús samkvæmt framlögðum uppdrætti. Ekki koma fram mál eða lýsingar á húsinu, sem oft tíðkaðist í bókunum bygginganefndar. Umræddan uppdrátt að húsinu gerði Friðjón Axfjörð. Á þeim slóðum sem húsið stendur stóðu fyrstu hús sem byggð voru á Akureyri á tímum Einokunarverslunarinnar. Þau eru nú öll horfin, einhver þeirra brunnu en önnur voru rifin. Ekkert hús stendur enn á Akureyri frá tímum Einokunarverslunar, elsta hús bæjarins, Laxdalshús er byggt tæpum áratug eftir lok hennar. Forveri núverandi húss á lóðinni  var hús sem Peter nokkur Eeg reisti um 1790, og mun það hafa verið annað íbúðarhús sem reist var á Akureyri.. Fljótlega komst síðar það í eigu Friðriks Lynge stórkaupmanns. Bærinn eignaðist það 1877 og hýsti það barnaskóla bæjarins til aldamóta, en síðar var það nýtt sem geymsla og íshús. Var það húsið rifið árið 1942.

Hafnarstræti 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, útskotum að sunnan og vestan, bárujárni á þaki og steiningarmúr á veggjum. Krosspóstar eru í gluggum. Svalir eru á norðvesturhorni hússins, á báðum hæðum.

Arthur Benediktsson starfaði lengst af við gúmmíviðgerðir og rak einmitt hjólbarðaverkstæði hér. Hann reisti bílskúr á lóðinni árið 1970 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.   Þau Arthur og Hulda bjuggu hér til æviloka, en hann lést árið 1986 en hún 2002. Húsið hélst í eigu fjölskyldunnar, en sonur þeirra Benedikt bjó hér áfram, ásamt konu sinni Hrönn Friðriksdóttur. Árið 2017 skrifaði Kristín Aðalsteinsdóttir og gaf út vandaða bók um Innbæinn, húsin og íbúa þeirra. Á meðal viðmælenda voru þau Benedikt Arthursson, Hrönn Friðriksdóttir og Arnar Þór Benediktsson í Hafnarstræti 7. Segir Benedikt frá því, að húsið hafi verið reist þegar húsið var reist, hafi ekkert verið til af byggingarefni, og m.a. var öll íbúðin máluð grá, með herskipamálningu. Þá héldu þau Arthur og Hulda ýmsar skepnur m.a. hænsni í kofa hér á lóðinni og kindur í kofa í Búðargili.

Hafnarstræti 7 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu. Þá er lóðin gróin og vel hirt og til mikillar prýði í umhverfinu, lóðin jafnt sem húsið. Í Húsakönnun 2012 segir, að húsið sé hluti af samstæðri heild sem lagt er til að hljóti varðveislugildi sem slík.  Húsið er hluti nokkuð fjölbreyttrar götumyndar syðsta hluta Hafnarstrætis. Hún samanstendur að mestu leyti af steinhúsum í funkisstíl frá 4. og 5. Áratug 20. aldar, en þar leynast einnig sveitserhús frá aldamótum 1900 og elsta hús Akureyrar, Laxdalshús. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 14. maí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur  21. júlí 1948.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og Fólkið. (Viðtal við Benedikt Arthursson, Hrönn Friðriksdóttur og Arnar Má Benediktsson). Akureyri: Höfundur.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 247
  • Frá upphafi: 420930

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 194
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband