Hús dagsins: Hafnarstræti 9

Hafnarstræti 9 er ein af elstu lóðum Akureyrar, enda stóð upprunalegi PB290973verslunarstaðurinn á þessum slóðum. Húsið stendur nefnilega á „hinni eiginlegu“Akureyri, sem mynduð er af framburði Búðarlækjarins en löngu orðin umkringd uppfyllingum. Þarna stóð hús sem óvíst var hvenær var byggt (mögulega um aldamót 1800) sem Höepfnersverslun notaði sem sláturhús og geymslu- og á tímabili sútun. En það hús var rifið árið 1934. Það hús sem nú stendur á  Hafnarstræti 9 reisti Jón Antonsson, en hann fékk snemma sumars 1948 leyfi til að reisa hús á lóð sinni, eftir framlögðum uppdrætti. Ekki fylgdi nánari lýsing húsinu. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.(ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu)

En Hafnarstræti 9 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Norðurhelmingur austurhliðar, sem snýr að götu, skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru svalir á annarri hæð. Bárujárn er á þaki,  veggir múrsléttaðir og einfaldir, lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Húsið var frá upphafi tvíbýli og voru fyrstu eigendur téður Jón Antonsson frá Finnastöðum í Eyjafirði og Ari Hallgrímsson, endurskoðandi. Hann var Akureyringur, sonur Hallgríms Davíðssonar verslunarstjóra Höepfnersverslunar en fjölskylda hans bjó í Höepfnershúsi við Hafnarstræti 20 og þar áður í Laxdalshúsi, elsta húsi bæjarins sem enn stendur. Síðarnefnda er húsið stendur einmitt  næst norðan við Hafnastræti 9. Í Hafnarstræti 9 var um árabil  rekin bókabúð, Bókaverzlun Snæbjarnar Jónssonar sem m.a. verslaði með erlendur bækur.

Þá var fyrirtækið Verkval til heimilis að Hafnarstræti 9 á níunda áratug 20. aldar. Árið 1973 var byggður bílskúr nyrst á lóðinni, eftir teikningum Birgis Ágústssonar.

                Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, reisulegt og traustlegt. Það er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð;  uppganga á austurhlið er reyndar síðari tíma breyting. Allt er húsið og lóðin hið snyrtilegasta, sem og lóðin sem er vel gróin og prýdd trjágróðri m.a. reyni- og grenitrjám. Í Húsakönnun 2012 segir, að húsið sé hluti af samstæðri heild sem lagt er til að hljóti varðveislugildi sem slík.  Myndin er tekin 29. nóvember 2020. 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1096, 4. júní 1948  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 251
  • Frá upphafi: 420934

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 198
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband