Hús dagsins: Hafnarstræti 35

P9100034

Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson munu hafa reist Hafnarstræti 35 árið 1906 fyrir Jóhann Ragúelsson. Það var þá svipað að gerð og næstu hús, tvílyft timburhús á nokkuð háum steinkjallara með lágu risi en seinna var byggt við húsið. Það hefur þó að mestu haldið lagi sínu. Margir hafa átt húsið og búið í því gegn um tíðina en árið 1919 er eigandi hússins Guðbjörn Björnsson timburmeistari og frá árinu 1926 bjó þarna kona að nafni Guðríður Norðfjörð. Þarna starfrækti hún hárgreiðslustofu en tók einnig að sér að fjarlægja vörtur, bólur og líkþorn. Snyrtistofa þessi hefur sennilega verið á neðri hæð frekar en kjallara, þar tel ég líklegast að hafi lengst af verið geymsla eða verkstæðisrými. 1928 var byggð forstofubygging sunnan á húsið en hún er jafnhá húsinu og virðist gaflinn á henni steyptur eða a.m.k. forskalaður. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 (bls. 701, II bindi) kemur fram að í húsinu hafi búið átján manns árið 1940 en þar á meðal voru hjónin Andrés Sigvaldason og Sigurlaug Guðmundsdóttir en þau fengu um svipað leyti til byggingar nýbýlis á Hamraborg, milli Hamra og Nausta. Árið 1960 mun húsinu skipt í fjórar íbúðir, tvær á hvorri hæð en mun seinna kom íbúð í kjallara hússins. Þannig eru líkast til fimm íbúðir í húsinu núna. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út sem og umhverfi þess en lóðir húsanna við þennan hluta Hafnarstrætis eru ekki undirlendismiklar en bakhliðar húsanna mynda nánast horn við hina snarbröttu brekku sem er ofan við. Ofan Hafnarstrætisbrekkunnar er skógur mikill og ofan hans Spítalavegurinn. Þessi mynd er tekin 10.sept. 2013.

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

 

 

 


Hús dagsins: Hafnarstræti 31 og 33.

Ég held áfram með Hafnarstrætisröðina frá 29 en þetta eru allt sviplík hús, reist á fyrstu árum 20.aldar (öll nema eitt) á lóðum sem timburmeistararnir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson eignuðust 1904 og líklegt er talið að þeir hafi annast byggingu flestra húsanna. Nú tek ég fyrir tvö hús í einu en annað þeirra er sögulega mjög svo frábrugðin hinum kannski helst vegna þess að það er um 8 sinnum yngra en flest hin húsin.

Hafnarstræti 31 (blátt, til vinstri á mynd)P9100033

Hafnarstræti 31 er lang yngsta húsið í þessari röð og að ég held yngsta hús við Hafnarstrætið allt en það er byggt 1999. En þarna endaði verslunarlóð Schiöth- verslunar og stóð þarna svokallaður Rauði-Stólpi, mikill staur sem afmarkaði verslunarlóðina. Árið 1906 fengu eigendur lóðarinnar, áðurnefndir Jónas og Sigtryggur fengið byggingarleyfi þarna en nýttu sér það ekki. Það var svo ekki fyrr en 93 árum seinna sem þetta hús var byggt. Mig minnir að SS-Byggir verktakar hafi byggt þetta (nú mega lesendur endilega leiðrétta mig ef mig misminnir!) en húsið var reist með því sem ég kalla plastkubba eða "legokubba" aðferð þ.e. hlaðið úr einangrunarplastkubbum og í þá er skellt járnbentri steinsteypu. Húsið er semsagt tvílyft bárujárnsklætt steinhús á háum kjallara og með lágu risi og með gamaldags póstum. En þegar reist eru ný hús inn í eldri húsaröðum er reynt að láta þau líkja eftir lagi eldri húsanna enda nýtur t.a.m. þessi húsaaröð friðunar sem heild. Hafnarstræti 31 er dæmi þar sem þetta hefur tekist h.u.b. fullkomlega en húsið fellur algjörlega inní þá götumynd útlitslega og stærðarlega séð, en húsið er örlítið lægra og styttra en hús nr. 29 en ívið stærra en 33.

Hafnarstræti 33 (t.v. á mynd)

Húsið er talið byggt 1904 en ekki finnst formlegt byggingarleyfi fyrir húsinu, en fyrsti eigandi þess hét Páll Þorkelsson en líklegast hafa þeir Jónas og Sigtryggur annast byggingu hússins. 1911 eru þeir allavega orðnir eigendur hússins. Húsið er tvílyft timburhús á steinsteyptum kjallara og með lágu risi. Lítil forstofubygging er á suðurhlið og stigahús á bakhlið. Húsið er klætt með steinblikki og bárujárn er á þaki. Gluggapóstar á neðri hæð eru dálítið sérstakir, margskiptir en á efri hæð eru krosspóstar en ekki gott að átta sig á hvort hefur upprunalega verið. Í bók Hjörleifs Stefánssonar um Innbæinn koma fram nákvæmar upplýsingar um stærð húsanna sem fjallað er um og þar kemur fram að húsið sé 231 fermetrar og 718 rúmmetrar að stærð (Hjörleifur Stefánsson 1986: 127).  Þar er einnig eigendalisti frá upphafi  sem ekki verið tíundaður hér en margir hafa átt húsið og enn fleiri búið í því en eftir 1940 virðist húsið hafa skipst í tvo eignarhluta og skiptist milli hæða. Enn eru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Meðfylgjandi mynd af Hafnarstræti 31 og 33 er tekin 10.september sl.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 29

Síðustu vikurnar hef ég tekið fyrir húsaröðina í Strandgötu milli Norðurgötu og Hjalteyrargötu en hana tók ég í einni umfjöllun fyrir rúmum fjórum árum síðar og afgreiddi hvert hús í einum, tveimur setningum.P9100031 Mér fannst ekki hægt annað en að taka hvert hús fyrir sig. Og fyrst ég afgreiddi aðra stórmerka húsaröð, Hafnarstræti 29-41 á sama hátt er eiginlega ekki annað hægt en að taka hana fyrir á sama hátt, þannig að næstu færslur verða um þennan hluta Hafnarstrætis. En Hafnarstræti 29 er syðst í torfu sviplíkra timburhúsa frá fyrsta áratug tuttugustu aldar. Þetta eru tvílyft timburhús með lágu risi á kjöllurum en Hafnarstræti 29 er háreistari og stærri að grunnfleti en næstu hús.

Húsið er reist árið 1907 af Guðlaugi Pálsson en hann hafði keypt lóðina af þeim Jónasi Gunnarssyni og Sigtryggi Jóhannessyni en þeir höfðu eignast mikla landlengju árið 1904 sem urðu lóðirnar 29-41 við Hafnarstræti og koma þeir tveir mikið við sögu í næstu færslu. Húsið er tvílyft timburhús með lágu risi og á háum steyptum kjallara, raunar svo háum að vel er hægt að tala um að húsið sé þrílyft. Inngönguskúrar og stigabygging eru á göflum og bakhlið og suðursvalir á efri hæð. En Guðlaugur átti húsið ekki lengi og 1908 eru nokkrir eigendur að húsinu en "forsvarsmaður" þeirra var Einar Árnason. 1917 eignast Stefán Sigurðsson og 1940 virðist því skipt í nokkra eignarhluta og mest urðu fjórar íbúðir í húsinu. Alla tíð var verslunarrými í kjallaranum en þar var innréttuð íbúð að mig minnir rétt fyrir árið 2000. Ég man eftir Saumastofunni Þel í þessu húsi en þarna hefur verið ýmis önnur verslun og starfsemi. Húsið er ekki mikið breytt frá upphafi a.m.k. að utan. Það var farið að láta nokkuð á sjá fyrir um áratug síðan en hefur verið málað og skipt um þak og er nú í góðri hirðu. Gluggapóstar eru mismunandi eftir hæðum, krosspóstar á neðri hæð og þverpóstar á efri og breiðir tvískiptir þverpóstar í kjallara. Þrjár íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð auk einnar í kjallara. Þessi mynd er tekin 10.september sl.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


Plöntumyndir

Nú geta plöntuáhugamenn sem eiga leið um þessa síðu skoðað nokkrar plöntumyndir en ég hef raðað þeim hér í sér albúm með myndatexta. Af og til er ég að reyna að fara í slíka vinnu með húsamyndaalbúmin mín en það er hálfgert eilífðarverkefni því húsamyndirnar mínar hér telja um 300 og alltaf bætist við. En albúmið ætti að vera aðgengilegt hér til hliðar. Njótið vel Smile.


Nokkrar plöntumyndir

Hér til hliðar hef ég skrifað skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars. Ég reyni svona af og til að reyna að standa undir þessu, en húsaumfjöllunin hefur vissulega verið svolítið einráð hér síðustu mánuðina. En ég mynda ekki bara hús, plöntur hvers konar eru mér einnig hugleiknar og hér eru nokkrar myndir frá síðastliðnu sumri, sem óðum er á undanhaldi en ég vil nú meina að sumarið endist fram undir miðjan september eða haustjafndægri. Þrátt fyrir að gráni í fjöll og haustlægðir gangi yfir.

P8100074Þessa plöntu rakst ég á í fjöru þar sem heitir Selatangar á sunnanverðu Reykjanesi þann 10.ágúst í sumar. Þetta held ég að sé sæhvönn (Ligusticum scoticum).

P7150039

Að kvöldi 15.júlí sl. hjólaði ég við annan mann upp í Fálkafell á Súlumýrum og í mýrarjarðvegi þar vestan undir skálanum var þessi hundasúra (Rumex acotosella). Blöðin af henni eru mikið sælgæti sem kunnugt er og oft notuð í salöt. Sjálfur vandist ég því bara að týna þau og borða bara beint!

P7150025

Þennan Aronsvönd (Erysimum hieraciifolium) rakst ég einnig á í Fálkafellsferðinni 15.júlí. Aronsvöndur er hávaxinn og skrautleg planta af krossblómaætt en hann er stundum nefndur Mývatnsdrottning vegna þess áberandi hann er þar.  Á myndinni má einnig sjá vallhumla, elftingar og fjær er  skógarkerfill sem segja má að sé hálfgerð plága í íslenskri flóru. Hann var upprunalega fluttur inn sem skrautplanta í garða en fór fljótlega að breiðast út villtur sem slæðingur, þar sem fræ plantna virða illa lóða- og garðamörk...

P7150021

Og talandi um skógarkerfilinn (Anhicrus sylvestris) þá má hér sjá breiðu af honum og annarri ekki síður umdeildri plöntu, nefnilega lúpínunni. (Lupinus nootkasenis). Þessi er tekin á leiðinni uppí Fálkafell, skammt ofan hesthúsabyggðarinnar Breiðholts, að kvöldi 15.júlí 2013. En hér er um innfluttar plöntur að ræða sem báðar hafa náð fótfestu hér enda eru þetta mikið hávaxnari og stórgerðari plöntur en flestar plöntur íslensku flórunnar. Lúpínan var flutt inn sem uppgræðsluplanta en oftar en ekki hefur útbreiðslan hafa farið úr böndunum og hún  ruðst yfir lággróður sem fyrir er. Lúpínan veit nefnilega ekki endilega hvar hún á að græða upp og hvar ekki- heldur vex bara þar sem henni þóknast Wink Hún virkar jarðvegsbætandi þar sem hún vinnur köfnunarefni úr andrúmslofti og skapar kjöraðstæður m.a. fyrir skógarkerfilin- sem einnig ryðst í stórum breiðum yfir allan lægri gróður sem fyrir er. Og eins og sést bersýnilega á þessari mynd þá valtar skógarkerfillinn yfir lúpínuna!

P7030005En önnur planta sem einnig hefur verið til að græða örfoka land er melgresi. (Leymus arenarius) Þar er um að ræða alíslenska plöntu sem þ.a.l. er í meira jafnvægi við flórunna heldur en t.d. lúpínan. Þessir melgrasskúfar eru í fjöruborðinu við Strandgötunna, en þessi mynd er tekin 3.júlí sl.


Hús dagsins: Strandgata 29 og 31.

Eftir að lokið umfjölluninni um efri hluta Strandgötu upp að Hjalteyrargötu er að sjálfsögðu ljúft og skylt að fjalla um húsin við Strandgötu 29 og 31 en hér er um að ræða talsvert yngri hús en hin við götuna og upprunaleg hús löngu horfin. P7100024 En hér er í raun um tvö sambyggð hús að ræða. Lóðin Strandgata 29 er óbyggð og er notuð sem bílastæði fyrir þau fyrirtæki sem aðsetur hafa í Strandgötu 31 en þarna stóð áður eitt stærsta og glæsilegasta hús Akureyrar. Það var mjög háreist tvílyft timburhús með háu portbyggðu risi, að stærð og lögun svipað Strandgötu 45 sem ég fjallaði um í síðustu færslu og klætt steinskífu, en nú eru aðeins tvö skífuklædd hús eftir á Akureyri, Norðurgata 2 (næsta hús á bakvið) og Strandgata 23. Húsið var kallað Snorrahús eftir Snorra Jónssyni, timburmeistara og athafnamanni en hann reisti húsið árið 1897 og oft var byggt við það eftir það bakatil, pakkhús, vélageymslur og íshús. Hluti þessara síðasttöldu standa enn að hluta og eru uppistaðan bakhúsinu á Strandgötu 31- en nánar um það hér að neðan. Snorrahús var stærsta hús á Oddeyrinni þegar það var reist og sennilega það stærsta á Akureyri þar til Menntaskólinn og Samkomuhúsið risu nokkrum árum seinna. (Hafnarstræti 88, reist 1900 er svipað stórt og Snorrahús var.)  Snorrahús stóð árum saman autt og yfirgefið en haustið 1987 var brotið niður á einum degi og þykir það eitt mesta stórslys í húsasögu Akureyrar. Því það kom víst í ljós að húsið var í miklu betra standi en talið var og meira og minna stráheilt og hefði vel verið hægt að byggja það upp- en den tid den sorg eins og þar stendur. 

En húsin sem nú eru á lóðinni eru misjöfn að aldri og gerð en mynda eiginlega eina heild, og hér tala ég um bakhúsið sem telst Strandgata 31 og framhúsið sem telst Strandgata 29 en það stendur þó raunar á lóðinni 31, einni húslengd austar en Snorrahúsið stóð. Ekki er gott að slá föstu um byggingarár bakhússins sem er tvílyft steinsteypuhús með skúrþaki í tveimur álmum, vinkillaga en einlyft bygging er á milli þannig að grunnflötur er ferhyrningslaga. Í Oddeyrarbók Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs segir að húsið sé byggt upp úr ís - og vélarhúsum Snorra Jónssonar sem þýðir að elstu hlutar hússins eru þá að stofni til frá því fyrir 1920. Smjörlíkisgerðin Akra eignaðist þetta hús 1938 og var þarna með starfsemi um árabil. Líklega er þetta hús byggt í mörgum áföngum en árið 1981 keypti Dagblaðið Dagur húsið og setti þar upp prentsmiðju. Framhúsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með háu risi og miklum miðjukvisti. Það er reist 1988 og við hönnun þess  hefur greinilega verið tekið mið af útliti margra húsa við Strandgötuna; það svipar um margt til forvera síns, Snorrahússins. Gluggaskipan o.þ.h. er að sjálfsögðu frábrugðin því sem var á eldri húsunum. Það var dagblaðið Dagur sem stóð fyrir byggingu hússins og sjálfum er mér tamt að kalla þetta hús Dagshúsið- og það á held ég við um flesta Akureyringa- enda þótt Dagur hafi liðið undir lok fyrir einum 17 árum síðan. Nú eru ýmis fyrirtæki og skrifstofur í húsinu, m.a. Ferðamálastofa, Mannvit og Eyþing. Myndin með færslunni sem sýnir framhúsið og horn bakhússin er  tekin 10.júlí 2013.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

PS.Ég fann enga mynd á netinu af Snorrahúsinu og eðlilega á ég ekki mynd af því sjálfur þareð ég var ekki nema 2ja ára þegar það var rifið. En þetta hús Strandgata 23, má e.t.v. segja að sé það nústandandi hús sem komist  næst því í útliti, það er skífuklætt en kvisturinn á Snorrahúsinu var öðruvísi og 23 er ívið minna og lágreistara. Þessa mynd tók ég í febrúar 2007.

P2110016


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2013
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 31
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 294
  • Frá upphafi: 450423

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband