Hús dagsins "slá í gegn"

Þeir sem eiga leið um Rósenborg ættu endilega að kíkja á ganginn á 1.hæð. Þar hef ég nefnilega komið upp myndasýningu á 19 húsum sem flestöll hafa fengið umfjöllun hér á síðunni. Myndirnar eru framkallaðar á pappír og með fylgir texti, sem er nv. sá sami og síðunni hér.  Ef þið hafið gaman af þessari síðu og eruð staðsett á Akureyri (eða eigið leið þangað á næstunni ) er um að gera að kíkja.

 p4250002.jpg

Hér er mynd af Rósenborg og hér umfjöllun mín um það ágæta hús frá 4.jan. sl. ) 

 


Orkudrykkir

Ég hef aldrei getað vanið mig á að drekka þessa svokölluðu orkudrykki. Á myndinni sem fylgir með fréttinni má reyndar sjást glitta í Leppin flöskur en sá drykkur var nú ævinlega í uppáhaldi hjá mér þegar kom að orkudrykkjum. Leppin hef ég hinsvegar ekki séð í einhver ár. Manni skildist alltaf hann væri betri og hollari en aðrir slíkir drykkir en hvort það sé alveg rétt skal ósagt látið. En það er til mikið ódýrari og betri leið til að halda sér gangandi en orkudrykkir:  Nefnilega gamla góða kaffið.


mbl.is Stóraukin koffínneysla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Ós, skólahús Glerárþorps

Með aðeins örfáum undantekningum hafa Hús dagsins verið staðsett annaðhvort í Innbænum eða Oddeyrinni, stundum Miðbænum. Hús dagsins er hins veP5270040gar staðsett í Sandgerðisbót, norðan Glerár. Húsið stendur við götuna Óseyri og er kallað Ós og var fyrsta skólahús Glerárþorps. Var húsið reist 1908, steinsteypt eða hlaðið úr múrsteinum. Á þeim tíma náði Akureyrarkaupstaður einungis að Gleránni og Glerárþorp var dreifbýli aðskilið frá kaupstaðnum. Í bók Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum (1993) segir að húsið hafi reist 16 framtakssamir menn sem mynduðu Skólahúsfélag Glerárþorps byggt enn mælt var fyrir um skólaskyldu 10-14ára barna í fræðslulögum 1907. Nauðsynlegt þótti að reisa hús fyrir skólahaldið þar sem ekki var neitt hentugt húsnæði í þorpinu. Fyrsti kennarinn í barnaskólanum hét Halldór Friðjónsson en líklega hefur hann séð um kennsluna einn. Húsið var notað til skólahalds fram undir 1940. Eftir það mun húsið hafa verið tekið til íbúðar, enn seinna varð þetta geymsluhús. Einhverntíma hefur verið byggt við húsið, timburbygging vinstra megin á mynd. Uppúr 2000 var húsið var komið í talsverða vanhirðu og rætt um niðurrif þess. Það hefur þó fengið mikla yfirhalningu og mörg upprunaleg einkenni þess dregin fram, s.s. bogadregnar gluggaumgjarðir og búið var að múra uppí upprunalegar dyr (lengst til hægri ), sem voru endurheimtar. Ekki er mér kunnugt um hver núverandi notkun hússins er, en einhverntíma er ég var á göngu þarna framhjá heyrði ég greinilega að hljómsveit var að æfa sig þar. Þessi mynd er tekin í kvöldsólinni þann 27.maí 2007.

Heimild: Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs.Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur.


Enn ein strætósagan

Ég geri þó nokkuð af því að ferðast í strætisvögnum. Þar heyrir maður oft ýmislegt spaugilegt og sl. haust deildi ég með lesendum nokkrum sögum úr strætó. ( sjá hér og hér ). En hér er önnur saga. Það var eitt sinn sem ég var í strætó sem fór um Brekkuna. Þetta var um ellefuleytið að morgni virks dags og vagninn nánast tómur. Farþegar voru einungis ég og eldri kona, sem var greinilega málkunnug vagnstjóranum. Þegar vagninn hafði farið framhjá framhaldsskólunum heyrði ég konuna segja: "Mikill óskapa fjöldi er þetta af bílum þarna hjá skólunum "  "Nei, þetta eru sko ekki blankir krakkar" svarar vagnstjórinn. " Nei, svo sannarlega ekki. Þetta var nú ekki svona þegar ég var í menntaskóla árið 1950, þá var það algjör undantekning ef nemandi átti bíl" segir sú gamla. Bílstjórinn jánkar þessu. En allt í einu skipti sú gamla um gír ( alls ekki bílstjórinn því vagninn var sjálfskiptur Smile ). Í beinu framhaldi af þessu kom heljarinnar reiðilestur um óráðsíuna og lífsgæðakapphlaupið sem tröllreið öllu, allir þyrftu að eiga allt og allt þyrfti að gerast núna, svona hugsuðu allir og þetta væri haft fyrir aumingja börnunum og þessi djöfulsins vitleysa næði bara ekki nokkurri átt. Þessari þrumuræðu fylgdu einhverjar reynslusögur af eigin nægjusemi og konunni var greinilega mikið niðrifyrir, gott ef hún steytti ekki hnefann einhverntíma með orðaflaumnum. Bílstjórinn hlustaði með hálfum huga og jánkaði á réttum stöðum. Svo róaðist hún jafn skjótt niður og fór að tala eitthvað allt annað.

Það er kannski rétt að láta það fylgja með hvaða ár þetta var. Þetta var nefnilega á vordögum árið 2007.


Hús dagsins : Kaupangsstræti 6 og Ketilhús

P2110028  P8310025  Myndirnar sýna Kaupangsstræti 6 fyrir (t.v.) og eftir viðgerð, 11.feb og 31.ágúst 2007. Ketilhús til vinstri.

Elsti hluti Kaupangsstrætis 6 var reistur árið 1907 og mun það hafa verið sá hluti sem næst er á myndinni. Byggingin í miðjunni með háa risinu og byggingin vestur úr henni eru síðari tíma viðbyggingar. Líklega var húsið frá upphafi í eigu KEA en þetta var þeirra fyrsta verksmiðjuhúsnæði. Upprunalega eða alltént mjög snemma var þarna sláturhús og mjólkursamlag. Yfir dyrunum í kjötbúðina mun í fyrndinni hafa hangið forláta nautshaus. Sá var endurnýjaður við endurgerð hússins eins og sjá má myndinni hér að ofan. Hús þetta er þekkt undir nafninu Bögglageymslan en þarna var um árabil, um og eftir miðja síðustu öld bögglaafgreiðsla og geymsla. Aftan hússins stóð mikil tvílyft bygging, Fóðurgeymslan. Sú bygging brann um 1980 en grunnur hennar stendur enn og er notaður sem bílastæði. Þegar endurbætur hófust á húsinu 2007 hafði það staðið ónotað í áratugi. Var húsið, þ.e. bakhlið lengi vel vinsælt með veggjakrotara og oft voru þarna mikil listaverk í bland við fúkyrði og skilaboð um hver væri asni og hver er elskaði hvern o.s.frv. Endurbætur á húsinu fóru fram fyrri hluta árs 2007 og 12.júlí s.á. flutti veitingstaðurinn Friðrik V í húsið. Myndirnar með færslunni sýna einmitt húsið fyrir og eftir endurbyggingu.

Athugasemd 28.jan:  Í fyrirsögninni minntist ég á Ketilhús en virðist hafa steingleymt að skrifa eitt einasta aukatekið orð um það. Sem er bara alls ekki nógu gott. En Ketilhús er bláa stórhýsið á myndinni. Var það reist 1948 af KEA og hýsti mikla olíukatla sem sáu verksmiðjuhúsunum í Gilinu fyrir gufu og hita. Uppúr 1990, þegar farið að byggja upp menningarstarfsemi í Gilinu var byrjað að nota húsið undir listasýningar og ýmsar uppákomur. Þarna voru líka haldnir ýmsir markaðir, man ég t.d. eftir útsölumörkuðum á geisladiskum þarna. Nú er sennilega nærtækast að kalla húsið tónleika- og fundarsal.  Salurinn í Ketilhúsi er nokkuð sérstæður, tiltölulega langur og mjór og lofthæðin gríðarleg.  Í salnum er svo lítið innbyggt rými ( sem líkja mætti við stúku í íþróttasal, en þó eru engar hallandi sætaraðir )  en þar aðstaða fyrir umsjónar- og starfsfólk viðburða. 

 


Líf og fjör í Sögugöngum.

Í færslunni áðan kom ég inn á viðburði sem kallast sögugöngur. En um árabil hefur Minjasafnið ( eða tengdar stofnanir)  staðið fyrir sögugöngum um gömlu bæjarhlutana Oddeyrina og Innbæinn á sumrin. Er þá gengið undir leiðsögn um helstu göturnar, Aðalstræti og Hafnarstræti í Innbænum og Strandgötu og hliðargötur hennar á Oddeyri, og stoppað fyrir framan merk hús og saga þeirra sögð og þeirra sem þar bjuggu. Það er reyndar misjafnt hverjar áherslurnar eru eftir leiðsögumönnum. Sumir leggja meiri áherslu á fólkið og sögur af því en aðrir fjalla meira um húsin sjálf, sögu þeirra og byggingargerð. Stundum hefur verið stoppað fyrir framan hvert einasta hús og sagt frá en oftast eru það bara valdir staðir, enda yfirleitt tímarammi (1-2klst ) á þessum göngutúrum. Meðal þátttakenda eru oftar en ekki gamlir Innbæingar eða Oddeyringar sem kunna oft mjög áhugaverðar sögur frá þessum svæðum. Oftar en ekki man þetta fólk af eigin reynslu fólk og atburði sem maður hefur aðeins lesið um í bókum. Ég hef stundað þessar göngur allar götur frá sumrinu 1997, eða frá því ég flutti til Akureyrar ( var búsettur í Eyjafjarðarsveit áður ) og reyni að öllu jöfnu að komast í a.m.k. eina slíka á sumri. Jafnvel þótt maður kunni orðið efnið nánast utanað er alltaf gaman að kíkja með og alltaf er eitthvað nýtt að heyra.


Hús dagsins: Aðalstræti 44

p8150040.jpg Aðalstræti 44 mun vera byggt 1840 og er því í hópi allra elstu húsa á Akureyri. Árið 1873 eignaðist húsið kona að nafni Elín E. Thorlacius. Seldi hún þar veitingar og gistingu og var húsið nefnt Elínarbaukur, en bauksnafnið var almennt notað yfir veitingahús á Akureyri. Skilst mér að það hafi komið til af því að veitingamenn voru oftast beykjar* að aðalstarfi. Að öðru leyti hefur húsið lengst af verið íbúðarhús, margar fjölskyldur hafa búið í húsinu og líklega oft á tíðum margar í einu. Allavega hefur einhvern tíma vantað upp á plássið því risinu var einhverntíma lyft** í fyrndinni og byggð tvílyft bakbygging við húsið í framhaldi af því. Þá hafði það á sínum tíma verið asbestklætt og settir þverpóstar í glugga og þannig leit það út þegar endurbætur hófust á því um 2000.  Húsið hefur verið gert upp með nokkuð sérstökum hætti, sem þó mun viðurkenndur innan húsfriðunarfræða. Viðbyggingar voru rifnar og elsta húsið gert upp með upprunalegt útlit í huga, borðaklæðning og sexrúðugluggar. En kröfur til húsnæðis í dag eru dálítið aðrar  en fyrir 170 árum síðan, þannig að eitt og sér dugar gamla húsið skammt. En það mál er leyst þannig: Byggð er lágreist steinsteypt bygging bakvið húsið en byggingar tengdar saman með gangi sem er mjórri en húsin sjálf. Þannig fær gamla húsið að njóta sín til fulls og húsin virðast bæði sjálfstæðar byggingar og þarna eru skörp skil á milli hins gamla og nýja. Í sögugöngu um Innbæinn eitt árið heyrði ég að í þessu húsi sé hægt að ganga á nýmóðins steyptum gólfum um dyr, inn á dúandi og brakandi timburgólf. Myndin með þessari færslu er tekin í úrhellisrigningu; hitaskúr  síðdegis þann 15.ágúst 2009.

*Beykir= tunnusmiður

**Að lyfta risi: Stundum kom það fyrir að fullþröngt var um íbúa húsa undir lágri súð. Oft var lítill kvistur látinn duga en stórtækara verk var að lyfta risinu. Það lýsti sér þannig að þakgrind var tekin niður öðru megin og reistur veggur í staðinn og í stað hallandi riss kom skúrþak; halli á þakinu rétt til málamynda.  Langoftast var þetta gert á bakhlið húsa, enda fylgdu oft frekari viðbyggingar eða inngönguskúrar í kjölfarið, og e.t.v. þótti þetta ekki mikil prýði. 


Hús dagsins: Nokkur hús í 101, Vatnsstígur 4.

Milli jóla og nýárs var ég staddur í Reykjavík og að sjálfsögðu var myndavélin með í för. Á einum göngutúr frá Sóleyjargötu á Laugaveg smellti ég myndum af nokkrum húsum sem vöktu athygli mína. Nú vill svo til að í flestum tilvikum þekki hvorki haus né sporð á þessum byggingum enda skal það viðurkennast að ég er ansi lítið kunnugur í Borginni. Því leita ég til ykkar, lesendur góðir, ef þið þekkið einhver deili á  þessum húsum þá má gjarna gauka einverju slíku að undir athugasemdum.

pc300001.jpg     pc300002.jpgÞessi tvö hús standa við Njarðargötu. Stóra steinhúsið ef ég man rétt á horni hennar og Bergstaðastrætis. Ef ég ætti að giska á byggingarár myndi ég halda að timburhúsið sé byggt á bilinu 1900-1920 en steinhúsið gæti verið byggt ca 1935-40.

pc300005.jpg  pc300010.jpg

T.v. : Skemmtilega sérstakt í laginu þetta hús við Nönnugötu. T.h. : Þetta glæsilega timburhús stendur á horni Grettisgötu og Frakkastígs. Þetta er líkast til byggt á 1.tug 20.aldar og ekki þykir mér ólíklegt að þetta hús sé norskættað ( sbr. pistil minn um sveitserhús ).

pc300013_952638.jpg

Þetta hús kannast  örugglega margir við. Þetta er Vatnsstígur 4, byggt 1901. Í fyrravor komst það í fréttirnar þegar hópur hústökufólks kom sér þar fyrir. Þar "ráku" þau fríbúð og máluðu og tóku til hendinni við ýmislegt smáviðhald. Að lokum voru þau þó borin út með valdi og húsinu lokað. Nokkrum mánuðum síðar kviknaði í því og skemmdist það töluvert eins og sjá má á myndinni.  En það stendur þó enn. 

 

 


Hús dagsins: Strandgata 35

strandgata_35.jpg Strandgata 35 er eitt af elstu húsum Oddeyrar og var lengi vel eitt stærsta húsið þar. Er það kallað Havsteenshús en það reisti Jakob V. Havsteen, danskur kaupsýslumaður og einn helsti stórlax Akureyrar á sinni tíð. Húsið reisti hann 1888. Var það allt hið veglegasta, lengra, breiðara og hærra til lofts en almennt tíðkaðist og kjallari óvenjuhár. Þá gengur tvílyft bakbygging norður og vestur úr húsinu ( á myndinni sést framhlið hússins sem snýr á móti suðri ). Sú bygging mun upprunalega hafa verið geymslu- og gripahús. Lóð hússins er gríðarstór ( og var líkast til enn stærri á dögum Havsteens ) og átti Havsteen einnig fjöruröndina framan hússins og allur reki sem þangað kom varð sjálfkrafa hans eign. Hann reisti  bryggju framan og sjást enn leifar hennar (stubbar af bryggjustólpum, plankar ) í háfjöru.  Húsið er næsta lítið breytt frá upphafi, en á tímabili var húsið klætt steinskífu en upprunalega hefur líklega verið einskonar timburklæðning á því. Lengst til hægri, þ.e. austast á húsinu má sjá tvo glugga sem eru nokkuð stærri en hinir og með öðruvísi póstum. Þar var lengi vel sólskáli með skrautrúðum. Havsteen bjó í húsinu og stundaði þar verslunar- og skrifstofustörf. Ýmis starfsemi hefur einnig verið í húsinu, m.a. var afgreiðsla ÁTVR í kjallara hússins áratugina kringum 1950. Nú eru í húsinu að ég held sex íbúðir fjóra í vesturenda og tvær í austurenda hvor á sinni hæð. Þessi mynd er tekin um miðjan janúar 2005, fyrir réttum fimm árum síðan.


Hús dagsins: Aðalstræti 66 og 66a

Þetta litla hús í Fjörunni, Aðalstræti 66a, mun vera reist árið 1845. Hp8150044.jpgús nr. 66 er hins vegar baka til á lóðinni og sést hluti þess hægra megin á myndinni. Það hús reisti Grímur Laxdal veitingamaður árið 1843 og rak í húsinu einn fyrsta veitingastað Akureyrar. 66a var upprunalega  reist sem smiðja ( mjög líklega af Grími ) eða verkstæði en tekið til íbúðar seinna. Íbúar þessa húsa gegn um tíðina skipta örugglega hundruðum ef ekki þúsundum en á tímabili munu allt að 6-8 fjölskyldur hafa búið samtímis í Aðalstræti 66. Nú eru þetta hins vegar hvort tveggja einbýlishús og bæði húsin hafa hlotið endurbætur þar sem upprunalegt útlit hefur verið haft til hliðsjónar. Þessi mynd er tekin 15.ágúst 2009.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 110
  • Sl. sólarhring: 118
  • Sl. viku: 410
  • Frá upphafi: 450597

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 264
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 73

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband