Hús dagsins: Gamli Skóli

p3060050.jpgEitt stærsta og veglegasta timburhús á Akureyri stendur við Eyrarlandsveg 28 og er einskonar einkennisbygging Menntaskólans á Akureyri. En Gamli Skóli ( margir kalla húsið einfaldlega bara Menntaskólann ) var reistur árið 1904  og yfirsmiður var Sigtryggur Jónsson timburmeistari.  Gamli skóli er nokkuð dæmigert fyrir norsk Sveitser hús og fullvíst er talið að hann hafi komið tilhöggvin frá Noregi, enda reis hann á aðeins fjórum mánuðum. Í bókinni Af Norskum Rótum er sagan rakin á þessa leið: Teikningar Sigtryggs eru dagsettar 26.apríl 1904 og samþykkti Stjórnarráðið verksamning við hann þremur dögum seinna. Þá mun hann hafa haldið til Noregs og valið við í húsið. 1.október um haustið er skólinn svo settur í húsinu. Hugsanlega hefur húsið verið reist með fullmiklu hraði. Allavega mun húsið hafa verið óþétt og varla haldið vatni eða vindum og Stefán Stefánsson, sem tók við sem skólameistari 1908, var ekki alls kostar sáttur með ástand hússins. Mikið tjón varð t.d. á húsinu í slagviðri í árslok 1914 og á árunum 1920-25 voru gerðar á því miklar endurbætur, húsið járnklætt og sett í það raflýsing og miðstöðvarhitun. Á fyrstu áratugum voru í húsinu bæði kennslustofur, heimavist og íbúð skólameistara og hans fólks en á lóðinni stóð einnig gripahús, reist 1905. Það hús stendur ekki bara enn, heldur er enn í dag í fullri notkun sem íþróttahús skólans og gengur undir nafninu Fjósið. Saga Gamla skóla er orðin bæði löng og merk og það yrði allt, allt og langt mál að rekja hana í smáatriðum. Miðað við hvað þetta er glæsilegt hús, kann etv. að þykja ótrúlegt að eitt sinn stóð til að rífa Gamla Skóla. Var það á árunum 1966-67 sem miklar hugmyndir voru á teikniborðinu um nýbyggingar, m.a. tveggja hæða bóknámshús og nýtt íþróttahús sem átti að standa á ca. sama stað og Gamli Skóli og raungreinahús. Það síðarnefnda reis 1969 og er kallað Möðruvellir. Einhversstaðar sá ég því fleygt fram að kreppan uppúr 1970 (gjarnan kennd við olíu) hafi raunar bjargað gömlu húsunum, orðið til þess að ekkert varð meira úr fyrirhugaðri uppbyggingu. Nú dytti væntanlega engum í hug að rífa Gamla Skóla. Enda hefur mikil uppbygging átt sér stað umliðnum áratugum án þess að hreyft hafi verið við húsinu. Hólar nefnist nýjasta bygging skólans, einnar hæðar bygging sem tengir saman Gamla Skóla og Möðruvelli.  Hólar voru reistir 1996 og þar er nú aðalinngangur skólans, afgreiðsla og Kvosin, samkomustaður nemenda. Langur gangur liggur frá Kvosinni og tengist við Gamla Skóla þar sem áður var lítil forstofubygging. Er það mjög sérstakt að ganga eftir þeim gangi, nýmóðins og steinsteyptum og koma svo inná brakandi timburgólf Gamla Skóla. Þess má geta að síðuhaldari er fyrrum MA-ingur og hefur setið ófáa tíma í þessu merka húsi. Myndin er tekin 6.mars 2010. 


Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason. (2003). Af norskum rótum. Reykjavík: Mál og menning.

Jón Hjaltason (ritstj.). 2008. Saga Menntaskólans á Akureyri 4.bindi.  Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólan á Akureyri.


Hús dagsins: Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO

Áður en einkabíllin varð almenningseign upp úr miðri 20. öld voru leigubílar vinsæll ferðamáti og munu hafa verið a.m.k. tvær leigubílastöðvar á Akureyri. Það voru m.a. Bifreiðastöð Akureyrar og Bifreiðastöð Oddeyrar, BSOen sú leigubílastöð sem enn er starfandi er undir merkjum þeirrar síðarnefndu. Leigubílastöðin stendur á horni Glerárgötu og Strandgötu, telst líklega standa við Strandgötu 8. En húsið mun vera byggt 1956 og næsta lítið breytt frá upphafi, a.m.k. að utan. Ég hef nú reyndar grun um að ekki hafi heldur verið neinar stórvægilegar breytingar að innan gegn um tíðina. Ekki þori ég að fullyrða hvort þarna hafi verið leigubílastöð frá upphafi ( upplýsingar um það vel þegnar ) en þessi litla bygging hefur um árabil verið miðstöð leigubílasamgangna á Akureyri. Þarna er einnig söluturn og þar má sjá á veggjum margar innrammaðar myndir af leigubílum; drossíum frá miðri 20.öld. Þá er þarna áhugavert, gamalt Íslandskort . Einhvern tíma var ég að horfa yfir það og tók eftir því að þarna vantaði marga vegi, á Akureyri var ekkert þéttbýli norðan Glerár og fullt af bæjum í byggð sem löngu voru komnir í eyði. Hafði ég orð á því að þetta væri nú líklega úrelt kort en mér var bent á að þetta væri þarna sem einskonar safngripur.  Þá kíkti ég á kortið og sá þar standa í horninu "mælt og útgefið 1959". Mikill sjarmi yfir þessari sjoppu. Þessi mynd er tekin fyrir tveimur vikum, 4.mars 2010.  Á bakvið má sjá glitta í Hof, Menningarhús Akureyrar sem hefur verið um þrjú ár í bygging en verður senn fullbúið.

 


Vor í lofti...

Það er býsna vorlegt um að litast á Akureyri þess dagana. Nú er hitinn um 8 stig, léttskýjað og sólin skín ansi glatt. Snjó að mestu tekið upp í byggð. Vaðlaheiðin er skjöldótt, ( en Súlutindur að sjálfsögðu alhvítur ) og það þrátt fyrir þónokkuð fannfergi fyrir aðeins tveimur vikum. Hins vegar skal minnt á eina staðreynd: Það er enn vetur og verður svo næsta mánuðinn eða svo. Að minnsta kosti. Oft vilja menn missa sig í vorhug þegar svona hlýindatíð kemur í mars en hafa ber í huga að mars er hreinn vetrarmánuður, raunar mjög sambærilegur við febrúar. Enda einn af hinum svokölluðu útmánuðum, en þá verða jafnan verstu veðrin og mestu kuldarnir. Fyrir mér fer ekki að vora fyrr en ca. miðjan apríl. Að sama skapi verður maður stundum var við að ef það kemur smá kuldi og slagviðri síðsumars í ágúst að menn tali um að farið sé að hausta. Gróðurinn lætur í mörgum tilfellum blekkjast af svona hlýindaköflum. Oft má sjá plöntur og runna byrja að grænka alltof snemma, stundum með slæmum afleiðingum þegar aftur kemur kuldi og snjór og mun þá oftar en ekki um að ræða innfluttar tegundir. Íslenska birkið er hinsvegar vel aðlagað að dyntum íslenskrar vorveðráttu og bíður með græna litinn þar til nokkurn vegin er hætt að dimma yfir nóttina. En alltaf skal njóta góðrar veðurblíðu , hvort sem er vetur, sumar, vor eða haust. ( Og ekki láta einhvern leiðindaskarf útí bæ segja sér hvort það er vor eða vetur eða hvað Smile )

Hús dagsins: Strandgata 21

Strandgata 21 er eitt af eldri húsum Oddeyrar, en það var reist 1886 af þeim Einari Pálssyni kaupmanni og Þórði Brynjólfssyni trésmiði.  Líklegast hafa þeir búið hvor á sinni hæð, en ekki ep3040045.jpgr fullvíst hvort húsið hafi verið tvílyft frá upphafi eða hækkað um eina hæð síðar. Alltént er það með þessu lagi á myndum frá aldamótum 1900.  Á þeim tíma var eigandi hússins Eggert Einarsson. Hann verslaði þarna en starfrækti einnig  öl- og gosdrykkjaverksmiðju . Gekk hann undir nafninu Eggert Límonaði. Þarna ólst upp sonur hans, Vernharður (1910-1952), á sinni tíð þekktur ævintýramaður sem m.a. var fyrsti maðurinn til að brjótast út af Litla-Hrauni, barðist í borgarastyrjöldum á Spáni og var á flótta undan kanadísku riddaralögreglunni. Þorlákur Axel Jónsson hefur nýlega tekið saman ævisögu Vernharðs og kallast hún Dagur Austan, mikil skemmtilesning þar á ferð. Eggert og fjölskylda hans bjuggu í húsinu um áratugaskeið, en eftir daga hans munu íbúaskipti hafa verið tíð. Á vesturgafli og bakhlið hússins eru miklar bakbyggingar sem reistar hafa verið gegn um tíðina, en einhverjar þeirra voru frá tíma gosdrykkjaverksmiðju Eggerts. Húsið er timburhús en hefur á sínum tíma verið múrhúðað eða forskalað, að öllu leyti nema bárujárn er á bakhlið. Ekki hefur verið búið í húsinu í fáeina tugi ára, en þar eru samkomusalir og hafa AA samtökin  þarna aðsetur sitt nú. Það er e.t.v. skemmtileg tilviljun að AA fundi í húsi þar sem áður fyrr var bruggað öl!  Myndin með þessari færslu er tekin 4.mars 2010.

Heimild: Þorlákur Axel Jónsson. (2009). Dagur Austan  Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson. Akureyri: Völuspá útgáfa.


Hús dagsins: Hafnarstræti 49; Hvammur

Tveir merkir skátafrömuðir komu mikið við sögu í síðustu færslu og því ep7040037.jpgkki úr vegi að fjalla um hús sem í áratugi hefur hýst starfsemi Akureyrskra skáta. En Hafnarstræti 49 var reist árið 1895 af Páli Briem amtmanni og valdi hann þessa staðsetningu ekki að ástæðulausu. En á þessum tíma voru Fjaran og innbærinn ( kallaðist einu nafni Akureyri ) og Oddeyrin tvö aðskilin byggðarlög. Á milli var brekka, snarbrött og oft illfær sem gekk alveg í sjó fram. Amtmaður ákvað að reisa hús í hvammi þarna sem var staðsettur nokkurn vegin miðju vegu milli Oddeyrar og Akureyrar. Nokkrum árum seinna voru reist á sama stað Barnaskóli (1900) og Samkomuhúsið (1906). Lengi vel var húsið kallað Amtmannshúsið og seinna Sýslumannshúsið en á eftir Páli Briem átti húsið Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður. Hvammurinn sem húsið stendur í var einnig nefndur eftir amt- og sýslumanni.  Skátarnir eignuðust húsið 1969 og kölluðu það Hvamm. Var það þá allt tekið í gegn að innan svo það hentaði samkomuhaldi en það mun vera lítið breytt að utan frá upprunalegu útliti. Um áratugaskeið var þarna miðstöð skátastarfs á Akureyri, en starfið dreifðist einnig á fleiri staði í bænum. Síðustu 23 árin hefur skátastarf á Akureyri verið undir nafni Skátafélagsins Klakks, en það félag var stofnað 1987. Árið 2005 var mestallt starf Klakks flutt að Umhverfis- og Útilífsmiðstöðinni Hömrum. Klakkur á þó enn húsið og er það stundum notað undir ýmsa viðburði.  Þess má að lokum geta að síðuhöfundur er sjálfur skáti og hefur setið ótal marga fundi og samkomur í þessu ágæta húsi. Myndin meðfylgjandi er tekin að kvöldi 4.júlí 2009. 


Hús dagsins: Lundargata 11

Lundargötu 11 reisti maður að nafni Jón Guðmundsson árið 1898. Mörg hús við Lundargötuna voru einmitt byggð það ár, og flest þeirra standa enn. Húsið er lítið breytt að utan frá upprunalegri gp3040043.jpgerð, þó hefur verið byggð lítil útbygging á bakvið. Nú er húsið einbýli og hefur verið í tugi ára en svo hefur aldeilis ekki verið alltaf. Tryggvi Þorsteinsson (1911-1975) kennari og skólastjóri og mikilvirkur skátaforingi ólst upp í þessu húsi. Í 2.bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið (bls.77-113) lýsir hann aðstæðum þarna og íbúafjölda. Hann talar um að húsið hafi verið fjórar íbúðir, tvær á hæð og aðrar tvær í risi og í kjallara illa manngengar geymslur. Á hvorri hæð var kolaeldavél en engin önnur upphitun. Hann getur þess einnig hversu margir bjuggu í húsinu þau ár; það voru 19 manns.  Slíkar aðstæður voru raunar alls ekkert einsdæmi á þeim tíma. Í jafnvel enn minni húsum bjuggu oft 15-30manns, 4-6 fjölskyldur. Húsið hefur líklega upprunalega verið timburklætt en einhverntíma klætt svokölluðu steinblikki eða rósajárni. Þetta mun vera blikk- zink blanda sem er mótuð líkt og steinhleðsla ( þaðan kemur nafnið steinblikk ) og var mjög algeng á Akureyri en sést ekki mikið annars staðar. En mun það stafa af því að innflytjandinn, Gunnar Guðlaugsson húsasmiður og einnig mikill skátafrömuður var búsettur hér í bæ, nánar tiltekið í Lundargötu 10.  Það hús brann fyrir 20 árum síðan, var lengi skátaheimili og kallað Gunnarshólmi. Þessi klæðning hefur þann kost fram yfir járn að tærast lítið sem ekkert. Árin 1997-2000 var þetta hús gert upp og lögðu eigendur mikið á sig við að nálgast nýtt blikk. Eftir mikla eftirgrennslan kom í ljós að þetta var enn   framleitt í gamalli fjölskylduverksmiðju í Nevada, USA og þurfti að sérpanta þaðan. Mun það vera sama verksmiðja og Gunnar  skipti við á sínum tíma. Endurbygging þessa hússp3040044.jpg hefur mikið verið lofuð í sögugöngum um Eyrina enda sannarlega lofsvert framtak, það hefði verið mikið einfaldara að skella bara venjulegu bárujárni á húsið en haldið skyldi í upprunan. 

Hér til hliðar er nærmynd af steinblikkklæðningu. Eins og glögglega má sjá er þetta einskonar eftirlíking af múrsteinhleðslu.

Myndirnar tók ég á léttri göngu seinnipartinn í gær, 4.mars 2010.

Heimild:

Tryggvi Þorsteinsson, Erlingur Davíðsson skráði.(1973). Aldnir hafa orðið, II bindi. Akureyri: Skjaldborg.

 

 

 


Svipmyndir úr Eyjafirði

Hér eru nokkrar svipmyndir úr Eyjafirðinum þegar hann skartar sínu fegursta ( sem er reyndar bara alltaf! ). Myndaröðin spannar  frá Torfufelli fremst að Ólafsfjarðarmúla yst og eru myndirnar teknar á vetri, sumri, vori og hausti.

p6200032.jpgFyrsta myndin er tekin við bæjarhúsin að Litla-Dal í Djúpadal og sýnir fjallið Mælifell, 1155m y.s. Fjallið virkar ekki árennilegt en mér skilst að auðvelt sé að komast þar upp ef farið er fram Strjúgsárdalinn og upp þar. Strjúgsárdalur er einmitt til vinstri á myndinni.  Myndin er tekin 20.júní 2006.

 

 

 

 

 

 

p3160016.jpgNæst færum við okkur örlítið utar og er þessi mynd tekin á þjóðveginum skammt norðan við Melgerðismela. Hólafjall ( 1016m ) fyrir miðri mynd og austan við ( vinstra megin á mynd )  er Sölvadalur. Torfufell ( 1248m)  er svo til hægri, en um Torfufellið greinast Eyjafjarðardalur austan megin og Villingadalur vestan við. Myndin er tekin fyrir h.u.b. tveimur árum síðan, 16.mars 2008. 

 

 

 

 

 

p9190072_966603.jpgÞessi mynd er tekin 19.sept. 2009 ofan af Ytri-Súlu. Staðarbyggðarfjall (1051m ) sést hér eins og það leggur sig og Eyjafjarðaráin liðast um fjörðinn. Þarna má greina þéttbýliskjarnana við Kristnes og Hrafnagi, bleika akra og slegin tún. Áberandi eru líka skuggarnir af skýjunum ofan við. Þar sem myndin er tekin af Súlutindi sést að Staðarbyggðarfjallið er eilítið lægra en er munurinn rúmir 100m, Súlum í vil. Lægri hluti fjallsins, vinstra megin á mynd kallast Öngulsstaðaöxl. Yfir hana má sjá fjallaröðina í Garðsárdal. 

 

 

 

 

p6300017.jpgNæst berum við niður við Gásir og horfum til suðurs, fram fjörðinn. Myndin er tekin seint um kvöld, 30.júní 2009. Þarna sést Súlnafjallgarðurinn, Súlurnar tvær (1167 og 1213m), Bóndi (1361m)og Þríklakkar (um 1380m) og Kerlingin (1538m) hálf í felum í skýjabakka.  

 

 

 

 

 

 

p6300016.jpgÞessar tvær myndir eru teknar á sama stað með nokkurra sekúndna millibili en hér hefur ljósmyndari snúið sér við. Hér er sólin að setjast á bakvið Kötlufjall ( 907m ). 

 

 

 

 

 

 

 

p5150029.jpgÞessi mynd er tekin í Vaðlaheiðinni á gamla Þjóðveginum að kvöldi 15.maí 2006. Ólafsfjarðarmúli (um 1000m ) fjærst til vinstri og örlítið vinstra megin miðju ber Hrísey við sjóndeildarhringin.  Ysti hluti Galmastrandar skagar út á fjörðinn. Strikið sem gengur þar út á fjörðinn á milli 2. og 3.háspennustaurs frá vinstri mun vera Hjalteyri.

 

Líkt og fyrri daginn er ekkert "fótósjoppað" eða "lagað" á neinum af þessum myndum.


Tryllitæki úr ýmsum áttum

Þar sem ég hef ekki komið með "tryllitækjafærslu" frá því í október, eða í fjóra mánuði er um að gera að bæta úr því. Þannig að hér koma nokkrir gæðingar. Þeir eru á ýmsum aldri en meðalaldurinn sennilega yfir þrítugu. Hér má sjá Land Rover, Ford Mustang, Jeep Wagoneer, Ford Econoline, Chevrolet Suburban en ég þori ekki alveg að fara með hverrar gerðar svarti eðalvagninn neðst t.h. er en ábendingar þess efnis eru vel þegnar. Annars læt ég myndirnar bara tala sínu máli. Myndirnar eru teknar 2006-07 og árvissri bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar, 17.júní 2009.

pc050013.jpg  p9240120.jpg  p6170264.jpg  p6170262.jpg  p5010015.jpg  p5270042.jpg


PÍ og fleiri tölur

Mér þykir sá danski ansi seigur með pí-ið. Sjálfur man ég mest 9 aukastafi 3,141592654 og hef ég þó heyrt að ég sé nokkuð lunkinn með tölur. Það hlýtur líka að taka hann dágóðan tíma að þylja alla þessa runu; ef hann segir 3 tölur á sekúndu tekur þetta hann 22544/3 = ca. 7500sekúndur eða rúmlega tvo klukkutíma. En það sem hann segir í lokin með hann eigi erfitt með muna afmælisdaga vakti athygli mína því það mun af mörgum talið mitt sérsvið. En það er svo með mig að ef ég sé fæðingardag/ár viðkomandi man ég það einhvernvegin alltaf, og ekki nóg með það: ég man afmælisdaga og aldur betur en nöfn. Ef ég man afmælisdaga fólks sem ég þekki lítið á ég mun auðveldara með að muna nöfnin og stundum hef ég staðið mig að því að muna afmælisdag og aldur einhvers en það er gjörsamlega stolið úr mér hvað hann heitir ! 


mbl.is Man pí með 22.544 aukastöfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Gefjunarhúsið á Gleráreyrum

Öll Hús dagsins hingað til hafa átt það sameiginlegt að vera ennþá uppistandandi. Húsið á myndinni hér til hægri er hins vegar horfið. Þetta er Gefjunarhúsið á Gleráreyrum. Það var byggt árið 1907 og var á sínum tíma eitt mesta stórhýsi bæjarins, steinhlaðið og vel vandað til í alla staði. Húsið var reist fyrir ullarverksmiðjuna Gefjuni en rekja má sögu ullariðnaðar á Gleráreyrum allt til ársins 1897 er Tóvélar hófu starfsemi sínu. Tóvélar voru fyrirrennari þess iðnaðar sem fram fór á þessu svæði alla 20.öldina. (Enn má reyndar segja þarna fari fram iðnaður þó engar séu verksmiðjurnar, en á Gleráreyrum er nú staðsett miðstöð þjónustu- og verslunariðnaðar, Glerártorg) Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, SÍS, keypti svo verksmiðju Gefjunar árið 1930. Verksmiðjan var starfrækt áfram í húsinu áratugum saman en SíS hóf skömmu seinna mikla uppbyggingu iðnaðar og verksmiðjuhúsa á Eyrunum. Verksmiðjuhúsin urðu hins vegar að víkja fyrir stækkun verslanamiðastöðvarinnar Glerártorgs, en það var upprunalega opnað árið 2000, (að hluta til í fyrrum verksmiðjuhúsnæði Skinnaiðnaðar ) en stækkuð 2008.  Niðurrif húsanna tók margar vikur, enda um miklar og traustlegar byggingar að ræða. Húsið var orðið mjög mikið breytt frá fyrstu gerð, marg viðbyggt og líklega var sá hluti sem sést á myndinni sá sem kom næst því að vera upprunalegur hluti hússins. Síðustu árin voru í húsinu trésmíðaverkstæði og vinnustofur listamanna. Mörgum þótti niðurrif húsanna mikil hneisa og jafnvel móðgun við atvinnusögu Akureyrar, enda saga verksmiðjanna samofin þeirri sögu og sögu Akureyrar almennt á 20.öld. Sérstaklega sáu menn eftir Gefjunarhúsinu, enda var það eitt elsta iðnaðarhúsnæði bæjarins, á 100.aldursári þegar yfir lauk. Þessi mynd er tekin 8.janúar 2007, viku áður en húsið var jafnað við jörðu. Hér að neðan eru svo fleiri myndir af niðurrifinu en þar mátti greina m.a. upprunalega bogadregna glugga og gamlan turn, líklega skorstein sem hafði verið falinn inní seinni tíma viðbyggingum. ATH: HUGSANLEGA ER ÞAР MISJAFNT EFTIR VÖFRUM EÐA UPPSETNINGU ÞEIRRA HVORT MYNDIRNAR BIRTAST Í  RÖÐ EÐA Í ÓREGLULEGRI HRÚGU.

707513730.jpg   707513831.jpg  707513658.jpg   707513575.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 50
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 350
  • Frá upphafi: 450537

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 232
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband