Gleðilegt sumar

Kæru síðugestir: Óska ykkur öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn. Smile

Læt eina sumarlega mynd fylgja með.

p5270084.jpg


Hús dagsins: Hafnarstræti 73.

 Hp3060052.jpgafnarstræti 73 hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegn um tíðina. Lón, Dynheimar, Kompaníið eru meðal þeirra Nú kallast þetta hús Rýmið. Sjálfum er mér tamast að kalla húsið Dynheima eða Gömlu Dynheima enda var það nafn á húsinu lengst af frá því ég man eftir mér. Allskonar starfsemi hefur  enda farið fram hér, bíó, iðnaður, félagsmiðstöðvar og leikhús svo fátt eitt sé nefnt. Ekki veit ég hinsvegar til þess að nokkurn tíma hafi verið búið í þessu húsi, en það getur hins vegar vel verið.

Húsið er steinsteypt, reist árið 1923 undir starfsemi Akureyrarbíós en í kjallara var Smjörlíkisverksmiðjan Akra. Húsið er þrílyft með lágu valmaþaki. Á norðurhlið er bárujárnsklædd, einlyft viðbygging litlu yngri. Húsið er byggt á plássi sem skapaðist þegar brekkunni á bakvið var mokað í uppfyllingu, þar sem m.a. Hafnarstræti 82 (síðasta færsla) var reist.   Eftir að kvikmyndasýningum var hætt í húsinu var salurinn tekinn undir samkomuhalds af Frímúrurum en í kjallara var trésmíðaverkstæði eftir að smjörlíkisgerðin flutti þaðan. Karlakórinn Geysir eignaðist síðan húsið og nefndi það Lón, en flutti nafnið með sér úr húsinu seinna meir. Tónlistarskóli Akureyrar var stofnaður í þessu húsi 1946 og hafði hér aðsetur fram yfir 1970. Þá var húsið komið í eigu bæjarins, sem hóf þar rekstur félagsmiðstöðvar fyrir ungmenni og kallaðist húsið þá Dynheimar. Félagsmiðstöðvar voru þarna starfræktar undir ýmsum nöfnum í 33 ár, eða til áramóta 2005-6. Nafninu var breytt úr Dynheimum í Kompaníið árið 1997 en þá voru líka boðaðar breyttar áherslur í starfseminni, en Dynheimanafnið hafði orðið óorð á sér vegna villtra balla og unglingadrykkju- margir munu t.d. hafa tekið sinn fyrsta sopa á Dynheimaböllum. Menningarmiðstöð ungs fólks, Húsið hóf hér starfsemi uppúr Kompaníinu um 2001 og var hér starfrækt til áramóta 2005-6 en fluttist þá í Rósenborg þar sem það er enn starfandi við miklar vinsældir. Frá 2006 hefur Leikfélag Akureyrar haft aðstöðu í húsinu og kallast það nú Rýmið. Salurinn býður upp á meiri möguleika í leiksýningum en hefðbundinn salur, sæti eru ekki föst heldur hægt að raða þeim eftir hentugleikum m.t.t. leikmynda og nálægð við áhorfendur oft mikil.

Ég hóf að stunda Húsið á vordögum 2004 en þá var það starfandi í þessu húsi. Mér þótti nokkur eftirsjá af þessari aðstöðu fyrst  um sinn, og örugglega margir á sama máli.  Í viðbyggingunni hafði t.d. nýlega verið innréttuð mjög fullkomin æfingaraðstaða fyrir hljómsveitir og salurinn þótti einstaklega frábær til tónleikahalds.  Hann var á 2. hæð hússins, heljarinnar gímald og stórar svalir á austurvegg,  þar sem hljómsveitir höfðu oftar en ekki afdrep enda gengt af þeim niður á svið. Mikill sjarmi yfir þessum sal, sem var gjörbreytt ( svalir m.a. rifnar ) þegar Leikfélagið tók við húsinu. Ekki veit ég hvað salurinn var skráður til að rúma marga en á einhverjum tónleikum tókst að troða þarna inn um 260 manns!  En hinsvegar skal geta þess að þrátt fyrir mikinn sjarma yfir húsnæðinu þarna að aðstaða Hússins batnaði stórkostlega við flutninginn í Rósenborg, enda held ég að þetta húsnæði hafi að mörgu leyti verið orðið ófullnægjandi og  þurft miklar endurbætur. Þá er ég ekki frá því að aðsóknin hafi stóraukist eftir að Húsið flutti í Rósenborg. Þessi mynd er tekin 6.mars 2010. 


Hús dagsins: Hafnarstræti 82

Hafnarstræti 82 var reist úr steinsteypu árið 1919 fyrir Kaupfélag Eyfirðinga og hýsti byggingarvörudeild félagsins um áratugaskeið. Eins og gengur og gerist með elstu steinsteypuhús er húsiðp3060054.jpg nokkuð keimlíkt hefðbundinni gerð stórra timburhúsa á þessum tíma. Tvílyft með háu portbyggðu risi og tveimur kvistum og slútandi þaki og undan því standa útskornar sperrutær. En það er eitt einkenna Sveitzer húsa, veglegra timburhúsa ættaðra frá Noregi, sem vinsæl voru meðal efnafólks um 1900. Húsið stendur á uppfyllingu sem var mokuð úr brekkunni beint á móti og má þar nærri geta að lítið hafi verið um vélar við það verk, árið 1919. Þannig má gefa sér allan grunnflöt hússins og rúmlega það mokaðan úr snarbrattri brekku með skóflu og hjólbörum! Eitt sem kann að þykja sérkennilegt með húsið eru þessar dyr uppi á efri hæðum og á kvistunum. Þar eru þó hvorki svalir eða tröppur.  En sem áður segir verslaði KEA þarna með timbur og byggingarefni og var þetta hús þannig kallað Timburhúsið. Lager og geymslur munu hafa verið á efri hæðum og var timbur og annað góss híft þar upp inn um þessar dyr. Þar er komin skýringin skringilega staðsettu dyrum. Timburverslunin flutti úr húsinu 1963.  Nú hefur rútufyrirtækið SBA Norðurleið afgreiðslu þarna og hefur haft um árabil. Hér hefur lengi verið miðstöð rútusamgangna til og frá Akureyri og upplýsingamiðstöð ferðamanna hefur þarna aðsetur einnig. Í daglegu tali er þetta hús því kallað Umferðarmiðstöðin réttilega. Á efri hæðum eru skrifstofur og að ég held nokkrar litlar íbúðir. Þessi mynd er tekin 6.3.2010. 

Algjör (lú)pína?

Alaskalúpínan (Lupinus nootkasensis) var upprunalega flutt inn sem einskonar bjargvættur, átti að græða upp örfoka land og mela en annað kom á daginn þegar reynsla kom á hana. Því þessi annars fallega  planta virðir engin landamæri mela og gróins lands og veður bara áfram og oft yfir lágvaxnari gróður sem fyrir er. Og það er heldur ekki auðvelt að vinna bug á henni ef útbreiðsla hennar fer úr böndunum. Sjálfsagt eru margir á þeirri skoðun að réttast væri að fella burt "" framan úr nafni lúpínunnar og þar væri komið réttnefni á hana. Smile

Hef áður vikið að lúpínu og skógarkerfli hér á síðunni.


mbl.is Hætt að dreifa alaskalúpínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árstíðir

p1030014.jpg   p7040031_978968.jpg Fyrir tilviljun á ég mynd af sömu risahvannarplöntunni, teknar á sitt hvorri árstíð. En þessi planta stendur  við syðri sporð brúarinnar yfir Glerá á Hörgárbraut ( Þjóðvegi 1 ) við verslunarmiðstöðina Glerártorg. Sumarmyndin er raunar tekin af ánni og eyjunni í henni en vetrarmyndina tók ég gagngert af plöntunni. Risahvönnin (Heracleum mategazzianum) er vissulega falleg en hún getur hins vegar reynst mikið skaðræði; ef safinn úr henni kemst í snertingu við húð getur það valdið einkennum sem svipar til brunasára. Sólarljós eykur enn á virkni safans. Í klakaböndum er plantan hins vegar sauðmeinlaus. Vetrarmyndin er tekin 3.janúar 2010 í -11°C frosti og heiðríkju; ekta norðlenskri vetrarblíðu. Það má sjá gufa uppúr hálf ísilagðri ánni.  Sumarmyndin er tekin 4.júlí 2009. Hitastigið að mig minnir 19°C, en eins og sjá má er vöxtur í Glerá. Það er ekki alveg glaðasólskin, en örfáum mínútum eftir að myndin var tekin brast á með ógurlegri hitaskúr.

Hús dagsins: Hafnarstræti 92

p3060057.jpg

Hafnarstræti 92 stendur í suðausturhorni svokallaðs Kaupfélagshorns, hornsins valinkunna milli Kaupangsstrætis og Hafnarstrætis. Húsið reisti Eggert Laxdal kaupmaður árið 1900. Hann bjó þá í Laxdalshúsi, sem er einmitt nefnt eftir honum. Upprunalega var þetta tiltölulega látlaust hús, einlyft með portbygðu risi og miðjukvisti.   Eggert verslaði þarna í nokkur ár en nokkru seinna keypti verslunin Gudmanns Efterfölger húsið. Í millitíðinni hafði Edinborgarverslunin í Reykjavík átt húsið og rekið þar útibú. Á vegum hennar var húsið lengt til norðurs og reistur þessi mikli turn á horninu sem nú er helsta sérkenni hússins. Þetta var um 1915. Húsið var alla tíð verslunarhús og líklega hefur verið búið í því líka gegn um tíðina. 1971 var opnaður  húsinu hinn góðkunni veitingastaður Bautinn. Hann er enn starfandi í húsinu og er sívinsæll, enda afbragðs staður. Munu þeir margir sem hafa Bautann fyrir fastan viðkomustað þegar þeir heimsækja Akureyri. Veitingaskáli úr gleri á framhlið hússins gefur staðnum einkar skemmtilegt yfirbragð, þar er þægilegt að sitja yfir kaffi eða steik og njóta góðs útsýnis yfir mannlífið fyrir utan. Aftur á móti gæti ég ímyndað mér að mörgum hörðum húsfriðunarmanninum sé þessi glerskáli framan á 110 ára timburhúsinu þyrnir í augum.  Þessi mynd, sem skartar stórglæsilegum svörtum Benz í forgrunni, er tekin 6.mars 2010. 


Síðbúin páskakveðja

Enn eru 5½ klst. eftir af páskahátíðinni þannig að ég vil nota tækifærið, fyrst ég á nnnað borð er að skrifa hérna, og óska þér og þínum gleðilegra páska Smile.


Í sjónvarpinu í gærkvöldi...

...var alveg frábær heimildarmynd eftir Gísla Sigurgeirsson um Sverri Hermannsson húsasmið. Hann bjó og starfaði nær allan sinn aldur á Akureyri, nánar tiltekið í Innbænum. Hann hafði veg og vanda af endurgerð fjölda gamalla timburhúsa og kirkna á Eyjafjarðarsvæðinu og var mikilvirkur safnari og var þekktur fyrir að henda aldrei neinu. Eftir hann liggur Smámunasafnið en það var opnað 2003 í Sólgarði í Eyjafirði ( 30km framan Akureyrar ). Það er alveg ótrúlega skemmtilegur og spennandi staður, einstakur í heiminum og sannkölluð paradís grúskara. Myndin hans Gísla var einnig sérlega vönduð og þar mátti sjá margar áhugaverðar myndir frá Akureyri á fyrri tíð. Þarna mátti sjá t.d. frá því þegar Aðalstræti 16 og Lækjargata 6 brunnu (1990 og 1998) og frá niðurrifi eins stærsta timburhúss Akureyrar, Strandgötu 29 eða Snorrahús (1987)sem og niðurrifi Sambandsverksmiðjanna. (2007). Hér er umfjöllun um þessa eðalmynd.


Ef það væri alltaf júní...

Ég efast ekki um hversu magnað það er að kíkja á gosið í Fimmvörðuhálsi. Ef ég væri ekki staðsettur akkúrat hinu megin á landinu væri ég eflaust búinn að drífa mig á staðinn með myndavélina að vopni. En ég læt vefmyndavélar og fréttamyndir sjónvarps og vefmiðla duga mér. En það er náttúrulega ekkert miðað við að sjá þetta "live". En það sem maður heyrt í fréttum um búnað fólks sem hyggst sjá gosið í návígi. Sumir virðast ætla að skokka uppá 1100 metra hátt fjall*, 12 tíma gönguleið, á nokkurn veginn versta tíma árs m.t.t. veðurfars, alltaðþví  í stuttbuxum og strigaskóm. Það leiðir hugan að fréttum sem maður heyrir oft af fólki sem heldur á fjallvegi um hávetur, búið eins og hásumar sé. Og lendir í tómum vandræðum fyrir vikið.  Vetrarveðráttan getur verið ansi dyntótt og sérstaklega á fjallaslóðum. Hjá sumum er kannski alltaf sumar og sól, en það dugar skammt að láta slíkt hugarfar ráða búnaði á ferðalögum.  Í þessu sambandi dettur mér í hug lag nokkuð sem var mikið spilað í útvarpi fyrir ca. 20 árum síðan, man ekkert hvað það hét né frekari deili á því en það byrjaði einmitt á setningunni  " Ef það væri alltaf júní ".  **

*Fimmvörðuháls er skv. þeim landabréfum sem ég hef skoðað sagður 1132 m y.s. Dettur alltént í hug að sú tala kunni að breytast í kjölfar eldsumbrotana.

**Ef einhver kann nánari deili á dægurlagi þessu eru þær upplýsingar vel þegnar. Viðlagið var eitthvað á þessa leið : "Það var líf og fjör og sumarsól / er ég sá þig dansa á rauðum kjól [...].


mbl.is Streyma að gosstöðvunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Gamli Skóli

p3060050.jpgEitt stærsta og veglegasta timburhús á Akureyri stendur við Eyrarlandsveg 28 og er einskonar einkennisbygging Menntaskólans á Akureyri. En Gamli Skóli ( margir kalla húsið einfaldlega bara Menntaskólann ) var reistur árið 1904  og yfirsmiður var Sigtryggur Jónsson timburmeistari.  Gamli skóli er nokkuð dæmigert fyrir norsk Sveitser hús og fullvíst er talið að hann hafi komið tilhöggvin frá Noregi, enda reis hann á aðeins fjórum mánuðum. Í bókinni Af Norskum Rótum er sagan rakin á þessa leið: Teikningar Sigtryggs eru dagsettar 26.apríl 1904 og samþykkti Stjórnarráðið verksamning við hann þremur dögum seinna. Þá mun hann hafa haldið til Noregs og valið við í húsið. 1.október um haustið er skólinn svo settur í húsinu. Hugsanlega hefur húsið verið reist með fullmiklu hraði. Allavega mun húsið hafa verið óþétt og varla haldið vatni eða vindum og Stefán Stefánsson, sem tók við sem skólameistari 1908, var ekki alls kostar sáttur með ástand hússins. Mikið tjón varð t.d. á húsinu í slagviðri í árslok 1914 og á árunum 1920-25 voru gerðar á því miklar endurbætur, húsið járnklætt og sett í það raflýsing og miðstöðvarhitun. Á fyrstu áratugum voru í húsinu bæði kennslustofur, heimavist og íbúð skólameistara og hans fólks en á lóðinni stóð einnig gripahús, reist 1905. Það hús stendur ekki bara enn, heldur er enn í dag í fullri notkun sem íþróttahús skólans og gengur undir nafninu Fjósið. Saga Gamla skóla er orðin bæði löng og merk og það yrði allt, allt og langt mál að rekja hana í smáatriðum. Miðað við hvað þetta er glæsilegt hús, kann etv. að þykja ótrúlegt að eitt sinn stóð til að rífa Gamla Skóla. Var það á árunum 1966-67 sem miklar hugmyndir voru á teikniborðinu um nýbyggingar, m.a. tveggja hæða bóknámshús og nýtt íþróttahús sem átti að standa á ca. sama stað og Gamli Skóli og raungreinahús. Það síðarnefnda reis 1969 og er kallað Möðruvellir. Einhversstaðar sá ég því fleygt fram að kreppan uppúr 1970 (gjarnan kennd við olíu) hafi raunar bjargað gömlu húsunum, orðið til þess að ekkert varð meira úr fyrirhugaðri uppbyggingu. Nú dytti væntanlega engum í hug að rífa Gamla Skóla. Enda hefur mikil uppbygging átt sér stað umliðnum áratugum án þess að hreyft hafi verið við húsinu. Hólar nefnist nýjasta bygging skólans, einnar hæðar bygging sem tengir saman Gamla Skóla og Möðruvelli.  Hólar voru reistir 1996 og þar er nú aðalinngangur skólans, afgreiðsla og Kvosin, samkomustaður nemenda. Langur gangur liggur frá Kvosinni og tengist við Gamla Skóla þar sem áður var lítil forstofubygging. Er það mjög sérstakt að ganga eftir þeim gangi, nýmóðins og steinsteyptum og koma svo inná brakandi timburgólf Gamla Skóla. Þess má geta að síðuhaldari er fyrrum MA-ingur og hefur setið ófáa tíma í þessu merka húsi. Myndin er tekin 6.mars 2010. 


Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason. (2003). Af norskum rótum. Reykjavík: Mál og menning.

Jón Hjaltason (ritstj.). 2008. Saga Menntaskólans á Akureyri 4.bindi.  Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólan á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 304
  • Frá upphafi: 450491

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 191
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband