Þumalputtaregla þjóðmálaumræðunnar

Sá sem fylgist með pólítíkinni og þjóðmálunum á ekki gott með ákveða hverju skal trúa. Menn hafa óskaplega misjafnar skoðanir á sömu hlutunum og allir vilja að sjálfsögðu meina að þeir hafi rétt fyrir sér. Sumir sjá ekkert nema böl og svartnætti en aðrir trúa að allt fari á besta veg. Hér set ég fram í eina þumalputtareglu í þessu samhengi. Ef þú tekur mestu bjartsýnina og mestu svartsýnina og leggur saman og deilir með tveimur  þá færðu sennilega það sem er næst sannleikanum. Hið sanna er þannig einfaldlega meðaltal eða millivegur þess besta og þess versta.

City that never sleeps...

Um einhverja borg var einhvern tíma haft á orði að hún væri "the city that never sleeps". Komst að því í morgun að þessi ummæli eiga ekki við um Akureyri. Á rölti mínu af Brekkunni niður Þórunnarstræti milli 5 og hálf 6 í morgun mætti ég ekki einum bíl og einum einasta manni yfirleitt. Allt var gjörsamlega kyrrt, eina sem heyrðist var árniður Glerár. Ég gat gengið eftir miðju Þórunnarstræti og staðið á miðjum gatnamótum þess og Glerárgötu við Glerártorg þar sem vanalega er taumlaus umferð. Stemningin, þessi þögn og þessi kyrrð var ekki ósvipuð því sem gerist upp á öræfum. Þetta var algjörlega magnað !

Til lesenda

Ef þið sjáið einhverjar vitleysur í færslunum hjá mér (  t.d. hús dagsins ) eða lumið á einhverjum sögum eða fróðleik til viðbótar, má endilega leiðrétta mig eða bæta við.


Hús dagsins: Norðurgata 11.

 Enn held ég mig í Norðurgötunni en. Húsið fremst á þessari mynd er Norðurgata 11. Byggingarár er nokkuð á reiki, FMR segir 1882, en byggingarleyfi er veitt 1883, (Guðný Gerður Gunnarsdóttir 1996; Oddeyri) en þá kemur fram að húsið er þegar risið. Í II bindi af Sögu Akureyrar (Jón HjaltasP6050018on,1994), segir frá búfjársýningu í húsinu vorið 1880, en þá var það óklárað. Þannig hlýtur húsið að vera byggt 1880.   En  þetta hús byggði einn helsti húsasmíðameistari  Akureyrar um aldamótin 1900, Snorri Jónsson. Seinna reisti hann stórhýsi, eitt af stærri húsum á landinu á þeim tíma (1897) við Strandgötu 29 og var það kennt við hann. Snorrahús var rifið um 1988. Húsið er töluvert breytt frá fyrstu gerð en 1923 var húsið allt endurbyggt, stækkað til norðurs og lyft um rúman metra upp á steinsteyptan kjallara. Geta má nærri að það hafi verið mikil framkvæmd með tækni þess tíma. Í húsinu eru fjórar íbúðir en húsið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu í hartnær heila öld.

Næstu hús ofan við 11 eru 13, 15 og einnig sést í nr. 17, Steinhúsið sem ég fjallaði um í gær. Nr. 13 er gult með rauðu þaki og reist 1886. Númer 15 er hvítt, tvílyft með lágu risi, svipað að gerð og nr. 11 en þó miklu yngra, byggt 1902.  Ef myndin er stækkuð sést að öll þessi þrjú hús eru klædd með sérstakri klæðningu sem minnir á grjóthleðslu. Þessi klæðning er á landsvísu nokkuð sjaldgæf en algeng á Akureyri. Er þetta kallað rósajárn eða jafnvel Akureyrarjárn þar sem þetta sést varla annars staðar. Bæði þessi nöfn eru þó rangnefni þar sem þetta er ekki járn heldur  blikk með zinkblöndu. Hefur þessi klæðning þá kosti að tærast mun síður en járn. Ástæðan fyrir því að þetta er svo algengt hér er að þetta var flutt inn af smiði sem búsettur var hér, Gunnari Guðlaugssyni sem einnig var mikill frumkvöðull í skátastarfi. 


Hús dagsins: Norðurgata 17

Ég hef í nokkrar vikur birt myndir sem ég á af húsum á Akureyri og stutta umfjöllun um þau á Facebook. Hérna mun halda áfram með það. Eru þetta yfirleitt gömul hús á Oddeyri eða Innbænum en ég á orðið ágætis myndasafn af þeim. Heimildir um byggingarár og sögu húsanna eru fengnar úr öllum mögulegum bókum um byggingarsögu Akureyrar auk þess sem ég hef sótt a.m.k. eina sögugöngu Minjasafnsins um þessi eldri hverfi á hverju sumri síðan 1997. P6050029

Hús dagsins er Norðurgata 17, einnig kallað Steinhúsið eða Gamla Prentsmiðjan. Húsið er það eina á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti svipað og Alþingishúsið og Hegningarhúsið. Byggingarár mun vera 1880 og er þetta hús í 3.-4.sæti yfir elstu hús á Oddeyri. Í þessu húsi var lengst af starfandi prentsmiðja en ýmis önnur starfsemi hefur einnig verið stunduð í húsinu á 130 árum.

Ég minntist á að þetta væri 3.-4. elsta hús Oddeyrar. Sjálfsagt mál er að telja upp þau hús á Oddeyri sem teljast eldri en Steinhúsið. Norðurgata 11 er jafn gamalt (1880), Lundargata 2 (1879), Strandagata 27 (1876) og elst er Strandgata 49, Gránufélagshúsið, (1874).

 


Sumarsólstöður á Akureyri

Í gær, 21.6. voru sumarsólstöður og dagur lengstur. Ég kíkti út með myndavél og hér til hliðar má sjá afraksturinn. Ætlaði að reyna að skella myndunum með inn í færsluna en það var seinlegt svo vægt sé til orða tekið.

Formáli

Þá er ég af öllum mönnum farinn að blogga. Ég hef nú hingað til verið mjög virkur að skoða blogg og eyði alltaf drjúgum tíma dags í slíkt og hef þá mest gaman af dægurþrasi og alls konar yfirdrulli. Því verður ekki til að dreifa hér. Ástæða: Það er einfaldlega nóg af svoleiðis bloggum. Þetta verður meira til gagns og gamans. Luma á ýmsum fróðleik og ljósmyndum sem ætlunin er að deila hérna. Njótið vel.

« Fyrri síða

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 450769

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 313
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband