Óttalegar leiðindaplöntur

Á myndinni hér til hliðar, sem tekin er í brekku við norðurjaðar p6200024_979628.jpgGrenivíkur þ.20.júní sl. má greina  alaskalúpínu ( Lupinus nootkasensis ) og skógarkerfil ( Anthryscus sylvestris ). Hvort tveggja mjög glæsilegar plöntur, stórvaxnar og áberandi en tvennum sögum fer af vinsældum þeirra. Lúpínan mun fyrst hafa verið flutt inn um 1950 til uppgræðslu. Lúpínan bindur köfnunarefni og getur því vaxið á melum og skapar auk þess möguleika fyrir aðrar plöntur að skjóta rótum. En hún er þó þeim ósköpum gædd að ef hún fer á gróið land ryðst hún yfir það og eyðir þeim gróðri sem fyrir er. Og ekki er auðvelt að vinna bug á henni, ef hún er á annað borð komin af stað. Þetta hefur helst gerst þar sem lúpínu hefur verið sáð í lítil rofasár inni í miðju gróðurlendi. Greinilegt dæmi um þetta er á hjallanum neðan Súlumýra við Fálkafelli þ.s. á sumrin sjást greinilegar bláir blettir af kílómetra færi. En önnur planta  er einnig frek og ágeng. Og það er skógarkerfillinn. Hann hefur sennilega verið ræktaður sem garðagróður upprunalega en "óvart" breiðst út. Víða um sveitir Eyjafjarðar má sjá mikla kerfilskóga og er hann víðs vegar orðin plága. Og eins og glögglega sést á þessari mynd þá ryðst skógarkerfillinn yfir lúpínuna. Er þarna e.t.v. komin lausnin þar sem lúpínuútbreiðsla er orðin vandamál ? Þ.e. láta bara kerfilinn valta yfir hana Smile


Hús dagsins: Aðalstræti 16

P3110019Aðalstræti 16 er eitt af tilkomumestu timburhúsum Akureyrar, reist árið 1900 af Sigtryggi Jónssyni, sem var eitt "stærsta nafnið" í húsasmíðum á Akureyri á þeim tíma. Húsið er undir greinilegum áhrifum frá norsku Sveitser húsunum en það sem helst gefur því svip er þessi inndregni pallur eftir allri framhlið hússins. Þannig var nú að byggingarnefnd var ekki á eitt sátt um þetta hús. Ekki átti að fást leyfi fyrir húsinu nema pallurinn yrði notaður sem gangstétt. Hins vegar klofnaði nefndin og sagði af sér og í nýrri nefnd átti Sigtryggur sæti. Þannig fékk hann loks sínu fram.  Húsið hefur lengst af verið íbúðarhús en um tíma voru skrifstofur á efri hæð. Sjálfsagt hefur einnig verið verkstæði eða önnur starfsemi í kjallara, eins og algengt var með hús frá þessum tíma.Aðalstræti 16 var komin í mikla niðurníðslu um 1990 en var á næstu árum gert upp af mikilli natni og er nú hin mesta bæjarprýði. Þessi mynd er tekin 11.mars 2007.

 


Evrópa

Hafi ég talið rétt er ég nr. 70 sem skrifa við þessa frétt. Það er greinilegt að skoðanir eru MJÖG skiptar um þetta stóra mál. Ef maður skoðar bara fyrirsagnirnar á má sjá orð á borð við sorgardag, landráð, þjóðníðinga en einnig hamingjuóskir og að nú verði allt betra. Sjálfur held ég nú að hvorki þeir svartsýnustu eða bjartsýnustu hafi rétt fyrir sér um þetta mál, frekar en önnur stór deilumál. Hugsa að sannleikurinn liggi þar einhvers staðar mitt á milli.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Nokkur eldri steinsteypuhús

Eins og síðast eru hús dagsins fleiri en eitt, en í dag eru það þrjú af elstu steinsteypuhúsum Akureyrar. Steypan sem byggingarefni fór að ryðja sér til rúms upp úr 1910, á Akureyri og raunar á landinu öllu. Á sama tíma var einnig farið að klæða timburhús með bárujárni eða öðru járni og mun ástæðan hafa verið m.a. eldvarnir. Tvær byggingargerðir voru lang algengastar í timburhúsum og á fyrstu árum og áratugum steinsteypunnar voru þessi byggingarlög "yfirfærð" á steinhúsin. P4190054

Brekkugata 12sem er hér til hliðar var reist 1917. Húsið er einlyft með háu risi og stórum miðjukvisti og stendur á háum kjallara sem sést reyndar ekki á framhliðinni þ.s. húsið stendur í brekku. Húsið ber greinilega svipmót timburhúsa á borð við t.d. Túlíníusarhús (færsla 3.7.) og fleiri húsa og er þetta mjög algeng gerð steinhúsa frá þessu tímabili. í þessu húsi var lengi vel Slökkvistöð Akureyrar og er húsið stundum kallað Gamla Slökkvistöðin.

P4190053Oddeyrargata 6, hér til hliðar, er byggð 1916. Greinilega má sjá svip með því húsi og annarri algengri gerð timburhúsa, þ.e. tvær hæðir og lágt ris. Húsið líkist þannig húsunum við Hafnarstræti 29-41 (sjá þarsíðustu færslu, 9.7.) og var mér einhvern tíma í sögugöngu um þetta hverfi sagt að þau hús væru n.v. fyrirmyndin að þessu húsi og einnig næsta húsi nr. 8 (byggt 1919 ). Sennilega sést það ekki á þessari mynd en undir þakskegginu á þessu húsi má sjá útskornar sperrutær, sem var eitt af einkennum norsku Sveitser húsanna ( sjá nánar færslu 3.7. ). Oddeyrargata 6 hefur sennilega  verið parhús frá upphafi en það skiptist í a og b hluta.

P4190045Grundargata 7, hér til hliðar, er reist 1920. Þarna má sjá einstakan stíl, ekki aðeins fyrir steinhús heldur er húsið afar sérstakt að lögun. Er það byggt sem tvær álmur, önnur mun breiðari en hin sem snýr að Gránufélagsgötu ( þaðan sem myndin er tekin ) er lengri en breiddin og stendur út af. Þannig myndar grunnflötur hússins einskonar "L". Á suðurgafli er eldvarnarveggur, sem getur bent til þess að byggja hafi átt við það samskonar hús. Steinhús héldu almennt "timburhúsalaginu" fram yfir 1920 en upp úr 1930 fóru að koma fram sérstakar byggingarstefnur í steinhúsum á borð við t.d. fúnkís. Grundargata 7 er stundum kallað Ólafsfjarðarmúli vegna sérstakrar lögunar. Myndirnar í þessari færslu eru allar teknar 19. apríl 2008.

 


Iss-menn

Flestir ættu að kannast við ákveðna manngerð. Sumir eru þannig, að ef þeim er sagt frá einhverju atviki, einhverju afreki eða ævintýri hvers konar, þá gera þeir sér alltaf far um að koma með einhverja sögu sem toppar það á einhvern hátt. Annað hvort eitthvað sem þeir eiga hafa lent í eða gert sjálfir eða einhverjir kunningjar þeirra. Eru þetta þó undantekningalítið verulega ýkt eða hreinn uppspuni. Ég hefði kallað svona menn Iss-menn. Ástæða; jú áður en þeir byrja svona sögur er algengt að það komi  "ISSSS, þetta er nú ekkert....."

Hús dagsins: Hafnarstræti 29-41

P7040032 Að þessu sinni er hús dagsins ekki eitt heldur sjö. Nefnilega húsaröðin frá 29 til 41 við Hafnarstræti. Húsin bera öll sama svipmót, tvílyft á lágum kjallara með lágu risi og er þetta dæmi um vel varðveitta, heilsteypta húsaröð. Hafnarstræti 29  er reyndar mun stærra og meira um sig; á þremur hæðum en hefur samt sama lag og næstu hús, eins konar "large" útgáfa af húsunum neðan við. Húsin voru byggð á árunum 1903-1907, Hafnarstræti 33 og 41 árið 1903, nr.39 1904, nr.37 1905 og nr. 35 1906. 29 var síðan reist ári seinna. Þessi hús eru öll talin verk smiðanna Sigtryggs Jóhannessonar og Jónasar Gunnarssonar en þeir voru einir helstu húsasmiðir Akureyrar í upphafi 20. aldar. Hús nr. 41 er næst á myndinni. Þar bjó og hafði vinnuaðstöðu Hallgrímur Einarsson ljósmyndari. Ef skoðuð er gömul mynd frá Akureyri frá árunum 1900-20 eru góðar líkur á að sú mynd sé eftir Hallgrím, en hann var í fyrsta lagi einn af örfáum starfandi ljósmyndurum í bænum og tók mikið af myndum af húsum og götum.

Eitt er það hús að í þessari röð sem ég hef ekki minnst á. Hafnarstræti 31 (blátt hús, næstlengst t.v.) er nefnilega frábrugðið hinum húsunum að því leyti að það er steinsteypt og reist 1999. Það fellur hins vegar val að götumyndinni og fæstum sem ekki vissu gæti dottið í hug að þarna væri um nýbyggingu að ræða. Þegar nýbyggingar eru reistar í gömlum, rótgrónum götum er yfirleitt gerð sú krafa að þær séu í sama stíl og þær byggingar sem fyrir eru. Hafnarstræti 31 er sennilega skýrasta dæmið um þegar slíkt heppnast frábærlega.


Rannsókn á The Simpsons...

Hvernig ætli rannsókn á Simpson fjölskyldunni fari fram ? Ætli það sé fenginn einhver aðili til að horfa á alla þættina, sem eru á fimmta hundrað, og setja niðurstöður fram í skýrslu. Ég væri nú aldeilis til í það. The Simpsons hafa verið í uppáhaldi hjá mér frá því byrjað var að sýna þá hér, hvort það var haustið  '90 eða vorið '91 og endalaust hægt að hafa gaman af uppátækjum Homers og fjölskyldu. Ótal litríkar persónur má líka nefna, t.a.m. hefur barþjónnin ófrýnilegi Moe alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, Lenny og Carl ( vinnufélagar Homers ), fyllibyttan Barney, trúðurinn Krusty, fautinn Nelson Muntz o.fl. ofl.  Það er einnig algengt að raunverulegt fólk komi fram í þáttunum og talsetji fyrir sjálft sig. Seinna hafa komið fram margar þáttaraðir sem eru undir greinilegum áhrifum frá Simpson fjölskyldunni. Það gæti vel hugsast að ég muni einhvern tíma skrifa fleiri pistla um Simpson fjölskylduna.


mbl.is Simpson-fjölskyldan til rannsóknar í Ekvador
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar götur á Akureyri

Sá sem hefur stundar það að ganga um götur Akureyrar tekur fljótlega eftir ýmsu athyglisverðu varðandi númer í sumum götum. Tökum sem dæmi tvær langar, samsíða götur á Brekkunni. Byggðavegur og Þórunnarstræti liggja frá Gleráreyrum, Þórunnarstræti nær suður að Naustahverfi en Byggðavegur að Dvalarheimilinu Hlíð. Húsnúmerin neðst í götunum eru á öðru hundraði, Byggðavegur nær í 100 sextíuogeitthvað og Þórunnarstræti 136, enda göturnar langar. En reyndu að ganga þessar götur á enda og finna Byggðaveg 1 eða Þórunnarstræti 2. Það gæti reynst erfitt. Tilfellið er nefnilega, að þessar götur byrja báðar á áttatíuogeitthvað. Ekki kann ég að nefna ástæðu þess, en líklegt þykir mér að göturnar hafi verið skipulagðar þannig upprunalega að þær næðu lengra og húsalóðir við þær alla leið. Í sumum götum vantar alveg sum númer, t.a.m. er röðin Hafnarstræti 49-71 eftirfarandi: 49,53, 57, 63, 71. Þarna á milli eru reyndar mikil stórhýsi, Gamli Barnaskólinn, Samkomuhúsið og Sjónarhæð.

Nú þekki ég ekki til annars staðar en vel gæti ég trúað að  mörg samskonar dæmi megi finna í öðrum bæjarfélögum en Akureyri. En ein er sú gata á Oddeyrinni sem hefur sennilega eitt furðulegasta númerakerfi sem finnst á byggðu bóli.

Nefnilega Gránufélagsgata. Hún liggur samsíða Strandgötu í A-V og nær  frá ÁTVR í miðbænum og niður að sjó. Frá Glerárgötu er röðin að austan eðlileg frá 12-22, en hús nr. 12 er upprunalega nr. 28. Að vestan er röðin hefðbundin 19, 21, 23 og 27. En við hliðina á 27 stendur 39,41a og 41. Þessi hús eru ein heild, stórt þrílyft steinhús, kallað Sambyggingin. Neðan 41 stendur svo 43, eins og vera ber. En svo heldur gatan áfram frá 29, neðan við 43. Hús nr. 16 stendur beint á móti 43 og beint á móti 33 er 22. H.u.b. hvert einasta sumar frá 1997 hef ég farið í sögugöngur Minjasafnsins um Oddeyrina og aldrei hefur neinn, hvorki leiðsögumaður eða þátttakandi ( sem oft eru margir býsna fróðir um Eyrina ) haft svo mikið sem minnstu hugmynd um ástæðuna fyrir þessu. Það er svo sannarlega margt skrýtið í kýrhausnum.

p5060005.jpgGránufélagsgatan á vordegi 2006. Hér sjást hús nr. 39-41 og svo 27 þar við hliðina. Hlíðarfjall í fjarska í baksýn.


Hús dagsins: Hafnarstræti 18. Eilítið um norsku húsin (sveitser).

P3110009Síðustu hús dagsins hafa verið staðsett á Oddeyri en nú færi ég mig yfir í Innbæinn, nánar tiltekið í Hafnarstræti 18. Húsið er reist 1902 af norska stórkaupmanninum Otto Thulinius og er húsið jafnan kallað Túlíníusarhús. Húsið er dæmigert fyrir hús sem voru vinsæl meðal efnafólks hér á landi upp úr 1900 og voru kölluð katalóghús eða norsk hús. En þessi hús var hægt að panta úr sölubæklingum ( katalógum ) og fá þau send tilhöggvin frá Noregi. Einkenni þessara húsa voru einna helst mikil útskorin skraut á þakskeggjum og kvistum, stórir gluggar auk þess sem flest voru þessi hús stærri og meiri en önnur. Þessi stíll kallaðist líka "sveitser". Húsin voru forsmíðuð í Noregi, síðan tekin í sundur og hver einasti biti og bjálki merktur þannig að hægt væri að setja þau saman eftir leiðbeiningum. Einnig voru mörg dæmi þess að hús væru smíðuð hér að öllu leyti og katalóghús notuð til fyrirmyndar. Ekki er vitað með vissu hvort Túlíníusarhús er smíðað hér frá grunni eða flutt tilhöggvið frá Noregi. Líkt og gengur og gerist með eldri hús hefur þarna verið ýmis starfsemi. Thulinius verslaði þarna og bjó á efri hæðum, breska setuliðið tók húsið til afnota 1940 en um 1975 var húsið löngu komið í eyði og rætt um niðurrif þess. En það var gert upp og það með glæsibrag.

Hús dagsins: Lundargata 2

p2100007.jpgLundargata 2 er eftir því sem ég kemst næst, þriðja elsta hús á Oddeyri. Það er reist árið 1879 og aðeins Strandgata 27 ( 1876) og Strandgata 49 (1874) eru eldri. ( Rétt er þó að taka fram að byggingarár elstu húsa á Oddeyri eru nokkuð á reiki enda algengt að byggingarleyfi væru veitt eftir að hús voru byggð! ) Húsið reisti Jósep Jóhannesson en hann seldi það fljótlega norskum athafnamanni, Oules Hausken og var þetta hús lengi kallað Háskenshús. Þetta mun vera fyrsta skólahús á Oddeyri en þarna var haldin barnakennsla árin um og upp úr 1900. Fyrstu 23 árin stóð þetta hús um 30 metrum sunnar og sneri A-V. Húsið var nefnilega reist á lóðinni Strandgötu 23 en var flutt 1902 á núverandi stað. Geta má nærri hvílík framkvæmd það hefur verið að flytja hús fyrir 107 árum síðan þegar aðeins var notast og handafl og hestafl ( í orðsins fyllstu merkingu ). Helsta einkenni þessa hús er mikill turn á framhlið og hefur þetta hús líklega verið mjög áberandi þegar það stóð við Strandgötu, enda þá aðeins örfá hús við götuna og flest lágreistari en þetta.  Þessi mynd er tekin í febrúar 2007.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 450769

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 313
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband